Jökuls þáttr Búasonar

Handrit

504: ÁM 504, 4to.

551: ÁM 551 b, 4to.

28: JS 28, fol.

47

I. KAPÍTULI

Jökli þótti nú illt verk sitt; reið því þegar í burt og til skips, er þá var á Eyrarbakka, og sigldi með Úlfi stýrimanni.1 Gaf þeim lítt byri, og rak á fyrir þeim myrkr og hafvillur, svó þeir vóru úti allt sumarið; en er hausta tók, gerði storma með miklum hríðum og frostum, svó sýldi hvern dropa, er inn kom; urðu allir í austri að standa bæði nætr og daga, og gerðust allir mjög dasaðir og gáfust upp um síðir nema Jökull einn; hann gekk að ausa aleinn í fjóra daga.2

Um síðir rak skipið að skerjaklasa miklum með boðaföllum stórum; var þá allsterk hríðin, svó skipið braut í spón og týndist gózið. Komst Jökull í sker upp með Úlfi stýrimanni og sumir skipverjar, en sumir drukknuðu; vóru þá allir yfirkomnir af mæði og kulda nema Jökull einn. Jökull spyrr nú Úlf, hvað til ráða skyldi taka, — „hvórt skulum við3 láta hér yfir drífa?“4 „Nei,“ segir Úlfr, „það dugir ekki; er nú þar til órræða að leita, sem þú ert.“ Jökull segir þeim skuli að því verða, — „og mun eg nú til lands leita.“ Síðan kastaði hann sér til sunds og lagðist inn að landinu; þar var brim mikið og stór áföll, svó honum var bágt að koma þar við sundi, og því kafaði hann til lands; en er hann var á land kominn, sýldi um hann öll klæðin, en hríðin var svó sterk, að hann mátti varla ráða sér; vissi hann og aldri, hvar hann fór. 48 Honum varð þá reikað með sjónum, og um síðir kom hann að skála nökkrum, sterkum og fornum; var skálanum læst, en lykillinn greyptr í stafinn. Hann lauk upp og gekk þar inn, þreifar síðan fyrir sér og fann stóran ás og eld í; síðan lagði hann skíði á eldinn; varð þá skjótt bjart um allan skálann; sá hann tvau rúm vóru í innanverðum skálanum; það þóttist hann vita, að þar höfðu menn í verið; sér hann, að þar mætti vel um búast, er nóg væri föng til. Þessu næst hugleiðir hann, að menn mundu leggja það sér til orðs, að hann skildi svó við sína menn, og snýr því út aptr í hríðina og ferr inn sama veg og syndir í skerið og kemr til manna sinna; eru þá sjau5 dauðir, en átján lifa, aðframkomnir fyrir kulda sakir nema Úlfr einn. Jökull mælti: „Ætli þér hér lengi að vera?“ Úlfr svarar: „Annarstaðar þætti mér betra heldr en hér til lengdar.“ „Vili þér þá hlýða minni forsjá?“ segir hann. Þeir kváðust það gjarna vilja. Fleytti hann þá Úlfi stýrimanni til lands, og ei létti hann fyrri en hann hafði þeim öllum til lands komið; gengr Jökull þá undan þeim til skálans, og gerðu þeir þá stóran eld. Eru þeir þá skjótt lífvænir, kompánar hans. Þykir honum það þá á vanta, að þeir vissu ekki, hvar þeir vóru komnir, og það þeir vóru kostarlausir. Leið svó á kveld. Jökull spyrr: „Hverr er sveina fúss til að vaka í nótt?“ Úlfr svarar: „Eg ætla af mér sé færleikrinn, eða villtu eg vaki?“ „Nei,“ segir Jökull. Lögðu þeir sig þá til svefns, en Jökull vakti einn. Þá sá lítið af tungli ljóst, og dró ýmist til eðr frá. Jökli varð reikað til sjóar og með ströndinni; hann sér, að mikið er rekið af gózi þeira; hann þykist og þá sjá einhver tvau kvikindi bera saman gózið í einn stað; hann nemr staðar, hyggr að og hlustar til og heyrir þá 49 þessar tvær syrpur talast við.6 Gnípa segir: „Eitthvað fór þar eptir sandinum.“ „Eigi veit eg, hvað vera má,“ segir Geit. „Eg þykjumst gerla vita,“ segir Gnípa, «hér er kominn Jökull, son Búa og Fríðar Dofradóttur; af honum gengr nú mest frægð, og hefði sú betr, er slíkan mann ætti.“ Geit segir þá við Gnípu: „Göngum til móts við hann, og bjóðum honum tvó kosti, þann eina, að hann eigi aðra hvóra okkar; hinn annan, að við skulum drepa hann ella.“ „Svó skal vera, systir,“ segir hun.7 Eptir það gengu þær til móts við Jökul og stigu heldr stórum; þær vóru næsta ófrýnligar, nefsíðar, og hekk vörrin ofan á bringu; skinnstökkum vóru þær klæddar, síðum í fyrir, svó þær stigu að mestu á þá, en bak til fylgdu þeir ofanverðum þjóhnöppum; þær skelldu á lærin og fóru mjög ókvenliga.8 Jökull sá þetta og brá sverðinu, er Fríðr, móðir hans, hafði gefið honum, og hjó strax til Geitar á hálsinn, svó af fauk höfuðið. Í því kom Gnípa að og réð á Jökul; tókst þar in harðasta glíma; varð flestallt, sem fyrir var, upp að ganga. Gnípa gekk allfast fram, svó Jökull varð orkuvana fyrir henni og allt hans hold blátt og blóðrisa; sá Jökull, að ei mátti svó lengi fram fara, og sló til sniðglímu við Gnípu, en er hana varði minnst, brá hann henni lausamjöðm,9 og kom fyrst niðr höfuðið og síðan búkrinn; 50 varð þetta fall allmikið. Gnípa mælti: „Njóttu nú fallsins, karlmaðr.“10 Jökull mælti: „Fyrr skaltu fara sem Geit, systir þín.“ Gnípa mælti: „Ei máttu svó gera;11 þú munt vilja gefa mér líf, og seg mér, hvers þínir menn við þurfa.“ „Svó skal vera,“ segir Jökull, „enda vert mér trú og liðsinnandi.“ Þessu játar Gnípa. Síðan stóð hun upp og mælti: „Ódrengiliga fór þér áðan, Jökull, er þú drapt Geit, systur mína, tólf vetra gamalt barnið, en eg er nú þrettán vetra;12 erum vér nú sjau systkinin eptir og eg yngst af öllum.“ „Ei fer eg svó grannt að slíku,“ segir Jökull, „en hvar erum vér nú að komnir, félagar mínir?“ „Þér eruð komnir að óbyggðum í Grænlandi,“ segir Gnípa, „og inn á fjörðinn Öllumlengri;13 er heðan skammt frá byggð föður míns, er Surtr heitir, en móðir mín Syrpa; er faðir minn afgamall, en systkin mín vilja eg hafi ekki af arfinum, og gezt mér ekki að því, þó eg verði svó búið að hafa; munum við skilja að sinni að sýn, en ekki að vináttu.“ Gekk Jökull þá heim til skálans.

II. KAPÍTULI

Úlfr vaknaði snemma um morguninn, fann Jökul og spyrr tíðinda. Hann segir slíkt sem farið hafði, — „og er mál,“ segir Jökull, „að leita oss matarfanga.“ En er þeir gengu út, sá þeir, að þar var kominn nógr kostr og drykkr, þó þeir væri þar um næstu tólf mánuði; 51 gengu síðan inn og settust til matar. En er þeir vóru mettir, mælti Jökull: „Nú skal skipta liði vóru í dag;14 skulum við Úlfr ganga tveir á jökla, en þér, sveinar, skuluð fara með fjörum og henda saman góz vórt og bera til skálans.“ Þeir gerðu svó; fóru nú hvórir sína leið. Jökull og Úlfr gengu á jöklana, og leið ekki langt um, áðr en Gnípa kom til þeira og heilsar á þá kærliga. „Hvert ætlar þú að reika, karlmaðr?“ segir hun. Jökull mælti: „Til hellis föður þíns, og vil eg þú segir mér leið.“ „Svó skal vera,“ segir Gnípa. Gekk hun þá fyrir og létti ei fyrr en þau kómu öll að stórum helli. Gnípa mælti: „Ekki fer eg lengra, og er hér nú hellirinn Surts, föður míns. Vil eg gera þér kunnugt, Jökull, að bræðr mínir eru ekki heima, Sámr, Sniðill og Eitill, er hann þeira bræðra verstr viðreignar, og eru þeir farnir til skála þíns og ætla að drepa menn þína alla, en ræna gózinu, og fer eg nú að hjálpa þeim. Lifið vel.“ Gekk hun svó sína leið, en þeir gengu inn í hellinn. Var þá orðið myrkt af kveldi. Þeir sá, að þrjú flögð sátu við eldinn, og var ketill yfir eldinum.15 Jökull lætr sér óbilt verða, bregðr sverðinu og höggr á háls jötninum, svá af tók höfuðið og hraut ofan í ketilinn. Þá brugðu flagðkonurnar við og stóðu upp; í því viðbragði leggr Úlfr í gegnum aðra með spjóti, en önnur hleypr á Jökul, svó honum var búið við falli og hörfaði fast. Síðan réðust þau á og glímdu lengi og rákust um hellinn og að eldinum; urðu þá allmiklar sviptingar, því hvórt vildi færa annað á eldinn niðr; tók þá tröllkonan óðum að blása. Í því varð Jökli höndin laus og hljóp undir hana og færði yfir höfuð sér og steypti henni á höfðinu í ketilinn, og lét hun þar sitt líf. Síðan 52 gengu þeir innar eptir hellinum og kómu að einum afhelli; þar heyrðu þeir mannamál og þóttust vita, að þau hjónin, Surtr og Syrpa kerling, mundu þar inni vera. Surtr mælti: „Seint þykir mér synir okkrir koma heim.“ Syrpa mælti: „Hvert fóru þeir, karl minn?“ „Spyrr þú að því, kerling?“ segir hann. „Eg sendi þá bræðr, Sám, Sniðil og Eitil, til skála þeira Jökuls og Úlfs, þess örindis að drepa þá alla, en flytja hingað gózið; kemr þó ekki mikið fyrir þær dætr okkrar, Geit og Gnípu, sem Jökull drap.“ „Satt segir þú það, karl minn sæll,“ segir Syrpa, „og förum við brátt til móts við þá og vitum, hvað þá tefr.“ Þau gerðu svó; hljóp Surtr fyrir, en Syrpa seinna fram ór hellinum. Þetta sér Jökull og slæmir sverðinu til Surts og á höndina, svó af tók í olbogabótinni; rak Surtr þá upp stóran skræk og réð á Jökul; varð þeira aðgangr mikill og harðr; barst Jökull allr fyrir orku sakir,16 en þó var hann svó mjúkr, að Surtr kom honum aldri af fótunum.17 Veitti Surti mæðið mjög, því hann sótti blóðrás ákafliga; þess neytti Jökull og brá Surti hælkrók, svó hann fell, og snaraði Jökull hann ór hálsliðunum; fór síðan að leita Úlfs, og kom hann þar að, er þau Syrpa og hann áttust við, og hafði hun komið Úlfi undir og grúfði niðr að honum og ætlaði að bíta hann á barkann.18 Jökull tók þá báðum höndum undir kjálkana á kerlingu, en setti hnén í bakið. Syrpa mælti: „Skal mig svó grátt leika, Jökull?“ „Að því mun þér verða,“ sagði hann og braut hana síðan á bak aptr ór hálsliðunum, og var hun þegar dauð; fór Úlfr þá á fætr og var stirðr mjög. Þeir könnuðu síðan hellinn og fundu þar yfrið mikið góz, gull og silfr og góð klæði og marga fáséna gripi; en er þeir 53 höfðu kannað hellinn, eptir því sem þeira hugr var til, gengu þeir í burt og vildu vitja aptr manna sinna; og er þeir vóru komnir skammt á leið, heyrðu þeir óp og háreysti mikið og allmikla skellihlátra. Jökull og Úlfr sá þá, hvar þeir bræðr vóru komnir og höfðu byrðir stórar á herðum sér og hlupu hverr um annan fram. En er þá bræðr minnst varði, kom Jökull að þeim og hjó til Sáms í höfuðið og klauf hann í axlir niðr. Þá hleypr Úlfr að Sniðli með spjótið og sló undir hnakka honum, svó hann lá þar og sparkaði fótunum.19 Þetta sá Eitill og kastaði af sér byrðinni; hann hafði bitrliga skálm í hendi og æddi fram til móts við þá með miklum jötunmóð og hjó til Jökuls; það kom á lærið og varð allmikið sár; kom þá Úlfr, og sóttu þeir báðir að Eitli, en hann varðist alldrengiliga. Þar kom um síðir, að þeir gátu drepið hann; vóru þeir þá bæði móðir og sárir. Þar kom þá Gnípa og spyrr: „Eru þið sárir, sveinar?“ „Lítið er allt um það,“ segir Jökull. „Mál er heim að fara,“ segir Gnípa. Þeir gerðu svó. En er þeir vóru komnir í skálann, sagði Jökull Gnípu allt sem farið hafði. Gnípa mælti: „Mikil eru þessi tíðindi, að þið hafið drepið föður minn og móður og systkin mín, en eg hefi hjálpað mönnum ykkrum, því bræðr mínir hefði drepið þá alla, ef eg hefði ekki hér verið; eru sex dauðir, en tólf lifa. Hefir þú nú fullhefnt þinna manna, Jökull. En ætla máttu þið, að mér mundi þykja mikill frændaskaðinn, enda vóna eg þú munir bæta mér það, áðr en við skiljum.“ „Svó skal vera,“ segir Jökull. Batt hann um sár manna sinna og Gnípa með honum, og vóru þeir skjótt grónir og albata; skorti þá ei það þeir þurftu að hafa, og var Gnípa þar jafnan; líða nú 54 svó tímar; en nökkrum dögum fyrir jól kom Gnípa ei til þeira, og þóttust þeir ei vita, hvað af henni mundi orðið.

III. KAPÍTULI

Aðfangadagskveldið fyrir jól gekk Jökull einn seint út; hann sér, hvar Gnípa gengr og heilsar honum. Hann spyrr, hvar hun hafi verið eðr hvað hun segði tíðinda. Gnípa segir: „Víða hefi eg nú sveimað síðan, og er mér boðið til jólaveizlu, og vildi eg, að þú færir með mér.“ „Þú skalt því ráða,“ segir Jökull, „eðr hverr bauð þér?“ „Það gerði Skrámr, er konungr er yfir öllum óbyggðum, og allir jötnar eru hræddir við hann. Son á hann sér, er Grímnir heitir, allgott mannsefni, og verðr í öngvan máta föður síns eptirbátr; berr hann svó hér af ungum mönnum, að vér vildum meyjarnar hann gjarnan eignast hver fyrir sig; er hann nú tólf vetra; og þá þætti mér þú vel fram ganga, Jökull vinr, ef eg fengi hann.“ „Eg skal nökkuð til sjá,“ segir Jökull. „Mál er komið að ferðast,“ segir Gnípa. „Ekki dvelr mig,“ segir Jökull. Fara þau leið sína, gengr Gnípa fyrir, en Jökull eptir; verðr hun heldr greiðfara. Þau ganga inn með firðinum, þar til er hann þrýtr; er þá langt af nóttu. Þá koma þau að hömrum stórum og bröttum björgum; hun víkr þar upp að, sem einstigið er,20 og koma þau þá að helli stórum. Gnípa mælti: „Hér er hellirinn Skráms konungs; hefir hann boðið hingað öllum jötnum og flagðkonum, er í óbyggðum búa, og munu þeir færa þig til heljar, er þeir sjá þig, hverju eg vildi ekki valdið hafa. Hér er gull eitt, er eg vil gefa þér; þar er í sá náttúrusteinn, ef þú dregr gullið upp á fingr þér, þá sér þig enginn framar en þú villt.“ 55 Jökull þakkar henni gjöfina, og ganga þau síðan í hellinn. Jökull sá, að þar var tröllum skipað á báða bekki, og heilsuðu allir Gnípu. Skrámr bað hana ganga um beina þeira; hun kvað svó vera skyldu. Lét hun bera þá inn öl það, sem áfengast var, en þeir slokuðu stórum, og var drykkjan óstjórnlig, svó þeir urðu allskjótt drukknir; þá mátti heyra illyrði nóg og árásir, einninn sjá margan hnefapústr og hárrykkjur. Þetta þolir Jökull ekki og hleypr inn í þvöguna og drepr hvern af öðrum og hvern um þveran annan, og er nú ei traust um,21 að hverr kenndi öðrum þessi fádæmi og undr, en enginn sér Jökul. Er nú næsta gangmikið22 í hellinum. Rotslær hverr annan og drepr um síðir, þar til allir vóru fallnir, konur og karlar, utan Skrámr og sonr hans. Jökull gekk innar að Skrámi og leggr sverðinu í gegnum hann, og dettr hann þá fram á gólfið, svó þá varð dynkr mikill. Þetta undrast Grímnir, hverju gegna muni, að faðir hans var veginn, en sér öngvan mann, stökkr upp og lætr sópa greiprnar um allan hellinn. Þetta þykir Jökli allmikið gaman, tekr af sér gullið og vill ei leynast lengr. Það sér Grímnir og ræðr á hann, og takast þeir fangbrögðum og glíma allsterkliga, svó flest hlýtr upp að ganga; verðr það um síðir, að Grímnir fellr. Þetta sér Gnípa, skellir upp og hlær og mælti: „Nú gerði gæfumuninn, sem betr var, og mundu, Jökull minn, hverju þú hefir lofað.“ Jökull mælti: „Góðs ertu maklig af mér. Nú eru tvenn kostaboð, Grímnir, sá eini eg drep þig nú þegar í stað, sá annarr, að þú eigir Gnípu, vinkonu mína, og skaltu vera konungr yfir Jötnaheimi sem faðir þinn var;23 vil eg og gefa þér allan auð eptir föður þinn.“ Grímnir játar þessu; lætr Jökull hann 56 nú upp standa24 og ganga innar eptir hellinum; þar var fagrt um að sjást, gull og silfr nóg og góð klæði. Hann skimast um hellinn og sér þar eru tveir menn, lítt haldnir, karlmaðr og kona; sitja þau bæði á einum stól og eru strengd niðr við stólinn með járnhlekkjum sterkum. Þau vóru bæði mögr og þó fögr að áliti. Jökull gekk að stólnum og spyrr þau að heiti. Hann segir: „Eg heiti Hvítserkr, sonr Soldáns konungs af Serklandi, en systir mín Marsibilla. Skrámr jötunn heillaði okkr hingað, ætlaði hann Grímni, syni sínum, systur mína; höfum við verið hér fimm vetr, er eg nú fimmtán vetra, en systir mín þrettán vetra; hefir því valdið Marsibilla, að eg hefi svó lengi lifað, því hun sagði þeim feðgum, að nornir hefði spáð henni, að hun mundi deyja þegar í stað, ef eg væri í hel sleginn, en þeir trúðu því; nú ef Skrámr vissi það þú værir hér, mundi hann láta drepa þig og hafa þig í spað, því svó hefir hann fleirum gert.“ Jökull svarar: „Ekki þurfum við að óttast 57 hann, því hann er nú dauðr og allt hans hyski utan Grímnir, því eg gaf honum líf.“ „Slíkt eru góð tíðindi,“ segir Hvítserkr, „og muntu gera vel og gefa okkr líf.“ „Svó skal vera,“ segir Jökull. Eptir það leysti hann þau og gaf þeim vín að drekka; vóru þau þar þrjár nætr, en fjórða daginn bjóst Jökull til heimferðar; gáfu þau honum góðar gjafir, Grímnir og Gnípa, tafl vænt og góð klæði með guðvef25 og sverð þriðja, er Jökull bar síðan alla sína ævi og kallaði það Grímnisnaut, og marga aðra fáséna gripi og hvað hann vildi eiga og í burtu hafa; báðu hvórir aðra vel fara. Var Grímnir þar eptir og Gnípa, en þau systkin gengu með Jökli og kómu til skálans. Allir fögnuðu vel Jökli og félögum hans.

Leið nú svó vetrinn. En sumardag inn fyrsta kómu Grímnir og Gnípa, og heilsuðu hvórir öðrum vel. Grímnir bað Jökul ganga með sér ofan til sjóar; hann gerði svó; en er þeir kómu þar, sá hann skip með rá og reiða fljóta fyrir landi með farmi. Grímnir mælti: „Hér er bátr, er eg vil gefa þér og Gnípa, vinkona þín; höfum við barið hann saman í vetr.“ Jökull þakkaði þeim vel og mælti: „Eg vil hér í mót gefa þér, Gnípa, allt það góz, er var í helli föður þíns.“ Þau þökkuðu honum bæði og báðu hann kalla á sig, ef hann þyrfti lítils við, — „skal okkr ekki hægt um vera, ef eigi förum; munum vér skilja hér að sinni að sýn, en ei að vináttu,“ — gengu síðan heim, en Jökull bað menn sína að hraða sér. Þeir gerðu svó, stigu á skip og létu í haf. Jökull mælti: „Hvert skulum vér heðan halda?“ Hvítserkr svarar: „Ef eg réði, þá skyldum vér fara til 58 Serklands.“ Jökull segir, að hann skyldi því ráða, — „tak til, og seg fyrir leiðinni.“ Hann segist svó gera mundu. Gaf þeim síðan vel byri og kómu við Serkland í þá höfn, er þeir vildu kjósa, fyrir höfuðborg Soldáns konungs. Konungr sendi til skips, og þegar hann vissi, hverir menn að landi vóru komnir, gekk hann sjálfr til strandar. Hvítserkr og Marsibilla runnu í móti honum; varð þá mikill fagnaðarfundr. Konungr bauð Jökli heim með sér til veizlu með alla sína menn, og það þáði hann; gengu síðan heim til hallar; settist konungr í hásæti og á aðra hönd honum Jökull, en son hans á aðra; var Jökli þar leitað inna helztu virðinga. Konungr spyrr Hvítserk, hvað fram hefði farið um hans ævi, síðan þeir skildu; hann segir honum allt sem greiniligast og hversu Jökull hefði hjálpað honum og hverr afreksmaðr hann var. Konungr lét vel yfir og kvað hann vera afbragð flestra manna. Var nú gleði mikil í höllinni og glaumr og drukkit píment og klaret.26 Þar var sungið, básúnað og leikið með allra handa hljóðfærum, er fá kunni. En annan dag veizlunnar hefr Jökull upp bónorð sitt27 og biðr sér til handa Marsibilla konungsdóttur. Konungr tók því vel og segir, að það væri makligast, að hann nyti hennar ásta; var þetta að ráði gert og brúðkaup sett og Marsibilla inn leidd í höllina með allri gleði þeiri, er fást mátti28 í því landi; var nú aukin veizlan að nýju. Konungrinn gaf dóttur sinni hálft Serkland. Veizlan stóð hálfan mánuð, en að henni liðinni leiddu konungr og Jökull með góðum gáfum út hvern mann, 59 og hurfu þeir síðan heim aptr.29 Jökull gaf Hvítserki taflið góða og skrúðann,30 þann er Grímnir gaf honum; var það allgóð gersemi,31 og sórust þeir í fóstbræðralag og lögðust í hernað og leituðu sér fjár og frægðar, drápu berserki og illþýðisfólk, en kaupmönnum gáfu þeir grið, og heldu heim að hausti; gerðu þeir svó sex sumur í samt. En er þeim leiddist í hernaði að vera, settust þeir að löndum. Þá andaðist Soldán konungr, faðir Hvítserks; var hann þá til konungs tekinn yfir allt Serkland og fekk sér drottningar dóttur konungs í Blálandi. Þá gaf hann ríkið í vald Jökli, fóstbróður sínum, og þar með konungs nafn; stýrði Jökull ríki sínu allt til dauðadags; átti hann mörg börn með sinni drottningu Marsibilla, og tóku sum konungdóm og ríki eptir hann; og lýkr svó frá honum að segja.


1 Þáttur þessi er saminn sem framhald Kjaln. s., og eru því engin deili sögð hér á ætterni Jökuls, en föðurnafns er getið í heiti þáttarins.

2 fjörutigi daga 551, 28.

3 vér 551, 28.

4 láta yfir drífa: láta reka á reiðanum.

5 átta 551, 28.

6 syrpa (sbr. sorp): sóðaleg kona, skessa.

7 systir — hun: sæl systir 551; sæl systir, sagði Geit 28.

8 skinnstökkum — ókvenliga: þær vóru í stórum feldum af grábjörnum og ekki laglega gjörðum. Þær skelldu á lærin og létu allheims[k]liga 28. — Áþekk lýsing á tröllkonum og búningi þeirra er algeng í fornaldarsögum og öðrum tröllasögum (sjá t. d. Illuga s. Gríðarfóstra, 4. kap.; Þorst. s. Víkingssonar, 19. kap.).

9 en er — lausamjöðm: og lagði á hana mjaðmarbragð, svó að hun fekk allmikla skjóðu 28. — Björn Bjarnason telur, að með sniðglímu sé hér öllu frekar átt við undirbúningshreyfingu til mjaðmarbragðs (lausamjaðmar) en fullkomið sniðglímubragð (Nordboernes legemlige Uddannelse i Oldtiden 109).

10 nú fallsins 551, 28; niðrfallsins 504.

11 máttu: muntu 551, 28.

12 þrettán: ellifu 551, 28.

13 Í Grænlandslýsingu þeirri, sem höfð er eftir Ívari Bárðarsyni, sem dvaldist í Grænlandi um miðja 14. öld, er fjörðurinn Öllumlengri (Allumlenger) nefndur. Gæti lýsingin á legu fjarðarins einna helzt átt við sundið Ikerasarsuak, þótt ekki falli að öllu leyti við staðhætti þar (Finnur Jónsson: Det gamle Grønlands beskrivelse 20–21, 42). Ekki eru fleiri heimildir um fjarðarnafn þetta.

14 skipta 551, 28; skipa 504.

15 við eldinn — eldinum: í hellinum og höfðu eld á millum sín og ketil yfir 28.

16 þ. e. hraktist undan vegna aflsmunar.

17 barst — fótunum sl. 28.

18 grúfði: greyfist 28.

19 svó — fótunum: svó snart, að hann fell þegar í rot, en byrðin snaraðist um háls honum, svó hann gat hvergi hræri sig og varð þar að spinka 28.

20 einstigið er: einstigi er upp að ganga 28.

21 ei traust um: ekki trútt um, ekki laust við.

22 næsta gangmikið: ógangr mikill 28.

23 Jötnaheimi: óbyggðum 28.

24 Í 28 er það, sem eftir er sögunnar, mjög stytt, og hljóðar niðurlagið á þessa leið:

Eptir það sýndi Grímnir honum um hellinn; vóru þar nóg auðæfi saman komin. Eptir það lýkr hann upp afhelli stórum; vóru þar inni tveir menn í fangelsi, kóngsson og kóngsdóttir, heitir hann Hárekr, en hun Marsibil. Var Soldán kóngr á Serklandi faðir þeira, og hafði Skrámr heillað þau þangað, og ætlaði hann að eiga hana, en hun vildi ei, og svó höfðu þau verið þar upp á fimm vetr. Eptir það leysti Jökull þau og leitaði þeim hæginda. Var hann þar þrjár nætr úr því, en fjórða dag bjóst hann heim til skála síns. Þá gáfu þau honum góðar gjafir, Grímnir og Gnípa, tafl vænt og kóngsskrúða og sverð gott, og kallaði Jökull það Grímnisnaut og bar það alla ævi síðan; og fór Jökull svó heim til skála og hafði kóngsbörnin með sér, og fögnuðu þeir Jökli menn hans og fylgjurum hans. Sumardaginn fyrsta kom Gnípa þar, og heilsuðu hvórir öðrum. Gnípa bað Jökul að ganga með sér til sjóar. Hann gerir svó. En er hann kemr þar, sá hann þar fljóta skip vænt með rá of reiða. Gnípa mælti: „Hér er eitt báttötr, er eg vil gefa þér; það höfum við Grímnir barið saman í vetr.“ Hann þakkaði með fögrum orðum; skildu síðan að sýn, en ekki vináttu. Sigldi Jökull síðan til Serklands til Soldáns kóngs; varð kóngr feginn börnum sínum, og eignaðist Jökull Marsibil og varð mikill höfðingi; og lýkr hér frá honum að segja.

25 góð klæði: kóngsskrúða 551. — Orðið guðvefr er notað um dýrindisklæði og er kunnugt úr öðrum forngermönskum málum (godwebb á egs., godowebbi á fsaxn., gotaweppi á fhþ., godwob á ffrísn.).

26 píment (leiðr. úr fímet í 504) er nafn á einhvers konar kryddvíni (miðaldalat. pigmentum, pimentum), og klaret (miðaldalat. claretum) er nafn á svipaðri víntegund. (Zeitschr. f. d. Altertum VI, 273–275.)

27 bónorð sitt: orð sín 551.

28 þeiri — mátti: er veröldin kunni að veita, með söng og psalteris, trumbum, gígjum og symfónum, bumbur barðar og organ troðin með allri þeiri gleði, er fá kunni 551.

29 leiddu — aptr: leiddi konungrinn Jökul út með góðum gjöfum og hvern mann 551.

30 kóngsskrúðann 551.

31 var — gersemi: vóru það ágætir gripir 551.

Источник: Jóhannes Halldórsson (ed.): Kjalnesinga saga / Jökuls þáttr Búasonar / Víglundar saga / Króka-Refs saga / Þórðar saga hreðu / Finnboga saga / Gunnars saga Keldugnúpsfífls (Íslenzk fornrit XIV). Reykjavík. 1959. Bl. 45–59.

OCR: Speculatorius

© Tim Stridmann