Hreiðars þáttur

1. kafli

Þórður hét maður. Hann var Þorgrímsson, Hreiðarssonar, þess er Glúmur vó. Þórður var lítill maður vexti og vænn. Hann átti sér bróður er Hreiðar hét. Hann var ljótur maður og varla sjálfbjargi fyrir vits sökum. Hann var manna frávastur og vel að afli búinn og hógvær í skapi og var hann heima jafnan. En Þórður var í förum og var hirðmaður Magnúss konungs og mast vel.

Og eitt sinni er Þórður bjó skip sitt í Eyjafirði þá kom Hreiðar þar bróðir hans. Og er Þórður sá hann spurði hann hví hann væri þar kominn.

Hreiðar segir: «Eigi nema erindið væri.»

«Hvað viltu þá?» segir Þórður.

«Eg vil fara utan,» segir Hreiðar.

Þórður mælti: «Ekki þykir mér þér fallin förin. Vil eg heldur það til leggja við þig að þú hafir föðurarf okkarn og er það hálfu meira fé en það er eg hefi í förum.»

Hreiðar svarar: «Þá er lítið vit mitt,» segir hann, «ef eg tek þenna fjárskakka til þess að gefa mig svo upp sjálfan og láta þína umsjá og mun þá hver maður draga af mér fé okkað alls eg kann engi forræði þau er nýt eru. Og era þér þá betra hlut í að eiga ef eg ber á mönnum eða geri eg aðra óvísu þeim er um fé mitt sitja að lokka af mér en eftir það sé eg barður eða meiddur fyrir mínar tilgerðir enda er það sannast í að þér mun torsótt að halda mér eftir er eg vil fara.»

«Vera kann það,» segir Þórður, «en get ekki þá um ferð þína fyrir öðrum mönnum.»

Því hét hann. Og þegar er þeir bræður eru skildir þá segir Hreiðar hverjum er heyra vill að hann ætlar utan að fara með bróður sínum. Og firna allir Þórð um ef hann flytur utan afglapa.

2. kafli

Og er þeir eru búnir sigla þeir í haf og verða vel reiðfara, koma við Björgyn og þegar spyr Þórður eftir konungi og var honum sagt að Magnús konungur var í bænum og hafði skömmu áður komið og vildi eigi láta kæja sig samdægris, þóttist þurfa hvíldar er hann var nýkominn.

Brátt litu menn Hreiðar að hann var afbragð annarra manna. Hann var mikill og ljótur, ómállatur við þá er hann hitti.

Og snemma um morguninn áður menn væru vaknaðir stendur Hreiðar upp og kallar: «Vaki þú bróðir. Fátt veit sá er sefur. Eg veit tíðindi og heyrði eg áðan læti kynleg.»

«Hverju var líkast?» spyr Þórður.

«Sem yfir kykvendum,» segir Hreiðar, «og þaut við mjög en aldrei veit eg hvað látum var.»

«Lát eigi svo undarlega,» segir Þórður. «Það mun verið hafa hornblástur.»

«Hvað skal það tákna?» spyr Hreiðar.

Þórður svarar: «Blásið er jafnan til móts eða til skipdráttar.»

«Hvað táknar mótið?» spyr Hreiðar.

«Þar eru dæmd vandamál jafnan,» segir Þórður, «og slíkt talað sem konungur þykist þurfa að fyrir alþýðu sé upp borið.»

«Hvort mun konungur nú á mótinu?» spyr Hreiðar.

«Það ætla eg víst,» svarar Þórður.

«Þangað verð eg þá að fara,» segir Hreiðar, «því að eg vildi þar koma fyrst er eg sæi sem flesta menn í senn.»

«Þá skýtur í tvö horn með okkur,» segir Þórður. «Mér þætti því betur er þú kæmir þar síður er fjölmennt væri og vil eg hvergi fara.»

«Ekki tjáir slíkt að mæla,» segir Hreiðar, «fara skulum við báðir. Muna þér betra þykja að eg fari einn en ekki færð þú mig lattan þessarar farar.»

Hleypur Hreiðar á brott. En Þórður sér nú að fara mun verða og fer hann eftir er Hreiðar fer hart undan og er mjög langt milli þeirra.

Og er Hreiðar sér að Þórður fór seint þá mælti hann: «Það er þó satt, að illt er lítill að vera þá er aflið nær ekki. En þó mætti vera fráleikurinn en lítið ætla eg þig af honum hafa hlotið. Og væria þér verri vænleikur minni og kæmist þú með öðrum mönnum.»

Þórður svaraði: «Eigi veit eg mér verr fara óknáleik minn en þér afl þitt.»

«Handkrækjumst þá bróðir,» segir Hreiðar.

Og nú gera þeir svo, fara um hríð og er svo að Þórði tekur að dofna höndin og lætur hann laust, þykir eigi verða vinveitt að þeir haldist á við álpun Hreiðars. Hreiðar fer nú undan svo við fót og nemur stað síðan á hæð nakkvarri og er allstarsýnn, sér þaðan fjölmennið þangað sem mótið var.

Og er Þórður kemur eftir mælti hann: «Förum nú báðir saman bróðir.»

Og Hreiðar gerir svo.

3. kafli

Og er þeir koma á þingið kenna margir menn Þórð og fagna honum vel og verður konungur áheyrsli. Og þegar gengur Þórður fyrir konung og kveður hann vel og tekur konungur blíðlega kveðju hans. Þegar skildi með þeim bræðrum er þeir komu til þingsins og verður Hreiðar skauttogaður mjög og færður í reikuð. Hann er málugur og hlær mjög og þykir mönnum ekki að minna gaman að eiga við hann og verður honum nú förin ógreið. Konungur spyr Þórð tíðinda og síðan spyr hann hvað þeirra manna væri í för með honum er hann vildi að til hirðvistar færi með honum.»

«Þar er bróðir minn í för, segir Þórður.

«Sá maður mun vel vera,» segir konungur, «ef þér er líkur.»

Þórður segir: «Ekki er hann mér líkur.»

Konungur mælti: «Þó má enn vel vera eða hvað er ólíkast með ykkur?»

Þórður mælti: «Hann er mikill maður vexti. Hann er ljótur og heldur ósýknlegur, sterkur að afli og lundhægur maður.»

Konungur mælti: «Þó má honum vel vera farið að mörgu.»

Þórður segir: «Ekki, ekki var hann kallaður viskumaður á unga aldri.»

«Að því fer eg meir,» segir konungur, «sem nú er eða hvort má hann sjálfur annast sig?»

«Ekki dála er það,» segir Þórður.

Konungur mælti: «Hví fluttir þú hann utan?»

«Herra,» segir Þórður, «hann á allt hálft við mig en hefir öngar nytjar fjárins og engi afskipti sér veitt um peninga, beiðst þessa eins hlutar að fara utan með mér og þótti mér ósannlegt að eigi réði hann einum hlut þars hann lætur mig mörgum ráða. Þótti mér og líklegt að hann mundi gæfu af yður hljóta ef hann kæmi á yðarn fund.»

«Sjá vildi eg hann,» segir konungur.

«Svo skal og,» segir Þórður, «en brottu er hann nú rjáður nokkur.»

Konungur sendi nú eftir honum. Og er Hreiðar heyrði sagt að konungur vildi hitta hann þá gengur hann uppstert mjög og nær á hvað sem fyrir var og var hann því óvanur að konungur hefði beiðst fundar hans. Hann var á þá leið búinn að hann var í hökulbrókum og hafði feld grán yfir sér. Og er hann kemur fyrir konung þá fellur hann á kné fyrir konung og kveður hann vel.

Konungur svaraði honum hlæjandi og mælti: «Ef þú átt við mig erindi þá mæl þú skjótt slíkt er þú vilt. Aðrir eiga enn nauðsyn að tala við mig síðan.»

Hreiðar segir: «Mitt erindi þykir mér skyldast. Eg vildi sjá þig konungur.»

«Þykir þér nú vel þá,» segir konungur, «er þú sérð mig?»

«Vel víst,» segir Hreiðar, «en eigi þykist eg enn til gjörla sjá þig.»

«Hvernug skulum við nú þá?» segir konungur, «vildir þú að eg stæði upp?»

Hreiðar svarar: «Það vildi eg,» segir hann.

Konungur mælti er hann var upp staðinn: «Nú munt þú þykjast gjörla sjá mig mega?»

«Eigi enn til gjörla,» segir Hreiðar, «og er nú þó nær hófi.»

«Viltu þá,» segir konungur, «að eg leggi af mér skikkjuna?»

«Það vildi eg víst,» segir Hreiðar.

Konungur mælti: «Við skulum þar þó nokkuð innast til áður um það málið. Þér eruð hugkvæmir margir Íslendingar og veit eg eigi nema þú virðir þetta til ginningar. Nú vil eg það undan skilja.»

Hreiðar segir: «Engi er til þess fær konungur að ginna þig eða ljúga að þér.»

Konungur leggur nú af sér skikkjuna og mælti: «Hyggðu nú að mér svo vandlega sem þig tíðir.»

«Svo skal vera,» segir Hreiðar.

Hann gengur í hring um konunginn og mælti oft hið sama fyrir munni sér: «Allvel, allvel,» segir hann.

Konungur mælti: «Hefir þú nú séð mig sem þú vilt?»

«Að vísu,» segir hann.

Konungur spurði: «Hversu líst þér nú á mig þá?»

Hreiðar svarar: «Ekki hefir Þórður bróðir minn ofsögum frá þér sagt það er vel er.»

Konungur mælti: «Máttu nokkuð að finna um það er þú sérð nú og það er eigi sé í alþýðu viti?»

«Ekki vil eg að finna,» segir hann, «og ekki má eg þegar því að þannug mundi hver sig kjósa sem þú ert þó að sjálfur mætti ráða.»

«Mikinn tekur þú af,» segir konungur.

Hreiðar svarar: «Háttung er öðrum á þá,» segir hann, «að lofgjarnlega sé við mælt ef þú átt þetta eigi að sönnu sem mér líst á þig og eg sagði áðan.»

Konungur mælti: «Finn til nokkuð þó að smátt sé.»

«Það helst þá herra,» segir hann, «að auga þitt annað er litlu því ofar en annað.»

«Það hefir einn maður fyrr fundið,» segir konungur, «en sá er Haraldur konungur frændi minn. Nú skal jafnmæli með okkur,» segir konungur. «Skaltu nú standa upp og leggja af þér skikkju og vil eg sjá þig.»

Hreiðar fleygir af sér feldinum og hefir saurgar krummur, maðurinn hentur mjög og ljótur, en þvegnar heldur latlega. Konungur hyggur að honum vandlega.

Og þá mælir Hreiðar: «Herra,» segir hann, «hvað þykist þú nú mega að mér finna?»

Konungur segir: «Það ætla eg að eigi fæðist ljótari maður upp en þú ert.»

«Slíkt verður mælt,» segir Hreiðar. «Er nokkuð þá,» segir hann, «að til fríðinda sé um mig að því sem þú leggur ætlun á?»

Konungur mælti: «Það sagði Þórður bróðir þinn að þú værir lundhægur maður.»

«Það er satt og,» sagði Hreiðar, «og þykir mér það illt er svo er.»

«Þú munt reiðast þó,» sagði konungur.

«Mæl heill herra,» segir Hreiðar, «eða hve langt mun til þess?»

«Eigi veit eg það gjörla,» segir konungur, «helst á þessum vetri að því er eg get til.»

Hreiðar mælti: «Seg heill sögu.»

Konungur mælti: «Ertu nokkuð hagur?»

Hreiðar segir: «Aldregi hefi eg reynt, má eg því eigi vita.»

«Til þess þætti þó ekki ólíklegt,» segir konungur.

«Seg heill sögu,» kvað Hreiðar. «Svo mun vera jafnt þegar er þú segir það. En veturvistar þættist eg þurfa.»

Konungur sagði: «Heimil er mín umsjá. En betur þykir mér þér þar vistin felld vera er heldur er fátt manna.»

Hreiðar svaraði: «Svo er það og,» segir hann. «En eigi mun svo mannfátt vera að eigi komi það þó upp er mælt verður, allra helst það er hlægi þykir í, en eg maður ekki orðvar og jafnan ber mér mart á góma. Nú kann vera að þeir reiði orð mín fyrir aðra menn og spotti mig og drepi það að ferlegu er eg hefi að gamni eða mæli eg. Nú sýnist mér hitt viturlegra að vera heldur hjá þeim er um mig hyggur sem Þórður er bróðir minn þótt þar sé heldur fjölmenni en hinnug þótt menn séu fáir og sé þar engi til umbóta.»

Konungur mælti: «Ráð þú þá og farið báðir bræður til hirðarinnar ef ykkur líkar það betur.»

Þegar hljóp Hreiðar á brott er hann heyrði þessi orð konungs og segir hverjum manni er á vill hlýða að hans för hefir allgóð orðið á konungs fund, segir og einkum Þórði bróður sínum að konungur hefir leyft honum að fara til hirðvistar.

Þá mælti Þórður: «Bú þig þá sæmilega að klæðum eða vopnum því að það eitt samir og skortir okkur ekki til þess og skipast margir menn vel við góðan búning enda er vandara að búa sig í konungs herbergi en annarstaðar og verður síður athlægi ger af hirðmönnum.»

Hreiðar svarar: «Eigi getur þú allnær að eg muni skrúðklæðin á mig láta koma.»

Þórður mælti: «Skerum vaðmál þá til.»

Hreiðar svarar: «Nær er það,» segir hann.

Svo er nú gert við ráð Þórðar og lætur Hreiðar eftir leiðast. Hefir hann nú vaðmálsklæði og fágar sig og þykir nú þegar allur annar maður, sýnist nú maður ljótur og greitt vasklegur. Svo er þó mót á manninum er þeir Þórður eru með hirðinni að Hreiðar verður í fyrstu fyrir miklum ágang af hirðmönnum og breyttu þeir marga vega orðum við hann og fundu að hann var ómállatur. Kom við sem mátti og hentu þeir mikið gaman að því að eiga við hann og var hann jafnan hlæjandi við því er þeir mæltu og lagði hvern þeirra fyrir, svo var hann leikmikill, bæði um mælgina og allra helst … En fyrir því að hann var rammur að afli og er þeir finna að hann gefst ekki að grandi þá þvarr það allt af þeim hirðmönnum … nú með hirðinni.

4. kafli

Í þetta mund voru þeir báðir konungar yfir landi, Magnús konungur og Haraldur konungur, en þá höfðu sakar gerst … hirðmaður Magnúss konungs hafði vegið hirðmann Haralds konungs og var lagður til sáttarfundur að konungar skyldu sjálfir finnast og skipa málinu.

Og er Hreiðar heyrir þetta að Magnús konungur skal fara til móts við Harald konung þá fer hann á fund Magnúss konungs og mælti: «Sá hlutur er,» segir hann, «er eg vildi þig biðja.»

«Hver er sá?» sagði konungur.

Hreiðar mælti: «Að fara til sáttarfundar. Em eg ekki víðförull en mér er mikil forvitni á að sjá tvo konunga senn í einum stað.»

Konungur svarar: «Satt segir þú að þú ert ekki víðförull en þeygi mun eg leyfa þér þessa förina því að ekki er þér fellt að ganga í greipur mönnum Haralds konungs. Og beri svo til að þér verði að því ólið eða öðrum og em eg um það hræddur að þá sæki þig heim reiðin er þú langar til en mér þætti best að við bærist.»

Hreiðar svarar: «Nú mæltir þú gott orð. Þá skal að vísu fara ef eg veit þess vonir að eg reiðist.»

Konungur segir: «Muntu fara ef eg leyfi eigi?»

Hreiðar svarar: «Eigi þá síður.»

«Ætlar þú að þér muni þvílíkt við mig að eiga sem við Þórð bróður þinn því að þar hefir þú jafnan þitt mál?»

Hreiðar segir: «Því öllu betra mun mér við yður að eiga sem þú ert vitrari en hann.»

Konungur sér nú að hann mun fara þó að hann banni eða hann fari eigi í hans föruneyti og þykir eigi það best ef hann kemur annarstaðar til föruneytis og þykir þá í reiðingum vera hversu honum eirir ef hann vélir einn um og leyfir honum nú heldur að fara með sér og er Hreiðari fenginn hestur til reiðar. Og þegar er þeir voru á ferð komnir þá reið hann mjög og ætlaði sér varla hóf um og þraut hestinn undir honum.

Og er konungur verður þess var mælti hann: «Nú gefur vel til. Fylgið nú Hreiðari heim og fari hann eigi.»

Hann segir: «Eigi heftir þetta ferðina mína þótt hesturinn sé þrotinn. Kemur mér til lítils fráleikurinn ef eg fæ eigi fylgt yður.»

Fara þeir nú og lögðu margir fram hjá honum hesta sína og þótti gaman að reyna fráleik hans svo gropasamlega sem hann sjálfur tók á. En svo gafst að hann þreytti hvern hest er frammi var lagður og lést eigi verður að koma til fundarins ef hann gæti eigi fylgt þeim. Og fyrir þetta sátu nú margir af sínum hestum.

5. kafli

Og er þeir koma þar er konungar skulu finnast þá mælti Magnús konungur við Hreiðar: «Ver þú mér nú fylgjusamur og ver á aðra hönd mér og skilst ekki frá mér. En miðlung segir mér hugur um hversu fer þá er menn Haralds konungs koma og sjá þig.»

Hreiðar kvað svo vera skyldu sem konungur mælti «og þykir mér því betur er eg geng yður nær.»

Nú finnast konungar og ganga þeir á tal og ræða mál sín. En menn Haralds konungs gátu líta hvar Hreiðar gekk og höfðu heyrt getið hans og þótti þeim um hið vænsta. Og er konungar töluðu þá gengur Hreiðar í flokk Haralds manna og höfðu þeir hann til skógar er skammt var þaðan, skauttoguðu hann mjög og hrundu honum stundum. En þar lék á ýmsu. Stundum fauk hann fyrir sem vindli en stundum var hann fastur fyrir sem veggur og hrutu þeir frá honum. Nú dregst þó svo leikurinn að þeir gera honum nakkvað harðleikið, létu ganga honum öxarsköft og skálpana og námu naddar af sverðskónum í höfði honum og skeindist hann af og svo lét hann sem honum þætti hið mesta gaman að og hló við jafnan. Og er svo hafði fram farið um hríð þá tók leikurinn ekki að batna af þeirra hendi.

Þá mælti Hreiðar: «Nú höfum vér átt góðan leik um stund og er nú ráð að hætta því að nú tekur mér að leiðast. Förum nú til konungs yðvars og vil eg sjá hann.»

«Það skal verða aldrei,» sögðu þeir, «svo fjandlegur sem þú ert, að þú skulir sjá konung vorn og skulum vér færa þig til heljar.»

Honum finnst þá fátt um og þykist sjá að það mun fram fara og er nú þar komið að honum rennur í skap og reiðist hann, fer höndum þann mann er mest sótti að honum og verst lék við hann og vegur á loft og færði niður að höfðinu svo að heilinn var úti og er sá dauður. Nú þykir þeim hann trautt mennskur maður að afli og stukku þeir nú í víginu, fara og segja Haraldi konungi að drepinn var hirðmaður hans.

Konungur svarar: «Drepið þann þá er það hefir unnið.»

«Eigi er það enn hægra,» segja þeir, «hann er nú í brottu.»

Það er nú frá Hreiðari að segja að hann hittir Magnús konung.

Konungur mælti: «Veistu nú hvernug það er að reiðast?»

«Já,» segir hann, «nú veit eg.»

«Hvernug þótti þér?» segir konungur, «hitt fann eg að þér var forvitni á.»

Hreiðar svarar: «Illt þótti mér,» segir hann, «þess var eg fúsastur að drepa þá alla.»

Konungur mælti: «Það kom mér jafnt í hug,» segir konungur, «að þú mundir illa reiður verða. Nú vil eg senda þig á Upplönd til Eyvindar, lends manns míns, að hann haldi þig fyrir Haraldi konungi því að eg treystist eigi að þín verði gætt ef þú ert með hirðinni, því að vér finnumst, en Haraldur frændi er brögðóttur og er vant við að sjá. Kom þá aftur til mín er eg sendi eftir þér.»

Nú fer Hreiðar í brott uns hann kemur á Upplönd og tekur Eyvindur við honum eftir orðsending konungs.

Konungar höfðu sáttir orðið á það mál er áður var milli þeirra og var því sætt. En hér verða þeir eigi ásáttir. Þykir Magnúsi konungi þessir menn hafa sjálfir fyrirgert sér og valdið öllum sökum og þykir hirðmaður fallið hafa óheilagur en Haraldur konungur beiðir bóta fyrir hirðmann sinn og skildust nú með öngri sætt.

6. kafli

Eigi liðu langar stundir áður Haraldur konungur spyr hvar Hreiðar er niður kominn, gerir síðan ferð sína og kemur á Upplönd til Eyvindar, hefir með sér sex tigu manna. Hann kemur þar um morgun snemma og ætlaði að koma á óvart. En það var þó eigi því að Eyvindur þóttist vita fyrir að hann mundi koma og var hann á öngri stundu vanbúinn við. Hafði hann stefnt liði að sér af launungu og var það í skógum þeim er nálægir voru bænum. Skyldi Eyvindur gefa þeim mark ef Haraldur konungur kæmi og þóttist hann liðs þurfa.

Það er sagt einhverju sinni áður Haraldur konungur kæmi að Hreiðar beiddist að Eyvindur skyldi fá honum silfur og nokkuð gull.

«Ertu hagur?» segir hann.

Hreiðar svarar: «Það sagði Magnús konungur mér. En eigi má eg annað til vita því að eg hefi aldrei við leitað. En því mundi hann það segja að hann mundi vita og því trúi eg er hann sagði.»

Eyvindur mælti: «Þú ert undarlegur maður,» segir hann, «nú mun eg fá þér efnin. Skaltu fá mér silfrið ef ónýtt verður smíðað en njót sjálfur ellegar.»

Hreiðar er byrgður í einu húsi og er hann þar að smíðinni. Og áður en gert verði það er Hreiðar smíðaði þá kemur Haraldur konungur og er nú sem eg gat áður að Eyvindur er að öngu óbúinn og gerir hann konungi veislu góða.

Og nú er þeir sitja í drykkju þá fréttir konungur eftir ef Hreiðar sé þar «og muntu hafa vináttu af mér í móti ef þú selur oss manninn.»

Eyvindur svarar: «Eigi er hann hér nú,» segir hann.

«Eg veit,» segir konungur, «að hann er og þarftu eigi dylja.»

Eyvindur mælti: «En þótt það sé þá geri eg eigi þann mun ykkar Magnúss konungs að eg selji þann mann í hendur þér er hann vill skýla láta,» gekk út síðan úr stofunni.

Og er hann kemur út þá brýst Hreiðar á hurðina og kallar að hann vill á brott.

«Þegi þú,» segir Eyvindur. «Haraldur konungur er hér kominn og vill drepa þig.»

Hreiðar brýst út eigi að síður og lést hitta vildu konung.

Eyvindur sér þá að hann mun brjóta upp hurðina, gengur til og lýkur upp og mælti: «Gramir munu taka þig,» segir hann, «er þú gengur til banans.»

Hreiðar gengur inn í stofuna og fyrir konung og kveður hann og mælti: «Herra tak af mér reiðina því að eg em þér vel felldur fyrir margs sakir að gera það er þú vilt gera láta þó að eigi sé allríflegt í mannraunum eða því er við ber og mun eg þess ólatur er þú vilt mig til hafa sendan. Hér er nú gripur er eg vil gefa þér,» setur á borðið fyrir hann en það var svín gert af silfri og gyllt.

Þá mælti konungur er hann leit á svínið: «Þú ert hagur svo að trautt hefi eg séð jafnvel smíðað með því móti sem er.»

Nú fer það með manna höndum.

Segir konungur að hann mun taka sættir af honum «og er gott að senda þig til stórvirkja. Þú ert maður sterkur og ófælinn að því er eg hygg.»

Nú kemur svínið aftur fyrir konung.

Tekur hann þá upp og hyggur að smíðinni enn vandlegar og sér þá að spenar eru á og það var gyltur, fleygir þegar í brott og sér að til háðs var gert og mælti: «Hafi þig allan tröll. Standi menn upp og drepi hann.»

En Hreiðar tekur svínið og gengur út og fer þegar á brott þaðan og kom á fund Magnúss konungs og segir honum hvað í hefir gerst. En í öðru lagi standa menn upp og út eftir honum og ætla drepa hann og er þeir koma út þá er Eyvindur þar fyrir og hefir fjölmenni mikið svo að ekki máttu þeir eftir Hreiðari halda og skilja þeir Eyvindur og Haraldur konungur við svo búið og líkar konungi illa.

Og er þeir hittast Magnús konungur og Hreiðar fréttir konungur eftir hvernug farið hefir. En Hreiðar segir frá hið sanna og sýnir konungi svínið.

Magnús konungur mælti þá er hann hugði að svíninu: «Geysihaglega er þetta smíðað en hefnt hefir Haraldur konungur frændi vor mjög minni háðungar en í þessu er og eigi ertu alláræðislítill og þó með öllu hugkvæmur.»

7. kafli

Hreiðar var nú þar nakkvara stund með Magnúsi konungi.

Og eitthvert sinn kemur hann að máli við konung og mælti: «Það vildi eg konungur að þú veittir mér það er eg mun biðja þig.»

«Hvað er það?» spyr konungur.

«Það herra,» segir Hreiðar, «að þér hlýdduð kvæði er eg hefi ort um yður.»

«Hví skal eigi það?» segir konungur.

Nú kveður Hreiðar kvæðið og er það allundarlegt, fyrst kynlegast en því betra er síðar er.

Og er lokið er kvæði mælti konungur: «Þetta kvæði sýnist mér undarlegt og þó gott að nestlokum. En kvæðið mun vera með þeim hætti sem ævi þín. Hún hefir fyrst verið með kynlegu móti og einrænlegu en hún mun þó vera því betur er meir líður á. Hér eftir skal eg og velja kvæðislaunin. Hér er hólmur einn fyrir Noregi sá er eg vil þér gefa. Hann er með góðum grösum og er það gott land þó að eigi sé mikið.»

Hreiðar mælti: «Þar skal eg samtengja með Noreg og Ísland.»

Konungur mælti: «Eigi veit eg hversu það fer. Hitt veit eg að margir menn munu búnir að kaupa að þér hólminn og gefa þér fé fyrir en ráðlegra ætla eg vera að eg leysi til mín að eigi verði að bitbeini þér eða þeim er kaupa vilja. Er nú og ekki vel felld vist þín vilgis lengi hér í Noregi því að eg þykist sjá hvern Haraldur konungur vill þinn hlut ef hann á að ráða sem hann mun ráða ef þú ert lengi í Noregi.»

Nú gaf Magnús konungur honum silfur fyrir hólminn og vill nú eigi þar hætta honum og fór Hreiðar út til Íslands og bjó norður í Svarfaðardal þar sem síðan heitir á Hreiðarsstöðum og gerist mikill maður fyrir sér. Og fer hans ráð mjög eftir getu Magnúss konungs að þess betur er er meir líður fram hans ævi og hefir hann gert sér að mestum hluta þau kynjalæti er hann sló á sig hinn fyrra hlut ævinnar. Bjó hann til elli í Svarfaðardal og eru margir menn frá honum komnir.

Og lýkur hér þessi ræðu.

Текст с сайта Netútgáfan

© Tim Stridmann