Oddur Hólaráðsmaður

Frá því er sagt að svo bar til á Hólum í Hjaltadal að þar skorti skreið til búsins einn vetur; þá var þar ráðsmaður sá maður er Oddur hét, hinn gildlegasti og hraustasti maður. Kallar biskup hann fyrir sig og átelur hann harðlega fyrir forsjárleysi hans að draga ekki nóga skreið að staðnum; var þá og ekki skreið að fá nokkurs staðar á Norðurlandi. Lætur þá biskup járna hesta allmarga og búast til ferða suður á land til skreiðarkaupa, og skyldi Oddur ráðsmaður vera foringi ferðarinnar. Honum mislíkaði mjög átölur biskups þó hann ekki hefði orð um og þótti jafnt hafa verið lagt til búsins af skreið og vant var svo ekki væri sér um að kenna þó skreiðarlaust yrði, heldur matseljum; vill hann fyrir hvern mun fara einn suður og segir ekkert gagn í fjölmenni; telur biskup það hið mesta óráð, en lætur hann þó ráða. Oddur átti hund stóran og mikinn og svo spakan að hann hafði mannsvit. Lét hann hundinn fara með sér og segir ekki af ferðum hans suður. Gengu honum vel skreiðarkaupin og leggur hann norður aftur á fjöll að ákveðnum tíma.

En er hann var skammt kominn á fjöllin gengur að með hríð og dimmviðri; líður ekki á löngu að Oddur villist og veit ekki hvar hann fer; heldur hann svo áfram nokkra hríð til þess hann finnur að hann er kominn í dal einn djúpan; fer hann eftir dalnum um hríð og verður fyrir honum á ein allmikil; var þá hríðinni að mestu upplétt, en dimmt orðið af nótt. Fer hann yfir um ána; og er hann hefur skammt farið frá henni verður fyrir honum kotbær lítill; hann drepur að dyrum og kemur út maður mikill vexti og hinn illmannlegasti. Oddur heilsar heimamanni og spyr hvert hann réði þar húsum. Heimamaður játti því; biður Oddur um næturgisting og að hann megi beita þar hestum sínum. Segir bóndi það heimilt. Það sér Oddur að seppa er ekki um bónda; setur hann eyrun og lítur grimmlega til hans. Oddur gefur sig ekki að því, heldur sprettir af hestunum og heftir þá skammt frá bænum; kallar hann síðan á seppa sinn og vill hafa hann heim með sér. En seppi vill hvergi fara; liggur hann fram á lappir sínar hjá hestunum og er urrandi. Oddur gengur heim og stendur bóndi í dyrum; býður hann Oddi inn með sér og þekkist hann það. Leiðir bóndi Odd til baðstofu og er þar níðamyrkur. Var Oddi vísað til sætis á rúmi undir baðstofuhliðinni, en bóndi sezt á rúm þar skammt frá. Enginn beini var Oddi greiddur og ekki dregin af honum vosklæði enda varð hann ekki var fleiri manna en bónda. Bóndi var skrafhreifur og spurði margs úr byggðum og svo um ferðir Odds og hverra erinda hann færi. Leysti Oddur vel úr öllu. En er þeir höfðu skrafað um hríð heyrir Oddur að dregur af máli bónda eins og hann syfjaði, og loksins heyrir Oddur að hann sofnar og hrýtur hátt.

Í þessari svipan kemur glampi í baðstofuna svo Oddur sér gjörla um hana alla. Sér hann þá að upp yfir rúmi því er hann sat á hangdi hella ein ákaflega mikil; á því sem niður vissi hellunnar var röð ein hvöss, en úr henni að ofanverðu lá strengur og yfir að rúmi því er bóndi sat á. Sá Oddur að bóndi hafði strenginn í valdi sínu; það sá hann og að ef hellan dytti niður mundi hún drepa hvern þann sem á rúminu sæti. Fer honum nú ekki að lítast á gistinguna og ætlar að bezt muni að hafa sig burt meðan bóndi sefur. Læðist hann nú út og er þá komið bjart veður; vitjar hann um farangur sinn og sér hann þá vegsummerki að seppi hefur rekið hestana alla heim að og bitið af þeim höftin. Hefur þá Oddur hraðar hendur, leggur á hestana og lætur upp föggur sínar; en er því var lokið hleypur hundurinn í hestana og rekur þá sömu leið og þeir komu. En er komið var yfir um ána verður Oddi litið aftur og sér hvar bóndi kemur og hefur skálm bjarta og mikla í hendi, og er hann kemur að ánni sendir hann skálmina yfir um hana og stefnir hún á Odd miðjan. Oddur veik sér undan og kom skálmin í skreiðarklyf eina; þá mælti bóndi: „Mikill gæfumaður ertu er þú hefur nú undan komizt; skaltu vita að þú ert af mínum völdum hingað kominn og ætlaði ég að drepa þig, en ég skil að þú hefur ekki verið einn í leiknum og mundirðu aldrei hafa undan komizt með þitt eindæmi. Taktu nú skálmina þá hina miklu og hafðu með þér heim til Hóla til minningar um fund okkar. Mæli ég svo um að aldrei verði fisklaust á Hólum meðan skálmin er þar.“

Eftir það snéri bóndi heim og varð ekki af kveðjum. En Oddur tók upp skálmina og hafði með sér. Hélt hann áfram leiðar sinnar og réði hundurinn mest um ferðina. Segir ekki af ferðinni fyrri en Oddur kom heim til Hóla. Tók biskup honum vel og spyr eftir ferðum hans, en Oddur lét fátt yfir. Biskup segir sig gruna þó, að hann muni hafa komizt í lífsháska, „og þarftu ekki að dyljast þess fyrir mér því trauðla mundir þú hafa komizt úr þeim vanda ef ég hefði hvergi verið nærri.“ Segir þá Oddur frá hið sanna og sýnir skálmina til jarðteina; er svo mælt að sú skálm sé enn til á Hólum enda er þess ekki getið að þar hafi orðið fisklaust síðan.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, II. bindi, bl. 179–181.

© Tim Stridmann