Jökuldæla segir, að Hákon hafi numið Jökuldal vestan ár frá Teigará inn til jökla og búið á Hákonarstöðum. Það er þriðji bær inn frá Skjöldúlfsstöðum. Út frá Skjöldúlfsstöðum stendr bærinn Hjarðarhagi, skammt inn frá Teigará. Teigur var ónuminn milli landnáms Hákonar og Þorsteins torfa, sem nam Jökulsárhlíð og bjó á Torfastöðum í Hlíð, og lögðu þeir hann til Hofs, eins og Landnáma segir. Þar er nú Hofteigr, kirkjustaðr á Jökuldal. Innan til í teignum sjást enn menjar af blótstað inum forna.
Skjöldúlfr, er bjó á Skjöldúlfsstöðum, var annar landnámsmaðr á Jökuldal og nam land allt austan megin Jökulsár frá Húsá, innan við Skeggjastaði, upp að Hólkná. Skjöldúlfr byggði bæ sinn í landnámi Hákonar, og reiddist hann Skjöldúlfi fyrir það, er hann byggði þar að sér fornspurðum, og skorar hann Skjöldúlf á hólm. Skyldi þeir berjast á hólma í Hólmavatni. Það er á Tunguheiði milli Jökuldals og Vopnafjarðar.
Hákon dýrkaði Þór. Stóð hof hans á felli norðr og upp af Hákonarstöðum. Það heitir enn Þórfell. Þangað gekk Hákon hvern morgun, þegar fært var veðr, berhöfðaðr og berfættr. Þegar kom að hólmstefnudegi, var Hákon snemma á fótum ok gekk til hofsins að biðjast fyrir, en frosthéla hafði fallið um nóttina, og kól Hákon á minnstu tá. Af þessu taldi hann sér fótinn stirðan til vígs, tók sverð sitt og hjó af tána, batt svo um og reið til hólmsins.
Þenna sama morgun bjóst og Skjöldúlfr snemma til hólms. Hafði hann með sér skjaldkonu eina, er Valgerðr hét. En sem þau komu norðr á heiðina, sáu þau þar á einni tjörn átján álftir sárar. Sagði þá Skjöldúlfr, að skjaldmeyin skyldi gæta álftanna á tjörninni, þangað til hann kæmi aftr. Síðan reið hann á hólminn og barðist við Hákon. Lauk svo viðskiptum þeirra, að Skjöldúlfr féll, og heygði Hákon hann þar í hólmanum. Sér þar glöggt hauginn enn í dag. En það er að segja af skjaldmey Skjöldúlfs, að hún elti álftirnar, þangað til hún sprakk. Heitir tjörnin síðan Valgerðarhlaup.
Hákon átti bú á Víðihólum norðr á heiðinni upp af Hákonarstöðum. Hét sá Brandr sterki, er varðveitti búið. Einn vetr rak frá Brandi í miklu norðvestanveðri átta tigi geldinga til dauðs fyrir fossana í Gilsárgili inn og vestr frá Skjöldúlfsstöðum.
Gaukr hét bóndi, er bjó á Gauksstöðum. Það eru nú nefndir Gagrstaðir. Hann var inn mesti smiðr og skartsmaðr. Eitt haust reið Gaukr með mörgum mönnum til hofs, og var Brandr sterki í för með þeim. Þeir riðu ofan eftir dalnum og yfir Jökulsá á Goðavaði. Meðan þeir riðu vaðið, stjakaði Brandr hesti Gauks, svo hann rasaði, og blotnuðu skrúðklæði Gauks. Af því reiddist Gaukr og hét að hefna á Brandi. Vorið eftir snemma ríðr Gaukr norðr á Víðihóla og drepr þar á dyr. Brandr gengr til dyra, og vegr Gaukr hann þar. Síðan kastar hann líkinu í stóra lind hjá bænum. Hún heitir síðan Brandslind.
Brandr var frændi Eiríks, er byggði Eiríksstaði, — sá bær er næsta höfuðból inn frá Hákonarstöðum, — og var nefndr Eiríkr morri. Þegar Eiríkr fréttir víg Brands, hyggr hann á hefndir við Gauk, en treystist eigi að eiga við hann, því Gaukr var hverjum manni betr vígr og átti ið bezta sverð, er hann hafði sjálfr smíðað. Eiríkr átti og sverð, er Gaukr hafði smíðað honum, miklu síðra að kostum, en líkt útlits.
Eitt sinn fréttir Eiríkr, að Gaukr muni fara upp að Brú, — sá er næstr bær inn frá Eiríksstöðum, — og gista á leið að Hákonar á Hákonarstöðum. Griðkona ein var að Hákonarstöðum, vinveitt Eiríki. Hana finnr hann og fær henni sverð sitt og biðr hana ná sverðina frá Gauki og færa sér, en láta sitt koma í staðinn. Þessu lofar hún. Nú kemr Gaukr og gistir á Hákonarstöðum. En um nóttina nær griðkona sverði Gauks, en bregðr sverði Eiríks aftr í slíðrarnar, hleypr því næst upp að Eiríksstöðum um nóttina með sverðið til Eiríks, og er komin aftr heim fyrir rismál. Daginn eftir ríðr Gaukr upp hjá Eiríksstöðum, og sem hann kemr að Þverá, skammt út frá Brú, sitr Eiríkr þar fyrir honum. Verðr þar fátt um kveðjur, og berjast þeir lengi dags. Gauki varð erfið vörnin, því sverðið dugði eigi, og féll hann fyrir Eiríki. Þá reið Eiríkr að Brú og lýsti víginu og síðan heim.
Источник: Íslendinga sögur. Guðni Jónsson bjó til prentunar.
Сканирование: Heimskringla
OCR: Stridmann