Valla-Ljóts saga

1. kafli

Sigurður hét maður. Hann var son Karls hins rauða. Hann átti dóttur Ingjalds í Gnúpufelli. Hann átti þrjá sonu og hét Hrólfur hinn elsti, Halli annar en Böðvar hinn þriðji. Þeir voru miklir menn og sterklegir. Hrólfur var uppivöðslumikill og fégefinn. Halli var gleðimaður mikill og lögmaður, hávaðamaður hinn mesti. Böðvar var góðlyndur og gerðist farmaður.

Torfi hét maður er bjó í Torfufelli, auðugur en ekki stórættaður. Þá bjó Eyjólfur á Möðruvöllum og Guðmundur sonur hans var þar með honum.

Sigurður tók sótt og heimti saman sonu sína og bað þá vera samhuga og kvaðst hann sjá mega hvers þeirra skaplyndi «og megið nú að hyggja og verið ei til síngjarnir og gæti hver sinnar sæmdar.»

Síðan andaðist hann. Þá var Hrólfur átján vetra, Halli fjórtán vetra en Böðvar tólf vetra.

Kona Torfa andaðist. Hann var vel til sona Sigurðar. Hann fór þangað eitt sinn og kallaði þá á tal.

Torfi mælti: «Þar hafa lengi kunnleikar á millum vor verið og enn vil eg þá auka minna vegna. Nú mun eg til mæla við móður yðar og biðja hennar. Mætti oss það verða frami hvorutveggjum. En þótt mannamunur sé þá kann þar fyrir koma fé og umsýsla.»

Hrólfur bað hann tala við móður sína um þetta mál. Hann gerir svo.

Hún gefur það svar: «Þetta ráð vil eg undir sonum mínum eiga en ei við einræði mitt en standa læt eg svo ef þeir samþykkjast.»

Torfi mælti: «Hvað sýnist þér Halli?»

Hann svarar: «Þetta mál kemur meir til Hrólfs og Böðvars. Þeir eru elstir bræður og kunna forsjá fyrir að hafa.»

Torfi vekur við Halla og alla saman en þeir Hrólfur og Böðvar kváðu ei óvænt stefnt og kváðust þeir mundu ei af svara um samfarar þeirra.

Þá mælti Halli: «Bíða vildi eg ykkra orða og var mér slíks að von og má eg ei sjá hvað í því er ráðlegt og mjög horfir til lítillar mannvirðingar. Slíkur maður er ósýnn til fullræðis. Vil eg ekki samþykki þar til gefa að gefa móður mína göfga lausingjanum eftir göfugt gjaforð.»

En Hrólfi kvaðst ekki svo sýnast.

En hún kvaðst ei mundu af höndum vísa «og samþykki eg þessu ráði.»

En Hrólfur kvaðst ráða eiga. Halli kvað það mundu fram ganga sem hún vildi. Var brullaup ákveðið að veturnóttum.

Nú líða stundir og þess er getið einn dag að konur voru í dyngju sinni og Halli var þar kominn.

Móðir hans mælti: «Eg á að greiða málagjöld í dag griðkonum vorum. Nú vil eg senda þig í Torfufell og seg að Torfi sendi mér grís nokkurn og þyrfti þó að þú værir ei of skapbráður því að grísinn mun vera illur með að fara og mun hann frammi láta ef mín orð koma til.»

«Fara mun eg því að þú átt þér þar hollan vin.»

Og er hann kom þar þá var Torfi að vinnu og leit ei til hans.

Halli mælti þá til Torfa: «Móðir mín sendi mig hingað til þín að þú sendir henni grís nokkurn að gera af snæðing konum sínum.»

Hann leit ekki til hans og mælti þó: «Það má eg gera. Taktu hann sjálfur og starfa að honum.»

Halli mælti: «Ekki er það formannlegt að ganga í saur að gyltu gamalli ókunnum mönnum.»

Torfi svaraði: «Hvað mælir ofurhuginn?»

«Svo mun eg og ekki hætta til býsnanna og send þangað hvern þú vilt.»

Torfi mælti: «Ei ætla eg þig þykjast jafnsnjallan gyltunni.»

Halli svarar svo: «Betra væri þetta ómælt. Ekki jafna eg snilli okkarri gyltu saman og má þetta frýjuorð kallast.»

Hann hljóp að dyrunum og snaraði inn og þegar hjó hann af henni ranann, tók grísinn og gekk út.

Torfi mælti: «Hafðu nú yfir þangað grísinn og fær henni.»

Halli svaraði öngvu og ríður burt og heim á leið. En skógur var um héraðið. Hann steig þá af baki hesti sínum og situr hann nú í skóginum þar til er hann sá mann ríða í blárri kápu yfir ána og þar kennir hann Torfa. Hann sprettur upp og hleypur að honum og hjó hann banahögg. Hann hafði bæði spjót og sverð. Halli kastaði honum undir bakka og huldi hræ hans en hafði hestinn með sér.

Hann kom heim og hitti móður sína. Hún spurði um erindi hans en hann segir hvar máli er komið, að Torfi mundi ei koma í rekkju hennar eða senda henni grís «er eg skildi við hann. Er rennt þeim ráðahag þó að yður þyki það ei líklegt.»

Hún svarar: «Það hygg eg að oft réttir þú þínar hendur til ills og mun þetta upphaf ógiftu þinnar og muntu annaðhvort ger sekur eða drepinn, slíkir menn sem hér eiga eftirmæli þar sem Eyjólfur er.»

Halli svaraði: «Ei þarftu að ámæla mér svo fast fyrir þetta verk því að lítill var mannskaði að honum þótt þér þætti hann góður.»

Hún kvað það nær hófi «en betra væri þér óunnið verkið.»

Síðan fór hann í Gnúpufell til Ingjalds frænda síns og sagði honum tíðindin.

Hann svarar: «Far þú á fund Svarfdæla vina þinna og frænda eða hvað gafstu honum að sök?» sagði Ingjaldur.

Halli svarar: «Orð hans óviðurkvæmileg til mín fyrir það að eg vildi ekki gifta honum móður mína og svívirða svo ætt vora. Nú veit eg ei nema mér verði nær stýrt um eftirmálið og eg muni fara óvarlega en ósnjallara kvað hann mig en gyltuna.»

Þá svarar Ingjaldur: «Það var illa mælt. Ver nú með oss þar til er lokið er málum þínum.»

Þá bjó Víga-Glúmur að Þverá og hittust þeir frændur.

Þeir fóru á fund Eyjólfs og bjóða honum sátt fyrir þingmann sinn: «Vér viljum virða þig til þess og bæta hundraði silfurs en falli niður gagnsakir við Torfa fyrir áþéttisorð við Halla. Er og ósýnt að meira fáist af oss frændum og látum oss ekki þetta verða að misþykki.»

Eyjólfur svarar: «Svo skal og vera. Oss er Halli skyldur enda er hann ættstór.»

Sættust þeir að því. Var Halli þá sautján vetra er fé þeirra var skipt.

2. kafli

Böðvar réðst í kaupferðir en Hrólfur gípur var heima á föðurleifð sinni. Böðvar var utan langa hríð og var hinn nýtasti fardrengur, vinsæll. Hann var utan tólf vetur. Halli setti bú saman og átti Signýju Bessadóttur frændkonu þeirra Möðruvellinga og gerðist þá vel með þeim Eyjólfi og Halla og kvað það vænst til þeirra vinfengis að tengdir tækjust. Eyjólfur kvað hann rétt séð hafa. Halli fór mjög með sakir.

Litlu síðar drukknaði Eyjólfur í Gnúpufellsá. Hann var jarðaður á Möðruvöllum í túnvellinum heima og var prímsigndur áður. Síðan tók Guðmundur hinn ríki við virðingu, son hans, og gerðist vel með þeim Halli og Guðmundi. Veitti hann Halla með fjölmenni en Hallur var grjótpáll fyrir málum hans og var hann kallaður Hreðu-Halli og hefur hann mesta virðing haft af Guðmundi. Þá var hann á fertugs aldri er hér var komið sögunni og var ei auðsóttur með afla Guðmundar en framkvæmd sinni. Bessi heitir son Halla og var vænlegur maður. Hrólfur var auðigur maður og grályndur.

Þess er getið að Guðmundur hélt boð fjölmennt eitt sinn á Möðruvöllum og var Halli þar sem á hverju boði öðru því er Guðmundur hélt. Þar var mjög margt talað.

Þá mælti Halli: «Mjög undarlega fer fram höfðingskapur hér á Íslandi og þverr nú mjög mannvalið norður hingað, þó helst hérað þetta.»

Guðmundur svarar: «Oft finnst það á að eg er virðingargjarn. Ei mundi eg annarstaðar heldur höfðingi vera í héraði en hér.»

Halli svarar: «Satt er það Guðmundur en ei eru þau héruð er þykir langt í milli vera þó að mannvalið sé hér meira.»

Guðmundur spyr: «Hvað er það?»

Hann svarar: «Það er Svarfaðardalur.»

Guðmundur svarar: «Fleira muntu mæla sannara og snoturlegra. Er þar snæsamt og liggur á vetrarnauð mikil.»

Halli svarar: «Hinn veg verður þó lengstum í útdölunum slíkum að fleiri fara þangað að kaupa mat en þaðan og hingað og fleiri nærast þar að peningum en héðan.»

Guðmundur svarar: «Hvað skal þetta að tala að landskostir eru svo lofaðir og ekki sýnist mér svo.»

Halli svarar: «Það hefur mér í hug komið að breyta mínum ráðahag og færa þangað byggð mína í ættleifð vora.»

Guðmundur mælti: «Hví er þér þar betra að búa en hér?»

Halli mælti: «Þar hafa búið göfgir frændur mínir enda fýsir mig þangað að fara en sitja samkera við þig því að mér hagar það til lítilla vinsælda,» segir Halli, «og em eg grjótpáll þinn og verða mér sumir ofjarlar hér í héraðinu og mun það þá niður falla ef eg fer héðan og skal þó vera okkar vinfengi samt og áður. En eg mæli það nú opinberlega að eg fékk óvinsældir af viðskiptum okkar Einars bróðurs þíns og vil eg nú færa mér það af hendi.»

Guðmundur svarar: «Þetta er sumt satt en sumt ætla eg þér það minna til virðingar en óvinsældar.»

Halli svarar: «Hitt er ei miður reyndar að þeir frændur mínir, synir Ingjalds, eru yfirmenn mínir og ei má eg hér mestur maður vera vorra frænda meðan vér erum hér allir en þar má eg mestur maður heita.»

Guðmundur mælti: «Ei ætla eg að þú fáir þar meiri virðing en slíka sem þú hefur hér haft. Eg sé þar þá fjóra menn að engi þeirra vill láta virðing sína fyrir þér.»

Halli svarar: «Hverjir eru þeir fjórir er í móti mér munu stríða?»

Guðmundur mælti: «Það er einn Valla-Ljótur, sonur Úlfs goða, er mestur maður er í dalnum, og Þorgrímur bróðir hans. Hinn þriðji er Björn að Hofsá en fjórði er Þorvarður bróðir hans. Þeir eru Þorgrímssynir, kynstórir menn. Ætla ekki um Þórir frænda þinn að þú munir færast að honum. Þykir mér þér ofurefli við þá að eiga.»

Halli svarar: «Það ætla eg þó muni fram fara.»

Síðan fór hann á fund Þórirs Vémundarsonar og sagði honum sitt erindi og vildi land kaupa og spyr hvar hann veit land falt.

Þórir svarar: «Veit eg land falt á Klaufabrekku og mun eg fá þér engjar til því að þar eru engi lítil. En eg vil kaupa það land til handa þér ef þú vilt hingað ráðast en þó þykir mér það ráðlegast að þú sért kyrr. Hér mun að reyna fastnæma menn og stórýðga.»

Halli kvað sig ekki það mundi í burt reka «og kauptu landið.»

Síðan réðst hann þangað. Ekki var byggðarleyfis beðið. Þeir láta sér ekki um finnast Svarfdælir því að Ljótur var höfðingi yfir þeim frændum og undu þeir vel við það enda réð hann einn öllu þeirra í milli. Hann var óhlutdeilinn umsýslumaður, enginn stúrumaður, mikill maður. Það var til marks hversu honum líkaði. Hann átti tvennan búnað, bláan kyrtil stuttan og öxi snaghyrnda og var vafið járni skaftið. Þá var hann svo búinn er vígahugur var á honum. En þá honum líkaði vel hafði hann þá brúnan kyrtil og bryntröll rekið í hendi.

3. kafli

Hrólfur hét bóndi er bjó upp frá Klaufabrekku. Hans synir voru þeir Þórður og Þorvaldur. Hann var göfugur maður. Hann tók sótt og andaðist. Þeir bræður tóku erfð eftir föður sinn og vildu að Ljótur skipti með þeim bæði löndum og lausum aurum þeim er þeir áttu. För Ljóts frestaðist nokkra stund en kristnað var fyrir litlu landið og voru lögleiddir drottinsdagar. Þá var Mikaelsmessa er fundurinn var lagður. Voru þeir þar komnir Þórir og Halli og höfðu þeir séð mannaförina.

Ljótur skipti löndum þeirra bræðra. Snær var fallinn á landamerkin. Hann skipti löndum og tekur sjónhending í stein nokkurn en úr steininum í ána og fer rétt svo fram og nam staðar við ána og skar þar upp torfu eða jarðkross og mælti: «Svo kann eg að gera landaskipti.»

Þeim bræðrum líkaði þetta vel og svo öllum nema Halli.

Þá mælti Ljótur: «Við höfum ekki við ást hér Halli en þú ert maður hygginn eða hversu líst þér þetta skipti?»

Halli svarar: «Vel að jafnaði ætla eg þig löndum skipt hafa en er þú mælir til þessa þá ætla eg að lögin mundu sveigð hafa verið. Má eg svo helst nokkuð um ræða landaskiptið eða hversu lögkænn maður ertu Ljótur?»

Hann mælir: «Ei kann eg lögin vel.»

Halli svarar: «Það ætla eg við lög varða að vinna á Mikaelsmessu þótt hún væri ei á drottinsdegi og mun eg stefna þér um helgibrigði.»

Ljótur svarar: «Ung er enn trúan.»

Halli mælti: «Svo er að kveðið að kristnispell sé í orðið og er ei vel séð fyrir hinum smærrum mönnum er þér gerið svo fyrir höfðingjarnir.»

Ljótur svarar og segir þetta ei vel gert «og mun ei svo verða í annað sinn.»

Halli mælti: «Skjót eru ummæli mín við þig Ljótur. Ger annaðhvort, gjalt mér hálft hundrað silfurs eða eg mun stefna þér.»

Ljótur svarar: «Það mun ráðlegra að ei sé orðalaust við mig og bæti eg fyrir vanhyggju mína en þykir best að kyrrt sé en eg mun styðja þitt mál.»

Halli svarar: «Ekki sómir að láta minna fyrir koma hvorugum okkrum.»

Ljótur svarar: «Þú skalt eiga heimila hegning ef oftar verður en legg nú samþykki við mig og náir þú þökk minni.»

Halli svarar: «Það skal annað vera og ger þú annaðhvort, gjalt upp féð eða eg mun stefna þér.»

Ljótur svarar: «Eigi vil eg að þú stefnir mér. Heldur vil eg gjalda féð og mun vingott í móti koma. Lengi hafa vorir frændur við hnippst,» segir Ljótur, «vera má að í kyn kippi. Mun eg þegar gjalda féð því að ei vil eg reiði engilsins. Nú ef þér gengur til vinátta við mig þá muntu vera mín hlíf og skjöldur. En ef þér gengur til fégirni og ágangur við mig sem eg ætla heldur þá má enn vera að sjálft sýnist.»

Halli tók við fénu.

Og á sama hausti var boð á Möðruvöllum og kom Halli þar. Þá var Bessi sonur hans kominn út og var að boðinu.

Guðmundur setti Halla hið næsta sér og hafði haft frétt af viðskiptum þeirra Ljóts og Halla og mælti svo: «Hversu líkar þér þar í dalnum út?»

Halli kvað sér vel líka.

Guðmundur mælti: «Eru menn vel við þig þar í dalnum út?»

En hann kvað það með góðum hætti.

«Það er sagt,» sagði Guðmundur, «að þú hafir fé upp tekið af Ljóti fyrir litla sök.»

Halli svarar: «Ei er þann veg jafnt. Eg leitaði eftir með réttindum og kaus hann þann er honum gegndi betur og máttu hér sjá silfrið.»

«Já,» segir Guðmundur, «sé eg að þú þykist vel leikið hafa en svo segir mér hugur um að rautt mun sjá í skörina fyrir hinar þriðju veturnætur. Vil eg nú það ráða þér að þú komir ei út þangað. Síðan mun eg kaupa þér hér land en ábyrgjast þig ei út þar.»

Halli svarar: «Vel er þetta boðið en vera þykir mér þá á þeir brestir eftir að eg vil það ei og mun eg reyna enn meir og fer eg ekki af þeim sökum enn burt.»

Síðan fór Bessi Hallason með honum og komu þeir út að jólum í dalinn.

Þórir bauð Halla til jólaveislu á Grund, þar var kirkjubær, en Bessi son hans fór heim. Þórir lét fara eftir andvirki því að heyfátt var heima um jólin er á leið. Þau ein orð fóru til eyrna Valla-Ljóti af Halla um skipti þeirra er heldur voru óvingjarnleg.

En eftir jólin bjóst Halli burt og þann morgun hittust sauðamenn af Grund og Völlum, spurðust tíðinda og ræddu um hvorir betur mundu veitt hafa um jólin og fylgdi hvor sínum bónda.

Sagði Þórirs maður ei þar jafn vel skemmt hafa verið «því engi er skemmtunarmaður betri en Halli er þar var um jólin.»

Húskarl Ljóts spurði hvenær Halli mundi heim fara. Húskarl Þóris kvað hann affarardag jólanna fara mundu.

Þórir spurði húskarl er hann kom heim hvað hann hefði manna fundið en hann sagði. Þórir frétti hvað þeir hefðu haft að tala en sauðamaður sagði allt það sem farið hafði.

«Já,» kvað Þórir, ,til er sagt en þú Halli skalt hvergi fara í dag» og segir honum hvað til bar og svo hvað þeir höfðu rætt húskarlarnir: «Er mér ekki um að þeir segi um ferðir þínar. Er og mér þar grunur á að svo fari sem Guðmundur sagði að Ljótur mundi verða þér drjúgur í málunum.»

Halli svarar: «Hvað er okkar Ljóts í milli nema gott?»

Þórir mælti: «Skuggi er honum í málum ykkrum.»

«Nú skal eg fara,» kvað Halli.

Þórir svarar: «Þá skulu þér fylgja húskarlar mínir þrettán en mér er þungt og má eg ei af því fara.»

Halli kvað þess ei þurfa mundu.

4. kafli

Síðan fóru þeir upp um Hörðabrekku.

Þá mælti Halli: «Farið nú aftur því að nú á eg skammt heim og munu nú öngvir fyrir sitja.»

Þeir gerðu svo sem Halli mælti.

Sauðahús Halla voru á götunni.

Þá mælti förunautur Halla: «Menn eru þar,» sagði hann.

Halli svarar: «Má vera að það sé Bessi son minn.»

Hann svaraði: «Það eru ekki vorir menn. Þeir voru tólf saman og einn í blám kyrtli og hefur öxi snaghyrnda í hendi.»

«Far þú heim og seg Bessa að Ljótur þykist eiga smáerindi við mig og er engi þörf þín hér að vera.»

Hinn tók þegar á rás mikilli.

Halli var gyrður í brækur og hafði skikkju yfir sér. Hann kastaði henni af sér. Hann hafði hjálm á höfði og broddstöng í hendi en gyrður sverði og gengur í móti þeim og hjá fram.

Þá mælti Ljótur: «Dveljum ei við atgöngu og tökum hann.»

Þeir ráða að honum en hann gengur snúðigt og komst hjá fram er hann fór forbrekkt og fá þeir ekki við hann fest er þeir gengu við brekkunni. Síðan nam hann staðar á sléttu nokkri.

Þá mælti Ljótur: «Nú hælist hann um við oss er hann stendur hærra en vér.»

Halli svarar: «Eg mun njóta frækleiks míns og fráleika en bíða ei.»

Ljótur mælti: «Bíða mundi Karl afi þinn þá er þeir áttu hinn efra hlut heimsins og aldrei lét hann eltast sem geit.»

Halli svarar: «Staðar skal og nema og berjumst við tveir. Er það sómi þinn en hitt skömm.»

Ljótur svarar: «Ei er á það að líta enda skal og svo vera.»

Halli mælti: «Hvað gefur þú mér að sök?»

Ljótur segir: «Sú er sökin að þú skalt ei oftar kenna mér helgihaldið. Nú ef þér hefur gott til gengið og vilji engillinn gefa þér sigur þá muntu þess að njóta. En ef það var með fégirnd og ágang þá hafðu minna hlut og sjái hann mál okkart og muntu þá vel njóta þess hálfs hundraðs silfurs er þú tókst af mér og haldið síðan.»

Ljótur gekk að honum með járnaðan skjöld. Halli lagði til Ljóts í skjöldinn og kom í bóluna svo hart að sverðið festi. Ljótur snaraði þá skjöldinn svo fast að sverðið brast í tanganum en síðan hjó Ljótur Halla banahögg. Þeir færa hann til sauðahúss og komu heim á bæinn og segja tíðindin og lýsti Ljótur vígi Halla á hendur sér.

Bessi fer þegar á fund Guðmundar og sagði honum þessi tíðindi. Hann kvað það fara eftir getu sinni.

Bessi bað hann taka við málinu «en eg vil fara utan.»

Þá voru af tekin hólmgöngulög öll og hólmgöngur.

5. kafli

Guðmundur tók við málinu og býr til alþingis og fjölmennti mjög. Þá var leitað um sættir af vinum Ljóts. Hann var fjölmennur og hafði traust margra höfðingja. En svo lauk því máli með frændaafla Ljóts og vinastyrk að hundrað silfurs var goldið fyrir víg Halla en það hálft hundrað silfurs er Ljótur galt Halla, þar kom ekki fyrir því að Ljótur vildi það kæmi fyrir vanhyggju sína. En vinir hans báðu að hann tæki það hálft hundrað undir sér og vildi hann það með öngvu móti, sagði það lítið vera fyrir hólmgönguboð Halla. Guðmundur undi illa við málalyktun en varðveitti fé til handa frændum Halla.

Skip kom út um sumarið í Eyjafirði og var þar kaupstaður mikill. Þeir sóttu út þangað Svarfdælir. Þar voru þeir í för Þorgrímssynir systursynir Ljóts og húskarlar hans og tóku sér varning. Þar var og sá maður er Sigmundur hét.

Þeir dalbyggjarnir voru sofnaðir í dalverpi nokkru.

En í lýsingina kom að þeim maður og mælti: «Vitið þér að Eyfirðingar eru öðrum megin óssins og fór eg að segja yður að þér varist þá því að þeir eru ekki trúlegir og gakktu út Þorvarður og tölumst við,» sagði sá.

Þorvarður svarar: «Ekki þarf eg viðurtals yðvars nokkurs því að mér þykir þú ótrúlegur.»

Þorvarður gengur þó út úr tjaldinu með honum á hólinn og töluðust þar með. Þá komu þar að þeim níu menn svartklæddir. Þorvarður vildi þá aftur snúa en sá er hann hafði teygðan með sér kippti honum í flokk þeirra. Þeir báru vopn á hann þegar og vógu hann þar. Sigmundur vildi hefna hans og var honum haldið. Það verk gerði Hrólfur gípa með svikum og í orðum.

En er Guðmundur hitti hann kvað hann Hrólf illa gert hafa að ganga á sættir manna, sagði það illa reifa mundu. Hrólfur kvaðst ekki að sættum staddur hafa verið.

En Ljótur tók eftirmál um vígið Þorvarðar frænda síns.

Guðmundur sendir orð Ljóti að hann vill sættast við hann «og vildi eg að þú hefðir hér fullar sæmdir fyrir» og sagði sér þetta verk heldur mislíka og lét svo best fara mundi héraðsstjórnina að þeir stilltu menn að illvirkjum slíkum.

Á þingi komu til vinir beggja þeirra. Var þá um sættir leitað og var til þess nefndur Skafti Þóroddsson vin Ljóts með umleitun margra annarra. Ljótur kvaðst ei einn vera mundu þverlyndur í slíku en sagði þó slík verk illa upp hefjast og kvað mörgum minna þykja fyrir að gera slíkt en í fyrstu, kvað enn mega sýnast annan ágang fyrri við sig meir en mótgerðir sínar við aðra. Þorvarður var bættur tveimur hundruðum silfurs. Hrólfur undi betur við síðan en áður og lifði tvo vetur upp frá því.

6. kafli

Skip kom út um sumarið og var þar á Böðvar Sigurðarson og Bessi Hallason. Þeir hitta skjótt Guðmund. Hann sagði þeim hvað í hafði gerst og hvar komið var mál manna. Böðvar var hófsamur og stilltur vel og sagði sér vel líka forsjá Guðmundar en sagði sér leitt allt sundurþykki manna í héraðinu og kvaðst enn mundu utan fara og vera ei við riðinn.

Og um veturinn er Guðmundur var ei heima komu menn utan úr Ólafsfirði frá Kvíabekk til kaupa. Sá hét Ásmundur er fyrir þeim var og keypti til sex hundraða og kvaðst allt mundu út gjalda. Böðvar kvaðst vildu að Guðmundur sæi honum til handa skuldastaði.

Ásmundur svarar: «Kunnugt mun það að vér gjöldum skuldir vorar.»

Böðvar svarar: «Þá vil eg að þú færir hingað féð.»

En Ásmundur kvaðst vilja að hann tæki þar út vöruna og lýkur svo að þeir kaupa þessu en síðan fara þeir á burt.

Guðmundur kom heim. Þeir sögðu honum kaup sín.

Hann svarar: «Ei skyldu þessi kaup verið hafa ef eg hefði heima verið.»

Nú líða jólin og er veðrátta góð.

Þá bað Böðvar þá Bessa að fara að heimta vöruna en Guðmundur kvað það óráðlegt að ganga í greipar þeim Svarfdælum «og ætla eg þó að ei veiti Ljótur þér ágang.»

Fóru þeir þó fjórir saman. Og er þeir komu út í Ólafsfjörð þá var varan ei búin því að margir höfðu keypt en hann var einn í bundinn skuldum við Böðvar. Þeir höfðu haft ferju út þangað er Austmenn áttu og er dvölin var löng þá rak á frost mikið svo að ei mátti á skipinu fara. Ásmundur kvað þeim heimilt þar að vera. Böðvar kvaðst það mundu þekkjast og voru þeir þar hálfan mánuð hríðfastir. Síðan gerði á þurrafrost og færðir góðar og leggur fjörðinn svo að ei mátti á skipinu fara.

Þá mælti Ásmundur: «Verið kátir og vel komnir með oss Böðvar.»

En hann kvað það vel boðið «en fá oss heldur leiðtoga og munum vér þá ganga.»

Ásmundur kvað það síður sitt ráð «og vildi eg vel skiljast við yður.»

«Svo verður að vera,» segir Böðvar.

Þeir fóru tólf saman til heiðarinnar þar til skiptast vegir heiðarinnar. Þá þykknaði veðrið og dreif. Færðin var þung en Böðvar var ófrár og óvanur göngu og ætluðu til Svarfaðardals um nóttina til Narfa. Veðrið gerðist myrkt og vissu þeir ógjörla hvar þeir fóru.

Þá mælti Böðvar: «Villist þér nú vegarins en náttmyrkrið við sig.»

Þeir léttu ei fyrr en þeir drápu fótum í húsum nokkrum í náttmyrkrinu. Þeir drápu þar á dyr en menn sátu þá við elda. Þá var gengið til dyra og spurt hverjir komnir væru.

Böðvar spurði: «Hver býr hér eða hvað heitir bær sá?»

«Þorgrímur býr hér Ljótólfsson en bærinn heitir að Upsum og vill bóndi að þér gangið inn því að ei er úti vært. Bauð hann mér svo að segja yður hverjir sem úti væru.»

Böðvar svarar: «Ei viljum vér fyrr inn ganga en bóndi býður sjálfur.»

Maðurinn gengur inn, segir Þorgrími að þeir menn sem komnir eru vilja að honum boð þiggja og láta mikillega.

Þorgrímur gengur út og spyr hverjir komnir væru «og þiggið hér að vera í nótt.»

Böðvar svaraði og kvað suma vera íslenska en suma norræna og nefnir sjálfan sig.

Þorgrímur gekk inn fyrir og bað þá niður setjast og þiggja beina «og skal ekki boði aftra» en kvað aðra ei síður aufúsugesti þar vera og annarra eigi minni von verið hafa.

Þorgrímur lét gera þeim elda.

Sigmundur var þar að búi er nefndur var fyrri, fóstbróðir sona Þorgerðar Ljótólfsdóttur. Honum bregður mjög við og segir Þorgrími leynilega frá skilnaði þeirra Þorvarðar frænda hans.

Þorgrímur kvað það mál ekki til sín taka «og vil eg þeim vel veita er öngvir eru ills af mér verðir og vil eg að menn séu þeim trúir er mig hafa heim sóttan.»

Þar eru þeir um nóttina. Þorgrímur býr um hurðina og bað öngvan mann fyrri hurðum upp að lúka en hann vildi «en sá skal hörðu mæta er af bregður.»

Sigmundur leitaði ei að fyrr en þeir sváfu fast. Innangengt var í fjósið og svo kemst hann í burt. Þá var rofið veðrið og var jarðfjúk. Hann fékk sér skíð og kom um nóttina til Hofsár til Bjarnar og vakti hann af svefni. Hann spurði hver kominn væri. Sigmundur segir til. Björn spyr hví hann fari svo óðlega.

Hann kvað nauðsyn til reka «og muntu nú mega hefna bróður þíns.»

«Hverjir eru komnir?» segir Björn.

Hann svarar: «Böðvar bróðir Halla og ætlar nú inn til Eyjafjarðar.»

Björn svarar: «Ekki sómir vel að kveikja ófrið að gerðum sáttum en sá maður er saklaus og aldrei verið við skipti manna hér á landi. Væri nær miklu ef að Hrólfur væri og semdi þó ei vel. Kann eg og kappi Þorgríms frænda að honum mun þykja svívirðing í um gesti sína ef að þeim er illa farið.»

Sigmundur svarar: «Ei skiptir þig að högum til er þeir voru af teknir er skaðinn er að en mannlæður slíkar lifa sem þú ert og má oss hugkvæmt þykja þá er bróðir þinn var drepinn í griðum fyrir oss. Nú viltu ei hefna hans.»

Hann fær sér menn og verða átta saman. Björn kvaðst vilja hitta Ljót frænda sinn, stóðst ei ámælisorð Sigmundar og hans kompána. Fóru þeir á Völlu. Ljótur spyr hvað Björn vilji er hann fer um nætur.

Björn svarar: «Eg ætla nú að fara og hefna Þorvarðar frænda míns.»

Ljótur mælti: «Er Hrólfur kominn?»

«Ei er það,» segir Björn, «hér er kominn Böðvar bróðir hans í dal.»

Ljótur mælti: «Eru þetta þín ráð frændi að drepa saklausan mann og ganga á sættir? Og fer eg ekki þessa ferð og leggja virðing við það að sækja fram og heim bróður minn.»

Björn mælti: «Ei munum vér þurfa að sækja heim bróður þinn til þess að ná þeim. Sitjum nú fyrir þeim er þeir fara burt.»

Sigmundur svarar: «Vér munum sjá för þeirra.»

Ljótur kvaðst ei mundu fara.

Þeir fóru í burt og er þeir fóru þá mælti Sigmundur: «Komum vér til Tjarnar til þeirra feðga Þorsteins og Eyjólfs.»

Þeir voru harðir menn og ofurhugar.

Björn mælti: «Liðs vil eg biðja þig að ei fari óvinir vorir um þveran dalinn í friði.»

Hann kvað það einsætt og réðst til ferðar með þeim en Eyjólfur son hans var farinn upp í Sandárdal.

7. kafli

Nú er að segja frá Böðvari að hann býst um morguninn og hans förunautar.

Þorgrímur mælti: «Ekki er mér um Böðvar að þú farir almannaleið. Eg veit gjörla að maður hefur í burt komist í nótt og mun sagt hafa um ferðir þínar en eg vildi að ekki yrði að yður er þér hafið mig heim sóttan.»

Böðvar kvað honum vel fara «eg mun og svo gera.»

Þeir snúa nú á leiðina og fóru þó almannaveg.

Sigmundur tók til orða í liði Bjarnar: «Nú sé eg þá og eru þeir fyrir oss komnir.»

Síðan sóttu þeir fast eftir þeim og fundust á hrísum upp frá Dalsbæ milli bæjanna og Hellu er Narfi bjó.

«Menn fara þarna,» segir Böðvar, «og hvað munu þeir vilja?»

Bessi svarar: «Ekki munu þeir gott vilja og má vera að vér drukknum nærri landi.»

Böðvar mælti: «Ei skulum vér renna.»

Bessi svarar: «Ekki ætla eg það,» segir hann, «og munum vér hér bíða.»

Böðvar og Bessi og stýrimaður, þeir voru fremstir. Voru þeir sjö saman en þeir Björn ellefu saman.

Þá mælti Þorsteinn: «Förum að með ráðum. Ei er sýnt hve vegnar svo búið. Þeir hafa vígi nokkuð en menn harðsnúnir og sæki sumir á bak þeim og vertu hér Þorgrímur.»

Í því bili hljóp maður mikill að baki þeim. Var þar og kominn Eyjólfur Þorsteinsson.

Þá mælti Böðvar: «Höldumst vér við og hlífum oss.»

Björn var fremst í atsókn. Þorsteinn skaut spjóti að Hávarði austmanni og setti á hann miðjan. Það spjót þrífur Böðvar og sendir það aftur og hæfir Þorstein og varð honum að skaða. Og í því kom Eyjólfur á bak Böðvari og hjó hann banahögg og í því þrífur Eyjólfur til Bessa og renndi fótskriðu að honum og í lið þeirra og bað þá Björn að ráða til.

Hann hljóp að honum og vó hann og mælti: «Vasklega fórstu enn Eyjólfur.»

Hafði Bessi vegið Sigmund áður. Þar féll Böðvar, Bessi, Hávarður austmaður og einn af förunautum þeirra og Þorsteinn af Svarfdælum og Sigmundur. Þeir gera orð Narfa að hann sæki líkin. Hann kunni þessu illa því að hann var vinur hvorratveggju. Hann ríður á Möðruvelli og sagði Guðmundi. Hann kvað þetta mikla óhamingju orðna.

En þeir Björn og Eyjólfur gera ráð sitt.

Eyjólfur kvað það sýnt ráð að hitta Ljót «þó að nokkur yfirorð fylgi þá er þar þó traust. Mun hann mér ásjá veita. Mun eg hér ekki dveljast ef þú gerir ei svo því að þú mátt ekki traust veita.»

Björn kvað hann letja að mannhefndir færu fram.

Eyjólfur kvaðst ætla að því fastari mundi hann til trausts sem þeir þyrftu meir «og er þetta eitt til og þann veg helst komu mannahefndir frænda hans af voru tilstilli.»

Þeir fara nú og hitta Ljót og segja honum að þeir hafa mannhefndir framdar eftir frændur þeirra.

Ljótur mælti: «Ei er gott að eiga vonda frændur. Þeir koma oss í vandkvæði. Er nú og ei gott aðgerða.»

Þeir fara að hitta Þorgrím.

Þá mælti Ljótur: «Því tókstu við óvinum vorum Þorgrímur frændi?»

Hann svarar: «Það eina samdi mér. Þó til lítils kæmi þá var það þó mitt að eg gerði en það Sigmundar er hann gerði og er því fjarri orðið er eg vildi að væri.»

Þá mælti Ljótur: «Betur mundi ef þessi ráð hefðu höfð verið en óráðlegt sýnist mér yður að sitja í búum yðrum í milli Tjarnar og Upsa. Kveð eg það nú betur sóma að vér séum allir saman heldur en þér séuð drepnir sem melrakkar í grenum og mun þá þykja koma til vor að veita að málum yðrum og mun eg nú leita fyrir að vera. En eg er tregur til stórvirkjanna en þó þykir mér illt að láta hlut minn fyrir nokkrum manni.»

Þorgrímur mælti: «Slíkt liggur nú fyrir eða hvað skal gera af Eyjólfi er mest er í sökum bundinn og stórvirkjum?»

Ljótur svarar: «Hann má vera með mér fyrst en síðar mun eg senda hann suður á Hjalla og koma honum þar utan. En aðra þrjá skal senda til Hermundar Illugasonar en tvo til Þorkels Eyjólfssonar. Væri þá auðvelt um sættir að leita ef þeir kæmust utan. En Björn skal með mér vera og eitt yfir okkur ganga.»

8. kafli

Allt gekk þetta svo fram. Eyjólfur fór utan og var í þingamannaliði í Englandi.

Narfi var að ræðu við Guðmund og þótti honum því verri þessi tíðindi sem þeir fréttu ger. Þó fór hann með Narfa út á ströndina til boðs og frétti þá glöggt um fundinn.

Guðmundur mælti: «Hafa þeir gott orð af og er mikill skaði að um slíka menn er svo urðu vel við en sjálfir saklausir og upp ganga þeir nú Svarfdælar og munu vel við una eða hversu eru þeir varir um sig, Björn og Þorgrímur?»

Hann svarar: «Oft er Björn heima með fámenni og svo Þorgrímur.»

«Gott hefur Þorgrímur af málinu en þó er Ljótur forstjóri þeirra eða hversu var er hann um sig?»

Hann sagði að Ljótur væri var um sig.

«Ei uni eg nú þó að svo búið sé,» sagði Guðmundur. «Vil eg nú hafa við ráð þín og sækja út í dalinn og forvitnast ef vér mættum ná nokkrum þeirra.»

Narfi kvaðst heimill: «Til þess er eg nú búinn. Er mér og kunnug öll göng og leynivegar en gæfuvant er til slíkra ráða.»

Guðmundur kvaðst á mundu hætta og fóru þeir út í dalinn.

Narfi mælti: «Ljótur mun og ríða hið efra með fjöllunum og ofan að Vallabæ.»

Guðmundur mælti: «Hér munum vér sitja og bíða en þú forvitnast tíðinda af bænum.»

Ljótur átti sauðahús skammt frá þeim. Það var til tíðinda á bænum að þeir frændur voru þar komnir allir til boðs og höfðu þeir ei það vitað.

Það var vandi Ljóts að vera snemma á fótum og sjá um verk sitt og fénað. En þeir Guðmundur sátu í tungu einni milli gilja tveggja í skóginum og sáu að maður gekk frá bænum í svörtum kyrtli og hafði bryntröll í hendi. Hann fer inn í húsið og rekur út féð. Þá bað Guðmundur þá upp spretta og taka hann höndum en bera ei vopn á hann. Ljótur sér það og snýr undan og hafði fyrir sér bryntröllið og hljóp í gljúfrið fram en þar var undir hörð fönn reyndar í gilinu og rennir hann ofan eftir gilinu og sakaði hann ekki.

Guðmundur mælti þá: «Þar fór hann núna» og skaut eftir honum spjóti og hæfir í bryntröllið.

Ljótur tók upp spjótið og fór heim en Guðmundur fór í skóginn og mælti: «Handgóður er Ljótur og er slíkum mönnum vel farið. Hann er óhlutdeilinn en sjálfur fullhugi og ráðkænn. Það eitt ráð lá honum til er hann hafði og mun hann vitað hafa áður að fært var í gilið. Bíðum nú og vitum hverjar tiltekjur hann hefur. Látum ei þá elta oss, þó förum vér nú helsti sviplega.»

En er Ljótur kom heim þá varðveitti hann spjótið. Það var gullrekið. Þeir spurðu hvaðan honum kæmi það spjót.

Hann svarar: «Guðmundur hinn ríki sendi mér það.»

Þeir spurðu hver með færi en Ljótur kvað hann ekki öðrum að því hlíta «og gerði hann það sjálfur.»

Þeir kváðu hann því of lengi leynt hafa.

Hann kvað ei það vera: «Eg vissi það að eg mundi yður ei stöðvað fá ef þér hefðuð þetta fyrri vitað en oss mundi það illa sækjast og ofráð vera við þá Eyfirðinga.»

Og lætur Ljótur ei þessum málum snúa áleiðis um fjörráð við sig.

Og líður nú fram að þingi og var þar all fjölmennt. Komu þeir Norðlendingar, Ljótur og Guðmundur. Fór Guðmundur með vígsmálið á hendur Ljóti. Nú gengu menn um sættir að leita.

Þeir Ljótur og Skafti fundust vinir og töluðust við og segir Ljótur honum allan atburðinn um viðskipti þeirra Guðmundar «og ef við megum semja mál okkar mun eg ekki til þess taka og förum við að ræða við hann.»

Skafti svarar: «Vel er með farið þinnar handar og skal eg allan hlut í eiga.»

«Já,» segir Ljótur, «undan sneri eg þá og sýndist mér þá ekki að bíða hvert orð sem á leikur. Nú vil eg að þú færir Guðmundi spjótið.»

Skafti bað hann fara með sér.

Ljótur kvað svo vera skyldu «og má eg vel sjá hann.»

Guðmundur heilsaði Skafta: «Því sýndist þér að veita Ljóti göngulið?»

Skafti kvað svör bera til «og ekki er það til óvinfengis gert við þig. En spjót þetta vill Ljótur að þú hafir og kvað þig sent hafa.»

Guðmundur svarar: «Svo var það þér sent Ljótur að eg ætlaði það til lítilla sæmda þér.»

Ljótur svarar: «Síðan svo hefur til snúist þá geri eg mér það ekki til fjár, spjót þetta.»

Hann kvaðst það gjarnan vilja «en sverð þetta skaltu hafa.»

Það var gersemi mikil.

Þá mælti Ljótur til Guðmundar: «Þigg af mér sverð þetta en send mér ei annað spjót þess háttar en lúkum svo málum okkrum að þú þykist halda öllum sóma þínum og lúkum svo fjandskap okkrum.»

«Svo skal vera,» sagði Guðmundur.

Björn var ei á þingi því hann var sendur út til Grímseyjar með ráði Ljóts og var á laun með þeim manni er Þrándur hét.

Björn sagði honum orðsending Ljóts að hann var þangað sendur til ásjár og trausts um þingið «en hann mun málum lúka fyrir mig.» Þrándur kvað þá fara mundu með slíku sem verða mætti.

9. kafli

Hrólfur var heima um þingið. En á þinginu voru málin reifð. Kvaðst Ljótur vilja bjóða utanferð manna og fésekt virðulega. Og lögðu margir hinir smærri menn hið verra til en hinir deildu sér góðan hlut af og þótti það Ljóti vel að hver næði sættum en Guðmundur fengi sóma af. Svo kemur að Ljótur vill að Skafti geri af hans hendi en Guðmundur vill sjálfur gera fyrir sína hönd. Var svo og urðu þeir vel ásáttir og skyldi Skafti gerð upp segja og varð þar hjá fjölmenni mikið.

Skafti mælti: «Það látum vér jafnt í þeim málum, fyrirsát fyrir Böðvari og víg Sigmundar, Bessa víg og Þorsteins en fyrir kaupmannsins víg tvö hundruð silfurs en fyrir það skal annað gjaldast er kom fyrir víg Þorvarðar en níu menn skulu ei eiga útkvæmt. Björn skal gjalda hundrað og vera þar með frjáls og gjalda tvö sumur á leið.»

Og sættust að þessu.

En Björn var í eyjunni með Þrándi vel haldinn.

Og einn dag um þingið fýstist Björn að róa með Þrándi en hann kvað þess öngva þörf «eg vildi að öngvar umsátir væru um þann mann er Ljótur sendir mér og óvænna er til trausts af smáskipum en á eynni.»

«Ekki mun það saka,» segir Björn.

Og reru þann dag þrír tigir skipa frá eyjunni og flest smá. Veður var gott og voru menn kátir því að skipin lágu nær.

Þá mælti Þrándur: «Skip fer þar inn eftir firðinum og kenni eg ferju Guðmundar eða hverjir munu þar vera eða vitið þér nokkuð til hvort Hrólfur gípur er á þingi?»

Þeir svara fiskimennirnir að hann væri heima.

Þrándur mælti: «Hann mun hér kominn og ætlar á fund þinn Björn og muntu vera kenndur fyrir oss og munum vér illa verjast af smáskipunum en menn ei haldinorðir en þeir hafa stórt skip og fjölda manna. Búumst þó við að vörn verður lítil.»

Og róa nú upp að eyjunni.

Þá mæltu ferjumennirnir: «Geysa þeir nú róðurinn af miðunum og kann vera að þeir uggi oss.»

Þá mælti Hrólfur: «Sækjum eftir þeim.»

Og gera þeir svo og fundust skjótt. Þá spurði Hrólfur hvort Björn væri á skipi.

Þrándur svarar: «Leiddu svo getur um.»

Hrólfur mælti: «Seljið fram hann og leggið yður ei í hættu né fé yðvart því að þér hafið ekki lið við. Firrið yður vandkvæði og gerið ekki heimilissök á hendur yður.»

Þrándur svarar: «Ekki áttu góðan hlut í málum manna er þú setur þig fram fyrir höfðingja og má af þvílíku standa vandræði en vilt ei halda gerðir höfðingja og gerir þú í slíku sáttrof og kveikir svo upp með höfðingjum fullan fjandskap. Kann og vera að skapir Birni fullan hlut slíkan sem bróður hans og af þér hafa hlotist þessi víg öll eða hvað hefur þú spurt af þinginu, eru menn ei sáttir? Er það óvandi þinn að sættast fyrst og drepa menn síðan og ei muntu í fyrstu hríð ná honum.»

«Vér munum ná honum,» sagði Hrólfur, «en drepa yður.»

Þrándur svarar: «Viljið þér fé taka?»

Hrólfur svarar: «Sjálfdæmi vort.»

Björn svarar: «Illa gefast sjálfdæmin og hættum heldur til hversu að fer.»

Þrándur svarar: «Ei skortir oss fé en dreng fær varla slíkan sem þú ert.»

Björn kvað margt mundu í gerast áður þeir næðu honum.

Þrándur kvaðst vilja lúka málunum «og kemur nú til mín.»

Hrólfur mælti: «Nú þegar skaltu upp gjalda tvö hundruð silfurs fyrir Björn.»

Þrándur svarar: «Erfið munu oss gjöldin svo þröng.»

En skipamenn halda upp gjöldum með honum og fóru snauðir til lands og skildi svo með þeim Þrándi og Hrólfi.

Ljótur kom heim af þingi og hittust þeir Björn og segir hvor öðrum þau tíðindi er gerst höfðu.

Ljótur kvað Þránd ei ámælisverðan «en Hrólfur sýnir skaplyndi sitt og verður honum títt til gjaldanna. Nú er hægur hjá. Vér eigum að gjalda Guðmundi tvö hundruð silfurs á leið. Nú munum vér það greiða en ei annað ef þeir Hrólfur láta það með ósæmd laust.»

Ljótur gerði Guðmundi orð og kvaðst sjá sýnan ágang í slíku og bað hann setja Hrólf. Hann kvað svo vera skyldu og kvað hann oft hafa þeim til óvirðingar stýrt og greiddi hann aftur allt féð eyjarmanna. En Ljótur skipaði fyrir sína hönd bæði við Þránd og Guðmund svo hvorutveggjum líkaði vel og þótti Ljótur hinn mesti höfðingi og lýkur þar viðskiptum þeirra Guðmundar hins ríka.

En Guðmundur hélt virðingu sinni allt til dauðadags og lýkur þar þessari sögu.

Текст с сайта Netútgáfan

© Tim Stridmann