Auðunar þáttur vestfirska

1. kafli

Maður hét Auðun, vestfirskur að kyni og félítill. Hann fór utan vestur þar í fjörðum með umráði Þorsteins búanda góðs og Þóris stýrimanns er þar hafði þegið vist of veturinn með Þorsteini. Auðun var og þar og starfaði fyrir honum Þóri og þá þessi laun af honum, utanferðina og hans umsjá. Hann Auðun lagði mestan hluta fjár þess er var fyrir móður sína áður hann stigi á skip og var kveðið á þriggja vetra björg.

Og nú fara þeir út héðan og ferst þeim vel og var Auðun of veturinn eftir með Þóri stýrimanni. Hann átti bú á Mæri. Og um sumarið eftir fara þeir út til Grænlands og eru þar of veturinn. Þess er við getið að Auðun kaupir þar bjarndýri eitt, gersemi mikla, og gaf þar fyrir alla eigu sína.

Og nú of sumarið eftir þá fara þeir aftur til Noregs og verða vel reiðfara. Hefir Auðun dýr sitt með sér og ætlar nú að fara suður til Danmerkur á fund Sveins konungs og gefa honum dýrið. Og er hann kom suður í landið þar sem konungur var fyrir þá gengur hann upp af skipi og leiðir eftir sér dýrið og leigir sér herbergi.

Haraldi konungi var sagt brátt að þar var komið bjarndýri, gersemi mikil, og á íslenskur maður. Konungur sendir þegar menn eftir honum.

Og er Auðun kom fyrir konung kveður hann konung vel.

Konungur tók vel kveðju hans og spurði síðan: «Áttu gersemi mikla í bjarndýri?»

Hann svarar og kveðst eiga dýrið eitthvert.

Konungur mælti: «Viltu selja oss dýrið við slíku verði sem þú keyptir?»

Hann svarar: «Eigi vil eg það herra.»

«Viltu þá,» segir konungur, «að eg gefi þér tvö verð slík og mun það réttara ef þú hefir þar við gefið alla þína eigu?»

«Eigi vil eg það herra,» segir hann.

Konungur mælti: «Viltu gefa mér þá?»

Hann svarar: «Eigi herra.»

Konungur mælti: «Hvað viltu þá af gera?»

Hann svarar: «Fara suður til Danmerkur og gefa Sveini konungi.»

Haraldur konungur segir: «Hvort er að þú ert maður svo óvitur að þú hefir eigi heyrt ófrið þann er í milli er landa þessa eða ætlar þú giftu þína svo mikla að þú munir þar komast með gersemar er aðrir fá eigi komist klakklaust þó að nauðsyn eigi til?»

Auðun svarar: «Herra það er á yðru valdi en öngu játum vér öðru en þessu er vér höfum áður ætlað.»

Þá mælti konungur: «Hví mun eigi það til að þú farir leið þína sem þú vilt og kom þá til mín er þú ferð aftur og seg mér hversu Sveinn konungur launar þér dýrið. Og kann það vera að þú sért gæfumaður.»

«Því heiti eg þér,» sagði Auðun.

Hann fer nú síðan suður með landi og í Vík austur og þá til Danmerkur og er þá uppi hver peningur fjárins og verður hann þá biðja matar bæði fyrir sig og fyrir dýrið.

Hann kemur á fund ármanns Sveins konungs þess er Áki hét og bað hann vista nakkvarra bæði fyrir sig og fyrir dýrið.

«Eg ætla,» segir hann, «að gefa Sveini konungi dýrið.»

Áki lést selja mundu honum vistir ef hann vildi.

Auðun kveðst ekki til hafa fyrir að gefa «en eg vildi þó,» segir hann, «að þetta kæmist til leiðar að eg mætti dýrið færa konungi.»

«Eg mun fá þér vistir sem þið þurfið til konungs fundar en þar í móti vil eg eiga hálft dýrið og máttu á það líta að dýrið mun deyja fyrir þér þars þið þurfið vistir miklar en fé sé farið og er búið við að þú hafir þá ekki dýrsins.»

Og er hann lítur á þetta sýnist honum nokkuð eftir sem ármaðurinn mælti fyrir honum og sættast þeir á þetta að hann selur Áka hálft dýrið og skal konungur síðan meta allt saman. Skulu þeir fara báðir nú á fund konungs. Og svo gera þeir, fara nú báðir á fund konungs og stóðu fyrir borðinu.

Konungur íhugaði hver þessi maður mundi vera er hann kenndi eigi og mælti síðan til Auðunar: «Hver ertu?» segir hann.

Hann svarar: «Eg em íslenskur maður herra,» segir hann, «og kominn nú utan af Grænlandi og nú af Noregi og ætlaði eg að færa yður bjarndýr þetta. Keypti eg það með allri eigu minni og nú er þó á orðið mikið fyrir mér, eg á nú hálft eitt dýrið» og segir síðan konungi hversu farið hafði með þeim Áka ármanni hans.

Konungur mælti: «Er það satt Áki er hann segir?»

«Satt er það,» segir hann.

Konungur mælti: «Og þótti þér það til liggja þar sem eg setti þig mikinn mann að hefta það eða tálma er maður gerðist til að færa mér gersemi og gaf fyrir alla eign og sá það Haraldur konungur að ráði að láta hann fara í friði og er hann vor óvinur? Hygg þú að þá hve sannlegt það var þinnar handar og það væri maklegt að þú værir drepinn. En eg mun nú eigi það gera en braut skaltu fara þegar úr landinu og koma aldregi aftur síðan mér í augsýn. En þér Auðun kann eg slíka þökk sem þú gefir mér allt dýrið og ver hér með mér.»

Það þekkist hann og er með Sveini konungi um hríð.

2. kafli

Og er liðu nakkverjar stundir þá mælti Auðun við konung: «Braut fýsir mig nú herra.»

Konungur svarar heldur seint: «Hvað viltu þá,» segir hann, «ef þú vilt eigi með oss vera?»

Hann svarar: «Suður vil eg ganga.»

«Ef þú vildir eigi svo gott ráð taka,» segir konungur, «þá mundi mér fyrir þykja í er þú fýsist í brott.»

Og nú gaf konungur honum silfur mjög mikið og fór hann suður síðan með Rúmferlum og skipaði konungur til um ferð hans, bað hann koma til sín er hann kæmi aftur.

Nú fór hann ferðar sinnar uns hann kemur suður í Rómaborg. Og er hann hefir þar dvalist sem hann tíðir þá fer hann aftur, tekur þá sótt mikla. Gerir hann þá ákaflega magran. Gengur þá upp allt féið það er konungur hafði gefið honum til ferðarinnar, tekur síðan upp stafkarls stíg og biður sér matar. Hann er þá kollóttur og heldur ósællegur. Hann kemur aftur í Danmörk að páskum þangað sem konungur er þá staddur en ei þorði hann að láta sjá sig og var í kirkjuskoti og ætlaði þá til fundar við konung er hann gengi til kirkju um kveldið. Og nú er hann sá konunginn og hirðina fagurlega búna þá þorði hann eigi að láta sjá sig. Og er konungur gekk til drykkju í höllina þá mataðist Auðun úti sem siður er til Rúmferla meðan þeir hafa eigi kastað staf og skreppu.

Og nú of aftaninn er konungur gekk til kveldsöngs ætlaði Auðun að hitta hann. Og svo mikið sem honum þótti fyrr fyrir jók nú miklu á er þeir voru drukknir hirðmennirnir. Og er þeir gengu inn aftur þá þekkti konungur mann og þóttist finna að eigi hafði frama til að ganga fram að hitta hann.

Og er hirðin gekk inn þá veik konungur út og mælti: «Gangi sá nú fram er mig vill finna. Mig grunar að sá muni vera maðurinn.»

Þá gekk Auðun fram og féll til fóta konungi og varla kenndi konungur hann.

Og þegar er konungur veit hver hann er tók konungur í hönd honum Auðuni og bað hann velkominn «og hefir þú mikið skipast,» segir hann, «síðan við sáumst,» leiðir hann eftir sér inn.

Og er hirðin sá hann hlógu þeir að honum en konungur sagði: «Eigi þurfið þér að honum að hlæja því að betur hefir hann séð fyrir sinni sál heldur en þér.»

Þá lét konungur gera honum laug og gaf honum síðan klæði og er hann nú með honum.

3. kafli

Það er nú sagt einhverju sinni of vorið að konungur býður Auðuni að vera með sér álengdar og kveðst mundu gera hann skutilsvein sinn og leggja til hans góða virðing.

Auðun segir: «Guð þakki yður herra sóma þann allan er þér viljið til mín leggja en hitt er mér í skapi að fara út til Íslands.»

Konungur segir: «Þetta sýnist mér undarlega kosið.»

Auðun mælti: «Eigi má eg það vita herra,» segir hann, «að eg hafi hér mikinn sóma með yður en móðir mín troði stafkarls stíg út á Íslandi því að nú er lokið björg þeirri er eg lagði til áður eg færi af Íslandi.»

Konungur svarar: «Vel er mælt,» segir hann, «og mannlega og muntu verða giftumaður. Sjá einn var svo hluturinn að mér mundi eigi mislíka að þú færir í braut héðan og ver nú með mér þar til er skip búast.»

Hann gerir svo.

Einn dag er á leið vorið gekk Sveinn konungur ofan á bryggjur og voru menn þá að að búa skip til ýmissa landa, í Austurveg eða Saxland, til Svíþjóðar eða Noregs. Þá koma þeir Auðun að einu skipi fögru og voru menn að að búa skipið.

Þá spurði konungur: «Hversu líst þér Auðun á þetta skip?»

Hann svarar: «Vel herra.»

Konungur mælti: «Þetta skip vil eg þér gefa og launa bjarndýrið.»

Hann þakkaði gjöfina eftir sinni kunnustu.

Og er leið stund og skipið var albúið þá mælti Sveinn konungur við Auðun: «Þó viltu nú á braut þá mun eg nú ekki letja þig en það hefi eg spurt að illt er til hafna fyrir landi yðru og eru víða öræfi og hætt skipum. Nú brýtur þú og týnir skipinu og fénu. Lítt sér það þá á að þú hafir fundið Svein konung og gefið honum gersemi.» Síðan seldi konungur honum leðurhosu fulla af silfri «og ertu þá enn eigi félaus með öllu þótt þú brjótir skipið ef þú færð haldið þessu. Verða má svo enn» segir konungur, «að þú týnir þessu fé. Lítt nýtur þú þá þess, er þú fannst Svein konung og gafst honum gersemi.» Síðan dró konungur hring af hendi sér og gaf Auðuni og mælti: «Þó að svo illa verði að þú brjótir skipið og týnir fénu, eigi ertu félaus ef þú kemst á land því að margir menn hafa gull á sér í skipsbrotum og sér þá að þú hefir fundið Svein konung ef þú heldur hringinum. En það vil eg ráða þér,» segir hann, «að þú gefir eigi hringinn nema þú þykist eiga svo mikið gott að launa nakkverjum göfgum manni, þá gef þeim hringinn því að tignum mönnum sómir að þiggja. Og far nú heill.»

4. kafli

Síðan lætur hann í haf og kemur í Noreg og lætur flytja upp varnað sinn og þurfti nú meira við það en fyrr er hann var í Noregi. Hann fer nú síðan á fund Haralds konungs og vill efna það er hann hét honum áður hann fór til Danmerkur og kveður konung vel.

Haraldur konungur tók vel kveðju hans «og sest niður,» segir hann, «og drekk hér með oss.»

Og svo gerir hann.

Þá spurði Haraldur konungur: «Hverju launaði Sveinn konungur þér dýrið?»

Auðun svarar: «Því herra að hann þá að mér.»

Konungur sagði: «Launað mundi eg þér því hafa. Hverju launaði hann enn?»

Auðun svarar: «Gaf hann mér silfur til suðurgöngu.»

Þá segir Haraldur konungur: «Mörgum manni gefur Sveinn konungur silfur til suðurgöngu eða annarra hluta þótt ekki færi honum gersemar. Hvað er enn fleira?»

«Hann bauð mér,» segir Auðun, «að gerast skutilsveinn hans og mikinn sóma til mín að leggja.»

«Vel var það mælt,» segir konungur, «og launa mundi hann enn fleira.»

Auðun segir: «Gaf hann mér knörr með farmi þeim er hingað er best varið í Noreg.»

«Það var stórmannlegt,» segir konungur, «en launað mundi eg þér því hafa. Launaði hann því fleira?»

Auðun segir: «Gaf hann mér leðurhosu fulla af silfri og kvað mig þá eigi félausan ef eg héldi því þó að skip mitt bryti við Ísland.»

Konungur segir: «Það var ágætlega gert og það mundi eg ekki gert hafa. Laus mundi eg þykjast ef eg gæfi þér skipið. Hvort launaði hann fleira?»

«Svo var víst herra,» segir Auðun, «að hann launaði. Hann gaf mér hring þenna er eg hefi á hendi og kvað svo mega að berast að eg týndi fénu öllu og sagði mig þá eigi félausan ef eg ætti hringinn og bað mig eigi lóga nema eg ætti nakkverjum tignum manni svo gott að launa að eg vildi gefa. En nú hefi eg þann fundið því að þú áttir kost að taka hvorttveggja frá mér, dýrið og svo líf mitt, en þú lést mig fara þangað í friði sem aðrir náðu eigi.»

Konungur tók við gjöfinni með blíði og gaf Auðuni í móti góðar gjafar áður en þeir skildust.

Auðun varði fénu til Íslandsferðar og fór út þegar um sumarið til Íslands og þótti vera hinn mesti gæfumaður.

Frá þessum manni, Auðuni, var kominn Þorsteinn Gyðuson.

Текст с сайта Netútgáfan

© Tim Stridmann