Þorvalds þáttur víðförla

1. kafli

Maður er nefndur Eilífur örn. Við hann er kennt eitt hið hæsta fjall á Reykjaströnd í Skagafirði. Eilífur örn var son Atla Skíðasonar hins gamla, Bárðarsonar jarls. Eilífur örn átti Þorlaugu dóttur Sæmundar hins suðureyska er nam Sæmundarhlíð. Þau áttu þrjá sonu. Hét einn Sölmundur, faðir Guðmundar, föður Víga-Barða og bræðra hans. Annar var Atli hinn rammi. Hann átti Herdísi dóttur Þórðar frá Höfða. Þeirra dóttir var Þorlaug er átti Guðmundur hinn ríki á Möðruvöllum. Þriðji son Eilífs arnar hét Koðrán er bjó að Giljá í Vatnsdal. Hann var auðigur maður. Kona hans hét Járngerður. Son þeirra hét Ormur en annar Þorvaldur. Koðrán unni mikið Ormi syni sínum en Þorvaldi lítið eða ekki. Var honum haldið til vinnu þegar hann mátti sér nokkuð. Hann var klæddur lítt og ger í hvívetna hornungur bróður síns. Hann þjónaði í húsi föður síns það er hann var til skipaður með öllum góðvilja.

2. kafli

Í þann tíma bjó Þórdís spákona út á Skagaströnd þar sem síðan heitir að Spákonufelli. Á einu sumri þá hún heimboð að Koðráni að Giljá því að hann var vin hennar.

En er Þórdís var að veislunni og hún sá hver munur var ger þeirra bræðra þá mælti hún til Koðráns: «Það legg eg til ráðs með þér að þú sýnir meira manndóm héðan af Þorvaldi syni þínum en þú hefir gert hér til því að eg sé það með sannindum að fyrir margra hluta sakir mun hann verða ágætari en allir aðrir þínir frændur. En ef þú hefir á honum litla elsku að sinni þá fá þú honum kaupeyri og lát hann lausan ef nokkur verður til að sjá um með honum meðan hann er ungur.»

Koðrán sá að hún talaði slíkt af góðvilja og sagðist víst mundu fá honum nokkuð silfur. Lét hann þá fram einn sjóð og sýndi henni.

Þórdís leit á silfrið og mælti: «Ekki skal hann hafa þetta fé því að þetta fé hefir þú tekið með afli og ofríki af mönnum í sakeyri.»

Hann bar þá fram annan sjóðinn og bað hana þar á líta.

Hún gerði svo og mælti síðan: «Ekki tek eg þetta fé fyrir hans hönd.»

Koðrán spurði: «Hvað finnur þú þessu silfri?»

Þórdís svarar: «Þessa peninga hefir þú saman dregið fyrir ágirndar sakir í landskyldum og fjárleigum meirum en réttlegt er. Fyrir því heyrir slíkt fé þeim manni eigi til meðferðar er bæði mun verða réttlátur og mildur.»

Síðan sýndi Koðrán henni digran fésjóð og var fullur af silfri. Vó Þórdís þar af þrjár merkur til handa Þorvaldi en fékk Koðráni aftur það er meira var.

Þá mælti Koðrán: «Fyrir hví vildir þú taka heldur af þessum peningum fyrir hönd sonar míns en af hinum sem eg færði þér fyrr?»

Hún svarar: «Því, að þú hefir að þessum vel komist er þú hefir tekið í arf eftir föður þinn.»

Eftir það fór Þórdís brottu frá veislunni með sæmilegum gjöfum og vináttu Koðráns. Hafði hún Þorvald heim með sér til Spákonufells. Var hann með henni um hríð vel haldinn að klæðum og öðrum hlutum þeim er hann þurfti og þroskaðist mikið.

En er hann var vel frumvaxti fór hann utan að ráði Þórdísar. Létti hann eigi fyrr en hann kom fram í Danmörku. Þar fann hann Svein er kallaður var tjúguskegg. Sveinn var lítillar ættar í móðurkyn en hann sagðist vera son Haralds Gormssonar Danakonungs. Sveinn varð ekki ílendur í þann tíma í Danmörk því að Haraldur konungur vildi ekki ganga við faðerni hans. Lá hann þá löngum í hernaði og var kallaður konungur af liðsmönnum sem víkinga siður var. En er Þorvaldur kom á fund Sveins tók hann vel við honum og gerðist Þorvaldur hans maður og var með honum nokkur sumur í hernaði fyrir vestan haf.

Þorvaldur hafði eigi lengi verið með Sveini konungi áður konungur virti hann um fram aðra menn og alla sína vini því að Þorvaldur var mikill ráðagerðarmaður, öllum auðsær að dyggð og skynsemd, styrkur að afli og hugaður vel, vígkænn og snarpur í orustum, mildur og örlyndur af peningum og reyndur að fullkomnum trúleik og lítillætis þjónustu, hugþekkur og ástúðigur öllum liðsmönnum og eigi ómaklega því að þá enn heiðinn sýndi hann réttlæti um fram hátt annarra heiðinna manna svo að hlutskipti það allt er hann fékk í hernaði veitti hann þurföndum og til útlausnar herteknum mönnum og hjálpaði mörgum þeim er meinstaddir voru. En ef honum hlotnuðust herteknir menn sendi hann þá aftur til feðra sinna eða frænda svo sem hina er hann hafði með peningum út leyst. Nú því að hann var fræknari í orustum en aðrir liðsmenn þá gerðu þeir lögtekið að hann skyldi hafa kostgrip af hverri tekju. En hann neytti svo þeirrar frumtignar að hann kjöri ríkra manna sonu eða þá hluti aðra er þeim var mest eftirsjá að er látið höfðu en hans félögum þætti minnst fyrir að gefa upp og sendi síðan þeim er átt höfðu. Þar fyrir elskuðu hann jafnvel þeir er fyrir ránum urðu af Sveins mönnum og víðfrægðu lof hans góðleika. Þaðan af frelsti hann auðveldlega sína menn þó að gripnir yrðu af sínum óvinum og eigi síður en um sjálfan Svein konung.

Svo bar til að einn tíma er Sveinn herjaði á Bretland og í fyrstu vann hann sigur og fékk mikið herfang. En er hann sótti langt á land upp frá skipunum þá kom á móti honum svo mikið riddaralið að hann hafði enga viðtöku. Varð Sveinn konungur þar fanginn, bundinn og kastað inn og með honum Þorvaldur Koðránsson og margir aðrir göfgir menn og mikils verðir. Á næsta degi kom einn ríkur hertogi til myrkvastofunnar með miklu liði að taka Þorvald út af dýflissu því að litlu áður hafði hann hertekna sonu þessa sama hertoga, leyst og sent heim frjálsa til föður síns. Hertoginn bað Þorvald út ganga og fara frjálsan á brott. Þorvaldur sór um að hann skyldi fyrir engan mun þaðan lífs fara nema Sveinn konungur væri út leystur og frelstur með öllum sínum mönnum. Hertoginn gerði þetta þegar fyrir hans skyld sem Sveinn konungur vottaði síðan þá er hann sat að einni ágætri veislu með tveim konungum öðrum. Og er sendingar komu inn mælti einn dróttseti, sagði að eigi mundi verða síðan einn skutill svo veglega skipaður sem þá er þrír svo voldugir konungar snæddu af einum diski.

Þá svarar Sveinn konungur brosandi: «Finna mun eg þann útlendan bóndason að einn hefir með sér ef rétt virðing er á höfð í engan stað minna göfugleik og sómasemd en vér allir þrír konungar.»

Nú varð af þessu gleði mikil í höllinni og spurðu hlæjandi allir hver eða hvílíkur þessi maður væri er hann sagði svo mikla frægð af.

Hann svarar: «Þessi maður er eg tala hér til er svo vitur sem spökum konungi hæfði að vera, styrkur og hugdjarfur sem hinn öruggasti berserkur, svo siðugur og góðháttaður sem hinn siðugasti spekingur.»

Sagði hann síðan af Þorvaldi þenna atburð sem nú var ritaður er hann frelsti konunginn fyrir sína vinsæld og fyrir marga ágæta hluti og lofsamlega.

3. kafli

Þessu næst sem Þorvaldur hafði farið víða um lönd tók hann trú rétta og var skírður af saxlenskum biskupi þeim er Friðrekur hét og eftir það bað hann Friðrek biskup með öllu kostgæfi að hann mundi fara til Íslands með honum að predika guðs erindi og leita að snúa til guðs föður hans og móður og öðrum náfrændum hans. Biskup játaði því gjarna og fór til Íslands síðan og greiddist vel þeirra ferð.

Koðrán tók vel við syni sínum. Voru þeir Þorvaldur og biskup hinn fyrsta vetur að Giljá með Koðráni við þrettánda mann. Tók Þorvaldur þegar að boða guðs erindi frændum sínum og þeim öllum er hann komu að finna því að biskupi var ókunnig tunga landsmanna og snerust nokkurir menn til réttrar trúar fyrir orð Þorvalds á þeim vetri.

En nú skal fyrst segja hversu hann leiddi til sanns átrúnaðar föður sinn og hans heimamenn. Á nokkurri hátíð þá er Friðrekur biskup með sínum klerkum framdi tíðagerð og guðlegt embætti var Koðrán nær staddur meir sakir forvitni en hann ætlaði sér að samþykkja að sinni þeirra siðferði. En er hann heyrði klukknahljóð og fagran klerkasöng og kenndi sætan reykelsisilm en sá biskup veglegum skrúða skrýddan og alla þá er honum þjónuðu klædda hvítum klæðum með björtu yfirbragði og þar með birti mikla um allt húsið af fögru vaxkertaljósi og aðra þá hluti sem til heyrðu því hátíðarhaldi þá þóknuðust honum allir þessir hlutir heldur vel.

En á þeim sama degi kom hann að Þorvaldi syni sínum og mælti: «Nú hefi eg séð og nokkuð hugleitt hversu alvörusamlega þjónustu þér veitið guði yðrum en þó eftir því sem mér skilst eru mjög sundurleitir siðir vorir því að mér sýnist að guð yðvar mun gleðjast af ljósi því er vorir guðar hræðast. En ef svo er sem eg ætla þá er þessi maður sem þú kallar biskup yðvarn spámaður þinn því að eg veit að þú nemur að honum alla þá hluti er þú boðar oss af guðs þíns hálfu. En eg á mér annan spámann þann er mér veitir mikla nytsemd. Hann segir mér fyrir marga óorðna hluti. Hann varðveitir kvikfé mitt og minnir mig á hvað eg skal fram fara eða hvað eg skal varast og fyrir því á eg mikið traust undir honum og hefi eg hann dýrkað langa ævi en misþokkast þú honum mjög og svo spámaður þinn og siðferði ykkart og af letur hann mig að veita ykkur nokkura viðsæming og einna mest að taka ykkarn sið.»

Þorvaldur mælti: «Hvar byggir spámaður þinn?»

Koðrán svarar: «Hér býr hann skammt frá bæ mínum í einum miklum steini og veglegum.»

Þorvaldur spurði hversu lengi hann hefði þar búið.

Koðrán sagði hann þar byggt hafa langa ævi.

«Þá mun eg,» segir Þorvaldur, «setja hér til máldaga með okkur faðir. Þú kallar þinn spámann mjög styrkan og segir þig á honum hafa mikið traust. En biskup er þú kallar minn spámann er auðgætlegur og ekki aflmikill en ef hann má fyrir kraft himnaguðs þess er vér trúum á reka brottu spámann þinn af sínu styrka herbergi þá er rétt að þú fyrirlátir hann og snúist til þess hins styrkasta guðs, skapara þíns, sem er að sönnu guð og engi styrkleikur má sigra. Hann byggir í eilífu ljósi þangað er hann leiðir alla á sig trúandi og sér trúlega þjónandi að þeir lifi þar með honum í óumræðilegri sælu utan enda. Og ef þú vilt snúast til hins háleita himnakonungs þá mátt þú skjótt skilja að þessi er þig af letur að trúa á hann er þinn fullkominn svikari og hann girnist að draga þig með sér frá eilífu ljósi til óendilegra myrkra. En ef þér sýnist sem hann geri þér nokkura góða hluti þá gerir hann það allt til þess að hann megi því auðveldlegar þig fá svikið ef þú trúir hann þér góðan og nauðsynlegan.»

Koðrán svarar: «Auðséð er mér það að sundurleit er skilning ykkur biskups og hans og eigi síður skil eg það að með kappi miklu fylgja hvorir sínu máli. Og alla þá hluti sem þið segið af honum, slíkt hið sama flytur hann af ykkur. En hvað þarf hér að tala mart um? Þessi máldagi sem þú hefir á sett mun prófa sannindi.»

Þorvaldur varð glaður við ræðu föður síns og sagði biskupi allan þenna málavöxt og samtal þeirra. Á næsta degi eftir vígði biskup vatn, fór síðan með bænum og sálmasöng og dreifði vatninu umhverfis steininn og svo steypti hann því yfir ofan að allur varð votur steinninn.

Um nóttina eftir kom spámaður Koðráns að honum í svefni og með dapurlegri ásjónu og skjálftafullur sem af hræðslu og mælti til Koðráns: «Illa hefir þú gert er þú bauðst hingað mönnum þeim er á svikum sitja við þig svo að þeir leita að reka mig brottu af bústað mínum því að þeir steyptu vellanda vatni yfir mitt herbergi svo að börn mín þola eigi litla kvöl af þeim brennandi dropum er inn renna um þekjuna. En þó að slíkt skaði sjálfan mig eigi mjög þá er allt að einu þungt að heyra þyt smábarna er þau æpa af bruna.»

En að morgni komanda sagði Koðrán syni sínum eftirspyrjanda þessa alla hluti. Þorvaldur gladdist við og eggjaði biskup að hann skyldi halda fram uppteknu efni.

Biskup fór til steinsins með sína menn og gerði allt sem fyrra dag og bað almáttkan guð kostgæflega að hann ræki fjandann á brottu og leiddi manninn til hjálpar.

Á næstu nótt eftir sýndist sá hinn flærðarfulli spámaður Koðráni mjög gagnstaðlegur því sem fyrr var hann vanur að birtast honum með björtu og blíðlegu yfirliti og ágætlega búinn en nú var hann í svörtum og herfilegum skinnstakki, dökkur og illilegur í ásjónu og mælti svo til bónda með sorgfullri og skjálfandi raust: «Þessir menn stunda fast á að ræna okkur báða okkrum gæðum og nytsemdum er þeir vilja elta mig á brottu af minni eiginlegri erfð en svipta þig vorri elskulegri umhyggju og framsýnilegum forspám. Nú ger þú svo mannlega að þú rek þá brottu svo að við þörfnumst eigi allra góðra hluta fyrir þeirra ódyggð því að aldrei skal eg flýja en þó er þungt að þola lengur allar þeirra illgerðir og óhægindi.»

Alla þessa hluti og marga aðra er sá fjandi hafði talað fyrir Koðráni sagði hann syni sínum um morguninn.

Biskup fór til steinsins hinn þriðja dag með því móti sem fyrr.

En sá hinn illgjarni andi sýndist bónda um nóttina eftir hið þriðja sinn með hryggilegu yfirbragði og bar upp fyrir hann þess háttar kvein með snöktandi röddu og sagði svo: «Þessi vondur svikari, biskup kristinna manna, hefir af sett mig allri minni eign. Herbergi mínu hefir hann spillt, steypt yfir mig vellanda vatni, vætt klæði mín, rifið og ónýtt með öllu. En mér og mínu hyski hefir hann veitt bótlausan bruna og hér með rekið mig nauðgan langt í brott í auðn og útlegð. Nú hljótum við að skilja bæði samvistu og vinfengi og gerist þetta allt af einu saman þínu dyggðarleysi. Hugsa þú nú hver þitt góss mun héðan af varðveita svo dyggilega sem eg hefi áður varðveitt. Þú kallast maður réttlátur og trúlyndur en þú hefir ömbunað mér illu gott.»

Þá svarar Koðrán: «Eg hefi þig dýrkað svo sem nytsamlegan og styrkan guð meðan eg var óvitandi hins sanna. En nú með því að eg hefi reynt þig flærðarfullan og mjög ómeginn þá er mér nú rétt og utan allan glæp að fyrirláta þig en flýja undir skjól þess guðdóms er miklu er betri og styrkari en þú.»

Við þetta skildu þeir með styggð en engum blíðskap.

Því næst var skírður Koðrán bóndi og kona hans Járngerður og aðrir heimamenn utan Ormur son hans vildi eigi skírast láta það sinn.

4. kafli

Um vorið eftir fóru þeir biskup og Þorvaldur vestur til Víðidals með lið sitt og settu bú saman að Lækjamóti og bjuggu þar fjóra vetur og fóru á þeim árum víða um Ísland að predika guðs orð.

Á hinum fyrstum misserum er þeir voru að Lækjamóti bað Þorvaldur til handa sér konu þeirrar er Vigdís hét. Hún var dóttir Ólafs er bjó að Haukagili í Vatnsdal.

En er þeir biskup og Þorvaldur komu til veislunnar var þar fyrir fjöldi boðsmanna heiðinna. Þar var mikill skáli sem þá var víða siður til og féll einn lítill lækur um þveran skálann og búið um vel. En þeir hvorigir vildu öðrum samneyta, kristnir menn og heiðnir. Þá var það ráð tekið að tjaldað var um þveran skálann í milli þeirra þar sem lækurinn var. Skyldi biskup vera fram í skálanum með kristna menn en heiðingjar fyrir innan tjaldið.

Að því sama brullaupi voru með öðrum heiðnum mönnum tveir bræður, hinir römmustu berserkir og mjög fjölkunnigir. Hét hvortveggi Haukur. En því að þeir stóðu með öllu afli einna mest í móti réttri trú og kostgæfðu að eyða kristilegu siðlæti þá buðu þeir biskupi ef hann hefði þoran til eða nokkuð traust á guði sínum að hann skyldi reyna við þá íþróttir þær sem þeir voru vanir að fremja, að vaða loganda eld með berum fótum eða láta fallast á vopn svo að þá skaðaði ekki. En biskup, treystandi á guðs miskunn, neitaði eigi.

Voru þá gervir eldar stórir eftir endilöngum skálanum sem í þann tíma var títt að drekka öl við eld. Biskup skrýðist öllum biskupsskrúða og vígði vatn, gekk þá að eldinum svo búinn, hafði mítur á höfði og bagal í hendi. Hann vígði eldinn og dreifði vatninu yfir. Því næst gengu inn þessir tveir berserkir grimmlega grenjandi, bitu í skjaldarrendur og höfðu ber sverð í höndum, ætluðu nú að vaða eldinn. En þá bar skjótara að fram en þeir ætluðu og drápu fótum í eldstokkana svo að þeir féllu báðir áfram en eldinn lagði að þeim og brenndi þá á lítilli stundu með svo mikilli ákefð að þeir voru þaðan dauðir dregnir. Þeir voru færðir upp með gilinu og grafnir þar. Því heitir það síðan Haukagil.

Friðrekur biskup gerði fyrir sér krossmark og gekk á eldinn miðjan og svo fram eftir endilöngum skálanum en logann lagði tvo vega frá honum sem vindur blési og því síður kenndi hann meinsamlegs hita af eldinum að eigi með nokkuru móti sviðnuðu hinar minnstu trefur á skrúða hans. Snerust þá margir til guðs er sáu þetta hið háleita stórtákn.

Þenna atburð segir Gunnlaugur munkur að hann heyrði segja sannorðan mann, Glúm Þorgilsson, en Glúmur hafði numið að þeim manni er hét Arnór og var Arndísarson.

Ólafur að Haukagili gerði síðan kirkju á bæ sínum en Þorvaldur fékk honum viðinn til.

5. kafli

Þeir biskup og Þorvaldur lögðu á alla stund með hinu mesta kostgæfi að leiða sem flesta menn guði til handa, eigi að eins þar í næstum sveitum heldur fóru þeir víða um Ísland að boða orð guðs.

Þeir komu vestur í Hvamm í Breiðafjarðardölum um alþingi. Þórarinn bóndi var eigi heima en Friðgerður húsfreyja, dóttir Þórðar frá Höfða, tók vel við þeim í fyrstu. Þorvaldur taldi þar trú fyrir mönnum en Friðgerður blótaði meðan inni og heyrði hvort þeirra annars orð. Friðgerður svaraði orðum Þorvalds fá og þó illa en Skeggi son þeirra Þórarins hafði í spotti orð Þorvalds.

Þar um orti Þorvaldur vísu þessa:

Fór eg með dóm hinn dýra.
Drengr hlýddi mér engi.
Gátum hrings frá hreyti
hróðr varlega góðan.
En með enga svinnu
aldin rýgr við skaldi,
þá greypi guð gyðju,
gall of heiðnum stalli.

Ekki er þess getið að nokkurir menn í Vestfirðingafjórðungi kristnuðust af þeirra orðum. En norður í sveitum er þeir fóru þar yfir tóku rétta trú nokkurir göfgir menn: Önundur í Reykjadal, son Þorgils Grenjaðarsonar, og Hlenni af Saurbæ í Eyjafirði og Þorvarður í Ási við Hjaltadal. Bróðir Þorvarðs hét Arngeir og annar Þórður. Hann var son Spak-Böðvars Öndóttssonar landnámamanns er bjó í Viðvík. Þessir og enn fleiri menn urðu fullkomlega kristnir í Norðlendingafjórðungi en þeir voru margir, þó að þá létu eigi skírast að sinni, að trúðu Kristi og fyrirlétu skurðgoðablót og allan heiðinn sið og vildu eigi gjalda hoftolla. Fyrir það reiddust heiðingjar Friðreki biskupi og lögðu fjandskap á alla þá er honum samþykktu.

Þorvarður Spak-Böðvarsson lét gera kirkju á bæ sínum í Ási og hafði með sér prest er biskup fékk honum að syngja sér tíðir og veita honum guðlega þjónustu. Við það varð mjög reiður Klaufi son Þorvalds Refssonar frá Barði í Fljótum. Klaufi var mikils háttar maður. Hann fór til fundar við bræður Þorvarðs, Arngeir og Þórð, þess erindis að hann bauð þeim kost á hvort þeir vildu heldur drepa prestinn eða brenna kirkjuna.

Arngeir svarar: «Let eg þig þess og svo hvern annan minn vin að drepa prestinn því að Þorvarður bróðir minn hefir fyrrum grimmlega hefnt smærri meingerða en eg get að honum þyki þessi. En hins vil eg eggja að þú brennir kirkjuna.»

Ekki vildi Þórður samþykkja þeim að þessu ráði.

Litlu síðar fór Klaufi til um nótt við tíunda mann að brenna kirkjuna. En er þeir nálguðust og gengu í kirkjugarðinn kenndu þeir ákaflegan hita og sáu mikla gneistaflaug út í glugga kirkjunnar. Fóru þeir brottu við það að þeim þótti kirkjan full af eldi.

Annan tíma fór Arngeir til við marga menn og ætlaði að brenna þessa sömu kirkju. En er þeir höfðu brotið upp hurðina ætlaði hann að tendra eld á gólfinu við þurran fjalldrapa. En því að eigi logaði svo skjótt sem hann vildi þá lagðist hann inn yfir þreskjöldinn og ætlaði að blása að er glóðin var nóg en eigi vildi festa í viðinum. Þá kom ör og stóð föst í kirkjugólfinu rétt við höfuð honum. Og þegar kom önnur. Sú nisti klæði hans við gólfið svo að örin flaug í millum síðu hans og skyrtunnar er hann var í.

Hann hljóp þá upp hart og mælti: «Svo flaug þessi örin nær síðu minni að eg em ráðinn í að bíða eigi hér hinnar þriðju.»

Nú hlífði guð svo húsi sínu. Fór Arngeir á brottu með sína menn og leituðu heiðingjar eigi oftar að brenna þá kirkju. Þessi kirkja var ger sextán árum fyrr en kristni var lögtekin á Íslandi en hún stóð svo að ekki var að gert.

6. kafli

Eitt sumar á alþingi taldi Þorvaldur Koðránsson trú eftir bæn biskups opinberlega fyrir öllum lýð. En er hann hafði fram borið með mikilli snilld mörg og sönn stórmerki almáttigs guðs þá svaraði fyrstur kynstór maður og göfugur þó að heiðinn væri og grimmur, Héðinn frá Svalbarði af Eyjafjarðarströnd, sonur Þorbjarnar Skagasonar, Skoftasonar. Héðinn átti Ragnheiði stjúpdóttur og bróðurdóttur Eyjólfs Valgerðarsonar. Héðinn mælti mart illt við Þorvald og guðlastaði mjög í móti heilagri trú. Og svo gat hann með sinni illgirnd um talið fyrir fólkinu að engi maður lagði trúnað á það er Þorvaldur hafði sagt heldur tók þaðan af svo mjög að vaxa illviljafull ofsókn og hatur heiðingja við þá biskup og Þorvald að þeir gáfu skáldum fé til að yrkja níð um þá. Þar er þetta í:

Hefir börn borið
biskup níu.
Þeirra er allra
Þorvaldr faðir.

Fyrir það drap Þorvaldur tvo þá er ort höfðu kvæðið en biskup þoldi allar meingerðir með hinni mestu hógværi.

En er Þorvaldur hafði drepið skáldin fór hann til biskups að segja honum hvað hann hafði gert. Biskup sat inni og sá á bók. Og áður Þorvaldur gekk inn komu tveir blóðdropar á bókina fyrir biskup. Skildi biskup þegar að það var nokkur fyrirbending.

En er Þorvaldur kom inn til hans mælti biskup: «Annaðhvort hefir þú framið manndráp ella hefir þú það í hug þér.»

Þorvaldur sagði þá hvað hann hafði gert.

Biskup mælti: «Hví fórstu svo með?»

Þorvaldur svaraði: «Eg þoldi eigi er þeir kölluðu okkur raga.»

Biskup mælti: «Það var lítil þolraun þó að þeir lygju það að þú ættir börn en þú hefir fært orð þeirra á verra veg því að vel mætti eg bera börn þín ef þú ættir nokkur. Eigi skyldi kristinn maður sjálfur leita að hefna sín þó að hann væri haturlega smáður heldur þola fyrir guðs sakir brigsli og meingerðir.»

7. kafli

Nú þó að þeir þyldu mörg vandræði af vondum mönnum þá léttu þeir eigi því heldur af að fara um sveitir og boða guðs erindi.

Þeir komu út í Laxárdal og dvöldust um hríð undir Eilífsfelli hjá Atla hinum ramma föðurbróður Þorvalds. Var Atli þá skírður með heimamenn sína og margir aðrir menn er þeir komu til því að heilags anda miskunn nálgaðist af orðum þeirra.

Þá flaug fræði af biskupi með guðs gjöf í eyru einum smásveini fimm vetra gömlum er hét Ingimundur, son Hafurs í Goðdali. Hann var að fóstri á Reykjaströnd. Ingimundur kom að máli einn dag við smalamann fóstra síns og bað hann fylgja sér leynilega til Eilífsfjalls að sjá biskupinn. Þetta veitti sauðamaðurinn honum. Þeir fóru yfir Kjartansgjá og vestur yfir fjallið til Laxárdals. En þegar er þeir komu til bæjar Atla að Eilífsfelli þá tók sveinninn að biðja að hann væri skírður.

Atli tók í hönd sveininum og leiddi hann fyrir biskup svo segjandi: «Sveinn þessi er son göfugs manns og þó heiðins en sveinninn beiðir skírnar utan ráð og vitorð föður síns og fóstra. Nú sjá fyrir hvað að er geranda því að vís von er að hvorumtveggja þeirra mun mjög mislíka ef hann er skírður.»

Biskup svarar hlæjandi: «Sannlega,» segir hann, «er ungum smásveini eigi neitanda svo heilagt embætti, allra helst er hann hefir heilsamlegri skilning á sínu ráði en frændur hans rosknir.»

Síðan skírði biskup Ingimund og kenndi honum áður hann fór í brott hvað honum var einna skyldast að varðveita með kristninni.

8. kafli

Svo er sagt að Friðrekur biskup hafi skírt þann mann er hét Máni. Og fyrir því að hann hélt helga trú með mörgum manndyggðum og góðlifnaði var hann kallaður Máni hinn kristni. Hann bjó í Holti á Kólgumýrum. Hann gerði þar kirkju. Í þeirri kirkju þjónaði hann guði bæði nætur og daga með helgum bænum og ölmusugerðum er hann veitti margháttaðar fátækum mönnum. Hann átti veiðistöð í á þeirri er þaðan var skammt í brottu þar sem enn í dag heitir af hans nafni Mánafoss því að á nokkurum tíma þá er hallæri var mikið og sultur hafði hann ekki til að fæða hungraða. Þá fór hann til árinnar og hafði þar nóga laxveiði í hylnum undir fossinum. Þessa laxveiði gaf hann undir kirkjuna í Holti og segir Gunnlaugur munkur að sú veiður hafi þar jafnan síðan til legið. Hjá þeirri kirkju sér enn merki að hann hefir byggt svo sem einsetumaður því að svo sem hann var fjarlægur flestum mönnum þann tíma í hugskotinu svo vildi hann og að líkamlegri samvistu firrast alþýðu þys því að við kirkjugarðinn sér að verið hefir garðhverfa nokkur er segist að hann hafi unnið á heyverk á sumrum til þess að fóðra við eina kú þá er hann fæddist við því að hann vildi afla sér atvinnu með erfiði eiginlegra handa heldur en samneyta heiðingjum þeim er hann hötuðu og heitir þar síðan Mánagerði.

9. kafli

En að segja fátt af mörgum meingerðum og ofsóknum er heiðnir menn veittu Friðreki biskupi og Þorvaldi fyrir boðan réttrar trúar þá bar svo til að þeir vildu ríða til vorþings í Hegranes. En er þeir nálguðust þingstöðina þá hljóp upp allur múgur heiðinna manna og runnu í móti þeim með miklu ópi. Sumir börðu grjóti, sumir skóku að þeim vopn og skjöldu með harki og háreysti, báðu guðin steypa sínum óvinum og var engi von að þeir mættu koma á þingið.

Þá mælti biskup: «Nú kemur það fram er móður mína dreymdi forðum daga að hún þóttist finna vargshár í höfði mér því að nú erum vér gervir rækir og reknir sem skæðir vargar með hræðilegu ópi og styrjöld.»

Eftir það fóru þeir biskup heim til Lækjamóts og dvöldust þar um sumarið. Á því sama sumri eftir alþingi söfnuðu nokkurir heiðnir höfðingjar liði svo að þeir höfðu tvö hundruð manna tólfræð. Þeir ætluðu til Lækjamóts að brenna biskup inni og allt lið hans. En er þeir áttu skammt til bæjar að Lækjamóti þá stigu þeir af hestum sínum og ætluðu að æja sem þeir gerðu. En í því er þeir voru á bak komnir flugu hjá þeim fuglar margir voveiflega. Við það fældust hestar þeirra og urðu svo óðir að þeir féllu allir ofan er á bak voru komnir og meiddust. Sumir féllu á grjót og brutu fætur sína eða hendur eða fengu önnur mein. Sumir féllu á vopn sín og fengu þar stór sár af. Hestarnir hljópu á suma og meiddu. Þeim varð minnst til vandræða er hestarnir hljópu frá og urðu þeir að ganga langa leið til síns heima. Hurfu þeir við þetta aftur. Skýldi svo allsvaldanda guðs miskunn sínum mönnum að því síður fengu þeir biskup þessu sinni nokkuð mein af illvilja og umsát heiðingja að þeir urðu með engu móti varir við þessa aðför og ráðagerð. Bjuggu þeir Þorvaldur þann hinn fjórða vetur að Lækjamóti.

En á næsta sumri eftir fóru þeir utan fyrst til Noregs og lágu um hríð í höfn nokkurri. Þá kom utan af Íslandi og lagði til þeirrar sömu hafnar sá maður er fyrr var nefndur, Héðinn frá Svalbarði. Héðinn gekk upp á land og í skóg að höggva sér húsavið. Þorvaldur varð þess var. Hann kallaði með sér þræl sinn. Þeir fóru í skóginn þar sem Héðinn var. Lét Þorvaldur þrælinn drepa Héðin.

En er Þorvaldur kom til skips og sagði þetta biskupi þá svarar biskup: «Fyrir þetta víg skulum við skilja því að þú vilt seint láta af manndrápum.»

Eftir það fór Friðrekur biskup til Saxlands og endi þar líf sitt með háleitlegum heilagleik takandi eilífa ömbun af allsvaldanda guði fyrir sinn góðvilja og stundlegt starf.

10. kafli

Þorvaldur lifði síðan mörg ár. En með því að hann var maður mikill af sjálfum sér, sterkur og hugaður vel en í alla staði geyminn guðs boðorða með fullkominni ástarhygli þá hugsaði hann það ef hann færi enn aftur til sinnar fósturjarðar að eigi væri víst hvort hann þyldi svo í alla staði sem vera ætti fyrir guðs ást mótgang og meingerðir sinna samlanda. Fyrir því tók hann það ráð að vitja eigi oftar út til Íslands. Gerði hann þá ferð sína út í heim og allt til Jórsala að kanna helga staði. Hann fór um allt Grikkjaríki og kom til Miklagarðs. Tók sjálfur stólkonungurinn við honum með mikilli virðing og veitti honum margar vingjafir ágætar því að svo var guðs miskunn honum nákvæm og flaug hans frægð fyrir alþýðu hvar sem hann kom, að hann var virður og vegsamaður svo af minnum mönnum sem meirum sem einn stólpi og upphaldsmaður réttrar trúar og svo sæmdur sem dýrðarfullur játari vors herra Jesú Kristi af sjálfum Miklagarðskeisara og öllum hans höfðingjum og eigi síður af öllum biskupum og ábótum um allt Grikkland og Sýrland. Allra mest var hann tignaður um Austurveg, þangað sendur af keisaranum svo sem foringi eða valdsmaður skipaður yfir alla konunga á Rússlandi og í öllu Garðaríki. Þorvaldur Koðránsson reisti þar af grundvelli eitt ágætt munklíf hjá þeirri höfuðkirkju er helguð er Jóhanni baptista og lagði þar til nógar eignir. Hét þar æ síðan af hans nafni Þorvaldsklaustur. Í því munklífi endi hann sitt líf og er þar grafinn. Það klaustur stendur undir hábjargi er heitir Dröfn.

Þá er Friðrekur biskup og Þorvaldur komu til Íslands voru liðin frá holdgan vors herra Jesú Kristi níu hundruð ára og eitt ár hins níunda tigar en hundrað tírætt og sex vetur frá upphafi Íslands byggðar. Þrem vetrum síðar gerði Þorvarður Spak-Böðvarsson kirkju í Ási.


(Viðbætir eftir Flateyjarbók)

Svo er sagt að Þorvaldur hafi farið víða um heim síðan þeir biskup skildu. Þess er og fyrr getið að Ottó keisari kristnaði Danmörk. Fór Ólafur Tryggvason með honum í Austurveg og var mikill ráðagerðamaður keisaranum til að kristna fólkið. Og í þeirri ferð er svo sagt af nokkurum mönnum að Ólafur hafi fundið Þorvald Koðránsson og sakir þess er hvor þeirra hafði mart af annars ráðum, frægð og frama spurt kvöddust þeir kunnlega þó að þeir hefðu eigi fyrr sést.

En er þeir tóku tal sín á milli spurði Ólafur konungur: «Ertu Þorvaldur hinn víðförli?»

Hann svarar: «Eg hefi enn ekki víða farið.»

Konungur mælti: «Þú ert góðmannlegur maður og giftusamlegur eða hverja trú hefir þú?»

Þorvaldur svarar: «Það vil eg gjarna segja yður. Eg hefi og held kristinna manna trú.»

Konungur mælti: «Það er líklegt að þú þjónir vel þínum herra og kveikir margra manna hjörtu til ástar við hann. Er mér mikil forvitni á mörgum trúlegum tíðindum þeim er þú munt segja kunna, fyrst af ágætum jarteignum Jesú Kristi guðs þíns og síðan af ýmsum löndum og ókunnum þjóðum, þar næst af þínum athöfnum og frækilegum framgöngum.»

Þorvaldur svarar: «Með því að eg skil að þú girnist með góðfýsi af mér að vita þá sanna hluti að eg hefi séð og heyrt vil eg gjarna gera þinn vilja væntandi þar fyrir að þú segir mér því auðveldlegar það er eg spyr þig.»

Konungur sagði svo vera skyldu. Sagði Þorvaldur honum þá mörg tíðindi og merkileg bæði af guði og góðum mönnum. Féllst konungi þetta vel í skap en öllum þeim er hjá voru þótti það hin mesta skemmtan. En þá er Þorvaldur sagði frá því er á Íslandi hafði gerst þá er þeir Friðrekur biskup voru þar frétti konungur vandlega að hverju eða hversu margir þar hefðu af þeirra orðum rétta trú tekið eða hver maður hefði auðveldlegast játtað kristninni eða hverjir mest hefðu mót mælt. En Þorvaldur sagði það allt greinilega.

En er konungur hafði heyrt hversu mikla ástundan þeir höfðu haft til fram að flytja kristniboðið og hversu margar og miklar meingerðir þeir höfðu þolað fyrir guðs nafn þá sagði hann svo: «Það gefur mér að skilja að þessir Íslendingar er þú hefir nú frá sagt muni vera harðir menn og hraustir og torvelt mun verða að koma þeim til kristni. En þó er það mitt hugarboð að þeim verði þess auðið. Og síðan er þeir trúa á sannan guð hygg eg að þeir haldi allir vel sína trú hver sem til verður um síðir að koma þeim á réttan veg.»

Þorvaldur sagði þá: «Heyrt hefi eg flutt af nokkurum vísindamönnum að þú munir verða konungur að Noregi og er þá líklegt að guð gefi þér giftu til að snúa Íslendingum og mörgum öðrum þjóðum í Norðurhálfunni til réttrar trúar.»

Þorvaldur spurði þá konunginn margra hluta en hann leysti allt vel og viturlega það er hann spurði og svo langan tíma sem þeir voru báðir samt var þeirra gleði að hvor spurði eða sagði nokkuð spaklegt öðrum. Síðan skildu þeir með hinni mestu vináttu.

Fór Þorvaldur þá út í Miklagarð og fékk stórar sæmdir af stólkonunginum en síðan lét hann klaustur reisa og gaf þar til auðæfi. Og í því sama klaustri endi hann sína ævi með hreinum og háleitum lifnaði.

Текст с сайта Netútgáfan

© Tim Stridmann