Völvuleiði á Hólmahálsi

Einu sinni var valva; hún var margkunnandi og fróð mjög. Ekki er getið um hvar hún hafi búið, en áður en hún dó bað hún að grafa sig þar í Reyðarfirði, sem bezt sæist til hafs og kvað Reyðarfjörður mundi ei af ræningjum unninn meðan sæist til leiðis síns. Var hún svo grafin á tanga þeim er verður út af Hólmatindi og Hólmanes er kallað og skiptir aðalfirðinum í Reyðar- og Eskjufirði; það er hálent og horfir sem bezt við hafi að orðið getur. Alfaravegur er yfir hálsinn og er leiðið rétt við hann; lítur það út sem græn hundaþúfa.

Einu sinni komu ræningjar hér við land og ætluðu þá inn á Reyðarfjörð; en er þeir kómu í fjarðarkjaftinn sýndist þeim allt til lands að sjá sem eldur brennandi og urðu frá að hverfa (það hefur máské verið 1627 er rænt var á Djúpavog og Vestmannaeyjum); og það eignuðu menn ummælum völvunnar.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1956), Jón Árnason, IV. bindi, bl. 124.

© Tim Stridmann