Þröm

Kona var í fyrndinni sem Þröm hét. Hún bjó á Þröm, fremsta bæ í Blöndudal, og var bærinn nefndur eftir henni. Þá var það vani að binda strokkinn á herðar smalanum og bar hann strokkinn meðan hann smalaði og átti þá að vera strokkað er heim kom. Þröm þótti smali sinn vera seinn í ferðum og gekk hún eitt sinn að leita hans og fann hann liggjandi hjá tjörn einni fyrir vestan Þrístiklu sem er vatn á Auðkúluheiði. Kæfði hún þar smalann og heygði í hól einum skammt frá. Er þar síðan kölluð Smalatjörn og Smalahóll. Þröm er heygð í hól einum skammt frá bænum Þröm og er þar kallaður Þramarhaugur.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, II. bindi, bls. 95.

© Tim Stridmann