Þorsteins þáttur skelks

1. kafli

Það er sagt um sumarið eftir að Ólafur konungur fór að veislum austur um Víkina og víðara annarstaðar. Tók hann veislu á þeim bæ er á Reimi heitir. Hann var mjög fjölmennur. Sá var maður þá með konungi er Þorsteinn hét Þorkelsson, Ásgeirssonar æðikolls, Auðunarsonar skökuls, íslenskur maður, og hafði komið til konungs um veturinn áður.

Um kveldið er menn sátu yfir drykkjuborðum talaði Ólafur konungur að engi maður af hans mönnum skyldi einn saman fara í salerni um náttina því að hver sem ganga beiddist skyldi með sér kalla sinn rekkjufélaga ella kvað hann eigi mundu hlýða. Drekka menn nú vel um kveldið en er ofan voru drykkjuborð gengu menn að sofa.

Og er á leið náttina vaknaði Þorsteinn Íslendingur og beiddi að ganga af sæng en sá svaf fast er hjá honum lá svo að Þorsteinn vildi víst eigi vekja hann. Stendur hann þá upp og kippir skóm á fætur sér og tekur yfir sig einn feld þykkvan og gengur til heimilishúss. Það var stórt hús svo að ellefu menn máttu sitja hvoru megin. Sest hann á ystu setu. Og er hann hefir setið nokkura stund sér hann að púki kemur upp á innstu setu og sat þar.

Þorsteinn mælti þá: «Hver er þar kominn?»

Dólgurinn svarar: «Hér er kominn Þorkell hinn þunni er féll á hræ með Haraldi konungi hilditönn.»

«Hvaðan komst þú nú að?» kvað Þorsteinn.

Hann sagðist nú nýkominn að úr helvíti.

«Hvað kanntu þaðan að segja?» spurði Þorsteinn.

Hinn svarar: «Hvers viltu spyrja?»

«Hverjir þola best píslir í helvíti?»

«Engi betur,» kvað púki, «en Sigurður Fáfnisbani.»

«Hverja písl hefir hann?»

«Hann kyndir ofn brennanda,» sagði draugurinn.

«Ekki þykir mér það svo mikil písl,» segir Þorsteinn.

«Eigi er það þó,» kvað púki, «því að hann er sjálfur kyndarinn.»

«Mikið er það þá,» kvað Þorsteinn, «eða hver þolir þar verst píslir?»

Draugurinn svarar: «Starkaður hinn gamli þolir verst því að hann æpir svo að oss fjandunum. Er það meiri pína en flest allt annað svo að vér megum fyrir hans ópi aldrei náðir hafa.»

«Hvað pínu hefir hann þess,» kvað Þorsteinn, «er hann þolir svo illa, svo hraustur maður sem hann hefir sagður verið?»

«Hann hefir ökklaeld.»

«Ekki þykir mér það svo mikið,» sagði Þorsteinn, «slíkum kappa sem hann hefir verið.»

«Ekki er þá rétt á litið,» kvað draugur, «því að iljarnar einar standa upp úr eldinum.»

«Mikið er það,» kvað Þorsteinn, «og æp þú eftir honum nokkuð óp.»

«Það skal vera,» kvað púki.

Hann sló þá í sundur á sér hvoftunum og setti upp gaul mikið en Þorsteinn brá feldarskautinu að höfði sér.

Honum varð mjög ósvipt við óp þetta og mælti: «Æpir hann þetta ópið mest svo?»

«Fjarri fer um það,» kvað draugur, «því að þetta er óp vort drýsildjöflanna.»

«Æp þú eftir Starkaði líttað,» kvað Þorsteinn.

«Það má vel,» kvað púki.

Tekur hann þá að æpa í annan tíma svo öskurlega að Þorsteini þótti firn í hversu mikið sjá fjandi jafnlítill gat gaulað. Þorsteinn gerir þá sem fyrr að hann vafði feldinum að höfði sér og brá honum þó svo við að ómegin var á honum svo að hann vissi ekki til sín.

Þá spurði púkinn: «Hví þegir þú nú?»

Þorsteinn ansaði er af honum leið: «Því þegi eg að eg undrast hve mikil ógnarraust að liggur í þér, eigi meiri púki en mér sýnist þú vera eða er þetta hið mesta óp Starkaðar?»

«Eigi er nærri því. Þetta er,» segir hann, «heldur hið minnsta óp hans.»

«Drag þú eigi undan lengur,» kvað Þorsteinn, «og lát mig heyra hið mesta ópið.»

Púki játtaði því. Þorsteinn bjóst þá við og braut saman feldinn og snaraði hann svo að höfði sér og hélt að utan báðum höndum. Draugurinn hafði þokað að Þorsteini um þrjár setur við hvert ópið og voru þá þrjár einar á milli þeirra. Púkinn belgdi þá hræðilega hvoftana og sneri um í sér augunum og tók að gaula svo hátt að Þorsteini þótti úr hófi keyra og í því kvað við klukkan í staðnum en Þorsteinn féll í óvit fram á gólfið.

En púkanum brá svo við klukkuhljóðið að hann steyptist niður í gólfið og mátti lengi heyra yminn niður í jörðina. Þorsteinn raknaði skjótt við og stóð upp og gekk til sængur sinnar og lagðist niður.

2. kafli

En er morgnaði stóðu menn upp. Gekk konungur til kirkju og hlýddi tíðum. Eftir það var gengið til borða. Konungur var ekki forað blíður.

Hann tók til orða: «Hefir nokkur maður farið einn saman í nátt til heimilishúss?»

Þorsteinn stóð þá upp og féll fram fyrir konung og sagðist af hafa brugðið hans boði.

Konungur svarar: «Ekki var mér þetta svo mikil meingerð, en sýnir þú það sem talað er til yðvar Íslendinga að þér séuð mjög einrænir en varðst þú við nokkuð var?»

Þorsteinn sagði þá alla sögu sem farið hafði.

Konungur spurði: «Hví þótti þér gagn að hann æpti?»

«Það vil eg segja yður herra. Eg þóttist það vita með því að þér höfðuð varað alla menn við að fara þangað einir saman, en skelmirinn kom upp, að við mundum eigi klakklaust skilja en eg ætlaði að þér munduð vakna við herra er hann æpti og þóttist eg þá hólpinn ef þér yrðuð varir við.»

«Svo var og,» sagði konungur, «að eg vaknaði við og svo vissi eg hvað fram fór og því lét eg hringja að eg vissi að eigi mundi þér ella duga. En hræddist þú ekki þá er púkinn tók að æpa?»

Þorsteinn svarar: «Eg veit ekki hvað það er, hræðslan, herra.»

«Var engi ótti í brjósti þér?» sagði konungur.

«Eigi var það,» sagði Þorsteinn, «því að við hið síðasta ópið skaut mér næsta skelk í bringu.»

Konungur svarar: «Nú skal auka nafn þitt og kalla þig Þorstein skelk héðan af og er hér sverð að eg vil gefa þér að nafnfesti.»

Þorsteinn þakkaði honum.

Svo er sagt að Þorsteinn gerðist hirðmaður Ólafs konungs og var með honum síðan og féll á Orminum langa með öðrum köppum konungs.

Текст с сайта Netútgáfan

© Tim Stridmann