E. Reiðmennska og sjóferðir

Það eru þó ekki einungis slys og mannsmorð sem munnmælin gera sér að umtalsefni, heldur taka þau tíðum þá atburði sem í eðli sínu eru saklausir og meinlausir. Hér og hvar hefur minningin um leiki viðhaldizt sem haldnir hafa verið til forna á ýmsum stöðum. Eitt af þessum menjum er Meyjasæti á Hofmannafleti fyrir ofan Þingvelli; þar er sagt að konur hafi setið og horft á leikina sem haldnir voru á fletinum.1 Kvennabrekka heitir bær vestur í Dölum sem dregur nafn af hæð einni þar sem konur hafi átt að sitja á og sjá leiki þá sem þar voru haldnir. Allt eins fara sögur af miklum reiðmönnum og hestum þeirra og sjóferðamönnum, og skal hér getið fárra dæma til þessa.

Skúlaskeið2

Maður hét Skúli; hann var dæmdur líflaus á alþingi, en gat flúið þaðan. Elti hann þá mikill sægur af fjandmönnum hans; en hesturinn hans var svo góður að hann varð langt á undan þeim öllum. Hann reið upp Hofmannaflöt og Tröllaháls, til Hallbjarnarvarða og norður á Kaldadal. Þar nam hann litla stund staðar, hellti víni af ferðapelanum sínum í steinþró og kallaði þeim hæðnisorðum til þeirra sem eltu hann að hann vildi launa þeim með þessu svo fjölmenna fylgd. Síðan hleypti hann klárnum með flugaferð á einhvern hinn illgrýttasta óveg sem verið hefur á landinu og þorði enginn hinna að fara þar á eftir honum. Af því dregur þessi vegur nafn og heitir enn í dag Skúlaskeið. Þegar Skúli kom heim til sín féll hesturinn dauður niður af þreytu og mæði; gerði hann hestinum það þá til virðingar að hann hélt erfisdrykkju eftir hann og lét* taka gröf að klárnum og grafa hann.


1 Sbr. Ármanns sögu, 10. kap., Ísl. s. XII, 439, og athugasemdir Guðbrands Vigfússonar um hana í Nýjum félagsritum 1859, 135. bls.

2 Sbr. Dúfunefsskeið í Landnámu, Ísl. s. I, 146.

* lét — в книге ошибочно напечатано léta. — прим. Speculatorius.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, II. bindi, bls. 122–123.

© Tim Stridmann