Flóamanna saga

1. kafli

Haraldur konungur gullskeggur réð fyrir Sogni. Hann átti Sölvöru, dóttur Hundólfs jarls, systur Atla jarls mjóva. Þeirra dætur voru þær Þóra er átti Hálfdan konungur svarti Upplendingakonungur og Þuríður er átti Ketill helluflagi. Haraldur konungur ungi var son þeirra Hálfdanar og Þóru. Honum gaf Haraldur konungur gullskeggur nafn sitt. Haraldur konungur gullskeggur andaðist fyrst þeirra en þá Þóra, þá Haraldur ungi síðast og bar svo ríkið undir Hálfdan svarta en hann setti þar yfir Atla jarl hinn mjóva. Síðan fékk Hálfdan konungur Ragnhildar, dóttur Sigurðar konungs hjartar. Áslaug var móðir Sigurðar hjartar, dóttir Sigurðar orms í auga, Ragnarssonar loðbrókar. Móðir Sigurðar orms í auga var Áslaug, dóttir Sigurðar Fáfnisbana, Sigmundarsonar, Völsungssonar, Rerissonar, Sigarssonar, Óðinssonar er réð fyrir Ásgarði. Móðir Áslaugar var Brynhildur Buðladóttir. Son Hálfdanar svarta og Ragnhildar var Haraldur er fyrst var kallaður Dofrafóstri, þá Haraldur lúfa en síðast Haraldur hinn hárfagri.

Þá er Haraldur hinn hárfagri gekk til ríkis í Noregi mægðist hann við Hákon jarl Grjótgarðsson og fékk hann þá Sygnafylki Hákoni mági sínum en Haraldur konungur fór í Vík austur. En Atli jarl vildi eigi laust láta ríkið fyrr en hann fyndi Harald konung. Jarlarnir þreyttu þetta með kappi svo að hvortveggi dró lið saman. Þeir fundust á Fjölum í Stafanesvogi og fékk Hákon jarl sigur en Atli jarl varð sár og var fluttur í Atlaey og dó þar úr sárum.

Atli jarl átti eftir þrjá sonu. Hét einn Hallsteinn, hann var elstur og vitrastur þeirra bræðra, þá Hersteinn og Hólmsteinn. Hallsteinn átti Þóru Ölvisdóttur. Þeir bræður lágu í hernaði.

2. kafli

Björnólfur hét maður en annar Hróaldur. Þeir voru ágætir menn. Þeir voru synir Hrómundar Gripssonar. Þeir fóru af Þelamörk fyrir víga sakir og staðfestust í Dalsfirði á Fjölum. Son Björnólfs hét Örn er réð fyrir Firðafylki. Hans son var Ingólfur en dóttir Helga. Bæði voru þau fríð að sjá. En son Hróalds var Hrómundur, faðir Leifs. Þeir Ingólfur og Leifur voru frændur og fóstbræður. Móðir Leifs var Hróðný, dóttir Ketils bifru Hörða-Kárasonar. Þá var Ingólfur tuttugu vetra er þetta var en Leifur átján vetra.

Ingólfur gekk fyrir föður sinn og segir honum að hann vill halda í hernað og bað hann afla nokkurs. Leifur gekk og fyrir sinn föður, biðjandi hann slíks hins sama og voru þeim gefin mörg langskip. Biðja nú síðan samlags við sonu Atla jarls. Þeir voru fúsir þessa við Ingólf. Það voru lög í þann tíma að eigi skyldi yngri maður vera í herförum en tuttugu vetra en ellegar vildu þeir gjarna Leif í lög taka.

Leifur svarar: «Ef vér komum í nokkura raun sjáum þá ef eg stend að baki öðrum. Gefist eg eigi verr en aðrir þá á eg ekki að gjalda æsku minnar.»

Ingólfur sagði þá báða fara skyldu ella hvorugan. Verður það af kjörum að þeir fara allir saman og leggjast í hernað og er svo sagt að Leifur var hvatur og röskur í öllum mannraunum. Ingólfur var vitur maður og ágætur í öllum atlögum og allri karlmennsku. Þeim varð gott til fjár um sumarið og komu heim um haustið. Hrómundur var þá andaður, faðir Leifs.

Nú mæla þeir mót með sér annað sumar og héldu þá enn í hernað allir saman og fengu þá miklu meira herfang en hið fyrra sumarið. Og sem þeir komu heim um haustið var Örn faðir Ingólfs andaður.

Hallsteinn býður þeim fóstbræðrum Ingólfi og Leifi heim til veislu og það þágu þeir. Og að skilnaði gaf hann þeim góðar gjafir.

Síðan buðu þeir fóstbræður þeim jarlssonum til veislu. Þeir bjóða og að sér miklu fjölmenni og vilja eiga undir sjálfum sér meira en öðrum ef nokkuð kann í að skerast. Nú koma þeir bræður til veislunnar og er mönnum skipað í sæti. Helga bar öl að veislunni. Hún var allra kvenna vænst og kurteisust.

Svo er sagt að Hersteinn lítur oft til hennar blíðlega og að þessari veislu strengdi hann þess heit að annaðhvort skyldi hann Helgu eiga eða enga konu ella. Kvaðst hann nú fyrstur hafið hafa þenna leik «og áttu nú Ingólfur,» segir hann.

Ingólfur svarar: «Hallsteinn skal nú fyrst um mæla því að hann er vor vitrastur og vor formaður að öllu.»

Hallsteinn mælti: «Þess strengi eg heit þó að mér sé vandi á við menn að eg skal eigi halla réttum dómi ef mér er trúað til dyggðar um.»

Hersteinn mælti: «Eigi er þessi heitstrenging þín þeim mun skýrlegri sem þú ert reiknaður vitrari en vér eða hversu muntu gera ef þú átt við vini þína um eða óvini?»

Hallsteinn svarar: «Þar ætla eg mér sjálfum fyrir að sjá.»

«Þess strengi eg heit,» segir Ingólfur, «að skipta við engan mann erfð nema Leif.»

«Eigi skiljum vér þetta,» segir Hersteinn.

Hallsteinn kvaðst gerla kunna þetta að sjá, «Leifi vill hann gifta Helgu systur sína.»

Leifur strengdi þess heit að vera eigi verrfeðrungur.

Hallsteinn svarar: «Eigi mun mikið fyrir því, því að faðir þinn fór fyrir illvirkja sakir af Þelamörk og hingað.»

Nú þrýtur veisluna og er ekki til samfara mælt af Hersteins hendi. Fóru jarlssynir heim frá veislunni og sátu í búum sínum um veturinn og svo þeir fóstbræður og er nú allt kyrrt.

3. kafli

Um vorið vill Leifur í hernað en Ingólfur latti þess og sagði þeim vera mál að setjast um kyrrt að búum sínum «og muntu muna heitstrengingar þær er fram fóru.»

Leifur svarar: «Þú ræður fóstbróðir þínum ferðum en fara mun eg. Held eg skjótt undan ef ófriðlegt er.»

Ingólfur kvað hann slíku mundu ráða. Skilja þeir nú við þetta. Fer Leifur í hernað og fundust þeir jarlssynir, Hersteinn og Hólmsteinn, við Hísargafl. Þeir leggja að Leifi þegar og slær þar þegar í bardaga. Hafði Leifur þrjú skip en þeir bræður sex skip. Vinna þeir nú skjótt skip af Leifi.

Af stundu sjá þeir að sigla að þeim fimm skip. Stendur maður á mesta skipinu við siglu, mikill og fríður, í grænum kyrtli og hafði gylltan hjálm á höfði, og mælti: «Við mikinn liðsmun áttu nú að etja frændi,» sagði hann «og mun það drengilegra að veita þér lið Leifur frændi.»

Þar var kominn Ölmóður hinn gamli Hörða-Kárason. Hann berst þá með Leifi og voru þau orustulok að Hersteinn fellur en Hólmsteinn verður sár og flýr.

Ölmóður mælti þá: «Far þú heim með mér eftir stórvirki þessi.»

Leifur mælti: «Skammt er heim í Fjörðu og hefir þú mikið lið og gott mér veitt frændi. Vildi eg gjarna að þú færir heim með mér.»

Eftir þetta skildu þeir og heldur Leifur til móts við Ingólf og sagði honum allt hversu farið hafði. Ingólfur segir mikið vera að orðið og biður þá báða saman vera og svo gerðu þeir og héldu fjölmennt um veturinn. Þann sama vetur fór Hólmsteinn að þeim Ingólfi og Leifi og vildi drepa þá. En þeir fengu njósn af ferð hans og fóru í móti honum. Varð þá enn orusta mikil og féll þar Hólmsteinn. Eftir það dreif lið að þeim fóstbræðrum, vinir þeirra og frændur úr Firðafylki. Voru þá sendir menn til Hallsteins og bjóða sættir með því móti að þeir vilja leggja undir dóm Hallsteins. Sagðist Ingólfur honum vel trúa til réttdæmis og bað hann muna heitstrenging sína.

Hallsteinn kvað nú mikið að orðið «og er nú mikill vandi í að dæma þetta mál,» og hefur svo sína ræðu: «Hersteinn bróðir minn líst mér sem unnið hafi til óhelgi sér og vil eg eigi fé fyrir hann dæma né mannsektir en Hólmsteinn fór til hefnda eftir bróður sinn og því dæmi eg fyrir dráp hans fallnar eignir ykkrar og báða ykkur burtu héðan úr Firðafylki áður þrír vetur eru liðnir ella fallið þið óhelgir.»

«Slíks var að von,» sagði Ingólfur.

Síðan bjuggust þeir bræður út til Íslands sem segir í Landnámabók. Við Ingólf er kenndur Ingólfshöfði sunnanlands. Og lýkur þar nú þeirra viðskiptum.

4. kafli

Eftir fall Atla jarls mjóva safnaði liði Sigurður jarl, son Hákonar gamla, með ráði Haralds konungs hins hárfagra og vildi drepa Hallstein. Við þetta stökk Hallsteinn undan og út til Íslands fyrir þessum ófriði sem þá gerðu margir gildir menn, að þeir flýðu óðul sín fyrir ofríki Haralds konungs og unnu áður stórvirki nokkur. Hallsteinn skaut setstokkum fyrir borð í hafi til heilla sér eftir fornum sið. Þeim sveif á land þar sem síðan heitir Stokkseyri en skipið kom í Hallsteinssund fyrir austan Stokkseyri og braut þar. Setstokkarnir komu fyrir dyr á Stálfjöru fram frá Stokkseyri. Víða höfðu menn þá land numið.

Hallsteinn nam land milli Rauðár og Ölfusár upp allt til Fúlalækjar, Breiðamýri alla upp að Holtum og bjó að Stjörnusteinum. Hallsteinn átti Þóru Ölvisdóttur. Atli og Ölvir voru synir þeirra. Hallsteinssund er fyrir austan Stokkseyri þar sem braut skip Hallsteins. Öllum mönnum þótti mikils vert um Hallstein. Sagðist hann skyldu hér ílendast. Var mönnum mikil aufúsa á því þeim er í nánd honum voru og þótti mikill höfuðburður að honum sakir ættar hans. Varð Hallsteinn mikilmenni og andaðist hann í elli sinni.

Og eftir andlát hans skiptu þeir bræður með sér erfðum. Bjó Ölvir að Stjörnusteinum. Það heita nú Ölvistóftir. Hafði Atli í móti allt landnám milli Rauðár og Ölfusár, Traðarholt og Baugsstaði.

Ölvir andaðist ungur. Tók Atli þá allan arf eftir hann og gerðist mikilhæfur maður. Þræll hans hét Brattur. Hann var honum hollur í sýslu sinni. Honum gaf Atli frelsi. Hann bjó í Brattsholti. Slíkt sama gerði hann við annan er Leiðólfur hét. Hann bjó á Leiðólfsstöðum. Þeir voru mikilhæfir menn og vel vingaðir og hollir mjög Atla.

5. kafli

Hallsteinn hét maður. Hann fór úr Sogni til Íslands. Hann var mágur Hallsteins Atlasonar. Honum gaf hann hinn ytra hlut Eyrarbakka. Hann bjó á Framnesi. Hans son var Þorsteinn er veginn var að fauskagreftri. Hans son var Þorbjörn er bjó á Framnesi.

Í þenna tíma kom út Loftur son Orms Fróðasonar.

Nú er að segja frá Atla að hann var ríkur maður og hlutdeilinn og líkur í mörgu lagi frændum sínum.

Loftur fór af Gaulum til Íslands ungur að aldri og nam land á milli Þjórsár og Rauðár upp til Skúfslækjar, Breiðamýri upp til Súluholts, og bjó í Gaulverjabæ og Oddný móðir hans, dóttir Þorbjarnar hins gaulverska. Loftur fór utan hið þriðja hvert sumar fyrir hönd þeirra Flosa beggja móðurbróður síns að blóta að hofi því er Þorbjörn móðurfaðir hans hafði varðveitt að Gaulum. Frá Lofti er mart stórmenni komið. Þá kom út Þorviður bróðir hans af Vörs. Loftur gaf honum land á Breiðamýri og bjó hann í Ossabæ. Hans börn voru þau Hrafn og Hallveig. Þessir menn voru nú allir samtíða.

6. kafli

Flosi Þorbjarnarson móðurbróðir Eyrar-Lofts drap þrjá sýslumenn fyrir Haraldi konungi hárfagra og fór eftir það til Íslands. Hann nam land fyrir austan Þjórsá, Rangárvöllu alla hina eystri austur frá Rangá. Hans dóttir var Ásný móðir Þuríðar er átti Valla-Brandur. Son þeirra var Kolbeinn, faðir Þórunnar, móður Lofts prests, föður Jóns, föður Sæmundar, föður Margrétar, móður Brands, föður Kálfs.

Össur hét maður hinn hvíti, son Þorleifs úr Sogni. Össur vó víg í véum á Upplöndum þá er hann var í brúðferð með Sigurði hrísa. Fyrir það varð hann landflótti til Íslands og nam fyrst öll Holtalönd á milli Þjórsár og Hraunslækjar. Þá var hann fimmtán vetra er hann vó vígið. Hann fékk Hallveigar dóttur Þorviðar. Þeirra son var Þorgrímur kampi. Hann var faðir Össurar, föður Þorbjarnar, föður Þórarins, föður Gríms Jórusonar. Össur bjó í Kampholti. Hann andaðist þá er Þorgrímur var ungur. Þá tók við fjárvarðveislu Hrafn móðurbróðir hans.

Böðvar hét maður. Hann var leysingi Össurar. Hann bjó á Böðvarsstöðum við Víðiskóg. Honum gaf Össur hlut nokkurn í skóginum, mælti svo fyrir að hann skildi sér skóginn ef misdauði þeirra yrði og ætti Böðvar engan erfingja eftir.

Örn hét maður. Hann bjó í Vælugerði. Hann átti Þorgerði Baugsdóttur, systur Steins snjalla í Snjallshöfða.

Erni varð vant um haustið sex tiga geldinga og hefir eigi góðan róm á Böðvari og ber á brýn honum að hann muni tekið hafa. Böðvar duldi þess og unni honum engra bóta fyrir, þóttist sitja í trausti ríkra manna er Hrafn var Þorviðarson, frændi Eyrar-Lofts. Um vorið stefnir Örn Böðvari um stuld. Þykist Böðvar sér nú eigi einhlítur um vörn málsins og sækir að Atla Hallsteinsson því að hann var honum nær en Hrafn og tjáir honum málið. Atli segir að eigi sé örvænt að menn finni gagnsakir í máli Arnar. Eftir það tók Atli við öllu fé Böðvars með handsölum. Stendur nú svo til þings. Á þingi er mál búið til sóknar á hendur Böðvari og kom málið í dóm.

Þá gekk að dómum Atli með fjölmenni og bað Örn fella niður málið «ellegar mun eg ónýta það fyrir þér.»

Örn kvaðst ætla að eigi mundi ónýtt verða nema með ofríki. «Má vera,» segir Örn, «að torsótt verði að eiga við jarlborna menn sem þú ert Atli. Hygg eg að meir eyðir þú málið fyrir fégirni þína en réttindi sem frændur þínir hafa gert.»

Við þessi orð varð Atli reiður mjög og eyðir málið fyrir Erni og hrekur hann sem mest af málinu.

7. kafli

Litlu síðar andast Böðvar. Eftir andlát hans kallaði Hrafn til Víðiskógsins fyrir hönd Þorgríms kampa og bannar Atla afneyslu skógarins og sagði honum máldaga þeirra Össurar og Böðvars og leiddi vitni um. Atli kvaðst ætla að láta eigi sitt fyrir Hrafni, kvað hann lítt minnast á það er faðir hans gaf honum sitt land. Hrafn kvað það fyrir löngu aftur bætt og kvaðst vilja hafa sitt. Atli varnaði honum skógarins og skildu að því.

Einhvern dag býr Atli ferð sína til Víðiskógar. Leiðólfur leysingi hans var í ferð með honum og húskarlar tveir. Þeir hjuggu skóginn.

Það er sagt að sauðamaður Hrafns hafði gengið að fé um daginn. Hann getur að líta hvar þeir eru í skóginum. Hann hleypur heim sem skjótast og segir Hrafni að Atli mun nú hafa nytjar af skóginum «slíkar sem honum sýnist. Höggva þeir þar sem bestur er skógurinn og er það að vonum að ekki hafir þú þrek við jarlbornum mönnum.»

Hrafn varð mjög reiður við þessa sögu og býr ferð sína þegar og fer við hinn átta mann þar til er þeir komu í dal þann er síðan er kallaður Orustudalur og þar finnast þeir Atli.

Þá mælti Atli: «Við liðsmun viltu nú etja Hrafn.»

«Það skal fyrirfurða um burðamuni,» segir Hrafn.

Þegar slær í bardaga með þeim og sækjast þeir Atli og Hrafn og verða þeirra viðskipti harðfeng. Leiðólfur verst og vel og vill nú launa frelsisgjöfina og um síðir vill hann flýja og féll hann þá og hafði þó mann fyrir sig. Atli drap einn húskarl Hrafns og sótti Hrafn hann þó. Tveir féllu menn Hrafns en Atli var þá særður til ólífis.

8. kafli

Önundur bíldur hét maður og var landnámsmaður. Hann nam land fyrir austan Hróarslæk og bjó í Önundarholti. Hann átti Þorgerði dóttur Sigmundar Sighvatssonar rauða. Sigmundur var faðir Marðar gígju.

Önundur kom nú að skilja þá Atla og Hrafn og fylgdi Atla heim og bað hann til sín fara «og skal eg veita þér öll hægindi.»

Atli kvað það vel boðið en heim kvaðst hann vilja í Traðarholt og lét eigi örvænt að það fylgdi nafni að hann dæi af sárum sem Atli jarl föðurfaðir hans.

Þórður hét son Atla. Hann var níu vetra er þetta var tíðinda.

Atli heimti hann til sín og kvaðst ætla að hann mundi af sárum deyja. «Áttu,» segir hann, «allt fé eftir mig. Og ef þú ert þínum frændum líkur þá muntu hefna föður þíns og svo segir mér hugur um að þú munir verða mikill fyrir þér og þínir ættmenn.»

Eftir það andaðist Atli heima í Traðarholti og var hann heygður sem þá var siðvenja til. Þórður tók við fé öllu og ráðum eftir föður sinn. Hann var fríður sýnum og bráðþroskaður og mikill fyrir sér.

Ölvir hét son Atla annar og kallaður Ölvir mjóvi. Þeir bræður voru óskaplíkir. Þórður varðveitti bú í Traðarholti en Ölvir réðst í kaupferðir þegar á unga aldri og var áburðarmaður mikill. Síðan réðst hann í hernað og var hinn mesti víkingur. Að lyktum settist hann að búum í Sogni og kom aldrei til Íslands. Þá réð fyrir Noregi Eiríkur blóðöx.

9. kafli

Þá var Þórður fimmtán vetra gamall er hann hugsar um föðurhefndir. Hrafn var garpur mikill en Þórður þóttist ungur.

Svo er sagt eitthvert sinn að Þórður frétti að Hrafn var riðinn út í Einarshöfn til skips og var einn í reið og ætlaði heim um kveldið. Hrafn var í blárri kápu og gyrður sverði og hafði spjót mikið í hendi og gullrekinn á falurinn. Þeir feðgar höfðu átt spjót það. Hann hafði eigi við bardaga búist. Þórður situr fyrir Hrafni hjá Haugavaði ofan frá Traðarholti einn samt. Hann hafði spjót í hendi og vill nú annaðhvort hefna föður síns eða fá bana. Og um kveldið er Hrafn ríður heim hljóp Þórður að honum óvörum og lagði á honum spjótinu. Hrafn féll af baki og skildi Þórður við hann dauðan og er þar haugur hans fyrir austan götuna en fyrir vestan er Atlahaugur og Ölvishaugur og Hallsteinshaugur.

Þórður fer nú heim og þykir hann vaxið hafa af þessu verki. Síðan er leitað um sættir við Þórð af mágum Hrafns og frændum. Þórður kvaðst það mundu sýna að hann var engi ójafnaðarmaður en kvað sig nauðsyn til reka að hefna föður síns, kvað það skyldu sína sætt að í faðma féllist allt það er í hafði gerst. Þessi sætt játtuðu frændur Hrafns því að þeim þótti þetta engi ójafnaður og sættust heilum sáttum.

Þórður gerðist ágætur maður. Hann fékk Þórunnar, dóttur Ásgeirs austmannaskelfis. Var hann af því svo kallaður að hann drap skipshöfn í Grímsárósi fyrir það er hann var áður ræntur af þeim. Ásgeir var hið mesta mikilmenni. Þórunn var og skörungur mikill.

Þórður eignaðist skóg þann er þeir höfðu deilt um.

Þá er Þórður hafði tvo vetur og tuttugu þá keypti hann skip í Knarrarsundi og vildi utan fara og heimta erfðir sínar þær er frændur hans höfðu átt í Sogni og konungur hélt og kvað Þórunni fara skyldu en hún kvaðst vilja eftir vera og kvað það ráðlegra. Þórður reiddist við þessi orð og tók mikið fé er hann átti og fal í jörðu.

Þórunn mælti þá: «Það máttu gera að fela féið en svo segir mér hugur um að litlar nytjar munir þú hafa fjár þess er þú átt í Noregi og svo hér.»

Síðan tók hún við öllum eignum þeirra.

10. kafli

Þorgils hét son þeirra. Hann var tvævetur er Þórður fór utan. Það skip hvarf og spurðist ekki til síðan. Og vetri síðar kom út Þorgrímur örrabeinn í Knarrarsundi. Hann var Þormóðarson. Hans móðir var Þuríður Ketilbjarnardóttir að Mosfelli. Þorgrímur var hraustmenni mikið. Hann var í Traðarholti um veturinn með Þórunni og var henni hið mesta traust að honum og líkaði henni vel við hann og bað hann með sér dveljast og ráða sjálfan kaupi. Hann kvaðst það vilja og mælti til samfara við hana, kvaðst ellegar eigi þar vera mundu hjá henni nema hún giftist honum. Hún hugsar þetta með ráði vina sinna og frænda. Það var þrem vetrum síðar … því að hún vildi reynast hugum við hann og skap sitt. Þá er þrír vetur voru liðnir fékk hann Þórunnar og voru samfarar góðar þeirra í milli.

Þorgrímur þótti hinn mesti garpur og heldur ódæll. Hafði hann verið víkingur og víða af því öróttur og af því var hann kallaður örrabeinn en Þorgils stjúpson hans var kallaður örrabeinsstjúpur. Þorgrímur var góður forstjóri héraðsins. Hann var vel til Þórunnar og sonar hennar Þorgils. Þar stóð mikið fé saman er þau áttu öll.

Það er sagt eitt sumar er menn komu til mannamóts í fjörbaugsgarð til Lóns. Þá var Þorgils fimm vetra er hann fór þangað og vildi vera að sveinaleik, markar sér völl og kvaðst vilja að vera. Sveinar sögðust hafa sannmælst á að sá einn skyldi að leiknum vera er nokkuru kvikindi hefði að bana orðið. Réðst Þorgils þá frá leikinum og þótti þó illa er hann var fráskila ger. Um kveldið fara menn heim.

Þorgrímur var að öllu fé auðugur. Hann átti mart kvikfé bæði sauði og naut. Einn hestur hét Illingur er hann átti. Það var klár ókostigur. Og er menn voru sofnaðir um nóttina þá vakir Þorgils og íhugar sitt mál og vildi eigi oftar úr leikinum ger vera. Hann stóð upp og tekur sér beisl og gekk út síðan og sá hross hjá garði. Hann snýst þangað til og tekur hestinn Illing og leiðir til húss nokkurs. Síðan tekur hann spjót í hönd sér og gengur að hestinum og rekur spjótið í kviðinn og fellur hann dauður niður. Þorgils leggst niður síðan.

Um morguninn er mönnum var til verks skipað biður Þorgrímur heim reka Illing en hann fannst eigi. Var Þorgrími sagt þetta. Hann kvað hestinn þar verið hafa um kveldið og bað enn leita. Fara þeir og finna dauðan hestinn, segja Þorgrími. Hann kvaðst eigi sjá mann til þess að girnast að eiga illt við hann.

Þorgils svarar: «Eg veld því að hesturinn er dauður.»

Þorgrímur spurði hví hann gerði það. Þorgils sagði hver sök til var.

«Ekki munum við eiga skap saman,» sagði Þorgrímur, «far þú nú til Lofts vinar þíns því eigi verðum við samlyndir.»

11. kafli

Eftir það fór Þorgils í burt hinn sama dag og til Lofts. Tók hann við honum ágæta vel.

Svo er sagt að Þorgils var fríður maður sýnum og drengilegur í viðbragði og skýrlegur, hár á vöxt og réttvaxinn, sterkur að afli, harðger og skjótráður, gegn og öruggur, örðigur og manna best vígur og hinn hraustasti í öllum mannraunum þegar honum dróst aldur sem frá mun verða sagt. Hann var stórlyndur og þó stöðugur, hjartaprúður og hugstór, stóðst vel margar mannraunir er hann hlaut að bera.

Það er sagt þá er Þorgils var níu vetra gamall beiddist hann að róa á sjó með húskörlum Lofts og var það eftir honum látið sem mart annað. Þorgils kastaði færi sínu fyrir borð og dró einn mikinn flatan fisk en engi annar veiddi um daginn. Og er hreggið tók að vaxa reyndist það að Þorgils hafði numið að róa þótt hann væri ungur. Síðan lögðu þeir að landi. Loftur kvað í slíku marka mega hver hann mundi verða. Ganga nú heim og dró Þorgils eftir sér fiskinn. Er hann gekk eftir götunni þá losnaði moldin þar er hann dró fiskinn og kenndi er varð fyrir nokkuð hart. Lítur hann þá til og sér að þar liggur silfurbaugur. Nú fara þeir heim og selur Þorgils Lofti bauginn, fóstra sínum, til varðveislu.

12. kafli

Vetri síðar varð sá atburður að þrælar nokkurir brutu haug til fjár sér en Þorgils kom að þeim og kvað það ekki vera þeirra fé og tók af þeim þrjár merkur en hrakti þá sjálfa. Hann fékk Lofti fé þetta og svo allt annað það er hann aflaði. Varð hann nú frægur mjög þótt hann væri ungur.

Þá er Þorgils var fimmtán vetra þá fýstist hann utan að fara. Var hann vel þroskaður bæði að viti og afli. Hann beiddist fjárskiptis af Þorgrími stjúpföður sínum. Loftur bað hann dveljast hjá sér enn um veturinn og kvað hann mundu síðar að öllu meira fram koma. Hann gerði svo og er hann var sextán vetra beiddist hann enn fjárskiptis.

Þorgrímur kvað þess enn eigi kost «því ósvinnri líst mér þín fjárvarðveisla en mín.»

Þorgils kvaðst nú hafa vilja féið «en ef eg fæ nú eigi þá mun eg fá í þriðja sinn er eg heimti» og fer síðan og segir Lofti. Loftur kvað það hug sinn að Þorgrímur mundi eigi fyrir standa þá er Þorgils heimti næst. Fékk Loftur honum þá fé til utanferðar. Þorgils kvaðst lítið fé hafa vilja að sinni.

Og er hann er búinn til ferðar kallaði hann til sín leiksveina og kvaðst vilja launa þeim gleði og góða fylgd «skuluð þér hér taka þrjár merkur silfurs er eg tók af þrælunum en Loftur fóstri minn skal hafa bauginn og vingan mína.»

Eftir það fór Þorgils utan í Knarrarsundi með lítið fé og kom til Noregs um haustið og var með þeim manni um veturinn er Ólafur hét. Hann bjó á Hörðalandi. Hann var ríkur maður og vel vitur.

Í þenna tíma réð Haraldur gráfeldur Noregi með öðrum bræðrum sínum og Gunnhildur konungamóðir. Þau fóru að veislum um veturinn sem þá var siður til. Ólafur bjó veislu í móti konungi og móður hans með mikilli vegsemd. Og er þau höfðu að veislunni verið um hríð þá spurðu þau hver sá væri hinn mikli maður og hinn veglegi er þar var.

Ólafur svarar: «Hann er íslenskur.»

Konungur sagði að hann mundi vera mikillar ættar «því að hann hefir þess háttar yfirbragð.»

Þorgils var í leikum með konungi og þótti honum mikið gaman að honum og gengu Þorgilsi allir leikar vel.

Þá mælti konungur: «Þig mun eg kalla Þorgils kappa minn.»

Þorgils sagði þá konungi sig eiga stórar erfðir í Sogni eftir göfga frændur sína.

Konungur svarar: «Móðir mín hefir nú bú á jörðum þeim og hún hefir á þeim allt forræði, því hyllstu hana að og mun þér þá vel duga.»

Þorgils kemur nú á þetta mál við Gunnhildi. Hún svarar þessu vel og bauð honum hirðvist með konungi. Þorgils kvaðst lítt við látinn að vera með konungshirð og kvað nei við því. Drottning varð reið og spyrnti fæti sínum til hans og hratt honum frá hásætinu og varnaði honum þá fjárins og sagði hann eigi kunna að þiggja sóma sinn.

Konungi var vel til hans og gaf honum silfur á laun svo að það var góður kaupeyrir.

«Má hér af græðast,» segir konungur, «ef gæfa vill til og vitja mín kunnlega og allra helst ef móðir mín er eigi nær.»

Síðan fór konungur frá veislunni.

13. kafli

Um vorið segir Þorgils Ólafi að hann vill fara kaupferð um sumarið og leita svo undan ójafnaði Gunnhildar. Ólafur lét vel yfir því. Var Þorgils í kaupferð um sumarið og tókst það vel. En um haustið kom hann í Vestur-Víkina og fer til konu einnar er Gyða hét. Hún var ekkja. Son átti hún er Auðunn hét. Þau veittu honum bæði af hinni mestu dyggð. Gyða var margkunnandi á fyrnsku og fróðleik. Auðunn var vel til Þorgils og mælti til vináttu er hann fór í brott.

Eftir það fór Þorgils til eins ríks manns er Björn hét og var þar vel haldinn. Þar voru góð híbýli og heldur snemma háttað. Þorgils spurði hverju það gegndi. Honum var sagt að faðir Bjarnar hafði fyrir litlu andast og það með að hann gengi aftur. Voru menn og hræddir við hann. Þorgils gerðist rammur að afli.

Það var oft um veturinn að Þorgils heyrði lamið úti um þekjuna. Og eina nótt var það að hann stóð upp, tók öxi í hönd sér og gekk út. Hann sá draug fyrir dyrum standa, mikinn og illilegan. Þorgils færir upp öxina en þessi snýr undan og til haugsins. Og sem þeir koma þar snýr draugurinn á móti. Takast þeir fangbrögðum því að Þorgils hafði sleppt öxinni. Var þeirra atgangur bæði harður og grimmlegur svo að upp gekk jörðin undir fótum þeim. En að lyktum varð svo, með því að Þorgilsi var lengra líf ætlað, að draugurinn fellur á bak aftur en Þorgils ofan á hann. Tekur hann þar þá hvíld og nær síðan öxi sinni. Höggur Þorgils þá af honum höfuð og mælir síðan yfir honum að hann skuli engum manni að meini verða. Varð og aldrei vart við hann síðan. Björn virti Þorgils mikils er hann hafði gert þar svo mikla híbýlabót.

Eina nótt bar það til að lostið var högg á dyr. Gengur Þorgils út. Er þar kominn Auðunn Gyðuson vinur hans. Þorgils heilsar honum vel og spyr hvað hann vill.

Auðunn kvaðst þurfa hans liðsinnis, sagði móður sína Gyðu andaða og nokkuð orðið hafa kynlega um hennar dauða «stukku og allir menn á brottu því að engir þorðu við að vera. Nú vildi eg fara með hana til greftrar og fylgdir þú mér.»

«Það skal vera,» kvað Þorgils.

Síðan fer Þorgils með Auðuni að óvitanda Birni, koma til bæjar Auðunar, finna þar húsfreyju dauða, búa nú um líkið.

«Skaltu Þorgils,» segir Auðunn, «gera kistu að móður minni og undir hnakka, reka síðan á kistuna sterkar henkur því að þurfa mun þess alls við ef hlýða skal.»

Er nú þetta allt saman gert.

Auðunn sagðist nú mundu gera ráð fyrir kistunni «skulum við nú draga hana í burtu, færa niður í jörð og bera á ofan sem mestan þunga.»

Fara nú síðan. Og sem þeir hafa farið um hríð tekur að braka mjög í kistunni og því næst bresta af hankarnir og kemst Gyða úr kistunni. Þá fara þeir til báðir og tóku hana og þurfti alls við og voru þeir báðir sterkir menn. Það taka þeir bragðs að þeir flytja hana til báls er Auðunn hafði búið. Síðan kasta þeir henni á bálið og voru hjá meðan hún brann.

Þá mælti Auðunn: «Mikla vingan hefir þú mér nú sýnt Þorgils og góða karlmennsku sem þú munt í öllum stöðum. Sverð og kyrtil vil eg gefa þér. En ef svo verður að eg kalli síðar til sverðsins þá vildi eg að þú létir laust en eg mun fá þér annað vopn það er gott er.»

Nú skilja þeir við svo búið og fer Þorgils aftur til Bjarnar.

Nú er þar til að taka að Björn saknar Þorgils. Fær hann af þessu mikla ógleði og kvaðst þar misst hafa góðs manns «og er það illa að tröll eða óvættir hafa tekið hann. Skulum vér það þó gera í heiður við hann að drekka erfi hans og uggir mig að eigi megi fagnaðaröl heita því að vér höfum nú leitað hans marga daga.»

En um veislu þessa kom Þorgils heim og verður Björn honum harðla feginn og eykur þá að nýju veisluna og eftir hana fóru menn heim.

14. kafli

Í þenna tíma tók Hákon Hlaðajarl ríki í Noregi. Þá sagði Þorgils Birni að hann vildi leita eftir eignum sínum í Sogni.

Björn svarar: «Réttlegt er það. En uggir mig að Hákon jarl kalli sér bæði það og annað því hann er mjög fégjarn og er óvænlegt um að hann vilji til láta við þig en flytja vil eg þitt mál þá er hann kemur hér til mín.»

Nú kemur jarl að ákveðnu til veislunnar og flytur Björn fyrir honum mál Þorgils og sagði mikið frá vaskleik hans og atgervi. Hákon jarl kvað það nú vera sína eign en kvaðst þó vilja sjá manninn.

Og er Þorgils kom fyrir jarl mælti Hákon til hans: «Mikill maður ertu og sterklegur, fríður sýnum og líklegur til giftu, og vil eg bjóða þér til mín. Lítum síðan á þitt mál.»

Þorgils kvaðst það þiggja vilja.

15. kafli

Þorsteinn hét maður og var kallaður hinn hvíti. Hann var lendur maður Hákonar jarls. Hann var vinsæll og átti eignir nær jörðum Þorgils. Þeir lögðu mikla vingan saman og voru með jarli báðir. Þorgils gaf Þorsteini kyrtilinn Auðunarnaut. Hann var af nýju skarlati. Þá var og með Hákoni jarli Eiríkur rauði, íslenskur maður, er síðan fann og byggði Grænland. Hann var ungur maður og kurteis og hinn mesti vin Þorgils.

Það var enn einn dag að Þorgils vekur við jarl sitt mál um jarðirnar.

Hákon jarl svarar: «Vel gest mér að framferð þinni en eigi er eg vís í að vita hver framkvæmdarmaður þú munt verða. Mun eg og eigi þessar eignir upp gefa utan þú sýnir mér nokkurn frama í gerðum þínum. Og skaltu heimta skatta mína af Suðureyjum er eg hefi misst um þrjá vetur.»

Þorgils biður hann fá höfðingja til ferðarinnar «en eg mun fylgja honum sem manndómur minn er til.»

«Þú skalt formaður vera,» segir jarl, «fyrir ferð þessi því að þú reynir þeim mun meir þína dáð og karlmennsku.»

Þorgils mælti: «Lát fara með mér Þorstein hvíta.»

«Hann skal því ráða,» sagði jarl.

Þorsteinn kvaðst fara mundu ef Þorgils vildi.

Nú búast þeir og höfðu tvö skip og ekki mjög skipuð. En er þeir koma til Eyjanna beiða þeir skatta og fengu lítið af. Um haustið héldu þeir til Kataness og brutu skip sín en týndu fjárhlut. Menn héldust allir. Ólafur hét jarl er réð fyrir ríki því. Hann frétti til manna Hákonar jarls og bað þá til sín fara. Það þiggja þeir og voru þar um veturinn.

Surtur járnhaus hét maður, víkingur mikill og hinn mesti illgerðamaður. Hann lá úti löngum um Vesturlönd. Það var einn háttur hans ef konur voru fríðar og vel að sér að hann tók þær að sér um hríðar sakir en menn þorðu eigi í móti honum að standa. Systir Ólafs jarls hét Guðrún. Hún var fríð kona sýnum og vel að kvenlegum listum búin. Surtur járnhaus finnur Ólaf þenna vetur og vill fá systur hans til frillu ella til eiginorðs.

Ólafur svarar: «Það væri mér lítill styrkur þó að þú gerðir sem best mættir þú en þá allra síst ef þú ert ráðinn til illa að gera og mun eg neita þessu gjaforði.»

Víkingurinn mælti þá: «Gakk á hólm við mig ella berst við lið mitt og safna liði í móti.»

Jarl mælti: «Betra er að deyja virðulega en lifa skammsamlega.»

«Þann kost kýst þú nú er þér gegnir verr og þér mun minnisamur verða og ver níðingur ef þú kemur eigi.»

«Að vísu skal eg koma,» segir jarl, «í móti þér eða annar maður ella» og skildu við svo búið.

Eftir það kvaddi jarl þings og sagði þar fyrir hverju áfelli hann var orðinn «vil eg þeim manni gifta Guðrúnu systur mína er Surti verður að bana því að eg veit að sá einn mun til þess ráðast að mér mun engi ósæmd í því verða.»

Engir urðu til að svara jarli þótt ráðið þætti fýsilegt því mönnum þótti ills von af Surti járnhaus. Þeir Þorgils og Þorsteinn ræddust við og þótti Þorsteini fýsilegt en Þorgilsi fannst fátt um.

Þorsteinn mælti: «Viltu þenna kost vinur?»

Þorgils svarar fá um. Síðan sagði Þorsteinn jarli að hann mundi til ráða. Jarl tekur því vel.

Um nóttina eftir dreymdi Þorgils að Auðunn vin hans kæmi að honum og mælti: «Þú sefur en jafnt mun vera sem þú vakir. Þú skalt á hólm ganga við berserk þenna því að þér unnum vér sæmdar. En Surtur þessi er bróðir minn og er hann mér þó ekki þarfur. Er hann og hið mesta illmenni. Þess spyr hann jafnan þá er hann hefur háð hólmgöngur, þann er hann skal berjast við, hvort hann hafi sverðið Blaðin en eg gaf þér það. En þú skalt fela það í sandi og seg honum að þú vitir eigi hjölt þess fyrir ofan jörð.»

Eftir það hvarf Auðunn í burt. Þorgils vaknar og sagði Þorsteini vin sínum drauminn.

16. kafli

Um morguninn fóru þeir Þorgils og Þorsteinn með jarli til hólmstefnu og er Þorgils búinn til hólmgöngu. Víkingurinn spurði um sverðið Blaðin. Þorgils kvaðst eigi vita hans hjölt fyrir ofan mold. Þorgils dró nú sverðið upp úr sandinum og börðust síðan. Og er þeir hafa barist um stund höggur Þorgils sporðinn af skildi Surts og undan honum fótinn. En það voru þá lög að menn vógu til arfs þess er féll á hólmi. Eftir það hjó Þorgils höfuð af Surti, tók síðan öll skip hans og fé og fékk síðan Guðrúnar systur Ólafs jarls. Skorti Þorgils nú eigi menn né peninga.

Um vorið segja þeir jarli að þeir vilji herja um sumarið. Nú halda þeir að Suðureyjum og gera þeim kost hvort þeir vilja þola hernað og manndráp eða gjalda skatt Hákoni jarli. En þeir kjöru að gjalda slíkt sem á var lagið. Síðan var allt lukt.

Eftir það fóru þeir austur til Noregs og hitta Hákon jarl. Fagnar hann þeim vel. Þeir greiða honum féið og gefa honum þó að auki sæmilegar gjafir. Jarl játtir Þorgilsi nú öllum eignum sínum. Voru þeir með jarli um veturinn í góðu yfirlæti. Að sumri vilja þeir í hernað en ætla til jarls að vetri.

Eina nótt kom Auðunn að Þorgilsi og heimti að honum sverðið Blaðin «en eg mun fá þér fyrst öxi en innan lítils tíma gott sverð.»

Þorgils kvað hann víst hafa skyldu sverðið. Auðunn bað hann hafa þökk fyrir og gaf honum fingurgull. En er Þorgils vaknaði var sverðið burtu og þótti honum svipur að. Síðan herja þeir um sumarið.

Gyrður hét víkingur er þeir finna um sumarið undir ey einni. Um morguninn fór skúta frá skipum Gyrðs til þeirra Þorgils og kvaðst Gyrður vilja gera félag við þá. Þetta fór fram og skal Gyrður hafa jafnmörg skip og að helmingi allt hlutskipti. Herja nú um sumarið og varð þeim gott til fjár, eyddu mjög illþýði og hernaðarmönnum en létu bændur og kaupmenn fara í friði.

Þeir komu til Írlands um sumarið. Var þar skógur fyrir er þeir komu að, gengu síðan upp í skóginn og í einum stað sáu þeir fallið lauf af tré. Þeir kippa upp eikinni og finna þar jarðhús undir. Þeir sjá menn með vopnum niðri í húsinu. Þorgils gerir sínum mönnum kost að sá skal eignast þrjá kostgripi er fyrstur gengur í húsið en allir játta því nema Gyrður. Eftir það hljóp Þorgils í húsið og varð þar engin mótstaða. Þar lá klæði blátt og á tveir gullhringar og sverð gott. Þar voru og tvær konur. Var önnur ung og fríð en önnur gömul og þó fríð. Þorgils gekk um húsið og var víða berg undir. Hann hafði í hendi eina rótakylfu og barði henni á báðar hendur og stökk flest undan. Þorsteinn fór með honum. Og er þeir gengu úr jarðhúsinu tóku þeir konu þá hina yngri og fluttu með sér til skipa og svo hina eldri. Nú sækir liðið fast eftir þeim en þeir Þorgils komast til skipa og láta þegar frá landi. Nú gekk maður úr liðinu því er eftir sótti og mælti langt erindi. Þeir skildu eigi hans mál.

Þá mælti kvinnan á norrænu og sagði þeim að hann vildi upp gefa það er þeir höfðu fengið af fénu «ef þér látið okkur lausar. Þessi maður er jarl og son minn en eg er víkversk að móðurkyni. Munuð þér þá og best njóta gripanna er svo er gert því að þungi fylgir sverðinu. Son minn heitir Hugi. Hann býður þér Þorgils fé heldur en þér takið mig í burtu. Er yður og ekki happ í okkur burt að taka.»

Þorgils hlýðir þeirra ráðum og flytur þær til lands. Hugi jarl gekk með fagnaði á móti Þorgilsi og gaf honum hring einn, annan móðir hans, mærin hinn þriðja og mæltu síðan vel fyrir honum.

17. kafli

Eftir þetta vilja þeir Þorgils og Þorsteinn hætta hernaðinum og skipta fjárhlut. Gyrður kallaði til gripanna. Þorgils kvað þar marga vitnismenn til vera hvað skilið var. Gyrður kvaðst aldrei játtað hafa og vill heldur berjast en missa gripanna.

Þorgils kvað ráðlegra að leggja eigi allt lið í hættu «og reynum heldur tveir.»

Því játtar Gyrður. Síðan berjast þeir. Hafði Þorgils sverðið Jarðhússnaut og höggur til Gyrðs og undan honum fótinn fyrir neðan ökkla, skildu við svo búið. Lifði Gyrður síðan og var kallaður Gyrður hinn halti.

Eftir það fóru þeir til Noregs og voru með Hákoni jarli um veturinn. Guðrún kona Þorgils fæddi þá sveinbarn. Hann var Þorleifur nefndur. En er vorar vill Þorgils út til Íslands til eigna sinna. Gaf Hákon jarl Þorgilsi aftur allar eignir sínar þær er hann átti í Sogni og skildu þeir jarl með vináttu. Sat hann nú að búum sínum um sumarið og svo um veturinn.

Þorgils sagði Þorsteini að hann vill vitja eigna sinna á Íslandi «því þeir varðveita er mér er ekki um. Hefi eg nú látið skip búa og flutt þangað til mikið fé en jarðir þessar er eg á hér skaltu varðveita til handa Þorleifi syni mínum. Hefi eg þig reynt góðan dreng. Mun eg nú og launa þér með einni gjöf. Skal eg gefa þér Guðrúnu konu mína því það hefi eg fundið að þú hefir lagt ástarþokka til hennar þótt þú hafir vel með því farið.»

Þorsteinn þakkaði Þorgilsi gjöfina og þótti mönnum mikils um þetta vert.

Þorgils fór kaupferð eina á Upplönd og Svíþjóð og var um veturinn hjá bónda þeim er Þrándur hét. Hann var auðigur maður og átti dóttur er Sigríður hét. Hana vildi eiga sá maður er Randviður hét. Hann var illmenni og kappi mikill. Þrándur synjaði honum ráðsins. Þá bauð Randviður Þrándi hólmgöngu þá er kölluð er kerganga. Skal þar berjast í keri og byrgja yfir ofan og hafa kefli í hendi. Þrándur vildi heldur berjast en gifta dóttur sína svo illum manni.

Þorgils mælti þá til Þrándar: «Vel hefir þú mér vist veitt og skal eg það góðu launa og mun eg berjast við Randvið fyrir þig.»

Þrándur kvaðst það þiggja mundu. Þorgils hafði sverðið Jarðhússnaut. Randviður hafði álnarkefli og digurt mjög. Var byrgt yfir kerið. Randviður bað Þorgils leggja fyrst því að á hann var skorað. Hann gerði svo og kemur í keflið og sprakk það í sundur og hljóp sverðið í kviðinn á Randvið.

Hann mælti þá: «Fá þú mér nú sverðið en haf þú keflið og mun eg leggja til þín með sverðinu.»

«Mér þykir nú,» segir Þorgils, «þetta vera spænir en eigi kefli.»

Litlu síðar dó Randviður. Hafði hann treyst fjölkynngi sinni því að hann hafði margan mann fellt með þessi hólmgöngu. Þorgils drap tvo aðra víkinga, Snækoll og Snæbjörn. Þrándur launaði Þorgilsi vel. Fékk hann virðing mikla af þessu verki. Hann bjóst síðan út til Íslands um sumarið eftir.

18. kafli

Ólafur tvennumbrúni hét maður. Hann kom til Íslands og nam öll Skeið á milli Þjórsár og Sandlækjar. Hann var hamrammur mjög. Ólafur bjó á Ólafsvöllum. Hann liggur í Brúnahaugi undir Vörðufelli. Ólafur átti Áshildi og voru synir þeirra Helgi og Þórður, faðir Þorkels föður Gullkárs, föður Orms, föður Helgu, móður Odds Hallvarðssonar.

Þorgrímur örrabeinn lagði hug á Áshildi þá er Ólafur var dauður en Helgi trausti son hennar vandaði um og fór frá búi sínu til hennar og kvaðst eigi vilja fíflingar hennar og kvað óvirðing í vera bæði henni og frændum hennar. Hún bað hann sig eigi reiðan gera, kvað ekki hans færi að keppa við Þorgrím.

Hann svarar: «Auðsætt er það að maðurinn hugnar þér vel en eg mun eigi að heldur sitja honum slíka svívirðing.»

Skilja þau nú tal sitt. Þorgrímur gistir á Ólafsvöllum. Áshildur gerði honum góðan beina og fóru mjög saman hugir þeirra. Hún sagði Þorgrími hvert tal þeirra Helga hafði verið. Helgi ræðir og um komur Þorgríms, kvaðst illa við una, bað hann af láta. Þorgrímur kvaðst eigi hirða um hans þokka eða hót ef hennar vilji væri til. Nú leiðir hún Þorgrím á götu og gaf honum mikið fingurgull áður þau skildu. Áshildi kvaðst grunur á að þau mundu eigi oftar sjást. Þorgrímur kvaðst ætla að finna hana brátt. Hún kvað vel ef svo væri, skilja við svo búið.

Þorgrímur reið nú leið sína fyrir neðan Áshildarmýri. Helgi sat fyrir honum hjá gatnamóti. Og er þeir fundust bað Helgi hann af láta komum og gera sér eigi skapraun í þessu. Þorgrímur kvaðst eigi hafa barna skap, kvaðst búinn að reyna alla hluti við hann.

Helgi kvaðst ætla að að málefnum mundi ganga «og er vel að við reynum okkur.»

Síðan börðust þeir snarplega og lengi. Þorgrímur var þá á hinum efra aldri og mæddist skjótt og varð sár mjög. Helgi sækir að fast er hann sér að Þorgrími latar og lýkur svo með þeim að Þorgrímur fellur fyrir Helga. Um kveldið kom Helgi heim. Spurði Áshildur hann tíðinda. Hann sagði slík sem voru.

Hún svarar: «Mikið hefir þú að gert og vaxið muntu þykjast hafa af þessu verki en eg kann segja þér að þetta er þinn höfuðbani.»

Helgi tók sér fari í Einarshöfn og ætlar utan.

Þessi tíðindi spyrjast nú. Hæringur son Þorgríms var þá seytján vetra. Hann reið í Höfða til Teits Ketilbjarnarsonar frænda síns við þriðja mann. Þeir Teitur ríða þá fimmtán saman út á Eyrar í Einarshöfn og banna Helga farið. Eftir það ríða þeir í burtu. Litlu síðar fundust þeir á fórnum vegi upp frá Mörk við Helgahvol. Þeir Helgi voru þrír saman komnir af Eyrum sunnan. Og er þeir Helgi sjá reið þeirra hlaupa þeir á hólinn og vörðust drengilega. Áttu þeir harða hríð. En fyrir fjölmennis sakir féll Helgi og maður með honum og einn maður af hinna liði. Var síðan sæst á málið og féllust vígin í faðma.

Þorgils kom út á Eyrum. Loftur fóstri hans sat í búi sínu. Margt hafði tíðinda orðið meðan Þorgils var utan. Þórunn móðir hans var og önduð. Þorgils fór heim í Traðarholt. Tók bróðir hans vel við honum og búa þeir bræður nú báðir saman þessi misseri.

Þórey hét kona og var Þorvarðsdóttir. Þorfinna hét móðir hennar. Hún bjó í Odda. Þorvarður var andaður. Þórey var á fóstri á þeim bæ er heitir í Kálfaholti með þeim manni er Jósteinn hét, gildur bóndi. Jósteinn átti systur Þorvarðar í Odda er Þorgerður hét. Þau voru börn Þórðar Freysgoða. Kolur og Starkaður voru fóstbræður Þóreyjar. Guðrún hét systir þeirra og var hún líka fóstursystir Þóreyjar. Þórey var skörungur mikill og fríð sýnum. Þeirrar konu biður Þorgils örrabeinsstjúpur og þann kost fær hann og gerði brullaup til hennar. Samfarir þeirra voru góðar. Hæringur bjó nú á Stokkseyri. Þorgils bjó í Traðarholti og gerðist hann ríkur maður svo að Ásgrímur Elliðagrímsson bar ekki af honum á þingum.

19. kafli

Sörli hét maður. Hann bjó skammt frá Kálfaholti. Hann venur komur sínar í Kálfaholt á fund Guðrúnar systur þeirra Starkaðar og Kols. Einn tíma fer Kolur á leið til Sörla og biður hann láta af komum til Guðrúnar systur þeirra. Sörli kvaðst mundu það gera eftir hugþokka sínum en hirða ekki um orð hans.

«Þú munt ráða,» segir Kolur.

Annan dag eftir fer Sörli samt á tal til Guðrúnar og um kveldið fer hann seint heim. Og er hann kemur skammt frá bænum sprettur Kolur upp fyrir honum. Verður ekki af kveðjum. Höggur Kolur hann banahögg, fer síðan heim og segir Guðrúnu að stöðvast muni um komur Sörla upp héðan. Hún kvaðst eigi það lasta en kvað eigi svo búið hlýða mundu því að hann var gjafvinur og þingmaður Ásgríms Elliðagrímssonar «far nú og hitt Þorgils. Hann þykir mér líklegastur að veita þér nokkuð lið.»

Kolur kemur í Traðarholt. Það var síð um kveld. Menn sátu yfir borðum en Þórey húsfreyja bar mat í stofu. Þá var barið á dyr og gekk hún til hurðar og heilsar vel Kol fóstbróður sínum og býður honum þar að vera. Hann vill eigi þar svo vera að eigi viti hún tíðindi er í hans ferðum voru og segir henni síðan vígið. Hún lastar lítt og kveðst við skulu leita að veita honum ásjá «en þó er nokkuð vanstillt til við Þorgils en ærið er traust ef hann vill veita þér og mun eg fylgja þér í skot er hér er um skálann og heyrðu þaðan á viðræður okkar Þorgils.»

Hann gerir svo og eftir það fer hún í stofuna. Þorgils mælti: «Hví skulum vér svo lengi bíða matar í kveld? Og gott hefir þér orðið til fjár í framgöngunni. Klæði rautt hefir þú fengið.»

«Eigi veit eg það,» segir hún, «en satt er hið fornkveðna að spakir menn henda á mörgu mið. Mús hljóp áðan á kinn mér en hún er mér harla óþekk.»

«Svo má vera,» segir Þorgils.

En er þau komu í rekkju þá kvaðst Þorgils vita vilja hvað í framgöngunni hafði gerst. Hún segir honum allan atburðinn og kvaðst hún ásjá vilja veita Kol «og muntu svo gera fyrir mína skuld.»

Þorgils kvaðst svo gera mundu «hefi eg góða vináttu haft af Kol,» segir hann.

Um morguninn eftir fór Þorgils austur til bús Kols — hann átti bú austur hjá Kálfaholti — og tók upp féið allt og lét fara Guðrúnu með sér en lét eftir ómegð aðra. En er þeir voru burt farnir kom Ásgrímur og ætlar upp að taka fé Kols og hafði hann ekki. Kolur situr hjá Þorgilsi um veturinn.

En um vorið eftir býr Ásgrímur málið á hendur Kol. Lætur Þorgils sem hann viti eigi. Verður Kolur sekur um vígsmálið. Þorgils ríður allt að einu um héraðið og Kolur með honum, sækja mannamót. Og gerist af því óþokki millum héraðshöfðingja. Héraðsmönnum þykir mein að og leita um sættir en Þorgils býður engar bætur fyrir Kol. Héraðsmenn leggja nú fund til og leggja allir fé til við Ásgrím og bæta víg Sörla, gefa og fé til sýknu honum og var þetta gert án ráðs Þorgils. Sýkna Kols var færð annað sumar á þingi og er þó fátt um með þeim höfðingjum.

Eitt sinn ríður Þorgils til hestaþings austur í hérað og Svartur verkstjóri hans með honum. Var þá góð gleði um daginn. Ásgrímur var þar og talar mart við Svart.

Að kveldi ríður Þorgils heim en Svartur reið nær honum og fann Þorgils að hann vill ætíð ríða seinna. Grunar hann þá og gefur honum færi á sér. Og er Þorgils varir minnst höggur Svartur til hans en Þorgils kastar sér úr söðlinum. Þorgils þrífur Svart og spyr hverju gegnir. Hann segir að Ásgrímur bauð honum þetta. En þá er hann svipti Svarti féll fésjóður undan yfirhöfn hans. Segir hann þá að Ásgrímur hafi gefið honum fé til höfuðs Þorgilsi. Hann drepur Svart þegar í stað. Eftir það ríður Þorgils fram að sínum mönnum og segir þeim hversu farið hefði.

En hvert sumar er hann kemur á mannamót sýnir hann fésjóðinn og voru þar í þrjár merkur silfurs þess er best var og gekk engi við að ætti. Þorgils kvaðst það fé hafa mundu og hafa sitt satt við hvar Svartur hafði fengið.

20. kafli

Nú kom kristni á land og tók Þorgils í fyrra lagi sið kristinn og hélt vel trú sína. Og er hann hafði við kristni tekið þá dreymdi hann einhverja nótt að Þór kæmi að honum með illilegu yfirbragði og kvað hann sér brugðist hafa «og hefir þú illa úr ráðið, valið mér það úr þínu fé er þú áttir verst til. Þú kastaðir silfri því í fúla tjörn er eg átti og skal eg þar í móti koma.»

«Guð mun mér hjálpa,» segir Þorgils, «og er eg þess sæll er okkað félag sleit.»

Og er Þorgils vaknaði og kom út sá hann að töðugöltur hans var dauður og lét hann grafa hann hjá tóft nokkurri og vildi eigi láta af neyta.

Enn barst Þór í draum Þorgilsi og sagði að sér yrði eigi meira fyrir að taka fyrir nasir honum en töðugelti hans.

Þorgils segir: «Guð mun því ráða.»

Þór hét þá að gera honum fjárskaða. Þorgils kvaðst eigi um það hirða. Aðra nótt eftir dó uxi gamall fyrir Þorgilsi. Þá sat hann sjálfur hjá um nóttina eftir yfir nautum sínum og er hann kom heim um morguninn var hann víða blár. Hafa menn það fyrir satt að þeir Þór muni fundist hafa. Eftir það tók af fallið. Þorgils var hið mesta mikilmenni, harður maður og frækinn.

Nú líða fram stundir. Og er skip ganga landa á milli þá koma orðsendingar af Grænlandi að Eiríkur rauði býður Þorgilsi út til Grænlands til þeirra kosta er bestra hefir hann föng á. Þorgils áhlýddist lítt.

Og er hann hafði búið hér þrettán vetur kom skip af hafi. Þar var á Þorleifur sonur hans og hafði góða gripi að færa honum. Þorgils tók vel við honum.

Þorgils talar við konu sína ef hún vill fara með til Grænlands. Hún kvað vanbreytt um. Hann kvað Eirík hafa sent sér orð «og máttu vera eftir ef þú vilt og gæta bús okkars en eg fari.»

Hún kvað því mundu misráðið að farið væri «en fara vil eg ef þú ferð.»

Þorgils fékk nú í hendur Hæringi bróður sínum fé sitt til varðveislu og svo tók hann við goðorði því er Þorgils haft hafði. Hann vill að landið í Traðarholti sé eign erfingja hans ef hann kemur eigi til. Þórný hét dóttir þeirra Þorgils og Þóreyjar. Var hún þá átta vetra gömul. Þessi ráðabreytni Þorgils spurðist nú víða um sveitir. Þorleifur skal fara með honum, Kolur og Starkaður bróðir hans og Guðrún systir þeirra, Snækollur og Össur þrælar hans og Þórarinn ráðsmaður. Þrælarnir voru alls tíu. Þorgils hafði nefnda menn mest fyrir því ef hann vildi bæ láta reisa á Grænlandi. Þeir voru allir öflgir menn. Þorgils hafði alls konar fé ef hann vildi þar staðfestast. Jósteinn bóndi úr Kálfaholti réðst og til ferðar með honum og brá búi sínu. Hann var með tólfta mann. Þorgerður fór og, kona hans, og Þórarinn son þeirra. Hann var hinn knáasti maður. Þorgils kaupir nú skip. Þórólfur hét maður er Þorgils fékk í hendur ómagabú en Hæringi bróður sínum seldi hann í hendur sex tigu hundraða þriggja álna aura annað en staðfestu.

Þorgils gisti og þau á Hjalla í Ölfusi. Þar var og í ferð með honum Þórný dóttir hans og ætlaði hann að hún skyldi fara. Þar tók hún sótt og beið Þorgils þrjár nætur og kvað það eigi mundu standa fyrir ferð sinni og gaf henni fjögur hundruð þriggja álna aura ef hún þyrfti til að taka og kvað vera mega að það væru forlög hennar. Þóroddur kvaðst ætla að hún mundi giftudrjúg vera. Þorgils segir Þóroddi að hann kveðst mundu mjög treystast ummælum Eiríks rauða:

Þóroddur segir: «Oft verður vant til manna að ætla og eigi að síður að maður leggi mikinn kost til.»

Þorgilsi kveðst nú fyrir þykja mikið að fara en kveðst nú eigi nenna aftur að hverfa.

21. kafli

Skilja þeir nú þeir Þóroddur, og Þorgils bíður nú byrjar og dreymir hann að maður kemur að honum mikill og rauðskeggjaður og mælti: «Ferð hefir þú ætlað fyrir þér og mun erfið verða.»

Draumamaðurinn sýndist honum grepplegur og mælti til hans: «Alla stund hefir þú mér verið gagnstæðlegur þóttú værir heiðinn maður en oss er mikill missir orðinn að siðaskipti þínu. Áður var allt fólk leitandi til vors trausts og fulltings og ertu sem þeir er oss vilja þyngst og mun illa farast ef þú vilt eigi aftur til mín hverfa um átrúnað. Mun eg þá enn um sjá yðar ráð.»

Þorgils kvaðst aldrei hans umsjá vilja hafa, bað hann burt dragast og skiljast við sig sem skjótast «tekst ferð mín sem Guð vill,» hugðist hann svara í svefninum.

Síðan þótti honum Þór færa sig á hamra nokkura þar sem sjóvarstormur brast í björgum og nú segir Þór: «Í slíkum stormi skaltu vera og þó lengi í volki vera og kveljast í vesöld og háska nema þú gerist minn maður.»

«Nei, nei,» segir Þorgils. «Far þú burt hinn leiði fjandi. Sá mun mér hjálpa sem alla leysti með sínum dreyra og á líta ferð vora.»

Síðan vaknar hann og segir drauminn Þóreyju konu sinni «og dvína mundi eg láta ferðina ef mig hefði fyrri þvílíkan draum dreymt og eigi vil eg segja láta Jósteini né öðrum mönnum þenna draum.»

Hún kvað þetta eigi góða furðu og kvað vel ráðið þótt hann ætti fátt við Þór «og aftur mundi eg setjast ef mig hefði þvílíkan draum dreymt.»

Nú kemur byr og sigla þeir út eftir firði á haf góðan byr. Hafði Jósteinn skip fyrir framan siglu. Og er þeir koma úr landsýn þá tekur af byri alla og velkjast þeir úti lengi þar til er bæði verður átfátt og drykkfátt á skipi þeirra.

Eina nótt dreymir Þorgils að sá sami maður kæmi að honum og mælti: «Fór eigi sem eg gat? Því að þú hefir neitað mínu fulltingi og ásjá. Má enn vera að betrist um hag þinn ef þú vilt mig þýðast.»

Hann kveðst það aldrei vilja þótt líf hans lægi við, bað óvin á brott dragast og koma aldrei oftar og vaknar hann eftir það. Útivistin harðnar mjög.

Tekur nú að hausta. Mæltu sumir menn að þeir mundu blóta Þór til byrjar, kváðu betur þá farið hafa ráð manna er þeir blótuðu hann og kváðu ráð að fella þangað hugi sína.

Þorgils segir: «Ef eg verð var við það að nokkur maður blótar og gerist guðníðingur þá skal eg það harðlega hefna.»

En við þessi orð hans treystist engi að kalla á Þór.

Þá dreymdi Þorgils enn eina nótt að hinn sami maður kæmi að honum og mælti svo: «Enn sýndir þú hver þú varst mér þar eð menn vildu mig þýðast. Hefi eg nú beint fyrir yður því að margir eru skipverjar þínir að bana komnir og enn muntu höfn taka á sjö nótta fresti ef þú vilt mig aðhyllast.»

Þorgils segir: «Þótt eg taki aldrei höfn skal eg þér aldrei gott gera og ef þú kemur oftar skal eg gera þér nokkura skömm.»

Hann segir: «Þótt þú gerir mér ekki gott þá gjaltu mér það er eg á og þú hefir mér heitið.»

Þorgils hrakti hann með mörgum orðum og við það fór hann á brott. Þorgils vaknar og hugsar hvað hann muni þar eiga og nú man hann að hann gaf fyrir löngu Þór kálf einn. Þorgils segir þetta Þóreyju og var þetta þá gamall uxi og kvað aldrei það skyldu innanborðs er hans kanna væri á og segir hann því þar hverfa mundu um skipið. Hún kvað það vel fundið. En er Þorgerður vissi þetta að Þorgils ætlar að kasta út uxanum þá falar hún uxann er þeim var vistafátt. Þorgils afsvaraði og vill ónýta uxann. Hún reiddist við orð hans «og er eigi undarlegt þótt illa takist er Þór vor er svo svívirður og mikið munu nú menn verr kunna fyrir sér en þá er menn sæmdu hann í mörgum hlutum.»

Þorgils hirðir ekki um orð hennar og lét skjóta útbyrðis uxanum og kvað eigi kynlegt þótt illa færist er fé Þórs var innanborðs.

22. kafli

Og eru þeir nú enn úti um hríð. Þrjá mánuði voru þeir í hafi og höfðu harða réttu og litla byri. Þórarinn son Jósteins var knáastur maður annar en Þorgils. Hann var þá tvítugur að aldri.

Það er sagt að þeir brutu skip sitt síð dags undir Grænlandsjöklum í vík nokkurri við sandmöl. Skipið tók í sundur í efra rúmi. Menn héldust allir og fé. Bátur komst og heill á land. Stafninn rak upp við hið syðra landið. Þá var vika til vetrar. Jöklar miklir gengu fram tveim megin víkurinnar en til vesturáttar væntu þeir byggðar. Gera sér nú skála allir saman og í þverþili. Búa nú sínumegin hvorir þilsins, hafa mjöl nokkuð sér til atvinnu, henda af rekum slíkt er þeir fengu og eiga allir saman. Fé þeirra var dautt flestallt. Hirslur þeirra voru í skála þeirra. Þorgils manna hlutur var jafnan betri af veiðifangi. Varð hann um flest hlutsælli. Þorgils beiddi að menn vildu vera hljóðlátir síð á kveldum og siðsamir og héldu vel trú sína. Þóreyju húsfreyju var mikið framað og var lítt heil. Það er sagt að Jósteinn og hans menn voru löngum úti síð á kveldum og gerðu mikið um sig og höfðu náttleika.

Jósteinn mælti eitthvert sinn við Þorgils, kvað sér þykja mikinn mun veiðifangsins. Þorgils kvað þá eigi einn veg rækja «því að þér haldið lengur við á kveldin en vér erum að fyrri.»

Jósteinn vildi þá skipta láta öllu veiðifangi og svo var gert og varð Þorgils jafnan hlutsælli og skortir þá hvoriga. Svo er sagt að fátt var með þeim. Voru þeir Þorgils spakir og hljóðir en hinir höfðu náttleika með miklu erfiði og háreysti.

Nær veturnóttum varð Þórey léttari að sveini þeim er Þorfinnur hét. Hún hjúkaðist lítt við þessa fæðu er til var. Þórarinn Jósteinsson hafði útiróðra með þrælum Jósteins.

Líður nú á veturinn og dregur að jólum og ræðir Þorgils um að hann vill að menn séu hljóðlátir og siðsamir og fari snemma í rekkju. Jólamorgun var á veður gott og voru þeir þá lengi úti um daginn og heyrðu óp mikið í útnorður og nú kemur annar aftann í jólum. Þá náttar Þorgils snemma og fer í rekkju og er þau höfðu sofið svefn þá koma þar Jósteins menn og er mikið um lið þeirra og búast til matar. Þorgerður var í öllu háreysti með þeim og var hún sterk sem karlar. Og er þau eru að mat þá er drepið á dyr mikið högg og snjallt.

Þá mælti einn þeirra: «Góð tíðindi munu nú í nánd vera.»

Sá hleypur út og þykir þeim er inni voru fresta innkomu hans. Nú ganga þeir Jósteinn út. Er sá þá ær er úti var. Og um morguninn deyr hann. Mótlíkt fer annan aftan að maður ærist og deyr skjótt og þóttist sjá þann hlaupa að sér er fyrr dó.

Nú kom sótt í lið Jósteins og deyja sex menn og þá tekur Jósteinn sótt hinn tólfta dag jóla en Þorgerður situr yfir honum og lýr hann sótt og deyr hann og eru þeir nú kasaðir þar í mölinni. Þorgils hélt þá sínum mönnum öllum og ræðir jafnan um við þá að þeir séu hljóðlátir og siðsamir, bað þá láta sér annars víti að varnaði verða, minnast á guðlega hluti og fremja nú skynsemd um kristnihald sitt og söngva.

Á bak jólum ganga þau öll aftur og einna mest Þorgerður. Þórarinn lést síðast af liði Jósteins. Var hann grafinn undir skipshræinu en öll voru þau dauð í miðja gói. Voru þá miklar afturgöngur og sóttu öll að Þorgilsi. Þorgils segir þá að Þorgerður hefði lið sitt allt og hún þyrfti þá ekki fleira að kalla og eftir það léttir af sóttinni. Ekki máttu þeir Þorgils í brott hefjast meðan afturgöngur voru mestar. Í þeim hluta skálans gengu þau mest aftur er þau höfðu áður átt en þó gengu þeir í hinn hlut skálans og sótti Þorgerður konur mest. Og er svo hafði fram farið um hríð þá lét Þorgils brenna þau öll á báli og var þá ekki mein að afturgöngu þeirra síðan. Þeir Þorgils höfðu skip á stokka sett og mjög gert að öðru og höfðu hvorirtveggju að skipbúnaði verið.

Nú líður af veturinn og máttu þeir þó eigi á brott komast fyrir ísum. Þeir fá sér vistir um sumarið.

Og annan vetur eftir þá andaðist Guðrún systir Kols. Kolur grefur hana undir rúmi sínu. Og er vorar þá mega þeir eigi á brott komast.

23. kafli

Það er enn eitthvert sinn sem oftar bar að að Þórey segir draum sinn Þorgilsi að hún þóttist sjá fögur héruð og menn fagra og bjarta «og vænti eg,» segir hún, «að vér leysumst héðan í burt úr ánauð þessari.»

Þorgils segir: «Góður er draumur þinn og þó eigi ólíkari að viti meir til annars heims hluta og muntu eiga fyrir höndum fagra staði og munu dýrðlegir menn hjálpa þér fyrir gott líf þitt og mannraunir.»

Hún bað þá í burt leita ef þeir mættu. Þorgils kveðst eigi yfir það sjá.

Hún lá í rekkju jafnan og einhvern góðan veðurdag ræðir Þorgils um að þeir muni ganga á jökla upp og vita ef þeir sæu ísinn nokkurs staðar leysa. Þórey kveðst þess ófús að hann gengi nokkurs staðar frá henni. Hann kvaðst skammt fara mundu. Hún kvað hann ráða mundu enn sem fyrr. Þrælarnir skyldu róa að veiðifangi um daginn og Þórarinn bryti skyldi ýta þeim og vera hjá Þóreyju en Þorgils ætlaði að ganga á jökulinn. Þeir Þorleifur og Kolur og Starkaður beiddust að fara með honum en Þorgils kvað forystulaust heima ef eigi væru nokkrir þeirra hjá Þóreyju «og trúum vér ærið vel þrælunum í þessu.»

Þeir fóru þó allir á jöklana. Þorgils hafði bolöxi í hendi og gyrður sverðinu Jarðhússnaut. Þeir gengu til eyktar og höfðu farið árla morguns. Og er nón var dags þá sneru þeir aftur og gerði á veður hart. Þorgils gekk fyrir þeim og hitti vel leiðina, komu að skálanum og sá eigi skipið, komu inn og voru á brott kisturnar allar og svipt fénu og mennirnir á burt.

Þorgils mælti: «Nú munu ill efni í.»

Koma innar í skálann og var þar myrkt. Þeir heyra til rekkju Þóreyjar snörl og það sér Þorgils að hún er önduð en sveinninn só hana dauða. Þorgils leitar um hana og finnur einsstaðar að harðnað var holdið og ben lítið undir hendinni sem mjóvum knífsoddi hefði stungið verið. Mjög var þar allt blóðugt í rúminu. Þetta hafði svo orðið að Þorgilsi var mestur harmur. Grafa þeir hana hjá Guðrúnu. Þorleifur leggur á alla stund að gleðja föður sinn. Á burt var og sópað öllum vistum. Hurðirnar höfðu þeir og frá tekið húsunum og hvílutjaldið var í burtu.

Um nóttina vildi Þorgils vaka yfir sveininum og minntist þá drengilega á karlmennsku og kvaðst eigi sjá mega að barn það mætti lifa nema mikið væri til unnið og vill hann eigi að það deyi. Lætur hann nú saxa á geirvörtuna á sér og kemur þar blóð út. Síðan lætur hann teygja það og kom þar út blanda og eigi lét hann af fyrr en það var mjólk og þar fæddist sveinninn við. Og um nóttina trúði hann sér eigi til vöku fyrr en hann lét glóð undir fætur sér.

Það er sagt að þeir Snækollur og aðrir þrælar höfðu skipið í brott tekið. Ketil hinn meira höfðu þeir en lítill ketill var eftir er Þórey hafði átt og flykkisstúfur einn og svo nafrar í burt voru sem í tólakistunni höfðu verið. Þórarinn bryti var og á brott horfinn. Þeir Þorgils eru þar enn nokkura hríð og sækja fast að veiðiföngum og verður þeim mjög ekki mein að öðrum óvættum. Leita þeir enn við að gera sér farkost og eru nú smíðartól heldur fá. Gerðu þeir sér einn húðkeip og bjuggu innan með viðum. Líður nú á sumarið og sjá menn ekki um vistaföng brýnlegt. Þeir bjuggu um húðkeipinn og … og byrgðu og lifðu nú við reka og smádýri íkorna.

24. kafli

Um morguninn er Þorgils kom út sá hann rekald mikið í vök einni og þar hjá konur tvær í skinnkyrtlum og bundu sér byrðar ákaflega miklar. Þorgils hleypur þangað til og höggur þegar til annarrar með sverðinu Jarðhússnaut í því er hún færðist undir byrðina og rekur af henni höndina uppi við öxlina. Byrðurin féll niður en hún hljóp á burt. Þeir taka rekaldið undir sig og er þá eigi vistaskortur um veturinn.

Og er vorar er mjög uppi vistin. Þorgils kvaðst leiðast þarvistin «og losnar nú ísinn,» sagði hann, «og munum vér á burt leita.»

Þeir fara nú á braut og hafa með sér ketilinn. Dragast nú með jöklunum fram og á ísinn að öðru hverju. Og um sumarið komust þeir suður til Seleyja á keipinum en lítið máttu þeir hafa af föngum sínum. Þar fengu þeir sela nóga og voru þar um veturinn.

Að sumarmálum fóru þeir þaðan og komu þá við ey nokkura litla. Hálfum mánuði síðar þá fundu þeir svartbaksegg. Þeir sjóða eggin og etur sveinninn Þorfinnur eitt eggið og eigi allt. Þeir spyrja hann því hann æti eigi allt.

Hann segir: «Þér sparið yðvarn mat og vil eg og spara minn mat.»

Þeir voru á skipi sínu á nóttum en fóru á land um daga og fá þó lítið fang. Og einn dag fundu þeir árarstúf einn og voru á rúnar þessar:

Varkat eg dási
er eg þessa dró
oft, ósjaldan
ár á borði.
Sjá gerði mér
sára lófa
meðan heimdragi
hnauðat rauða.

Þeir dragast nú enn fram fyrir jöklana og koma þá að björgum nokkurum bröttum og brýna þar upp skipinu og hafa þar dvöl og reisa þar tjald og höfðu nær engar vistir.

Og um morguninn gengur Kolur út úr tjaldi og sér hvergi skipið og við það leggst hann niður og vill eigi segja Þorgilsi og þykir áður ærinn harmur hans. Litlu síðar gengur út Þorleifur og sér eigi skipið. Getur hann og eigi um. Síðan rís Þorgils upp og litaðist um og sér eigi skipið og sagði þeim að skipið var í burt «og má eg eigi sjá það að við sveininn megi leita og tapi honum.»

Þorleifur segir: «Það liggur ekki til.»

Þorgils biður það þó gera. Eftir það taka þeir við sveininum. Kolur bað Þorleif tapa honum.

«Það samir mér eigi,» sagði hann, «og skal eg það eigi gera.»

«Þá er betur og Kolur,» sagði hann, «fyrir því að eigi skal eg honum týna. Hefi eg lengi verið með Þorgilsi og á eg honum margt gott að launa og ef týnt er sveininum þá mun honum svo mikið þykja að eigi er sýnt að hann lifi eftir.»

Nú láta þeir sveininn úti eftir en þeir ganga inn í tjaldið. Þorgils spurði hvort drepinn væri sveinninn. Þeir kváðu eigi það vera. Hann þakkar þeim og sagði ósýnt hversu hann bæri «og er gott til góðra drengja að taka og hafið þið firrt mig miklum glæp og mun eg aldrei þykja síðan dugandi maður. Og svífur nú ýmsu á mig.»

Um nóttina eftir er sveinninn hjá Þorgilsi og um morguninn segir Þorgils draum sinn.

«Eg þóttist vera,» sagði hann, «á Íslandi á alþingi og þótti mér sem við Ásgrímur toguðum eina hönk og allur lýður horfði á og hann missti hankarinnar.»

Þorleifur segir: «Þar muntu enn koma til Íslands faðir minn,» sagði hann, «og skipta málum við Ásgrím og mun það vel ganga.»

«Slíkt má vera,» sagði Þorgils, «þótt nú þyki eigi líklegt og er vel ráðið.»

Aðra nótt dreymdi hann enn og sagði enn Þorleifi.

«Eg þóttist vera,» segir hann, «heima í Traðarholti og var þar fjölmennt mjög og sá eg álft eina ganga eftir gólfinu og var hún blíð við aðra en mig. Þá hristi eg hana og var þá betur.»

«Þar muntu,» sagði Þorleifur, «kvongast og mun kona þín vera ung og muntu í fyrstunni missa ástar hennar og mun þó vel dragast.»

Hina þriðju nótt dreymdi Þorgils enn að hann þóttist vera heima í Traðarholti «og kerti fimm voru á kné mér,» sagði hann, «og fölski á hinu mesta. Og enn dreymdi mig að kona kæmi að mér og kvað mig kominn í tún sitt, «og þykir mér illa er þér hafið etið egg Þorfinns,» og hún segir mér að sveinar hennar hefðu tekið skip vort.»

Þorleifur segir: «Þar munum vér í burtu komast.»

«Enn dreymdi mig,» sagði Þorgils, «að eg væri heima í Traðarholti. Eg sá á kné mér hinu hægra að þar voru vaxnir hálmlaukar fimm saman og þar af kvísluðust margir laukar og ofarlega yfir höfuð mér bar einn laukinn. Svo var hann hár og svo var hann fagur að hann hafði gullslit á sér.»

Þorleifur segir: «Sé eg draum þinn. Þar muntu eiga fimm börn og frá þér munu kvíslast margar ættir og ótal manna mun frá þér koma. En eg mun eigi á Íslandi aldur ala og mun eg æxla ætt mína annars staðar. En hinn fagri laukur, þar mun nokkur maður sá frá þér koma er ágætari maður mun vera en allir aðrir þínir ættmenn.»

En það gekk svo eftir að frá honum er kominn hinn helgi Þorlákur biskup.

Þorleif dreymdi enn draum og sagði föður sínum: «Góðan draum hefir mig enn dreymt og héðan af mun batna ráð vort. Mér þótti sem Þórný systir mín gæfi mér osthleif og væru af bárurnar.»

«Vera má,» sagði Þorgils, «að hún gæfi ef hún mætti.»

Og nú heyra þeir kall mikið og biðja Íslendinga taka skip sitt «og hafið þér illa við orðið.»

Þeir ganga nú út og sjá konur tvær er tekið höfðu skipið. Þær hurfu skjótt og þá heyrðu þeir að björn einn braust um í vök einni og var brotinn á hrammurinn. Þorgils hleypur til bjarnarins og leggur til hans með sverði. Björninn deyr við það lag. Þorgils þrífur í hlustirnar og lætur eigi sökkva. Síðan drógu þeir hann á ísinn og hlóðu skipið. Dýrið var kalið á fyrra fæti og og má af slíku marka hve mikinn háska þeir Þorgils höfðu af fjúki og frosti í þessari ferð er dýrið var örkumlað af kulda.

Það er sagt að Þorgils deildi stykki hverjum þeirra. Þeim þótti of lítið og ræddu um með sér því hann væri svo harðbýll.

Þorleifur mælti: «Matspar þykir þú nú faðir minn,» sagði hann.

Þorgils segir: «Svo vill vera son minn því að eigi hæfir oss annað svo mjög sem áður erum vér þrekaðir.»

Róa nú fyrir fjörðinn fram og verður sein förin. Snúa nú til hafs meir og róa af margar víkur, fóru gagnleiði. Þá rýmdist ísinn og breiddust sundin. Fóru utarlega fyrir fjörðu fram, drógu skipið stundum milli vakanna. Nú koma þeir á einn mikinn fjörð, stefna fyrir utan mynnið til lægis.

Og um daginn gerðist mæði mikil á þeim. Þorgils var þó miklu hraustastur um allt. Tekur þá nú að þyrsta mjög. Þeir voru þá fimm með sveininum Þorfinni, Þorgils og Þorleifur, Kolur og Starkaður bræður. Vatnið var hvergi í nánd og verður þeim nær farið af drykkleysi.

Þá mælti Starkaður: «Þess hefi eg vitað dæmi að menn hafa blandað allt saman, sjó og hland.»

Taka nú ausskotuna og míga í og kváðu það gert vera ef líf manna lægi við og báðu Þorgils leyfis að. En hann kvað vorkunn á, kveðst hvorki banna né leyfa «en eigi mun eg drekka,» segir hann.

Þeir gerðu drykkinn. Þorgils kveðst nú vilja taka við ausskotunni og kveðst skyldu mæla fyrir minni.

Hann mælti svo: «Þú hið arga og hið illa kvikindi er vora ferð dvelur skalt eigi því ráða að eg skal hvorki drekka minn þarfagang né aðrir.»

Og í því bili fló fugl því líkastur sem álkuungi og skrækti við illilega.

Þorgils segir: «Þetta er enn lítil laun hjá því sem vert var en þér firrtuð mig glæpnum en hugstætt má oss verða þessi skömm og hneisa og héðan af mun batna um vort ráð. Róum nú að ísnum og verum kátir og glaðir og lagði oss nú nær og vildi guð að vér forðuðumst þessa skömm.»

Taka þeir nú vatn á ísinum og var það síð um daginn. Þá segir Þorgils að sjá mundi af hvers völdum var og er þeir voru á sjónum þá fló fuglinn í norðurátt frá skipinu og var stórum illilegur.

Þorgils mælti: «Seint hefir þessi fugl við oss skilið og taki nú allar gramir við honum. En við það unum vér að eigi kom hann því á leið sem hann vildi og veldur guð sjálfur því sá er vér trúum á.»

Koma nú síðan við ey eina og voru þar þrjár nætur áður en þeir sáu tjald af lérefti og kenndu þar líntjald Þóreyjar og fundu þar Þórarin brytja sjúkan. Þeir spyrja hverju faraldi hann hafði þangað komið. Hann sagði kostaboð þeirra Snækolls við sig ef hann vildi eigi fara, að þeir mundu drepa hann, og þeir hefðu verið skammt frá Seleyjum um veturinn. Þeir spurðu hann margs. Kveðst hann nauðigur allt gert hafa «og hafa þeir fé allt en Snækollur lagði járni á Þóreyju.»

Þorgils segir: «Eigi veit eg hvers þú ert af verður en eigi skaltu hér vera.»

Og áður þeir fari á burt þá deyr hann og jarða þeir hann þar. Fara með landi fram.

Tekur nú að hausta og koma á fjörð einn og inn í fjörðinn og komu að nausti. Brýna þar upp skipi sínu og ganga upp frá sjó og sjá bæ lítinn og þar var maður úti fyrir. Hann heilsar þeim og spyr hverjir þeir væru eða hvaðan þeir væru að komnir. Þeir sögðu sem farið var og spyrja hann að nafni. Hann kveðst Hrólfur heita og býður þeim þar að vera og það þiggja þeir. Konur geyma Þorfinns og var honum mjólk gefin. Hann kvað ekki þannig lita mjólk föður síns.

Hrólfur kveðst hafa stokkið fyrir víga sakir úr byggð. Var hann hinn greiðasti við Þorgils, kvað skip farið hafa þar um sumarið og komið ekki við land en sagði leið ekki svo langa sem torsótta. Og þar eru þeir um veturinn.

Og er vorar býður hann þeim þar að vera og slíka kosti sem hann hefir til skips ef þeir vilja. Þorgils segir honum vel fara og kveðst skipið vilja þiggja «og væri skylt að launa þér með góðu.»

Hrólfur kveðst ætla að hann myndi af honum giftu hljóta «því að eg vænti að þú munt í góða virðing koma og ef svo verður mættir þú mig í frið þiggja aftur í byggðina.»

Þorgils heitir honum því og mæla þar hvorir vel fyrir öðrum.

Fara nú suður fyrir landið og gefur þeim vel fararleiði og haustar fyrir þeim. Koma við vetur á Eiríks fjörð, beita fyrir landið, héldu síðan inn í fjörðinn og lögðu í lægi og tjölduðu. Og í því bili sáu þeir kaupskip er utan sigldi í fjörðinn og lögðu í lægi og höfðu eitt veður hvorirtveggju. Komu að einni höfn og lendingu.

Þorgils mælti: «Þetta eru góð tíðindi. Farið Þorleifur og Kolur,» sagði Þorgils, «og hittið mennina og munu þeir kunna að segja nokkur tíðindi.»

Fóru nú og koma að kaupskipinu og gengu út á skipið. Aftur við lyftingina sat maður í rauðum kyrtli og sprettur upp þegar og fagnar Þorleifi vel. Þar var Þorsteinn hvíti fóstri hans og stjúpfaðir. Hann spyr að Þorgilsi. Þeir segja honum að hann var þar. Þorsteinn fer þegar til fundar við hann og verður þar fagnafundur. Kveðst Þorsteinn kominn af Íslandi og kvað ráð hans standa heilt og höfðu ekki til hans spurt á fjórum vetrum. Sagði Þórnýju dóttur hans gifta Bjarna í Gröf Þorsteinssyni goða landnámamanns «og er Þorleifur kom eigi til bjó eg skip af Noregi og fór eg út til Íslands og var eg þar tvo vetur. Og er ekki fréttist til yðvar þá fýsti mig að leita yðvar hingað. Nú er eg feginn orðinn yðrum fundi og allt mitt skal yður jafnheimult sem mér.»

Þorgils kvað ekki mætti stórum betur í hald koma sem að honum væri von. Halda nú um morguninn þangað, tjalda nú búðir á landi.

Menn komu brátt til þeirra og bóndi sá er þar bjó næst hét Þórir. Hann bauð Þorfinni til sín og þangað fór hann. Bóndi vísar þeim til hafnar. Ryðja skip og bera af föng sín. Eiríkur rauði býður Þorgilsi til sín og það þekkist hann og öllum þeim er hann vildi að þangað færu og þangað fóru tólf menn í Brattahlíð. Þorgilsi er skipað gagnvart Eiríki á annan bekk, þá Þorsteini hið næsta honum utar frá, þá Þorleifi, Kol og Starkaði. Þorfinni var fengin fóstra og vildi hann eigi mjólk drekka fyrr en myrkt var að og þá var hann af brjósti vandur. Ekki var Eiríkur margur til þeirra og verður vistin ekki með þvílíku bragði sem Þorgils ætlaði. Þorgils frétti að þrælarnir voru þar í landi með mikla kosti og sögðu fátt satt frá ferðum sínum. Þorgils lét sem hann vissi eigi.

25. kafli

Það varð þar um veturinn að bjarndýr lagðist á fé manna og gerði mikinn skaða mörgum manni. Eru þá stefnur að áttar ef það mætti af ráðast og þar kom að fé var lagt til höfuðs dýrinu og gerðu menn úr hvorritveggju byggðinni. Fátt lét Eiríkur sér til finnast.

Og um veturinn er á líður komu menn til kaupa við þá Þorgils og Þorstein og eru menn margir í útibúri því er varningurinn var í og þar var sveinninn Þorfinnur.

Hann mælti við föður sinn: «Hér er kominn úti rakki fagur faðir minn og sá eg aldrei slíkan fyrr, svo er hann mikill.»

Þorgils segir: «Hirð eigi um það og gakk eigi út.»

Sveinninn hljóp þó út. Bjarndýrið var þar komið og hafði gengið af jöklum og svipti undir sig sveininum. Hann kvað við. Þorgils hljóp út þegar og hafði brugðið sverðið Jarðhússnaut. Dýrið hafði leikið við sveininn. Þorgils höggur milli hlustanna af miklu afli og reiði og klýfur allan hausinn á dýrinu og fellur það dautt niður. Þorgils tekur upp sveininn. Var hann lítt sakaður.

Þorgils verður nú ágætur af þessu verki og þótti stór heill til hans falla. Lögðu margir góða þykkju til hans og færa margir honum bjarngjöldin. Ekki fannst Eiríki margt um þetta verk, lét þó gera til dýrið. Sögðu sumir menn Eiríki að Þorgils hefði haft til þessa verks illan átrúnað.

Frá því er sagt eitthvert sinn um veturinn að menn sátu í heimilishúsi þar í Brattahlíð og þó eigi allir senn því að sumir stóðu fram í húsin er mannmargt var. Þar var Kolur og sveitungar hans. Það er sagt frá tali þeirra að þeir fóru í mannjöfnuð og ræddu um Þorgils og Eirík. Sagði Kolur Þorgils mörg afreksverk gert hafa.

Þá svarar sá maður er Hallur hét, hann var heimamaður Eiríks: «Það er ójafnt,» segir hann, «því að Eiríkur er höfðingi mikill og frægur en Þorgils þessi hefir verið í vesöld og ánauð og óvíst er mér hvort hann er heldur karlmaður en kona.»

Kolur svarar: «Mæl þú manna armastur» og leggur í gegnum hann með spjóti. Fékk hann þegar bana. Eiríkur bað menn sína upp standa og taka Kol. Kaupmenn allir hlaupa til og veita Kol.

Þorgils mælti þá: «Það er næst Eiríkur að þú hefnir sjálfur heimamanns þíns.»

Nú eiga hlut í beggja vinir. Þykir eigi auðsóttlegt að fara að þeim. Nú sættast þeir með því að þeir Þorgils og Eiríkur skulu gera um. Þeir verða vel ásáttir um gerðina en þó fækkaðist síðan með þeim og ætlar Þorgils þar ekki langvistum að vera.

Um veturinn bar það til að mein mikið varð að útilegumönnum. Þorsteinn hét sá er fyrir þeim var. Þeir voru þrír tigir og sekir allir. Urðu menn af þeim fyrir ránum miklum og sögðu til Eiríki. Þeir lágu í eyjum nokkurum í Eiríksfirði. Eiríkur ber upp mál þetta fyrir Þorgilsi og kvaðst vilja hans liðsinni til hafa.

Þorgils kvaðst eigi til þess farið hafa til Grænlands að leggja sig í hættu við illmenni, kvaðst illt hlotið hafa af Eiríki en kvaðst þó eigi nenna að synja ferðarinnar fyrir nauðsyn landsmanna og kvaðst búinn þá er Eiríkur vildi fara en kvaðst vilja gera til lykta áður sín erindi «og vertu þá búinn er eg geri þér orð.»

Eftir það fóru þeir til skips og ætluðu að fara um hina vestri byggð því að menn höfðu eigi goldið Þorgilsi bjarngjöldin. Þorgils færir fram sýknu Hrólfs svo að hann skyldi vera friðheilagur.

En er Þorgils kom í Vestri-byggð tók við honum sá maður er Bjálfi hét. Hann kvaðst mikla þökk kunna hans þarkomu «skal eg taka saman fé þitt því að þú ert frægur maður og muntu mér að liði verða því að eg er í nauðum staddur. Hér liggja fyrir eyjar þær er ránsmenninir eru í og ætlar höfðingi þeirra hingað og taka á burt dóttur mína. Vil eg að þú sért hér til trausts og varnar.»

Þorgils kvaðst það gera mundu. Bóndi fer nú og tekur saman féið og koma eigi víkingarnir. Bóndi kemur heim.

Þorgils mælti þá: «Þú hefir kostað oss bóndi en vér höfum gert þér ekki til gagns svo búið. Nú mun eg fara til móts við víkingana því að ósýnt er um þinn frið þegar vér erum brottu.»

Bóndi þakkar honum en kvað þó mikið í hættu þar er Þorgils var og hans menn.

26. kafli

Nú býr Þorgils skip sitt og fer með þrjá tigu manna. Hann sendi orð Eiríki að hann kæmi með jafnmarga menn. Og er Eiríki komu orðin kvaðst hann mundu koma og verða ekki seinni til eyjanna en þeir. Þeir Þorgils koma nú við eyna og var Eiríkur ekki þar kominn. Þorgils gerir þá ráð við menn sína.

«Leitt er mér,» segir hann, «frá að hverfa en sjá þykist eg Eirík í gegnum. Hann ætlar að vísa oss á illmenni þessi og hyggur að vér munum eigi nenna frá að hverfa þótt hann komi eigi.»

Ekki höfðu víkingar til lands komið síðan Þorgils kom í Vestri-byggð. Sá maður var á Grænlandi er Án hinn heimski hét. Hann hljóp um allt land, kunnur öllum mönnum.

Þorgils lá í einum leynivogi og hafnleysu. Eitthvert sinn stígur Þorgils á bát og rær frá skipinu. Hann sér matsveina á landi og höfðu graut í kötlum. Þorgils hafði vond klæði er hann kom til þeirra. Þeir spurðu hver hann var.

Þorgils svarar: «Eg heiti Án.»

Þeir hlógu að honum enda lét hann heimsklega. Hann spyr hvar höfðingi þeirra er. Þeir sögðu hann vera á eyjunni skammt í burt og þangað von til þeirra um kveldið. Þeir færðu hann í reikuð. Fer Þorgils nú til báts síns og hvelfir honum undir sér.

Þeir hlógu að honum og mæltu: «Undarlega bregður nú við,» sagði annar.

«Hvað er það?» sagði félagi hans.

«Maður er kominn í byggðina sá er Þorgils heitir, mikill og frægur, og því kemur höfðingi vor eigi til lands og heillabrigði er nú orðið. Eg heyrði í morgun er eg kom út þetta mæla skipin. Það skip er Stakanhöfði hét mælti þetta: «Veistu það Vinagautur að Þorgils skal eiga okkur.» «Veit eg það,» sagði annað skipið, «og þykir mér það vel, og ætla eg,» segir hann, «slíkt fyrir tíðindum.»

Nú fer Þorgils aftur til skips síns. Í það mund róa víkingarnir að lægi. Þorgils leggur þá að þeim. Voru víkingarnir komnir til skála. Koma þeir Þorgils þá á óvart og lætur hann þegar leggja eld í skálann. Varð lítil vörn af víkingunum. Gefa þeir sig upp og beiða griða. Þorgils kvað þess enga von fyrir mörg illvirki er þeir höfðu unnið. Var lið þeirra allt drepið utan þeir buðu formanni þeirra grið.

Hann kvaðst eigi það þiggja vilja «því að eg verð yður aldrei trúr.»

Hann var þá höggvinn. Þeir tóku þar fé mikið og höfðu það með sér og svo skipin Stakanhöfða og Vinagaut, fóru nú til lands. Tók Bjálfi vel við þeim. Þorgils gaf mörgum mönnum fé þeim er misst höfðu fyrir víkingunum og hefir þó mikið sjálfur. Verður hann nú vinsæll af þessum verkum. Hrólfur var þá norðan kominn og í frið tekinn. Þorgilsi líkar illa við Eirík.

Þorgils spyr til Snækolls og kvaðst vilja finna hann. Þorsteinn hvíti kvað betur fallið að hann seldi Snækoll við verði en dræpi hann. Það gerði Þorgils. Þrælarnir höfðu fengið góð kvonföng. Þorgils tekur fé allt af þrælunum en seldi þá í þrældóm.

Eftir þetta fór Þorgils burt með góðri sæmd og virðing, láta í haf. Ber þá að Írlandi, koma vestan að landinu, tala nú um hvort þeir skulu þar vera um veturinn eða burt halda. Þorsteinn kvað óráðlegt burt að halda er sumar var mjög áliðið. Tóku menn sér þá vistir nær skipi. Þorgils var á vist með þeim manni er Anakol hét. Var honum þar blíðlega veitt.

Nú líður veturinn. Anakol var vanur að drekka í burtu um hálf jól. Hann bauð Þorgilsi að fara með sér. Hann þá það. Þeir Kolur og Starkaður voru heima meðan til umsjár við Þorfinn.

Gípar hét þræll Anakols. Hann bað Kol drekka karlmannlega.

«Er það auðsætt,» sagði hann, «að þér þykist mikils verðir.»

Kolur kvaðst ætla að ráða drykkju sinni en hann eggjan sinni. Gípar ámælti honum mjög og þar kom að hann laust Kol með horni og bað hann það hafa fyrst og bíða svo hins verra. Starkaður gekk á milli og vildi eigi hefna láta fyrr en Þorgils kæmi heim.

Nú koma þeir Þorgils og bóndi heim og er þeim sagður þessi atburður. Þorgils kvað það vel vera þótt eigi hefði hefnt verið «höfum vér þegið góða vist í vetur hjá bónda. Nú vil eg til bóta mæla» og svo gerði hann.

Bóndi kvaðst ekki þræla mundu mun gera þótt þeir hnippist. Þorgils kvað eigi vel svarað. Og er boðsmenn voru brottu farnir þeir er drukkið höfðu þar efra hlut jólanna tóku þeir Þorgils Gípar og drepa hann eftir jólin. Síðan fóru þeir Þorsteinn til skips og bjuggust til varnar. Þeir sáu lið mikið fara með skjöldum, eigi færra en hundrað manns.

Þá mælti Þorgils: «Má vera að oss sé skjótt fullliða.»

Þá ber brátt að og tók höfðingi þeirra til orða: «Það var mér þá í hug er Þorgils þessi gaf í mitt vald systur mína að eigi mundi eg efla flokk í móti honum.»

Þar var kominn Hugi jarl og bauð þeim með sér að vera og það þágu þeir. Hugi lét bæta skip þeirra og voru þeir með honum það eftir var vetrar. Systir Huga lifði og fagnaði þeim vel. Móðir hennar var önduð. Jarl lét heimta saman fé Þorgils og til skips færa og setti málum þeirra svo að þeim hugnaði vel og gaf þeim gjafir áður þeir fóru brott.

27. kafli

Síðan létu þeir í haf og velktust úti lengi og komu við Hálogaland um haustið og brotnaði kjölurinn undan skipinu.

Björn hét góður bóndi. Hann tók við Þorgilsi, Þorfinni og Kol en Þorsteinn, Þorleifur og Starkaður vistuðust þar í nánd. Snemmendis bættu þeir skip sitt.

Sá maður hvarflaði þar um land er Randviður hét. Hann var illmenni mikið. Hann kom til Bjarnar bónda og kvaðst vilja taka við dóttur hans er Ynghildur hét eða berðist við hann ef hann vildi það heldur. Þorsteinn vildi berjast við þenna mann.

«Eigi vildum vér,» segir Þorgils, «að þú hefðir þig í hættu fyrir illmenni þetta og vil eg heldur berjast við hann.»

Þorgils finnur Randvið og bað hann láta bónda vera í friði, gamlan mann. Hann kvaðst einskis mundu hans orð um það virða.

Þorgils mælti: «Eg vil leysa bónda.»

Þorgils gengur á hólm við Randvið og höggur þegar skjöld hans ónýtan. Því næst höggur hann kappann sundur í miðju en við höggið skaut Randviður sverðinu utan á kné Þorgilsi og særði hann. Það sár greri svo að fótur hans sá var skemmri síðan og varð hann aldrei óhaltur. Björn þakkar honum vel og bauð Þorgilsi fé en hann kvaðst það ekki til fjár gert hafa. Skildu þeir vinir.

28. kafli

Eftir það létu þeir í haf og höfðu harða útivist þar til er þeir sáu land. Þá tók af byrina og kom á norðanveður hvasst og rak þá undan tólf daga. Síðan kom sunnanveður hvasst og sigldu tvö dægur að landinu. Þá vildi Þorgils eigi lengur sigla láta. Hann var þá tvö dægur í austri. Þá höfðu gengið átta áföll. Starkaður bauð honum að fara frá austri. Þá kom áfall hið níunda og var það mest. Það rak Þorgils af austurbitanum og sló sveininn Þorfinn úr knjám honum og utanborðs.

Þá mælti Þorgils: «Sú bylgja gekk nú yfir að eigi þarf að ausa.»

Báran kastaði inn aftur sveininum lifanda.

Hann mælti þá: «Stórum stöplar nú yfir faðir minn.»

Þorgils mælti þá: «Ausi hver sem má.»

Þeir gerðu svo og gátu upp ausið. Samdægris kom blóðspýja að sveininum og andaðist hann. Tveim nóttum síðar þá sáu þeir Hjörleifshöfða. Þeir komu í Arnarbælisós. Nú vildu þeir fara með lík Þorfinns til kirkju. Þorgils kvað þá lengi fylgst hafa, sagði þá og ekki að svo búnu skilja mundu. Þorsteinn spurði Starkað hvort hann vildi heldur teygja Þorgils á land eða fara með líkið til graftrar.

29. kafli

Sigmundur hét maður. Hann heimti skiptoll að Þorsteini því að hann átti land að annast þar er þeir voru komnir. Nú gerðu þeir Þorsteinn og Sigmundur það ráð að þeir hnipptust við. Þá sagði Kolur Þorgilsi að Þorsteinn þyrfti manna við. Þorgils hleypur þegar á land og beit þetta ráð. Urðu þeir Sigmundur og Þorsteinn vel sáttir. Kolur tók lík Þorfinns og gróf í kirkjugarði. Og er Þorgils verður var við hvað Kolur hafði gert varð hann reiður mjög og hét honum bana. Kolur kvað það tilvinnanda ef Þorgils raknar við þá heldur en áður og við umtölur Þorsteins sættust þeir. Fjögur dægur hafði Þorgils hvorki mat né svefn. Þorgils kvaðst mundu vorkynna konunum þótt þær ynnu brjóstbörnunum meira en öðrum mönnum.

Litlu eftir þing komu þeir Þorgils út og fór hann heim í Traðarholt og Þorsteinn með honum og aðrir félagar. Hæringur bróðir hans tók við honum vel og vildi að Þorgils tæki við fjám sínum. Þorgils kvaðst eigi vilja við taka fyrr en að vori. Þorsteinn og Þorleifur fóru utan samsumars. Skildu þeir Þorgils vel sitt félag. Þorgils var í Traðarholti um veturinn og þeir bræður með honum, Kolur og Starkaður. Með honum voru fleiri menn þótt eigi séu nefndir. Hæringur veitti þeim vel.

Þorgils mælti eitt sinn við bróður sinn: «Einn hlutur þykir mér að við þig frændi er þú lést svo mikið fé fylgja dóttur minni Þórnýju þá er þú giftir hana Bjarna í Gröf.»

Hæringur svarar: «Vel þótti þá séð fyrir kosti hennar er hún hafði hundrað hundraða en ef þér þykir nokkuð oftekið þá haf af mínu fé slíkt er þér vel líkar.»

Þorgils vildi það með engu móti.

30. kafli

Að liðnum vetri tekur Þorgils við búi sínu og öðrum fjárhlutum. Felldu menn þegar mikla virðing til Þorgils. Hann var heldur fár við Bjarna mág sinn. Um vorið kom fjölmennt til Árnessþings. Kom þar Þorgils og Bjarni mágur hans og Þórný dóttir hans.

Þorgils gekk einn morgun til búðar Bjarna og tók sverðið Jarðhússnaut í hönd sér. Og er hann kemur í búðardyrnar sér Þórný dóttir hans að hann er kominn og bað Bjarna upp standa, kvað honum eigi hlýða svo búið, sagði föður sinn reiðan.

Bjarni spratt upp þegar því að hann var vitur maður. Hann gekk í móti Þorgilsi og fagnar honum vel og bauð honum þar að vera «og allt mitt góss er þér heimilt til þess að þér megi þá betur líka við mig heldur en áður.»

«Þetta er allvel mælt,» segir Þorgils, «og skal þetta þiggja ella óvíst hversu farið hefði.»

Bjarni bauð honum þá til heimboðs. Þorgils kvaðst fara mundu af þinginu með honum og hafa burt fé slíkt er honum líkaði. Bjarni bað hann því ráða og koma þeir í Gröf og leit Þorgils á féið og kvaðst burt mundu hafa tuttugu kýr og hundrað ásauðar. Þórný bað hann taka slíkt er hann vildi og sagði það mundi best gegna að hann réði fyrir.

Maður hét Þórólfur. Hann hafði verið með Þórði, föður Þorgils, og náinn frændi. Hann átti fé að Þorgilsi og beiddi Þorgils að hann mundi gjalda Þórólfi fjóra tigu hundraða. Bjarni hét að hann skyldi ráða, skildu við svo búið.

Og er Þorgils kom heim kom þar Þórný dóttir hans. Þorgils spyr hvað hún vill. Hún sagðist vilja fylgja fé sínu ef honum þætti það meiri sómi að skilja með þeim Bjarna «og ráða þess manns traust undan mér er þér er mestur bati í og þér er sjálfrátt að láta þinn hlut fyrir neinum manni ef þið eruð að einu ráði báðir.»

Þorgils svarar: «Vel fer þér dóttir og vel fer ykkur báðum. Nú skaltu heim fara og vil eg eigi skilja ráðahag með ykkur Bjarna» og leggur þeim nú svo peninga að þeim vel líkar.

Og um sumarið býður Þorgils Bjarna og báðum þeim heim í Traðarholt og þágu þar góðar viðtökur og miklar gjafir og er nú góð vinátta með þeim Bjarna.

Einnhvern tíma segir Þorgils Bjarna að hann vill leita sér kvonfangs.

Bjarni kvaðst það gjarna vilja: «Þú skalt biðja Helgu, dóttur Þórodds goða í Ölfusi Eyvindarsonar frænda míns.»

En þar var svo farið frændsemi að móðir Þórodds var Þórvör dóttir Þormóðar en Þórvé var móðir Þorsteins goða föður Bjarna spaka.

Þorgils vekur nú bónorðið. Skafti tók því seint og svo Helga sjálf, þótti maður heldur stórlyndur og þó heldur gamall. Annar maður bað og Helgu. Var það Ásgrímur Elliða-Grímsson. Svarar Skafti þar vel til en Þóroddur vill heldur gifta Þorgilsi. Nú var þetta talað á þingi og var ekki að gert. Líða nú þau misseri.

Og annað sumar eftir ríður Þorgils til skips í Einarshöfn. Hann fréttir til ferða Skafta og vildi fyrir víst finna hann. Þorgils reið til Flóagafls við sétta mann. Þeir voru með honum bræður, Kolur og Starkaður, og Þórólfur frændi hans og tveir húskarlar. Þeir voru í hrísum nokkurum og bíða svo Skafta. Þetta var nær Kallaðarnesi. Skafti sá frá ferjunni að hestar með söðlum gengu með ánni. Skafti sagði að þeir mundu aftur snúa, kvaðst frétt hafa að síðar mundu betri kaupin og fóru þeir heim.

Þóroddur spurði hví hann færi svo skjótt aftur «eða hræddist þú hann hraunskeggjann Þorgils og þætti mér það betra að ríða óhræddum um héraðið og gifta honum Helgu en vera hvergi óhræddur um þig.»

Á þingi um sumarið var talað um gjaforð Helgu. Dregur Þóroddur fram með Þorgilsi en Skafti með Ásgrími.

Þóroddur mælti þá: «Eg kann sjá hversu fara mun ef Þorgilsi er synjað konunnar þá mun það margra manna vandræði en eg vænti með vingjöfum góðum að Ásgrímur láti óhappalaust.»

Nú við þessi atkvæði Þórodds var það af ráðið að Þorgilsi var föstnuð Helga og var brúðhlaup að Hjalla. Þá var Þorgils hálfsextugur. Fer hann nú heim í Traðarholt með Helgu og var hún mjög fálát.

Og eitt sinn er Þorgils var á burtu að byggja jarðir sínar kveðst Helga vilja fara til Hjalla og heim um kveldið og bað húskarl einn fara með sér. Og er þau koma til Hjalla kvað Helga húskarlinn ekki þurfa sín að bíða. Skafti tók vel við Helgu en Þóroddur illa. Er hún þar margar nætur. Þorgils kemur heim og lætur sem hann viti eigi. Og einn dag býr hann ferð sína og ríður til Hjalla og voru menn að mat. Þorgils gengur með borðum alvopnaður og að Helgu, tekur í hönd henni og leiðir hana út og þótti þeim sem inni sátu maðurinn ekki dællegur. Skafti biður menn eftir sækja.

Þóroddur svarar: «Þorgils sækir eftir sínu og skal mönnum eigi hlýða að fara eftir honum.»

Þorgils ríður nú heim og sendir hann orð Skafta að þeir hittist. Er nú svo gert. Sættast nú við tilstilli Þórodds og gerðist vinátta með þeim og varð Þorgils höfðingi og virðingamaður mikill.

31. kafli

Frá því er sagt eitthvert sinn að þau Þorgils og Helga sátu úti og hrein hænan við hananum en haninn leggur að henni og ber hana þar til er hún mæðist.

Þorgils mælti: «Sérð þú Helga sameign þeirra hana og hænu.»

Helga svarar: «Hvers er það vert?» segir hún.

«Svo má vera,» segir Þorgils, «annarra viðeign.»

Gerast nú góðar samfarar þeirra. Son áttu þau Þorgils og Helga er Grímur glömmuður hét. Þorgils var nú gamall og þó hraustur.

Sá maður bjó skammt frá Þorgilsi er Sámur hét. Kona hans hét Þorfinna. Sá maður var þar í sveit er Bjálfi hét, óeirðarmaður. Hann glapti konu Sáms og settist í bú hans löngum en heitaðist við bónda. Honum líkar þetta illa.

Bjálfi bauð bónda hólmgöngu «ella gef upp konu þína.»

Sámur fer nú að finna Þorgils og segir honum að Bjálfi bauð honum einvígi.

«Eg skal hjálpa við þínu máli,» segir Þorgils.

Fer Sámur nú glaður heim. Annan dag fer Þorgils og hittir Sám. Hann fagnar honum vel. Og litlu síðar kom Bjálfi og spurði hví hann væri þar og kvaðst enga þökk kunna hans komu.

«Ekki fer eg að því,» segir Þorgils, «því að vel má eg þar koma sem þú kemur. Og þar sem þú hefir boðið Sámi einvígi skaltu mér mæta en ekki honum.»

Bjálfi svarar: «Það kemur til þess að Sámur greyið þorir eigi að berjast við mig.»

Nú ganga þeir á hólm og er ekki sagt frá viðskiptum annað en Þorgils drepur Bjálfa og frelsti svo bónda «og naustu þess að,» segir Þorgils, «að þú varst svo nær mér.»

Ásgrímur Elliða-Grímsson var höfðingi mikill og farmaður og átti skip í förum. Hann átti tvo sonu og hét hvortveggi Þórhallur. Hinn eldri Þórhallur var þroskaður mjög þá er þetta var. Gunnvör hét dóttir Bjarna í Gröf. Hún var eigi dóttir Þórnýjar. Gissur hvíti bjó þá í Höfða og átti Þórdísi dóttur Þórodds. Móðir Ásgríms var Jórunn Teitsdóttir. Þorgils átti land nær skipalægi og lá þar á hafnartollur og heimti að maður skiptollinn er á landinu bjó og galt Ásgrímur aldrei toll þeim er á landi Þorgils bjó.

32. kafli

Eitthvert sinn hittir Þorgils Ásgrím og biður að hann minnist í nokkuru um tollinn. Ásgrímur segir að skip koma þar sem auðið verður en kvaðst eigi vanur að gjalda skiptolla sem smábændur og bað hann eigi heimta slíkt. Þorgils kvaðst það fyrir annars hönd gera en eigi fyrir sína og skilja þeir nú við svo búið.

Um vorið voru menn kvaddir af Ásgrími til skipsdráttar og kom fjöldi manns. Pyttar voru um sandana víða og voru fullir með vatni þó að fjara væri. Ásgrímur tók á festum í fremra lagi og voru þar mest konur hjá honum. Hann var í litklæðum. Tóku nú fast á. Maður reið á landinu fyrir ofan, mikill vexti og hafði bolöxi í hendi. Hann horfir á skipdráttinn. Ásgrímur eggjar nú fast að menn herði sig vel. Og er Þorgils var kominn að flæðarpyttinum sá hann að Ásgrímur hélt á strenginum. Hleypur hann þá til og höggur strenginn og verður afturhlaupið hart og hrapar Ásgrímur í pyttinn og konurnar á hann ofan. Urðu öll klæðin Ásgríms vot og þrekkótt og svo hann sjálfur. Þetta þykir honum mikil svívirðing ger til sín. Verður nú vís hver gert hefir og kvað þá Þorgils varla mega við svo búið skilja.

Þórhallur bað hann utan fara «og megi þá sjatna þessi óþokki er í millum ykkar er.»

Ásgrímur kvaðst mundu ráða sjálfur ferðum sínum.

Það var einhvern tíma að Þórhallur bað Ásgrím föður sinn fara með sér til kvonbæna til móts við Bjarna bónda í Gröf.

Ásgrímur segir að það var í mörgu lagi góður kostur «en illt þykir mér að Þorgils er þar nokkuð við riðinn.»

«Að Þorgilsi er ekki mein,» segir Þórhallur.

Síðan fara þeir. Bjarni svarar vel og er þessum ráðum ráðið. Ásgrímur biður að Þorgilsi skuli ekki bjóða til boðsins.

Bjarni svarar og kvaðst honum mundu allvel fagna ef hann kæmi «en gera eigi mann til hans fyrir bæn þína.»

Bjarni býst nú við brúðlaupinu.

Einn dag kemur Þórný inn og segir að maður reið úr skógum neðan «og er líkur föður mínum.»

Bjarni gekk út og var Þorgils kominn og þræll hans með honum. Bjarni fagnaði honum vel.

Þorgils mælti: «Hví bauðst þú mér ekki til boðsins mágur?»

«Þér er jafnan sjálfboðið,» segir Bjarni, «og þá vel kominn er þú vilt verið hafa.»

Ásgrímur kom um kveldið og gekk Bjarni í móti honum og fagnaði honum vel. Þá spurði Ásgrímur hvort Þorgils væri þar.

Hann kvað hann þar vera «og mun hann hér dveljast. Gerði eg nú sem þú mæltir að eg bauð honum eigi en ávallt skal hann vera hjá mér er hann vill.»

Ásgrímur verður óður við og vill ríða heim. Þórhallur biður hann eigi það gera og það verður að hann er þar og er heldur óglatt um boðið. Og er menn búast frá boðinu sjá menn að þeir fara húsa á milli, Ásgrímur og Kolur þræll, og töluðu.

Nú ríða menn um kveldið heim. Þorgils bóndi og þræll hans Kolur riðu síð um kveldið ofan hjá Húsatóftum. Ásgrímur hafði fengið þrælnum þrjár merkur silfurs til höfuðs Þorgilsi. Kolur hafði hest latan og hvikaði hesturinn undir honum. Þorgils laust þrælinn og féll fésjóðurinn undan yfirhöfn hans. Þorgils spyr hvaðan féið kom að. Þrællinn sagði sem var. Síðan drap hann þrælinn þar sem nú heitir Kolslækur.

Nú þykir Þorgilsi Ásgrímur sannur að fjörráðum við sig, lætur nú safna mönnum og verða vel fjórir tigir, ætlar nú að fara stefnuför til móts við Ásgrím. Nú hittir Gissur hvíti Þorgils og spyr hversu hann ætlar til um ferðir sínar. Hann kvaðst ætla að sækja heim Ásgrím Elliða-Grímsson.

Gissur svarar: «Það er óráðlegt því að hann er miklu fjölmennari en þú.»

Þorgils kvaðst eigi hirða um fjölmenni hans. Nú letur Gissur ferðarinnar og að bæn hans reið hann í Eyna og kvaddi níu búa. Eftir það fara þeir í burt og þykir sem lögfullt sé.

33. kafli

Nú koma menn til þings fjölmennt. Skafti spyr mág sinn Þorgils hvern málatilbúnað hann hefði haft. Hann kveðst níu búa kvatt hafa.

Skafti segir: «Varat af vöru, sleikti um þvöru. Lát niður falla, engu er nýtt.»

Þorgils segir: «Því mun það sæta?»

Skafti segir: «Kunnig eru mér svo lög mágur að eg veit að rangt er til búið og eru þau ein málaefni með ykkur Ásgrími að best er að niður falli. Hafa svo farið skipti ykkur Ásgríms flest að þú ert ekki vanvirður í þótt þið skiljið við svo búið. Unnum vér þér sæmdar og hógsetu héðan af og má af þér margt tala það er mikilmannlegt er og skörulegt.»

Ríða menn nú af þingi og sefast Þorgils við umtölur mága sinna og vina.

Helgi hét Austmaður er út kom í Einarshöfn og átti ferð upp í hérað og fer með varning sinn upp í Þrándarholt. Þorgils reið að ofan úr Gröf og riðust á móti. Helgi reið Þorgils næsta af baki og hló að honum er hann var bjúgur á baki, kveðst eigi það mega á sjá að hann hefði verið garpur mikill.

Þorgils reiddist við og mælti: «Ekki hafa menn það gert að færa spott að mér. En svo hæðilegur sem þér þykir eg nú vera þá býð eg þér einvígi þegar í stað og er þá reynt hvort þú berð skjótt af mér.»

Þeir hittust fyrir neðan grindgarð en veður var á kalt í móti Þorgilsi og sat hann því bjúgur á baki.

Helgi kvað sér engan frama í «að bera af fretkarli þínum» en kveðst þó eigi vilja undan ganga.

Austmaðurinn hafði öxi í hendi og leit á öxina og þótti sljó.

Þorgils mælti: «Hvassara vopn muntu þurfa ef bíta skal mín höfuðbein og er vopn þitt ókarlmannlegt.»

Þorgils hafði sverð sitt Jarðhússnaut og var alvopnaður sem hann var aldrei öðruvís. Þorgils hljóp þegar geystur að honum Austmanninum og höggur til hans með sverðinu Jarðhússnaut og kom sverðið á öxlina og var svo mikið sár að honum vannst það skjótt til bana. Þá var Þorgils sjötugur. Þorgils kvað þetta orðið glappaverk og bráðræði og kveðst þetta helst bæta vilja.

Og tveim vetrum síðar komu út í Einarshöfn tveir bræður Helga og ætla til hefnda. Hét annar Einar en annar Sigurður og varð ekki vart við skipkomu. Þeir fóru þegar í Traðarholt og komu þar snemma dags og var Þorgils í hvílu sinni en verkmenn voru á fótum og konur. Og er þeir bræður komu að bænum þá töluðust þeir við hversu með skyldi fara.

Einar mælti: «Illt þykir mér að drepa gamlan mann, frægjan og vinsælan, og er skaði mikill ef hann lætur af berast.»

Þorgils verður nú var við og sprettur upp þegar og tekur Jarðhússnaut og bað þá að ganga ef þeir vildu og brást þó nokkuð á fótinn halta.

Einar mælti: «Eigi viljum við bræður gera þér ófrið og skal annað verða erindi okkað ef eg ræð.»

Þorgils tók þessu vel og hýrðist skjótt í viðbragði og sagði svo: «Eg er þess miklu fúsari og muntu vera góður drengur. Og þar er eg drap Helga bróður ykkarn þá vil eg það bæta og gefa vil eg þér Einar sverðið Jarðhússnaut því að þú ert verður að bera, bróður þínum fimm merkur silfurs nema þið skiptið annan veg» og skildu þeir vel og drengilega. Fóru þeir utan eftir það.

Eitt sinn er þau hjón fóru til bús á Hjalla tók Þorgils þar sótt. Þá var hann hálfníræður. Hann lá viku og andaðist þar og voru þeir í eina gröf lagðir, Þóroddur og Þorgils og Bjarni hinn spaki, að þeirri kirkju er Skafti lét gera fyrir utan lækinn. En síðan voru færð beinin í þann stað sem nú er kirkjan því að Skafti hét að gera kirkju þá er Þóra kona hans braut fót sinn þá er hún var að léreftum sínum.

Þorgils þótti hinn mesti merkismaður, vinfastur og vinveittur, þrautgóður og þróttigur, eljunarmaður og óáleitinn og hélt sig við alla til jafns þótt miklir menn og sterkir ættu í hlut. Þótti hann og hinn mesti sveitarhöfðingi. Hann var sáttgjarn og svinnur en móðugur og mjög þungrækur við þá er eigi vildu sig vel siða. Hann var tryggur og trúrækinn, guðhræddur og góður vinum sínum. Er og margt stórmenni frá honum komið og víða dreifst hér um land vort. Munum vér nú hætta fyrst að segja frá Þorgilsi örrabeinsstjúpa og lýkur þar sögu þessi.


(Hér koma kaflar úr styttri gerð sögunnar, fyrst lok 18. kafla til miðs 25. kafla.)

Þórey hét kona. Hún var Þorvarðsdóttir. Þorfinna hét móðir hennar. Hún bjó í Odda. Þorvarður var andaður. Þórey var að fóstri á þeim bæ er heitir í Kálfholti með þeim manni er Jósteinn hét, gildur bóndi. Jósteinn átti systur Þorvarðar í Odda er Þorgerður hét. Þau voru börn Þórðar Freysgoða. Kolur og Starkaður voru fóstbræður Þóreyjar. Guðrún hét systir þeirra og var hún fóstsystir Þóreyjar. Þorgils bað Þóreyjar og var hún honum gift. Voru þeirra samfarar góðar.

19. kafli

Sörli hét maður. Hann bjó skammt í brott frá Kálfholti. Hann venur komur sínar til Guðrúnar systur þeirra Starkaðar og Kols. Einn tíma fer Kolur á leið Sörla og bað hann af láta komum til systur sinnar. Sörli kvaðst það mundu gera eftir hugþokka sínum en hirða ekki um orð hans.

«Þú munt ráða,» segir Kolur.

Annan dag kom Sörli og sat á tali við Guðrúnu. Og um kveldið fer hann seint heim. Og er hann kemur skammt frá bænum sprettur Kolur upp fyrir honum. Verður ekki af kveðjum. Höggur Kolur Sörla banahögg og fór heim og sagði Guðrúnu að stöðvaðar voru komur Sörla.

Hún kvaðst eigi það lasta mundu en kvað eigi svo búið hlýða mundu því að hann var þingmaður Ásgríms Elliða-Grímssonar «far nú og hitt Þorgils því að hann þykir mér líklegastur til að veita þér nokkuð skjól.»

Kolur kemur í Traðarholt. Það var síð um kveld. Menn voru að mat. Þórey gekk fram til dyra og bauð fóstra sínum þar að vera. Hann sagði henni tíðindi.

«Þú skalt það,» segir Þórey, «vita við Þorgils hvort hann vill nokkuð traust veita þér eða ekki og láttu hljótt um þig.»

Hún leiddi hann í skot eitt. Síðan gekk hún til stofu.

Þorgils mælti: «Hví skulu menn svo lengi bíða matar í kveld enda hefir þú fengið rauðan lit.»

Þórey svarar: «Satt er hið fornkveðna að spakir menn henda á mörgu mið. Mús hljóp áðan á kinn mér en mér er hún harla óþekk.»

«Svo má vera,» segir Þorgils.

En er þau komu í rekkju um kveldið kvaðst Þorgils vilja vita hvað í framgöngunni hafði verið um kveldið.

Hún sagði honum allan atburðinn og kvaðst ásjá vilja veita Kol «og muntu og svo gera fyrir mína skyld.»

Þorgils kvaðst svo gera mundu. Um morguninn fór Þorgils til bús Kols og lét fara á burt fé allt með sér og Guðrúnu en lét eftir ómegð aðra. En er þeir voru burt farnir kom Ásgrímur. Ætlar hann að taka upp fyrir Kol fé allt og hafði hann ekki. Kolur situr hjá Þorgilsi um veturinn. Og um vorið býr Ásgrímur mál til á hendur Kol. Lætur Þorgils eigi sem hann viti. Verður Kolur sekur skógarmaður.

Þorgils ríður sem áður um héraðið og Kolur með honum, sækja mannamót og verður nú óþokki mikill manna á milli. Höfðingjum þykir mein á þessu og leita um sættir. Þorgils býður ekki sættir.

Eitt sinn ríður hann til hestaþings og Svartur verkstjóri hans með honum. Var þá góð gleði um daginn. Ásgrímur talar mart við Svart um daginn og að kveldi ríður Þorgils heim. Svartur reið nær Þorgilsi. Þorgils fann að hann vildi ríða seinna. Grunar hann þá og gefur honum færi á sér. Og er Þorgils varir minnst höggur Svartur til hans. Þorgils kastar sér úr söðlinum og klauf Svartur söðulinn. Þorgils þrífur Svart og spyr hverju gegnir. Hann segir honum að Ásgrímur bauð honum þetta. En þá er hann svipti Svarti féll fésjóður undan yfirhöfn hans. Segir hann þá að Ásgrímur hafi gefið honum féið til höfuðs Þorgilsi. Hann drepur Svart þegar í stað. Eftir það ríður Þorgils fram og segir sínum mönnum hversu farið hafði. En hvert sinn er hann kemur á mannamót sýnir hann sjóðinn. Voru þar í þrjár merkur silfurs og gekk enginn við að ætti.

20. kafli

Nú kom kristni á Ísland og tók Þorgils í fyrra lagi við trú.

Hann dreymdi eina nótt að Þór kæmi að honum með illu yfirbragði og kvað hann sér brugðist hafa «hefir þú illa úr haft við mig,» segir hann, «valið mér það er þú áttir verst til en kastað silfri því í fúla tjörn er eg átti og skal eg þér í móti koma.»

«Guð mun mér hjálpa,» segir Þorgils, «og er eg þess sæll er okkað félag sleit.»

Og er Þorgils vaknar sá hann að töðugöltur hans var dauður. Hann lét grafa hann hjá tóftum nokkurum og lét ekki af nýta.

Enn barst Þór í drauma Þorgilsi og sagði að honum yrði eigi meira fyrir að taka fyrir nasar honum en galta hans. Þorgils kvað guð mundu því ráða. Þór heitaðist að gera honum fjárskaða. Þorgils kvaðst eigi hirða um það. Aðra nótt eftir dó uxi gamall fyrir Þorgilsi. Þá sat hann sjálfur hjá nautum um nóttina eftir. En um morguninn er hann kom heim var hann víða blár. Hafa menn það fyrir satt að þeir Þór muni þá fundist hafa. Eftir það tók af fallið.

Þorgils var hið mesta mikilmenni. Honum komu orðsendingar af Grænlandi að Eiríkur rauði býður honum til sín og að hafa þá kosti er besta hefir hann til. Þorgils áhlýddist lítt við það. Hann hafði þá búið hér þrettán vetur. Skip kom af hafi. Var þar á Þorleifur son hans og hafði góða gripi að færa honum. Þorleifur var þá tvítugur. Þorgils talar við konu sína ef hún vildi fara til Grænlands. Hún kvað vanbreytt um.

Hann sagði að Eiríkur hafði sent sér orð um «má og að þú sért eftir ef þú vilt það.»

«Misráðið mun,» segir hún, «að þangað sé farið en þó skal eg fara ef þú ferð.»

Hæringur tók við góssum Þorgils. Þórný hét dóttir þeirra Þorgils og Þóreyjar. Hún var átta vetra. Þorleifur skal fara með þeim, Kolur og bróðir hans Starkaður og Guðrún systir þeirra, Snækollur og Össur þrælar hans og tíu aðrir þrælar og ráðsmaður hans Þórarinn því að Þorgils ætlaði bæ að reisa þá er hann kæmi til Grænlands. Jósteinn úr Kálfholti réðst til ferðar með Þorgilsi við tólf menn, Þorgerður kona hans og sonur. Þorgils kaupir nú skip í Leiruvogi. Þórólfur hét maður er Þorgils fékk bú í hendur. En Hæringi fékk hann sex tigu hundraða mórent sex álna aura annað en staðfestur.

Þorgils gisti að Þórodds að Hjalla. Með honum var í ferð Þórný dóttir hans. Þar tók hún sótt og beið Þorgils þar þrjár nætur. Sagði hann að það stæði ekki fyrir ferð hans þótt hún væri sjúk «má vera að hér séu hennar forlög.»

Þóroddur kvaðst ætla að hún mundi giftudrjúg verða og langlíf. Lét hann hana eftir og gaf henni fjóra tigu hundraða ef hún þyrfti. Þorgilsi kvaðst nú fyrir þykja að fara en lést eigi nenna aftur að setjast.

21. kafli

Þorgils bíður nú byrjar og dreymir að maður kæmi að honum, mikill og rauðskeggjaður, og mælti: «Ferð hefir þú ætlað fyrir Þér og mun hún erfið verða.»

Draummaðurinn sýndist honum heldur grepplegur.

«Illa mun yður farast,» segir hann, «nema þú hverfir aftur til míns átrúnaðar. Mun eg þá enn til sjá með þér.»

Þorgils kvaðst aldrei hans umsjá hafa vilja og bað hann burt dragast sem skjótast frá sér «en mín ferð tekst sem almáttigur guð vill.»

Síðan þótti honum Þór leiða sig á hamra nokkura þar sem sjóvarstraumur brast í björgum «í slíkum bylgjum skaltu vera og aldrei úr komast utan þú hverfir til mín.»

«Nei,» sagði Þorgils, «far á burt hinn leiði fjandi. Sá mun mér hjálpa sem alla leysti með sínum dreyra.»

Síðan vaknar hann og segir drauminn konu sinni.

«Aftur mundi eg setjast,» segir hún, «ef mig hefði svo dreymt og eigi vil eg segja Jósteini draum þenna og eigi öðrum mönnum.»

Nú kemur byr og sigla þau út úr firði. Hafði Jósteinn skip fyrir framan siglu. Og sem þau koma úr landsýn tekst af byr allur og velkjast þau úti lengi svo að bæði varð matfátt og drykkjarfátt.

Þorgils dreymdi að hinn sami maður kæmi að honum og mælti: «Fór eigi sem eg sagði þér?»

Þór talaði þá enn mart við Þorgils en Þorgils rak hann frá sér með hörðum orðum.

Tekur nú að hausta og mæltu sumir menn að þeir skyldu heita á Þór. Þorgils bannaði það og sagði að menn skyldu missmíði á finna ef nokkur maður blótaði þar í skipi. Við þessi orð treystist engi á Þór að kalla.

Eftir þetta dreymdi Þorgils að sami maður kom að honum og mælti: «Enn sýndist það hversu trúr þú varst mér er menn vildu á mig kalla. En eg hefi beint nú fyrir þínum mönnum og eru nú komnir að þrotum allir ef eg dugi þeim eigi. En nú muntu taka höfn á sjö nátta fresti ef þú hverfur til mín af nokkurri alvöru.»

«Þó eg taki aldrei höfn,» segir Þorgils, «þá skal eg þér ekki gott gera.»

Þór svarar: «Þótt þú gerir mér aldrei gott þá gjalt þú mér þó góss mitt.»

Þorgils hugsar hvað um þetta er og veit nú að þetta er einn uxi og var þetta þá kálfur er hann gaf honum. Nú vaknar Þorgils og ætlar nú að kasta utan borðs uxanum. En er Þorgerður verður þess vís falar hún uxann því að henni var vistafátt. Þorgils sagðist vilja ónýta uxann og engum selja. Þorgerði þótti nú illa. Hann lét kasta uxanum útbyrðis og kvað eigi kynlegt þótt illa færist er fé Þórs var innbyrðis.

22. kafli

Þau eru nú úti um hríð og höfðu harða réttu. Þórarinn var knáastur maður annar en Þorgils. Hann var tvítugur að aldri. Það er sagt að þeir brutu skipið undir Grænlandsjöklum í vík nokkurri við sandmöl. Tók skipið í sundur í efra rúmi. Menn héldust allir og svo fé. Bátur var og heill. Stafn rak upp við syðra land. Þá var vika til vetrar. Jöklar miklir gengu tveim megin víkurinnar. Þeir gera sér nú skála og í þverþili. Búa nú sínum megin hvorir. Mjöl nokkuð höfðu þeir til atvinnu sér, henda og af selum og eiga það allir saman. Dautt var fé þeirra flest. Þorgils manna varð betri hluti af veiðifangi. Varð hann lengrum hlutsælli. Hann bað sína menn vera hljóðláta og siðsama á kveldum og halda vel trú sína. Þórey var mjög þunguð. Það er sagt að Jósteinn og hans menn gerðu mikið um sig og höfðu náttleika með háreysti. Nær veturnóttum varð Þórey léttari að sveinbarni og hét Þorfinnur. Hún bjargaðist lítt við þá fæðu er til var. Þorgils hafði útróðrarmenn með þrælum Jósteins. Líður nú á veturinn og dregur að jólum. Þorgils biður menn hljóða vera og fara snemma í rekkju.

Jólamorgun var veður gott og voru menn úti um daginn og heyrðu óp mikið í útnorður og kemur annar dagur í jólum. Þorgils háttar snemma og er þau höfðu sofið svefn kom Jósteinn inn og hans menn og er heldur mikið um þá. Og er þeir voru niður lagstir er drepið högg mikið á dyr.

Þá mælti einn þeirra: «Góð tíðindi munu nú vera» og hljóp út og varð hann þegar ær en um morguninn deyr hann. Svo fer annan aftan að maður ærist og kallast sjá hinn hlaupa að sér er áður dó.

Eftir það kom sótt í lið Jósteins og deyja sex menn. Þá tekur Jósteinn sótt og deyr hann. Síðan eru þeir kasaðir í mjöllinni. Þorgils ræðir um við sína menn og bað þá við sjá slíkum fádæmum. Á bak jólum gengu þessir menn allir aftur. Þá tók Þorgerður sótt og andast og þar næst hver að öðrum þeirra manna er með Jósteini höfðu verið. Þórarinn lést síðast. Voru nú allmiklar afturgöngur og sóttu mest Þorgils. Öll voru þau dauð í miðja gói. Ekki mátti Þorgils og hans menn í burt færast meðan afturgöngur voru sem mestar. Í þenna hluta skálans gengu þau mest aftur er þau höfðu átt. Þorgils lét brenna þau öll á báli og varð þaðan af ekki mein að afturgöngum.

Nú líður á veturinn og máttu þeir eigi burt leita fyrir ísum og fengu sér vistir um sumarið. Annan vetur andaðist Guðrún systir Kols og gróf Þorgils hana undir rúmi sínu. Og er vorar mega þau ekki í burt komast.

23. kafli

Það er eitthvert sinn að Þórey sagði draum sinn Þorgilsi, að hún kvaðst sjá fögur héruð og menn bjarta «og get eg að vér leysumst burt úr þessum vandræðum.»

Þorgils svarar: «Góður er draumur þinn og þó eigi ólíkast að viti til annars heims og munir þú eiga gott fyrir höndum og munu helgir menn hjálpa þér fyrir hreint líf og mannraunir.»

Hún bað hann burt leita úr óbyggðum ef þeir mættu. Þorgils kvaðst eigi sjá ráðrúm til þess. Hún lá í rekkju löngum. Og einn góðan veðurdag segir Þorgils að þeir muni ganga á jökla og vita ef þeir sæju nokkuð leysast ísinn. Þórey kvaðst þess ófús að hann færi frá henni. Hann kvaðst skammt fara mundu. Þrælarnir skulu róa að veiðifangi en Þórarinn bryti skal ýta og vera síðan hjá Þóreyju. Þeir Þorleifur, Kolur og Starkaður beiddust að fara með honum. Þorgils kvað þá forystulaust heima en kvaðst eigi vel trúa þrælunum. Þeir fóru allir á jökla. Þorgils hafði bolöxi í hendi og gyrður sverðinu Jarðhússnaut. Að nóni dags sneru þeir aftur. Gerði þá á veður hart. Þorgils fór fyrir og hitti vel leiðina, koma til skálans og sáu eigi skipið, gengu í skálann. Voru í burtu allar kistur og svo menn.

Þorgils mælti: «Nú munu ill efni í.»

En er þeir komu innar í skálann heyrðu þeir snörgl nokkuð til rekkju Þóreyjar. Og er þeir komu þar sjá þeir að hún var önduð en sveinninn saug hana dauða. Leituðu þeir um hana og fundu ben litla undir hendinni sem mjóvum hnífsoddi hefði stungið verið. Mjög var þar allt blóðugt. Þessa sýn hafði Þorgils svo séð að honum þótti mestur harmur í vera. Burt var sópað öllum vistum.

Um nóttina vill Þorgils vaka yfir sveininum og kvaðst eigi sjá að hann mætti álengdar lifa «og þykir mér mikið ef eg má eigi honum hjálpa. Skal það nú fyrst taka bragða að skera á geirvörtuna mér» og svo var gert. Fór fyrst út blóð, síðan blanda og lét eigi fyrr af en úr fór mjólk og þar fæddist sveinninn upp við það.

Þeir Þorgils sóttu fast að veiðifangi og gerðu sér einn húðkeip og bjuggu innan með viðum.

24. kafli

Einn morgun er Þorgils einn úti og sér í vök rekald mikið og þar hjá tröllkonur tvær og bundu byrðar miklar. Þorgils hleypur til þangað og hafði sverðið Jarðhússnaut og höggur til annarrar með sverðinu í því er hún færist undir byrðina og rekur af henni höndina. Byrðurin fellur niður en hún hljóp í burt. Síðan taka þeir rekaldið og eru þá vistir nógar. Síðan losnar ísinn og leitar Þorgils og hans menn þá í burt og komast til Seleyra um sumarið og voru þar um veturinn. Að sumarmálum fóru þeir þaðan og fundu ey litla. Hálfum mánuði síðar fundu þeir svartbaksegg og gáfu sveininum. Hann át hálft eggið. Þeir spurðu hví hann át eigi.

Hann svarar: «Því spara eg minn mat að þér sparið yðvarn mat.»

Þeir dragast nú fram með jöklinum og koma að björgum bröttum, brýna upp skipinu, reisa þar tjald. Og um morguninn gengur Kolur út og sér eigi skipið, leggst síðan niður og vill eigi segja Þorgilsi. Litlu síðar kom Þorleifur út og getur eigi um.

Þorgils kom út og sér að skipið er á burtu og sagði þeim hvarf skipsins «sé eg nú ekki annað til,» kvað Þorgils, «en að tapa verði sveininum.»

Þorleifur svarar: «Ekki er það til.»

Hann bað þó að það skyldi gera. Taka þeir nú sveininn og biður Þorleifur Kol tapa piltinum.

«Eigi mun eg það gera,» segir Kolur, «því að eg veit að þegar af líður Þorgilsi þetta þá er honum það hinn mesti harmur en eg ætti Þorgilsi gott að launa.»

Síðan fara þeir inn og láta úti eftir sveininn. Þorgils spurði þá hvort þeir hefðu drepið sveininn. Þeir kváðu það eigi vera. Hann þakkaði þeim fagurlega er þeir höfðu svo gert. Var þá sóttur sveinninn og var hann hjá Þorgilsi um nóttina.

Þá sagði Þorgils draum sinn: «Eg þóttist á þingi vera á Íslandi. Þótti mér sem við Ásgrímur Elliða-Grímsson toguðum eina hönk og missti hann.»

Þorleifur svarar: «Þar muntu enn koma til Íslands og skipta málum við hann og mun þér það betur ganga.»

«Svo má vera,» segir Þorgils.

Aðra nótt dreymdi hann og sagði: «Eg þóttist heima vera í Traðarholti og var þar fjölmennt. Eg sá álft eina ganga eftir gólfinu og var blíðari við aðra en mig. Þá hristi eg hana og var hún þaðan af miklu betur til mín.»

Þorleifur svarar: «Þar muntu kvongast faðir og muntu lítt í fyrstu njóta ástar hennar og mun það þó vel dragast.»

«Enn dreymdi mig,» segir Þorgils, «að eg væri heima í Traðarholti. Eg sá á kné mínu hinu hægra, þar voru vaxnir fimm hjálmlaukar saman og kvísluðust þar af margir laukar og ofarlega yfir höfuð mér bar einn laukinn en svo var hann fagur sem hann hefði gullslit.»

Þorleifur svarar: «Sé eg draum þinn. Þar muntu eiga fimm börn. Frá þeim munu kvíslast margar ættir á Íslandi. En eg mun ekki þar aldur ala og mun eg auka ætt mína annars staðar. En hinn fagri laukurinn mun merkja það að einhver maður mun frá þér koma sá er ágætur mun verða.»

Og það gekk eftir síðan því að frá Þorgilsi er kominn Þorlákur biskup hinn helgi.

Þorleifur mælti þá: «Það dreymdi mig faðir að mér þótti Þórný systir mín gefa mér osthleif og voru af bárurnar.»

Þorgils mælti: «Þar mun af hið harðasta af kostum okkrum er af voru bárurnar.»

Þá heyrðu þeir óp mikið. Var þá kallað að Íslendingar skyldu taka skip sitt. Þeir ganga út skjótt og sjá tvær konur. Þær hurfu skjótt. Björn einn braust um í vök og var brotinn í hrammurinn. Þorgils hleypur til og leggur björninn með sverði. Dó dýrið af því lagi. Þorgils hrífur þá til hlustanna og vill ei að sökkvi dýrið, draga upp síðan og gera til. Þorgils deildi þá stykki sér hverjum þeirra og má af slíku marka hversu þungan matarafla þeir áttu.

Þorleifur mælti: «Matspar ertu nú faðir.»

«Já son minn það hæfir að svo sé.»

Síðan snúa þeir til hafs og róa fyrir framan margar vikur og er þeir komu fyrir eitt fjarðarmynni gekk þeim þá með mikilli mæði. Tekur þá nú að þyrsta fast. Þeir voru fimm saman með sveininum. Þeir gerðust þá mjög máttfarnir af þorsta en var hvergi nær vatn.

Þá mælti Starkaður: «Það hefi eg vitað menn hafa gert ef líf þeirra hefir við legið að menn hafa blandað saman sjó og hlandi.»

Þeir taka nú auskerið og míga í og blönduðu við sjó og báðu Þorgils leyfis að drekka. Hann kvað vorkunn á en kvaðst þó hvorki banna né lofa. En er þeir ætluðu að drekka bað Þorgils þá fá sér og kvaðst skyldu mæla fyrir minni.

Hann tók við og mælti svo: «Þú hið argasta dýr er ferð vora dvelur skalt eigi því ráða að eg né aðrir drekki sinn þarfagang.»

Í því fló fugl, því líkastur sem álkuungi, burt frá skipinu og skrækti við. Þorgils hellti síðan útbyrðis úr auskerinu. Síðan róa þeir og sjá vatn renna og taka af sér til gagns og var það síð dags. Þessi fugl flaug í norðurátt frá skipinu.

Þorgils mælti: «Seint hefir fugl þessi við oss skilið og taki nú allar gramir við honum. En við það megum vér una að hann kom eigi því á leið sem hann vildi.»

Að þrem nóttum liðnum sáu þeir tjald af lérefti. Þeir kenndu að það var tjald Þóreyjar. Fundu þar brytja Þorgils og spyrja með hverju faraldi hann þar hafði komið.

Hann sagði þá kostaboð þeirra Snækolls við sig ef hann vildi eigi fara að þeir mundu drepa hann «Snækollur stakk mjóvu járni á Þóreyju.»

Þorgils svarar: «Eigi veit eg hvers þú ert af verður. En ósannleg þykir mér þín sögn og skaltu ekki lifa lengi.»

Þar var hann drepinn og grófu hann þar, fara síðan í burt.

Nú tekur að hausta og koma þá í fjörð einn, láta að landi og sjá að þar var naust, brýna þar upp skipinu og ganga frá sjó og koma að bæ. Þar var maður úti og heilsar á þá og spyr að nafni og þeir hann. Þessi kvaðst Hrólfur heita og bauð þeim þar að vera. Það þiggja þeir og er Þorfinnur fenginn konum til geymslu og er honum mjólk gefin. Sagði hann mjólk föður síns ekki svo lita. Eru þeir þar um veturinn. Um vorið býður Hrólfur Þorgilsi þar að vera með sínum mönnum en þá bauð hann honum skip sitt ef hann vildi burtu fara.

Þorgils þakkar honum en kvaðst skipið hafa vilja «væri og skylt að launa þér góðu.»

Hrólfur kvaðst ætla að hann mundi gott af honum hljóta «því að þú munt í mikla virðing koma. Og ef svo væri þá mættir þú mig í frið kaupa við byggðarmenn því að eg er í ófriði við þá.»

Þorgils játtar því og mæla þar hvorir vel fyrir öðrum, fara suður fyrir land og koma í fjörð og lögðu í lægi. Síðan tjölduðu þeir. Og í því bili sáu þeir skip og var það kaupskip. Sigldu þeir á fjörðinn og höfðu eitt veður hvorirtveggju og komu að einni lendingu.

Þorgils mælti: «Þetta eru góð tíðindi. Farið þið Þorleifur og Kolur og vitið hverjir þessir eru.»

Síðan fóru þeir og komu að skipinu og ganga út á það. Aftur við lyftingina sat maður í rauðum kyrtli og sprettur upp þegar og fagnar Þorleifi. Var þar kominn Þorsteinn hvíti fóstri hans og stjúpfaðir. Hann spyr að Þorgilsi. Þeir sögðu hann var þar.

Þorsteinn fór til fundar við Þorgils. Varð þar fagnafundur. Kvaðst Þorsteinn kominn af Íslandi og kvað ráð hans standa heilt, kvaðst ekki þar til hans frétt hafa á fjórum vetrum, sagði Þórnýju dóttur hans vera gifta Bjarna í Gröf Þorsteinssyni goða landnámamanns «og er Þorleifur kom eigi aftur til Noregs bjó eg skip mitt og fór eg til Íslands og var eg þar tvo vetur og frétti eg ekki þar til þín. Fór eg þá hingað að leita þín.»

«Góðs þótti mér að þér von,» segir Þorgils.

Menn komu brátt til þeirra. Bóndi sá er þar bjó næst hét Þórir. Hann bauð Þorsteini til sín og þangað fór hann. Eiríkur rauði bauð Þorgilsi til sín og það þekktist hann. Þangað fóru tólf menn með honum. Þorgilsi er skipað gagnvart Eiríki og þar utar frá sat Þorleifur, þá Kolur, þá Starkaður. Þorfinni var fengin fóstra og vill hann ekki mjólk drekka fyrr en myrkt var. Þá var hann af brjósti vaninn. Ekki var Eiríki margt til Þorgils og var vistin með minna þokka veitt en Þorgils hugði. Það frétti Þorgils að þrælarnir voru þar í landi og lét eigi sem hann vissi.

25. kafli

Það bar til um veturinn að bjarndýr lagðist á fé manna og gerði mikinn skaða. Það var einn tíma að menn komu til kaupa við Þorgils og voru menn margir í útibúri því er varningurinn var í. Þar var Þorfinnur.

Hann mælti við föður sinn: «Hér er úti faðir rakki fagur og mikill.»

Þorgils svarar: «Hirð eigi um það og hlaup eigi út.»

Sveinninn hljóp út sem áður og var þar bjarndýrið fyrir. Það svipti honum undir sig. Sveinninn kvað við hátt. Þorgils hljóp út með sverðið Jarðhússnaut. Dýrið hafði leikið við sveininn. Þorgils höggur á milli hlustanna á dýrinu og klýfur hausinn og fellur það niður dautt en hann tekur sveininn og var hann lítt sakaður. Verður Þorgils nú ágætur af þessu verki og þótti stór heill til hans horfið hafa. Ekki fannst Eiríki til þessa verks en lét þó til gera dýrið. Sögðu það sumir menn að Eiríkur hefði haft á því fornan átrúnað.

Það er sagt um veturinn að menn sátu í náðahúsi í Brattahlíð og þó eigi allir senn því að sumir stóðu fram í húsinu. Þar var Kolur og Starkaður. Það var tal þeirra að þeir fóru í mannjöfnuð og töluðu um Þorgils og Eirík. Sagði Kolur Þorgils mörg afrek …


(Lok sögunnar samkvæmt styttri gerð, frá 33. kafla:)

Hann segist hafa níu búa kvadda.

Skafti svarar: «Varat af vöru, sleikti um þvöru, sæll mágurinn, láttu niður detta, engu er nýtt.»

«Hverju mun það sæta?» segir Þorgils.

Skafti svarar: «Kunnig eru mér lög mágur,» sagði hann, «svo að eg sé gjörla að engu er nýtt til búið og er betur að niður falli því að svo hafa farið skipti ykkur að þú hefir vanvirðu enga af fengið.»

Sefast Þorgils nú við umtölur mága sinna. Ríða menn nú af þingi og falla niður þessi mál öll.

34. kafli

Helgi hét Austmaður er út kom í Einarshöfn og átti ferð upp í hérað og fór með varning sinn upp í Þrándarholt. Þorgils reið að úr Gröf. Þeir riðust á móti Helgi og Þorgils og riðu hart. Og er þeir riðust á víxl stakaði Þorgils mjög svo af baki og hló að honum við Austmaðurinn en Þorgils var allbjúgur á baki því að veður var kalt.

Helgi mælti þá: «Lítt sér það nú á þér Þorgils að þú hefir verið kallaður garpur mikill enda ertu nú gamall.»

Þorgils svarar: «Ekki hafa menn það mjög plagað hér til að gabba mig. En svo hæðilegur og gamall sem þér þykir eg vera þá býð eg þér þegar í stað einvígi og er þá fullreynt hvor af öðrum ber.»

Helgi kvað öngva von í að hann hrykki eigi við «og mun lítill frami í að bera af fretkarli þínum.»

Austmaðurinn hafði bolöxi í hendi.

Þorgils mælti: «Hvassara vopn muntu hafa þurfa ef bíta skal höfuðbein mín.»

Þorgils hafði sverðið Jarðhússnaut og var alvopnaður og hljóp geyst að honum og höggur til hans með sverðinu og kom á öxlina og vannst honum það skjótt til bana. Þorgils var þá sjötugur og kvað þetta verið hafa hið mesta glappaverk og kvaðst þetta mundu bæta.

Tveim vetrum síðar komu tveir bræður Helga út og varð eigi vart við skipkomuna. Hét annar Einar en annar Sigurður. Þeir fóru þegar í Traðarholt og var það um kveld og voru eigi í almenningshúsum. Og um morguninn er verkmenn voru farnir til starfs fóru þeir bræður heim í bæinn og námu staðar við skáladyr og töluðust með um hríð hversu þeir skyldu með fara.

«Ekki þykir mér gott að drepa gamlan mann,» segir Einar.

Þorgils heyrir nú þeirra umræðu og sprettur upp þegar og tekur sverðið Jarðhússnaut og bað þá að ganga ef þeir vildu.

Einar mælti: «Ekki þarf að eggja okkur til bróðurhefnda því fullvel megum við þig yfirvinna ef við viljum. En ekki skal þér nú bóndi nokkurn ófrið gera og skal nú vera annað erindi okkar bræðra.»

Þorgils tók þessu vel og svarar: «Eg er og þess miklu fúsari því að eg þykist sjá gjörla að þú munt vera góður. Og þar sem eg drap bróður ykkarn þá vil eg það fullu bæta og vil eg Einar gefa þér nú sverðið Jarðhússnaut því að mér líst svo á þig að þú megir það vel bera. Bróður þínum vil eg fá fimm merkur silfurs.»

Síðan skildu þeir með góðum vinskap og fóru þeir bræður utan eftir það.

35. kafli

Það var einn tíma að þau Þorgils og Helga fóru til Hjalla til heimboðs. Og eftir það tók Þorgils bóndi sótt. Hann var þá hálfníræður. Hann lá viku og andaðist síðan. Þessu nærri andaðist Þóroddur bóndi og Bjarni bóndi hinn spaki. Voru þeir allir jarðaðir að þeirri kirkju er Skafti lét gera fyrir utan lækinn en síðan voru færð bein þeirra í þann stað er nú stendur kirkjan því að Skafti hét að gera kirkju þá er Þóra braut fót sinn þá er hún var að léreftum sínum.

Þorgils örrabeinsstjúpur þótti hinn mesti merkismaður, vinfastur og vel stilltur, þrautgóður, djarfur og þó stórráður ef honum var í móti gert, þoldi vel og karlmannlega stórar mannraunir. Frá honum er kominn mikill ættbogi. Börn þeirra Þorgils og Helgu voru þau Grímur glömmuður, Illugi og Þórður.

Þorlákur byskup var Þórhallsson. Móðir hans var Eyvör. Móðir Eyvarar var Jórunn dóttir Þorgils örrabeinsstjúps og Helgu. Oddur hét son þeirra. Hann var faðir Jóns, föður Gissurar, föður Gríms, föður Guðlaugar, móður Jörundar byskups. Sonur Gríms glammaðar Þorgilssonar var Ingjaldur, faðir Gríms, föður Einars, föður Hallkötlu, móður Steinunnar, móður Herdísar, móður Bjarnar, föður Gissurar galla, föður Hákonar, föður Jóns.

Текст с сайта Netútgáfan

© Tim Stridmann