Þórarins þáttur stuttfeldar

Það barst að eitt sinn er Sigurður konungur gekk frá skytningi og til aftansöngs, voru menn drukknir og kátir, sátu úti fyrir kirkju og lásu aftansönginn. Varð söngurinn ógreiðlegur.

Mælti konungur: «Hvað karla er það er eg sé þar hjá kirkju í feldi nokkurum stuttum?»

Þeir svöruðu, kváðust eigi vita.

Konungur mælti:

Villir hann vísdóm allan.
Veldr því karl í feldinum.

Karl gengur fram síðan og mælti:

Hykk að hér megi þekkja
heldr í stuttum feldi
oss, en eg læt þessa
óprýði mér hlýða.
Væri mildr, ef mæra
mik vildir þú skikkju,
hvað höfum heldr en tötra,
hildingr, muni vildri.

Þá mælti konungur: «Kom til mín á morgni þar sem eg drekk.»

Líður nóttin.

Fer Íslendingur er síðan var kallaður Þórarinn stuttfeldur og kemur að drykkjustofunni og stóð maður úti og hafði horn í hendi og mælti til Íslendings: «Það mælti konungur að þú skyldir yrkja vísu áður þú gengir inn ef þú vildir þiggja nokkura vingjöf af honum og kveða of þann mann er Hákon heitir Serksson er kallaður er mörstrútur og geta þess í vísunni.»

Sjá maður er við hann ræddi heitir Árni og var kallaður fjöruskeifur.

Síðan ganga þeir inn og gengur Þórarinn fyrir konung og kvað vísu:

Þú vændir mér, Þrænda
þengill, ef eg stef fengi
frænda Serks að fundi,
fólkrakkr, gefa nakkvað.
Léstu að Hákon héti,
hildingr hinn fémildi,
nú samir að minnast,
mörstrútr, á það görva.

Þá mælti konungur: «Það sagði eg aldregi og muntu vera spottaður og er það ráð að Hákon skapi þér víti fyrir og far í sveit hans.»

Þá mælti Hákon: «Vel skal hann hér kominn með oss og sé eg hvaðan þetta er komið.»

Og setur hann Íslending þar á milli þeirra og voru þeir nú allkátir. Þá er á leið á daginn tók að fá á þá.

Þá mælti Hákon: «Þykistu nakkvað eiga bótþarfa við mig?»

Hann svarar: «Víst þykist eg eiga að bæta.»

«Eða þótti þér eigi vélræði heldur sett fyrir þig.»

Hann kvað svo vera.

Hákon mælti: «Þá munum við sáttir ef þú yrkir aðra vísu um Árna.»

Hann kvaðst þess búinn. Ganga síðan þangað sem Árni sat.

Þórarinn kvað vísu:

Fullvíða hefir fræðum
Fjöruskeifr of her veifað
lystr og leiri kastað
lastsamr ara hins gamla.
Og vannst eina kráku
orðvandr á Serklandi,
Skeifr barstu Högna húfu
hræddr, varlega brædda.

Árni hljóp upp og brá sverði og vildi ráða til Þórarins. Hákon bað hann hætta og vera kyrran og kvað hann á það mega minnast að hann mundi bera lægra hlut ef þeir ættust við.

Síðan gekk Þórarinn fyrir konung og sagði að hann hafði drápu ort um hann og bað ef hann mundi hlýða og það veitti hann og er það kallað Stuttfeldardrápa. Þá spurði konungur hvað hann ætlaðist fyrir en hann kvaðst suður hafa ætlað til Róms. Konungur fékk honum fé og bað hann til sín koma er hann kæmi aftur og kvaðst þá mundu gera honum nokkura sæmd.

En hér greinir eigi um hvort þeir fundust síðan.

Текст с сайта Netútgáfan

© Tim Stridmann