Leikrit í fjórum þattum eftir
Jóhann Sigurjónsson
Reykjavík
1908
Kostnaðarmaður: Sigurður Kristjánsson
Prentsmiðjan Gutenberg
Sveinungi, bóndinn á Hrauni.
Jórunn, húsfreyja.
Ljót, dóttir peirra.
Sölvi, grasafræðingur.
Einar, aldraður maður.
Jakobína, kerling.
Fríða, tökubarn, ellefu ára.
Jón.
Indriði.
Helgi.
Björg.
Þóra.
Rannveig.
Smali.
Vinnufólk.
Gamall bóndabær með fimm hvítum þiljum, hestasteinn á hlaðinu, trégirðing til vinstri, klyfjar fyrir framan bæjardyrnar, þar á meðal tvö grænmáluð kofort, matarpottar, timbur o. fl. Helgi leysir upp eina klyfina, Smiðjan er opin, Einar smíðar skeifunagla. Þetta er snemma dags.
Björg og Rannveig koma úr kvíunum, setja föturnar fyrir framan mjólkurskemmuna.
Rannveig Eitthvað hafa þeir komið með, við sveltum ekki fyrstu hviðuna. Eru piltar inni?
Helgi Já, þeir eru inni að drekka kaffi.
Björg Er Jón drukkinn?
Helgi Ekkert að ráði, hann er svolítið hress.
Björg Hann er annars vanur að vera blindfullur í hvert skifti þegar hann kemur úr kaupstaðnum, eg skil ekkert í húsbóndanum, að hann skuli láta hann fara, hann hefði heldur átt að senda þig.
Rannveig Jón vinnur sitt verk eins samvizkusamlega og hver annar, hann drekkur aldrei fyr en hann er búinn að ljúka því af, sem hann á að gera.
Björg Ber þú í bætiflákann. Hver veit, nema að hann hafi kyst þig einhvern tíma í ölæði, hann hefir að minsta kosti ekki gert það algáður.
Rannveig Þér ferst! Þú, sem þolir ekki að sjá karlmann án þess að það komi tár í augun á þér fer með föturnar inn í mjólkskemmuna.
Helgi réttir sig upp Blessaðar farið þið ekki að rífast.
Björg fer með föturnar inn í skemmuna.
Smalinn kemur út Eruð þið búnar að mjólka?
Björg Sérðu það ekki?
Smalinn Æi, þið eruð leiðinlegar skoðar borðin, krýpur niður og telur kvistina. Einn, tveir, þrír....
Sveinungi kemur út Hvernig lízt ykkur á, stúlkur, þykir ykkur það þó ekki vera sitt af hverju?
Björg Það er óhætt að segja það.
Sveinungi Þú ert byrjaður að leysa upp, það veitir ekki af. Já, já, þarna koma hinir drengirnir.
Jón og Indriði koma út, Jón er dálítið hýr.
Jón Hérna er þá blessaður húsbóndinn. Komdu sæl, Rannveig, komdu sæl.
Björg og Rannveig Komið þið sælir og velkomnir.
Sveinungi hlær Því tekurðu ekki stúlkurnar og kyssir þær. Ertu svona huglaus.
Jón Huglaus. — Nei, ekki vantar Jón huginn.
Sveinungi hlær Þú ættir að fara að ná þér í konu, það væri þarfara fyrir þig en að eiga hest.
Jón Ekki held eg það — eg vildi ekki missa þann Brúna, þó að allur heimurinn væri í boði — það er nú gripur í lagi — þú hefðir átt að sjá til hans í nótt – hann teygði úr sér eins og hundur.
Indriði Hvenær komstu heim. Það hefir verið orðið framorðið.
Sveinungi Klukkan var orðin hálf tíu.
Jón hlær Gamli maðurinn kann að sitja á hesti enn þá.
Indriði Var ekki Jórunn orðin lúin?
Sveinungi Ekki svo mjög hlær. Þær mega vara sig á henni ungu stúlkurnar. — Þú fékst ekkert út í kaffið, Jón hleypur inn.
Jón Alt af er hann líkur sjálfum sér.
Jakobína kemur út, staðnæmist við einn pokann og þreifar á honum. Þetta skilst mér, að sé kaffið — betur má ef duga skal — það veitti ekki af tveimur pokunum. — En hvað skyldi hún Jórunn mín hafa í kofortunum sínum leggur höndina á annað kofortið, eg ímynda mér, að það sé eitthvað fallegt.
Helgi Það er það óefað.
Sveinungi kemur út með brennivínsflösku og staup, hellir í staupið. Gerðu svo vel.
Jón drekkur Þakka þér fyrir.
Sveinungi hellir aftur á staupið, Indriði og Helgi drekka.
Jakobína Eg er nú búin að vera hér í nítján ár, og það hefir aldrei brugðist, að húsmóðirin hafi ekki hugnast mér með einhverju, þegar hún kom úr kaupstaðnum, og það voru ekki alt af smámunir — guð blessi hana sezt á kofortið.
Sveinungi Vilt þú ekki fá ofurlítið bragð með, Einar?
Einar kemur út í smiðjudyrnar. Ekki held eg, að eg segi nei við því drekkur.
Sveinungi tekur eftir smalanum Ert þú hérna enn þá! Sérðu ekki, að stúlkurnar eru búnar að mjólka! Heldurðu, að ærnar eigi að standa í kvíunum allan daginn?
Smalinn fer þegjandi.
Sveinungi Bíddu við andartak. Eg keypti dálítinn hlut handa þér í gær tekur hníf upp úr vestisvasanum. Eg held, að það sé gott járn í blaðinu og það varðar mestu.
Smalinn kyssir Sveinunga.
Sveinungi Það er ekkert að þakka.
Smalinn opnar hnífinn Líttu á, Einar, það er álft á blaðinu læsir hnífnum, hleypur, kallar Snati! Pila! Snati!
Rannveig Þú þarft ekki að kalla, hundarnir liggja út við kvíarnar.
Sveinungi Hann verður einhvern tíma að manni. Það er fallega gert af jafnungum dreng að sitja yfir níutíu ám, og hann hefir enga mist enn fer inn með flöskuna.
Jón Gamli maðurinn er í góðu skapi.
Björg Það er óhætt að segja það.
Indriði Hann fékk líka hæsta verð fyrir ullina.
Jón Það var annaðhvort.
Jakobína stendur upp Eg held, að það sé bezt fyrir mig að fara að hugsa um hænsnin fer inn.
Sveinungi og Jórunn koma út
Jórunn Þið hafið ekki komið alveg tómhentir.
Sveinungi Sýnist þér það hlær. Eg held, að stúlkunum lítist vel á þau grænmáluðu. – Viltu fara með þau inn, Indriði.
Indriði tekur annað kofortið.
Jórunn Þú setur þau inn í svefnherbergið.
Sveinungi Og sæktu útiskemmulykilinn, Rannveig, þú veizt, hvar hann er Rannveig hleypur inn. Þið berið kornmatinn upp á skemmuloftið og sykurinn og kaffið, eg lit yfir það seinna — og meðan eg man — það er bezt, Helgi, að þú farir með einn poka út í myllu.
Helgi Eg skal gera það.
Sveinungi leysir ofan af poka Hana – taktu við, Einar, þarna færðu járn og nagla og brúnspón, og hérna er svolítið handa þér sjálfum réttir Einari tóbaksrullu. Þú verður að treina þér þetta eins og þú getur.
Einar klappar á öxlina á Sveinunga Guð launi þér fer inn í smiðjuna.
Rannveig kemur út Hérna er lykillinn.
Sveinungi opnar útiskemmuna Þið getið látið borðin ofan á gamla hlaðann. Svo leggið þið ykkur fyrir þegar þið eruð búnir að borða morgunbitann, ykkur veitir ekki af.
Jón Ekki yrði mér mikið fyrir að vinna allan daginn, ef á þyrfti að halda, og það líklega eins vel og hver annar, þó að hann hefði sofið.
Sveinungi hlær Þú átt nú heldur ekki marga þína líka.
Jórunn Ljót er ekki hérna, hvar er hún?
Helgi Hún gekk út á tún, eg hefi ekki séð hana koma aftur.
Sveinungi gengur að girðingunni, kallar Ljót!
Ljót tekur undir Já.
Sveinungi Ertu þarna, viltu ekki koma heim?
Indriði kemur út og sækir seinna kofortið.
Ljót tekur undir Jú, eg kem.
Jórunn Svo er bezt, að eg fari að taka upp úr kofortunum. Eruð þið búnar að setja mjólkina?
Rannveig Já.
Jórunn Þá getið þið komið inn, ef þið viljið sjá það, sem eg hefi keypt.
Sveinungi, Jórunn og stúlkurnar fara inn.
Einar kemur út í smiðjudyrnar, heldur á tóbaksdósum og hringar niður í þær löngum munntóbaksspotta. Þetta er eitthvað öðru vísi á bragðið — hitt var orðið molþurt helvíti spýtir Það var í þá daga, nú er orðið langt síðan.
Helgi Hvað var það?
Einar Eg lá fyrir tóu um nótt að vetrarlagi. Eg lá í hraunkarlinum, þú hefir séð hann.
Indriði kemur út.
Helgi Nei.
Einar Hann er á hæð við mann, holur og opinn að ofan svo að það er hægt að skríða niður í hann — þú færð að sjá hann. – Þegar eg var búinn að liggja dálitla stund, ætlaði eg að fá mér upp í mig, en þá tókst svo illa til, að eg hafði gleymt dósunum mínum heima. Eg hélt, að eg kæmist af yfir nóttina, en það var kuldi og eg varð ekkert var við tóuna, og það veit hamingjan, að þegar komið var fram undir ljósaskiftin þá hefði eg selt sálina fyrir eina góða tölu af tóbaki.
Ljót kemur inn, heldur á blómvendi, fer inn í bæinn.
Helgi Þú náðir ekki tóunni.
Einar Jú, Jú, hún kom rétt þegar eg ætlaði að fara.
Jón hlær Þú hefir líklega fengið þér ærlega tölu þegar þú komst heim.
Einar Eg er á því. Það er sá fallegasti refur, sem eg hefi nokkurn tíma skotið.
Fríða kemur inn móð af hlaupum Nú er eg búin að reka hestana þurkar sér um ennið, á eg að fara að blása.
Einar Þú hefir hlaupið.
Fríða Já.
Einar Þú hefir líka verið fljót. Viltu ekki fara inn og vita, hvort Jórunn færir þér nokkuð úr kaupstaðnum. Fer inn í smiðjuna.
Fríða hleypur inn.
Björg og Rannveig koma út.
Björg Viljið þið sjá það, sem Jórunn gaf mér — það verður ánægjulegt að sauma sér svuntu úr efninu því arna.
Rannveig Eg fékk skýluklút með rauðum blómum sýnir hann og sápuspil lyktar.
Jón Lofaðu mér lyktar. Það verður gaman að kyssa þig, þegar þú þvær þér með þessari sápu.
Rannveig Ef þú fengir það.
Þóra kemur út í dyrnar Eg þarf líka að sýna ykkur það, sem mér var gefið.
Sölvi kemur inn með byssu á öxlinni, veiðitösku og grasabauk á bakinu, hundur fylgir honum. Komið þið sæl.
Vinnufólkið Komdu sæll.
Indriði Við sáum þig ekki.
Sölvi Eg gekk styzlu leið. Get eg fengið að drekka, eg er þyrstur.
Rannveig Eg skal fara inn.
Sölvi í lægri róm Og get eg fengið að finna Ljót andartak, eg hefi dálítið meðferðis til hennar.
Rannveig Eg skal skila því.
Vinnukonurnar fara inn.
Indriði Segirðu nokkuð í fréttum.
Sölvi Nei.
Indriði Þú ert enn þá á Hól.
Sölvi Já.
Indriði Eru þeir byrjaðir að slá.
Sölvi Nei.
Indriði Þeir eru annars vanir að byrja á undan öllum öðrum.
Jón Þeim veitir heldur ekki af, þeir hafa ekki svo margt fólk.
Rannveig kemur út með mjólk Gerðu svo vel.
Sölvi drekkur Þakka þér fyrir.
Rannveig Eg sagði Ljót, að þú vildir finna hana fer inn.
Helgi Viltu lyfta pokanum upp á mig.
Indriði lyftir upp á hann pokanum, Helgi fer.
Jón gerir upp seinasta reipið Við getum farið að bera viðinn inn.
Ljót kemur út.
Sölvi Komdu sæl, Ljót.
Ljót Komdu sæll, þú vildir finna mig.
Sölvi Þú verður ekki reið við mig — eg hélt, að þú kynnir að hafa gaman af því tekur andarham upp úr töskunni. Eg skaut hana á ánni hérna um daginn, og mér þótti hún svo falleg, að eg tók ham af henni og þurkaði hann. Heldurðu, að þú getir notað hann til nokkurs, t. d. í reiðhúfu.
Ljót Hann er fallegur.
Sölvi Þegar þú heldur vængnum svona, þá er spegillinn blár, en þegar þú heldur honum svona, þá er hann grænn, það er eftir því hvernig ljósið fellur á hann.
Ljót Eg veit ekki, hvort eg þori að taka við honum, eg þekki þig svo lítið.
Sölvi Mér þætti vænt um ef þú vildir þiggja hann.
Ljót Þá þakka eg þér fyrir réttir honum höndina. Hann er ljómandi fallegur.
Sölvi í hálfum hljóðum Ferðu aldrei einsömul út í hraunið.
Ljót Því spyrðu um það?
Sölvi Þú þekkir gamla reynitréð, það er ekki nema tíu mínútna gangur héðan, eg hefi fundið þar fágæt blóm, sem eg ætla að grafa upp með rótum, svo að eg verð þar næsta sunnudag. Eg hélt, að þú kynnir að koma út í hraunið á sunnudagana.
Ljót roðnar Það veit eg ekki.
Sölvi Það er föstudagur í dag. Eg verð þar allan sunnudaginn. Vertu sæl, Ljót.
Ljót utan við sig Vertu sæll.
Sölvi Eg verð þar þegar sólin rís, — og eg verð þar þegar sólin gengur undir fer.
Sveinungi kemur út Hver fór?
Indriði Er hann farinn? Það var Sölvi.
Sveinungi Hvað vildi hann?
Indriði Hann fékk mjólk að drekka.
Sveinungi Eg sá ekki betur en að hann væri að tala við þig. Hvað er þetta, sem þú hefir?
Ljót Hann gaf mér fuglsham.
Sveinungi Svei aftan! Þú hefðir átt að láta hann eiga hann sjálfan.
Ljót Eg held, að það hafi ekki verið neinn glæpur.
Sveinungi Einar hefði víst getað skotið handa þér eins fallega önd, ef þú hefðir beðið hann um það. — Hvað er að sjá þetta, þú ert kafrjóð.
Ljót Mér datt ekki í hug, að þú reiddist, þó að eg tæki við fuglshaminum.
Sveinungi Eg vil ekkert hafa að sýsla með þenna grasafræðing, hann labbar sveit úr sveit eins og versti flækingur, hann ætti ekki annað eftir heldur en að fara að reyna að veiða þig. — Fáðu mér dýrið, eg skal skila honum því, þegar hann kemur hingað næst, og það líður ekki á löngu.
Ljót Það er bezt, að eg brenni hamnum sjálf, úr því að þú getur ekki unnað mér að eiga hann fer inn.
Sveinungi talar í dyrunum Og svo verðurðu reið í þokkabót! Eruð þið búnir að leysa upp?
Indriði Já.
Sveinungi Hvar er Helgi?
Indriði Hann fór út í myllu.
Helgi kemur inn
Sveinungi Þarna kemur hann — Þið gerið eins og eg er búinn að segja ykkur fer inn.
Helgi Hefir nokkuð komið fyrir. Mér þótti Sveinungi vera byrstur.
Indriði Það var ekkert.
Helgi Er Sölvi farinn?
Indriði Já, hann er farinn. Við skulum flýta okkur að koma varningnum inn, þið getið verið inni í skemmunni og tekið á móti.
Þeir bera kornmatinn inn í skemmuna.
Einar kemur út í smiðjudyrnar Ó-já, eg er orðinn gamall, þeir voru tímarnir, að eg sló þrjá naglana í hitunni, nú slæ eg með naumindum einn.
Helgi Enginn verður ungur í annað sinn.
Einar Og við getum ekki kastað ellibelgnum, eins og þeir gerðu á fyrri tíð.
Helgi Langar þig til þess.
Einar Eg veit það ekki, eg held, að þessir nýju siðir séu ekki við mitt hæfi. Fer inn í smiðjuna.
Fríða kemur út Eg átti að segja ykkur að koma að borða. Hleypur inn beint í fangið á Sveinunga.
Sveinungi kemur út Svona — svona — þið eruð þá búnir að koma varningnum undir þak, og þið hafið selt reipin inn í útiskemmuna, það var gott. Svo er bezt, Helgi, þegar þú ert búinn að borða, að þú farir að byrja að rista torfið, hinir koma þegar þeir eru búnir að hvíla sig. Í hálfum hljóðum Einar, viltu segja Ljót að koma snöggvast út, eg þarf að finna hana.
Einar Eg skal segja henni það.
Þeir fara inn.
Sveinungi lokar útiskemmunni, lítur inn í mjólkurskemmuna og læzt vera að athuga eitthvað.
Ljót kemur út Hérna er eg, pabbi.
Sveinungi Eg heyrði ekki til þín brosir. Þú ert léttstig eins og folald. Þér þótti við mig út af þessu, sem eg sagði við þig áðan, það er vegna þess að eg vil þér vel. Eg vil ekki að þessi flökkuhundur sé að dingla rófunni framan í þig, það er bezt að náunginn hafi eitthvað annað að umtalsefni.
Ljót gengur að girðingunni og styður höndunum fram á hana.
Sveinungi En eg ætlaði ekki að tala við þig um það gengur til hennar. Þú kannast við Árna, bóndann í Skriðu, þú hefir séð Hálfdan, yngsta son hans, hvernig lízt þér á hann?
Ljót Eg hefi séð hann svo sjaldan.
Sveinungi Þeir eru tveir bræðurnir, sá eldri er giftur — hann á að taka við jörðinni — en Hálfdan er sá bræðranna, sem líkist Árna gamla mest. Þú ættir að koma á það heimili, túnið er næstum eins stórt og okkar tún og grasið liggur í legum á stórum blettum, eg hefi sjaldan séð fallegra. Við töfðum þar fullan klukkutíma, þegar við riðum heim úr kaupstaðnum, Jórunn og eg; það var ekki tekið amalega á móti okkur. Þig grunar ekkert, hvað það var, sem við vorum að tala um.
Ljót Nei.
Sveinungi hlær Ekki það. Árni spurði mig, hvort eg vildi fá Hálfdan fyrir tengdason.
Ljót Hverju svaraðir þú?
Sveinungi Eg svaraði, að eg fyrir mitt leyti væri málinu hlyntur. Eg væri ánægður ef þú fengir annan eins mann og Hálfdan — við erum orðin gömul, eg og mamma þín, við vitum ekki, hvenær dauðinn kemur, hann getur komið þegar minst varir, og eg vil fá að sjá, hver tekur við, þegar eg fell frá.
Ljót Þú ert ekki orðinn gamall.
Sveinungi O-jú, eg finn það, það kemur fyrir, að eg þarf að halda á hinu eða þessu og er búinn að gleyma, hvar eg geymi það; það vildi ekki til á meðan eg var ungur, það var enginn sá hlutur, sem eg mundi ekki. En hvað segir þú barnið mitt, mamma þín er á sömu skoðun sem eg, svo að það er komið undir þér sjálfri, — hvort þú vilt þína eigin gæfu eða ekki.
Ljót Eg er hrædd um, að eg vilji ekki mina eigin gæfu.
Sveinungi Þú ættir að hugsa áður en þú talar. Þú ímyndar þér, að annar eins biðill og Hálfdan komi til þín á hverjum degi. En það er ekki heldur alvara þín, þú vilt, að hann tali við þig sjálfur.
Ljót Eg er svo ung enn þá, pabbi.
Sveinungi Þú ert nítján ára, þær gifta sig margar þegar þær eru sautján, og þú ert svo vel að þér, að þú getur staðið fyrir búi, það er óhætt með það, eg þarf ekki að skammast mín fyrir þig þess vegna — þar að auki hefirðu mömmu þína, því að það er auðvitað, að þið verðið hjer, þið haldið brúðkaupið í haust og næsta vor takið þið við jörðinni.
Ljót Eg þekki manninn svo sem ekki neitt.
Sveinungi Við þektumst ekki, eg og móðir þín, og eg veit þó ekki betur en að okkur hafi farnast vel í öll þessi ár — þeir verða ekki altaf gæfusamastir, sem giftast fyrir þessa svokölluðu ást. — Og við erum bernsku vinir, Árni og eg, það má heita, að eg sé búinn að gefa honum loforð fyrir þér.
Jórunn kemur út.
Ljót réttir sig upp Þú áttir ekki að gera það, fyr en þú varst búinn að tala við mig.
Sveinungi Eg þekki þig ekki fyrir sömu stúlku! Er það alvara þín, að þú ætlir að breyta þvert á móti vilja foreldra þinna! En þú skalt vita það, að ef þú ert að hugsa upp á þennan grasaflæking, þá skal það aldrei verða — ekki á meðan eg lifi fer út.
Jórunn Pabbi þinn var reiður. Hvað voruð þið að tala um?
Ljót Hann vill, að eg giftist manni, sem eg þekki ekki neitt.
Jórunn Vill hann það? Þú getur ekki sagt, að þú þekkir Hálfdan ekki neitt.
Ljót Eg hefi aldrei talað við hann eitt einasta orð.
Jórunn Hann hefir komið hér þó nokkrum sinnum og gist hér eina nótt — þar að auki þekkir þú hann af afspurn, og ættina hans þekkirðu, þeir eru fáir, sem aldrei hafa heyrt getið um Hofstaðaættina.
Ljót Pabbi hefir gefið honum loforð fyrir mér, án þess að nefna það við mig sjálfa, það átti hann ekkert með.
Jórunn Skárri er það ákafinn í þér, Ljót. — Eg er alveg hissa. — Þú ert líklega trúlofuð, án þess að foreldrar þínir viti nokkuð af.
Ljót Nei, eg er ekki trúlofuð.
Jórunn Þér er óhætt að trúa mér fyrir því. Hafirðu gefið einhverjum heitorð, verðurðu að efna það.
Ljót Eg er búin að segja þér, að eg er ekki trúlofuð.
Jórunn Þú færir ekki að segja móður þinni ósannindi — en eg skil þig ekki, úr því að þú ert laus og liðug. Hálfdan er ungur maður og duglegur og faðir hans er einhver efnaðasti bóndinn og mest metinn í sinni sveit.
Ljót Mér þykir ekki vænt um Hálfdan. Þú vilt ekki, að eg giftist manni, sem mér þykir ekkert vænt um hallar sér fram á girðinguna.
Jórunn Þér fer að þykja vænt um hann þegar þið eruð gift. Gengur til hennar. Þetta er vandamál. Þú iðrast ekki eftir því þó að þú hugsir þig vel um. Þú mátt vara þig á því að hrinda gæfunni frá þér, þegar hún kemur upp í hendurnar á þér, það hefnir sin. Og það veiztu, að við foreldrar þínir viljum þér ekkert annað en alt hið bezta.
Ljót með grátstaf í kverkunum Mér finst þið bæði vera svo hörð við mig, þú og pabbi.
Jórunn strýkur hárið á Ljót Þú leynir mig einhverju. Eg get hugsað mér, hvað það er. Þér þótti vænt um fuglshaminn, sem þér var gefinn í dag.
Ljót þegir
Jórunn Það var sama veturinn sem Sveinungi bað mín, þá kom maður á mitt heimili, hann ferðaðist við trésmíðar. Eitt kvöld færði eg honum kaffi út í smíðastofuna, þar stóð stórt kofort, sem hann geymdi verkfærin sín í, eg man glögt eftir því, það var gult. Eg beið á meðan hann drakk kaffið, til þess að geta farið inn aftur með bollann, þá fór hann niður í kofortið og tók lítið saumaskríni upp úr því, það var úr móbrúnum við, lokið var hvelft með skornum dýramyndum — hann gaf mér skrínið. Svo þegar eg ætlaði að fara, þá bað hann mig að kyssa sig — það vildi eg ekki.
Ljót Þú hefir aldrei sagt mér þetta fyr, mamma.
Jórunn Hann var fallegur maður, brúneygður. — En þegar pabbi þinn kom, vildi pabbi minn og mamma, að eg giftist honum, — það var ekki laust við að eg tæki það nærri mér, en eg vildi ekki styggja foreldra mína — mér fanst það vera skylda mín að vera þeim til ánægju. — Þar að auki hafði hinn maðurinn aldrei spurt mig beinlínis að því, hvort eg vildi verða konan hans.
Ljót En það var hann, sem þér þótti vænt um.
Jórunn Það fanst mér þá. Þegir. Hann fór frá okkur sama kvöldið sem hann heyrði, að eg væri trúlofuð. Hann druknaði ári eftir að eg giftist — sumir sögðu, að hann hefði drekt sér sjálfur.
Ljót Það hefir ef til vill verið þér að kenna.
Jórunn Þetta segir þú við hana móður þína!
Ljót Þú mátt ekki reiðast við mig, mamma. Eg veit, að þú hefir breytt eins og þér fanst vera réttast.
Jórunn Það er ekki mikið varið í þann mann, sem flýr undan forlögunum. Það hefði ekki orðið mér til neinnar gæfu að búa með honum — og eg get ekki kosið mér betri mann en föður þinn, — þegar tvær manneskjur búa saman alla æfina með þeim einlæga ásetningi að gera hver sina skyldu, þá vex kærleikurinn eftir því sem árin líða Þegir. Eg hefi sagt þér þetta til þess að þú gætir hugsað um það, en ef þú ert sannfærð um að þú breytir rétt í því að fara ekki að ráðum foreldra þinna, þá verður það svo að vera.
Ljót þegir.
Jórunn Þú segir ekki neitt barnið mitt. Eg hefi reynt eftir því sem inínir veiku kraftar leyfðu að breyta eins og mér fanst vera min skylda alla mína æfi. Eg get ekki ráðið dóttur minni annað né betur. Þegar sorgin heimsækir þig, og hún kemur einhvern tíma, þá verður það þó það eina, sem gefur huggun.
Ljót í hálfum hljóðum Eg skal gera eins og þú vilt, mamma.
Jórunn Eg vissi alt af, að eg átti góða dóttur strýkur á henni hárið. Hvað hann pabbi þinn verður glaður, þetta verður hátíðisdagur, og þú iðrast aldrei eftir því að þú lætur að vilja foreldra þinna fer inn.
Ljót stendur kyr.
Einar og Fríða koma út.
Einar Þú getur byrjað að blása, eg vona, að eldurinn sé ekki dauður þau fara inn í smiðjuna.
Helgi kemur út, fer inn i smiðjuna, kemur aftur með torfljá i hendinni.
Einar í smiðjudyrunum Þú kemur heim að borða miðdegismatinn.
Helgi Nei, þeir færa mér hann, Jón og Indriði fer.
Sveinungi kemur út Þú stendur þá þarna. Viltu ekki koma inn og tala við pabba þinn klappar á öxlina á henni. Þetta er sá bezti dagur, sem eg hefi lifað síðan eg fékk hana móður þína þau fara inn.
Jakobína kemur út, heldur á hænsnadisk, gengur að smiðjudyrunum. Er Fríða þarna. Má hún fara með hænsnamatinn fyrir mig?
Einar Já.
Fríða fer með hænsnamatinn.
Jakobína Hvað ertú' að smíða í dag?
Einar Eg er að smíða skeifunagla kemur út i dyrnar. Nú væri heyþurkur, það er ekki nokkur skýhnoðri á loftinu.
Jakobína sezt á hestasteininn. Mig dreymdi svo undarlega í nótt. Eg þóttist vera stödd úti á túni. Þá sá eg risa koma vaðandi yfir hraunið, eg sá, að hann stóð heima við bæinn — hann stóð með útbreiddan faðminn og grúfði sig yfir bæinn.
Tjaldið.
Tún. Tjald fremst til hægri, bærinn kippkorn fjær til vinstri, fjárhús i túnjaðrinum, þakið er hrunið og einn veggurinn. Bak við víðáttumikið hraun. Þetta er kvöld sama dag. Fólkið situr fyrir utan tjaldið, heldur hendinni fyrir augunum og bænir sig.
Jórunn tekur höndina frá augunum Góðar stundir.
Fólkið stendur á fætur og býður góðar stundir með handabandi.
Jórunn klappar Friðu á vangann Þú skalt ekki vera hrædd, guð hjálpar þeim, sem treysta á hann tekur sálmabækurnar. Viltu láta bækurnar inn í tjaldið, Ljót, það er of snemt að fara að hátta.
Jón Já, það er of snemt.
Helgi Og við getum ekki sofið — ekki eg.
Björg Og ekki eg.
Jórunn Og færður mér skóna, sem eg var að brydda, eg lét þá inn í tjaldið.
Sumir setjast og sumir leggjast niður í grasið, Sveinungi er sá eini, sem stendur.
Ljót kemur út úr tjaldinu Hérna eru skórnir, mamma.
Jórunn Þakka þér fyrir.
Ljót legst niður í grasið og horfir yfir hraunið.
Þögn.
Indriði Þið heyrðuð kirkjuklukkurnar hringja.
Einar Nei, ekki heyrði ég það.
Indriði Það var rétt á eftir jarðskjálftanum.
Jórunn Eg heyrði það. Þær hafa hringt sér sjálfar.
Einar Eg hefi ekki heyrt það fyrir suðunni í ánni.
Þögn.
Indriði Hvar varst þú, Þóra, þegar jarðskjálftinn kom?
Þóra Eg var í eldhúsinu.
Indriði Já, það er þín vika.
Þóra Mér er óskiljanlegt, hvernig eg komst út, því að gólfið sporreistist og eg hentist út að vegg. — Og þú hefðir átt að sjá mig, þegar eg kom út, eg var kolsvört í framan af sótinu, sem hrundi niður úr rjáfrinu.
Jón Hvar voruð þið hinar?
Björg Við vorum inni í baðstofunni að hrista ullina.
Rannveig Það var eins og einhver rifi í þakið og ætlaði að kippa bænum upp.
Indriði Við vorum að hugsa um að hlaupa heim frá vinnunni til þess að vita, hvernig liði, en svo vissi eg, lítur til Sveinunga að einhver yrði sendur til okkar ef eitthvað alvarlegt hefði komið fyrir — þar að auki vildum við rista svo margar torfur, að við þyrftum ekki að fara í annað skifti úr því að við vorum byrjaðir.
Jón En eg verð að segja, að það var ónotalegt að byrja aftur — það var eins og eg væri að rista í lifandi skepnu — það var eins og eg væri að flá lifandi hold.
Rannveig Ho! ho!
Jón Og risturnar frá því í fyrra voru eins og ljót ör.
Þögn.
Jórunn Þið hittuð engan á heimleiðinni?
Indriði Nei.
Jórunn Og það hafa engir gestir komið seinni partinn í dag. Þeir koma ekki þegar manni er þægð í því, eg hefði átt að senda einhvern ykkar til næsta bæjar til þess að vita, hvernig líður að minsta kosti þar.
Jón Eg get vel farið enn þá ef húsmóðirin vill.
Jórunn O-nei, það er orðið svo framorðið. — Eg vona, að það hafi hvergi komið fyrir nein stór slys.
Indriði Það vona eg líka.
Jón Þá er eg hræddur um að bærinn í Vík hafi hrunið, hann er bæði gamall og illa bygður, það er munur eða hérna.
Þögn.
Jórunn Heyrðu mig, Sveinungi, átti drengurinn að sitja yfir ánum alla nóttina.
Sveinungi Auðvitað, hann getur sofið á morgun.
Jórunn Það getur gripið hann hræðsla þegar hann er einsamall.
Sveinungi Hann er ekki kjarkminni en þeir fullorðnu.
Jórunn Eg sá, að hann kallaði á báða hundana.
Þögn.
Einar Þú hefðir átt að sjá valina, Jórunn, rétt á eftir jarðskjálftanum, þeir flugu hvíldarlaust, fram og aftur, eins og þegar þeir verja hreiðrið.
Jórunn Þeir hafa orðið hræddir.
Einar Það var heldur ekki furða – heil björgin hrundu niður í ána — féð uppi í heiðinni hljóp saman í stórhópa, það var líkast að sjá eins og gamlar fannir.
Jón Þú hefir verið á veiðum?
Einar Nei. Eg var að gæta að valnum, hvort hægt væri að siga í bjargið.
Jórunn Viltu ekki setja þig niður, Sveinungi, þú verður þreyttur á að standa.
Sveinungi Eg er ekki þreyttur.
Þögn.
Helgi Eg sá mann úti í hrauninu rétt áðan, hver skyldi það vera?
Indriði Eg sá hann líka. Eg get ekki ímyndað mér neinn annan en grasafræðinginn.
Jón Það er hann, hann var með byssu og hund.
Þögn.
Ljót En sú kyrð, sem er yfir hrauninu.
Einar Eg hélt, að þú værir að hlusta eftir einhverju – þá lást svo grafkyr, eg hélt, að þú hlustaðir eftir jarðskjálftanum, það var varla, að eg sæi á þér hendurnar, þær voru sokknar svo djúpt niður í grasið.
Fríða Heyrist það þegar jarðskjálftinn kemur?
Rannveig Þú ert hrædd, já, það heyrist stundum á undan.
Indriði Ekki heyrði eg neitt, ekki fyr en í sömu andránni sem jarðskjálftinn kom.
Rannveig Það heyrist heldur ekki nema stöku sinnum, — Það kvað vera eins og dynur af mörg hundruð hestum.
Björg Mér heyrðist það eins og hvinur.
Þögn.
Fríða Ef jörðin opnaðist nú alt í einu hérna sem við sitjum.
Rannveig Hver hefir sagt þér, að það gæti skeð?
Fríða Jakobína.
Rannveig Þú skalt ekki trúa öllu, sem hún segir, hún segir svo margt.
Jakobína Eg segi ekkert annað en sannleikann. Við seinustu stóru jarðskjálftana kom sprunga, sem var margar mílur á lengd, eg sá hana sjálf, það lagði upp úr henni heita gufuna. — Jörðin dró andann með opnum munninum.
Einar við Fríðu Þú skalt ekki vera hrædd. Eg á hosótt lamb, þú manst eftir því, eg skal gefa þér það, ef eg heimti það af fjalli í haust.
Jakobína horfir yfir hraunið Þið þekkið ekki hraunið eins vel og eg. Vitið þið, hvers vegna vetrarsnjórinn fyllir ekki gjóturnar, hafið þið nokkurn tíma séð svo stórar snjóflyksur, að þær festist í munnunum? — Það er jörðin, sem blæs á móti snjónum, hún býr til gildrur fyrir mennina. — Jörðin er mannæta!
Jórunn Þú mátt ekki hræða barnið, Jakobína.
Þögn.
Einar slítur upp bifurkollu Horfðu á, Ljót, er það ekki dásamlegt, að jarðskjálftinn skuli ekki hafa hrist agnirnar niður.
Ljót Jú.
Einar Og eins og jörðin skalf — hún hafði ekka — gráturinn er erfiður gömlum.
Sveinungi Það ert þú, Jakobína, sem segir, að stundum komi blóð á rúðurnar. Það er illur fyrirboði.
Jakobína Því spyrðu um það. Hefir nokkur orðið var við það hér.
Sveinungi Það stendur á sama hvers vegna eg spyr.
Jakobína Ja, ef eg á að segja eins og er, þá boðar það dauða einhvers á bænum.
Sveinungi Það gæti eins vel átt við bæinn sjálfan.
Jakobína Hvernig þá?
Sveinungi Að hann hryndi.
Jórunn Það er enginn fyrirboði, hvorki fyrir einu né neinu, það er gömul og heimskuleg hjátrú.
Sveinungi Það er ekki svo að skilja að eg trúi á það. — En líttu á rúðurnar, það er eins og þær væru löðrandi í blóði.
Jórunn Það er sólin, sem skín á þær.
Sveinungi Og líttu á gaflana. — Það er ekki hvítara að sjá neðan frá engjunum þegar þú breiðir dúkinn á þakið til þess að kalla á mig heim.
Þögn.
Indriði í hálfum hljóðum Sáuð þið þegar fjárhúsið hrundi?
Þóra Já, það var rétt í því að við komum út.
Indriði Hvað sagði Sveinungi?
Þóra Hann sagði ekki neitt.
Indriði En hann skipaði ykkur að flytja út á túnið?
Þóra Nei, það gerði Jórunn.
Indriði Svo að það var húsmóðirin, sem gerði það.
Sveinungi Eg hefi ekki sagt þér frá því, að þegar eg kom inn í baðstofuna á eftir jarðskjálftanum, þá stóð gamla klukkan okkar.
Jórunn Var hún brotin?
Sveinungi Nei, eg gat komið henni á stað — en þvílík dauðaþögn sem var þegar eg kom inn, grasið skygði fyrir gluggana — það var eins og einhver stæði og hlustaði — það var líkast eins og þegar faðir minn sálugi lá á líkbörunum.
Jórunn Það væri bezt fyrir okkur að fara að hátta, við græðum ekkert á því að vera lengur á fótum.
Sveinungi Eg veit ekki, hvort við hefðum þurft að flýja bæinn, það varst þú, Jórunn, sem vildir það.
Jórunn Eg er viss um, að allir hafa gert það sama á bæjunum hér í kring. Við megum þakka guði fyrir, að það var sumar, svo að við gátum flutt út.
Sveinungi Þakka. Eg veit ekki betur en að það sé minn bær! Eg veit ekki betur en að það sé min jörð. Eg hefi bætt hana eins og eg hefi getað. – Og eg heimta réttlæti, líka af guði.
Jórunn Eg vil ekki heyra þetta. Hefirðu keypt jörðina af guði? Með hverju hefirðu borgað honum?
Sveinungi Þú þarft ekki að hæðast að mér. Þú getur gengið um túnið með skýlu fyrir augunum án þess að reka tærnar í eina einustu þúfu. — Þú getur tekið skærin þín og klipt handfylli þína af grasi, hvar sem þú vilt, það er alstaðar jafnþétt eins og ull. Og það er alt min vinna.
Jórunn Varst það ekki þú, sem stýrðir hrauninu, þegar það brann fyrir þúsundum ára, og lézt það streyma fram hjá þessum jarðarskekli sem þú stendur á og þykist eiga fer inn í tjaldið.
Sveinungi Þykist eiga! stappar Á! Eg hefi keypt jörðina af guði með minni vinnu.
Fólkið stendur upp.
Jón Eg er að vona, að það mesta sé búið.
Indriði Það vona eg líka.
Björg Það er ekki gott að vita. Þið hafið heyrt getið um miklu jarðskjálftana þegar sjötíu bæir hrundu á einni nóttu.
Þóra Það hefir verið óttalegt.
Sveinungi Hafið þið ykkur inn í tjaldið.
Fólkið fer inn.
Jakobína Það kænii mér ekki á óvart þó eitthvað kæmi fyrir hérna á bænum fer inn.
Sveinungi stendur grafkyr langa stund, gengur nokkur skref, stendur kyr.
Ljót kemur út úr tjaldinu Kemurðu ekki inn, pabbi, mamma bað mig að spyrja þig, hvort þú kæmir ekki.
Sveinungi Eg held, að hún geti farið að sofa, þó að eg komi ekki.
Ljót Við erum öll svo hrædd, pabbi.
Þögn.
Jórunn kemur út úr tjaldinu Það er farið að kólna.
Ljót Já, það er kalt.
Jórunn Sólin er líka gengin undir.
Sveinungi Þú ert komin út aftur Jórunn. Geturðu ekki sofið?
Jórunn Nei, eg get ekki sofið.
Sveinungi Það var þá nótt, sem þú hélzt, að eg hefði orðið úti í stórhríðinni. — Þá logaði ljós í efsta glugganum, mér þótti vænna um að sjá það heldur en þó eg hefði mætt hvaða manni sem var. — Og þegar hundurinn fór að gelta inni í göngunum — — það var eins og bærinn talaði, það var eins og hann væri hávær af gleði, eg hefi aldrei orðið fegnari að heyra nokkra mannsrödd, og þegar eg opnaði dyrnar, og kom inn í göngin — mér fanst myrkrið taka utan um mig, engin manneskja hefir nokkurn tíma tekið eins vel á móti mér, ekki einu sinni dóttir mín þegar hún var barn.
Jórunn Eigum við ekki að fara inn, það er orðið framorðið, þér er óhætt að fara inn, Ljót.
Ljót Eg er að bíða eftir pabba.
Jórunn Heyrirðu það, Sveinungi, Ljót bíður eftir þér, fólkið getur ekki heldur sofnað fyr en þú ert kominn inn.
Sveinungi Eg verð ekki í tjaldinu í nótt, eg fer heim.
Jórunn Hvað segirðu, maður!
Ljót Góði pabbi!
Sveinungi Eg læt enga heimskulega hræðslu reka mig út úr mínum húsum, og það er ekkert annað en heimska, jarðskjálftinn kemur ekki svo skyndilega, að eg hafi ekki tíma til þess að komast út – það er óhugsandi — og baðstofan stendur, hún er vel bygð, þó að hún sé gömul.
Jórunn Heldurðu, að baðstofan stæði, ef stór jarðskjálfti kæmi — það getur ekki verið alvara þín.
Sveinungi Það er óvíst að kippirnir verði fleiri — það er tóm ímyndun, að jarðskjálftinn hljóti að halda áfram, mér þykir líklegra, að hann sé búinn — eg finn það á mér við seinustu orðin kemur fólkið út úr tjaldinu. Því eruð þið að þjóta út, farið þið inn!
Jakobína Eg verð að segja húsbóndanum, hvað mig dreymdi í fyrri nótt. Eg þóttist standa úti á túninu, þá sá eg risa koma vaðandi yfir hraunið hún gengur eitt fótmál fram, röddin verður grimm. Hann fálmaði, eins og hann væri blindur — hann stóð heima við bæinn með útbreiddan faðminn — hann grúfði sig yfir bæinn og stóð grafkyr eins og steinkross krossar sig.
Sveinungi Hefi eg spurt þig um, hvað þig hefir dreymt?
Jórunn Þú mátt ekki vera inni í bænum í nótt, eg bið þig um það — það væri að freista guðs.
Sveinungi Það er öllu heldur hann, sem freistar min! Ef eg flýði, þá verðskuldaði eg að bærinn hryndi bendir á bæinn. Þarna hefir hann staðið og beðið mín kvöld eftir kvöld, síðan eg man eftir mér. Eg hefi séð rúðurnar rauðar af sól, eg hefi séð þær votar af regni, eg hefi séð þær hvítar af frosti — við höfum verið saman síðan eg var barn, eg klifraðist upp á veggina eins og eg klifraðist upp á öxlina hans pabba míns, eg stóð uppi á burstinni og fanst bærinn lyfta mér til þess að eg sæi betur yfir. Nei, Jórunn, þó að eg vissi, að jarðskjálftinn kæmi, þá færi eg heim, það er heldur ekki furða þó að mig langi til þess að hátta niður í rúmið mitt, eg er orðinn gamall, og þar hefi eg vaknað, má heita hvern morgun alla mina æfi, eg hefi lagt mig út af svo þreyttur, að eg gat varla staðið á fótunum, og vaknað ungur og fjörugur, eg hefi legið veikur og séð sólargeislana færast yfir gólfið. Sveinungi fer heim.
Jórunn Ferðu heim! gengur á eftir honum. Hvað sem fyrir kemur – það skal eitt yfir okkur bæði ganga.
Sveinungi nemur staðar, lítur um öxl Heyrið þið það, konan mín er ekki hrædd.
Sveinungi og Jórunn fara heim.
Þögn.
Jakobína Guð veri með ykkur — þið hafið verið mér góðir húsbændur í nítján ár fer inn i tjaldið.
Helgi Nú eru þau komin inn.
Björg Já, nú eru þau komin inn.
Jón Eg held, að við reynum að fara að sofa, við getum hvort sem er ekkert gert.
Indriði Nei, við getum ekkert gert.
Þóra Þetta verður langa nóttin.
Rannveig Vesalings Ljót.
Fólkið tínist inn í tjaldið, Einar og Ljót standa þegjandi.
Einar Eigum við ekki að fara út í hraunið, það er betra fyrir þig að vera þar, eg veit af gjá, sem þú hefir aldrei komið í.
Tjaldið.
Hraungjá, veggirnir eru nokkrar álnir á hæð, burknar og hátt gras vex í gjánni, fáeinir stórir mosavaxnir steinar standa upp úr grasinu. Þetta er um nótt.
Einar hjálpar Ljót niður Þú getur tylt fætinum þarna — og svo þarna — svona.
Ljót stekkur niður.
Einar Þetta gekk ágætlega. Það er erfiðast að komast niður, það er hægðarleikur að komast upp.
Ljót Það er fallegt hérna.
Einar Já, þykir þér það ekki.
Ljót Heldurðu ekki, að það hrynji úr veggiunum ef jarðskjálfti kæmi.
Einar Ertu hrædd.
Ljót Nei.
Einar Það hefir ekkert hrunið í dag, við sæjum hrunið.
Ljót Hefði pabbi og mamma ekki farið inn í bæinn, þá hefðum við ekki farið út í hraunið — það er undarlegt. Ætli að þau sofi.
Einar Það er mér nær að halda, að minsta kosti pabhi þinn. Hér er kalt, finst þér ekki?
Ljót Mér er ekki kalt sezt.
Einar Það leggur kulda upp úr jörðinni og það er dögg á grasinu. — Mér þykir ekki eins skemtilegt að vera hérna eins og eg hélt. — Eigum við ekki að fara?
Ljót Ekki undir eins. — Eg er óhræddari um pabba minn og mömmu þegar eg er hérna þegir. Heldurðu, að við heyrðum fótatakið, ef gengið væri uppi í hrauninu?
Einar Því spyrðu að því? Það kemur enginn hingað svona seint.
Ljót Eg veit það ekki þegir. Hér er kyrt.
Einar Já, hér er kyrt.
Þögn.
Ljót Sástu, að það gekk maður úti í hrauninu í kvöld?
Einar Já.
Ljót Hver heldurðu að það hafi verið?
Einar Það var Sölvi. Við sáum hann ekki á leiðinni hingað.
Ljót Eg sá hann.
Einar Þú sagðir mér ekki frá því. Hvar var hann?
Ljót Hann gekk rétt fram hjá hraunkarlinum.
Einar Þá hefðum við getað kallað til hans. Það hefði verið gaman að því að hitta hann, hann hefði ef til vill getað sagt okkur eitthvað í fréttum. — Hvað ertu að hugsa?
Ljót Mér datt í hug gömul saga, sem Jakobína hefir sagt mér.
Einar Um hvað er hún?
Ljót stendur upp Hún er um stúlku — hún fór berfætt út í hraunið til þess að hitta vin sinn — það óx mosi í sporunum hennar.
Hundur geltir.
Einar Hvað er þetta?
Sölvi uppi á brúninni Gott kvöld!
Einar Gott kvöld. Er þú hérna?
Sölvi Já, eg er hér. Get eg komist niður?
Einar Það er hægur vandi.
Sölvi á leiðinni niður Eg sá ykkur úti í hrauninu kemur niður, hann hefir byssu, hundur fylgir honum. Það er ánægjulegt að hitta manneskjur. Gott kvöld Ljót. Hvernig stendur á því, að þið fóruð að fara hingað?
Einar Við getum spurt þig að því sama.
Sölvi Eg er vanur við að vera úti á nóttunni á meðan þær eru bjartar, eg sef oft undir berum himni — en í nótt held eg, að eg geti ekki sofið, það hefir verið ljóti dagurinn setur byssuna upp við vegginn. Hvernig líður hjá ykkur?
Einar Eitt fjárhúsið hrundi og túngarðurinn skemdist.
Sölvi Á Hól hrundi bæjarstafninn, það var með naumindum að fólkið komst út.
Einar Það hafa ekki orðið nein slys.
Sölvi Nei — en eg hélzt þar ekki við — Eg sá, að ykkar bær var óskaddaður, og þá varð eg rólegri. — Þið hafið flutt út á túnið — auðvitað — eg sá tjaldið.
Einar Heldurðu, að það komi fleiri kippir?
Sölvi horfir á Ljót.
Ljót í hálfum hljóðum Eigum við ekki að fara heim, Einar.
Sölvi Þú ætlar ekki að fara — þú verður að segja mér, hvers vegna þú fórst út í hraunið — Þú varst hrædd —
Ljót Pabbi og mamma sofa inni í bænum.
Sölvi Inni í bænum!
Ljót Við ætluðum að fara að hátta, en þá vildi pabbi ekki fara inn í tjaldið, mamma bað hann að vera kyrran, en það var árangurslaust, og þegar pabbi fór heim, þá vildi mamma fara líka.
Sölvi En bærinn getur hrunið á einu andartaki ef nýr jarðskjálfti kemur.
Einar Það veit Sveinungi eins vel og við, en hann vildi ekki, að hann stæði tómur.
Sölvi Við verðum að vona, að það komi ekkert slys fyrir þau. Varstu ekki hissa þegar þú heyrðir hundinn gelta?
Ljót Eg vissi, að það varst þú.
Sölvi Vissirðu það?
Einar tekur byssuna Má eg skoða byssuna?
Sölvi Já.
Einar Er hún hlaðin?
Sölvi Já, hún er hlaðin. Við Ljót Viltu ekki sitja bendir á einn steininn Þessi steinn hefir beðið eftir þér — það er þess vegna að hann er orðinn mosavaxinn.
Ljót brosir Það held eg ekki.
Sölvi gengur nokkur skref Eg þarf að sýna þér dálítið krýpur.
Einar setur byssuna upp við vegginn Byssan er falleg, hún hefir kostað skildinginn, þú hefir keypt hana sjálfur í útlöndum.
Sölvi Já, eg hefi keypt hana sjálfur stendur upp, heldur á háum burkna í hendinni. Horfðu á, Ljót. Þykir þér þetta ekki fallegur burkni, hann er næstum því eins hár og þú, grannur og beinvaxinn, leggurinn er lítið eitt grófari en hár og þó getur þú falið andlitið á bakvið blaðið felur andlitið á Ljót. Það bærist þegar þú andar á það.
Ljót brosir Þú hefir tekið hann upp með rótum, må eg eiga mosann, sem þú hefir slitið upp.
Sölvi losar mosann frá rótinni.
Ljót Eg fer með hann heim. — Þegar hann visnar ætla eg að geyma hann í skónum mínum.
Sölvi Geyma hann í skónum þínum? — Sjáðu, þarna eru tveir smáburknar á sömu rótinni, þeir eru eins og grannar hendur sezt á einn steininn og horfir á Ljót.
Vængjaþytur.
Einar Hvað er þetta? hlustar.
Sölvi Heyrðirðu eitthvað?
Einar Mér heyrðist vængjaþytur.
Ljót Hjeppi hefir heyrt það líka.
Sölvi klappar á hnéð á sér Komdu greyið.
Hundurinn hleypur til hans.
Einar Eg er viss um að það flaug fuglahópur. — Það er undarlegt, núna um hánóttina.
Sölvi Það getur verið, að fuglarnir séu órólegir vegna jarðskjálftans.
Einar Það er sennilegt. Eg sá tvo stóra lóuhópa í fyrradag, eg hefi aldrei séð þær hópa sig á þessum tíma árs.
Sölvi talar við hundinn Á eg að klappa þér?
Ljót Þetta er fallegur hundur.
Sölvi Mér þykir líka vænt um hann.
Einar Heyrið þið! Þarna fljúgja þeir aftur.
Ljót stendur upp Eg heyrði það.
Sölvi stendur upp.
Einar Þeir flugu rétt fram hjá okkur. Eg fer upp fer upp.
Ljót Þeir flugu hart.
Sölvi Mér þótti vænt um að hitta þig. Það var núna í kvöld — eg rétti ósjálfrátt fram hendurnar á móti sólinni þegar hún var að ganga undir — eins varð mér þegar eg sá þig.
Einar uppi á brúninni Það eru gæsir — þær fljúga óvenjulega lágt — þær setjast. Blessaður taktu byssuna þína og komdu upp – eg vildi óska að eg hefði mína byssu.
Sölvi tekur byssuna Eg skal lána þér mína réttir Einari byssuna. Hún er viss á þrjátíu föðmum.
Einar tekur við byssunni Hvaða högl eru í henni?
Sölvi Það eru andahögl.
Einar Þér leiðist það ekki, Ljót, eg verð ekki nema litla stund, ef þær fljúga upp, þá reyni eg ekki að elta þær fer.
Sölvi Eg hlýt að vera gæfumaður.
Ljót Þú mátt ekki halda að eg hafi farið út í hraunið þín vegna — eg sá þig úti í hrauninu, en það var Einar, sem stakk upp á því að við færum. — En við skulum ekki tala um það. — Því vildirðu koma heim frá útlöndum.
Sölvi Það var þín vegna.
Ljót Það er ekki satt sezt.
Sölvi þegir stundarkorn Það er ef til vill sannara en þú heldur sezt. Það var eina nótt, seinasta veturinn, sem eg var í burtu, mig hefir sennilega dreymt, en mér fanst eg vera vakandi. — Eg var kominn heim. Eg var á gangi úti í hrauninu. Það var fallin aska yfir hraunið. Alt í einu steyptist eg niður í djúpa gjá. — Eg hrapaði — og eg hrapaði. — Eg lá niðri á gjáarbotninum, og gat hvorki hreyft legg né lið – og dauðinn kom og saug lífið út úr augunum á mér, hann hélt því á milli handanna eins og svolitlum loga. Þá stóð kona við hliðina á mér, hún var í mosaklæðum — hún bað dauðann að lífga mig. – En fyrir lífgjöfina verður hún að sitja niðri í gjánni, dag og nótt, hreyfingarlaus — í sama vetfangi sem hún stendur á fætur og askan hrynur úr höndunum á henni, þá dey eg. — Hún var lík þér. Það er þú. Veiztu, að líf mitt er í þínum höndum.
Þau standa bæði upp.
Ljót Eg held, að það sé réttast að við förum. Það er ekki gott að vita, hvenær Einar kemur, hann gleymir sér þegar hann er á veiðum.
Sölvi Eg elska þig, Ljót. Þú hefir aldrei horfið úr huga mínum síðan í fyrsta sinni að eg sá þig. Allir hlutir minna mig á þig. — Sólin og himininn.
Ljót Eg hefi líka haft ánægju af því að sjá þig og tala við þig stendur grafkyr. Það var í gærmorgun rétt þegar þú varst farinn, þá sagði pabbi mér frá því að hann hefði heimsótt gamlan vin sinn í kaupstaðarferðinni — hann vildi að eg trúlofaðist yngsta syni hans – það vildi eg ekki af því að eg hugsaði um þig en svo kom mamma og þá gat eg ekki annað en látið eftir henni.
Sölvi En að eg skyldi ekki hafa talað við þig fyr þegir. Eg vildi sízt af öllu særa þig — en þú mátt ekki láta foreldra þína ráða yfir þínum tilfinningum, þú verður að ráða yfir þeim sjálf.
Ljót Þú þekkir ekki pabba minn. Ef hann vissi, að við værum hérna núna — eg veit ekki, hvað hann gerði.
Sölvi Eg er viss um að foreldrar þínir óska einskis frekara en að þú eigir glaða daga.
Ljót Eg veit ekki. Mamma min talar sjaldan um gleði. — Hún gerir skyldu sína – og eg þekki mina skyldu snýr að uppgöngunni.
Sölvi Ætlarðu að fara?
Ljót Eg kom hingað út í hraunið af því að eg vildi sjá þig einu sinni enn þá — mér fanst eins og einhver skipaði mér að fara — en það er bezt, að við sjáumst ekki oftar — það væri okkur til kvalar gengur tvö skref.
Sölvi gengur á eftir Ljót. Þú veizt ekki, hvað þú ert að gera, þú ert að fremja glæp — allar þær hamingjustundir, sem forlögin hafa ætlað okkur að una saman — því að þér þykir vænt um mig, Ljót? — þykir þér ekki?
Ljót Þegir.
Sölvi Eg hélt, að þér þætti vænt um mig. Þú roðnaðir þegar þú talaðir við mig í gærmorgun. Eg hélt, að það væri loforð, sem kæmi frá hjartanu — eg varð frá mér numinn af fögnuði.
Ljót Það má einu gilda hvern mér þykir vænt um, eg er bundin við loforð mitt.
Sölvi Þú heldur, að það sé skylda þín að efna loforð þitt, en það er til önnur skylda, sem er margfalt stærri — og það er skyldan við gleðina — það er ekki til nein stærri skylda — það er tilgangur lífsins. Þú hlýtur að vita það, þú sem hefir vaxið upp úr jörðinni eins og blóm.
Ljót Það er ekki eingöngu vegna þess að eg er bundin við loforð mitt — ef eg væri föður- og móðurlaus þá sviki eg það — en eg veit, að það yrði foreldrum mínum óbærileg sorg — faðir minn sagði við mig í gær, að það væri hamingjusamasti dagurinn á æfi hans, síðan hann fékk mömmu, og eg veit, að hann hefir sagt satt.
Sölvi Þú verður að segja foreldrum þínum, að þú getir ekki efnt loforðið, þú verður að segja þeim það mín vegna krýpur. Þú mátt ekki yfirgefa mig. Þú er einasta manneskjan í öllum heiminum, sem mér þykir vænt um. Eg á ekkert annað föðurland en þig og ekkert heimili, þegar eg hitti þig skildi eg hvers vegna eg er fæddur.
Ljót Eg get ekki breytt illa við pabba minn. Engin manneskja hefir verið eins góð við mig og pabbi.
Sölvi stendur upp Þér þykir ekkert vænt um mig.
Ljót Þú heldur, að eg taki mér þetta létt augun fyllast. Eg á uppsprettulind, eg hreinsa slýið úr henni á hverjum laugardegi, eg hefi sagt henni, hvað þú heitir stígur fyrsta sporið upp klifið.
Sölvi Þú ferð! gengur burtu frá klifinu, sezt á stein, og heldur höndunum fyrir andlitinu.
Ljót stendur þegjandi langa stund. Loksins snýr hún aftur til Sölva, krýpur fyrir framan hann og tekur hend. urnar frá andlitinu á honum. Þú ert hryggur hallar sér upp að honum.
Sölvi tekur um vangana a Ljót og kyssir hana Eg elska þig.
Tjaldið.
Bærinn er hruninn, það aftasta af baðstofunni stendur, þar sést inn í rústirnar eins og inn í dimman helli. Fólkið stendur úti berhöfðað, vinnumennirnir á milliskyrtunum. Sveinungi stendur rétt við munnann. Þetta er sömu nóttina.
Sveinungi Þú þorir ekki að fara inn.
Jón horfir inn í myrkrið Eg veit það ekki. Það er ekki nema ein stoð, sem þakið hangir á, hún getur brotnað þegar minst varir.
Sveinungi Hún brotnar ekki, hún er úr rekavið, hann fúnar ekki.
Jón Þar að auki hallast stoðin; ef svolítið væri ýtt á hana, þá hryndi alt niður og svona þungt þak dræpi hvern mann.
Sveinungi Þú þorir ekki að fara inn. Þorir enginn ykkar hinna?
Jórunn Þú getur ekki skipað nokkrum manni að fara þarna inn.
Sveinungi Þú verður ekki nema andartak að sækja þessa fáu muni, það er skattholið mitt, þú veizt, hvar það stendur, og gamla klukkan mín, þú getur skrúfað hana frá veggnum með vasahnífnum þínum.
Jón Eg fer ekki inn.
Sveinungi Þið drekkið ykkur svínfulla og grobbið, það getið þið fer inn í rústirnar.
Jón Fer húsbóndinn inn.
Sveinungi Heldurðu, að eg láti eigur mínar eyðileggjast, þó að þú sért huglaus.
Jón Þá fer eg líka, það er hægra fyrir tvo.
Sveinungi og Jón hverfa.
Jórunn Það er sama hvað á dagana drífur fyrir þessum manni, hann lærir aldrei að láta undan gengur að rústunum, horfir inn. Sjáið þið til, er ekki svo dimt?
Þögn.
Sveinungi og Jón koma út með skattholið.
Sveinungi Takið þið á móti því, piltar. — Þið getið látið það standa fyrir utan bæinn.
Sveinungi og Jón hverfa aftur inn.
Indriði Þeir bera skattholið upp Má það standa þarna.
Jórunn Já horfir yfir hraunið Þau koma ekki enn þá Einar og Ljót, þið vitið ekki, hvað þau hafa farið langt?
Indriði Nei.
Jórunn Það er vonandi, að þau 'komi heil á hófi aftur horfir inn í rústirnar.
Þögn.
Jakobína kemur frá tjaldinu, leggur höndina á öxlina á Jórunni. Eg þarf að þreifa á þér til þess að trúa því að þú sért ómeidd strýkur á henni handlegginn. Þegar þú fórst inn í bæinn hélt eg, að þú kæmir aldrei lifandi út aftur. Eg hélt, að forlögin hefðu blindað manninn þinn.
Sveinungi og Jón koma með klukkuna.
Sveinungi Þið verðið að vera varkárir, glerið er brotið kemur upp. Þú ert vist búinn að fá nóg af því, Jón, að vera inni í rústunum.
Jón Skemtilegt var það ekki.
Sveinungi Farið þið með klukkuna inn í tjaldið, hún getur skemst ef raki kemst að henni. Björg, sæktu teppi yfir skattholið.
Björg hleypur.
Indriði og Jón fara með klukkuna.
Jakobína fylgir eftir klukkunni.
Jórunn Þú ert lánsmaður, að þú verður ekki fyrir slysum, eins og þú ert djarfur.
Sveinungi Það er mín skylda að sjá um mínar eigur á meðan eg er fær um það. Eg hefi fyr stofnað lífi mínu í hættu og það gapalegar en þetta. — En eg verð að senda einhvern til þess að líta eftir smalanum, það getur verið, að hann hafi mist allar ærnar — vilt þú fara, Jón?
Jón Já.
Sveinungi Það er réttast af þér að reka þær heim.
Jórunn Og ef þú mætir Ljót og Einari, þá segðu þeim að flýta sér.
Jón Eg skal gera það fer.
Sveinungi Já, þau eru ókomin enn. Hvað voru þau að fara út í hraunið?
Björg kemur með teppi Hérna er teppi.
Sveinungi tekur teppið, gengur að skattholinu, strýkur hendinni yfir lokið. Þarna hefir það skemst breiðir teppið yfir það. Ekki hefði mig grunað að þú ættir eftir að lenda í öðru eins dregur þungt andann. Það er erfitt, Jórunn, fyrir eins gamlan mann og mig að sjá allan sinn starfa eyðilagðan.
Jórunn Það er satt.
Sveinungi Það er eina huggunin, að eg fæ duglegan mann til þess að hjálpa mér að byggja upp húsin horfir yfir hraunið. Hvernig stendur á því að Ljót kemur ekki. – Er langt síðan hún fór út í hraunið?
Rannveig Hún fór rétt á eftir að þið fóruð inn í bæinn.
Sveinungi Það færi betur, að hún hefði ekki verið niðri í einhverri gjánni — það er ekki lengi til að vilja. — Veggirnir geta hrunið — eða gjáin getur lokast.
Indriði kemur frá tjaldinu Nú koma þau Einar og Ljót, við sáum þau frá tjaldinu.
Sveinungi Það var gott gengur nokkur skref. Já, þarna koma þau. Ljót hefir séð okkur, hún hleypur.
Jórunn gengur nokkur skref Hún hefir haldið, að við höfum orðið undir rústunum.
Sveinungi Það er maður með þeim, hver getur það verið?
Rannveig Já, það er maður með þeim.
Indriði Etli að það sé ekki Sölvi?
Sveinungi Hvað er hann að gera úti í hrauni um hánótt?
Indriði Það er ekki gott að vita.
Sveinungi Eg vona, að Ljót hafi ekki gefið sig á tal við þann strák.
Helgi kemur frá tjaldinu.
Þögn.
Ljót kemur hlaupandi, faðmar mömmu sina Eg var svo hrædd.
Jórunn Varstu hrædd? Þú ert orðin móð af hlaupunum.
Sveinungi brosir Ætlarðu ekki að heilsa pabba þínum?
Ljót faðmar hann.
Sveinungi Þér þótti vænt um þegar þú sást okkur.
Ljót Mér þótti svo vænt um það, að eg veit ekkert, hvað eg á að segja – eg var svo hrædd um, að bærinn hefði hrunið yfir ykkur. — Eg hélt, að hegningin kæmi yfir mig.
Sveinungi Hefir þér orðið nokkuð á, svo að þú verðskuldir hegningu?
Ljót tekur um hendurnar á Sveinunga Þér verður að þykja vænt um mig, pabbi — þér verður að þykja fjarska vænt um mig.
Einar og Sölvi koma.
Einar Guði sé lof, að þið eruð lifandi, þið hafið haft tíma til þess að komast út.
Jórunn Nei, við vorum inni.
Ljót Voruð þið inni? gengur að rústunum. Það er voðalegt að horfa inn.
Sveinungi gengur að rústunum Það er ekki nema ein stoð, sem þakið lafir á, ef hún hefði brotnað, þá hefðir þú ekki hitt okkur lifandi.
Einar Það var mikil guðs mildi að hún stóð.
Jórunn Já, ef það hefði ekki verið hans vilji, þá værum við ekki lengur í tölu þeirra lifandi.
Einar snýr sér frá rústunum Það var ekki heldur skemtilegt að vera úti í hrauninu.
Sveinungi Já, hvar voruð þið.
Sölvi setur byssuna upp við vegginn.
Ljót Við vorum niðri í einni gjánni, Sölvi og eg. Þegar jarðskjálftinn kom, hrundi heilt bjarg niður úr veggnum, það flaug rétt fram hjá okkur.
Sveinungi Þetta var eg hræddur um við Einar. Þú hefir verið niðri í gjánni líka.
Einar Nei, eg var þar ekki þegar jarðskjálftinn kom.
Sveinungi Hvar varst þú?
Einar Það flaug gæsahópur yfir hraunið, eg ætlaði að reyna að skjóta á hann.
Sveinungi Hafðir þú byssu?
Einar Sölvi lánaði mér byssu.
Sveinungi Einmitt það — og þú situr ein með ókunnugum manni um hánótt. — Hvað varstu að þjóta út í hraunið?
Ljót Eg gat ekki sofið.
Sveinungi Það var engu líkara en að þú værir að reyna að feta í fótspor grasafræðingsins — hann flækist úti í hrauninu — einn um miðjar nætur. Hvað ertu eiginlega að hafast að?
Jórunn Það kemur okkur ekki við, Sveinungi.
Sveinungi Eg vil ekki að hann veiði í mínu landi i leyfisleysi.
Sölvi Eg hefi ekki veitt í þínu landi.
Sveinungi Þú tínir að minsta kosti blóm — þú hefir ekki leyfi til þess að tína eitt einasla blóm í mínu landi. Nú veiztu það.
Ljót Því segirðu þetta, pabbi.
Sveinungi Farðu inn í tjaldið, Ljót, þú hefir ekkert að gera hér.
Ljót Eg þarf að segja þér dálítið.
Sveinungi Hvað er það?
Ljót Þegir.
Sveinungi snýr sér að fólkinu Farið þið inn í tjaldið. Eg skal tala við þig á morgun, Einar, svo að þú munir eftir því.
Einar Það var ekki mér að kenna.
Sveinungi Komist þið á stað! fólkið fer. Hvað er svo þetta, sem þú þarft að segja mér?
Ljót Þegir.
Sölvi Það kemur ykkur á óvart. Eg er kominn hingað til þess að biðja um dóttur ykkar.
Sveinungi Hefir ekki dóttir mín sagt þér, að hún er trúlofuð?
Ljót Eg hefi sagt honum alt eins og það er. Mér hefir aldrei þótt vænt um Hálfdan, það veiztu, pabbi. Og eg giftist honum heldur aldrei.
Jórunn Hvað segirðu, Ljót?
Sveinungi Þú hefir ekki tekið pabba þinn með í reikninginn. Þú ert ekki einfær um að svíkja loforð þitt. Heldurðu, að þú farir með mig eins og fífl! við Sölva Þú ert ekki orðinn tengdasonur minn, þó að þú hafir masað eitthvað við dóttur mína.
Sölvi Eg veit, að þú hefir valið þér annan tengdason – en ef þú samþykkir, að eg fái Ljót, þá beygir þú þig hvorki fyrir mér né dóttur þinni, þú beygir þig fyrir þeirri tilfinningu, sem sterkust er í lífinu.
Sveinungi Þú ert hreykinn af því að hafa tælt unga stúlku til þess að svíkja loforð sitt — þú þykist vera mikilmenni! Og þú hefir sætt lagi þegar hún var utan við sig af hræðslu — þú hefir komið eins og þjófur á nóttu.
Sölvi Það var engin tilviljun, að við Ljót hittumst í nótt. Eg fór út í hraunið til þess að sjá, hvernig liði hjá ykkur, eg hafði engan frið.
Sveinungi snýr sér að Ljót Hvað oft hefirðu hitt hann fyr, án þess að eg vissi af.
Ljót Þetta er í fyrsta sinni.
Sveinungi Því fórstu út í hraunið?
Ljót Eg réð ekki við það. Þú réðst ekki heldur við það, að þú fórst inn í bæinn, það var vegna þess að þér þótti svo vænt um hann.
Sveinungi Hvað kemur það þessu máli við! Heldurðu, að eg láti annan eins mann og þenna nýja kunningja þinn taka við jörðinni.
Sölvi Eg vil ekki taka við jörðinni. Eg get unnið fyrir okkur Ljót.
Sveinungi Eg tala ekki við þig. — Þú ert trúlofuð Hálfdani, þú veizt, að eg sendi boð til Árna og lét hann vita, að það mál væri útkljáð.
Ljót Þú verður að fyrirgefa mér, pabbi. Eg hefi aldrei elskað neinn mann fyr — eg þekti ekki þá tilfinningu.
Jórunn Það hefir aldrei komið fyrir í okkar ætt, Ljót, að nokkur kona hafi svikið unnusta sinn, ef þú bregzt Hálfdani, þá verður þú sú fyrsta.
Ljót krýpur Manstu eftir því, pabbi, þegar eg var svo lítil, að eg tók um hnéð á þér, þá gaztu ekki neitað mér um neitt. — Eg er sama litla stúlkan þín enn þá.
Sveinungi Stattu upp.
Ljót Þér þykir vænt um mig, pabbi, — eg þekki engan, sem hefir verið mér jafngóður — þú hefir gefið mér alt, sem eg á. Þú verður að gefa mér gleðina líka.
Sveinungi Eg hélt ekki, að eg myndi sjá dóttur mina liggja fyrir fótunum á mér eins og hund.
Ljót stendur upp.
Sveinungi Ef þér þykir eins vænt um hann og þú lætur, þá skaltu fá að sýna það. — Þú getur valið á milli mín og hans. Ef þú velur hann, þá á eg enga dóttur.
Ljót Þá átt þú enga dóttur!
Jórunn Þetta er mikil óláns-nótt.
Sveinungi Heldurðu, að þú takir ráðin af föður þínum snýr sér að Sölva, svipurinn er ógurlegur. Viltu koma með mér inn í rústirnar?
Sölvi Eg hefi ekkert þangað að gera.
Sveinungi Það er dragkista þar inni, sem Ljót geymir fötin sín í, eg vil ekki hafa eina flík, sem hún á, í mínu húsi.
Jórunn Þú verður að láta Ljót fá sinn vilja, Sveinungi, úr því að það getur ekki verið öðru vísi. — Hún er einkadóttir okkar.
Sveinungi Þú þorir ekki að fara inn í rústirnar, þú ert huglaus.
Sölvi Já, eg er huglaus. — Eg varð hræddur þegar jarðskjálftinn kom við Ljót. Það var þér að kenna – við máttum ekki deyja.
Sveinungi Þú ræður þér sjálf, Ljót. Eg vil ekki beita þig ofríki. En ef þú hugsar þig um þá ferðu ekki að yfirgefa foreldra þína vegna manns, sem þú ekkert þekkir. Þú ert einkabarnið mitt. Þú hefir verið augasteinninn minn síðan þú varst svolítil telpa ; eg átti aldrei svo annríkt þegar eg kom heim á kvöldin frá vinnunni, að eg hefði ekki tíma til þess að hlusta á þig. — Þegar þú klappaðir mér fanst mér eins og hlýju sumarregni rigndi framan á mig. — Það yrði svo eyðilegt, ef þú færir í burtu. Þú ferð ekki.
Ljót Það ert þú sjálfur, pabbi, sem neyðir mig til þess að fara.
Sveinungi Þú verður að taka eftir því, sem eg segi þér, Ljót. Það hefir alt af verið min hugsun, að þú tækir við jörðinni. Þegar þú lofaðir mér í gær að giftast Hálfdani, fanst mér, að allar mínar óskir væru uppfyltar — eg var himinglaður. — Það var ekki eingöngu vegna þín, það var eins mikið vegna jarðarinnar og svo ætlarðu að fara þegar ólánið dynur á. Hefirðu litið í kringum þig — það er hvert einasta hús hrunið. — Gætirðu skilið við gamlan föður þinn einn og yfirgefinn — það væri að leggja föður þinn i gröfina — og handa hverjum ætti eg þá að byggja upp jörðina, ef þú vilt ekki búa á henni, — þá væri jafngott að láta öll húsin rotna niður í moldina.
Ljót Þú veizt ekki, hvað mér þykir vænt um hann, pabbi. Mig hefir ost dreymt, að fjöllin hryndu og að það opnaðist fyrir mér nýr heimur. Í nótt hrundu fjöllin.
Sveinungi snýr sér frá Ljót Þú getur farið inn í tjaldið. Eg vil ekki sjá þig gengur að rústunum og leggur hendurnar á vegginn.
Sölvi og Ljót fara.
Þögn.
Jórunn Þú verður að láta Ljót fá sinn vilja, eg get ekki mist einkabarnið mitt – og þú segir sjálfur, að allur þinn starfi sé fyrir dóttur þína.
Sveinungi snýr sér að Jórunni, strýkur moldugri hendinni yfir ennið. Vissir þú, hvað eg ætlaði að gera. Eg ætlaði að ginna hann inn í rústirnar og svo ætlaði eg að kippa stoðinni undan.
Jórunn Guð fyrirgefi þér, maður.
Sveinungi gengur nokkur skref, stendur þegjandi Það hefði verið betra, að bærinn hefði hrunið yfir mig.
Jórunn Þetta máttu ekki segja! Þegir. En þú mátt ekki taka frá mér eina barnið mitt — eg get ekki mist hana. Þetta hefir átt fyrir henni að liggja að mæta þessum manni — hún hefir alt af verið okkur hlýðin og góð dóttir.
Sveinungi Það varst þú, sem fórst með mér heim. — Ert þú nú líka á móti mér.
Jórunn Það er bezt, að við tölum ekki meira um þetta í kvöld — en eg hefði ekki ánægju af því að lifa, ef þú rækir Ljót í burtu gengur nokkur skref, nemur staðar. Það liður ekki langt þangað til þú kemur.
Sveinungi Já, far þú til dóttur þinnar.
Jórunn fer.
Sveinungi stendur graf kyr. — Gengur hægt upp á hruninn vegginn. — Hverfur þögull og hokinn inn í rústirnar. — Gripur hendi um stoðina. Í sömu sripan hrynur þakið og Sveinungi verður undir. Hróp heyrast frá tjaldinu.
Tjaldið.
OCR: Stridmann