Haralds saga Sigurðarsonar

1. Upphaf Haralds konungs harðráða

Haraldur, sonur Sigurðar sýr, bróðir Ólafs konungs hins helga sammæðri, hann var á Stiklastöðum í orustu þá er hinn helgi Ólafur konungur féll. Varð Haraldur þá sár og komst í brott með öðrum flóttamönnum.

Svo segir Þjóðólfur:

Hvasst frá eg Haugi hið næsta
hlífél á gram drífa,
en Bolgara brennir
bræðr sínum vel tæði.
Skildist hann og huldi
hjálmsetr, gamall vetra
tyggi tólf og þriggja,
trauðr við Ólaf dauðan.

Rögnvaldur Brúsason flutti Harald úr orustu og kom honum til bónda nokkurs er bjó í skógi langt frá öðrum mönnum. Var Haraldur þar læknaður til þess er hann var heill. Síðan fylgdi sonur bónda honum austur um Kjöl og fóru þeir allt markleiði, það er svo mátti, en ekki alþýðuveg. Vissi bóndason ekki til hverjum hann fylgdi.

Og er þeir riðu milli eyðiskóga nokkurra þá kvað Haraldur þetta:

Nú læt eg skóg af skógi
skreiðast lítils heiðar.
Hver veit nema eg verði
víða frægr um síðir?

Hann fór austur um Jamtaland og Helsingjaland og svo til Svíþjóðar. Fann hann þar Rögnvald jarl Brúsason og mjög marga aðra þá menn er komist höfðu úr orustu, menn Ólafs konungs.

2. Ferð Haralds til Miklagarðs

Eftir um vorið fengu þeir sér skipan og fóru um sumarið austur í Garðaríki á fund Jarisleifs konungs og voru þar um veturinn.

Svo segir Bölverkur:

Mildingr, straukstu um mækis
munn er lést af gunni.
Holds vannst hrafn um fylldan
hrás. Þaut vargr í ási.
En gramr, né eg frá fremra
friðskerði þér verða,
austr varstu ár hið næsta,
örðuglyndr, í Görðum.

Jarisleifur konungur tók vel við þeim Haraldi. Gerðist Haraldur þá höfðingi yfir landvarnarmönnum konungs, og annar Eilífur, sonur Rögnvalds jarls.

Svo segir Þjóðólfur:

Eitt höfðust at,
Eilífr þar er sat,
höfðingjar tveir.
Hamalt fylktu þeir.
Austr-Vindum ók
í öngvan krók.
Vara Læsum léttr
liðsmanna réttr.

Haraldur dvaldist í Garðaríki nokkura vetur og fór víða um Austurveg. Síðan byrjaði hann ferð sína út í Grikkland og hafði mikla sveit manna. Þá hélt hann til Miklagarðs.

Svo segir Bölverkur:

Hart kníði svöl svartan
snekkju brand fyr landi
skúr, en skrautla báru
skeiður brynjaðar reiði.
Mætr hilmir sá málma
Miklagarðs fyr barði.
Mörg skriðu beit að borgar
barmfögr hám armi.

3. Frá Haraldi Sigurðarsyni

Þá réð fyrir Grikklandi Zóe drottning hin ríka og með henni Mikjáll katalaktus.

En er Haraldur kom til Miklagarðs á fund drottningar þá gekk hann þar á mála og fór þegar um haustið á galeiður með hermönnum þeim er fóru út í Grikklandshaf. Hélt Haraldur sveit af sínum mönnum. Þá var höfðingi yfir herinum sá maður er nefndur er Gyrgir. Hann var frændi drottningar.

En er Haraldur hafði litla hríð verið í herinum, áður en Væringjar þýddust mjög til hans, og fóru þeir allir saman þegar er bardagar voru. Kom þá svo að Haraldur gerðist höfðingi yfir öllum Væringjum. Fóru þeir Gyrgir víða um Grikklandseyjar, unnu þar herskap mikinn á kussurum.

4. Hlutan Haralds og Gyrgis

Það var eitthvert sinn, er þeir höfðu farið um land og skyldu taka sér náttból við skóga nokkura, og komu Væringjar fyrstir til náttstaðar og völdu þeir sér tjaldstaði þá er þeir sáu besta og hæst lágu því að þar er svo háttað að land er blautt og þegar er regn koma þar, þá er illt að búa þar er lágt liggur. Þá kom Gyrgir, höfðingi hersins, og er hann sá hvar Væringjar höfðu tjaldað bað hann þá í brott fara og tjalda í öðrum stað, segir að hann vill þar tjalda.

Haraldur segir svo: «Ef þér komið fyrri til náttbóls þá takið þér yður náttstað. Þá munum vér þar tjalda í öðrum stað þar sem oss líkar. Gerið þér nú og svo, tjaldið þar sem þér viljið í öðrum stað. Hugði eg að það væri réttur Væringja hér í veldi Grikkjakonungs að þeir skulu vera sjálfráða og frjálsir um alla hluti fyrir öllum mönnum en vera konungi einum og drottningu þjónustuskyldir.»

Þreyttu þeir þetta með kappmæli þar til er hvorirtveggju vopnuðust. Var þá við sjálft að þeir mundu berjast. Komu þá til hinir vitrustu menn og skildu þá. Sögðu þeir svo að betur var fallið að þeir sættust um þetta mál og gerðu skipan á með sér glögglega svo að eigi þyrfti oftar slíka deilu um. Var þá stefnulagi á komið með þeim og skipuðu hinir bestu menn og hinir vitrustu. En á þeirri stefnu réðu þeir það svo, að samt kom með öllum að hluti skyldi í skaut bera og hluta með Grikkjum og Væringjum hvorir fyrri skyldu ríða eða róa eða til hafnar leggja og kjósa um tjaldstaði. Skyldi því hvortveggi una þá sem hlutur segði. Síðan voru hlutir gervir og markaðir.

Þá mælti Haraldur við Gyrgi: «Eg vil sjá hversu þú markar þinn hlut að eigi mörkum við á eina lund báðir.»

Hann gerði svo. Síðan markaði Haraldur sinn hlut og kastaði í skautið og svo báðir þeir.

En sá maður er hlutinn skyldi upp taka þá tók hann upp annan og hélt milli fingra sér og brá upp hendinni og mælti: «Þessir skulu fyrri ríða og róa og til hafnar leggja og kjósa sér tjaldstaði.»

Haraldur greip til handarinnar og tók hlutinn og kastaði út á sjá.

Síðan mælti hann: «Þessi var vor hlutur.»

Gyrgir segir: «Hví léstu eigi sjá fleiri menn?»

«Sjá nú,» segir Haraldur, «þann er eftir er. Muntu þar kenna þitt mark.»

Síðan var athugað um þann hlutinn og kenndu allir þar mark Gyrgis. Var það dæmt að Væringjar skyldu kjörna kosti hafa um allt það er þeir þreyttu um. Fleiri hlutir urðu til þess er þeir urðu eigi ásáttir og hlaust jafnan svo að Haraldur hafði sitt mál.

5. Frá Haraldi Sigurðarsyni

Þeir fóru allir samt um sumarið og herjuðu. Þá er allur var saman herinn lét Haraldur sína menn vera fyrir utan bardaga eða ella þar er minnst var mannhætta og lést varast vilja að hann týndi herliði sínu. En er hann var einn saman með sínu liði þá lagðist hann svo fast til að berjast að annað tveggja skyldi hann fá sigur eða bana.

Svo bar oftlega til þá er Haraldur var höfðingi yfir liðinu að hann vann sigur þá er Gyrgir vann ekki. Þetta fundu hermenn og kölluðu betur fara mundu sitt mál ef Haraldur væri einn höfðingi yfir öllum herinum og ámæltu hertoganum að ekki yrði af honum eða hans liði.

Gyrgir segir að Væringjar vildu ekki lið veita honum, bað þá fara í annan stað en hann færi með öðrum herinum og vinna þvílíkt sem þeir mættu.

Fór þá Haraldur frá herinum og Væringjar með honum og latínumenn. Gyrgir fór með Grikkjaher. Sýndist þá hvað hvor mátti. Fékk Haraldur jafnan sigur og fé en Grikkir fóru heim til Miklagarðs nema ungir drengir, þeir er fá vildu sér fjár, söfnuðust til Haralds og höfðu hann þá fyrir hertoga.

Lagðist hann þá með her sinn vestur í Afríku er Væringjar kalla Serkland. Efldist hann þá mjög að liði. Í Serklandi eignaðist hann átta tigu borga. Voru sumar gefnar upp en sumar tók hann með valdi. Síðan fór hann til Sikileyjar.

Svo segir Þjóðólfur:

Tugu mátt tekna segja,
tandrauðs, á Serklandi,
ungr hætti sér, átta,
ormtorgs hötuðr, borga.
Áðr herskorðuðr harðan
Hildar leik und skildi,
Serkjum hættr, í sléttri
Sikileyju gekk heyja.

Svo segir Illugi Bryndælaskáld:

Braustu und Mikjál mæstan,
mágum heim, sem frágum,
sonr Buðla bauð sínum,
Sunnlönd, Haraldr, röndu.

Hér segir það að þá var Mikjáll Grikkjakonungur í þenna tíma.

Haraldur dvaldist marga vetur í Afríku, fékk óf lausafjár, gull og alls konar dýrgripi. En allt fé það er hann fékk og eigi þurfti hann að hafa til kostnaðar sér sendi hann með trúnaðarmönnum sínum norður í Hólmgarð í vald og gæslu Jarisleifs konungs og dróst þar saman ógrynni fjár, sem líklegt er að vera mundi er hann herjaði þann hluta heimsins er auðgastur var að gulli og dýrgripum, og svo mikið sem hann gerði að, er með sönnu var áður sagt, að hann mundi eignast hafa átta tigu borga.

6. Orusta í Sikiley

En er Haraldur kom til Sikileyjar þá herjaði hann þar og lagði þar með liði sínu til einnar borgar mikillar og fjölmennrar. Settist hann um borgina því að þar voru sterkir veggir svo að honum þótti ósýnt að brjóta mundi mega. Borgarmenn höfðu vist gnóga og önnur föng þau er þeir þurftu til varnar.

Þá leitaði hann þess ráðs að fyglarar hans tóku smáfugla, þá er hreiðruðust í borginni og flugu á skóg um daga að taka sér mat. Haraldur lét binda á bak fuglunum lokarspónu af tyrvitré og steypti vaxi og brennusteini og lét slá eldi í. Flugu fuglarnir, þegar er lausir urðu, allir senn í borgina að vitja unga sinna og híbýla er þeir áttu í húsþekjum þar er þakt var reyr eða hálmi. Þá laust eldinum af fuglunum í húsþekjurnar. En þótt einnhver bæri litla byrði elds þá varð það skjótt mikill eldur er margir fuglar báru til víða um borgina í þekjur og því næst brann hvert hús að öðru þar til er borgin logaði. Þá gekk fólkið allt út úr borginni og bað sér miskunnar, þeir hinir sömu er áður höfðu margan dag drembilega mælt og háðulega til Grikkjahers og höfðingja þeirra. Gaf Haraldur öllum mönnum grið, þeim er þess beiddu, fékk síðan vald yfir þeirri borg.

7. Orusta um aðra borg

Önnur borg var sú er Haraldur lagði til liði sínu. Sú var bæði fjölmenn og sterk svo að engi var von að þeir fengju brotið, vellir harðir og sléttir umhverfis borgina. Þá lét Haraldur taka til að grafa gröft frá þar sem féll bekkur einn og var þar djúpt gil svo að ekki mátti þannug sjá úr borginni. Þeir fluttu moldina út á vatnið og létu straum í brott bera. Voru þeir að þessu verki bæði dag og nótt. Var skipt til sveitum. En herinn gekk alla daga utan að borginni en borgarmenn gengu í vígskörð og skutu hvorir á aðra en um nætur sváfu þeir hvorirtveggju.

En er Haraldur skildi það að jarðhús það var svo langt að þá mundi vera komið inn um borgarvegginn þá lét hann vopnast lið sitt. Það var móti degi er þeir gengu inn í jarðhúsið. En er þeir komu til enda grófu þeir upp yfir höfuð sér þar til er steinar urðu fyrir lími settir. Það var gólf í steinhöllinni. Síðan brutu þeir upp gólfið og gengu upp í höllina. Þar sátu fyrir menn margir af borgarmönnum, snæddu þar og drukku, og var þeim það hinn mesti óvísa vargur því að Væringjar gengu þar við brugðnum sverðum og drápu þar þegar suma en sumir flýðu, þeir er því komu við. Væringjar sóttu eftir þeim en sumir tóku borgarhliðin og luku upp. Gekk þar inn allur fjöldi hersins. En er þeir komu í borgina þá flýði borgarlýðurinn en margir báðu griða og fengu það allir er upp gáfust. Eignaðist Haraldur borgina með þessum hætti og þar með ógrynni fjár.

8. Orusta við hina þriðju borg

Hina þriðju borg hittu þeir, þá er mest var af þessum öllum og sterkust og ríkust að fé og fjölmenni. Voru um þá borg díki stór svo að þeir sáu að ekki mátti þar vinna með þvílíkum brögðum sem hinar fyrri borgir. Lágu þeir þar mjög lengi svo að þeir fengu ekki að gert. En er borgarmenn sáu það þá dirfðust þeir við. Þeir settu fylkingar sínar uppi á borgarveggjum, síðan luku þeir upp borgarhliðum og æptu á Væringja, eggjuðu þá og báðu þá ganga í borgina og frýðu þeim hugar, sögðu að þeir væru eigi betri til orustu en hænsn.

Haraldur bað sína menn láta sem eigi vissu hvað þeir sögðu. «Vér gerum ekki að,» segir hann, «þótt vér rennum til borgarinnar. Þeir bera vopn sín á oss undir fætur sér niður. En þótt vér komum í borgina með nokkura sveit þá hafa þeir vald að byrgja inni þá er þeir vilja en suma úti því að þeir hafa yfir öll borgarhlið gæslu sett. Vér skulum gera þeim eigi minna skaup og skulum láta þá sjá að vér óttumst þá ekki. Skulu vorir menn ganga fram á völluna sem næst borginni og gæta þó þess að ganga eigi í skotmál þeirra. Skulu vorir menn allir fara vopnlausir og gera sér leik og láta það sjá borgarmenn að vér hirðum ekki um fylkingar þeirra.»

Síðan var svo nokkura daga.

9. Frá Úlfi og Halldóri

Menn íslenskir eru nefndir, þeir er fóru þar með Haraldi konungi: Halldór sonur Snorra goða, hann hafði þessa frásögn hingað til lands, annar var Úlfur sonur Óspaks sonar Ósvífurs hins spaka. Þeir voru báðir hinir sterkustu menn og allvopndjarfir og voru hinir kærstu Haraldi. Þeir voru báðir í leikinum.

En er þessa leið hafði farið nokkura daga þá vildu borgarmenn sýna enn meira kapp. Gengu þeir þá ekki með vopnum upp á borgarveggina en létu þó opin standa borgarhliðin.

En er það sáu Væringjar þá gengu þeir einn dag svo til leiksins að þeir höfðu sverð undir möttlum en hjálma undir höttum. En er þeir höfðu leikið um hríð þá sáu þeir að borgarmenn undruðust ekki. Þá tóku þeir skjótt vopnin, runnu síðan að borgarhliðinu. En er borgarmenn sáu það gengu þeir í móti vel og höfðu sín alvæpni. Tókst þar bardagi í borgarhliðinu. Væringjar höfðu engar hlífar nema það er þeir sveipuðu möttlum um vinstri hönd sér. Urðu þeir sárir en sumir féllu en allir voru nauðulega staddir. Haraldur og það lið með honum, er var í herbúðum, sótti til að veita sínum mönnum. En borgarmenn voru þá komnir upp á borgarveggi, skutu og grýttu á þá. Varð þá hörð orusta. Þótti þeim er í borgarhliðinu voru vera seinna gengið að hjálpa þeim en þeir vildu. En er Haraldur kom að borgarhliðinu þá féll merkismaður hans.

Þá mælti hann: «Halldór, tak upp merkið.»

Halldór svaraði og tók upp stöngina og mælti óviturlega: «Hver mun merki bera fyrir þér ef þú fylgir svo blauðlega sem nú er um hríð?»

Var það meir reiðimál en sannyrði því að Haraldur var hinn vopndjarfasti maður. Sóttu þeir þá í borgina. Var þá bardagi harður og lauk svo að Haraldur hafði sigur og vann borgina.

Halldór varð sár mjög, hafði sár mikið í andliti og var það lýti alla ævi meðan er hann lifði.

10. Orusta við fjórðu borg

Sú var hin fjórða borg, er Haraldur kom til með her sinn, er mest var af öllum þeim er áður var frá sagt. Hún var og svo sterk að þeir sáu enga von vera að þeir fengju hana brotið. Síðan sátu þeir um borgina og gerðu umsátir svo að engi föng mátti flytja til borgarinnar.

En er þeir höfðu litla hríð dvalist þá fékk Haraldur sjúkleik svo að hann lagðist í rekkju. Lét hann setja sitt landtjald brott frá öðrum herbúðum því að honum þótti sér það ró að heyra eigi gný og glaum herliðsins. Menn hans komu tíðum með flokka til hans og frá og spyrja hann ráðagerðar.

Það sáu borgarmenn að nokkurar nýlundur voru með Væringjum. Gerðu þeir til njósnarmenn að forvitnast hverju slíkt mundi gegna. En er njósnarmenn komu aftur til borgarinnar þá kunnu þeir segja þau tíðindi að höfðingi Væringja væri sjúkur og fyrir þá sök var engi atsókn til borgar. En er svo hafði liðið fram um hríð þá minnkaði mátt Haralds. Gerðust þá hans menn mjög hugsjúkir og daprir. Slíkt allt spurðu borgarmenn. Þar kom að svo þröngdi sótt Haraldi að andlát hans var sagt um allan herinn. Síðan fóru Væringjar til tals við borgarmenn og segja þeim líflát höfðingja síns, báðu kennimenn veita honum gröft í borginni.

En er borgarmenn spurðu þessi tíðindi þá voru þeir margir er þar réðu fyrir klaustrum eða öðrum stórstöðum í borginni, þá vildi hver gjarna það lík hafa til sinnar kirkju því að þeir vissu að þar mundi fylgja offur mikið.

Skrýddist þá allur fjöldi kennimanna og gekk út úr borginni með skrín og helga dóma og gerðu fagra prósessíu. En Væringjar gerðu og mikla líkferð. Var þá líkkistan borin hátt og tjaldað yfir pellum, borin þar yfir merki mörg. En er slíkt var borið inn um borgarhliðið þá skutu þeir niður kistunni um þvert hliðið borgarinnar fyrir hurðirnar. Blésu þá Væringjar í alla lúðra sína herblástur og brugðu sverðunum. Þusti þá allur Væringjaher úr herbúðunum með alvæpni og hljópu þá til borgarinnar með ópi og kalli. En munkar og aðrir kennimenn, þeir er út höfðu gengið í líkferð þessa, kepptust hvorir við aðra að fyrstir og fremstir vildu út ganga að taka við offrinu, þá var þeim nú hálfu meira kapp á því að vera sem first Væringjum því að þeir drápu hvern þann er þeim var næst, hvort er hann var klerkur eða óvígður. Væringjar gengu svo um alla borgina þessa að þeir drápu mannfólkið en rændu alla staði í borginni og tóku þar ógrynni fjár.

11. Frá Haraldi konungi

Haraldur var marga vetur í hernaði þessum, er nú var frá sagt, bæði í Serklandi og Sikileyju. Síðan fór hann aftur til Miklagarðs með her þenna og dvaldist þar litla hríð áður hann byrjaði ferð sína út í Jórsalaheim. Þá lét hann eftir málagull Grikkjakonungs og allir Væringjar, þeir er til ferðar réðust með honum. Svo er sagt að í öllum ferðum þessum hafi Haraldur áttar átján fólkorustur.

Svo segir Þjóðólfur:

Þjóð veit, að hefr háðar
hvargrimmlegar rimmur,
rofist hafa oft fyr jöfri,
átján Haraldr, sáttir.
Höss arnar rauðstu hvassar,
hróðigr konungr, blóði,
ímr gat krás hvars komuð,
klær, áðr hingað færir.

12. Jórsalaferð Haralds konungs

Haraldur fór með liði sínu út til Jórsalalands, fór þá síðan yfir til Jórsalaborgar. En hvar sem hann fór um Jórsalaland voru allar borgir og kastalar gefnir í vald hans.

Svo segir Stúfur skáld er heyrt hafði konunginn sjálfan frá þessum tíðindum segja:

Fór ofrhugi hinn efri
eggdjarfr und sig leggja,
fold var víga valdi
virk, Jórsali úr Girkjum.
Ok með ærnu ríki
óbrunnin kom gunnar
heimil jörð und herði.
Hafi ríks þars vel líkar.

Hér segir frá því að þetta land kom óbrunnið og óherjað í vald Haralds. Fór hann þá út til Jórdanar og laugaði sig þar sem háttur er til annarra pálmara. Haraldur varði stórfé til grafar drottins og kross hins helga og til annarra heilagra dóma á Jórsalalandi. Þá friðaði hann veginn allt út til Jórdanar og drap raufara og annað hernaðarfólk.

Svo segir Stúfur:

Stóðust ráð og reiði,
rann það svikum manna,
Egða grams á ýmsum
orð Jórdanar borðum.
Enn fyr afgerð sanna,
illa gát, frá stilli
þjóð fékk vísan voða,
vist um aldr með Kristi.

Þá fór hann aftur til Miklagarðs.

13. Haraldur konungur settur í dýflissu

Þá er Haraldur var kominn til Miklagarðs utan af Jórsalalandi fýsti hann að fara í Norðurlönd til óðala sinna. Hafði hann þá spurt að Magnús Ólafsson bróðurson hans var orðinn konungur í Noregi og svo í Danmörk. Sagði hann þá upp þjónustu við Grikkjakonung.

En er Zóe drottning varð þessa vör varð hún reið mjög og hóf upp sakagiftir við Harald, taldi það að hann mundi hafa misfarið með Grikkjakonungs fé því er fengist hafði í hernaði þá er Haraldur hafði verið höfðingi yfir herinum.

María hét ein mær, ung og fríð. Hún var bróðurdóttir Zóe drottningar. Þeirrar meyjar hafði Haraldur beðið en drottning synjaði. Svo hafa sagt Væringjar norður hingað, þeir er verið hafa í Miklagarði á mála, að sú sögn væri þar höfð af fróðum mönnum að Zóe drottning vildi sjálf hafa Harald sér til manns og sú sök væri reyndar mest við Harald er hann vildi brott fara úr Miklagarði þó að annað væri upp borið fyrir alþýðu. Þá var sá Grikkjakonungur er hét Konstantínus Mónomakus. Hann réð ríkinu með Zóe drottningu.

Af þessum sökum lét Grikkjakonungur taka höndum Harald og færa hann til dýflissu.

14. Jartegnir Ólafs konungs. Blindaður Grikkjakonungur

En er Haraldur kom mjög svo til dýflissunnar þá sýndist honum hinn helgi Ólafur konungur og segir að hann mundi hjálpa honum. Þar á strætinu var síðan ger kapella og helguð Ólafi konungi og hefir sú kapella þar staðið síðan. Dýflissa sú var þannug ger að þar er turn hár og opinn ofan en dyr af strætinu í að ganga. Var Haraldur þar inn látinn og með honum Halldór og Úlfur.

Næstu nótt eftir kom ein rík kona ofan á dýflissuna og hafði gengið upp með stigum nokkurum og þjónustumenn hennar tveir. Þau létu síga ofan streng nokkurn í dýflissuna og drógu þá upp. Þessari konu hafði hinn helgi Ólafur konungur unnið bót fyrr og hafði þá vitrast henni að hún skyldi leysa bróður hans úr prísund.

Þá fór Haraldur þegar til Væringja og stóðu þeir upp allir í mót honum og fögnuðu honum vel. Síðan vopnaðist allt liðið og gengu þar til er konungurinn sva. Þeir taka konunginn höndum og stinga úr bæði augu.

Svo segir Þórarinn Skeggjason í sinni drápu:

Náði gerr enn glóðum
Grikklands, jöfur handa,
stólþengill gekk ströngu
steinblindr aðalmeini.

Svo segir og Þjóðólfur skáld:

Stólþengils lét stinga,
styrjöld var þá byrjuð,
eyðir augun bæði
út heiðingja sútar.
Lagði allvaldr Egða
austr á bragning hraustan
grálegt mark, en Girkja
götu illa fór stillir.

Í þessum tveim drápum Haralds og mörgum öðrum kvæðum hans er getið þess að Haraldur blindaði sjálfan Grikkjakonung. Nefna mætti til þess hertoga eða greifa eða annars konar tignarmenn ef þeir vissu að það væri sannara því að sjálfur Haraldur flutti þessa sögn og þeir menn aðrir er þar voru með honum.

15. Ferð Haralds konungs úr Miklagarði

Um þá sömu nótt gengu þeir Haraldur að þeim herbergjum er María svaf í og tóku hana í brott með valdi.

Síðan gengu þeir til galeiða Væringja og tóku tvær galeiðurnar, reru síðan inn í Sjáviðarsund. En er þeir komu þar er járnrekendur lágu um þvert sundið þá mælti Haraldur að menn skyldu skipast til ára á hvorritveggju galeiðinni en þeir menn er eigi reru skyldu allir hlaupa aftur í galeiðina og hafa hver húðfat sitt í faðmi sér. Renndu svo galeiðurnar upp á járnrekendur. Þegar er festi og skriðinn tók af þá bað Haraldur alla menn hlaupa fram í. Þá steypti galeið þeirri er Haraldur var á og stökk sú af járnum við riðinn en önnur sprakk er reið á járnunum og týndist þar mart en sumt var tekið af sundi. Með þessu komst Haraldur út af Miklagarði, fór svo inn í Svartahaf.

Og áður en hann sigldi frá landi setti hann upp á land jungfrúna og fékk henni gott föruneyti aftur til Miklagarðs, bað hana þá segja Zóe frændkonu sinni hversu mikið vald hún hafði á Haraldi eða hvort nokkuð hefði drottningar ríki fyrir staðið að hann mætti fá jungfrúna.

Þá sigldi Haraldur norður í Ellipalta, fór þaðan allt um Austurríki.

Í þessum ferðum orti Haraldur gamanvísur og eru saman sextán og eitt niðurlag að öllum. Þessi er ein:

Sneið fyr Sikiley víða
súð. Vorum þá prúðir.
Brýnt skreið, vel til vonar,
vengis hjörtr und drengjum.
Vætti eg minnr að motti
muni enn þinig nenna.
Þó lætr Gerðr í Görðum
gollhrings við mér skolla.

Því veik hann til Ellisifjar dóttur Jarisleifs konungs í Hólmgarði.

16. Frá Haraldi konungi

En er Haraldur kom til Hólmgarðs fagnaði Jarisleifur konungur honum forkunnarvel. Dvaldist hann þar um veturinn, tók þá í sína varðveislu gull það allt er hann hafði þannug áður sent utan af Miklagarði og margs konar dýrgripi. Var það svo mikið fé að engi maður norður í lönd hafði séð slíkt í eins manns eigu.

Haraldur hafði þrem sinnum komið í pólutasvarf meðan hann var í Miklagarði. Það eru þar lög að hvert sinn er Grikkjakonungur deyr þá skulu Væringjar hafa pólutasvarf. Þeir skulu þá ganga um allar pólutir konungs þar sem féhirslur hans eru og skal hver þá eignast að frjálsu er höndum kemur á.

17. Kvonfang Haralds konungs

Þann vetur gifti Jarisleifur konungur dóttur sína Haraldi. Sú hét Elísabet. Þá kalla Norðmenn Ellisif

Þetta tjáir Stúfur blindi:

Mægð gat allvaldr Egða,
ógnar mildr, þá er vildi.
Gulls tók gumna spjalli
gnótt og bragnings dóttur.

En að vori byrjaði hann ferð sína úr Hólmgarði og fór um vorið til Aldeigjuborgar, fékk sér þar skip og sigldi austan um sumarið, sneri fyrst til Svíþjóðar og lagði til Sigtúna.

Svo segir Valgarður á Velli:

Skaustu und farm hinn fríðsta,
frami veitist þér, beiti,
farðir gull úr Görðum
grunlaust, Haraldr, austan.
Stýrðir hvatt í hörðu,
hvardyggr jöfur, glyggvi,
sáttu þá er sjádrif létti,
Sigtún, en skip hnigðu.

18. Félag Haralds konungs og Sveins Úlfssonar

Haraldur fann þar Svein Úlfsson. Það haust hafði hann flúið fyrir Magnúsi konungi við Helganes. En er þeir fundust fagnaði hvor öðrum vel. Ólafur sænski Svíakonungur var móðurfaðir Ellisifjar, konu Haralds, en Ástríður móðir Sveins var systir Ólafs konungs. Gerðu þeir Haraldur og Sveinn félagsskap sinn og bundu einkamálum. Allir Svíar voru vinir Sveins því að hann átti þar hina stærstu ætt í landi. Gerðust þá og allir Svíar vinir Haralds og liðsinnismenn. Var þar mart stórmenni bundið í mægðum við hann.

Svo segir Þjóðólfur:

Reist eikikjölr austan
örðigt vatn úr Görðum.
Svíar tæðu þér síðan,
snjallr landreki, allir.
Gekk með gulli miklu,
glygg féll ótt um tyggja,
höll á hléborð sollin
Haralds skeið und vef breiðum.

19. Hernaður Haralds konungs

Síðan réðu þeir sér til skipa, Haraldur og Sveinn, og dróst þeim brátt her mikill. Og er lið það var búið þá sigla þeir austan til Danmerkur.

Svo segir Valgarður:

Eik slöng und þér, yngvi
ógnblíðr, í haf síðan,
rétt var yðr um ætlað
óðal, frá Svíþjóðu.
Hýnd bar rif, þar er rennduð,
rétt á stag, fyr slétta,
skeið, en skelktu brúðir,
Skáney, Dönum nánar.

Þeir lögðu fyrst herinum til Sjálands og herjuðu þar og brenndu víða þar. Síðan héldu þeir til Fjóns, gengu þar upp og herjuðu.

Svo segir Valgarður:

Haraldr, gerva léstu herjað,
hnyggr þú andskotum, tyggi,
hvatt rann vargr að vitja
valfalls, Selund alla.
Gekk á Fjón, en fékkat,
fjölmennr konungr, sjálfum,
brast ríkula ristin
rít, erfiði lítið.

Brann í bý fyr sunnan
bjartr eldr Hróiskeldu.
Rönn lét ræsir nenninn
reykvell ofan fella.
Lágu landsmenn gnógir.
Ló hel sumum frelsi.
Drósk harmvesalt hyski
hljótt í skóg á flótta.

Dvaldi daprt um skilda,
drifu þeir er eftir lifðu,
ferð, en fengin urðu
fögr sprund, Danir undan.
Lás hélt líki drósar.
Leið fyr yðr til skeiða,
bitu fíkula fjötrar,
fljóð mart, hörund bjartir.

20. Leiðangur Magnúss konungs

Magnús konungur Ólafsson hélt um haustið norður í Noreg eftir Helganessbardaga. Þá spurði hann þau tíðindi að Haraldur Sigurðarson, frændi hans, var kominn til Svíþjóðar og það með að þeir Sveinn Úlfsson höfðu gert félag sitt og höfðu her mikinn úti og ætluðu enn að legga undir sig Danaveldi en síðan Noreg.

Magnús konungur býður leiðangri út úr Noregi og dregst honum brátt her mikill. Hann spurði þá að þeir Haraldur og Sveinn voru komnir til Danmerkur, brenndu þar allt og bældu en landsfólk gekk víða undir þá. Það var og sagt með að Haraldur væri meiri en aðrir menn og sterkari og svo vitur að honum var ekki ófært og hann hafði ávallt sigur er hann barðist. Hann var og svo auðigur að gulli að engi vissi dæmi til.

Svo segir Þjóðólfur.

Nú er valmeiðum víðis,
veit drótt mikinn ótta,
skeiðr hefir her fyr hauðri,
hætt góðs friðar vætta.
Mildr vill Magnús halda
morðs hlunngotum norðan,
ítr, en önnur skreytir
unnvigg Haraldr sunnan.

21. Sættaleitan Magnúss konungs við Harald

Menn Magnúss konungs, þeir er voru í ráðagerð með honum, tala það að þeim þykir í óvænt efni komið er þeir Haraldur frændur skulu berast banaspjót eftir. Bjóðast margir menn til þess að fara og leita um sættir með þeim og af þeim fyrirtölum samþykkist konungur því. Voru þá menn gervir á hleypiskútu og fóru þeir sem skyndilegast suður til Danmerkur, fengu þar til danska menn, þá er fullkomnir voru vinir Magnúss konungs, að bera þetta erindi til Haralds. Þetta mál fór mjög af hljóði.

En er Haraldur heyrði þetta sagt, að Magnús konungur frændi hans mundi bjóða honum sætt og félagsskap og Haraldur mundi hafa skulu hálfan Noreg við Magnús konung en hvor þeirra við annan hálft lausafé beggja þeirra, fóru þessi einkamál þá aftur til Magnúss konungs.

22. Brugðið sætt Haralds og Sveins konungs

Litlu síðar var það að Haraldur og Sveinn töluðu kveld eitt við drykkju. Spurði Sveinn hverja gripi Haraldur hefði, þá er honum væri virkt mest á. Hann svarar svo að það var merki hans, Landeyðan. Þá spurði Sveinn hvað merkinu fylgdi, þess er það var svo mikil gersemi. Haraldur segir að það var mælt að sá mundi hafa sigur er merkið er fyrir borið, segir að svo hafði orðið síðan er hann fékk það.

Sveinn segir: «Þá mun eg trúa að sú náttúra fylgi merkinu ef þú átt þrjár orustur við Magnús konung frænda þinn og hefir þú sigur í öllum.»

Þá segir Haraldur stygglega: «Veit eg frændsemi okkra Magnúss þótt þú minnir mig ekki á það og er eigi fyrir því svo, að við förumst í móti með herskildi að eigi mundu okkrir fundir aðrir vera skaplegri.»

Sveinn brá þá lit við og mælti: «Geta þessa sumir, Haraldur, að þú hafir gert svo fyrr að halda það einu af einkamálum er þér þykir sem þitt mál dragi helst fram.»

Haraldur svarar: «Minni staði muntu á vita að eg hafi eigi haldið einkamálin en eg veit að Magnús konungur muni kalla að þú hafir haldið við hann.»

Gekk þá sína leið hvor þeirra.

Um kveldið er Haraldur gekk til svefns í lyfting á skipi sínu þá mælti hann við skósvein sinn: «Nú mun eg eigi liggja í hvílunni í nótt því að mér er grunur á að eigi muni allt vera svikalaust. Eg fann í kveld að Sveinn mágur minn varð reiður mjög við bermæli mína. Skaltu halda vörð á ef hér verður nokkuð í nótt til tíðinda.»

Gekk þá Haraldur í annan stað að sofa en lagði þar í rúm sitt tréstobba einn.

En um nóttina var róið á báti að lyftingunni og gekk þar maður upp og spretti lyftingartjaldinu, gekk síðan upp hjá og hjó í rúm Haralds með mikilli öxi svo að föst stóð í trénu. Hljóp maður sjá þegar út í bátinn en niðamyrkur var á. Reri hann þegar í brott en öxin var eftir til jartegna. Stóð hún föst í trénu.

Síðan vakti Haraldur upp menn sína og lét þá vita við hver svik þeir voru komnir. «Megum vér það sjá,» segir hann, «að vér höfum hér ekki liðs við Svein þegar er hann slæst á svikræði við oss. Mun sá vera hinn besti kostur að leita á brott héðan meðan kostur er. Leysum vér nú skip vor og róum leynilega í brott.»

Þeir gerðu svo, róa um nóttina norður með landi, fara dag og nótt, þar til er þeir finna Magnús konung þar er hann lá með her sínum. Gekk þá Haraldur á fund Magnúss konungs frænda síns og varð þar fagnafundur svo sem Þjóðólfur segir:

Vatn léstu, vísi, slitna,
víðkunnr, of skör þunnri,
dýr klufu flóð, þar er fóruð,
flaust, í Danmörk austan.
Bauð hálf við sig síðan
sonr Ólafs þér, hála
frændr hykk að þar fyndust
fegnir, lönd og þegna.

Síðan töluðu þeir frændur milli sín. Fór það allt sáttgjarnlega.

23. Magnús konungur gaf Haraldi hálfan Noreg

Magnús konungur lá við land og hafði landtjald á landi uppi. Hann bauð þá Haraldi frænda sínum til borðs síns og gekk Haraldur til veislunnar með sex tigu manna. Var þar allfögur veisla. En er á leið daginn gekk Magnús konungur inn í tjaldið þar sem Haraldur sat. Menn gengu með honum og báru byrðar. Það voru vopn og klæði. Þá gekk konungur að hinum ysta manni og gaf þeim sverð gott, öðrum skjöld, þá klæði eða vopn eða gull, þeim stærra er tignari voru.

Síðast kom hann fyrir Harald frænda sinn og hafði í hendi sér reyrteina tvo og mælti svo: «Hvorn viltu hér þiggja teininn?»

Þá svarar Haraldur: «Þann er nærri er mér.»

Þá mælti Magnús konungur: «Með þessum reyrsprota gef eg yður hálft Noregsveldi með öllum skyldum og sköttum og allri eign er þar liggur til með þeim formála að þú skalt jafnréttur konungur í öllum stöðum í Noregi sem eg. En þá er vér erum allir saman skal eg vera fyrirmaður í heilsan og þjónan og að sæti. Ef þrír eru tignir menn skal eg milli sitja. Eg skal hafa konungslægi og konungsbryggju. Þér skuluð og styðja og styrkja vort ríki í þann stað er vér gerðum yður að þeim manni í Noregi er vér hugðum að engi skyldi verða meðan vor haus væri uppi fyrir ofan mold.»

Þá stóð upp Haraldur og þakkaði honum vel tign og vegsemd. Setjast þá niður báðir og voru allkátir þann dag. Um kveldið gekk Haraldur og hans menn til skips síns.

24. Haraldur konungur veitti Magnúsi konungi hálft gull við sig

Eftir um morguninn lét Magnús konungur blása til þings öllu liðinu. En er þing var sett þá lýsti Magnús konungur fyrir öllum mönnum gjöf þeirri er hann hafði gefið Haraldi frænda sínum. Þórir af Steig gaf Haraldi konungsnafn þar á þinginu.

Þann dag bauð Haraldur konungur Magnúsi konungi til borðs síns og gekk hann um daginn með sex tigu manna til landtjalda Haralds konungs þar sem hann hafði veislu búið. Voru þar þá báðir konungarnir í samsæti og var þar veisla fögur og veitt kappsamlega. Voru konungarnir kátir og glaðir. En er á leið daginn þá lét Haraldur konungur bera í tjaldið töskur mjög margar. Þar báru menn og klæði og vopn og annars konar gripi. Það fé miðlaði hann, gaf hann og skipti með mönnum Magnúss konungs, þeim er þar voru í veislunni.

Síðan lét hann leysa töskurnar, mælti þá til Magnúss konungs: «Þér veittuð oss fyrra dag ríki mikið er þér höfðuð unnið áður af óvinum yðrum og vorum en tókuð oss til samlags við yður. Var það vel gert því að þér hafið mikið til unnið. Nú er hér í annan stað að vér höfum verið útlendis og höfum þó verið í nokkurum mannhættum áður en eg hefi saman komið þessu gulli er þér munuð nú sjá mega. Vil eg þetta leggja til félags við yður. Skulum við eiga lausafé allt jöfnum höndum svo sem við eigum ríki hálft hvor okkar í Noregi. Eg veit að skaplyndi okkað er ólíkt. Ertu maður miklu örvari en eg. Munum við skipta fé þessu með okkur að jafnaði. Fer þá hvor með sinn hlut sem vill.»

Síðan lét Haraldur breiða niður nautshúð mikla og steypa þar á gullinu úr töskunum. Síðan voru skálir teknar og met og reitt í sundur féið, skipt öllu með vogum og þótti öllum mönnum er sáu mikil furða er í Norðurlöndum skyldi vera svo mikið gull saman komið í einn stað. Þetta var þó raundar Grikkjakonungs eiga og auður, sem allir menn segja að þar sé rautt gull húsum fullum. Konungarnir voru þá allkátir. Þá kom upp staup eitt. Það var svo mikið sem mannshöfuð.

Tók Haraldur konungur upp staupið og mælti: «Hvar er nú það gull Magnús frændi er þú leiðir í móti þessum knapphöfða?»

Þá svarar Magnús konungur: «Svo hefir gefist ófriður og stórir leiðangrar að nálega allt gull og silfur er upp gengið, það er í minni varðveislu er. Nú er eigi meira gull en hringur þessi í minni eign,» tók hringinn og seldi Haraldi.

Hann leit á og mælti: «Það er lítið gull frændi þeim konungi er tveggja konunga ríki á en þó munu sumir ifa um hvort þú átt þenna hring.»

Þá svaraði Magnús konungur áhyggjusamlega: «Ef eg á eigi þenna hring að réttu þá veit eg eigi hvað eg hefi rétt fengið, því að Ólafur konungur hinn helgi faðir minn gaf mér þenna hring á hinum efsta skilnaði.»

Þá svarar Haraldur konungur hlæjandi: «Satt segir þú Magnús konungur. Faðir þinn gaf þér hringinn. Þann hring tók hann af föður mínum fyrir ekki mikla sök. Er það og satt að þá var ekki gott smákonungum í Noregi er faðir þinn var sem ríkastur.»

Haraldur konungur gaf Steigar-Þóri þar að veislunni mösurbolla. Hann var gyrður með silfri og silfurhadda yfir og gyllt hvorttveggja og fullur upp af skírum silfurpeningum. Þar fylgdu og tveir gullhringar og stóðu mörk báðir saman. Hann gaf honum og skikkju sína, það var brúnn purpuri, hvít skinn með, og hét honum miklum metnaði og vináttu sinni.

Þorgils Snorrason sagði svo að hann sá altarisklæðið það er gert var úr möttlinum, en Guðríður dóttir Guttorms Steigar-Þórissonar sagði að hún kvað Guttorm föður sinn eiga bollann svo að hún sá.

Svo segir Bölverkur:

Heimil varð, er eg heyrði,
hoddstríðir, síðan,
græn, en gull bauðst honum,
grund, er Magnús funduð.
Endist ykkar frænda
allfriðlega á miðli
sætt en síðan vætti
Sveinn rómöldu einnar.

25. Frá Magnúsi konungi

Magnús konungur og Haraldur konungur réðu báðir Noregi hinn næsta vetur eftir sætt þeirra og hafði sína hirð hvor þeirra. Þeir fóru um veturinn um Upplönd að veislum og voru stundum báðir samt en stundum sér hvor þeirra. Þeir fóru allt norður til Þrándheims og til Niðaróss.

Magnús konungur hafði varðveitt helgan dóm Ólafs konungs síðan er hann kom í land, klippti hár hans og negl á hverjum tólf mánuðum og hafði sjálfur lykil þann er skrínið mátti upp lúka með. Urðu þá margs konar jartegnir að helgum dómi Ólafs konungs.

Brátt gerðust greinir í um samþykki konunganna og voru margir svo illgjarnir að þeirra gengu svo illa í milli.

26. Frá Sveini Úlfssyni konungi

Sveinn Úlfsson lá eftir í svefni þá er Haraldur hafði brott farið. Síðan leiddi Sveinn að spurningum um farar Haralds.

En er hann spurði að Haraldur og Magnús höfðu sæst og þeir höfðu þá einn her báðir þá hélt hann liði sínu austur fyrir Skáneyjarsíðu og dvaldist þar til þess er hann spurði um veturinn að Magnús og Haraldur höfðu norður haldið liði sínu til Noregs. Síðan hélt Sveinn sínu liði suður til Danmerkur og tók hann þar allar konungstekjur þann vetur.

27. Um konungslægi

En er vora tók buðu þeir út leiðangri úr Noregi Magnús konungur og Haraldur konungur.

Það bar að eitt sinn að Magnús konungur og Haraldur konungur lágu um nótt í einni höfn. En um daginn eftir var Haraldur fyrri búinn og sigldi hann þegar. En að kveldi lagði hann til hafnar þar sem þeir Magnús konungur höfðu ætlað að vera þá nótt. Haraldur lagði sínu skipi í konungslægi og tjaldaði þar. Magnús konungur sigldi síðar um daginn og komu þeir svo til hafnar að þeir Haraldur höfðu tjaldað áður. Sjá þeir að Haraldur hafði lagið í konungslægi og hann ætlaði þar að liggja.

En er þeir Magnús konungur höfðu hlaðið seglum sínum þá mælti Magnús konungur: «Greiði menn nú róðurinn og setjist með endilöngum borðum, sumir brjóti upp vopn sín og vopnist. En með því að þeir vilja eigi brott leggja þá skulum vér berjast.»

En er Haraldur konungur sér að Magnús konungur ætlaði að leggja til orustu við þá, þá mælti hann við sína menn: «Höggvið þér festarnar og látið slá skipunum úr lægi. Reiður er Magnús frændi.»

Svo gerðu þeir, þeir lögðu skipum úr læginu. Magnús konungur leggur sínum skipum í lægið.

Þá er hvorirtveggju höfðu um búist gekk Haraldur konungur með nokkura menn á skip Magnúss konungs. Konungur fagnaði honum vel, bað hann velkominn.

Þá svarar Haraldur konungur: «Það hugði eg að vér værum með vinum komnir en nokkuð grunaði mig um hríð hvort þér munduð svo vilja vera láta. En það er satt er mælt er að bernska er bráðgeð. Vil eg virða eigi á aðra lund en þetta væri æskubragð.»

Þá segir Magnús konungur: «Það var ættarbragð en eigi æsku þótt eg mætti muna hvað eg gaf eða hvað eg varnaði. Ef þessi litli hlutur væri nú tekinn fyrir vort ráð þá mundi brátt vera annar. En alla sætt viljum vér halda, þá er ger er, en það sama viljum vér af yður hafa sem vér eigum skilt.»

Þá svaraði Haraldur konungur: «Það er og forn siður að hinn vitrari vægi,» gekk þá aftur á skip sitt.

Í þvílíkum viðskiptum konunganna fannst það að vant var að gæta til. Töldu menn Magnúss konungs að hann hefði rétt að mæla en þeir er óvitrir voru töldu það að Haraldur væri nokkuð svívirður. En Haralds konungs menn sögðu það að eigi væri á aðra lund skilt en Magnús konungur skyldi lægi hafa ef þeir kæmu jafnsnemma en Haraldur væri eigi skyldur að leggja úr læginu ef hann lægi fyrir, töldu hafa Harald gert viturlega og vel. En þeir er verr vildu um ræða töldu að Magnús konungur vildi rjúfa sætt og töldu að hann hefði gert rangt og ósæmd Haraldi konungi.

Við slíkar greinir gerðist brátt umræða óvitra manna til þess að konungum varð sundurþykki að. Mart fannst þá til þess er konungunum þótti sinn veg hvorum þótt hér sé fátt ritað.

28. Andlát Magnúss konungs góða

Magnús konungur og Haraldur konungur héldu her þeim suður til Danmerkur. En er Sveinn spurði það þá flýði hann undan austur á Skáni. Þeir Magnús konungur og Haraldur konungur dvöldust lengi um sumarið í Danmörk, lögðu þá land allt undir sig. Þeir voru á Jótlandi um haustið.

Það var eina nótt þá er Magnús konungur lá í hvílu sinni að hann dreymdi og þóttist staddur þar sem var faðir hans, hinn helgi Ólafur konungur, og þótti hann mæla við sig: «Hvorn kost viltu sonur minn, að fara nú með mér eða verða allra konunga ríkastur og lifa lengi og gera þann glæp er þú fáir annaðhvort bætt trautt eða eigi?»

En hann þóttist svara: «Eg vil að þú kjósir fyrir mína hönd.»

Þá þótti honum konungurinn svara: «Þá skaltu með mér fara.»

Magnús konungur segir draum þenna mönnum sínum.

En litlu síðar fékk hann sótt og lá þar sem heitir Súðaþorp. En er hann var nær kominn bana þá sendi hann Þóri bróður sinn til Sveins Úlfssonar að hann skyldi veita hjálp Þóri, þá sem hann þyrfti. Það fylgdi orðsendingunni að Magnús konungur gaf Sveini Danaveldi eftir sinn dag, segir að það var maklegt að Haraldur réði fyrir Noregi en Sveinn fyrir Danmörku. Síðan andaðist Magnús konungur góði og var hann allmjög harmdauði allri alþýðu.

Svo segir Oddur Kíkinaskáld:

Felldu menn þá er mildan
mörg tár í gröf báru,
þung byrðr var sú, þengil,
þeim er hann gaf seima.
Deildist hugr svo að héldu
húskarlar grams varla,
siklings þjóð en síðan
sat oft hnipin, vatni.

29. Líkferð Magnúss konungs

Eftir þessi tíðindi hafði Haraldur konungur þing við liðið, segir mönnum ætlan sína að hann vill fara með herinum til Vébjargaþings og láta sig taka til konungs yfir Danaveldi, vinna síðan landið, telur það jafnvel sína erfð sem Noregsveldi eftir Magnús frænda sinn, biður þá liðið efla sig, lætur þá munu Norðmenn vera allan aldur yfirmenn Dana.

Þá svarar Einar þambarskelfir, lét sér vera skyldra að flytja Magnús konung fóstra sinn til graftar og færa hann föður sínum, Ólafi konungi, en berjast útlendis eða girnast annars konungs veldi og eign, lýkur svo málinu að betra þótti honum að fylgja Magnúsi konungi dauðum en hverjum annarra konunga lifanda, lét síðan taka líkið og búa um veglega svo að sjá mátti umbúnaðinn á konungsskipið. Þá bjuggust allir Þrændir og Norðmenn til heimfarar með líki Magnúss konungs og raufst leiðangurinn.

Sér þá Haraldur konungur þann kost hinn besta að fara aftur til Noregs og eignast fyrst það veldi og eflast þaðan að liði. Fór nú Haraldur konungur aftur með öllu liðinu í Noreg. En þegar er hann kom til Noregs þá átti hann þing við landsmenn og lét taka sig til konungs um allt land. Fór hann svo allt austan um Víkina að hann var til konungs tekinn í hverju fylki í Noregi.

30. Frá Magnúsi konungi

Einar þambarskelfir fór með líki Magnúss konungs og með honum allur Þrændaher og fluttu til Niðaróss og var hann þar jarðaður að Klemenskirkju. Þar var þá skrín hins helga Ólafs konungs.

Magnús konungur hafði verið meðalmaður á vöxt, réttleitur, ljósleitur og ljós á hár, snjallmæltur og skjótráður, skörunglyndur, hinn mildasti af fé, hermaður mikill og hinn vopndjarfasti. Allra konunga var hann vinsælstur. Bæði lofuðu hann vinir og óvinir.

31. Frá Sveini konungi Úlfssyni

Sveinn Úlfsson var það haust staddur á Skáni og byrjaði ferð sína austur í Svíaveldi og ætlaði að gefa upp tignarnafn það er hann hafði tekið í Danmörk. En er hann var kominn til hests síns þá riðu þar til hans menn nokkurir og sögðu honum tíðindin, þau hin fyrstu að andaður er Magnús konungur Ólafsson og það með að allur Norðmannaher var í brott farinn úr Danmörk.

Sveinn svarar því skjótt og mælti: «Því skýt eg til guðs að aldrei síðan skal eg flýja Danaveldi meðan eg lifi.»

Stígur hann þá á hest sinn og ríður þá suður á Skáni. Dreif þá þegar mikið lið til hans. Þann vetur lagði hann undir sig allt Danaveldi. Tóku þá allir Danir hann til konungs.

Þórir bróðir Magnúss konungs kom til Sveins um haustið með orðsendingum Magnúss konungs svo sem fyrr var ritað. Tók Sveinn vel við honum og var Þórir lengi með honum síðan í góðu yfirlæti.

32. Af Haraldi konungi Sigurðarsyni

Haraldur konungur Sigurðarson tók konungdóm yfir öllum Noregi eftir andlát Magnúss konungs Ólafssonar. En er hann hafði ráðið Noregi einn vetur og er að vori kom þá bauð hann leiðangri út af öllu landi, hálfum almenningi að liði og skipum, og hélt suður til Jótlands. Hann herjaði um sumarið víða og brenndi og lagði í Goðnarfjörð.

Þá orti Haraldur konungur þetta:

Látum vér, meðan lirlar
líneik veri sínum,
Gerðr, í Goðnarfirði,
galdrs, akkeri halda.

Þá mælti hann til Þjóðólfs skálds, bað hann þar við yrkja.

Hann kvað:

Sumar annað skal sunnar,
segi eg eina spá, fleini,
vér aukum kaf króki,
kaldnefr furu halda.

Til þess vísar Bölverkur í sinni drápu að Haraldur fór hið næsta sumar eftir andlát Magnúss konungs til Danmerkur:

Leiðangr bjóstu af láði,
lögr gekk um skip, fögru,
gjálfrstóðum reistu græði
glæstum, ár hið næsta.
Skokkr lá dýr á dökkri,
Danir váru þá, báru,
skeiðr sá her fyr hauðri
hlaðnar, illa staðnir.

Þá brenndu þeir bæ Þorkels geysu. Hann var höfðingi mikill. Voru þá leiddar dætur hans bundnar til skipa. Þær höfðu gert spott mikið áður um veturinn, um það að Haraldur konungur mundi fara til Danmerkur með herskipum. Þær skáru úr osti akkeri og sögðu að slík mundu vel mega halda skipum Noregskonungs.

Þá var þetta kveðið:

Skáru jast úr osti
eybaugs Dana meyjar,
það angraði þengil,
þing, akkerishringa.
Nú sér mörg í morgun
mær, hlær að því færi,
ernan krók úr járni
allvalds skipum halda.

Svo segja menn að njósnarmaður mælti, sá er séð hafði flota Haralds konungs, við dætur Þorkels geysu: «Það sögðuð þér Geysudætur að Haraldur mundi eigi koma til Danmarkar.»

Dótta svaraði: «Svo var í gjárna.»

Þorkell leysti út dætur sínar með ógrynni fjár.

Svo segir Grani:

Lét aldregi úti
ósvífr Kraka drífu
Hlökk í harða þjokkum
Hornskógi brá þorna.
Fila drottinn rak flótta
fjanda grams til strandar.
Auð varð út að reiða
allskjótt faðir Dóttu.

Haraldur konungur herjaði allt þetta sumar Danaveldi og fékk ógrynni fjár en ekki varð hann ílendur á því sumri í Danmörk, fór aftur um haustið til Noregs og var þar um veturinn.

33. Kvonfang Haralds konungs hins harðráða

Haraldur konungur fékk Þóru dóttur Þorbergs Árnasonar hinn næsta vetur eftir en Magnús konungur hinn góði andaðist. Þau áttu tvo sonu. Hét hinn eldri Magnús en annar Ólafur. Haraldur konungur og Ellisif drottning áttu dætur tvær. Hét önnur María en önnur Ingigerður.

En hið næsta vor eftir þessa herför, er nú var áður frá sagt, bauð Haraldur konungur liði út og fór um sumarið til Danmerkur og herjaði og síðan hvert sumar eftir annað.

Svo segir Stúfur skáld:

Autt varð Falstr að fréttum.
Fékk drótt mikinn ótta
gæddr var hrafn, en hræddir
hvert ár Danir váru.

34. Um hertilbúnað Sveins Úlfssonar og Haralds konungs

Sveinn konungur réð fyrir öllu Danaveldi síðan er Magnús konungur andaðist. Hann sat um kyrrt á vetrum en lá úti með almenning á sumrum og heitaðist að fara norður í Noreg með Danaher og gera þar eigi minna illt en Haraldur konungur gerði í Danaveldi. Sveinn konungur bauð Haraldi konungi um veturinn að þeir skyldu finnast um sumarið eftir í Elfinni og berjast þar til þrautar eða sættast ella. Þá tóku hvorirtveggju allan veturinn að búa skip sín og hafa úti hálfan almenning báðir eftir um sumarið.

Það sumar kom utan af Íslandi Þorleikur fagri og tók að yrkja flokk um Svein konung Úlfsson. Hann spurði þá er hann kom norður í Noreg að Haraldur konungur var farinn suður til Elfar móti Sveini konungi.

Þá kvað Þorleikur þetta:

Von er að vísa kænan
vígs á Rakna stígu
ört í odda snertu
Innþrænda lið finni.
Þar má enn hvor annan
öndu nemr eða löndum,
lítt hyggr Sveinn á sáttir
sjaldfestar, guð valda.

Og enn kvað hann þetta:

Færir reiðr, sá er rauða
rönd hefir oft fyr landi,
breið á Buðla slóðir
borðraukn Haraldr norðan,
en lauks um sjá sækja
Sveins fagrdrifin steini
glæsidýr, þess er geira,
gullmunnuð, rýðr, sunnan.

Haraldur konungur kom til ákveðinnar stefnu með her sinn. Þá spurði hann að Sveinn konungur lá suður við Sjáland með flota sínum. Þá skipti Haraldur konungur liði sínu, lét aftur fara flestan bóndaherinn. Hann fór með hirð sinni og lendum mönnum og vildarliðinu og það allt af bóndaliðinu er næst var Dönum. Þeir fóru suður til Jótlands fyrir sunnan Vendilskaga, svo suður um Þjóðu, fóru þar allt herskildi.

Svo segir Stúfur skáld:

Flýðu þeir á Þjóðu
þengils fund af stundu.
Stórt réð hugprútt hjarta.
Haralds önd ofar löndum.

Allt fóru þeir suður til Heiðabýjar, tóku kaupstaðinn og brenndu.

Þá ortu menn Haralds konungs þetta:

Brenndr var upp með endum
allr, en það má kalla
hraustlegt bragð, er eg hugði,
Heiðabær af reiði.
Von er að vinnum Sveini,
vask í nótt fyr óttu,
gaus hár logi úr húsum,
harm, á borgararmi.

Þessa getur Þorleikur og í sínum flokki þá er hann hafði spurt að engi hafði tekist orusta við Elfina:

Hve hefir til Heiðabæjar
heiftgjarn konungr árnað,
fólk-Rögnir getr fregna
fylkis sveit, hinn er veitat,
þá er til þengils býjar
þarflaust Haraldr austan
ár það er án um væri,
endr byrskíðum renndi.

35. Undanferð Haralds konungs á Jótlandshafi

Þá fór Haraldur norður og hafði sex tigu skipa og voru flest stór og hlaðin mjög af herfangi er þeir höfðu tekið um sumarið. En er þeir komu norður fyrir Þjóðu þá kom Sveinn konungur ofan af landi með her mikinn. Hann bauð þá Haraldi konungi að berjast og ganga á land. Haraldur konungur hafði lið meir en hálfu minna. Hann bauð þó Sveini konungi að berjast á skipum við sig.

Svo segir Þorleikur fagri:

Bauð, sá er bestrar tíðar
borinn varð und Miðgarði,
ríkri þjóð að rjóða
randir, Sveinn, á landi.
Þó lést heldr, ef héldi
hvatráðr konungr láði,
á byrjar val berjast
bilstyggr Haraldr vilja.

Eftir þetta sigldi Haraldur norður fyrir Vendilskaga. Bægði þeim þá veður og lögðu undir Hlésey og lágu þar um nótt. Þá gerði mjörkva sælægjan. En er morgnaði og sól rann upp þá sáu þeir annan veg á hafið sem eldar nokkurir brynnu. Þá var það sagt Haraldi konungi.

Þá sá hann og mælti þegar: «Láti tjöld af skipunum og taki menn róður. Danaher mun kominn að oss. Mun hroðið myrkvanum þar sem þeir eru. Mun sól skína á drekahöfuð þeirra, þau er gulllögð eru.»

Svo var sem Haraldur sagði.

Þar var þá kominn Sveinn Danakonungur með óvígjan her. Reru þá hvorirtveggju sem mest máttu. Danir höfðu skip árfljótari en Norðmanna skip voru bæði sollin og sett mjög. Dró þá saman með þeim. Þá sá Haraldur að eigi mundi hlýða svo búið. Dreki Haralds konungs fór síðast allra skipa hans.

Þá mælti Haraldur konungur að kasta skyldi fyrir borð viðum og láta á koma klæði og gripi góða. Logn var svo mikið að þetta hóf fyrir straumi. En er Danir sáu fé sitt reka á hafinu þá viku þeir þar til er fyrstir fóru, þótti þetta dælla að taka er laust flaut en sækja inn um borð að Norðmönnum. Dvaldist þá eftirróðurinn. En er Sveinn konungur kom eftir þeim með sitt skip eggjaði hann og kvað skömm mikla vera, svo mikinn her sem þeir höfðu, er þeir skyldu eigi fá tekið þá er þeir höfðu lítið lið og eiga vald þeirra. Þá tóku Danir og hertu róðurinn í annað sinn.

En er Haraldur konungur sá að meira gengu skip Dana þá bað hann sína menn létta skipin og bera fyrir borð malt og hveiti og flesk og höggva niður drykk sinn. Stóð þá við um hríð. Þá lét Haraldur konungur taka víggyrðla og verpla og tunnur er tómar voru og kasta fyrir borð og þar með herteknum mönnum. En er það rak allt saman á sjánum þá bað Sveinn konungur hjálpa mönnum og var svo gert. Í þeirri dvöl dró sundur með þeim. Sneru þá Danir aftur en Noregsmenn fóru leið sína.

Svo segir Þorleikur fagri:

Allt um frá eg hve elti
Austmenn á veg flausta
Sveinn, en siklingr annar
snarlundaðr hélt undan.
Fengr varð Þrænda þengils,
þeir létu skip fleiri,
allr á éli sollnu
Jótlandshafi fljóta.

Sveinn konungur veik aftur flotanum undir Hlésey, hitti þar sjö skip af Norðmönnum. Það var leiðangurslið og bændur einir. En er Sveinn konungur kom að þeim þá báðu þeir sér griða og buðu fé fyrir sig.

Svo segir Þorleikur fagri:

Sætt buðu seggja drottni
siklings vinir mikla.
Svöfðu hjaldr þeir er höfðu
hugstinnir lið minna.
Og snarráðir síðan
sókn, er orðum tókust,
önd var ýta kindum
óföl, bændr dvöldu.

36. Frá Haraldi konungi

Haraldur konungur var maður ríkur og stjórnsamur innanlands, spekingur mikill að viti svo að það er alþýðu mál að engi höfðingi hafi sá verið á Norðurlöndum er jafndjúpvitur hafi verið sem Haraldur eða ráðsnjallur. Hann var orustumaður mikill og hinn vopndjarfasti. Hann var sterkur og vopnfær betur en hver maður annarra svo sem fyrr er ritað.

En þó er miklu fleira óritað hans frægðarverka. Kemur til þess ófræði vor og það annað að vér viljum eigi setja á bækur vitnislausar sögur. Þótt vér höfum heyrt ræður eða getið fleiri hluta þá þykir oss héðan í frá betra að við sé aukið en þetta sama þurfi úr að taka. Er saga mikil frá Haraldi konungi sett í kvæði þau er íslenskir menn færðu honum sjálfum eða sonum hans. Var hann fyrir þá sök vinur þeirra mikill. Hann var og hinn mesti vinur hingað til allra landsmanna. Og þá er var mikið hallæri á Íslandi þá leyfði Haraldur konungur fjórum skipum mjölleyfi til Íslands og kvað á að ekki skippund skyldi vera dýrra en fyrir hundrað vaðmála. Hann leyfði utanferð öllum fátækum mönnum þeim er sér fengju vistir um haf. Og þaðan af nærðist land þetta til árferðar og batnaðar. Haraldur konungur sendi út hingað klukku til kirkju þeirrar er hinn helgi Ólafur konungur sendi við til, er sett var á alþingi. Þvílík minni hafa menn hingað Haralds konungs og mörg önnur í stórgjöfum er hann veitti þeim mönnum er hann sóttu heim.

Halldór Snorrason og Úlfur Óspaksson, þeir er fyrr var getið, komu í Noreg með Haraldi konungi. Þeim var ólíkt farið að mörgu. Halldór var manna mestur og sterkastur og hinn fríðasti. Það vitni bar Haraldur konungur honum að hann hafi verið þeirra manna með honum er síst brygði við voveiflega hluti. Hvort er það var mannháski eða fagnaðartíðindi eða hvað sem að hendi kom í háska þá var hann eigi glaðari og eigi óglaðari, eigi svaf hann meira né minna eða drakk eða neytti matar en svo sem vandi hans var til. Halldór var maður fámæltur og stirðorður, bermæltur og stríðlundaður og ómjúkur en það kom illa þá við konung er hann hafði gnóga aðra með sér göfga menn og þjónustufulla. Dvaldist Halldór litla hríð með konungi. Fór hann til Íslands, gerði þar bú í Hjarðarholti, bjó þar til elli og varð gamall.

37. Frá Úlfi Óspakssyni stallara

Úlfur Óspaksson var með Haraldi konungi í miklum kærleikum. Hann var hinn vitrasti maður, snjallur í máli, skörungur mikill, tryggur og einfaldur. Haraldur konungur gerði Úlf stallara sinn og gifti honum Jórunni Þorbergsdóttur, systur Þóru er Haraldur konungur átti. Börn Úlfs og Jórunnar voru þau Jón sterki á Rásvelli og Brígiða, móðir Sauða-Úlfs, föður Péturs byrðarsveins, föður þeirra Úlfs flýs. Sonur Jóns sterka var Erlendur hímaldi, faðir Eysteins erkibiskups og bræðra hans.

Haraldur konungur gaf Úlfi stallara lends manns rétt og tólf marka veislur og umfram hálft fylki í Þrándheimi. Svo segir Steinn Herdísarson í Úlfsflokki.

38. Frá Magnúsi konungi góða

Magnús konungur Ólafsson lét gera Ólafskirkju í Kaupangi. Í þeim stað hafði náttsætt verið lík konungs. Það var þá fyrir ofan bæinn. Hann lét þar og reisa konungsgarðinn. Kirkjan varð eigi alger áður konungur andaðist. Lét Haraldur konungur fylla það er á skorti. Hann lét og efna þar í garðinum að gera sér steinhöll og varð hún eigi alger áður hann lést. Haraldur konungur lét reisa af grundvelli Maríukirkju uppi á melinum, nær því er heilagur dómur konungsins lá í jörðu hinn fyrsta vetur eftir fall hans. Það var mikið musteri og gert sterklega að líminu svo að varla fékk brotið þá er Eysteinn erkibiskup lét ofan taka. Heilagur dómur Ólafs konungs var varðveittur í Ólafskirkju meðan Maríukirkja var í gerð. Haraldur konungur lét húsa konungsgarð ofan frá Maríukirkju við ána þar sem nú er. En þar sem hann hafði höllina látið gera lét hann vígja hús það til Gregoríuskirkju.

39. Upphaf Hákonar Ívarssonar

Ívar hvíti er maður nefndur er var lendur maður göfugur. Hann átti bú á Upplöndum. Hann var dótturson Hákonar jarls hins ríka. Ívar var allra manna fríðastur sýnum. Son Ívars hét Hákon. Frá honum er svo sagt að hann var umfram alla menn þá er í þann tíma voru í Noregi að fræknleik og afli og atgervi. Hann var þegar á unga aldri í herförum og aflaði sér þar mikillar fremdar og gerðist Hákon hinn ágætasti maður.

40. Frá Einari þambarskelfi

Einar þambarskelfir var ríkastur lendra manna í Þrándheimi. Heldur var fátt um með þeim Haraldi konungi. Hafði Einar þó veislur sínar, þær sem hann hafði haft meðan Magnús konungur lifði. Einar var mjög stórauðigur. Hann átti Bergljótu dóttur Hákonar jarls sem fyrr var ritað. Eindriði var þá alroskinn sonur þeirra. Hann átti þá Sigríði dóttur Ketils kálfs og Gunnhildar systurdóttur Haralds konungs. Eindriði hafði fríðleik og fegurð af móðurfrændum sínum, Hákoni jarli eða sonum hans, en vöxt og afl hafði hann af föður sínum, Einari, og alla þá atgervi er Einar hafði umfram aðra menn. Hann var hinn vinsælsti maður.

41. Frá Ormi jarli

Ormur hét þá jarl á Upplöndum. Móðir hans var Ragnhildur dóttir Hákonar jarls hins ríka. Ormur var hinn mesti ágætismaður.

Þá var á Jaðri austur á Sóla Áslákur Erlingsson. Hann átti Sigríði dóttur Sveins jarls Hákonarsonar. Gunnhildi, aðra dóttur Sveins jarls, átti Sveinn Úlfsson Danakonungur. Slíkt var afkvæmi Hákonar jarls þá í Noregi og mart annað göfugra manna og var ætt sú öll miklu fríðari en annað mannfólk og flest atgervimenn miklir en allt göfugmenni.

42. Frá Haraldi konungi

Haraldur konungur var ríklundaður og óx það sem hann festist í landinu og kom svo að flestum mönnum dugði illa að mæla í móti honum eða draga fram annað mál en hann vildi vera láta.

Svo segir Þjóðólfur skáld:

Gegn skuli her sem hugnar
hjaldrvitjaðar sitja
dólgstæranda dýrum
drottinvandr og standa.
Lýtr fólkstara feiti,
fátt er til nema játta
þat, sem þá vill gotnum,
þjóð öll, konungr bjóða.

43. Frá Einari þambarskelfi

Einar þambarskelfir var mest forstjóri fyrir bóndum allt um Þrándheim. Hélt hann upp svörum fyrir þá á þingum er konungsmenn sóttu. Einar kunni vel til laga. Skorti hann eigi dirfð til að flytja það fram á þingum þó að sjálfur konungur væri við. Veittu honum lið allir bændur. Konungur reiddist því mjög og kom svo að lyktum að þeir þreyttu kappmæli með sér. Sagði Einar að bændur vildu eigi þola honum ólög ef hann bryti landsrétt á þeim. Og fór svo nokkurum sinnum milli þeirra. Þá tók Einar að hafa fjölmenni um sig heima en þó miklu fleira þá er hann fór til býjar, svo að konungur var þar fyrir.

Það var eitt sinn að Einar fór inn til býjar og hafði lið mikið, langskip átta eða níu og nær fimm hundruðum manna. En er hann kom til bæjar gekk hann upp með lið það.

Haraldur konungur var í garði sínum og stóð úti í loftsvölum og sá er lið Einars gekk af skipum og segja menn að Haraldur kvað þá:

Hér sé eg upp hinn örva
Einar, þann er kann skeina
þjálma, þambarskelmi,
þangs, fjölmennan ganga.
Fullafli bíðr fyllar,
finn eg oft að drífr minna,
hilmis stóls, á hæla
húskarlalið jarli.

Rjóðandi mun ráða
randa bliks úr landi
oss nema Einar kyssi
öxar munn hinn þunna.

Einar dvaldist í býnum nokkura daga.

44. Fall Einars og Eindriða

Einn dag var átt mót og var konungur sjálfur á mótinu. Hafði verið tekinn í býnum þjófur einn og var hafður á mótinu. Maðurinn hafði verið fyrr með Einari og hafði honum vel getist að manninum. Var Einari sagt. Þá þóttist hann vita að konungur mundi eigi manninn láta undan ganga fyrir því að heldur, þótt Einari þætti það máli skipta. Lét þá Einar vopnast lið sitt og ganga síðan á mótið. Tekur Einar manninn af mótinu með valdi.

Eftir þetta gengu að beggja vinir og báru sáttmál milli þeirra. Kom þá svo að stefnulagi var á komið. Skyldu þeir hittast sjálfir. Málstofa var í konungsgarði við ána niðri. Gekk konungur í stofuna við fá menn en annað lið hans var úti í garðinum. Konungur lét snúa fjöl yfir ljórann og var lítið opið á. Þá kom Einar í garðinn með sitt lið.

Hann mælti við Eindriða son sinn: «Ver þú með liðinu úti. Við engu mun mér þá hætt.»

Eindriði stóð úti við stofudyrin.

En er Einar kom inn í stofuna mælti hann: «Myrkt er í málstofu konungsins.»

Jafnskjótt hljópu menn að honum og lögðu sumir en sumir hjuggu. En er Eindriði heyrði það brá hann sverðinu og hljóp inn í stofuna. Var hann þegar felldur og báðir þeir. Þá hljópu konungsmenn að stofunni og fyrir dyrin en bóndum féllust hendur því að þeir höfðu þá engan forgöngumann. Eggjaði hver annan, segja að skömm var er þeir skyldu eigi hefna höfðingja síns en þó varð ekki af atgöngunni. Konungur gekk út til liðs síns og skaut á fylking og setti upp merki sitt en engi varð atganga búandanna. Þá gekk konungur út á skip sitt og allt lið hans, reri síðan út eftir ánni og svo út á fjörð leið sína.

Bergljót kona Einars spurði fall hans. Var hún þá í herbergi því er þau Einar höfðu áður haft út í bænum. Gekk hún þegar upp í konungsgarð þar sem bóndaliðið var. Hún eggjaði þá mjög til orustu en í því bili reri konungur út eftir ánni.

Þá mælti Bergljót: «Missum vér nú Hákonar Ívarssonar frænda míns. Eigi mundu banamenn Eindriða róa hér út eftir ánni ef Hákon stæði hér á árbakkanum.»

Síðan lét Bergljót búa um lík þeirra Einars og Eindriða. Voru þeir jarðaðir að Ólafskirkju hjá leiði Magnúss konungs Ólafssonar.

Eftir fall Einars var Haraldur konungur svo mjög óþokkaður af verki þessu, að það eina skorti á er lendir menn og bændur veittu eigi atferð og héldu bardaga við hann, að engi varð forgöngumaður til að reisa merki fyrir búandaherinum.

45. Frá Haraldi konungi og Finni Árnasyni

Finnur Árnason bjó þá á Yrjum á Austurátt. Hann var þá lendur maður Haralds konungs. Finnur átti Bergljótu dóttur Hálfdanar Sigurðarsonar sýrs. Hálfdan var bróðir Ólafs konungs hins helga og Haralds konungs. Þóra kona Haralds konungs var bróðurdóttir Finns Árnasonar. Var Finnur hinn kærsti konungi og allir þeir bræður. Finnur Árnason hafði verið nokkur sumur í vesturvíking. Höfðu þeir þá verið allir saman í hernaði Finnur og Guttormur Gunnhildarson og Hákon Ívarsson.

Haraldur konungur fór út eftir Þrándheimi og út á Austurátt. Var honum þar vel fagnað. Síðan töluðust þeir við konungur og Finnur og ræddu sín á milli um þessi tíðindi er þá höfðu gerst fyrir skemmstu, aftöku Einars og þeirra feðga og svo kurr þann og þys er Þrændir gerðu að konungi.

Finnur svarar skjótt: «Þér er verst farið að hvívetna. Þú gerir hvaðvetna illt en síðan ertu svo hræddur að þú veist eigi hvar þú hefir þig.»

Konungur svarar hlæjandi: «Mágur, eg vil nú senda þig inn til býjar. Eg vil að þú sættir bændur við mig. Vil eg ef það gengur eigi að þú farir til Upplanda og komir því við Hákon Ívarsson að hann sé eigi mótgöngumaður minn.»

Finnur svarar: «Hvað skaltu til leggja við mig ef eg fer forsendu þessa því að bæði Þrændir og Upplendingar eru fjandur þínir svo miklir að engum sendimönnum þínum er fært þannug nema sín njóti við.»

Konungur svarar: «Far þú mágur sendiförina því að eg veit að þú kemur áleiðis ef nokkur kemur að gera oss sátta og kjós þú bæn að oss.»

Finnur segir: «Halt þú þá orð þín en eg mun kjósa bænina. Eg kýs grið og landsvist Kálfi bróður mínum og eignir hans allar og það með að hann hafi nafnbætur sínar og allt ríki sitt, slíkt sem hann hafði áður hann fór úr landi.»

Konungur sagði og játti öllu þessu er Finnur mælti, höfðu að þessu vitni og handfestar.

Síðan mælti Finnur: «Hvað skal eg Hákoni fram bjóða til þess að hann játti þér griðum? Hann ræður nú mest fyrir þeim Þrændum.»

Konungur segir: «Hitt skaltu fyrst heyra hvað Hákon mælir til sættar fyrir sína hönd. Síðan kom þú mínu máli sem framast máttu en að lyktum þá neitaðu konungdóminum einum.»

Síðan fór Haraldur konungur suður á Mæri og dró að sér lið og gerðist fjölmennur.

46. Ferð Finns Árnasonar

Finnur Árnason fór inn til bæjar og hafði með sér húskarla sína, nær átta tigum manna. En er hann kom inn til býjarins þá átti hann þing við býjarmenn. Finnur talaði á þinginu langt og snjallt, bað býjarmenn og bændur taka allt annað ráð en hatast við konung sinn eða reka hann í brott, minnti þá á hversu mart illt hafði yfir þá gengið síðan er þeir höfðu það fyrr gert við hinn helga Ólaf konung, sagði og að konungur vill bæta víg þessi svo sem hinir bestu menn og hinir vitrustu vilja dæma. Lauk Finnur svo sinni ræðu að menn vildu láta standa þetta mál kyrrt þar til er aftur kæmu sendimenn þeir er Bergljót hafði gert til Upplanda á fund Hákonar Ívarssonar.

Síðan fór Finnur út til Orkadals með þá menn er honum höfðu fylgt til býjar. Síðan fór hann upp til Dofrafjalls og austur um fjall. Fór Finnur fyrst á fund Orms jarls mágs síns, jarl átti Sigríði dóttur Finns, og sagði honum til erinda sinna.

47. Frá Finni og Hákoni Ívarssyni

Síðan leggja þeir stefnulag við Hákon Ívarsson. En er þeir finnast þá bar Finnur upp erindi sín fyrir Hákon, þau er Haraldur konungur bauð honum. Fannst það brátt í ræðu Hákonar að honum þótti sér skylda mikil á vera að hefna Eindriða frænda síns, segir að honum voru þau orð komin úr Þrándheimi að honum mundi þar fást gnógur styrkur til uppreistar í móti konungi.

Síðan tjáði Finnur fyrir Hákoni hversu mikill munur honum var, að betra var að taka af konungi svo mikil metorð sem hann kynni sjálfur að beiða, heldur en hætta til þess að reisa orustu í móti konungi þeim er hann var áður þjónustubundinn við, segir að hann mun fara ósigur «og hefir þú þá fyrirgert bæði fé og friði. En ef þú sigrast á Haraldi konungi þá muntu heita drottinsviki.»

Jarl studdi og þessa ræðu með Finni.

En er Hákon hugsaði þetta fyrir sér þá lauk hann það upp er honum bjó í skapi, sagði svo: «Eg mun sættast við Harald konung ef hann vill gifta mér Ragnhildi dóttur Magnúss konungs Ólafssonar, frændkonu sína, með þvílíkri heimanfylgju sem henni sómir og henni líkar.»

Finnur segir að hann vill þessu játa af konungs hendi. Staðfesta þeir þetta mál milli sín. Síðan fer Finnur norður aftur til Þrándheims. Settist þá niður þessi ófriður og agi svo að konungur hélt þá enn ríki sínu í friði innanlands því að þá var niður drepið sambandi því öllu er frændur Eindriða höfðu haft til mótstöðu við Harald konung.

48. Bónorð Hákonar Ívarssonar

En er sú stefna kom er Hákon skyldi vitja þessa einkamála þá fór hann á fund Haralds konungs.

En er þeir taka tal sitt þá segir konungur að hann vill halda allt það af sinni hendi sem í sætt hafði komið með þeim Finni. «Skaltu Hákon,» segir konungur, «tala mál þetta við Ragnhildi, hvort hún vill samþykkja þetta ráð. En eigi er þér og engum öðrum að ráðanda að fá Ragnhildar svo að eigi sé hennar samþykki við.»

Síðan gekk Hákon á fund Ragnhildar og bar upp fyrir hana bónorð þetta.

Hún svarar svo: «Oft finn eg það að mér er aldauði Magnús konungur faðir minn ef eg skal giftast bónda einum þó að þú sért fríður maður eða vel búinn að íþróttum. Ef Magnús konungur lifði þá mundi hann eigi gifta mig minna manni en konungi. Nú er þess eigi von að eg vilji giftast ótignum manni.»

Síðan gekk Hákon á fund Haralds konungs og segir honum ræðu þeirra Ragnhildar, innir þá upp einkamál þeirra Finns. Var þá og Finnur hjá og fleiri menn þeir er við ræðu þeirra Finns höfðu verið.

Segir Hákon svo til allra þeirra vitnis að svo var skilt að konungur skyldi svo Ragnhildi heiman gera að henni líkaði. «Nú vill hún eigi eiga ótiginn mann. Þá megið þér gefa mér tignarnafn. Hefi eg til þess ætt að eg má heita jarl og nokkura hluti aðra að því er menn kalla.»

Konungur segir: «Ólafur konungur bróðir minn og Magnús konungur sonur hans, þá er þeir réðu ríki, létu þeir einn jarl vera senn í landi. Hefi eg og svo gert síðan er eg var konungur. Vil eg eigi taka tign af Ormi jarli, þá er eg hefi áður gefið honum.»

Sá þá Hákon sitt mál að það mundi ekki viðgangast. Líkaði honum þá stórilla. Finnur var og allreiður. Sögðu þeir að konungur héldi ekki orð sín og skildust að svo búnu.

Hákon fór þá þegar úr landi og hafði langskip vel skipað. Hann kom fram suður í Danmörk og fór þegar á fund Sveins konungs mágs síns. Tók konungur feginsamlega við honum og fékk honum þar veislur miklar. Gerðist Hákon þar landvarnarmaður fyrir víkingum er mjög herjuðu á Danaveldi, Vindur og aðrir Austurvegsmenn og svo Kúrir. Lá hann úti á herskipum vetur sem sumar.

49. Dráp Ásmundar

Ásmundur er maður nefndur er sagt er að væri systurson Sveins konungs og fósturson hans. Ásmundur var allra manna gervilegastur. Unni konungur honum mikið. En er Ásmundur dróst á legg var hann brátt ofstopamaður mikill og hann gerðist vígamaður. Konungi líkaði það illa og lét hann fara frá sér, fékk honum lén gott, það er hann mátti vel halda sig og sveit með sér.

En þegar er Ásmundur tók við konungsfé dró hann lið mikið að sér. En honum entist ekki það fé til síns kostnaðar er konungur hafði veitt honum. Þá tók hann annað miklu meira, það er konungur átti.

En er konungur spurði það þá stefndi hann Ásmundi á fund sinn. En er þeir hittust þá segir konungur að Ásmundur skyldi vera í hirð hans og hafa enga sveit og varð svo að vera sem konungur vildi. En er Ásmundur hafði verið litla hríð með konungi þá undi hann ekki þar og hljópst í brott um nótt og kom aftur til sveitar sinnar og gerði þá enn fleira illt en fyrr.

En er konungur reið yfir land og kom þar nær sem Ásmundur var þá sendi hann lið til að taka Ásmund með valdi. Síðan lét konungur setja hann í járn og halda hann svo um hríð og hugði að hann mundi spekjast.

En er Ásmundur kom úr járni þá hljóp hann þegar í brott og fékk sér lið og herskip, tók hann þá og herjaði bæði utanlands og innanlands og gerði hið mesta hervirki, drap mart manna og rændi víða. En þeir menn er fyrir þessum ófriði urðu komu til konungs og kærðu skaða sinn fyrir honum.

Hann svarar: «Hvað segið þér mér til þess? Hví farið þér eigi til Hákonar Ívarssonar? Hann er hér landvarnarmaður minn og til þess settur að friða fyrir yður bóndum en hegna víkingum. Var mér sagt að Hákon væri djarfur maður og frækn en nú líst mér sem hann vilji hvergi þar til leggja er honum þykir mannhætta í vera.»

Þessi orð konungs voru flutt til Hákonar og mörgum við aukið.

Síðan fór Hákon með liði sínu að leita Ásmundar. Varð fundur þeirra á skipum. Lagði Hákon þegar til orustu. Varð þar hörð orusta og mikil. Hákon gekk upp á skip Ásmundar og hrauð skipið. Kom svo að þeir Ásmundur skiptust sjálfir vopnum við og höggum. Þar féll Ásmundur. Hákon hjó höfuð af honum.

Síðan fór Hákon skyndilega á fund Sveins konungs og kom svo til hans að konungur sat um matborði. Hákon gekk fyrir borðið og lagði höfuðið á borðið fyrir konunginn og spurði ef hann kenndi. Konungur svaraði engu og var dreyrrauður á að sjá. Síðan gekk Hákon í brott.

Litlu síðar sendi konungur menn til hans og bað hann fara í brott úr sinni þjónustu: «Segið að eg vil ekki mein gera honum en ekki má eg gæta frænda vorra allra.»

50. Kvonfang Hákonar Ívarssonar

Síðan fór Hákon brott úr Danmörk og norður í Noreg til eigna sinna. Þá var andaður Ormur jarl frændi hans. Menn urðu Hákoni fegnir mjög, frændur og vinir. Urðu þá til þess margir göfgir menn að ganga um sættir milli þeirra Haralds konungs og Hákonar. Kom svo að þeir sættust með því móti að Hákon fékk Ragnhildar konungsdóttur en Haraldur konungur gaf Hákoni jarldóm og veldi slíkt sem haft hafði Ormur jarl. Hákon sór Haraldi konungi trúnaðareiða til þeirrar þjónustu sem hann var skyldur til.

51. Sætt Haralds konungs og Kálfs

Kálfur Árnason hafði verið í vesturvíking síðan er hann fór úr Noregi en oft á vetrum var hann í Orkneyjum með Þorfinni jarli mági sínum. Finnur Árnason bróðir hans gerði orð Kálfi og lét segja honum einkamál þau er þeir Haraldur konungur höfðu við mælst að Kálfur skyldi hafa landsvist í Noregi og eignir sínar og slíkar veislur sem hann hafði haft af Magnúsi konungi.

En er Kálfi kom sjá orðsending þá bjóst hann þegar til farar, fór austur í Noreg, fyrst á fund Finns bróður síns. Síðan tók Finnur Kálfi grið og fundust þeir sjálfir, konungur og Kálfur, gerðu þá sætt sína eftir því sem konungur og Finnur höfðu fyrr bundið einkamálum með sér. Gekk Kálfur til festu við konung og alls skildaga, slíks sem hann hafði bundið fyrr við Magnús konung, að Kálfur væri skyldur að gera þau verk öll sem Haraldur konungur vildi og honum þætti sitt ríki bæta. Tók Kálfur þá upp eignir sínar allar og veislur sem hann hafði fyrr haft.

52. Fall Kálfs Árnasonar

En hið næsta sumar eftir hafði Haraldur konungur leiðangur úti, fór suður til Danmerkur og herjaði þar um sumarið. En er hann kom suður til Fjóns þá var þar liðsafnaður mikill fyrir þeim.

Þá lét konungur lið sitt ganga af skipum og bjóst til uppgöngu. Hann skipaði liði sínu, lét vera fyrir sveit Kálf Árnason og bað þá ganga fyrsta upp og sagði þeim hvert þeir skyldu stefna en hann kveðst mundu ganga upp eftir þeim og koma þeim að liði. Þeir Kálfur gengu upp og kom brátt lið í móti þeim. Réð Kálfur þegar til orustu og varð sá bardagi eigi langur því að Kálfur var brátt ofurliði borinn og kom hann á flótta og lið hans en Danir fylgdu þeim. Féll mart af Norðmönnum. Þar féll Kálfur Árnason.

Haraldur konungur gekk upp á land með fylking sína. Var það brátt á leið hans að þeir sáu fyrir sér valinn og fundu brátt lík Kálfs. Var það borið ofan til skipa. En konungur gekk upp á land og herjaði og drap þar mart manna.

Svo segir Arnór:

Rauð, en rýrt varð síðan,
rann eldr um sjöt manna,
frána egg á Fjóni,
Fjónbyggjalið, tyggi.

53. Ferð Finns Árnasonar úr landi

Eftir það lét Finnur Árnason sér fjandskap í þykja við konung um fall Kálfs bróður síns, kallaði að konungur væri ráðbani Kálfs og það væri blekking ein við Finn er hann hafði teygt Kálf bróður sinn vestan um haf á vald og trúnað Haralds konungs.

En er þessi ræða kom á loft þá mæltu það margir menn að það þótti grunnsælegt er Finnur hafði trúað því að Kálfur mundi fá trúnað Haralds konungs, þótti sem konungur væri heiftrækur um smærri hluti en þá er Kálfur hafði gert til saka við Harald konung.

Konungur lét hér ræða um hvern slíkt er vildi, sannaði það ekki, synjaði og eigi. Fannst það eitt á að konungi þótti það vel orðið.

Haraldur konungur kvað vísu þessa:

Nú emk ellefu allra,
eggjumst vígs, og tveggja,
þau eru enn svo að eg man, manna,
morð, ráðbani orðinn.
Ginn enn gráleik inna
golls, er fer með skolli,
lýtendr. Kveða lítið
lauki gæft til auka.

Finnur Árnason lét sér svo mikið um finnast mál þetta að hann fór af landi brott og kom fram suður í Danmörk, fór á fund Sveins konungs og fékk þar góðar viðtökur og töluðu þeir löngum einmæli og kom það upp að lyktum að Finnur gekk til handa Sveini konungi og gerðist hans maður en Sveinn konungur gaf Finni jarldóm og Halland til yfirsóknar og var hann þar til landvarnar fyrir Norðmönnum.

54. Frá Guttormi Gunnhildarsyni

Guttormur hét sonur Ketils kálfs og Gunnhildar á Hringunesi, systurson Ólafs konungs og Haralds konungs. Guttormur var maður gervilegur og snemma roskinmannlegur. Var Guttormur oftlega með Haraldi konungi og þar í miklum kærleikum og ráðagerðum með konungi því að Guttormur var vitur maður. Hann var hinn vinsælsti maður. Guttormur var oftlega í hernaði og herjaði mjög í Vesturlönd. Hann hafði lið mikið. Hann hafði friðland og vetursetu í Dyflinni á Írlandi og var í kærleikum miklum með Margaði konungi.

55. Jartegnir Ólafs konungs

Um sumarið eftir fór Margaður konungur og Guttormur með honum og herjuðu á Bretland og fengu þar ógrynni fjár. Síðan lögðu þeir í Öngulseyjarsund. Þeir skyldu þar skipta herfangi sínu. En er fram var borið það mikla silfur og konungur sá það þá vildi hann einn samt hafa féið allt og virti þá lítils vingan sína við Guttorm. Guttormi líkaði það illa er hann skyldi vera hlutræningur og hans menn.

Konungur segir að hann skyldi eiga tvo kosti fyrir höndum: «Sá annar að una því sem vér viljum vera láta en annar sá að halda við oss orustu og hafi sá þá fé er sigur hefir og það með að þú skalt ganga af skipum þínum og skal eg þau hafa.»

Guttormi sýndist mikill vandi á báðar hendur, þóttist eigi mega láta sæmilega skip sín og fé fyrir enga tilgerninga. Það var og allháskasamlegt að berjast við konung og það mikla lið er honum fylgdi. En liðs þeirra var svo mikill munur að konungur hafði sextán langskip en Guttormur fimm. Þá bað Guttormur konung ljá sér þriggja nátta fresta um þetta mál til umráða við sína menn. Hugðist hann konung mundu mýkja mega á þeirri stundu og koma sínu máli í betri vingan við konung með fortölum sinna manna. En það fékkst ekki af konungi sem hann mælti til. Þá var Ólafsvökuaftann. Nú kaus Guttormur heldur að deyja með drengskap eða vega sigur heldur en hitt að þola skömm og svívirðu og klækisorð af svo mikilli missu. Þá kallaði hann á guð og hinn helga Ólaf konung frænda sinn, bað þá fulltings og hjálpar og hét til þess helga manns húss að gefa tíund af öllu því herfangi er þeir hlytu ef þeir fengju sigur.

Síðan skipaði hann liði sínu og fylkti móti þeim mikla her og réð til og barðist við þá. En með fulltingi guðs og hins heilaga Ólafs konungs fékk Guttormur sigur. Þar féll Margaður konungur og hver maður er honum fylgdi, ungur og gamall.

Og eftir þann háleita sigur vendir Guttormur heim glaður með öllum þeim fjárhlut er þeir höfðu fengið í orustu. Þá var af tekið silfrinu því er þeir höfðu fengið hinn tíundi hver peningur, svo sem heitið hafði verið hinum helga Ólafi konungi, og var það ófa mikið fé, svo að af því silfri lét Guttormur gera róðu eftir vexti sínum eða stafnbúa síns og er það líkneski sjö alna hátt. Guttormur gaf róðu þá svo búna til staðar hins heilaga Ólafs konungs. Hefir hún þar verið síðan til minningar sigurs Guttorms og jartegnar hins heilaga Ólafs konungs.

56. Jartegnir Ólafs konungs

Greifi einn var í Danmörku, illur og öfundfullur. Hann átti ambátt eina norræna æskaða úr Þrændalögum. Hún dýrkaði hinn helga Ólaf konung og trúði fastlega hans heilagleik. En sá greifi, er áðan gat eg, tortryggði allt það er honum var frá sagt þess helga manns jartegnum, kvað ekki vera nema kvitt og pata einn, gerði sér að gabbi og gamni lof og dýrð þá er landsfólk allt veitti þeim góða konungi.

En nú kom að þeim hátíðardegi er sá mildi konungur lét líf sitt á og allir Norðmenn héldu. Þá vildi sá hinn óvitri greifi ekki heilagt halda og bauð hann ambátt sinni að hún skyldi baka og elda ofn til brauðs á þeim degi. Vita þóttist hún æði þess greifa að hann mundi henni sárlega hefna ef hún léti eigi að því sem hann bauð henni. Gengur hún til nauðig og bakaði ofninn og kveinaði mjög meðan hún starfaði og heitaðist við Ólaf konung og kvaðst aldrei mundu á hann trúa, nema hann hefndi með nokkurri bendingu þessi ódæmi. Nú megið þér hér heyra maklegar refsingar og sannlegar jartegnir. Allt var það jafnskjótt og á einni stundu er greifi sá varð blindur báðum augum og brauð það varð að grjóti er hún hafði í ofninn skotið. Komið er af því grjóti til staðar hins helga Ólafs konungs og víða annars staðar. Síðan hefir Ólafsmessa haldin verið ávallt í Danmörk.

57. Jartegnir Ólafs konungs

Vestur á Vallandi var einn maður vanheill svo að hann var krypplingur, gekk á knjám og á knúm. Hann var staddur um dag úti á veg og var þá sofnaður. Það dreymdi hann að maður kom til hans göfuglegur og spurði hvert hann gerðist, en hann nefndi til einhvern bæ.

En hinn göfgi maður mælti við hann: «Farðu til Ólafskirkju þeirrar er í Lundúnum stendur og muntu þá heill verða.»

En síðan vaknaði hann en fór þá á leit Ólafskirkju. En um síðir þá kom hann til Lundúnabryggju og spurði þar borgarmenn ef þeir kynnu segja honum hvar Ólafskirkja væri en þeir svöruðu og kváðu miklu fleiri kirkjur vera þar heldur en þeir vissu hverjum manni hver þeirra væri helguð. En litlu síðar þá gekk þar maður að honum og spurði hvert hann gerðist. Hann sagði honum.

En sá mælti síðan: «Við skulum fara báðir saman til kirkju Ólafs og kann eg leið þangað.»

Síðan fóru þeir yfir bryggjuna og fóru það stræti er til Ólafskirkju lá. En er þeir komu til kirkjugarðshliðsins þá sté sá yfir þreskuld þann er í hliðinu var en krypplingurinn veltist þar inn yfir og reis þegar heill upp. En þá er hann sást um þá var horfinn förunautur hans.

58. Hernaður Haralds konungs

Haraldur konungur lét reisa kaupstað austur í Ósló og sat þar oft því að þar var gott til aðfanga, landsmegin mikið umhverfis. Sat hann þar vel til landsgæslu fyrir Dönum, svo og til áhlaupa í Danmörk. Hann var oft því vanur þótt hann hefði ekki mikinn her úti.

Það var á einu sumri að Haraldur konungur fór með nokkurum léttiskipum og hafði ekki mikið lið. Hann hélt suður í Víkina en er byr gaf siglir hann yfir undir Jótland, tók þá og herjaði en landsmenn söfnuðust saman og vörðu land sitt.

Þá hélt Haraldur konungur til Limafjarðar og lagði inn í fjörðinn. Svo er háttað Limafirði að þar er inn að fara svo sem mjór áráll en er inn kemur eftir firðinum þá er þar sem mikið haf. Haraldur herjaði þar á bæði lönd en Danir höfðu hvarvetna safnað fyrir. Þá lagði Haraldur konungur skip sín að eyju nokkurri. Það var lítið land og óbyggt.

En er þeir leituðu að þá fundu þeir ekki vatn, segja til konungi. Hann lét leita ef lyngormur nokkur fyndist í eyjunni en er hann fannst þá færðu þeir konungi. Hann lét færa orminn til elds og baka hann og mæða að hann skyldi þyrsta sem mest. Síðan var þráður bundinn við sporðinn og ormurinn laus látinn. Hrökktist hann þá brátt en þráðurinn raktist af tvinnahnoðanu. Gengu menn eftir orminum þar til er hann steyptist niður í jörðina. Konungur bað þar grafa til vatns. Var svo gert, fundu þar vatn svo að eigi skorti.

Haraldur konungur spurði þau tíðindi af njósnarmönnum sínum að Sveinn konungur var kominn með skipaher mikinn fyrir fjarðarmynnið. Og varð honum seint inn að fara er eitt mátti fara senn skipið. Haraldur konungur hélt skipum sínum inn í fjörðinn. Og þar er breiðastur er heitir Lúsbreið en þar úr víkinni innanverðri er eið mjótt vestur til hafs. Þannug reru þeir Haraldur um kveldið.

En um nóttina er myrkt var orðið ruddu þeir skipin og drógu um eiðið og höfðu það sýslað allt fyrir dag og búin skipin öðru sinni, héldu þá norður fyrir Jótland.

Þá mæltu þeir:

Skrapp úr höndum
Haraldr Dönum.

Þá sagði konungur að hann skyldi svo koma í Danmörk annað sinn að hann skyldi meira lið hafa og stærri skip. Fór þá konungurinn norður í Þrándheim.

59. Skipgerð Haralds konungs

Haraldur konungur sat um veturinn í Niðarósi. Hann lét reisa skip um veturinn út á Eyrum. Það var bússuskip. Skip það var gert eftir vexti Orms hins langa og vandað að öllu sem mest. Var drekahöfuð á frammi en aftur krókur og voru svírarnir allir gulli búnir. Það var hálffertugt að rúmatali og mikið að því og var hið fríðasta. Lét konungur allan búnað vanda til skipsins, bæði segl og reipareiða, akkeri og strengi.

Haraldur konungur gerði boð um veturinn suður til Danmerkur Sveini konungi að hann skyldi eftir um vorið koma sunnan til Elfar til móts við sig og berjast svo að þeir skiptu þá löndum «og hafi annar hvor bæði konungsríkin.»

60. Útboð Haralds konungs

Þann vetur bauð Haraldur konungur út leiðangri, almenning úr Noregi. En er voraði dróst her mikill saman. Þá lét Haraldur konungur setja út skip það hið mikla á ána Nið. Síðan lét hann upp setja drekahöfuðin.

Þá kvað Þjóðólfur skáld:

Skeið sá eg fram að flóði,
fagrt sprund, úr á hrundið.
Kenndu hvar liggr fyr landi
löng súð drekans prúða.
Orms glóar fax of farmi
fráns síst ýtt var hánum,
báru búnir svírar
brunnið gull, af hlunni.

Síðan býr Haraldur konungur skip það og ferð sína. En þá er hann var búinn hélt hann út úr ánni skipinu. Þar var vandaður róður mjög.

Svo segir Þjóðólfur:

Slyngr laugardag löngu
lið-Baldr af sér tjaldi,
út þar er ekkjur líta
orms súð úr bæ prúðar.
Vestr réð úr Nið næsta
nýri skeið að stýra
ungr, en árar drengja,
allvaldr, í sjá falla.

Rétt kann ræði slíta
ræsis herr úr verri.
Ekkjan stendr og undrast
áraburð sem furðu.
Ört mun, snót, áðr sortað
sjáfang í tvö gangi.
Þöll leggr við frið fullan,
ferkleyfa það leyfi.

Sorgar veit áðr slíti
sjáföng úr mar ströngum
herr, þar er heldr til varra
hár sjö tugum ára.
Norðmeðr róa naðri
negldum straum hinn heglda
út, er sem innan líti
arnar væng, með járni.

Haraldur konungur hélt herinum suður með landi og hafði úti almenning að liði og skipum. En er þeir sækja austur í Víkina fengu þeir andviðri stór og lá herinn víða í höfnum, bæði við úteyjar og inn í fjörðum.

Svo segir Þjóðólfur:

Eiga skjól und skógi
skafnir snekkju stafnar.
Læsir leiðangrs vísi
lönd herskipa bröndum.
Almenningr liggr innan,
eið láta sér skeiðar
hábrynjaðar hlýja,
hverja vík í skerjum.

En í stórviðrum þeim er á lögðust þá þurfti hið mikla skip góðra grunnfæra.

Svo segir Þjóðólfur:

Hléseyjar lemr hávan
hryngarð konungr barði.
Neytir þá til þrautar
þengill snekkju strengja.
Eigi er járni bjúgu
indæll skaði lindis.
Gnegr af gaddi fögrum
grjót og veðr hin ljótu.

En er byr gaf hélt Haraldur konungur herinum austur til Elfar og kom þar að kveldi dags.

Svo segir Þjóðólfur:

Haraldr þeysti nú hraustla
helming sinn að Elfi.
Náttar Noregs drottinn
nær að landamæri.
Gramr á þing við Þumla.
Þar er eindagaðr Sveini,
hrafni skyldr, nema haldi,
hans fundr, Danir undan.

61. Frá her Haralds konungs

En er Danir spyrja að Norðmannaher var kominn þá flýja allir þeir er því koma við. Norðmenn spyrja að Danakonungur hefir og úti her sinn og liggur hann suður um Fjón og um Smálönd.

En er Haraldur konungur spurði að Sveinn konungur vildi eigi halda stefnulag við hann eða orustu sem mælt var þá tók hann það ráð enn sem fyrr, lét aftur fara bóndaliðið og skipaði hálft annað hundrað skipa. Hélt hann síðan liði því suður fyrir Halland og herjaði víða. Hann lagði herinum í Lófufjörð og herjaði þar á land upp.

Litlu síðar kom að þeim þar Sveinn konungur með Danaher. Hann hafði þrjú hundruð skipa. En er Norðmenn sáu herinn þá lét Haraldur konungur blása saman herinum. Mæltu það margir að þeir skyldu flýja og sögðu að ófært væri að berjast.

Konungur svarar svo: «Fyrr skal hver vor falla um þveran annan en flýja.»

Svo segir Steinn Herdísarson:

Sagði hitt er hugði
hauklyndr vera mundu:
Þar kvað þengill eirar
þrotna von frá honum.
Heldr kvað hvern vorn skyldu
hilmir frægr en vægja,
menn brutu upp, um annan,
öll vopn, þveran falla.

Síðan lét Haraldur konungur skipa her sínum til framlögu. Lagði hann dreka sinn hinn mikla fram í miðju liði.

Svo segir Þjóðólfur:

Lét vingjafa veitir,
varghollr, dreka skolla
lystr fyr leiðangrs brjósti,
liðs oddr var það, miðju.

Það skip var allvel skipað og fjölmennt á.

Svo segir Þjóðólfur:

Fast bað fylking hrausta
friðvandr jöfur standa.
Hamalt sýndist mér hömlur
hildings vinir skilda.
Ramsyndan lauk röndum
ráðandi manndáða
nýtr fyr Nissi utan
naðr, svo hver tók aðra.

Úlfur stallari lagði sitt skip á annað borð konungsskipinu. Hann mælti við sína menn að þeir skyldu vel fram leggja skipið. Steinn Herdísarson var á skipi Úlfs.

Hann kvað:

Hét á oss þá er úti,
Ulfr, hákesjur skulfu,
róðr var greiddr á græði,
grams stallari, alla.
Vel bað skip með skylja
skeleggjaðr fram leggja
sitt, en seggir játtu,
snjalls landreka spjalli.

Hákon jarl Ívarsson lá ystur í arminn annan og fylgdu honum mörg skip og var það lið allvel búið. En yst í annan arminn lágu Þrændahöfðingjar. Var þar og mikill her og fríður.

62. Frá her Sveins konungs

Sveinn konungur skipaði og sínu liði. Lagði hann sitt skip móti skipi Haralds konungs í miðju liði en næst honum lagði fram Finnur jarl Árnason sitt skip. Skipuðu Danir þar næst öllu því liði er fræknast var og best búið. Síðan tengdu hvorirtveggju sín skip allt um miðjan flotann. En fyrir því að svo mikill var herinn þá var það allur fjöldi skipanna er laust fór og lagði þá svo hver fram sitt skip sem skap hafði til en það var allmisjafnt. En þótt liðsmunur væri allmikill þá höfðu hvorirtveggju óvígjan her. Sveinn konungur hafði í liði með sér sex jarla.

Steinn Herdísarson sagði svo:

Hætti hersa drottinn
hugstrangr, skipa langra
hinn er með hálft beið annað
hundrað, Dana fundar.
Næst var það er réð rista
reiðr aðseti Hleiðrar
þangs láð mörum þingað
þremr hundruðum sunda.

63. Upphaf Nissarorustu

Haraldur konungur lét blása herblástur þegar er hann hafði búin skip sín og lét þá greiða atróður sína menn.

Svo segir Steinn Herdísarson:

Vann fyrir móðu mynni
meinfært Haraldr Sveini.
Varð, því að vísi gerðit,
viðrnám, friðar biðja.
Herðu hjörvi gyrðir
Halland jöfurs spjallar,
heit blés und fyr utan,
atróðr, á sjá blóði.

Síðan tókst orusta og var hin snarpasta. Eggjar hvortveggi sitt lið.

Svo segir Steinn Herdísarson:

Nýtr bað skjöldungr skjóta,
skammt var liðs á miðli,
hlífar styggr og höggva
hvortveggi lið seggja.
Bæði fló þá er blóði
brandr hrauð af sér rauðu,
þat brá feigra flotna
fjörvi, grjót og örvar.

Það var síðarla dags er orusta seig saman og hélst svo alla nóttina. Haraldur konungur skaut af boga langa hríð.

Svo segir Þjóðólfur:

Álm dró upplenskr hilmir
alla nótt hinn snjalli.
Hremsur lét á hvítar
hlífr landreki drífa.
Brynmönnum smó benjar
blóðugr oddr þar er stóðu,
flugr óx Fáfnis vigra,
Finna gjöld í skjöldum.

Hákon jarl og það lið er honum fylgdi tengdi ekki sín skip og reri að Dana skipum þeim er laus fóru en hvert skip er hann tengdist við þá hrauð hann. En er það fundu Danir þá dró hver þeirra frá sitt skip þar er jarl fór. Sótti hann eftir Dönum svo sem þeir hömluðu undan og var þeim þá að komið flótta. Þá reri skúta að skipi jarls og var kallað á hann, sagt að fyrirléti annar fylkingararmurinn og þar var fallið mart lið þeirra. Síðan reri jarl þannug til og veitti þar harða atgöngu svo að Danir létu þá enn undan síga. Fór jarl svo alla nóttina, lagði þar fram sem mest var þörf en hvar sem hann kom fram þá hélt ekki við honum. Hákon reri hið ytra um bardagann. Hinn efra hlut nætur brast meginflóttinn á Dönum því að þá hafði Haraldur konungur upp gengið með sína sveit á skip Sveins konungs. Var það svo vendilega hroðið að allir menn féllu í skipinu nema þeir er á kaf hljópu.

Svo segir Arnór jarlaskáld:

Gekkat Sveinn af snekkju
saklaust hinn forhrausti,
málmr kom harðr við hjálma
hugi minn er það, sinni.
Farskostr hlaut að fljóta
fljótmælts vinar Jóta,
áðr en öðlingr flýði,
auðr, frá verðung dauðri.

En er merki Sveins konungs var fallið og autt skip hans þá flýðu allir hans menn en sumir féllu. En á þeim skipum er tengd voru, hljópu menn þar á kaf en sumir komust á önnur skip þau er laus voru. En allir Sveins menn reru þá undan, þeir er því komu við. Þar varð allmikið mannfall. En þar er konungarnir sjálfir höfðu barist og tengd voru flest skipin, þar lágu eftir auð skip Sveins konungs meir en sjö tigir.

Svo segir Þjóðólfur:

Sogns kváðu gram gegnan
glæst, sjö tigi hið fæsta,
senn á svipstund einni
Sveins þjóðar skip hrjóða.

Haraldur konungur reri eftir Dönum og rak þá en það var eigi hægt því að skipafloti var svo þröngur fyrir að varla mátti fram koma. Finnur jarl vildi eigi flýja og var hann handtekinn. Hann var og lítt sýndur.

Svo segir Þjóðólfur:

Sveinn át sigr að launa
sex, þeim er hvöt vexa
innan eina gunni
örleiks, Dana jörlum.
Varð, sá er vildit forða,
vígbjartr, snöru hjarta,
í fylkingu fenginn
Fiðr Árnason miðri.

64. Flótti Sveins konungs

Hákon jarl lá með sitt skip eftir er konungur og annað lið rak flóttann því að jarls skip mátti eigi þar fram fara fyrir skipum þeim er fyrir voru. Þá reri einn maður á báti að skipi jarls og lagði að lyftingu. Sá var mikill maður og hafði víðan hött.

Sá kallar upp á skipið: «Hvar er jarl?»

Hann var í fyrirrúmi og stöðvaði blóð manni einum. Jarl sá til hattarmannsins og spurði hann að nafni.

Hann segir: «Vandráður er hér. Mæl þú við mig jarl.»

Jarlinn laut út yfir borðið til hans.

Þá mælti bátmaðurinn: «Þiggja mun eg líf að þér ef þú vilt veita.»

Jarl reis upp og nefndi til tvo menn sína þá er honum voru báðir kærir, segir svo: «Stígið á bátinn og flytjið Vandráð til lands. Fylgið honum til Karls bónda vinar míns. Segið honum það til jartegna að hann fái Vandráði hest þann er eg gaf Karli fyrra dag og söðul sinn og son sinn til fylgdar.»

Síðan stigu þeir á bátinn og taka til ára en Vandráður stýrði. Þetta var í brum lýsingarinnar. Var þá og sem mestur skipagangur, reru sumir til landsins, sumir út til hafsins bæði smám skipum og stórum. Vandráður stýrði þar er honum þótti rýmst milli skipanna. En þar sem Norðmanna skip reru nær þeim þá sögðu jarlsmenn til sín og létu allir þá fara hvert er þeir vildu. Vandráður stýrði fram með ströndunni og lagði eigi að landi fyrr en þeir komu um fram það er skipafjöldinn var.

Síðan gengu þeir upp til bæjar Karls og tók þá að lýsa. Þeir gengu inn í stofu. Var Karl þar og nýklæddur. Jarlsmenn sögðu honum erindi sín. Karl mælti, sagði að þeir skyldu snæða fyrst og lét setja þeim borð og fékk þeim laugar.

Þá kom húsfreyja í stofu og mælti þegar: «Undur mikið er það er vér fáum aldrei svefn eða ró í nótt fyrir ópi eða glammi.»

Karl svarar: «Veistu eigi það að konungar hafa barist í nátt?»

Hún spurði: «Hvor hefir betur haft?»

Karl svarar: «Norðmenn hafa sigrast.»

«Flúið mun enn hafa konungurinn vor,» segir hún.

Karl svarar: «Eigi vita menn það hvort hann hefir fallið eða flúið.»

Hún mælti: «Vesöl erum vér konungs. Hann er bæði haltur og ragur.»

Þá mælti Vandráður: «Eigi mun konungur ragur en ekki er hann sigursæll.»

Vandráður tók síðast laugarnar en er hann tók dúkinn þá strauk hann sér á miðjum. Húsfreyja tók dúkinn og kippti frá honum.

Hún mælti: «Fátt gott kanntu þér. Það er þorparlegt að væta allan dúkinn senn.»

Síðan tók Karl upp borð fyrir þá og settist Vandráður í miðju. Snæddu þeir um hríð en síðan gengu þeir út. Var þá hestur búinn og karlsson að fylgja honum og hafði hann annan hest. Ríða þeir brott til skógar en jarlsmenn gengu til báts síns og róa út til jarlsskipsins.

65. Frá Haraldi konungi

Haraldur konungur og hans lið rak skammt flóttann, reru síðan aftur til skipanna, þeirra er auð voru. Þá rannsökuðu þeir valinn. Fannst á konungsskipinu fjöldi dauðra manna en eigi fannst lík konungs en þó þóttust þeir vita að hann var fallinn. Lét þá Haraldur konungur veita umbúnað líkum manna sinna en binda sár þeirra er þess þurftu. Síðan lét hann flytja til lands lík Sveins manna en sendi boð bóndum að þeir skyldu jarða líkin. Síðan lét hann skipta herfangi. Hann dvaldist þar nokkura hríð. Þá spurði hann þau tíðindi að Sveinn konungur var kominn til Sjálands og þá var kominn til hans her sjá allur er flúið hafði úr orustu og mikið lið annað og hafði hann ógrynni hers fengið.

66. Gefin grið Finni Árnasyni

Finnur jarl Árnason varð handtekinn í orustu sem fyrr var ritað. Hann var leiddur til konungsins.

Haraldur konungur var þá allkátur og mælti: «Hér fundumst við nú Finnur en næst í Noregi. Hefir hirðin sú hin danska eigi staðið allfast fyrir þér og hafa Norðmenn illt að verki, draga þig blindan eftir sér og vinna það til lífs þér.»

Þá svarar jarl: «Mart verða Norðmenn illt að gera og það verst allt er þú býður.»

Þá mælti Haraldur konungur: «Viltu nú grið þóttú sért ómaklegur?»

Þá svarar jarl: «Eigi af hundinum þínum.»

Konungur mælti: «Viltu þá að Magnús frændi þinn gefi þér grið?»

Magnús sonur Haralds konungs stýrði þá skipi.

Þá svarar jarl: «Hvað mun hvelpur sá ráða griðum?»

Þá hló konungur og þótti skemmtan að erta hann og mælti: «Viltu taka grið af Þóru frændkonu þinni?»

Þá segir jarl: «Er hún hér?»

«Hér er hún,» segir konungur.

Þá mælti Finnur jarl orðskræpi það er síðan er uppi haft, hversu reiður hann var er hann fékk eigi stillt orðum sínum: «Eigi er nú undarlegt að þú hafir vel bitist er merin hefir fylgt þér.»

Finni jarli voru gefin grið og hafði Haraldur konungur hann með sér um hríð. Var Finnur heldur ókátur og ómjúkur í orðum.

Þá mælti Haraldur konungur: «Sé eg það Finnur að þú vilt nú ekki þýðast við mig og við frændur þína. Vil eg nú gefa þér orlof að fara til Sveins konungs þíns.»

Jarl svarar: «Það vil eg þiggja og því þakksamlegar er eg kem fyrr í brott héðan.»

Síðan lét konungur flytja ferð jarls upp á land. Tóku Hallandsfarar vel við honum. Haraldur konungur hélt þá liði sínu norður í Noreg, fór fyrst inn til Óslóar, gaf þá heimleyfi öllu liði sínu því er fara vildi.

67. Frá Sveini konungi

Svo segja menn að Sveinn konungur sat í Danmörk þann vetur og hélt ríki sínu sem áður. Hann sendi menn um veturinn norður á Halland eftir Karli og þeim hjónum. En er þau komu til konungs þá kallar hann Karl til sín. Síðan spurði konungur ef Karl kenndi hann eða þættist séð hafa hann fyrr.

Karl svarar: «Kenni eg þig nú konungur og kenndi eg þig fyrr þegar eg sá þig og er það guði að þakka er þér kom til gagns sá litli forbeini er eg veitti þér.»

Konungur svarar: «Alla þá daga er eg lifi síðan á eg þér að launa. Nú skal það hið fyrsta að eg gef þér bú það á Sjálandi er þú kýst þér og það með að eg skal gera þig mikinn mann ef þú kannt það með höndum hafa.»

Karl þakkaði konungi vel orð sín og segir að «enn er eftir bæn sú er eg vil biðja.»

Konungur spurði hvað það væri.

Karl segir: «Eg vil biðja þess að þú konungur látir mig hafa með mér konu mína.»

Konungur segir svo: «Það mun eg þér eigi veita því að eg skal fá þér miklu betri konu og vitrari. En kona þín fari með búkot það er þið hafið áður haft. Það mun henni framflutning.»

Konungur gaf Karli mikið bú og göfuglegt, fékk honum gott kvonfang og varð hann þá mikill maður fyrir sér. Varð það frægt og spurðist víða. Það kom norður í Noreg.

68. Frá ræðu hirðmanna

Haraldur konungur sat þann vetur eftir Nissarorustu í Ósló. Um haustið er liðið kom sunnan þá var mikil umræða og frásögn um orustu þá er verið hafði um haustið fyrir Nissi. Þóttist hver sá er þar hafði verið nokkuð kunna að segja frá.

Það var eitt sinn að menn nokkurir sátu í undirskemmu einni og drukku og voru allmálgir. Þeir ræddu um Nissarorustu og það með hverjir þaðan höfðu borið orðstír mestan.

Þeir urðu allir á eitt sáttir að engi maður hefði þar slíkur verið sem Hákon jarl: «Hann var vopndjarfastur og hann var kænstur og hann var gæfumestur og það varð allt að mestu liði er hann gerði og hann vann sigurinn.»

Haraldur konungur var þar úti í garðinum og talaði við menn nokkura.

Síðan gekk hann fyrir skemmudyrnar og mælti: «Hákon mundi hér nú hver heita vilja,» og gekk leið sína.

69. Atferð við Hákon jarl

Hákon jarl fór um haustið til Upplanda og var þar um veturinn í ríki sínu. Hann var allvinsæll til Upplendinga.

Það var um vorið er á leið eitt sinn er menn sátu við drykkju að rætt var enn um Nissarorustu og lofuðu menn mjög Hákon jarl en sumir tóku eigi síður aðra til.

En er þeir höfðu það rætt um hríð þá svarar maður einnhver: «Vera kann að fleiri menn hafi djarflegar barist fyrir Nissi en Hákon jarl en þó mun sá engi þar verið hafa er eg hygg að slíkt happ mun hafa sótt sem hann.»

Þeir segja að það mundi mest happ hans er hann hafði rekið á flótta marga af Dönum.

Sá sami svarar: «Meira happ var það er hann gaf líf Sveini konungi.»

Einnhver svarar honum: «Það muntu eigi vita er þú segir.»

Hann svarar: «Þetta veit eg allgerla því að sá sagði mér sjálfur er konung flutti til lands.»

En þá var sem oft er mælt að mörg eru konungs eyru. Var konungi þetta sagt og jafnskjótt lét konungur þegar taka marga hesta og reið þegar um nóttina með tvö hundruð manna. Reið hann alla þá nótt og eftir um daginn. Þá riðu í mót þeim menn þeir er fóru út til bæjar með mjöl og malt. Maður hét Gamall er í för var með konungi. Hann reið að einum bóndanum. Sá var kunningi hans. Þeir mæltu einmæli.

Segir Gamall: «Eg vil kaupa að þér að þú ríðir sem ákaflegast launstígu þá er þú veist skemmsta og kom til Hákonar jarls. Seg honum að konungur vill drepa hann því að konungur veit nú að jarl hefir skotið Sveini konungi á land fyrir Nissi.»

Kaupa þeir saman. Reið sá bóndi og kom til jarls. Sat hann þá og drakk og var eigi sofa genginn. En er bóndi hafði sagt sín erindi stóð jarl þegar upp og allir hans menn. Lét jarl flytja í brott lausafé sitt allt af bænum til skógar. Voru og brottu menn allir af býnum um nóttina þá er konungur kom. Dvaldist hann þar um nóttina en Hákon jarl reið leið sína og kom fram austur í Svíaveldi til Steinkels konungs og dvaldist með honum um sumarið.

Haraldur konungur sneri síðan aftur út til býjar. Fór konungur um sumarið norður til Þrándheims. Dvöldust þar um sumarið en fóru aftur um haustið austur í Vík.

70. Frá Hákoni jarli

Hákon jarl fór þegar um sumarið aftur til Upplanda er hann spurði að konungur var norður farinn, dvaldist þar til þess er konungur kom norðan. Síðan fór jarl austur í Vermaland og dvaldist þar lengi um veturinn. Veitti Steinkell konungur jarli þar yfirsókn. Hann fór um veturinn er á leið vestur á Raumaríki og hafði hann lið mikið er Gautar og Vermir höfðu fengið honum. Þá tók hann landskyldir sínar og skatta af Upplendingum, þá er hann átti. Síðan fór hann austur aftur til Gautlands og dvaldist þar um vorið.

Haraldur konungur sat um veturinn í Ósló og gerði menn sína til Upplanda að heimta þar skatta og landskyldir og konungssakeyri. En Upplendingar segja svo að þeir mundu greiða allar skyldir þær er þeir ættu að greiða og fá í hendur Hákoni jarli meðan hann var á lífi og hann hafði ekki fyrirgert sér eða ríki sínu og fékk konungur þaðan engar landskyldir á þeim vetri.

71. Sætt Haralds konungs og Sveins konungs

Þann vetur fóru boð og sendimenn milli Noregs og Danmerkur og var það í bundið að hvorirtveggju, Norðmenn og Danir, vildu gera frið milli sín og sætt og báðu konunga til þess og fóru þær orðsendingar heldur líklega til sætta. Og kom svo að lyktum að sættarfundur var stefndur í Elfi milli Haralds konungs og Sveins konungs.

En er vorar safnar hvortveggi konunga liði miklu og skipum til þessarar ferðar og segir skáldið í einum flokki frá ferð þeirra:

Norðr lykr gramr, sá er gerðir
grund, frá Eyrarsundi,
hrafngælir sparn hæli
höfn, langskipa stöfnum.
Rista gulli glæstir
gjálfr, en hlýður skjálfa,
hvasst und her fyr vestan
Hallandi fram brandar.

Gerðir oft fyr jörðu
eiðfastr Haraldr skeiðum.
Sveinn sker og til annars
eysund konungsfundar.
Út hefra lið lítið
lofsnjallr Dana allra,
hinn er hvern vog sunnan,
hrafngrennir, lykr stöfnum.

Hér segir það að konungar þessir halda stefnulag það er gert var milli þeirra og koma þeir báðir til landamæris svo sem hér segir:

Sýstuð suðr þar er æstu,
snjallr gramr, Danir allir.
Enn sér eigi minni
efni mæltrar stefnu.
Sveinn tekr norðr að nenna
nær til landamæris,
varð fyr víðri jörðu
vindsamt, Harald finna.

En er konungarnir fundust tóku menn að ræða um sættir konunganna. En þegar það var í munni haft þá kærðu margir skaða sinn er fengið höfðu af hernaði, rán og mannalát. Var það langa hríð svo sem hér segir:

Telja hátt er hittast,
hvartveggja mjög, seggir,
orð þau er angra fyrða
allmjög, bændr snjallir.
Láta þeir, er þræta,
þegnar, allt í gegnum,
svellr ofrhugi jöfrum,
eigi brátt við sáttum.

Ofreiði verðr jöfra
allhætt ef skal sættast.
Menn, þeir er miðla kunna,
mál öll vega í skálum.
Dugir siklingum segja
slíkt allt er her líkar.
Veldr ef verr skulu höldar
vilji grandar því, skiljast.

Síðan áttu hlut í hinir bestu menn og þeir er vitrastir voru. Gekk þá saman sætt konunga með þeim hætti að Haraldur skyldi hafa Noreg en Sveinn Danmörk til þess landamæris sem að fornu hafði verið milli Noregs og Danmerkur. Skyldu hvorigir öðrum bæta. Skyldi þar hernaður leggjast sem hafist hafði en sá hafa happ er hlotið hafði. Sá friður skyldi standa meðan þeir væru konungar. Sú sætt var eiðum bundin. Síðan seldust konungarnir gíslar svo sem hér segir:

Hitt hefi eg heyrt að setti
Haraldr og Sveinn við meinum,
guð sýslir það, gísla
glaðr hvortveggi öðrum.
Þeir haldi svo særum,
sátt laukst þar með váttum,
og öllum frið fullum,
ferð að hvorgi skerði.

Haraldur konungur hélt liði sínu norður í Noreg en Sveinn konungur fór suður til Danmarkar.

72. Orusta Haralds konungs og Hákonar jarls

Haraldur konungur var í Víkinni um sumarið en hann gerði menn sína til Upplanda eftir skyldum og sköttum er hann átti þar. Þá gerðu bændur þar engan greiða á og kváðust mundu láta bíða allt þar Hákonar jarls ef hann kæmi til þeirra. Hákon jarl var þá uppi á Gautlandi og hafði lið mikið.

En er á leið sumarið hélt Haraldur konungur suður til Konungahellu. Síðan tók hann léttiskip öll þau er hann fékk og hélt upp eftir Elfinni. Lét hann draga af við fossa og flutti skipin upp í vatnið Væni. Síðan reri hann austur yfir vatnið þar sem hann spurði til Hákonar jarls.

En er jarl fékk njósn af förum konungs þá sótti hann ofan af landi og vildi eigi að konungur herjaði á þá. Hákon jarl hafði lið mikið er Gautar höfðu fengið honum.

Haraldur konungur lagði skipum sínum upp í móðu nokkura. Síðan réð hann til landgöngu en hann lét eftir sumt liðið að gæta skipa. Konungur sjálfur reið og sumt liðið en miklu fleira gekk. Þeir áttu að fara yfir skóg nokkurn og þar voru fyrir þeim kjarrmýrar nokkurar og þá enn holt. En er þeir komu upp á holtið þá sáu þeir lið jarls. Var þá mýr ein milli þeirra. Fylktu þá hvorirtveggju.

Þá mælti konungur að lið hans skyldi sitja uppi á bakkanum: «Freistum fyrst ef þeir vilji á ráða. Hákon er óbilgjarn,» segir hann.

Frost var veðurs og snjádrif nokkuð. Sátu þeir Haraldur undir skjöldum sínum en Gautar höfðu lítt klæðst og gerði þeim svalt. Jarl bað þá bíða þess er konungur gengi að og þeir stæðu allir jafnhátt. Hákon jarl hafði merki þau er Magnús konungur Ólafsson hafði átt.

Lögmaður Gauta hét Þorviður. Hann sat á hesti og var bundinn taumurinn við hæl einn er stóð í mýrinni.

Hann talaði og mælti: «Það veit guð að vér höfum hér lið mikið og helsti frækna menn. Látum það spyrja Steinkel konung að vér veitum vel lið þessum góða jarli. Veit eg það þótt Norðmenn leiti á oss að vér tökum öruggt í mót þeim. En ef ungmennið skjalar og vill eigi bíða þá rennum eigi lengra en hér til bekksins. En ef meir skjalar ungmennið sem eg veit að eigi mun vera þá rennum eigi lengra en hér til haugsins.»

Í því bili hljóp upp her Norðmanna og æpti heróp og börðu á skjöldu sína. Tók þá Gautaher að æpa. En hestur lögmanns hnykkir svo fast, er hann fældist við herópið, að hællinn gekk upp og hrökkti honum um höfuð lögmanninum.

Hann mælti: «Skjót allra Norðmanna armastur.»

Hleypti lögmaðurinn þá í brott.

Haraldur konungur hafði áður sagt liði sínu svo: «Þótt vér gerum brak eða óp um oss þá göngum vér eigi fyrir bakkann fyrr en þeir koma hér að oss.»

Og gerðu þeir svo.

En þegar er herópið kom upp þá lét jarl fram bera sitt merki. En er þeir komu undir bakkann þá steyptist konungsliðið ofan á þá. Féll þá þegar sumt lið jarls en sumt flýði. Norðmenn ráku flóttann eigi langt því að kveld var dags. Þar tóku þeir merki Hákonar jarls og slíkt af vopnum og klæðum sem þeir fengu.

Konungur lét bera fyrir sér bæði merkin er hann fór ofan. Þeir ræddu með sér hvort jarl mundi fallinn. En er þeir riðu ofan um skóginn þá mátti einn ríða jafnfram. Maður hleypti um þvera götuna og lagði kesju í gegnum þann er bar merki jarls. Hann grípur merkisstöngina og hleypti annan veg í skóginn með merkið.

En er konungi var það sagt þá mælti hann: «Lifir jarl. Fái mér brynju mína.»

Ríður konungur þá um nóttina til skipa sinna. Mæltu margir að jarl hefði hefnt sín.

Þjóðólfur kvað þá:

Öld er, sú er jarli skyldi
ógnteitum lið veita,
sterkr olli því stillir,
Steinkels gefin helju.
En því að illa reyndist
afls von þaðan honum,
fyr lét Hákon hörfa
hvatt, segr hinn, er það fegrir.

Haraldur konungur var þá nótt að skipum sínum, það sem eftir var, en um morguninn er ljóst var þá var ís lagður allt um skipin svo þykkur að ganga mátti umhverfis skipin. Þá bað konungur sína menn að þeir skyldu höggva ísinn frá skipunum og út í vatnið. Gengu menn þá til og réðu á íshöggið. Magnús sonur Haralds konungs stýrði skipi því er neðast lá í móðunni og næst út vatninu. En er menn höfðu mjög út höggvið ísinn þá hljóp maður út eftir ísinum þar til er höggva skyldi og lét síðan sem óður væri og galinn að íshögginu.

Þá mælti maður: «Nú er enn sem oftar að engi er jafnliðgóður, hvar sem hann gengur til, sem hann Hallur Koðránsbani. Sjá nú hversu hann höggur ísinn.»

En maður sá var á skipi Magnúss er Þormóður hét Eindriðason. En er hann heyrði nefndan Koðránsbana þá hljóp hann að Halli og hjó hann banahögg. Koðrán var Guðmundarson Eyjólfssonar en Valgerður var systir Guðmundar, móðir Jórunnar, móður Þormóðar. Þormóður var veturgamall þá er Koðrán var veginn og hafði hann aldrei séð Hall Ótryggsson fyrr en þá.

Þá var og ísinn út höggvinn í vatnið og lagði Magnús sitt skip út í vatnið og tók þegar til segls og sigldi vestur yfir vatnið en konungsskip lá innast í vökinni og komst hann seinst út. Hallur hafði verið í sveit konungs og honum allkær og var hann hinn reiðasti. Konungur kom síð til hafnar. Hafði Magnús þá skotið vegandanum í skóg og bauð boð fyrir hann en við sjálft var að konungur mundi ganga að þeim Magnúsi áður vinir þeirra komu til og sættu þá.

73. Brennd Upplönd

Vetur þenna fór Haraldur konungur upp á Raumaríki og hafði lið mikið. Bar hann sakar á hendur bóndum, þær að þeir hefðu haldið fyrir honum skyldum og sköttum en eflt fjandmenn hans til ófriðar við hann. Hann lét taka bændur, hamla suma, suma drepa en marga ræna aleigunni. Þeir flýðu er því komu við. Allvíða lét hann brenna héruðin og gerði aleyðu.

Svo segir Þjóðólfur:

Tók Hólmbúa hneykir
harðan taum við Rauma.
Þar hykk fast hins frækna
fylking Haralds gingu.
Eldr var ger að gjaldi.
Gramr réð en þá téði
hár í hóf að færa
hrótgarmr bændr arma.

Síðan fór Haraldur konungur upp á Heiðmörk og brenndi þar og gerði þar hervirki eigi minna en hisug. Þaðan fór hann út á Haðaland og út á Hringaríki, brenndi þar og fór allt herskildi.

Svo segir Þjóðólfur:

Gagn brann greypra þegna.
Glóð varð föst í tróði.
Laust hertoga hristir
Heina illum steini.
Lífs báðu sér lýðir.
Logi þingaði Hringum
nauðgan dóm áðr næmist
niðrfall Hálfs galla.

Eftir það lögðu bændur allt sitt mál undir konung.

74. Frá Haraldi konungi

Eftir það er Magnús konungur var andaður liðu fimmtán vetur áður Nissarorusta var en síðan tveir áður Haraldur og Sveinn sættust.

Svo segir Þjóðólfur:

Færði fylkir Hörða,
friðr namst ár hið þriðja,
rendr bitu stál fyr ströndu,
starf til króks að hvarfi.

Eftir sætt var deila konungs við Upplendinga þrjú misseri.

Svo segir Þjóðólfur:

Nú es um verk þau er vísi
vandmælt, svo að af standist,
auðan plóg að eiga
Upplendingum kenndi.
Sér hefir svo langs tírar
svinns, að æ mun vinnast,
þrjú missari þessi
þengils höfuð fengið.

75. Frá Englandskonungum

Játvarður Aðalráðsson var konungur í Englandi eftir Hörða-Knút bróður sinn. Hann var kallaður Játvarður hinn góði. Hann var svo. Móðir Játvarðar konungs var Emma drottning dóttir Ríkarðar Rúðujarls. Bróðir hennar var Róðbjartur jarl, faðir Vilhjálms bastarðs er þá var hertogi í Rúðu í Norðmandí.

Játvarður konungur átti Gyðu drottning, dóttur Guðina jarls Úlfnaðurssonar. Bræður Gyðu voru Tósti jarl, hann var elstur, annar Mörukári jarl, þriðji Valþjófur jarl, fjórði Sveinn jarl, fimmti Haraldur. Hann var yngstur. Hann fæddist upp í hirð Játvarðar konungs og var hans fósturson og unni konungur honum geysimikið og hafði hann sér fyrir son því að konungur átti ekki barn.

76. Frá Haraldi Guðinasyni

Það var á einu sumri að Haraldur Guðinason átti ferð til Bretlands og fór á skipi. En er þeir komu í haf tók þá andviðri og rak út í haf. Þeir tóku land vestur í Norðmandí og höfðu fengið storm mannhættan. Þeir lögðu til borgarinnar Rúðu og fundu þar Vilhjálm jarl. Tók hann við Haraldi feginsamlega og hans föruneyti. Dvaldist Haraldur þar lengi um haustið í góðum fagnaði því að stormar lágu á og var eigi í haf fært.

En er að leið vetrinum þá ræddu þeir það, jarl og Haraldur, að Haraldur mundi þar dveljast um veturinn. Sat Haraldur í hásæti á aðra hönd jarli en til annarrar handar kona jarls. Hún var hverri konu fríðari er menn höfðu séð. Þau töluðu öll saman sér gaman jafnan við drykkju. Jarl gekk oftast snemma að sofa en Haraldur sat lengi á kveldum og talaði við konu jarls. Fór svo fram lengi um veturinn.

Eitt sinn er þau töluðu segir hún: «Nú hefir jarl rætt um við mig og spurt hvað við töluðum svo þrátt og er hann nú reiður.»

Haraldur svarar: «Við skulum hann nú láta vita sem skjótast allar ræður okkrar.»

Eftir um daginn kallar Haraldur jarl til tals við sig og gengu þeir í málstofu. Þar var og kona jarls og ráðuneyti þeirra.

Þá tók Haraldur til máls: «Það er að segja yður jarl að fleira býr í hingaðkomu minni en það er eg hefi enn upp borið fyrir yður. Eg ætla að biðja dóttur þinnar til eiginkonu mér. Hefi eg þetta rætt fyrir móður hennar oftlega og hefir hún mér því heitið að liðsinna þetta mál við yður.»

En þegar er Haraldur hafði þetta upp borið þá tóku allir því vel, þeir er heyrðu, og fluttu það fyrir jarli. Kom þetta mál svo að lyktum að mærin var föstnuð Haraldi en fyrir því að hún var ung þá var mælt nokkurra vetra frest á til brúðlaupsstefnu.

77. Dauði Játvarðar konungs

En er vor kom þá bjó Haraldur skip sitt og ferð brott. Skildust þeir jarl með kærleikum miklum. Fór þá Haraldur út til Englands á fund Játvarðar konungs og kom ekki til Vallands síðan að vitja ráðs þessa.

Játvarður konungur var yfir Englandi þrjá vetur og tuttugu og varð hann sóttdauður í Lundúnum None Januarii. Hann var jarðaður að Pálskirkju og kalla enskir menn hann helgan.

Synir Guðina jarls voru þá ríkastir manna á Englandi. Var Tósti settur höfðingi yfir her Englakonungs og var hann landvarnarmaður þá er konungur tók að eldast. Hann var settur yfir alla jarla aðra. Haraldur bróðir hans var jafnan innan hirðar hinn næsti maður um alla þjónustu og hafði allar féhirslur konungs að gæta.

Það er sögn manna að þá er fram leið að andláti konungs að þá var Haraldur nær og fátt manna annað.

Þá laut Haraldur yfir konunginn og mælti: «Því skírskota eg undir alla yður að konungur gaf mér nú konungdóm og allt ríki í Englandi.»

Því næst var konungur hafiður dauður úr hvílunni.

Þann sama dag var þar höfðingjastefna. Var þá rætt um konungstekju. Lét þá Haraldur bera fram vitni sín, þau er Játvarður konungur gaf honum ríki á deyjanda degi. Lauk svo þeirri stefnu að Haraldur var til konungs tekinn og vígður konungsvígslu hinn þrettánda dag í Pálskirkju. Gengu þá allir höfðingjar til handa honum og allt fólk.

En er það spurði Tósti jarl bróðir hans líkaði honum illa. Þóttist hann eigi verr til kominn að vera konungur: «Vil eg,» segir hann, «að landshöfðingjar kjósi þann til konungs er þeim þykir best vera til fallinn.»

Og fóru þau orð milli þeirra bræðra. Haraldur konungur segir svo að hann vill eigi upp gefa konungdóm fyrir það að hann var stólsettur í þeim stað sem konungur átti en verið síðan smurður og vígður konungsvígslu. Hvarf og til hans allur styrkur fjölmennis. Hafði hann og féhirslur konungs allar.

78. Ferð Tósta til Danmerkur

En er Haraldur varð þess var að Tósti bróðir hans vildi hafa hann af konungdóminum þá trúði hann honum illa því að Tósti var maður forvitri og maður mikill og átti vel vingað við landshöfðingja. Tók þá Haraldur konungur af Tósta jarli herstjórnina og allt það vald er hann hafði áður haft framar en aðrir jarlar þar í landi. Tósti jarl vildi það fyrir engan mun þola að vera þjónustumaður bróður síns samborins.

Fór hann þá í brott með liði sínu suður um sjá í Flandur, dvaldist þar litla hríð, fór þá til Fríslands og svo þaðan til Danmerkur á fund Sveins konungs frænda síns. Þau voru systkin Úlfur jarl faðir Sveins konungs og Gyða móðir Tósta jarls. Jarl biður Svein konung fulltings og liðveislu. Sveinn konungur bauð honum til sín og segir að hann skal fá jarlsríki í Danmörk, það er hann megi vera þar sæmilegur höfðingi.

Jarl segir svo: «Þess girnir mig að fara til Englands aftur til óðala minna. En ef eg fæ engan styrk til þess af yður, konungur, þá vil eg heldur það til leggja við yður að veita yður allan styrk þann er eg á kost í Englandi ef þér viljið fara með Danaher til Englands að vinna land svo sem Knútur móðurbróðir yðvar.»

Konungur segir: «Svo miklu em eg minni maður en frændi minn, Knútur konungur, að varla fæ eg haldið Danaveldi fyrir Norðmönnum. Hinn gamli Knútur eignaðist að erfð Danaríki en með hernaði og orustu England og var það um hríð þó eigi óvænna að hann mundi þar eftir leggja líf sitt. Noreg fékk hann orustulaust. Nú kann eg ætla mér hóf meir eftir mínu lítilræði en eftir framkvæmd Knúts konungs frænda míns.»

Þá mælti jarl: «Minna verður mitt erindi hingað en eg hugði að þú mundir vera láta, svo göfugur maður, í nauðsyn mína, frænda þíns. Kann nú vera að eg leiti þannug vináttunnar, er miklu er ómaklegra, en þó má vera að eg finni þann höfðingja er miður vaxi fyrir augum að ráða mjög stórt heldur en þér konungur.»

Síðan skildust þeir konungur og jarl og ekki mjög sáttir.

79. Ferð Tósta til Noregs

Tósti jarl snýr þá ferðinni og kom hann fram í Noreg og fór á fund Haralds konungs. Hann var í Víkinni. En er þeir finnast ber jarl upp fyrir konung erindi sín, segir honum allt um ferð sína síðan er hann fór af Englandi, biður konung fá sér styrk að sækja ríki sitt í Englandi.

Konungur segir svo að Norðmenn munu þess ekki fýsa að fara til Englands og herja og hafa enskan höfðingja yfir sér: «Mæla menn það,» segir hann, «að þeir hinir ensku séu ekki alltrúir.»

Jarl svarar: «Hvort er það með sannindum, er eg hefi heyrt menn segja í Englandi, að Magnús konungur frændi þinn sendi menn til Játvarðar konungs og var það í orðsending að Magnús konungur átti England slíkt sem Danmörk arftekið eftir Hörða-Knút svo sem svardagar þeirra höfðu til staðið?»

Konungur segir: «Hví hafði hann það þá eigi ef hann átti það?»

Jarl segir: «Hví hefir þú eigi Danmörk svo sem Magnús konungur hafði fyrir þér?»

Konungur segir: «Ekki þurfa Danir að hælast við oss Norðmenn. Marga díla höfum vér brennt þeim frændum þínum.»

Þá mælti jarl: «Viltu eigi mér segja, þá mun eg þér segja. Því eignaðist Magnús konungur Danmörk að þarlandshöfðingjar veittu honum en því fékkstu eigi að allt landsfólk stóð í móti þér. Því barðist Magnús konungur eigi til Englands að allur landslýður vildi hafa Játvarð að konungi. Viltu eignast England þá má eg svo gera að meiri hlutur höfðingja í Englandi munu vera vinir þínir og liðsinnismenn. Skortir mig eigi meira við Harald bróður minn en konungsnafn eitt. Það vita allir menn að engi hermaður hefir slíkur fæðst á Norðurlöndum sem þú og það þykir mér undarlegt er þú barðist fimmtán vetur til Danmerkur en þú vilt eigi hafa England er nú liggur laust fyrir þér.»

Haraldur konungur hugsaði vandlega hvað jarl mælti og skildi að hann segir mart satt og í annan stað gerðist hann fús til að fá ríkið. Síðan töluðu þeir konungur og jarl löngum og oft. Settu þeir þá ráðagerð þessa, að þeir skyldu fara um sumarið til Englands og vinna landið.

Sendi Haraldur konungur orð um allan Noreg og bauð út leiðangri, hálfum almenningi. Var þetta nú allfrægt. Voru margar getur á hvernug förin mundi verða. Mæltu sumir og töldu upp stórvirki Haralds konungs að honum mundi ekki ófært vera en sumir sögðu að England mundi vera torsótt, mannfólk ófa mikið á og lið það er kallað er þingamannalið. Þeir voru menn svo fræknir að betra var lið eins þeirra en tveggja Haralds manna hinna bestu.

Þá svarar Úlfur stallari:

Era stallarum stillis
stafnrúm Haralds jafnan,
ónauðigr fékk eg auðar,
innan þörf að hvarfa,
ef, hörbrekkan, hrökkva,
hrein, skulu tveir fyrir einum,
ungr kenndi eg mér, undan,
annað, þingamanni.

Úlfur stallari andaðist það vor.

Haraldur konungur stóð yfir grefti hans og mælti er hann gekk frá: «Þar liggur sá nú er dyggvastur var og drottinhollastur.»

Tósti jarl sigldi um vorið vestur til Flæmingjalands mót liði því er honum hafði fylgt utan af Englandi og því öðru er safnaðist til hans bæði af Englandi og þar í Flæmingjalandi.

80. Draumur Gyrðar

Her Haralds konungs safnaðist saman í Sólundum.

En er Haraldur konungur var búinn að leggja út úr Niðarósi þá gekk hann áður til skríns Ólafs konungs og lauk upp og klippti hár hans og negl og læsti síðan skríninu en kastaði luklunum út á Nið og hefir ekki síðan upp verið lokið skríni hins helga Ólafs konungs. Þá var liðið frá falli hans hálfur fjórði tugur vetra. Hann lifði og hálfan fjórða tug vetra hér í heimi.

Haraldur konungur hélt því liði er honum fylgdi suður til móts við lið sitt. Þar kom saman lið mikið svo að það er sögn manna að Haraldur konungur hefði nær tveimur hundruðum skipa og umfram vistabyrðingar og smáskútur.

Þá er þeir lágu í Sólundum þá dreymdi mann þann er var á konungsskipinu er Gyrður er nefndur. Hann þóttist þar vera staddur á konungsskipinu og sá upp á eyna hvar tröllkona mikil stóð og hafði skálm í hendi en í annarri hendi trog. Hann þóttist og sjá yfir öll skip þeirra að honum þótti fugl sitja á hverjum skipstafni. Það voru allt ernir og hrafnar.

Tröllkonan kvað:

Víst er að allvaldr austan
eggjast vestr að leggja
mót við marga knútu,
minn snúðr er það, prúða.
Kná valþiður velja,
veit ærna sér beitu,
steik af stillis haukum
stafns. Fylgi eg því jafnan.

81. Draumur Þórðar

Þórður er maður nefndur er var á skipi því er skammt lá frá skipi konungs. Hann dreymdi um nótt að hann þóttist sjá flota Haralds konungs fara að landi, þóttist vita að það var England. Hann sá á landinu fylking mikla og þótti sem hvorirtveggju byggjust til orustu og höfðu merki mörg á lofti en fyrir liði landsmanna reið tröllkona mikil og sat á vargi og hafði vargurinn mannshræ í munni og féll blóð um kjaftana. En er hann hafði þann etið þá kastaði hún öðrum í munn honum og síðan hverjum að öðrum en hann gleypti hvern.

Hún kvað:

Skóð lætr skína rauðan
skjöld er dregr að hjaldri.
Brúðr sér Aurnis jóða
óför konungs görva.
Sviptir sveiflannkjafta
svanni holdi manna.
Úlfs munn litar innan
óðlát kona blóði
og óðlát kona blóði.

82. Draumur Haralds konungs

Harald konung dreymdi enn um nótt að hann var í Niðarósi og hitti Ólaf konung bróður sinn og kvað hann vísu fyrir honum:

Gramr vó frægr til fremdar
flestan sigr hinn digri.
Hlaut eg því að heima sátum
heilagt fall til vallar.
Uggi eg enn að, tyggi,
yðr muni feigð um byrjuð.
Trölls gefið fákum fyllar
fíks. Veldra guð slíku.

Margir aðrir draumar voru þá sagðir og annars konar fyrirburðir og flestir dapurlegir. Haraldur konungur, áður hann færi úr Þrándheimi, hafði þar látið taka til konungs Magnús son sinn og setti hann til ríkis í Noregi er Haraldur konungur fór í brott. Þóra Þorbergsdóttir var og eftir en Ellisif drottning fór með honum og dætur hennar, María og Ingigerður. Ólafur son Haralds konungs fór og með honum úr landi.

83. Orusta við Skarðaborg

En er Haraldur konungur var búinn og byr gaf sigldi hann út á haf og kom af hafi við Hjaltland en sumt lið hans kom við Orkneyjar. Lá Haraldur konungur þar litla hríð áður hann sigldi til Orkneyja og hafði þaðan með sér lið mikið og jarlana Pál og Erlend, sonu Þorfinns jarls, en lét þar eftir Ellisif drottning og dætur þeirra, Maríu og Ingigerði.

Þaðan sigldi hann suður fyrir Skotland og svo fyrir England og kom þar við land sem heita Kliflönd. Þar gekk hann á land og herjaði þegar og lagði landið undir sig, fékk enga mótstöðu.

Síðan lagði Haraldur konungur til Skarðaborgar og barðist þar við borgarmenn. Hann gekk upp á bergið það sem þar verður og lét þar gera bál mikið og leggja í eld. En er bálið logaði tóku þeir forka stóra og skutu bálinu ofan í býinn. Tók þá að brenna hvert hús af öðru. Gekk þá upp allur staðurinn. Drápu þá Norðmenn þar mart manna en tóku fé allt það er þeir fengu. Var enskum mönnum þá engi kostur fyrir höndum ef þeir skyldu halda lífinu nema ganga til handa Haraldi konungi. Lagði hann þá undir sig land allt þar sem hann fór.

Síðan lagði Haraldur konungur með allan herinn suður með landi og lagði að við Hellornes. Kom þar safnaður í mót honum og átti Haraldur konungur þar orustu og fékk sigur.

84. Frá fylking jarla

Síðan fór Haraldur konungur til Humbru og upp eftir ánni og lagði þar við land. Þá voru jarlarnir uppi í Jórvík, Mörukári og Valþjófur jarl bróðir hans, og höfðu óvígjan her. Þá lá Haraldur konungur í Úsu er her jarla sótti ofan.

Þá gekk Haraldur konungur á land og tók að fylkja liði sínu. Stóð fylkingararmurinn annar fram á árbakkann en annar vissi upp á landið að díki nokkuru. Það var fen djúpt og breitt og fullt af vatni. Jarlar létu síga fylking sína ofan með ánni með öllum múginum. Konungsmerkið var nær ánni. Var þar allþykkt fylkt en þynnst við díkið og lið það ótraustast. Þá sóttu jarlar ofan með díkinu. Veik þá fyrir fylkingararmur Norðmanna, sá er vissi að díkinu, en enskir menn sóttu þar fram eftir þeim og hugðu að Norðmenn mundu flýja vilja. Fór þar fram merki Mörukára.

85. Orusta við Humbru

En er Haraldur konungur sá að fylking enskra manna var komin ofan með díkinu gegnt þeim þá lét hann blása herblásturinn og eggjaði herinn ákaflega, lét þá fram bera merkið Landeyðuna, snaraði þá atgönguna svo harða að allt hrökk fyrir. Gerðist þá mannfall mikið í liði jarla. Snerist þá liðið brátt á flótta, flýði sumt upp með ánni og ofan en flest fólkið hljóp út á díkið. Lá þar svo þykkt valurinn að Norðmenn máttu ganga þurrfætis yfir fenið. Þar týndist Mörukári jarl.

Svo segir Steinn Herdísarson:

Þjóð fórst mörg í móðu.
Menn drukknuðu sokknir.
Drengr lá ár um ungan
ófár Mörukára.
Fira drottinn rak flótta
framr. Tók her á ramri
rás fyr röskum vísa.
Ríklundaðr veit undir.

Þessa drápu orti Steinn Herdísarson um Ólaf, son Haralds konungs, og getur hér þess að Ólafur var í orustu með Haraldi konungi föður sínum.

Þessa getur og í Haraldsstikka:

Lágu fallnir
í fen ofan
Valþjófs liðar,
vopnum höggnir,
svo að gunnhvatir
ganga máttu
Norðmenn yfir
að nám einum.

Valþjófur jarl og það lið er undan komst flýði upp til borgarinnar Jork. Var þar hið mesta mannfall. Orusta var miðvikudag næsta dag fyrir Mattheusmessu.

86. Frá Tósta jarli

Tósti jarl hafði komið sunnan af Flæmingjalandi til Haralds konungs þegar er hann kom til Englands og var jarl í öllum orustum þessum. Fór þá svo sem hann hafði sagt Haraldi, fyrr en þeir fyndust, að fjöldi manns dreif til þeirra í Englandi. Það voru frændur og vinir Tósta jarls og var konungi það mikill styrkur liðs.

Eftir þessa orustu, er áður var frá sagt, gekk undir Harald konung lið allt um hin næstu héruð en sumt flýði. Þá byrjaði Haraldur konungur ferð sína að vinna borgina og lagði herinum við Stanforðabryggjur. En fyrir þá sök að konungur hafði unnið svo mikinn sigur við stóra höfðingja og ofurefli liðs, var allt fólk hrætt og örvæntist mótstöðu. Þá gerðu borgarmenn ráð fyrir sér að senda boð Haraldi konungi og bjóðast í vald hans og svo borgina. Var þetta allt boðað svo að sunnudaginn fór Haraldur konungur með öllum herinum til borgarinnar og setti þing utan borgar, konungur og menn hans, en borgarmenn sóttu til þingsins. Játaðist allt fólk undir hlýðni við Harald konung og fengu honum gíslar, tiginna manna sonu, svo sem Tósti jarl kunni skyn allra manna í þeirri borg, og fór konungur um kveldið ofan til skipanna með sjálfgerum sigri og var allkátur. Var ákveðið þing snemma mánadaginn í borginni. Skyldi þá Haraldur konungur skipa staðinn með ríkismönnum og gefa réttu og lén.

Það sama kveld eftir sólarsetur kom sunnan að borginni Haraldur konungur Guðinason með óvígjan her. Reið hann í borgina að vild og þokka allra borgarmanna. Voru þá tekin öll borgarhlið og allir vegar að eigi skyldu njósnir koma Norðmönnum. Var þessi her um nóttina í staðinum.

87. Uppganga Haralds konungs

Mánadaginn er Haraldur Sigurðarson var mettur að dagverðarmáli þá lét hann blása til landgöngu, býr þá herinn og skiptir liðinu hverjir fara skulu eða hverjir eftir skulu vera. Hann lét upp ganga í hverri sveit tvo menn þar er einn var eftir. Tósti jarl bjó sig til uppgöngu með Haraldi konungi með sína sveit en eftir voru til skipagæslu Ólafur konungsson og Páll og Erlendur Orkneyjajarlar og Eysteinn orri sonur Þorbergs Árnasonar er þá var ágætastur og kærstur konungi allra lendra manna. Þá hafði Haraldur konungur heitið honum Maríu dóttur sinni. Þá var veður forkunnlega gott og heitt skin. Menn lögðu eftir brynjur sínar en gengu upp með skjöldum og hjálmum og kesjum og sverðum gyrðir og margir höfðu og skot og boga og voru allkátir.

En er þeir sóttu í nánd borginni reið í móti þeim lið mikið. Sáu þeir jóreykinn og undir fagra skjöldu og hvítar brynjur. Þá stöðvaði konungur liðið, lét kalla til sín Tósta jarl og spurði hvað liði það mundi vera.

Jarl segir, lést þykja meiri von að ófriður mundi vera, lét og hitt vera mega að þetta mundu vera frændur hans nokkurir og leiti til vægðar og vináttu en fá í móti af konungi traust og trúnað. Þá mælti konungur að þeir mundu fyrst halda kyrru og forvitnast um herinn. Þeir gerðu svo og var liðið því meira er nálegar kom og allt að sjá sem á eina ísmöl er vopnin glóuðu.

88. Ráð Tósta jarls

Haraldur konungur Sigurðarson mælti þá: «Tökum nú nokkuð gott ráð og viturlegt því að ekki er að dyljast að ófriður er og mun vera konungur sjálfur.»

Þá svarar jarl: «Það er hið fyrsta að snúa aftur sem hvatast til skipa eftir liði voru og vopnum, veitum þá viðurtöku eftir efnum en að öðrum kosti látum skipin gæta vor og eiga þá riddarar ekki vald yfir oss.»

Þá svarar Haraldur konungur: «Annað ráð vil eg hafa, að setja hina skjótustu hesta undir þrjá vaska drengi og ríði þeir sem hvatlegast og segi liði voru, mun þá skjótt koma oss liðveisla, fyrir þá sök að Englismenn skulu eiga hinnar snörpustu hríðar von heldur en vér berum hinn lægra hlut.»

Þá segir jarl, bað konung ráða þessu sem öðru, lést og vera eigi gjarn að flýja. Þá lét Haraldur konungur setja upp merki sitt Landeyðuna. Frírekur hét sá er merkið bar.

89. Frá fylking Haralds konungs

Síðan fylkti Haraldur konungur liði sínu, lét fylkingina langa og ekki þykkva. Þá beygði hann armana aftur á bak svo að saman tóku. Var það þá víður hringur og þykkur og jafn öllum megin utan, skjöldur við skjöld og svo fyrir ofan, en konungssveitin var fyrir innan hringinn og þar merki. Það var valið lið. Í öðrum stað var Tósti jarl með sína sveit. Hafði hann annað merki. Var því svo fylkt að konungur vissi að riddarar voru vanir að ríða á riðlum og þegar aftur.

Nú segir konungur að hans sveit og jarls sveit skal þar fram ganga sem mest þarf «en bogmenn vorir skulu og þar vera með oss en þeir er fremstir standa skulu setja spjótshala sína í jörðina en setja oddana fyrir brjóst riddurum ef þeir ríða að oss en þeir er næstir standa setji þeir sína spjótsodda fyrir brjóst hestum þeirra.

90. Frá Harald konungi Guðinasyni

Haraldur konungur Guðinason var þar kominn með her óvígjan, bæði riddara og fótgangandi menn. Haraldur konungur Sigurðarson reið þá um fylking sína og skynjaði hvernig fylkt var. Hann sat á svörtum hesti blesóttum. Hesturinn féll undir honum og konungur af fram.

Stóð hann upp skjótt og mælti: «Fall er fararheill.»

Þá mælti Haraldur Englakonungur til Norðmanna þeirra er með honum voru: «Kennduð þér þann hinn mikla mann er þar féll af hestinum við hinn blá kyrtil og hinn fagra hjálm?»

«Þar er konungur sjálfur,» sögðu þeir.

Englakonungur segir: «Mikill maður og ríkmannlegur og er vænna að farinn sé að hamingju.»

91. Griðaboð við Tósta jarl

Riddarar tuttugu riðu fram af þingamannaliði fyrir fylking Norðmanna og voru albrynjaðir og svo hestar þeirra.

Þá mælti einn riddari: «Hvort er Tósti jarl í liðinu?»

Hann svarar: «Ekki er því að leyna. Hér munuð þér hann finna.»

Þá mælti einn riddari: «Haraldur bróðir þinn sendi þér kveðju og þau orð með að þú skyldir hafa grið og Norðimbraland allt, og heldur en eigi viljir þú til hans hneigjast, þá vill hann gefa þér þriðjung ríkis alls með sér.»

Þá svarar jarl: «Þá er nokkuð annað boðið en ófriður og svívirðing sem í vetur. Hefði þá verið þetta boðið þá væri margur maður sá á lífi er nú er dauður og betur mundi þá standa ríki í Englandi. Nú tek eg þenna kost, hvað vill hann þá bjóða Haraldi konungi Sigurðarsyni fyrir sitt starf?»

Þá mælti riddarinn: «Sagt hefir hann þar nokkuð frá hvers hann mun honum unna af Englandi. Sjö fóta rúm eða því lengra sem hann er hærri en aðrir menn.»

Þá segir jarl: «Farið nú og segið Haraldi konungi að hann búist til orustu. Annað skal satt að segja með Norðmönnum en það að Tósti jarl fari frá Haraldi konungi Sigurðarsyni og í óvinaflokk hans þá er hann skyldi berjast í Englandi vestur. Heldur skulum vér allir taka eitt ráð, deyja með sæmd eða fá England með sigri.»

Þá riðu aftur riddarar.

Þá mælti Haraldur konungur Sigurðarson við jarl: «Hver var þessi hinn málsnjalli maður?»

Þá segir jarl: «Það var Haraldur konungur Guðinason.»

Þá mælti Haraldur konungur Sigurðarson: «Of lengi vorum vér þessu leyndir. Þeir voru svo komnir fyrir lið vort að eigi mundi þessi Haraldur kunna segja banaorð vorra manna.»

Þá segir jarl: «Satt er það herra. Óvarlega fór slíkur höfðingi og vera mætti svo sem þér segið. Sá eg það að hann vildi mér grið bjóða og ríki mikið en eg væri banamaður hans ef eg segði til hans. Vil eg heldur að hann sé minn banamaður en eg hans.»

Þá mælti Haraldur konungur Sigurðarson til sinna manna: «Lítill maður var þessi og stóð steigurlega í stigreip.»

Svo segja menn að Haraldur konungur Sigurðarson kvað vísu þessa:

Fram göngum vér
í fylkingu
brynjulausir
undir blár eggjar.
Hjálmar skína.
Hefkat eg mína.
Nú liggr skrúð vort
að skipum niðri.

Emma hét brynja hans. Hún var síð svo að hún tók á mitt bein honum og svo sterk að aldrei hafði vopn á fest.

Þá mælti Haraldur konungur Sigurðarson: «Þetta er illa kveðið og mun verða að gera aðra vísu betri.»

Þá kvað hann þetta:

Krjúpum vér fyr vopna,
valteigs, brakan eigi,
svo bauð Hildr, að hjaldri,
haldorð, í bug skjaldar.
Hátt bað mig, þar er mættust,
menskorð bera forðum,
hlakkar ís og hausar,
hjálmstofn í gný málma.

Þá kvað og Þjóðólfur:

Skalka eg frá, þótt fylkir
falli sjálfr til vallar,
gengr sem guð vill, ungum
grams erfingjum hverfa.
Skínnat sól á sýnni,
snarráðs, en þá báða,
Haralds eru haukar gervir
hefnendr, konungsefni.

92. Upphaf orustu

Nú hefur upp orustu og veita enskir menn áreið Norðmönnum. Varð viðurtakan hörð. Varð óhægt enskum mönnum að ríða á Norðmenn fyrir skotum og riðu þeir í hring um þá. Var það fyrst laus orusta meðan Norðmenn héldu vel fylkingu en enskir menn riðu að hart og þegar frá er þeir fengu ekki að gert. En er Norðmenn sáu það að þeim þótti blautlega að riðið þá sóttu þeir að þeim og vildu reka flóttann. En er þeir höfðu brugðið skjaldborginni þá riðu enskir menn að þeim öllum megin og báru á þá spjót og skot.

En er Haraldur konungur Sigurðarson sá það gekk hann fram í orustu þar er mestur var vopnaburðurinn. Var þar þá hin harðasta orusta og féll mikið lið af hvorumtveggjum. Þá varð Haraldur konungur Sigurðarson svo óður að hann hljóp fram allt úr fylkingunni og hjó báðum höndum. Hélt þá hvorki við honum hjálmur né brynja. Þá stukku frá allir þeir er næstir voru. Var þá við sjálft að enskir menn mundu flýja.

Svo segir Arnór jarlaskáld:

Hafði brjóst, né bifðist
böðsnart konungs hjarta,
í hjálmþrimu hilmir
hlítstyggr fyr sér lítið,
þars til þengils hersa
þat sá her, að skatna
blóðugr hjörr hins barra
beit döglinga hneitis.

Haraldur konungur Sigurðarson var lostinn öru í óstinn. Það var hans banasár. Féll hann þá og öll sveit sú er fram gekk með honum nema þeir er aftur opuðu og héldu þeir merkinu. Var þá enn hinn harðasti bardagi. Gekk þá Tósti jarl undir konungsmerki. Tóku þá hvorirtveggju að fylkja í annað sinn og varð þá á dvöl mjög löng á orustunni.

Þá kvað Þjóðólfur:

Öld hefir afhroð goldið
illt. Nú kveð eg her stilltan.
Bauð þessa för þjóðum
þarflaust Haraldr austan.
Svo lauk siklings ævi
snjalls, að vér róm allir,
lofðungr beið hinn leyfði
lífs grand, í stað vöndum.

En áður saman sigi orusta þá bauð Haraldur Guðinason grið Tósta jarli bróður sínum og þeim mönnum öðrum er þá lifðu eftir af liði Norðmanna. En Norðmenn æptu allir senn og sögðu svo að fyrr skyldi hver falla um þveran annan en þeir gengju til griða við enska menn, æptu þá heróp. Tókst þá orusta í annað sinn.

Svo segir Arnór jarlaskáld:

Eigi varð hins ýgja
auðlegr konungs dauði.
Hlífðut hlenna svæfi
hoddum roðnir oddar.
Heldr kusu meir hins milda
mildings en grið vildu
um fólksnaran fylki
falla liðsmenn allir.

93. Upphaf Orrahríðar

Eysteinn orri kom í því bili frá skipum með því liði er honum fylgdi. Voru þeir albrynjaðir. Fékk Eysteinn þá merki Haralds konungs Landeyðuna. Varð nú orusta hið þriðja sinn og var sú hin snarpasta. Féllu þá mjög enskir menn og var við sjálft að þeir mundu flýja. Sú orusta var kölluð Orrahríð.

Þeir Eysteinn höfðu farið svo ákaflega frá skipunum að þeir voru fyrr svo móðir að nálega voru þeir ófærir áður en þeir kæmu til orustu en síðan voru þeir svo óðir að þeir hlífðu sér ekki meðan þeir máttu upp standa. Að lyktum steyptust þeir af hringabrynjunum. Var þá enskum mönnum hægt að finna höggstaði á þeim en sumir sprungu með öllu og dóu ósárir. Féll nálega allt stórmenni Norðmanna. Þetta var hinn efra hlut dags. Var það sem von var, að þar voru enn eigi allir jafnir, margir flýðu, margir og þeir er svo komust undan að ýmsir báru auðnu til. Gerði og myrkt um kveldið áður en lokið var öllum manndrápum.

94. Frá Styrkári stallara

Styrkár stallari Haralds konungs Sigurðarsonar komst brott, ágætur maður. Hann fékk hest og reið svo í brott. Um kveldið gerðist á vindur nokkur og heldur svalt en Styrkár hafði ekki klæði fleiri en skyrtu eina og hjálm á höfði og nökkvið sverð í hendi. Honum svalaði er hann hratt af sér mæðinni. Þá kom í móti honum vagnkarl einn og var í kösungi fóðruðum.

Þá mælti Styrkár: «Viltu selja kösunginn bóndi?»

«Eigi þérna,» segir hann, «þú munt vera Norðmaður. Kenni eg mál þitt.»

Þá mælti Styrkár: «Ef eg em Norðmaður hvað viltu þá?»

Bóndi svarar: «Eg vildi drepa þig en nú er svo illa að eg hefi ekki vopn það er nýtt sé.»

Þá mælti Styrkár: «Ef þú mátt mig ekki drepa bóndi þá skal eg freista ef eg megi þig drepa,» reiðir upp sverðið og setur á háls honum svo að af fauk höfuðið, tók síðan skinnhjúpinn og hljóp á hest sinn og fór til strandar ofan.

95. Frá Vilhjálmi bastarði

Vilhjálmur bastarður Rúðujarl spurði andlát Játvarðar konungs frænda síns og það með að þá var til konungs tekinn í Englandi Haraldur Guðinason og hafði tekið konungsvígslu. En Vilhjálmur þóttist betur til kominn til ríkis í Englandi en Haraldur fyrir frændsemis sakir þeirra Játvarðar konungs. Það var og með að hann þóttist eiga að gjalda Haraldi svívirðing er hann hafði slitið festamálum við dóttur hans. Og af öllu þessu saman dró Vilhjálmur her saman í Norðmandí og hafði allmikið fjölmenni og gnógan skipakost.

Þann dag er hann reið úr borginni til skipa sinna og hann var kominn á hest sinn þá gekk kona hans til hans og vildi tala við hann. En er hann sá það þá laust hann til hennar með hælinum og setti sporann fyrir brjóst henni svo að á kafi stóð. Féll hún og fékk þegar bana en jarl reið til skips.

Fór hann með herinum út til Englands. Þar var með honum Ótta biskup bróðir hans. En er jarl kom til Englands þá herjaði hann og lagði undir sig landið hvar sem hann fór. Vilhjálmur var hverjum manni meiri og sterkari og góður riddari, hinn mesti hermaður og allgrimmur, hinn vitrasti maður og kallaður ekki tryggur.

96. Fall Haralds Guðinasonar

Haraldur konungur Guðinason lofaði brottferð Ólafi syni Haralds konungs Sigurðarsonar og því liði er þar var með honum og eigi hafði fallið í orustu.

En Haraldur snerist þá með her sinn suður á England því að hann hafði þá spurt að Vilhjálmur bastarður fór sunnan á England og lagði landið undir sig. Þar voru þá með Haraldi konungi bræður hans: Sveinn, Gyrður, Valþjófur. Fundur þeirra Haralds konungs og Vilhjálms jarls varð suður á Englandi við Helsingjaport. Varð þar orusta mikil. Þar féll Haraldur konungur og Gyrður jarl bróðir hans og mikill hluti liðs þeirra. Það var nítján nóttum eftir fall Haralds konungs Sigurðarsonar.

Valþjófur jarl komst á flótta undan og síð um kveldið mætti jarl sveit nokkurri af Vilhjálms mönnum. En er þeir sáu lið jarls flýðu þeir undan á eikiskóg nokkurn. Það var hundrað manna. Valþjófur jarl lét eld leggja í skóginn og brenna upp allt saman.

Svo segir Þorkell Skallason í Valþjófsflokki:

Hundrað lét í heitum
hirðmenn jöfurs brenna
sóknar Yggr, en seggjum
sviðukveld var það, eldi.
Frétt er að fyrðar knáttu
flagðviggs und kló liggja.
Ímleitum fékkst áta
óls blakk við hræ Frakka.

97. Dráp Valþjófs jarls

Vilhjálmur lét sig til konungs taka í Englandi. Hann sendi boð Valþjófi jarli að þeir skyldu sættast og selur honum grið til fundar. Jarl fór með fá menn en er hann kom á heiðina fyrir norðan Kastalabryggju þá komu móti honum ármenn tveir með sveit manna og tóku hann og settu í fjötur og síðan var hann höggvinn og kalla enskir menn hann helgan.

Svo segir Þorkell:

Víst hefir Valþjóf hraustan
Vilhjálmr, sá er rauð málma,
hinn er haf skar sunnan
hélt, í tryggð um véltan.
Satt er að síð mun létta,
snarr en minn var harri
deyr eigi mildingr mæri,
manndráp á Englandi.

Vilhjálmur var síðan konungur á Englandi einn vetur og tuttugu og hans afkvæmi jafnan síðan.

98. Ferð Ólafs Haraldssonar í Noreg

Ólafur sonur Haralds konungs hélt liði sínu braut af Englandi og sigldi út af Hrafnseyri og kom um haustið til Orkneyja og voru þar þau tíðindi að María dóttir Haralds konungs Sigurðarsonar hafði orðið bráðdauð þann sama dag og á þeirri sömu stundu er Haraldur konungur féll, faðir hennar. Ólafur dvaldist þar um veturinn.

En eftir um sumarið fór Ólafur austur til Noregs. Var hann þar þá tekinn til konungs með Magnúsi bróður sínum. Ellisif drottning fór vestan með Ólafi stjúpsyni sínum og Ingigerður dóttir hennar. Þá kom og vestan um haf með Ólafi Skúli, er síðan var kallaður konungsfóstri, og Ketill krókur bróðir hans. Þeir voru báðir göfgir menn og kynstórir af Englandi og báðir forvitra. Voru þeir báðir hinir kærstu Ólafi konungi. Fór Ketill krókur norður á Hálogaland. Fékk Ólafur konungur honum gott kvonfang og er frá honum komið mart stórmenni.

Skúli konungsfóstri var vitur maður og skörungur mikill, manna fríðastur sýnum. Hann gerðist forstjóri í hirð Ólafs konungs og talaði á þingum og réð öllum landráðum með konungi. Ólafur konungur bauð að gefa Skúla fylki eitt í Noregi það er honum þætti best með öllum tökum og skyldum þeim er konungur átti.

Skúli þakkaði honum boð sitt og lést vilja beiðast af honum annarra hluta «fyrir því ef konungaskipti verður, kann vera að rjúfist gjöfin. Eg vil,» segir hann, «nokkurar eignir þiggja er liggja nær kaupstöðum þeim er þér herra eruð vanir að sitja og taka jólaveislur.»

Konungur játti honum þessu og skeytti honum jarðir austur við Konungahellu og við Ósló, við Túnsberg, við Borg, við Björgvin og norður við Niðarós. Þær voru nálega hinar bestu eignir í hverjum stað og hafa þær eignir legið síðan undir þá ættmenn er af Skúla ætt eru komnir.

Ólafur konungur gifti honum frændkonu sína, Guðrúnu Nefsteinsdóttur. Móðir hennar var Ingiríður dóttir Sigurðar konungs sýr og Ástu. Hún var systir Ólafs konungs hins helga og Haralds konungs. Sonur Skúla og Guðrúnar var Ásólfur á Reini. Hann átti Þóru dóttur Skofta Ögmundarsonar. Sonur þeirra Ásólfs var Guttormur á Reini, faðir Bárðar, föður Inga konungs og Skúla hertoga.

99. Frá Haraldi konungi Sigurðarsyni

Einum vetri eftir fall Haralds konungs var flutt vestan af Englandi lík hans og norður til Niðaróss og var jarðað í Maríukirkju þeirri er hann lét gera.

Var það allra manna mál að Haraldur konungur hafði verið umfram aðra menn að speki og ráðsnilld, hvort er hann skyldi til taka skjótt eða gera löng ráð fyrir sér eða öðrum. Hann var allra manna vopndjarfastur. Hann var og sigursæll svo sem nú var ritið um hríð.

Svo segir Þjóðólfur:

Áræðis naut eyðir
aldyggr Selundbyggja.
Hugr ræðr hálfum sigri,
Haraldr sannar það, manna.

Haraldur konungur var fríður maður og tígulegur, bleikhár og bleikt skegg og langa kampa, nokkuru brúnin önnur ofar en önnur, miklar hendur og fætur og vel vaxið hvorttveggja. Fimm alna er hátt mál hans. Hann var grimmur óvinum og refsingasamur um allar mótgerðir.

Svo segir Þjóðólfur:

Refsir reyndan ofsa
ráðgegn Haraldr þegnum.
Hykk, að hilmis rekkar
haldi upp því, er valda.
Sverðs hafa slíkar byrðar,
sanns nýtr hver við annan,
Haraldr skiptir svo heiftum,
hljótendr, er sér brjóta.

Haraldur konungur var hinn ágjarnasti til ríkis og til allra farsællegra eigna. Hann var stórgjöfull við vini sína þá er honum líkaði vel við.

Svo segir Þjóðólfur:

Mörk lét veitt fyr verka
vekjandi mér snekkju,
hann lætr hylli sinnar,
hjaldrs, tilgerðir valda.

Haraldur konungur var þá fimmtugur að aldri er hann féll. Engar frásagnir merkilegar höfum vér frá uppruna hans fyrr en hann var fimmtán vetra, þá er hann var á Stiklastöðum í orustu með Ólafi konungi bróður sínum, en síðan lifði hann hálfan fjórða tug vetra. En alla þá stund varð honum aldregi á milli aga og ófriðar. Haraldur konungur flýði aldregi úr orustu en oft leitaði hann sér farborða fyrir ofurefli liðs er hann átti við að eiga. Allir menn sögðu það, þeir er honum fylgdu í orustu og hernaði, að þá er hann varð staddur í miklum háska og bar skjótt að höndum að það ráð mundi hann upp taka sem allir sáu eftir að vænst hafði verið að hlýða mundi.

100. Frá Halldóri

Halldór sonur Brynjólfs gamla úlfalda var vitur maður og höfðingi mikill.

Hann mælti svo þá er hann heyrði ræður manna að menn misjöfnuðu mjög skaplyndi þeirra bræðra, Ólafs hins helga konungs og Haralds, Halldór sagði svo: «Eg var með báðum þeim bræðrum í kærleikum miklum og var mér hvorstveggja skaplyndi kunnigt. Fann eg aldrei tvo menn skaplíkari. Þeir voru báðir hinir vitrustu og hinir vopndjörfustu, menn ágjarnir til fjár og ríkis, ríklyndir, ekki alþýðlegir, stjórnsamir og refsingasamir. Ólafur konungur braut landsfólk til kristni og réttra siða en refsaði grimmlega þeim er daufheyrðust við. Þoldu landshöfðingjar honum eigi réttdæmi og jafndæmi og reistu her í móti honum og felldu hann á eigu sinni sjálfs. Varð hann fyrir það heilagur. En Haraldur herjaði til frægðar sér og ríkis og braut allt fólk undir sig, það er hann mátti. Féll hann og á annarra konunga eigu. Báðir þeir bræður voru menn hversdaglega siðlátir og veglátir. Þeir voru og víðförlir og eljamarmenn miklir og urðu af slíku víðfrægir og ágætir.»

101. Dauði Magnúss konungs

Magnús konungur réð fyrir Noregi Haraldsson hinn fyrsta vetur eftir fall Haralds konungs en síðan réð hann landi tvo vetur með Ólafi bróður sínum. Voru þeir þá tveir konungar. Hafði Magnús hinn nyrðra hlut lands en Ólafur hinn eystra. Magnús konungur átti son er Hákon hét. Hann fóstraði Steigar-Þórir. Var hann hinn mannvænsti maður.

Eftir fall Haralds konungs Sigurðarsonar taldi Sveinn Danakonungur að slitið væri friði milli Norðmanna og Dana, taldi eigi lengur verið hafa frið settan en þeir lifðu báðir, Haraldur og Sveinn. Var þá útboð í hvorutveggja ríkinu. Höfðu synir Haralds almenning fyrir Noregi að liði og skipum en Sveinn konungur fór sunnan með Danaher. Fóru þá sendimenn milli þeirra og báru sættarboð. Sögðu Norðmenn að þeir vildu annaðhvort halda hina sömu sætt sem fyrr var ger eða berjast að öðrum kosti.

Því var þetta kveðið:

Varði ógnarorðum
Ólafr og friðmálum
jörð, svo að engi þorði
allvalda til kalla.

Svo segir Steinn Herdísarson í Ólafsdrápu:

Sína mun fyr Sveini
sóknstrangr í Kaupangi,
þar er heilagr gramr hvílir,
hann er ríkr jöfur, banna.
Ætt sinni mun unna
Ólafr konungr hála,
Úlfs þarfa þar arfi,
alls Noregs, til kalla.

Í þessum stefnuleiðangri var sætt ger milli konunganna en friður milli landa.

Magnús konungur fékk vanheilindi, reformasótt, og lá nokkura hríð. Hann andaðist í Niðarósi og var þar jarðaður. Var hann vinsæll konungur af allri alþýðu.

Текст с сайта Netútgáfan

© Tim Stridmann