Magnús á Skriðufelli

Fyrri maður Guðrúnar Þorláksdóttur á Skriðufelli var Sigurður Magnússon bróðir Kristínar Gottsveinskonu. Magnús og Jón, bóndi á Skriðufelli, heita synir þeirra. Magnús fer á grasafjall árlega fyrir ýmsa menn, en er þó alltaf hræddur við útilegumenn því einu sinni fylgdi hann Bjarna bónda á Laugardælum norður á (eða yfir) Sprengisand og fór aleinn suður. Hann tjaldaði í Þúfuveri og ætlaði að vera þar nóttina og fór að borða. Þegar hann lét upp í sig fyrsta bitann heyrði hann undirgang. Hann tók bitann út úr sér aftur og leit út og sá sex menn ríða skammt frá tjaldinu til austurs. Einn þeirra sagði: „Þarna liggur lest.“ Bægðu þeir þá frá. Magnús beið þar til þeir voru horfnir; þá tók hann sig upp sem skjótast og létti ekki fyrr en hann kom fram að Skriðufelli. Þótti hann hafa verið undarlega fljótur. Þá sagði hann frá þessu og hefir ávallt borið saman við sjálfan sig þegar hann hefir sagt frá því síðan. Hann varð eftir sig eftir þessa ferð.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1956), Jón Árnason, IV. bindi, bl. 262.

© Tim Stridmann