Arnórs þáttur jarlaskálds

Nú er getið eitthvert sinn er konungar báðir sátu í einni höll yfir matborðum að þar var þá kominn Arnór jarlaskáld og hefir ort sitt kvæði um hvorn þeirra. Og þá er skáldið bræddi skip sitt þá koma sendimenn konunga og biðja hann ganga að færa kvæðin. Hann fór þegar og þó ekki af sér tjöruna.

Og nú er hann kom að stofunni þá mælti hann við dyrvörðu: «Gefið rúm skáldi konunga,» gekk inn síðan og fyrir þá Magnús konung og Harald konung og mælti: «Heilir allvaldar báðir.»

Þá segir Haraldur konungur: «Hvorum skal fyrr færa kvæðið?»

Hann segir: «Fyrr hinum yngra.»

Konungur spyr: «Hví hann fyrr?»

«Herra,» segir hann, «það er mælt að bráðgeð verða ungmenni.»

En það þótti hvorumtveggja virðilegra er fyrr var kvæðið fært.

Nú hefur skáldið upp kvæðið og getur í fyrstu í kvæðinu jarla fyrir vestan haf og yrkir um ferðir sínar.

Og er þar er komið þá mælti Haraldur konungur til Magnúss konungs: «Hvað situr þú herra yfir kvæði þessu þó að hann hafi ort um ferðir sínar eða jarla í Eyjum vestur?»

Magnús konungur segir: «Bíðum enn frændi. Mig grunar áður en lokið sé að þér þyki lofið mitt ærið mikið.»

Þá kveður skáldið þetta:

Magnús hlýddu til máttigs óðar.
Mangi veit eg fremra annan.
Yppa ráðumk yðru kappi,
Jóta gramr, í kvæði fljótu.
Haukr réttr ertu, Hörða dróttinn.
Hverr gramr er þér stóru verri.
Meiri verði þinn en þeira
þrifnuðr allr uns himinn rifnar.

Þá mælti Haraldur konungur: «Lofa konung þenna sem þú vilt,» segir hann, «en lasta ei aðra konunga.»

Og nú kveður skáldið hið sama sitt. Kemur upp þetta erindi:

Ótti, kunnuð elgjum hætta
æðiveðrs á skelfdan græði,
fengins gulls, eða fæðið ella
flestan aldr und drifnu tjaldi.
Líkan ber þig hvössum hauki,
hollvinr minn, í lyfting innan,
aldrei skríðr und fylki fríðra
farlegt eiki, Vísundr snarla.

Eigi létuð, jöfra bági,
yðru nafni mannkyn hafna.
Hvorki flýrð þú, hlenna þreytir,
hyr né málm í broddi styrjar.
Hlunna er sem röðull renni
reiðar búningr upp í heiði,
hrósa eg því, er herskip glæsir
hlenna dólgr, eða vitar brenni.

Þá svaraði Haraldur konungur: «Allákaflega yrkir sjá maður og eigi veit eg hvar kemur.»

Mönnum líst, er mildingr rennir
Meita hlíðir sævar skíði,
unnir jafnt sem ofsamt renni
engla fylkl himna þengils.
Eyðendr, fregn eg, að elska þjóðir,
inndrótt þín er höfð að minnum,
græði lostins guði hið næsta
geima Vals í þessum heimi.

Og nú eftir þetta þá er kvæðinu er lokið hefur skáldið upp Haralds kvæði og heitir það Blágagladrápa, gott kvæði.

Og er drápunni var lokið þá var Haraldur konungur spurður hvort honum þætti betra kvæðið en hann segir: «Sjá kunnum vér hver munur kvæðanna er. Mitt kvæði mun brátt niður falla og engi kunna en drápa þessi er ort er um Magnús konung mun kveðin meðan Norðurlönd eru byggð.»

Haraldur konungur gaf skáldinu spjót gullrekið en Magnús konungur gaf honum þá fyrst gullhring.

Og nú gekk hann svo utar eftir höllinni að hann dró gullhringinn á falinn spjótsins og mælti: «Hátt skal bera hvoratveggju konungsgjöfina.»

Þá mælti Haraldur konungur: «Kom sjá til nakkvars, löngumorðinn,» segir hann.

Því hafði skáldið heitið Haraldi konungi að yrkja um hann erfidrápu ef hann lifði lengur. Magnús konungur gaf honum síðan knörr með farmi og gerðist mikill ástúðarvinur hans.

Текст с сайта Netútgáfan

© Tim Stridmann