Eins og von er til hafa munnmælin ekki síður gert mannsmorðin að yrkisefni en ránin, en þó einkum þegar þau hafa verið framin með svo mikilli frekju og ósvífni að það hefur eins mikið hrifið á ímyndunaraflið eins og morðin sjálf.
Í fyrndinni bjó einu sinni ríkur bóndi í Síðumúla [í Hvítársíðu]. Hann átti dóttir eina væna. Til hennar biðluðu ýmsir og þar á meðal bóndinn á Sleggjulæk og bóndasonurinn á Fróðastöðum. Fór svo að bóndasonur varð hlutskarpari og fekk hann konunnar. Var þá ákveðinn brúðkaupsdagur og fjölmenni boðið til veizlunnar. Sleggjulækjarbóndanum sveið þetta mjög og fekk hann mann til að vega brúðgumann. Sá er nefndur Jón er til þess varð. Jón var maður hraustur og djarfur vel.
Hann fór til boðsins og lét ekki á bera ætlan sinni. Leið svo að kvöldi og stóðu menn upp frá borðum. Skuggsýnt var við stofudyrnar og stóð Jón þar og beið þess að brúðguminn kæmi út. Leið það og ekki á löngu áður hann kæmi. Lagði þá Jón sveðju mikilli í gegnum hann og féll hann og flaut í blóði sínu. Jón tók þegar á rás og var honum veitt eftirför. Hann hljóp niður völlinn og ofan að Hvítá. Kom hann þar að sem hún fellur milli hamra tveggja. Þar stökk hann yfir, en engi þorði að hlaupa á eftir. Milli hamra þessara eru sextán álnir danskar og verður þar straumur mikill í þrengslinu og kalla menn það Kláffoss. Hamrar þessir ganga fram hver á móti öðrum eins og veggir og eru þeir svo sem rúmur faðmur á þykkt. Nyrðri hamarinn er töluvert hærri en hinn syðri og hefur það létt hlaupið.
Nú er að segja frá boðsmönnum að þeir treystust ei til að leita Jóns því myrkt var orðið. Komst hann svo undan og segir sagan að hann hafi komizt á skip og farið utan. Eftir víg þetta var hann Jón murti kallaður.1
Það er af brúðgumanum að segja að hann dó og var grafinn að Síðumúlakirkju. Hafa menn enn til sýnis stein sem á að hafa verið lagður yfir leiði hans. Steinn þessi liggur fram undan kirkjudyrum í Síðumúla. Hann er rúm hálf þriðja alin dönsk á lengd, ávalur fyrir báða enda og íflatur að ofan. Einhver högg eru á þeirri hliðinni sem upp snýr og á það að vera mannsmynd ofan að brjóstum og sárið með blóðlækjunum. Ekkert letur er eða sýnist að hafa verið á steini þessum.
Það segja menn og að þá er þetta varð hafi verið hver vestur frá Síðumúla á mel þeim er nú heitir Stuttimelur. Þar eru nú hvítleitar hellur og ei ósvipað hveragrjóti sem hverinn átti að vera. Segja menn að klæði hins vegna manns hafi verið þvegin í hver þenna. En sú er trú alþýðu að hverir hverfi þá og flytji sig burt er saklaus manns blóð kemur í þá. Svo varð og í þetta sinn. Hverinn hvarf og kom snöggvast upp þar sem nú er laugin í Síðumúla. Þaðan hvarf hann aftur og kom upp fyrir sunnan Hvítá hjá Hurðarbaki og er það hinn mesti hverinn.
1 Það er enginn hægðarleikur að segja hver þessi Jón murti hafi verið því svo eru þeir margir hér á landi og þegar í Sturlungu. Einnig getur manns eins sem kallaður er Jón murti Nikulásson bæði í „Íslenzkum annálum“ (Hafniæ, 1847) 290. bls. og í Árbókum Espólíns I, 87. bls., og vo hann mann 1357, en Espólín getur engra kringumstæða að því morði nema að Jón hafi aldrei orðið sektaður. Enn er einn maður nefndur Jón murti Eggertsson lögmanns og segja bæði Björn á Skarðsá í „Annálum“ sínum I, 246. bls. [Annálar 1400–1800, I, 152], og Espólín í Árbókum sínum, V, 11. bls., að hann hafi unnið víg í Síðumúla 1571 og drepið þar Jón Grímsson frá Kalmanstungu undir borði við drykkju. Sá Jón murti fór eftir það utan og kom ekki út aftur. Viðurnefnið „murti“ þýðir lítill, stuttur, en á trauðlega skylt við morð eða að myrða eða að murka (sbr. að murka úr einum lífið) sem munnmælin virðast leggja í það.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, II. bindi, bl. 113–114.