Völsa þáttur

Eftir því sem í einu fornu kvæði vísar til, byggði á einu andnesi norðarlega í Noregi, þar sem góð langskipa höfn var undir, fjarri meginbyggðinni og svo þjóðleið, einn bóndi og húsfreyja, nokkuð öldruð. Þau áttu tvö börn, son og dóttur, að því sem í upphafi kvæðisins segir og svo hefur:

Karl hefur búið
og kona öldruð
á andnesi
einu hverju.
Átti son
við seima Bil
drengur og dóttur
drjúgskýrlega.1

Þar var og þræll og ambátt. Bóndi var spakur maður og óhlutdeilinn, en kerling var svarkur mikill og réð mjög fyrir hýbýlaháttum daglega. Bóndasonur var kátur og gleðifullur, glensugur og uppivöðslumikill. Bóndadóttir var eldri, næm og náttúruvitur, þó að hún hefði eigi við fjölmenni upp vaxið. Bóndi átti etjutík stóra, er Lærir hét. Engar skynjar höfðu þau á heilagri trú.

Svo bar til á einu áliðnu hausti, að eykhestur karls dó. Var hann mjög feitur, og með því að heiðnir menn höfðu hrossakjöt sér til fæðu, var hesturinn til gerður og nýttur. Og í fyrstu, er fleginn var, rak þræll af honum í einu þann lim, sem eftir skapan náttúrunnar hafa þess kyns kvikindi til getnaðar sem önnur dýr, þau sem aukast sín á milli, og eftir því, sem fornskáldin vísa til, heitir vingull á hestum. Og svo sem þrællinn hefur hann af skorið og ætlar niður að kasta á völlinn hjá sér, hleypur bóndason til hlæjandi og grípur við og gengur inn í stofu. Þar var fyrir móðir hans, dóttir hennar og ambátt. Hann hristir að þeim vingulinn með mörgum kallsyrðum og kvað vísu:

Hér megið sjá
heldur rösklegan
vingul skorinn
af viggs föður.
Þér er, ambátt,
þessi Völsi
allódauflegur
innan læra.2

Ambáttin skellir upp og hlær, en bóndadóttirin bað hann út bera andstyggð þessa. Kerlingin stendur upp og gengur að öðrum megin og grípur af honum og segir, at hvorki þetta né annað skulu þau ónýta, það sem til gagns má verða, gengur fram síðan og þurrkar hann sem vandlegast og vefur innan í einum líndúki og ber hjá lauka og önnur grös, svo að þar fyrir mætti hann eigi rotna, og leggur niður í kistu sína.

Líður nú svo á haustið, að kerling tekur hann upp hvert kvöld með einhverjum formála honum til dýrkunar, og þar kemur, að hún vendir þangað til öllum sínum átrúnaði og heldur hann fyrir guð sinn, leiðandi í sömu villu með sér bónda sinn og börn og allt sitt hyski. Og með fjandans krafti vex hann svo og styrknar, að hann má standa hjá húsfreyju, ef hún vill. Og að svo gerðu tekur kerling þann sið, að hún ber hann í stofu hvert kvöld og kveður yfir honum vísu fyrst manna, fær síðan bónda og svo hver frá öðrum, þar til sem kemur að lokum til ambáttar, og skyldi hver maður kveða yfir honum vísu. Fannst það á hvers þeirra ummælum, hversu hverju þeirra var gefið.

Það hafði verið einhverju sinni, áður en Ólafur konungur var landflótta fyrir Knúti konungi, að hann hélt skipum sínum norður með landi. Hann hafði frétt af þessu andnesi og þeirri ótrú, er þar fór fram. Og með því að hann vildi þar sem annars staðar fólkinu snúa til réttrar trúar, segir hann fyrir leiðsögumanninum, að hann skal af víkja leiðinni og til þeirrar hafnar, er liggur undir fyrrgreindu andnesi, því að byr var hægur. Koma þeir síð dags í þessa höfn. Lætur konungur tjalda yfir skipum, en segir, að þeir skulu á skipum liggja um nóttina, en hann vill ganga heim til bæjar og biður fara með sér Finn Árnason og Þormóð Kolbrúnarskáld.3

Þeir taka sér allir grákufla og steypa utan yfir klæði sín og ganga svo heim til bæjar um kvöldið í húmi, víkja af til stofu og setjast á bekk annan og skipa svo sessum, að Finnur situr innstur, þá Þormóður, en konungur yztur, bíða þar, til þess er myrkt er orðið, svo að enginn maður kemur til stofu. Og eftir kemur innar kona með ljósi, og var það bóndadóttir. Hún heilsar mönnum og spyr þá að nafni, en þeir nefndust allir Grímar. Hún gerir þá upp ljós í stofunni. Hún sér jafnan til gestanna, og lengst horfir hún á þann, er yztur situr. Og svo sem hún býst fram að ganga, verður henni ljóð á munni og mælti svo:4

Eg sé gull á gestum
og guðvefjar skikkjur.
Mér fellur hugur til hringa.
Heldur vil eg bjúg en ljúga.
Kenni eg þig, konungur minn,
kominn ertu, Ólafur.

Þá svarar hann tilkomumaður, sá er yztur sat: "Lát þú kyrrt yfir því, þú ert kona hyggin."

Ekki skiptust þau fleiri orðum við. Gekk bóndadóttir fram, og litlu seinna kemur inn bóndi og sonur hans og þræll. Sezt bóndi í hægsæti, sonur hans upp hjá honum, en þræll yfir lengra frá honum. Eru þeir kátir við gestina af kyrt þeirri.5

Síðan er snúið hýbýlum á leið og tekið borð og settur matur fram. Bóndadóttir settist upp hjá bróður sínum, en ambátt hjá þræli. Grímar sitja allir samt, sem fyrr var sagt. Síðast kemur innar kerling og ber Völsa í fangi sér og gengur að hægsætinu fyrir bónda. Ekki er þess getið að hún kveddi gestina. Hún rekur dúkana af Völsa og setur á kné bónda og kvað vísu:

Aukinn ertu, Völsi,
og upp of tekinn,
líni gæddur,
en laukum studdur.
Þiggi mörnir
þetta blæti,
en þú, bóndi sjálfur,
ber þú að þér Völsa.6

Bóndi lét sér fátt um finnast, tók þó við og kvað vísu:

Mundi eigi,
ef eg um réði,
blæti þetta
borið í aftan.
Þiggi mörnir
þetta blæti,
en þú, sonur bónda,
sjá þú við Völsa.

Bóndasonur greip við honum og yppir Völsa og vindur að systur sinni og kvað vísu:

Beri þér beytil
fyrir brúðkonur.
Þær skulu vingul
væta í aftan.
Þiggi mörnir
þetta blæti,
en þú, dóttir bónda,
drag þú að þér Völsa.

Hún gerir sér heldur fátt um, en varð þó að fylgja hýbýlaháttum, tók heldur tæpt á honum og kvað þó vísu:

Þess sver eg við Gefjun
og við goðin önnur,
að eg nauðug tek
við nosa rauðum.
Þiggi mörnir
þetta blæti,
en þræll hjóna,
þríf þú við Völsa.7

Þrællinn tekur við og kvað:

Hleifur væri mér
hálfu sæmri,
þykkur og ökkvinn
og þó víður,
en Völsi þessi
á verkdögum.
Þiggi mörnir
þetta blæti,
en þú, þý hjóna,
þrýstu að þér Völsa.

Ambáttin tekur við honum mjög blíðlega, vefur hann að sér og klappar honum og kvað vísu:

Víst eigi mættag
við of bindast
í mig að keyra,
ef við ein lægjum
í andkætu.
Þiggi mörnir
þetta blæti,
en þú, Grímur, gestur vor,
gríp þú við Völsa.

Finnur tók þá við og hélt á. Hann kvað þá vísu:

Legið hef eg víða
fyrir andnesjum,
snævgum höndum
segl upp dregið.
Þiggi mörnir
þetta blæti,
en þú, Grímur, griði minn,
gríp þú við Völsa.

Hann fékk þá Þormóði. Tók hann við og hugði að allglögglega, hversu Völsi var skapaður. Brosti hann þá og kvað vísu:

Sá eg ei forðum,
þó hef eg farið víða,
flennt reður fyrri
fara með bekkjum.
Þiggi mörnir
þetta blæti,
en þú, Aðal-Grímur,
tak enn við Völsa.

Konungur tók við og kvað vísu:

Verið hef eg stýrir
og stafnbúi
og oddviti
allra þjóða.
Þiggi mörnir
þetta blæti,
en þú, hundur hjóna,
hirtu bákn þetta.

Hann kastaði þá fram á gólfið, en hundurinn greip þegar upp. En er kerling sá það, þá var hún öll á flugi. Brá henni mjög við og kvað vísu:

Hvað er það manna
mér ókunnra,
er hundum gefur
heilagt blæti?
Hefi mig of hjarra
og á hurðása,
vita ef eg borgið fæ
blætinu helga.

Legg þú niður, Lærir,
og lát mig eigi sjá,
og svelg eigi niður,
sártíkin rög!

Konungur kastar þá af sér dularklæðunum. Þekktist hann þá. Telur hann þá trú fyrir þeim, og var kerling treg til trúarinnar, en bóndi nokkru fljótari, en með krafti guðs og kostgæfi Ólafs verður það að lyktum, að þau taka öll trú og eru skírð af hirðpresti konungs og héldu vel trú síðan, er þau urðu áskynja, á hvern þau skyldu trúa, og þekktu skapara sinn, sáu nú, hversu illa og ómannlega þau höfðu lifað og ólíkt öllum öðrum góðum mönnum.

Má það í slíku sýnast, að Ólafur konungur lagði allan hug á að eyða og afmá alla ósiðu og heiðni og fordæðuskap einn veg á hinum yztum útskögum Noregsveldis sem í miðjum héruðum meginlandsins. Hafði hann á því mesta hugsan að draga sem flesta til réttrar trúar. Er það nú og auðsýnt orðið, að hann hefur svo gert þessa hluti og alla aðra, að guði hefur líkað.


1 Bil (gyðja) seima (gullþráða) er kenning fyrir konu.

2 Vingull (hestreður) er sá sem vinglar, eða dinglar. Vigg er heiti hests, faðir hests er stóðhestur.

3 Ólafur varð landflótta árið 1029. Finnur Árnason var norskur, mjög náinn vinur Ólafs. Þormóður var íslenskur (sjá Fóstbræðra sögu), hirðskáld konungs. Viðurnefni hans var dregið af nafni Þorbjargar Kolbrúnar, sem hann átti í tygjum við.

4 Menn nefndu sig gjarnan Grím, væru þeir í dularklæðum og vildu ekki láta nafns síns getið, bæði í Íslendingasögum og Fornaldarsögum. Í Grímnismálum þykist Óðinn heita Grímnir, þegar hann sækir heim Geirröð jötun.

5 Merking orðsins kyrt er vafasöm. Hugsanlega á að standa hér kurt, þ.e. kurteisi, hæverska, en þá þyrfti að breyta þeirri í þeirra.

6 Ekki eru allir á einu máli um merkingu orðsins mörnir. Flestir telja þó að það sé fleirtala kvenkynsorðsins mörn, og þýði "tröllskessur, jötunmeyjar". Í Haustlaung koma fyrir jötunkenningarnar faðir mörna og faðir mörnar.

7 Í Snorra Eddu er Gefjun sögð gyðja hreinna meyja. Ekki er það í samræmi við það sem um hana er sagt í Lokasennu. Engu að síður virðist Snorri eitthvað hafa fyrir sér, því að í Breta sögum er henni líkt við Díönu/Artemis, og í Trójumanna sögu við Mínervu/Pallas Aþenu.

Текст с сайта Jörmungrund (Eysteinn Björnsson)

© Tim Stridmann