Einar hét maður og bjó á Lambastöðum; átti hann konu þá er Guðleif hét. Þau höfðu átt saman átján börn er öll dóu í æsku nema sonur þeirra einn. Þau voru ákaflega rík og var Guðleif tápkona hin mesta og skörungur að flestu, þar með ákaflega heilsuhraust; sem dæmi þar til: Strax er hún hafði börnin alið át hún þorskhelfing, stóreflis köku og fjögra marka ask af nýmjólk. Einar maður hennar og þeirra einbirnissonur sátu einu sinni á miði einu fyrir framan vörina, á Lambastaðabót. Þá var hún stödd upp í garði og mær ein lítil með henni. Hlóðu þeir sig í sjó og fórust báðir. En er mærin sá þetta fór hún að gráta, en Guðleifu varð það að orði, er síðan er að orðtæki haft: „Ég væri brotin væri ég gler og bráðnuð væri ég smér; og farðu inn að sjóða Lauga.“ Mið þetta er síðan kallað Einarsmið.
Guðleif bjó búi sínu eftir þetta á Lambastöðum og hallaðist ekki á henni hatturinn þangað til hún dó, hér um bil 1780. Fór þá Snorri Jónsson þangað og tók við búinu öllu í arf eftir kerlingu því hún var náskyld honum.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1956), Jón Árnason, IV. bindi, bl. 204–205.