Landnámabók (Sturlubók)

Annar hluti

22. kafli

Hér hefur upp landnám í Vestfirðingafjórðungi, er margt stórmenni hefir byggðan.

Maður hét Kalman, suðureyskur að ætt; hann fór til Íslands og kom í Hvalfjörð og sat við Kalmansá. Þar drukknuðu synir hans tveir á Hvalfirði. En síðan nam hann land fyrir vestan Hvítá á milli og Fljóta, Kalmanstungu alla, og svo allt austur undir jökla sem grös eru vaxin, og bjó í Kalmanstungu. Hann drukknaði í Hvítá, er hann hafði farið suður í hraun að hitta friðlu sína, og er haugur hans á Hvítárbakka fyrir sunnan. Hans son var Sturla goði, er bjó á Sturlustöðum uppi undir Tungufelli upp frá Skáldskelmisdal, en síðan bjó hann í Kalmanstungu.

Hans son var Bjarni, er deildi við Hrólf hinn yngra og sonu hans um Tunguna litlu; þá hét Bjarni að taka kristni; eftir það braut Hvítá út farveg þann, er nú fellur hún. Þá eignaðist Bjarni Tunguna litlu og ofan um Grindur og Sölmundarhöfða.

Kýlan hét bróðir Kalmans; hann bjó fyrir neðan Kollshamar. Hans son var Kári, er deildi við Karla Konálsson á Karlastöðum, leysingja Hrólfs úr Geitlandi, um oxa, og reyndist svo, að Karli átti. Síðan eggjaði Kári þræl sinn til að drepa Karla. Þrællinn lét sem ær væri og hljóp suður um hraun. Karli sat á þreskildi; þrællinn hjó hann banahögg. Síðan drap Kári þrælinn. Þjóðólfur, son Karla, drap Kýlan Kárason í Kýlanshólmum. Síðan brenndi Þjóðólfur Kára inni, þar sem nú heitir á Brennu.

Bjarni Sturluson tók skírn og bjó á Bjarnastöðum í Tungunni litlu og lét þar gera kirkju.

Þrándur nefja hét maður ágætur, faðir Þorsteins, er átti Lofthænu, dóttur Arinbjarnar hersis úr Fjörðum. Systir Lofthænu var Arnþrúður, er átti Þórir hersir Hróaldsson; var þeirra son Arinbjörn hersir. Móðir þeirra Arnþrúðar var Ástríður slækidrengur, dóttir Braga skálds og Lofthænu, dóttur Erps lútanda. Sonur Þorsteins og Lofthænu var Hrosskell, er átti Jóreiði Ölvisdóttur sonar Möttuls Finnakonungs; Hallkell hét son þeirra.

Hrosskell fór til Íslands og kom í Grunnafjörð; hann bjó fyrst á Akranesi; þá ömuðust þeir Ketill bræður við hann. Síðan nam hann Hvítársíðu milli Kjarrár og Fljóta; hann bjó á Hallkelsstöðum og Hallkell son hans eftir hann, og átti hann Þuríði dyllu, dóttur Gunnlaugs úr Þverárhlíð og Vélaugar Örlygsdóttur frá Esjubergi.

Hrosskell gaf land Þorvarði, föður Smiðkels, föður þeirra Þórarins og Auðunar, er réðu fyrir Hellismönnum; hann bjó á Þorvarðsstöðum og átti Fljótsdal allan upp með Fljótum.

Hrosskell gaf Þorgauti skipverja sínum land niðri í Síðu; hann bjó á Þorgautsstöðum; hans synir voru Gíslar tveir.

Börn þeirra Hallkels og Þuríðar voru þau Þórarinn og Finnvarður, Tindur og Illugi hinn svarti og Gríma, er átti Þorgils Arason. Þórarin vó Músa-Bölverkur, er hann bjó í Hraunsási; þá lét hann gera þar virki og veitti Hvítá í gegnum ásinn, en áður féll hún um Melrakkadal ofan. Illugi og Tindur sóttu Bölverk í virkið.

23. kafli

Ásbjörn hinn auðgi Harðarson keypti land fyrir sunnan Kjarrá, upp frá Sleggjulæk til Hnitbjarga; hann bjó á Ásbjarnarstöðum. Hann átti Þorbjörgu, dóttur Miðfjarðar-Skeggja; þeirra dóttir var Ingibjörg, er átti Illugi hinn svarti.

Örnólfur hét maður, er nam Örnólfsdal og Kjarradal fyrir norðan upp til Hnitbjarga.

Ketill blundur keypti land að Örnólfi, allt fyrir neðan Klif, og bjó í Örnólfsdal. Örnólfur gerði þá bú upp í Kjarradal, þar er nú heita Örnólfsstaðir. Fyrir ofan Klif heitir Kjarradalur, því að þar voru hrískjörr og smáskógar milli Kjarrár (og) Þverár, svo að þar mátti eigi byggja. Blund-Ketill var maður stórauðigur; hann lét ryðja víða í skógum og byggja.

Hrómundur hét bróðir Gríms hins háleyska, son Þóris Gunnlaugssonar, Hrólfssonar, Ketilssonar kjölfara. Hrómundur kom skipi sínu í Hvítá; hann nam Þverárdal og Þverárhlíð ofan til Hallarmúla og fram til Þverár; hann bjó á Hrómundarstöðum; þar er nú kallað að Karlsbrekku. Hans son var Gunnlaugur ormstunga, er bjó á Gunnlaugsstöðum fyrir sunnan Þverá. Hann átti Vélaugu, sem fyrr er ritað.

Högni hét skipveri Hrómundar; hann bjó á Högnastöðum; hans son var Helgi að Helgavatni faðir Arngríms goða, er var að Blund-Ketils brennu. Högni var bróðir Finns hins auðga.

Ísleifur og Ísröður, bræður tveir, námu land ofan frá Sleggjulæk milli Örnólfsdalsár og Hvítár, hið nyrðra ofan til Rauðalækjar, en hið syðra ofan til Hörðahóla. Ísleifur bjó á Ísleifsstöðum, en Ísröður á Ísröðarstöðum og átti land hið syðra með Hvítá; hann var faðir Þorbjarnar, föður Ljóts á Veggjum, er féll í Heiðarvígi.

Ásgeir hét skipveri Hrómundar, er bjó á Hamri upp frá Helgavatni. Hann átti Hildi stjörnu, dóttur Þorvalds Þorgrímssonar brækis; þeirra synir voru þeir Steinbjörn hinn sterki og hinn stórhöggvi og Þorvarður, faðir Mævu, er Hrifla átti, og Þorsteinn hinn þriðji, fjórði Helgi, faðir Þórðar, föður Skáld-Helga.

24. kafli

Arnbjörg hét kona; hún bjó að Arnbjargarlæk. Hennar synir voru þeir Eldgrímur, er bjó á hálsinn upp frá Arnbjargarlæk á Eldgrímsstöðum, og Þorgestur, er fékk banasár, þá er þeir Hrani börðust, þar sem nú heitir Hranafall.

Þórunn hét kona, er bjó í Þórunnarholti; hún átti land ofan til Víðilækjar og upp til móts við Þuríði spákonu, systur sína, er bjó í Gröf. Við hana er kenndur Þórunnarhylur í Þverá, og frá henni eru Hamarbyggjar komnir.

Þorbjörn, son Arnbjarnar Óleifssonar langháls, hann var bróðir Lýtings í Vopnafirði. Þorbjörn nam Stafaholtstungu milli Norðurár og Þverár; hann bjó í Arnarholti; hans son var Teitur í Stafaholti, faðir Einars.

Þorbjörn blesi nam land í Norðurárdal fyrir sunnan á upp frá Króki og Hellisdal allan og bjó á Blesastöðum. Hans son var Gísli að Melum í Hellisdal; við hann eru kennd Gíslavötn. Annar son Blesa var Þorfinnur á Þorfinnsstöðum, faðir Þorgerðar heiðarekkju, móður Þórðar erru, föður Þorgerðar, móður Helga að Lundi.

Geirmundur, son Gunnbjarnar gands, nam tunguna á milli Norðurár og Sandár og bjó í Tungu; hans son var Brúni, faðir Þorbjarnar að Steinum, er féll í Heiðarvígi.

Örn hinn gamli nam Sanddal og Mjóvadal og svo Norðurárdal ofan frá Króki til Arnarbælis og bjó á Háreksstöðum.

Rauða-Björn nam Bjarnardal og þá dali, er þar ganga af, og átti annað bú niður frá Mælifellsgili, en annað niðri í héraði, sem ritað er.

Karl nam Karlsdal upp frá Hreðuvatni og bjó undir Karlsfelli; hann átti land ofan til Jafnaskarðs til móts við Grím.

Grís og Grímur hétu leysingjar Skalla-Gríms; þeim gaf hann lönd uppi við fjöll, Grísi Grísartungu, en Grími Grímsdal.

25. kafli

Bersi goðlauss hét maður, son Bálka Blæingssonar úr Hrútafirði; hann nam Langavatnsdal allan og bjó þar. Hans systir var Geirbjörg, er átti Þorgeir í Tungufelli; þeirra son var Véleifur hinn gamli.

Bersi goðlauss fékk Þórdísar, dóttur Þórhadds úr Hítardal, og tók með henni Hólmslönd; þeirra son var Arngeir, faðir Bjarnar Hítdælakappa.

Sigmundur hét einn leysingi Skalla-Gríms; honum gaf hann land milli Gljúfurár og Norðurár. Hann bjó að Haugum, áður hann færði sig í Munaðarnes; við hann er kennt Sigmundarnes.

Rauða-Björn keypti land að Skalla-Grími milli Gljúfurár og Gufár; hann bjó að Rauða-Bjarnarstöðum upp frá Eskiholti. Hans son var Þorkell trefill í Skarði og Helgi í Hvammi og Gunnvaldur, faðir Þorkels, er átti Helgu, dóttur Þorgeirs á Víðimýri.

Þorbjörn krumur og Þórður beigaldi hétu bræður tveir; þeim gaf Skalla-Grímur lönd fyrir utan Gufá, og bjó Þorbjörn í Hólum, en Þórður á Beigalda.

Þóri þurs og Þorgeiri jarðlang og Þorbjörgu stöng, systur þeirra, gaf Skalla-Grímur land upp með Langá fyrir sunnan; bjó Þórir á Þursstöðum, en Þorgeir á Jarðlangsstöðum, Þorbjörg í Stangarholti.

Einn maður hét Án, sá er Grímur gaf land ofan með Langá, milli og Háfslækjar; hann bjó að Ánabrekku; hans son var Önundur sjóni, faðir Steinars og Döllu, móður Kormáks.

Þorfinnur hinn strangi hét merkismaður Þórólfs Skalla-Grímssonar. Honum gaf Skalla-Grímur dóttur sína og land fyrir utan Langá út til Leirulækjar og upp til fjalls; hann bjó að Fossi. Þeirra dóttir var Þórdís, móðir Bjarnar Hítdælakappa.

Yngvar hét maður, faðir Beru, er Skalla-Grímur átti; honum gaf Grímur land á milli Leirulækjar og Straumfjarðar; hann bjó á Álftanesi. Önnur dóttir hans var Þórdís, er átti Þorgeir lambi á Lambastöðum, faðir Þórðar, er þrælarnir Ketils gufu brenndu inni; son Þórðar var Lambi hinn sterki.

Steinólfur hét maður, er nam Hraundal hvorntveggja allt til Grjótár að leyfi Skalla-Gríms; hann var faðir Þorleifs, er Hraundælir eru frá komnir.

Þórhaddur, son Steins mjögsiglanda Vígbjóðssonar, Böðmóðssonar úr búlkarúmi, hann nam Hítardal til Grjótár hið syðra, en hið ytra til Kaldár og á milli Hítár og Kaldár til sjóvar; hans son var Þorgeir, faðir Hafþórs, föður Guðnýjar, móður Þorláks hins auðga. Þorgeirs synir voru þeir Grímur í Skarði og Þórarinn, Finnbogi, Eysteinn, Gestur, Torfi.

Þorgils knappi, leysingi Kolla Hróaldssonar, nam Knappadal; hans synir voru þeir Ingjaldur og Þórarinn að Ökrum, og eignaðist land á milli Hítár og Álftár og upp til móts við Steinólf.

Son Þórarins var Þrándur, er átti Steinunni, dóttur Hrúts á Kambsnesi; þeirra synir voru þeir Þórir og Skúmur, faðir Torfa, föður Tanna; hans son var Hrútur, er átti Kolfinnu, dóttur Illuga hins svarta. Nú eru þeir menn taldir, er lönd hafa byggt í landnámi Skalla-Gríms.

26. kafli

Grímur hét maður Ingjaldsson, Hróaldssonar úr Haddingjadal, bróðir Ása bersis. Hann fór til Íslands í landaleit og sigldi fyrir norðan landið. Hann var um veturinn í Grímsey á Steingrímsfirði. Bergdís hét kona hans, en Þórir son þeirra.

Grímur röri til fiska um haustið með húskarla sína, en sveinninn Þórir lá í stafni og var í selbelg, og dreginn að hálsinum. Grímur dró marmennil, og er hann kom upp, spurði Grímur: «Hvað spár þú oss um forlög vor, eða hvar skulum vér byggja á Íslandi?»

Marmennill svarar: «Ekki þarf eg að spá yður, en sveinninn, er liggur í selbelginum, hann skal þar byggja og land nema, er Skálm mer yður leggst undir klyfjum.»

Ekki fengu þeir fleiri orð af honum. En síðar um veturinn röru þeir Grímur svo, að sveinninn var á landi; þá týndust þeir allir.

Þau Bergdís og Þórir fóru um vorið úr Grímsey og vestur yfir heiði til Breiðafjarðar; þá gekk Skálm fyrir og lagðist aldri. Annan vetur voru þau á Skálmarnesi í Breiðafirði, en um sumarið eftir snöru þau suður. Þá gekk enn Skálm fyrir, þar til er þau komu af heiðum suður til Borgarfjarðar, þar sem sandmelar tveir rauðir stóðu fyrir; þar lagðist Skálm niður undir klyfjum undir hinum ytra melnum. Þar nam Þórir land fyrir sunnan Gnúpá til Kaldár fyrir neðan Knappadal milli fjalls og fjöru. Hann bjó að Rauðamel hinum ytra. Hann var höfðingi mikill.

Þá var Þórir gamall og blindur, er hann kom út síð um kveld og sá, að maður röri utan í Kaldárós á járnnökkva, mikill og illiligur, og gekk þar upp til bæjar þess, er í Hripi hét, og gróf þar í stöðulshliði; en um nóttina kom þar upp jarðeldur, og brann þá Borgarhraun. Þar var bærinn, sem nú er borgin.

Son Sel-Þóris var Þorfinnur, er átti Jófríði, dóttur Tungu-Odds; þeirra synir voru þeir Þorkell og Þorgils, Steinn og Galti, Ormur og Þórormur og Þórir. Dóttir Þorfinns var (Þorbjörg), er átti Þorbrandur úr Álftafirði.

Þeir Sel-Þórir frændur hinir heiðnu dóu í Þórisbjörg.

Þeir Þorkell og Þorgils, synir Þorfinns, áttu báðir Unni, dóttur Álfs úr Dölum.

Skálm, mer Þóris, dó í Skálmarkeldu.

27. kafli

Þormóður og Þórður gnúpa, synir Odds hins rakka Þorviðarsonar, Freyviðarsonar, Álfssonar af Vörs, þeir bræður fóru til Íslands og námu land frá Gnúpá til Straumsfjarðarár; hafði Þórður Gnúpudal og bjó þar. Hans son var Skafti, faðir Hjörleifs goða og Finnu, er átti Refur hinn mikli, faðir Steinunnar móður Hofgarða-Refs.

Þormóður bjó á Rauðkollsstöðum; hann var kallaður Þormóður goði; hann átti Gerði, dóttur Kjallaks hins gamla. Þeirra son var Guðlaugur hinn auðgi; hann átti Þórdísi, dóttur Svarthöfða Bjarnarsonar gullbera og dóttur Þuríðar Tungu-Odds(dóttur), er þá bjó í Hörgsholti.

Guðlaugur hinn auðgi sá, að Rauðamelslönd voru betri en önnur lönd suður þar í sveit. Hann skoraði á Þorfinn til landa og bauð honum (hólm)göngu; þeir féllu báðir á hólmi, en Þuríður Tungu-Oddsdóttir græddi þá báða og sætti þá.

Guðlaugur nam síðan land frá Straumfjarðará til Furu milli fjalls og fjöru og bjó í Borgarholti; frá honum eru Straumfirðingar komnir. Hans son var Guðleifur, er skip átti annað, en annað Þórólfur, son Lofts hins gamla, þá er (þeir) börðust við Gyrð jarl Sigvaldason. Annar son Guðlaugs var Þorfinnur, faðir Guðlaugs, föður Þórdísar, móður Þórðar, föður Sturlu í Hvammi. Valgerður hét dóttir Guðlaugs hins auðga.

Voli hinn sterki hét hirðmaður Haralds konungs hins hárfagra; hann vó víg í véum og varð útlægur. Hann fór til Suðureyja og staðfestist þar, en synir hans þrír fóru til Íslands. Hlíf hestageldir var móðir þeirra. Hét einn Atli, annar Álfarinn, þriðji Auðun stoti; þeir fóru allir til Íslands. Atli Volason og Ásmundur son hans námu land frá Furu til Lýsu.

Ásmundur bjó í Langaholti að Þórutóftum; hann átti Langaholts-Þóru. Þá er Ásmundur eldist, bjó hann í Öxl, en Þóra bjó þá eftir og lét gera skála sinn um þvera þjóðbraut og lét þar jafnan standa borð, en hún sat úti á stóli og laðaði þar gesti, hvern er mat vildi eta.

Ásmundur var heygður í Ásmundarleiði og lagður í skip og þræll hans hjá honum. Vísu þessa heyrði maður kveðna í haugi hans, er hann gekk hjá:

Einn byggvik stöð stein,
stafnrúm Atals hrafni.
Esat of þegn á þiljum
þröng. Býk á mar ranga.
Rúm es böðvitrum betra,
brimdýri knák stýra,
lifa mun þat með lofðum
lengr, en illt of gengi.

Eftir það var leitað til haugsins, og var þrællinn tekinn úr skipinu.

Hrólfur hinn digri, son Eyvindar eikikróks, nam land frá Lýsu til Hraunhafnarár. Hans son var Helgi í Hofgörðum, faðir Finnboga og Bjarnar og Hrólfs. Björn var faðir Gests, föður Skáld-Refs.

28. kafli

Sölvi hét maður, er nam land milli Hellis og Hraunhafnar. Hann bjó í Brenningi, en síðar á Sölvahamri, því að hann þóttist þar vera gagnsamari.

Sigmundur, son Ketils þistils, þess er numið hafði Þistilsfjörð norður, hann átti Hildigunni. Sigmundur nam land á milli Hellishrauns og Beruvíkurhrauns; hann bjó að Laugarbrekku og er þar heygður. Hann átti þrjá sonu; einn var Einar, er síðan bjó að Laugarbrekku. Þeir feðgar seldu Lónland Einari, er síðan bjó þar; hann var kallaður Lón-Einar.

Eftir andlát Sigmundar fór Einar til Laugarbrekku með sjöunda mann og stefndi Hildigunni um fjölkynngi.

En Einar, son hennar, var eigi heima. Hann kom heim, þá er Lón-Einar var nýfarinn á braut. Hildigunnur sagði honum þessi tíðindi og færði honum kyrtil nýgörvan. Einar tók skjöld sinn og sverð og verkhest og reið eftir þeim; hann sprengdi hestinn á Þúfubjörgum, en gat farið þá hjá Mannafallsbrekku. Þar börðust þeir og féllu fjórir menn af Lón-Einari, en þrælar hans tveir runnu frá honum. Þeir nafnar sóttust lengi, áður sundur gekk bróklindi Lón-Einars, og er hann tók þar til, hjó nafni hans hann banahögg.

Þræll Laugarbrekku-Einars hét Hreiðar: hann hljóp eftir þeim og sá af Þúfubjörgum, hvar þrælar Lón-Einars fóru; hann rann eftir þeim og drap þá báða í Þrælavík. Fyrir það gaf Einar honum frelsi og land svo vítt sem hann fengi gert um þrjá daga. Það heitir Hreiðarsgerði, er hann bjó síðan.

Einar að Laugarbrekku átti Unni, dóttur Þóris, bróður Ásláks í Langadal. Hallveig var dóttir þeirra, er Þorbjörn Vífilsson átti.

Breiður hét annar son Sigmundar, bróðir (Einars); hann átti Gunnhildi, dóttur Ásláks úr Langadal. Þeirra son var Þormóður, er átti Helgu Önundardóttur, systur Skáld-Hrafns, þeirra dóttir Herþrúður, er Símon átti, þeirra dóttir Gunnhildur, er Þorgils átti, þeirra dóttir Valgerður, móðir Finnboga hins fróða Geirssonar.

Þorkell hét hinn þriðji son Sigmundar; hann átti Jóreiði, dóttur (Tinds) Hallkelssonar.

Laugarbrekku-Einar var heygður skammt frá Sigmundarhaugi, og er haugur hans ávallt grænn vetur og sumar. Þorkell hét son Lón-Einars; hann átti Grímu Hallkelsdóttur fyrr en Þorgils Arason; Finnvarður var son þeirra. Önnur dóttir Laugarbrekku-Einars var Arnóra, er átti Þorgeir Vífilsson; þeirra dóttir var Yngvildur, er átti Þorsteinn, son Snorra goða. Þar var Inguður, dóttir þeirra, er átti Ásbjörn Arnórsson.

29. kafli

Grímkell hét maður, son Úlfs kráku Hreiðarssonar, bróðir Gunnbjarnar, er Gunnbjarnarsker eru við kennd; hann nam land frá Beruvíkurhrauni til Neshrauns og út um Öndvertnes og bjó að Saxahvoli. Hann rak á brutt þaðan Saxa Álfarinsson Volasonar, og bjó hann síðan í Hrauni hjá Saxahvoli. Grímkell átti Þorgerði, dóttur Valþjófs hins gamla; þeirra son var Þórarinn korni. Hann var hamrammur mjög og liggur í Kornahaugi.

Þórarinn korni átti Jórunni, dóttur Einars í Stafaholti; þeirra dóttir var Járngerður, er átti Úlfur Uggason.

Klængur hét annar son Grímkels; hann átti Oddfríði, dóttur Helga af Hvanneyri. Son þeirra var Kolli, er átti Þuríði, dóttur Ásbrands frá Kambi. Þeirra son var Skeggi, faðir Þorkötlu, er átti Illugi, son Þorvalds Tindssonar, faðir Gils, er vó Gjafvald. Bárður hét annar son Kolla; hann átti Valgerði Viðarsdóttur. Vigdís var dóttir þeirra, er átti Þorbjörn hinn digri, þeirra dóttir Þórdís, er átti Þorbrandur að Ölfusvatni. Þórir var son þeirra og Bjarni á Breiðabólstað og Torfi, en dóttir Valgerður, er átti Rúnólfur byskupsson. Ásdís hét önnur dóttir Bárðar; hana átti fyrr Þorbjörn Þorvaldsson, bróðir Mána-Ljóts sammæðri, börn þeirra Þuríður, er átti Þorgrímur Oddsson, börn þeirra Geirmundur í Mávahlíð og fjórtán önnur. Ásdísi átti síðar Skúli Jörundarson; Valgerður að Mosfelli var dóttir þeirra.

Álfarinn Volason hafði fyrst numið nesið á milli Beruvíkurhrauns og Ennis. Hans synir voru þeir Höskuldur, er bjó að Höskuldsám, og Ingjaldur, er bjó á Ingjaldshvoli, en Goti að Gotalæk, en Hólmkell að Fossi við Hólmkelsá.

Óláfur belgur hét maður, er nam land fyrir innan Enni allt til Fróðár og bjó í Óláfsvík.

30. kafli

Ormur hinn mjóvi hét maður, er kom skipi sínu í Fróðárós og bjó á Brimilsvöllum um hríð. Hann rak á brutt Óláf belg og nam Víkina gömlu milli Ennis og Höfða og bjó þá að Fróðá. Hans son var Þorbjörn hinn digri; hann átti fyrr Þuríði, dóttur Ásbrands frá Kambi, og voru þeirra börn Ketill kappi, Hallsteinn og Gunnlaugur og Þorgerður, er átti Önundur sjóni. Þorbjörn átti síðar Þuríði, dóttur Barkar hins digra og Þórdísar Súrsdóttur.

Þorbjörn hinn digri stefndi Geirríði Bægifótsdóttur um fjölkynngi, eftir það er Gunnlaugur, son hans, dó af meini því, er hann tók, þá er hann fór að nema fróðleik að Geirríði. Hún var móðir Þórarins í Mávahlíð. Um þá sök var Arnkell goði kvaddur tólftarkvöð, og bar hann af, því að Þórarinn vann eið að stallahring og hratt svo málinu.

En eftir það hurfu Þorbirni stóðhross á fjalli. Það kenndi hann Þórarni og fór í Mávahlíð og setti duradóm. Þeir voru tólf, en þeir Þórarinn voru sjö fyrir: Álfgeir Suðureyingur og Nagli og Björn austmaður og húskarlar þrír. Þeir hleyptu upp dóminum og börðust þar í túninu. Auður, kona Þórarins, hét á konur að skilja þá. Einn maður féll af Þórarni, en tveir af Þorbirni. Þeir Þorbjörn fóru á brutt og bundu sár sín hjá stakkgarði upp með vogum. Hönd Auðar fannst í túni; því fór Þórarinn eftir þeim og fann þá hjá garðinum. Nagli hljóp grátandi um þá og í fjall upp. Þar vó Þórarinn Þorbjörn og særði Hallstein til ólífis. Fimm menn féllu þar af Þorbirni.

Þeir Arnkell og Vermundur veittu Þórarni og höfðu setu að Arnkels. Snorri goði mælti eftir Þorbjörn og sekti þá alla, er að vígum höfðu verið, á Þórsnesþingi. Eftir það brenndi hann skip þeirra Álfgeirs í Salteyrarósi. Arnkell keypti þeim skip í Dögurðarnesi og fylgdi þeim út um eyjar. Af þessu gerðist fjándskapur þeirra Arnkels og Snorra goða. Ketill kappi var þá utan; hann var faðir Hróðnýjar, er átti Þorsteinn, son Víga-Styrs.

Sigurður svínhöfði var kappi mikill; hann bjó á Kvernvogaströnd. Herjólfur son hans var þá átta vetra, er hann drap skógbjörn fyrir það, er hann hafði bitið geit fyrir honum; þar um (er) þetta kveðið:

Bersi brunninrazi
beit geit fyrir Herjólfi,
en Herjólfr hokinrazi
hefndi geitr á bersa.

Þá var Herjólfur tólf vetra, er hann hefndi föður síns; hann var hinn mesti afreksmaður.

Herjólfur fór til Íslands í elli sinni og nam land milli Búlandshöfða og Kirkjufjarðar. Hans son var Þorsteinn kolskeggur, faðir Þórólfs, föður Þórarins hins svarta Máhlíðings og Guðnýjar, er átti Vermundur hinn mjóvi; þeirra son Brandur hinn örvi.

Vestar, son Þórólfs blöðruskalla, átti Svönu Herröðardóttur; þeirra son var Ásgeir. Vestar fór til Íslands með föður sinn afgamlan og nam Eyrarlönd og Kirkjufjörð; hann bjó á öndurðri Eyri. Þeir Þórólfur feðgar eru heygðir að Skallanesi báðir.

Ásgeir Vestarsson átti Helgu Kjallaksdóttur; þeirra son var Þorlákur, hans son Steinþór og þeirra Þuríðar, dóttur Auðunar stota, og Þórður blígur, er átti Otkötlu Þorvaldsdóttur, Þormóðssonar goða; þriðji var Þormóður, er átti Þorgerði, dóttur Þorbrands úr Álftafirði, fjórði Bergþór, er féll á Vigrafirði; dóttir þeirra Helga, er átti Ásmundur Þorgestsson. Steinþór átti Þuríði, dóttur Þorgils Arasonar; Gunnlaugur var son þeirra, er átti Þuríði hina spöku, dóttur Snorra goða.

31. kafli

Kolur hét maður, er nam land utan frá Fjarðarhorni til Tröllaháls og út um Berserkseyri til Hraunsfjarðar. Hans son var Þórarinn og Þorgrímur; við þá er kennt Kolssonafell. Þeir feðgar bjuggu allir að Kolgröfum; frá þeim eru Kolgreflingar komnir.

Auðun stoti, son Vola hins sterka, nam Hraunsfjörð allan fyrir ofan Hraun, á milli Svínavatns og Tröllaháls; hann bjó í Hraunsfirði og var mikill fyrir sér og sterkur. Auðun átti Mýrúnu, dóttur Maddaðar Írakonungs.

Auðun sá um haust, að hestur apalgrár rann ofan frá Hjarðarvatni og til stóðhrossa hans; sá hafði undir stóðhestinn. Þá fór Auðun til og tók hinn grá hestinn og setti fyrir tveggja yxna sleða og ók saman alla töðu sína. Hesturinn var góður meðfarar um miðdegið; en er á leið, steig hann í völlinn til hófskeggja; en eftir sólarfall sleit hann allan reiðing og hljóp til vatnsins. Hann sást aldri síðan.

Son Auðunar var Steinn. Faðir Helgu, er átti Án í Hrauni; þeirra son var Már, faðir Guðríðar, móður Kjartans og Ánar í Kirkjufelli. Ásbjörn hét annar son Auðunar, þriðji Svarthöfði, en dóttir Þuríður, er Ásgeir átti á Eyri, þeirra son Þorlákur.

32. kafli

Björn hét son Ketils flatnefs og Yngvildar, dóttur Ketils veðurs hersis af Hringaríki. Björn sat eftir að eignum föður síns, þá er Ketill fór til Suðureyja. En er Ketill hélt sköttum fyrir Haraldi konungi hinum hárfagra, þá rak konungur Björn son hans af eignum sínum og tók undir sig. Þá fór Björn vestur um haf og vildi þar ekki staðfestast; því var hann kallaður Björn hinn austræni. Hann átti Gjaflaugu Kjallaksdóttur, systur Bjarnar hins sterka.

Björn hinn austræni fór til Íslands og nam land á milli Hraunsfjarðar og Stafár; hann bjó í Bjarnarhöfn á Borgarholti og hafði selför upp til Selja og átti rausnarbú. Hann dó í Bjarnarhöfn og er heygður við Borgarlæk, því að hann einn var óskírður barna Ketils flatnefs.

Son þeirra Bjarnar og Gjaflaugar var Kjallakur hinn gamli, er bjó í Bjarnarhöfn eftir föður sinn, og Óttar, faðir Bjarnar, föður Vigfúss í Drápuhlíð, er Snorri goði lét drepa. Annar son Óttars var Helgi; hann herjaði á Skotland og tók þar að herfangi Niðbjörgu, dóttur Bjólans konungs og Kaðlínar, dóttur Göngu-Hrólfs; hann fékk hennar; var son þeirra Ósvífur hinn spaki og Einar skálaglamm, er drukknaði á Einarsskeri í Selasundi, og kom skjöldur hans í Skjaldey, en feldur á Feldarhólm. Einar var faðir Þorgerðar, móður Herdísar, móður Steins skálds. Ósvífur átti Þórdísi, dóttur Þjóðólfs úr Höfn; þeirra börn voru þau Óspakur, faðir Úlfs stallara og Þórólfur. Torráður, Einar, Þorbjörn og Þorkell, þeir urðu sekir um víg Kjartans Óláfssonar, og Guðrún, móðir Gellis og Bolla og Þorleiks og Þórðar kattar. Vilgeir hét son Bjarnar hins austræna.

Kjallakur hinn gamli átti Ástríði, dóttur Hrólfs hersis og Öndóttar, systur Ölvis barnakarls; þeirra son var Þorgrímur goði. Hann átti (Þórhildi); voru synir þeirra Víga-Styr og Vermundur mjóvi og Brandur, faðir Þorleiks. Dætur Kjallaks hins gamla Gerður, er Þormóður goði átti, og Helga, er Ásgeir á Eyri átti.

33. kafli

Þórólfur son Örnólfs fiskreka bjó í Mostur; því var hann kallaður Mostrarskegg; hann var blótmaður mikill og trúði á Þór. Hann fór fyrir ofríki Haralds konungs hárfagra til Íslands og sigldi fyrir sunnan land. En er hann kom vestur fyrir Breiðafjörð, þá skaut hann fyrir borð öndvegissúlum sínum; þar var skorinn á Þór. Hann mælti svo fyrir, að Þór skyldi þar á land koma, sem hann vildi, að Þórólfur byggði; hét hann því að helga Þór allt landnám sitt og kenna við hann.

Þórólfur sigldi inn á fjörðinn og gaf nafn firðinum og kallaði Breiðafjörð. Hann tók land fyrir sunnan fjörðinn, nær miðjum firðinum; þar fann hann Þór rekinn í nesi einu; það heitir nú Þórsnes. Þeir lendu þar inn frá í voginn, er Þórólfur kallaði Hofsvog; þar reisti hann bæ sinn og gerði þar hof mikið og helgaði Þór; þar heita nú Hofstaðir. Fjörðurinn var þá byggður lítt eða ekki.

Þórólfur nam land frá Stafá inn til Þórsár og kallaði það allt Þórsnes. Hann hafði svo mikinn átrúnað á fjall það, er stóð í nesinu, er hann kallaði Helgafell, að þangað skyldi engi maður óþveginn líta, og þar var svo mikil friðhelgi, að öngu skyldi granda í fjallinu, hvorki fé né mönnum, nema sjálft gengi á braut. Það var trúa þeirra Þórólfs frænda, að þeir dæi allir í fjallið.

Þar á nesinu, sem Þór kom á land. Hafði Þórólfur dóma alla, og þar var sett héraðsþing með ráði allra sveitarmanna. En er menn voru þar á þinginu, þá skyldi víst eigi hafa álfreka á landi, og var ætlað til þess sker það, er Dritsker heitir, því að þeir vildu eigi saurga svo helgan völl sem þar var.

En þá er Þórólfur var dauður, en Þorsteinn son hans var ungur, þá vildu þeir Þorgrímur Kjallaksson og Ásgeir mágur hans eigi ganga í skerið örna sinna. Það þoldu eigi Þórsnesingar, er þeir vildu saurga svo helgan völl. Því börðust þeir Þorsteinn þorskabítur og Þorgeir kengur við þá Þorgrím og Ásgeir þar á þinginu um skerið, og féllu þar nokkurir menn, en margir urðu sárir, áður þeir urðu skildir. Þórður gellir sætti þá; og með því að hvorigir vildu láta af sínu máli, þá var völlurinn óheilagur af heiftarblóði. Þá var það ráð tekið að færa brutt þaðan þingið og inn í nesið, þar sem nú er; var þar þá helgistaður mikill, og þar stendur enn Þórssteinn, er þeir brutu þá menn um, er þeir blótuðu, og þar hjá er sá dómhringur, er menn skyldu til blóts dæma. Þar setti og Þórður gellir fjórðungsþing með ráði allra fjórðungsmanna.

Son Þórólfs Mostrarskeggja var Hallsteinn Þorskafjarðargoði, faðir Þorsteins surts hins spaka. Ósk var móðir Þorsteins surts, dóttir Þorsteins rauðs. Annar son Þórólfs var Þorsteinn þorskabítur; hann átti Þóru, dóttur Óláfs feilans, systur Þórðar gellis. Þeirra son var Þorgrímur, faðir Snorra goða, og Börkur hinn digri, faðir Sáms, er Ásgeir vó.

34. kafli

Geirröður hét maður, er fór til Íslands, og með honum Finngeir son Þorsteins öndurs og Úlfar kappi: þeir fóru af Hálogalandi til Íslands. Geirröður nam land inn frá Þórsá til Langadalsár; hann bjó á Eyri. Geirröður gaf land Úlfari skipverja sínum tveim megin Úlfarsfells og fyrir innan fjall. Geirröður gaf Finngeiri lönd uppi um Álftafjörð; hann bjó þar, er nú heitir á Kársstöðum. Finngeir var faðir Þorfinns, föður Þorbrands í Álftafirði, er átti Þorbjörgu, dóttur Þorfinns Sel-Þórissonar.

Geirríður hét systir Geirröðar, er átt hafði Björn, son Bölverks blindingatrjónu; Þórólfur hét son þeirra.

Þau Geirríður fóru til Íslands eftir andlát Bjarnar og voru hinn fyrsta vetur á Eyri. Um vorið gaf Geirröður systur sinni bústað í Borgardal, en Þórólfur fór utan og lagðist í víking. Geirríður sparði ekki mat við menn og lét gera skála sinn um þjóðbraut þvera; hún sat á stóli og laðaði úti gesti, en borð stóð inni jafnan og matur á.

Þórólfur kom til Íslands eftir andlát Geirríðar; hann skoraði á Úlfar til landa og bauð honum hólmgöngu. Úlfar var þá gamall og barnlaus. Hann féll á hólmi, en Þórólfur varð sár á fæti og gekk haltur ávallt síðan; því var hann bægifótur kallaður. Þórólfur tók land eftir Úlfar, en sum Þorfinnur í Álftafirði; hann setti á leysingja sína, Úlfar og Örlyg.

Geirröður á Eyri var faðir Þorgeirs kengs, er bæinn færði úr eyrinni upp undir fjallið; hann var faðir Þórðar, föður Atla. Þórólfur bægifótur var faðir Arnkels goða og Geirríðar, er átti Þórólfur í Mávahlíð.

Synir Þorbrands í Álftafirði voru þeir Þorleifur kimbi og Þóroddur, Snorri, Þorfinnur, Illugi, Þormóður. Þeir deildu við Arnkel um arf leysingja sinna og voru að vígi hans með Snorra goða á Örlygsstöðum. Eftir það fór Þorleifur kimbi utan; þá laust Arnbjörn son Ásbrands úr Breiðavík hann með grautarþvöru; Kimbi brá á gaman. Þórður blígur brá honum því á Þórsnesþingi, þá er hann bað Helgu, systur hans; þá lét Kimbi ljósta Blíg með sandtorfu. Af því gerðust deilur þeirra Eyrbyggja og Þorbrandssona og Snorra goða; þeir börðust í Álftafirði og á Vigrafirði.

Þorbergur hét maður, er fór úr Íafirði til Íslands og nam Langadal hvorntveggja og bjó í hinum ytra. Hans son var Áslákur, er átti Arnleifu, dóttur Þórðar gellis: þeirra börn voru þau Illugi hinn rammi og Gunnhildur, er Breiður átti fyrr, en síðar Halldór á Hólmslátri.

Illugi hinn rammi átti Guðleifu, dóttur Ketils smiðjudrumbs; þeirra synir Eyjólfur og Eindriði, Kollur og Gellir, en dóttir Herþrúður, er Þorgrímur Vermundarson átti hins mjóva, og Friðgerður, er Oddur Draflason átti, og Guðríður, er Bergþór son Þormóðar Þorlákssonar átti fyrr, en síðar Jörundur í Skorradal, og Jódís, er átti Már, son Illuga Arasonar, og Arnleif, er átti Kollur, son Þórðar blígs. Frá Illuga eru Langdælir komnir.

Steinn mjögsiglandi Vígbjóðsson bróðir Þóris haustmyrkurs nam Skógarströnd til móts við Þorberg og inn til Laxár; hann bjó á Breiðabólstað. Hans son var Þórhaddur í Hítardal og Þorgestur, er átti Arnóru dóttur Þórðar gellis; synir þeirra Steinn lögsögumaður og Ásmundur og Hafliði og Þórhaddur.

35. kafli

Þorvaldur son Ásvalds Úlfssonar, Yxna-Þórissonar, og Eiríkur rauði son hans fóru af Jaðri fyrir víga sakir og námu land á Hornströndum og bjuggu að Dröngum; þar andaðist Þorvaldur.

Eiríkur fékk þá Þjóðhildar, dóttur Jörundar Atlasonar og Þorbjargar knarrarbringu, er þá átti Þorbjörn hinn haukdælski; réðst Eiríkur þá norðan og ruddi lönd í Haukadal; hann bjó á Eiríksstöðum hjá Vatnshorni.

Þá felldu þrælar Eiríks skriðu á bæ Valþjófs á Valþjófsstöðum, en Eyjólfur saur, frændi hans, drap þrælana hjá Skeiðsbrekkum upp frá Vatnshorni. Fyrir þá sök vó Eiríkur Eyjólf saur; hann vó og Hólmgöngu-Hrafn að Leikskálum. Geirsteinn og Oddur á Jörva, frændur Eyjólfs, mæltu eftir hann.

Þá var Eiríkur gör úr Haukadal. Hann nam þá Brokey og Öxney og bjó að Töðum í Suðurey hinn fyrsta vetur; þá léði hann Þorgesti setstokka. Síðan fór Eiríkur í Öxney og bjó á Eiríksstöðum; þá heimti hann setstokkana og náði eigi. Eiríkur sótti setstokkana á Breiðabólstað, en Þorgestur fór eftir honum; þeir börðust skammt frá garði að Dröngum. Þar féllu tveir synir Þorgests og nokkurir menn aðrir. Eftir það höfðu hvorirtveggju setu. Styr veitti Eiríki og Eyjólfur úr Svíney og synir Þorbrands úr Álftafirði og Þorbjörn Vífilsson, en Þorgesti veittu synir Þórðar gellis og Þorgeir úr Hítardal, Áslákur úr Langadal og Illugi son hans.

Þeir Eiríkur urðu sekir á Þórsnesþingi. Hann bjó skip í Eiríksvogi, en Eyjólfur leyndi honum í Dímunarvogi, meðan þeir Þorgestur leituðu hans um eyjar. Þeir Þorbjörn og Eyjólfur og Styr fylgdu Eiríki út um eyjar; hann sagði þeim, að hann ætlaði að leita lands þess, er Gunnbjörn son Úlfs kráku sá, er hann rak vestur um Ísland, þá er hann fann Gunnbjarnarsker; hann kvaðst aftur mundu leita til vina sinna, ef hann fyndi landið.

Eiríkur sigldi undan Snæfellsnesi, en hann kom utan að Miðjökli, þar sem Bláserkur heitir. Hann fór þaðan suður með landi að leita þess, ef þannig væri byggjanda. Hann var hinn fyrsta vetur í Eiríksey, nær miðri hinni vestri byggð. Um vorið eftir fór hann til Eiríksfjarðar og tók sér þar bústað; hann fór það sumar í hina vestri óbyggð og gaf víða örnefni. Hann var annan vetur í Eiríkshólmum við Hvarfsgnípu, en hið þriðja sumar fór hann allt norður til Snæfells og inn í Hrafnsfjörð; þá lést hann kominn fyrir botn Eiríksfjarðar. Hvarf hann þá aftur og var hinn þriðja vetur í Eiríksey fyrir mynni Eiríksfjarðar.

Eftir um sumarið fór hann til Íslands og kom í Breiðafjörð; hann var þann vetur á Hólmslátri með Ingólfi. Um vorið börðust þeir Þorgestur, og fékk Eiríkur þá ósigur; eftir það voru þeir sættir.

Það sumar fór Eiríkur að byggja land það, er hann hafði fundið og hann kallaði Grænland, því að hann lét það menn mjög mundu fýsa þangað, ef landið héti vel.

Svo segja fróðir menn, að það sumar fóru hálfur þriðji tugur skipa til Grænlands úr Breiðafirði og Borgarfirði, en fjórtán komust út; sum rak aftur, en sum týndust. Það var fimmtán vetrum fyrr en kristni var í lög tekin á Íslandi.

Herjólfur hét maður Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Ingólfs landnámamanns. Þeim Herjólfi gaf Ingólfur land á milli vogs og Reykjaness.

Herjólfur hinn yngri fór til Grænlands, þá er Eiríkur hinn rauði byggði landið. Með honum var á skipi suðureyskur maður kristinn, sá er orti Hafgerðingadrápu; þar er þetta stef í:

Mínar biðk at munka reyni
meinalausan farar beina.
Heiðis haldi hárar foldar
hallar dróttinn of mér stalli.

Herjólfur nam Herjólfsfjörð og bjó á Herjólfsnesi; hann var hinn göfgasti maður.

Eiríkur nam síðan Eiríksfjörð og bjó í Brattahlíð, en Leifur son hans eftir hann. Þessir menn námu land á Grænlandi, er þá fóru út með Eiríki: Herjólfur Herjólfsfjörð; hann bjó á Herjólfsnesi, Ketill Ketilsfjörð, Hrafn Hrafnsfjörð, Sölvi Sölvadal, Helgi Þorbrandsson Álftafjörð, Þorbjörn glóra Siglufjörð, Einar Einarsfjörð, Hafgrímur Hafgrímsfjörð og Vatnahverfi, Arnlaugur Arnlaugsfjörð, en sumir fóru til Vestribyggðar.

Maður hét Þorkell farserkur, systrungur Eiríks rauða; (hann) fór til Grænlands með Eiríki og nam Hvalseyjarfjörð og víðast milli Eiríksfjarðar og Einarsfjarðar og bjó í Hvalseyjarfirði; frá honum eru Hvalseyjarfirðingar komnir. Hann var mjög rammaukinn. Hann lagðist eftir geldingi gömlum út í Hvalsey og flutti utan á baki sér, þá er hann vildi fagna Eiríki (frænda) sínum, en ekki var sæfært skip heima; það er löng hálf vika.

Þorkell var dysjaður í túni í Hvalseyjarfirði og hefir jafnan gengið þar um hýbýli.

36. kafli

Ingólfur hinn sterki nam land inn frá Laxá til Skraumuhlaupsár og bjó á Hólmslátri; hans bróðir var Þorvaldur, faðir Þorleifs, er þar bjó síðan.

Óleifur hinn hvíti hét herkonungur; hann var son Ingjalds konungs Helgasonar, Óláfssonar, Guðröðarsonar, Hálfdanarsonar hvítbeins Upplendingakonungs. Óleifur hinn hvíti herjaði í vesturvíking og vann Dyflinni á Írlandi og Dyflinnarskíri og gerðist þar konungur yfir; hann fékk Auðar hinnar djúpauðgu dóttur Ketils flatnefs; Þorsteinn rauður hét son þeirra. Óleifur féll á Írlandi í orustu, en Auður og Þorsteinn fóru þá í Suðureyjar. Þar fékk Þorsteinn Þuríðar dóttur Eyvindar austmanns, systur Helga hins magra; þau áttu mörg börn. Óláfur feilan hét son þeirra, en dætur Gróa og Álöf, Ósk og Þórhildur, Þorgerður og Vigdís.

Þorsteinn gerðist herkonungur; hann réðst til félags með Sigurði (jarli) hinum ríka, syni Eysteins glumru. Þeir unnu Katanes og Suðurland, Ros og Merrhæfi og meir en hálft Skotland. Gerðist Þorsteinn þar konungur yfir, áður Skotar sviku hann, og féll hann þar í orustu.

Auður var þá á Katanesi, er hún spurði fall Þorsteins. Hún lét þá gera knörr í skógi á laun, en er hann var búinn, hélt hún út í Orkneyjar; þar gifti hún Gró, dóttur Þorsteins rauðs; hún var móðir Grélaðar, er Þorfinnur hausakljúfur átti. Eftir það fór Auður að leita Íslands; hún hafði á skipi með sér tuttugu karla frjálsa.

37. kafli

Kollur hét maður Veðrar-Grímsson, Ásasonar hersis; hann hafði forráð með Auði og var virður mest af henni. Kollur átti Þorgerði, dóttur Þorsteins rauðs.

Erpur hét leysingi Auðar; hann var son Meldúns jarls af Skotlandi, þess er féll fyrir Sigurði jarli hinum ríka; móðir Erps var Myrgjol, dóttir Gljómals Írakonungs. Sigurður jarl tók þau að herfangi og þjáði. Myrgjol var ambátt konu jarls og þjónaði henni trúliga; hún var margkunnandi. Hún varðveitti barn drottningar óborið, meðan hún var í laugu. Síðan keypti Auður hana dýrt og hét henni frelsi, ef hún þjónaði svo Þuríði konu Þorsteins rauðs sem drottningu. Þau Myrgjol og Erpur son hennar fóru til Íslands með Auði.

Auður hélt fyrst til Færeyja og gaf þar Álöfu, dóttur Þorsteins rauðs; þaðan eru Götuskeggjar komnir. Síðan fór hún að leita Íslands. Hún kom á Vikrarskeið og braut þar. Fór hún þá á Kjalarnes til Helga bjólu bróður síns. Hann bauð henni þar með helming liðs síns, en henni þótti það varboðið, og kvað hún hann lengi mundu lítilmenni vera. Hún fór þá vestur í Breiðafjörð til Bjarnar bróður síns; hann gekk mót henni með húskarla sína og lést kunna veglyndi systur sinnar; bauð hann henni þar með alla sína menn, og þá hún það.

Eftir um vorið fór Auður í landaleit inn í Breiðafjörð og lagsmenn hennar; þau átu dögurð fyrir norðan Breiðafjörð, þar er nú heitir Dögurðarnes. Síðan fóru þau inn eyjasund; þau lendu við nes það, er Auður tapaði kambi sínum; það kallaði hún Kambsnes.

Auður nam öll Dalalönd í innanverðum firðinum frá Dögurðará til Skraumuhlaupsár. Hún bjó í Hvammi við Aurriðaárós; þar heita Auðartóftir. Hún hafði bænahald sitt á Krosshólum; þar lét hún reisa krossa, því að hún var skírð og vel trúuð. Þar höfðu frændur hennar síðan átrúnað mikinn á hólana. Var (þar) þá gör hörg, er blót tóku til; trúðu þeir því, að þeir dæi í hólana, og þar var Þórður gellir leiddur í, áður hann tók mannvirðing, sem segir í sögu hans.

38. kafli

Auður gaf land skipverjum sínum og leysingjum.

Ketill hét maður, er hún gaf land frá Skraumuhlaupsá til Hörðadalsár; hann bjó á Ketilsstöðum. Hann var faðir Vestliða og Einars, föður Kleppjárns og Þorbjarnar, er Styr vó, og Þórdísar móður Þorgests.

Hörður hét skipveri Auðar; honum gaf hún Hörðadal. Hans son var Ásbjörn, er átti Þorbjörgu dóttur Miðfjarðar-Skeggja, þeirra börn Hnaki, hann átti Þorgerði, dóttur Þorgeirs höggvinkinna, og Ingibjörg, er Illugi hinn svarti átti.

Vífill hét leysingi Auðar; hann spurði þess Auði, hví hún gaf honum öngvan bústað sem öðrum mönnum. Hún kvað það eigi skipta, kvað hann þar göfgan mundu þykja, sem hann væri. Honum gaf hún Vífilsdal; þar bjó hann og átti deilur við Hörð.

Son Vífils var Þorbjörn, faðir Guðríðar, er átti Þorsteinn, sonur Eiríks hins rauða, (en síðar Þorfinnur karlsefni; frá þeim eru) byskupar komnir: Björn, Þorlákur, Brandur.

Annar son Vífils var Þorgeir, er átti Arnóru dóttur Lón-Einars, þeirra dóttir Yngvildur, er átti Þorsteinn, son Snorra goða.

Hundi hét leysingi Auðar skoskur; honum gaf hún Hundadal; þar bjó hann lengi.

Sökkólfur hét leysingi Auðar; honum gaf hún Sökkólfsdal; hann bjó á Breiðabólstað, og er margt manna frá honum komið.

Erpi syni Meldúns jarls, er fyrr var getið, gaf Auður frelsi og Sauðafellslönd; frá honum eru Erplingar komnir.

Ormur hét son Erps, annar Gunnbjörn, faðir Arnóru, er átti Kolbeinn Þórðarson, þriðji Ásgeir, faðir Þórörnu, er átti Sumarliði Hrappsson; dóttir Erps var Halldís, er átti Álfur í Dölum; Dufnall var enn son Erps, faðir Þorkels, föður Hjalta, föður Beinis; Skati var enn son Erps, faðir Þórðar, föður Gísla, föður Þorgerðar.

Þorbjörn hét maður, er bjó að Vatni í Haukadal; hann átti…, og var þeirra dóttir Hallfríður, er átti Höskuldur í Laxárdal; þau áttu mörg börn. Bárður var son þeirra og Þorleikur, faðir Bolla, er átti Guðrúnu Ósvífursdóttur; þeirra synir voru þeir Þorleikur og Höskuldur, Surtur og Bolli, Herdís og Þorgerður dætur þeirra. Þórður Ingunnarson átti fyrr Guðrúnu, og voru þeirra börn Þórður köttur og Arnkatla. Þorkell Eyjólfsson átti Guðrúnu síðast, þeirra börn Gellir og Rjúpa. Bárður Höskuldsson var faðir Hallbjargar, er átti Hallur, son Víga-Styrs. Hallgerður snúinbrók var dóttir Höskulds og Þorgerður og Þuríður.

39. kafli

(Kollur nam Laxárdal allan og) allt til Haukadalsár; hann var kallaður Dala-Kollur; hann átti Þorgerði dóttur Þorsteins rauðs. Börn þeirra voru þau Höskuldur og Gróa, er átti Véleifur hinn gamli, og Þorkatla, er Þorgeir goði átti, Höskuldur átti Hallfríði, dóttur Þorbjarnar frá Vatni; Þorleikur var son þeirra; hann átti Þuríði, dóttur Arnbjarnar Sleitu-Bjarnarsonar; þeirra son var Bolli.

Höskuldur keypti Melkorku, dóttur Mýrkjartans Írakonungs; þeirra son var Óláfur pá og Helgi; dætur Höskulds Þuríður og Þorgerður og Hallgerður snúinbrók. Óláfur átti Þorgerði, dóttur Egils Skalla-Grímssonar, þeirra son Kjartan og Halldór, Steinþór og Þorbergur, dætur Óláfs Þuríður, Þorbjörg digra og Bergþóra. Kjartan átti Hrefnu dóttur Ásgeirs æðikolls, þeirra son Ásgeir og Skúmur.

Herjólfur son Eyvindar elds fékk síðar (Þorgerðar) dóttur Þorsteins rauðs; Hrútur var son þeirra. Honum galt Höskuldur í móðurarf sinn Kambsnessland milli Haukadalsár og hryggjar þess, er gengur úr fjalli ofan í sjó.

Hrútur bjó á Hrútsstöðum; hann átti Hallveigu dóttur Þorgríms úr Þykkvaskógi, systur Ármóðs hins gamla; þau áttu mörg börn. Þeirra son var Þórhallur, faðir Halldóru, móður Guðlaugs, föður Þórdísar, móður Þórðar, föður Sturlu í Hvammi. Grímur var og sonur Hrúts og Már, Eindriði og Steinn, Þorljótur og Jörundur, Þorkell, Steingrímur, Þorbergur, Atli, Arnór, Ívar, Kár, Kúgaldi, en dætur Bergþóra, Steinunn, Rjúpa, Finna, Ástríður.

Auður gaf dóttur Þorsteins rauðs, Þórhildi, Eysteini meinfret syni Álfs úr Ostu; þeirra son var Þórður, faðir Kolbeins, föður Þórðar skálds, og Álfur í Dölum. Hann átti Halldísi, dóttur Erps; þeirra son var Snorri, faðir Þorgils Höllusonar. Dætur Álfs í Dölum voru þær Þorgerður, er átti Ari Másson, og Þórelfur, er átti Hávar, son Einars Kleppssonar, þeirra son Þorgeir. Þórólfur refur var og son Eysteins, er féll á Þingnessþingi úr liði Þórðar gellis, þá er þeir Tungu-Oddur börðust. Hrappur hét hinn fjórði Eysteins son.

Auður gaf Ósk dóttur Þorsteins Hallsteini goða; þeirra son var Þorsteinn surtur. Vigdísi Þorsteinsdóttur gaf Auður Kampa-Grími, þeirra dóttir Arnbjörg, er Ásólfur flosi átti í Höfða, þeirra börn Oddur og Vigdís, er átti Þorgeir Kaðalsson.

40. kafli

Auður fæddi Óláf feilan son Þorsteins rauðs; hann fékk Álfdísar hinnar barreysku, dóttur Konáls Steinmóðssonar, Ölvissonar barnakarls. Sonur Konáls var Steinmóður, faðir Halldóru, er átti Eilífur son Ketils hins einhenda. Þeirra börn Þórður gellir og Þóra, móðir Þorgríms, föður Snorra goða; hún var og móðir Barkar hins digra og Más Hallvarðssonar. Ingjaldur og Grani voru synir Óláfs feilans. Vigdís hét dóttir Óláfs feilans…. Helga hét hin þriðja dóttir Óláfs; hana átti Gunnar Hlífarson, þeirra dóttir Jófríður, er Þóroddur Tungu-Oddsson átti, en síðar Þorsteinn Egilsson; Þórunn var önnur dóttir Gunnars, er Hersteinn Blund-Ketilsson átti; Rauður og Höggvandill voru synir Gunnars. Þórdís hét hin fjórða dóttir Óláfs feilans; hana átti Þórarinn Ragabróðir; þeirra dóttir var Vigdís, er Steinn Þorfinnsson átti að Rauðamel.

Auður var vegskona mikil. Þá er hún var ellimóð, bauð hún til sín frændum sínum og mágum og bjó dýrliga veislu; en er þrjár nætur hafði veislan staðið, þá valdi hún gjafir vinum sínum og réð þeim heilræði; sagði hún, að þá skyldi standa veislan enn þrjár nætur; hún kvað það vera skyldu erfi sitt. Þá nótt eftir andaðist hún og var grafin í flæðarmáli, sem hún hafði fyrir sagt, því að hún vildi eigi liggja í óvígðri moldu, er hún var skírð. Eftir það spilltist trúa frænda hennar.

Kjallakur hét maður, son Bjarnar hins sterka, bróður Gjaflaugar, er átti Björn hinn austræni; hann fór til Íslands og nam land frá Dögurðará til Klofninga og bjó á Kjallaksstöðum. Hans son var Helgi hrogn og Þorgrímur þöngull undir Felli, Eilífur prúði, Ásbjörn vöðvi á Orrastöðum, Björn hvalmagi í Túngarði, Þorsteinn þynning, Gissur glaði í Skoravík, Þorbjörn skröfuður á Ketilsstöðum, Æsa í Svíney, móðir Eyjólfs og Tin-Forna.

Ljótólfur hét maður; honum gaf Kjallakur bústað á Ljótólfsstöðum inn frá Kaldakinn; hans synir voru Þorsteinn og Björn og Hrafsi; hann var risaættar að móðerni. Ljótólfur var járnsmiður. Þeir réðust út í Fellsskóga á Ljótólfsstaði. Vífill var vin þeirra, er bjó á Vífilstóftum. Þórunn að Þórunnartóftum var móðir Oddmars og fóstra Kjallaks, sonar Bjarnar hvalmaga.

Álöf, dóttir Þorgríms undir Felli, tók ærsl; það kenndu menn Hrafsa, en hann tók Oddmar hjá hvílu hennar, og sagði hann sig valda. Þá gaf Þorgrímur honum Deildarey. Hrafsi kvaðst mundu höggva Oddmar á Birni áður hann bætti fyrir hann. Eigi vildi Kjallakur láta eyna. Hrafsi tók fé þeirra úr torfnausti. Kjallakssynir fóru eftir og náðu eigi. Eftir það stukku þeir Eilífur og Hrafsi í eyna. (Ör kom í þarminn Eilífs ígrás, og hamaðist hann. Björn hvalmagi vó) Björn Ljótólfsson að leik. Þeir Ljótólfur keyptu að Oddmari, að hann kæmi Birni í færi. Kjallakur ungi rann eftir honum. Eigi varð hann sóttur, áður þeir tóku sveininn. Kjallak vógu þeir á Kjallakshóli. Eftir það sóttu Kjallakssynir Ljótólf og Þorstein í jarðhús í Fellsskógum, og fann Eilífur annan munna; gekk hann á bak þeim og vó þá báða. Hrafsi gekk inn á Orrastöðum að boði; hann var í kvenfötum. Kjallakur sat á palli með skjöld. Hrafsi hjó hann Ásbjörn banahögg og gekk út um vegg. Þórður Vífilsson sagði Hrafsa, að yxni hans lægi í keldu; hann bar skjöld hans. Hrafsi fleygði honum fyrir kleif, er hann sá Kjallakssonu. Eigi gátu þeir (sótt) hann, áður þeir felldu viðu að honum. Eilífur sat hjá, er þeir (sóttu) hann.

Hjörleifur Hörðakonungur átti Æsu hina ljósu; þeirra son var Ótryggur, faðir Óblauðs, föður Högna hins hvíta, föður Úlfs hins skjálga. Annar son Hjörleifs var Hálfur, er réð Hálfsrekkum; hans móðir var Hildur en mjóva, dóttir Högna (í) Njarðey. Hálfur konungur var faðir Hjörs konungs, þess er hefndi föður síns með Sölva Högnasyni.

Hjör herjaði á Bjarmaland; hann tók þar að herfangi Ljúfvinu dóttur Bjarmakonungs. Hún var eftir á Rogalandi, þá er Hjör konungur fór í hernað; þá ól hún sonu tvo; hét annar Geirmundur, en annar Hámundur; þeir voru svartir mjög. Þá ól og ambátt hennar son; sá hét Leifur, son Loðhattar þræls. Leifur var hvítur; því skipti drottning sveinum við ambáttina og eignaði sér Leif. En er konungur kom heim, var hann illa við Leif og kvað hann vera smámannligan.

Næst er konungur fór í víking, bauð drottning heim Braga skáldi og bað hann skynja um sveinana; þá voru þeir þrevetrir. Hún byrgði sveinana í stofu hjá Braga, en fal sig í pallinum. Bragi kvað þetta:

Tveir eru inni,
trúi ek báðum vel,
Hámundr ok Geirmundr,
Hjörvi bornir,
en Leifr þriði
Loðhattarson.
Fæðat þú þann, kona.
Fáir munu verri.

Hann laust sprotanum á pall þann, er drottning var í. Þá er konungur kom heim, sagði drottning honum þetta og sýndi honum sveinana; hann lést eigi slík heljarskinn séð hafa. Því voru þeir svo síðan kallaðir báðir bræður.

Geirmundur heljarskinn var herkonungur; hann herjaði í vesturvíking, en átti ríki á Rogalandi. En er hann kom aftur, þá er hann hafði lengi í bruttu verið, þá hafði Haraldur konungur barist í Hafursfirði við Eirík Hörðakonung og Súlka konung af Rogalandi og Kjötva hinn auðga og fengið sigur. Hann hafði þá lagt undir sig allt Rogaland og tekið þar marga menn af óðulum sínum. Sá þá Geirmundur öngvan annan sinn kost en ráðast brutt, því að hann fékk þar öngvar sæmdir.

Hann tók þá það ráð að leita Íslands. Til ferðar réðust með honum þeir Úlfur hinn skjálgi frændi hans og Steinólfur hinn lági, son Hrólfs hersis af Ögðum og Öndóttar, systur Ölvis barnakarls.

Þeir Geirmundur höfðu samflot. Og stýrði sínu skipi hver þeirra. Þeir tóku Breiðafjörð og lágu við Elliðaey; þá spurðu þeir, að fjörðurinn var byggður hið syðra, en lítt eða ekki hið vestra. Geirmundur hélt inn að Meðalfellsströnd og nam land frá Fábeinsá til Klofasteina; hann lagði í Geirmundarvog, en var hinn fyrsta vetur í Búðardal. Steinólfur nam land inn frá Klofasteinum, en Úlfur fyrir vestan fjörð, sem enn mun sagt verða.

Geirmundi þótti landnám sitt of lítið, er hann hafði rausnarbú og fjölmennt, svo að hann hafði átta tigu frelsingja; hann bjó á Geirmundarstöðum undir Skarði.

Maður hét Þrándur mjóbeinn; hann fór til Íslands með Geirmundi heljarskinni; hann var ættaður af Ögðum. Þrándur nam eyjar fyrir vestan Bjarneyjaflóa og bjó í Flatey; hann átti dóttur Gils skeiðarnefs; þeirra son var Hergils hnapprass, er bjó í Hergilsey. Dóttir Hergils var Þorkatla, er átti Már á Reykjahólum. Hergils átti Þórörnu, dóttur Ketils ilbreiðs; Ingjaldur var son þeirra, er bjó í Hergilsey og veitti Gisla Súrssyni. Fyrir það gerði Börkur hinn digri af honum eyjarnar, en hann keypti Hlíð í Þorskafirði. Son hans var Þórarinn, er átti Þorgerði, dóttur Glúms (Geirasonar); þeirra son var (Helgu-)Steinar. Þórarinn var með Kjartani í Svínadal, þá er hann féll.

Þá bjó Þrándur mjóbeinn í Flatey, er Oddur skrauti og Þórir son hans komu út. Þeir námu land í Þorskafirði; bjó Oddur í Skógum, en Þórir fór utan og var í hernaði; hann fékk gull mikið á Finnmörk. Með honum voru synir Halls af Hofstöðum. En er þeir komu til Íslands, kallaði Hallur til gullsins, og urðu þar um deilur miklar; af því gerðist Þorskfirðinga saga. Gull-Þórir bjó á Þórisstöðum; hann átti Ingibjörgu, dóttur Gils skeiðarnefs, og var þeirra son Guðmundur. Þórir var hið mesta afarmenni.

Geirmundur fór vestur á Strandir og nam þar land frá Rytagnúp vestan til Horns og þaðan austur til Straumness. Þar gerði hann fjögur bú, eitt í Aðalvík, það varðveitti ármaður hans; annað í Kjaransvík, það varðveitti Kjaran þræll hans; þriðja á almenningum hinum vestrum, það varðveitti Björn þræll hans, er sekur varð um sauðatöku eftir dag Geirmundar; af hans sektarfé urðu almenningar: fjórða í Barðsvík, það varðveitti Atli þræll hans, og hafði hann fjórtán þræla undir sér.

En er Geirmundur fór meðal búa sinna, hafði hann jafnan átta tigu manna. Hann var vellauðigur að lausafé og hafði of kvikfjár. Svo segja menn, að svín hans gengi á Svínanesi, en sauðir á Hjarðarnesi, en hann hafði selför í Bitru. Sumir segja, að hann hafi og bú átt í Selárdal á Geirmundarstöðum í Steingrímsfirði.

Það segja vitrir menn, að hann hafi göfgastur verið allra landnámsmanna á Íslandi. Lítt átti hann hér deilur við menn; hann kom heldur gamall út. Þeir Kjallakur deildu um land það, er var á meðal Klofninga og Fábeinsár, og börðust á ekrunum fyrir utan Klofninga; þar vildu hvorirtveggju sá; þar veitti Geirmundi betur. Þeir Björn hinn austræni og Vestar af Eyri sættu þá; þá lendi Vestar í Vestarsnesi, er hann fór til fundarins.

Geirmundur fal fé sitt mikið í Andarkeldu undir Skarði. Hann átti Herríði Gautsdóttur, Gautrekssonar; Ýr var dóttir þeirra. Síðan átti hann Þorkötlu dóttur Ófeigs Þórólfssonar; þeirra börn Geirríður og…

Geirmundur andaðist á Geirmundarstöðum, og er hann lagður í skip þar út í skóginum frá garði.

42. kafli

Steinólfur hinn lági son Hrólfs hersis af Ögðum nam land inn frá Klofasteinum til Grjótvallarmúla og bjó í Fagradal á Steinólfshjalla. Hann gekk þar inn á fjallið og sá fyrir innan dal mikinn og vaxinn allan viði. Hann sá eitt rjóður í dal þeim; þar lét hann bæ gera og kallaði Saurbæ, því að þar var mýrlent mjög, og svo kallaði hann allan dalinn. Það heitir nú Torfnes, er bærinn var gör.

Steinólfur átti Eirnýju Þiðrandadóttur. Þorsteinn búandi var son þeirra, en Arndís hin auðga var dóttir þeirra, móðir Þórðar, föður Þorgerðar, er Oddur átti; þeirra son var Hrafn Hlymreksfari, er átti Vigdísi dóttur Þórarins fylsennis; þeirra son var Snörtur, faðir Jódísar, er átti Eyjólfur Hallbjarnarson, þeirra dóttir Halla, er átti Atli Tannason, þeirra dóttir Yngvildur, er átti Snorri Húnbogason.

Steinólfi hurfu svín þrjú; þau fundust tveim vetrum síðar í Svínadal, og voru þau þá þrír tigir svína.

Steinólfur nam og Steinólfsdal í Króksfirði.

Sléttu-Björn hét maður; hann átti Þuríði dóttur Steinólfs hins lága; hann nam með ráði Steinólfs hinn vestra dal í Saurbæ; hann bjó á Sléttu-Bjarnarstöðum upp frá Þverfelli. Hans son var Þjóðrekur, er átti Arngerði, dóttur Þorbjarnar Skjalda-Bjarnarsonar; þeirra son var Víga-Sturla, er bæinn reisti á Staðarhóli, og Knöttur faðir Ásgeirs og Þorbjörn og Þjóðrekur, er borgin er við kennd á Kollafjarðarheiði.

Þjóðreki Sléttu-Bjarnarsyni þótti of þrönglent í Saurbæ; því réðst hann til Ísafjarðar; þar gerðist saga þeirra Þorbjarnar og Hávarðar hins halta.

Óláfur belgur, er Ormur hinn mjóvi rak á brutt úr Óláfsvík, nam Belgsdal og bjó á Belgsstöðum, áður þeir Þjóðrekur ráku hann á brutt; síðan nam hann inn frá Grjótvallarmúla og bjó í Óláfsdal. Hans son var Þorvaldur, sá er sauðatöku sök seldi á hendur Þórarni gjallanda Ögmundi Völu-Steinssyni; fyrir það vó hann Ögmund á Þorskafjarðarþingi.

Gils skeiðarnef nam Gilsfjörð milli Óláfsdals og Króksfjarðarmúla; hann bjó á Kleifum. Hans son var Heðinn, faðir Halldórs Garpsdalsgoða, föður Þorvalds í Garpsdal, er átti Guðrúnu Ósvífursdóttur.

43. kafli

Þórarinn krókur nam Króksfjörð til Hafrafells frá Króksfjarðarnesi. Hann deildi um Steinólfsdal við Steinólf hinn lága og röri eftir honum með tíunda mann, er hann fór úr seli með sjöunda mann. Þeir börðust við Fagradalsárós á eyrinni; þá komu menn til frá húsi að hjálpa Steinólfi. Þar féll Þórarinn krókur og þeir fjórir, en sjö menn af Steinólfi; þar eru kuml þeirra.

Ketill ilbreiður nam Berufjörð, son Þorbjarnar tálkna. Hans dóttir var Þórarna, er átti Hergils hnapprass son Þrándar mjóbeins; Ingjaldur hét son þeirra; hann var faðir Þórarins, er átti Þorgerði dóttur Glúms Geirasonar; þeirra son var Helgu-Steinar. Þrándur mjóbeinn átti dóttur Gils skeiðarnefs; þeirra dóttir var Þórarna, er átti Hrólfur son Helga hins magra. Þorbjörg knarrarbringa var önnur dóttir Gils skeiðarnefs. Herfiður hét son hans, er bjó í Króksfirði.

Úlfur hinn skjálgi son Högna hins hvíta nam Reykjanes allt milli Þorskafjarðar og Hafrafells; hann átti Björgu dóttur Eyvindar austmanns, systur Helga hins magra. Þeirra son var Atli (hinn) rauði, er átti Þorbjörgu systur Steinólfs (hins) lága. Þeirra son var Már á Hólum; hann átti Þorkötlu dóttur Hergils hnapprass; þeirra son var Ari.

Hann varð sæhafi til Hvítramannalands; það kalla sumir Írland hið mikla; það liggur vestur í haf nær Vínlandi hinu góða; það er kallað sex dægra sigling vestur frá Írlandi. Þaðan náði Ari eigi á brutt að fara og var þar skírður. Þessa sögu sagði fyrst Hrafn Hlymreksfari, er lengi hafði verið í Hlymreki á Írlandi.

Svo kvað Þorkell Gellisson segja íslenska menn, þá er heyrt höfðu frá segja Þorfinn (jarl) í Orkneyjum, að Ari hefði kenndur verið á Hvítramannalandi og náði eigi brutt að fara, en var þar vel virður.

Ari átti Þorgerði dóttur Álfs úr Dölum; þeirra son var Þorgils og Guðleifur og Illugi; það er Reyknesingaætt.

Jörundur hét son Úlfs hins skjálga; hann átti Þorbjörgu knarrarbringu. Þeirra dóttir var Þjóðhildur, er átti Eiríkur rauði, þeirra son Leifur hinn heppni á Grænlandi. Jörundur hét son Atla hins rauða; hann átti Þórdísi dóttur Þorgeirs suðu; þeirra dóttir var Otkatla, er átti Þorgils Kollsson. Jörundur var og faðir Snorra.

44. kafli

Hallsteinn son Þórólfs Mostrarskeggs nam Þorskafjörð og bjó á Hallsteinsnesi; hann blótaði þar til þess, að Þór sendi honum öndvegissúlur. Eftir það kom tré á land hans, það er var sextigi og þriggja álna og tveggja faðma digurt; það var haft til öndvegissúlna, og eru þar af görvar öndvegissúlur nær á hverjum bæ um þverfjörðuna. Þar heitir nú Grenitrésnes, er tréið kom á land.

Hallsteinn hafði herjað á Skotland og tók þar þræla þá, er hann hafði út; þá sendi hann til saltgörðar í Svefneyjar; þar höfðu þeir Hallsteins þræla hag fram.

Hallsteinn átti Ósku dóttur Þorsteins (rauðs). Þeirra son var Þorsteinn (surtur), er fann sumarauka. Þorsteinn surtur átti. .. Þeirra son var Þórarinn, en dóttir Þórdís, er átti Þorkell trefill, og Ósk, er átti Steinn mjögsiglandi; Þorsteinn hvíti hét son þeirra. Sámur hét son Þorsteins surts óskilgetinn; hann deildi um arf Þorsteins við Trefil, því að hann vildi halda í hendur börnum Þórarins.

Þorbjörn loki hét maður, son Böðmóðs úr skut; hann fór til Íslands og nam Djúpafjörð og Grónes til Gufufjarðar. Hans son var Þorgils á Þorgilsstöðum í Djúpafirði, faðir Kolls, er átti Þuríði Þórisdóttur, Hallaðarsonar jarls, Rögnvaldssonar Mærajarls. Þorgils var son þeirra; hann átti Otkötlu, dóttur Jörundar Atlasonar hins rauða; þeirra son var Jörundur; hann átti Hallveigu dóttur Odda Yrarsonar og Ketils gufu. Snorri var Jörundarson; hann átti Ásnýju, dóttur Víga-Sturlu. Þeirra son var Gils, er átti Þórdísi Guðlaugsdóttur og dóttur Þorkötlu Halldórsdóttur, Snorrasonar goða, en son Gils var Þórður; hann átti Vigdísi Svertingsdóttur. Þeirra son var Sturla í Hvammi.

45. kafli

Ketill gufa hét maður Örlygsson, Böðvarssonar, Vígsterkssonar; Örlygur átti Signýju Óblauðsdóttur, systur Högna hins hvíta.

Ketill son þeirra kom út síð landnámatíðar; hann hafði verið í vesturvíking og haft (úr) vesturvíking þræla írska; hét einn Þormóður, annar Flóki, þriðji Kóri, fjórði Svartur og Skorrar tveir.

Ketill tók Rosmhvalanes; sat hann hinn fyrsta vetur að Gufuskálum, en um vorið fór hann inn á Nes og sat á Gufunesi annan vetur.

Þá hljópu þeir Skorri hinn eldri og Flóki frá honum með konur tvær og fé mikið; þeir voru á laun í Skorraholti, en þeir voru drepnir í Flókadal og Skorradal.

Ketill fékk öngvan bústað á Nesjum, og fór hann inn í Borgarfjörð og sat hinn þriðja vetur að Gufuskálum við Gufá. Snemma um vorið fór hann vestur í Breiðafjörð að leita sér landa; þar var hann á Geirmundarstöðum og bað Ýrar dóttur Geirmundar og gat; vísaði hann þá Katli til landa fyrir vestan fjörð.

En meðan Ketill var vestur, þá hljópu þrælar hans á braut og komu fram um nótt á Lambastöðum; þar bjó þá Þórður son Þorgeirs lamba og Þórdísar Yngvarsdóttur, (móður)systur Egils Skalla-Grímssonar. Þrælarnir báru eld að húsum og brenndu Þórð inni og hjón hans öll; þeir brutu þar upp görvibúr og tóku vöru mikla og lausafé; síðan ráku þeir heim hross og klyfjuðu; þeir snöru á leið til Álftaness. Lambi hinn (sterki) son Þórðar kom af þingi um morgininn, þá er þeir voru farnir á braut; hann fór eftir þeim, og drífa þá menn til af bæjum. En er þrælarnir sá það, hljóp sinn veg hver þeirra. Þeir tóku Kóra í Kóranesi, en sumir gengu á sund; Svart tóku þeir í Svartsskeri, en Skorra í Skorrey fyrir Mýrum, en Þormóð út í Þormóðsskeri; það er vika undan landi.

En er Ketill gufa kom aftur, þá fór hann vestur fyrir Mýrar og var hinn fjórða vetur á Snæfellsnesi að Gufuskálum; hann nam síðan Gufufjörð og Skálanes til Kollafjarðar. Þau Ketill og Ýr áttu tvo sonu; var Þórhallur annar, faðir Hallvarar, er átti Börkur son Þormóðar Þjóstarssonar; annar var Oddi, er átti Þorlaugu Hrólfsdóttur frá Ballará og Þuríðar dóttur Valþjófs Örlygssonar frá Esjubergi.

46. kafli

Kolli Hróaldsson nam Kollafjörð og Kvígandanes og Kvígandafjörð; hann seldi ýmsum mönnum landnám sitt.

Knjúkur hét son Þórólfs sparrar, er út kom með Örlygi; hann var kallaður Nesja-Knjúkur. Hann nam nes öll til Barðastrandar frá Kvígandafirði og bjó… Annar son Knjúks var Einar, faðir Steinólfs, föður Salgerðar, móður Bárðar svarta. Þóra hét dóttir Knjúks, er átti Þorvaldur son Þórðar Víkingssonar. Þeirra son var Mýra-Knjúkur, faðir Þorgauts, föður Steinólfs, föður Höllu, móður Steinunnar, móður Hrafns á Eyri.

Knjúkur átti Eyju dóttur Ingjalds Helgasonar magra; þeirra son var Eyjólfur faðir Þorgríms Kötlusonar. Glúmur átti fyrr Kötlu, og var þeirra dóttir Þorbjörg kolbrún, er Þormóður orti um. Steingrímur hét son Þorgríms, faðir Yngvildar, er átti Úlfheðinn á Víðimýri.

Geirsteinn kjálki nam Kjálkafjörð og Hjarðarnes með ráði Knjúks. Hans son var Þorgils, er átti Þóru, dóttur Vestars af Eyri. Þeirra son var Steinn hinn danski; hann átti Hallgerði Örnólfsdóttur, Ármóðssonar hins rauða. Örnólfur átti Vigdísi dóttur… Vigdís hét dóttir Steins hins danska og Hallgerðar, er átti Illugi Steinbjarnarson. Þeirra dóttir var Þórunn, móðir Þorgeirs langhöfða.

Geirleifur son Eiríks Högnasonar hins hvíta nam Barðaströnd milli Vatnsfjarðar og Berghlíða; hann var faðir þeirra Oddleifs og Helga skarfs.

Oddleifur var faðir Gests hins spaka og Þorsteins og Æsu, er átti Þorgils son Gríms úr Grímsnesi. Þeirra synir voru þeir Jörundur í Miðengi og Þórarinn að Búrfelli. Gestur átti…. voru þeirra börn Þórður og Halla, er Snorri Dala-Álfsson átti. Þorgils var son þeirra. Önnur dóttir Gests var Þórey, er Þorgils átti. Þórarinn var son þeirra, faðir Jódísar, móður Illuga, föður Birnu, móður Illuga og Arnórs og Eyvindar.

Helgi skarfur var faðir Þorbjargar kötlu, er átti Þorsteinn Sölmundarson, þeirra synir Refur í Brynjudal og Þórður, faðir Illuga, föður Hróðnýjar, er Þorgrímur sviði átti. Þórdís hét önnur dóttir Helga skarfs, er átti Þorsteinn Ásbjarnarson úr Kirkjubæ austari. Þeirra son var Surtur, faðir Sighvats lögsögumanns.

Geirleifur átti Jóru Helgadóttur. Þorfinnur hét hinn þriðji son Geirleifs; hann átti Guðrúnu Ásólfsdóttur. Ásmundur hét son þeirra; hann átti Hallkötlu, dóttur Bjarnar Mássonar, Ásmundarsonar. Hlenni hét son þeirra; hann átti Ægileifu dóttur Þorsteins Kröflusonar. Þorfiður var son þeirra, faðir Þorgeirs langhöfða. Þorsteinn Oddleifsson var faðir Ísgerðar, er átti Bölverkur, son Eyjólfs hins grá, þeirra son Gellir lögsögumaður. Véný var enn dóttir Þorsteins, móðir Þórðar krákunefs; þaðan eru Krákneflingar komnir.

47. kafli

Ármóður hinn rauði Þorbjarnarson, fóstbróðir Geirleifs, nam Rauðasand; hans synir voru þeir Örnólfur og Þorbjörn, faðir Hrólfs hins rauðsenska.

Þórólfur spör kom út með Örlygi og nam Patreksfjörð fyrir vestan og víkur fyrir vestan Barð nema Kollsvík; þar bjó Kollur fóstbróðir Örlygs. Þórólfur nam og Keflavík fyrir sunnan Barð og bjó að Hvallátrum. Þeir Nesja-Knjúkur og Ingólfur hinn sterki og Geirþjófur voru synir Þórólfs sparrar. Þórarna var dóttir Ingólfs, er Þorsteinn Öddleifsson (átti).

Þorbjörn tálkni og Þorbjörn skúma, synir Böðvars blöðruskalla, komu út með Örlygi; þeir námu Patreksfjörð hálfan og Tálknafjörð allan til Kópaness.

Ketill ilbreiður, son Þorbjarnar tálkna, nam dali alla frá Kópanesi til Dufansdals; hann gaf Þórörnu dóttur sína Hergilsi hnapprass; réðst hann þá suður í Breiðafjörð og nam Berufjörð hjá Reykjanesi.

Örn hét maður ágætur; hann var frændi Geirmundar heljarskinns; hann fór af Rogalandi fyrir ofríki Haralds konungs. Hann nam land í Arnarfirði svo vítt sem hann vildi; hann sat um veturinn á Tjaldanesi, því að þar gekk eigi sól af um skammdegi.

Ánn rauðfeldur, son Gríms loðinkinna úr Hrafnistu og son Helgu dóttur Ánar bogsveigis, varð missáttur við Harald konung hinn hárfagra og fór því úr landi í vesturvíking; hann herjaði á Írland og fékk þar Grélaðar dóttur Bjartmars jarls. Þau fóru til Íslands og komu í Arnarfjörð vetri síðar en Örn. Ánn var hinn fyrsta vetur í Dufansdal; þar þótti Grélöðu illa ilmað úr jörðu.

Örn spurði til Hámundar heljarskinns frænda síns norður í Eyjafirði, og fýstist hann þangað; því seldi hann Áni rauðfeld lönd öll milli Langaness og Stapa. Ánn gerði bú á Eyri; þar þótti Grélöðu hunangsilmur úr grasi.

Dufann var leysingi Ánar; hann bjó eftir í Dufansdal.

Bjartmar var son Ánar, faðir Végesta tveggja og Helga, föður Þuríðar arnkötlu, er átti Hergils; þeirra dóttir var Þuríður arnkatla, er átti Helgi Eyþjófsson. Þórhildur var dóttir Bjartmars, er átti Vésteinn Végeirsson. Vésteinn og Auður voru börn þeirra. Hjallkár var leysingi Ánar; hans son var Björn þræll Bjartmars. Hann gaf Birni frelsi. Þá græddi hann fé, en Végestur vandaði um og lagði hann spjóti í gegnum, en Björn laust hann með grefi til bana.

Geirþjófur Valþjófsson nam land í Arnarfirði, Fossfjörð, Reykjarfjörð, Trostansfjörð, Geirþjófsfjörð, og bjó í Geirþjófsfirði; hann átti Valgerði, dóttur Úlfs hins skjálga. Þeirra son var Högni; hann átti Auði, dóttur Óláfs jafnakolls og Þóru Gunnsteinsdóttur. Atli var son þeirra; hann átti Þuríði Þorleifsdóttur, Eyvindarsonar knés og Þuríðar rymgyltu. Þorleifur átti Gró dóttur Þórólfs brækis. Höskuldur var son Atla, faðir (Atla, föður) Bárðar hins svarta.

48. kafli

Eiríkur hét maður, er nam Dýrafjörð og Sléttanes til Stapa og til Háls hins ytra í Dýrafirði. Hann var faðir Þorkels, föður Þórðar, föður Þorkels, föður Steinólfs, föður Þórðar, föður Þorleifar, móður Þorgerðar, móður Þóru, móður Guðmundar gríss. Þorleif var móðir Línu, móður Cecilíu, móður Bárðar og Þorgerðar, er átti Björn hinn enski. Þeirra börn voru þau Arnis ábóti og Þóra, er átti Ámundi Þorgeirsson.

Vésteinn son Végeirs, bróðir Vébjarnar Sygnakappa, nam land milli Hálsa í Dýrafirði og bjó í Haukadal; hann átti Þórhildi Bjartmarsdóttur, þeirra börn Vésteinn og Auður.

Þorbjörn súr kom út að albyggðu landi; honum gaf Vésteinn hálfan Haukadal. Hans synir voru þeir Gísli og Þorkell og Ari, en dóttir Þórdís, er Þorgrímur átti, þeirra son Snorri goði. Síðan átti Þórdísi Börkur hinn digri, þeirra dóttir Þuríður, er átti Þorbjörn digri, en síðar Þóroddur skattkaupandi. Þeirra son var Kjartan að Fróðá.

Dýri hét maður ágætur; hann fór af Sunnmæri til Íslands að ráði Rögnvalds jarls, en fyrir ofríki Haralds konungs hárfagra. Dýri nam Dýrafjörð og bjó að Hálsum. Hans son var Hrafn á Ketilseyri, faðir Þuríðar, er átti Vésteinn Vésteinsson, þeirra synir Bergur og Helgi.

Þórður hét maður Víkingsson eða son Haralds konungs hárfagra; (hann) fór til Íslands og nam land milli Þúfu á Hjallanesi og Jarðfallsgils; hann bjó í Alviðru. Þórður átti Þjóðhildi dóttur Eyvindar austmanns, systur Helga hins magra.

Þorkell Alviðrukappi og hinn auðgi var son þeirra; hann átti…. Þórður hét son þeirra, annar Eyjólfur: faðir Gísla, er átti Hallgerði Vermundardóttur hins mjóva. Þeirra son var Brandur, faðir Guðmundar prests í Hjarðarholti: en dóttir Þóra, er átti Brandur Þórhaddsson, þeirra dóttir Steinvör, móðir Rannveigar, móður Sæhildar, er Gissur átti. Helgi hét annar son Eyjólfs; hans börn voru þau Óláfur og Guðleif, er Fjarska-Fiður átti.

Þorvaldur hvíti hét annar son Þórðar Víkingssonar; hann átti Þóru dóttur Nesja-Knjúks. Þeirra son var Mýra-Knjúkur, faðir Þorgauts, föður Steinólfs, er átti Herdísi Tindsdóttur. Þeirra börn voru þau Þorkell á Mýrum og Halla, er átti Þórður Oddleifsson. Annar son Þorvalds hvíta var Þórður örvöndur, er átti Ásdísi Þorgrímsdóttur Harðrefssonar. Móðir Ásdísar var Rannveig, dóttir Grjótgarðs Hlaðajarls. Ásdís var móðir Úlfs stallara, en systir Ljóts hins spaka og Halldísar, er Þorbjörn Þjóðreksson átti. Dóttir þeirra Þórðar örvandar var Otkatla, er átti Sturla Þjóðreksson, þeirra son Þórður, er átti Hallberu dóttur Snorra goða, þeirra dóttir Þuríður, er átti Hafliði Másson. Snorri var son Þórðar Sturlusonar, er átti Oddbjörgu, dóttur Gríms Loðmundarsonar. Þeirra börn voru þau Flugu-Grímur og Hallbera, er Mág-Snorri átti. Dætur Sturlu voru sex. Ein var Ásný, er Snorri Jörundarson átti, þeirra dóttir Þórdís, móðir Höskulds læknis. Son þeirra Snorra og Ásnýjar var Gils, faðir Þórðar, föður Sturlu í Hvammi.

49. kafli

Ingjaldur Brúnason nam Ingjaldssand milli Hjallaness og Ófæru; hann var faðir Harðrefs, föður Þorgríms, föður þeirra Ljóts hins spaka, sem áður var ritað.

Ljótur hinn spaki bjó að Ingjaldssandi, son Þorgríms Harðrefssonar, en móðir hans var Rannveig, dóttir Grjótgarðs jarls. Þorgrímur gagar var son Ljóts. Halldísi systur Ljóts átti Þorbjörn Þjóðreksson, en Ásdísi, aðra systur Ljóts, nam Óspakur Ósvífursson; um þá sök sótti Ljótur Óspak til sektar. Úlfur hét son þeirra; þann fæddi Ljótur.

Grímur kögur bjó á Brekku; hans synir voru þeir Sigurður og Þorkell, litlir menn og smáir. Þórarinn hét fósturson Ljóts. Ljótur kaupir slátur að Grími til tuttugu hundraða og galt læk, er féll meðal landa þeirra; sá hét Ósómi. Grímur veitti hann á eng sína og gróf land Ljóts, en hann gaf sök á því, og var fátt með þeim.

Ljótur tók við austmanni í Vaðli; sá lagði hug á Ásdísi.

Gestur Oddleifsson sótti haustboð til Ljóts; þá kom þar Egill Völu-Steinsson og bað Gest, að hann legði ráð til, að föður hans bættist helstríð, er hann bar um Ögmund, son sinn. Gestur orti upphaf að Ögmundardrápu. Ljótur spurði Gest, hvað manna Þorgrímur gagar mundi verða. Gestur kvað Þórarin fóstra hans, frægra mundu verða og bað Þórarin við sjá, að eigi vefðist hár það um höfuð honum, er lá á tungu hans. Óvirðing þótti Ljóti þetta og spurði um morguninn, hvað fyrir Þorgrími lægi. Gestur kvað Úlf systurson hans mundu frægra verða.

Þá varð Ljótur reiður og reið þó á leið með Gesti og spurði: «Hvað mun mér að bana verða?»

Gestur kvaðst eigi sjá örlög hans, en bað hann vera vel við nábúa sína.

Ljótur spurði: «Munu jarðlýsnar, synir Gríms kögurs, verða mér að bana?»

«Sárt bítur soltin lús,» kvað Gestur.

«Hvar mun það verða?» kvað Ljótur.

«Héðra nær,» kvað Gestur.

Austmaður reiddi Gest á heiði upp og studdi Gest á baki, er hestur rasaði undir honum.

Þá mælti Gestur: «Happ sótti þig nú, en brátt mun annað; gættu, að þér verði það eigi að óhappi.»

Austmaðurinn fann grafsilfur, er hann fór heim. Og tók af tuttugu penninga og ætlaði, að hann mundi feta til síðar; en er hann leitaði, fann hann eigi; en Ljótur fékk tekið hann, er hann var að grefti, og gerði af honum þrjú hundruð fyrir hvern penning.

Það haust var veginn Þorbjörn Þjóðreksson.

Um vorið sat Ljótur að þrælum sínum á hæð einni; hann var í kápu, og var höttrinn lerkaður um hálsinn og ein ermur á. Þeir Kögurssynir hljópu á hæðina og hjöggu til hans báðir senn; eftir það snaraði Þorkell höttinn að höfði honum. Ljótur bað þá láta gott í búsifjum sínum, og hröpuðu þeir af hæðinni á götu þá, er Gestur hafði riðið; þar dó Ljótur. Þeir Grímssynir fóru til Hávarðar halta. Eyjólfur grái veitti þeim öllum og Steingrímur son hans.

50. kafli

Önundur Víkingsson, bróðir Þórðar í Alviðru, nam Önundar(fjörð allan) og bjó á Eyri.

Hallvarður súgandi var í orustu móti Haraldi konungi í Hafursfirði; hann fór af þeim ófriði til Íslands og nam Súgandafjörð og Skálavík til Stiga og bjó þar.

Þuríður sundafyllir og Völu-Steinn son hennar fór af Hálogalandi til Íslands og nam Bolungarvík, og bjuggu í Vatnsnesi. Hún var því kölluð sundafyllir, að hún seiddi til þess í hallæri á Hálogalandi, að hvert sund var fullt af fiskum. Hún setti og Kvíarmið á Ísafjarðardjúpi og tók til á kollótta af hverjum bónda í Ísafirði. Synir Völu-Steins voru þeir Ögmundur og Egill.

Helgi hét son Hrólfs úr Gnúpufelli; hann var getinn austur og upplenskur að móðurætt. Helgi fór til Íslands að vitja frænda sinna; hann kom í Eyjafjörð, og var þar þá albyggt. Eftir það vildi hann utan og varð afturreka í Súgandafjörð. Hann var um veturinn með Hallvarði, en um vorið fór hann að leita sér bústaðar. Hann fann fjörð einn og hitti þar skutil í flæðarmáli; það kallaði hann Skutilsfjörð; þar byggði hann síðan.

Hans son var Þorsteinn ógæfa; hann fór utan og vó hirðmann Hákonar jarls Grjótgarðssonar, en Eyvindur ráðgjafi jarlsins sendi Þorstein til handa Vébirni Sygnatrausta. Hann tók við honum, en Védís systir hans latti þess. Fyrir það seldi Vébjörn eignir sínar og fór til Íslands, er hann treystist eigi að halda manninn.

Þórólfur brækir nam sunnan Skutilsfjörð og Skálavík og bjó þar.

Eyvindur kné fór af Ögðum til Íslands og Þuríður rúmgylta kona hans; þau námu Álftafjörð og Seyðisfjörð og bjuggu þar. Þeirra son var Þorleifur, er fyrr var getið, og Valbrandur faðir Hallgríms og Gunnars og Bjargeyjar, er átti Hávarður halti. Þeirra son var Óláfur.

Geir hét maður ágætur í Sogni; hann var kallaður Végeir, því að hann var blótmaður mikill; hann átti mörg börn. Vébjörn Sygnakappi var elstur sona hans og Vésteinn, Véþormur, Vémundur, Végestur og Véþorn, en Védís dóttir. Eftir andlát Végeirs varð Vébjörn ósáttur við Hákon jarl, sem fyrr var getið; því fóru þau systkin til Íslands. Þau höfðu útivist harða og langa.

Þau tóku um haustið Hlöðuvík fyrir vestan Horn; þá gekk Vébjörn að blóti miklu; hann kvað Hákon þann dag blóta þeim til óþurftar. En er hann var að blótinu, eggjuðu bræður hans hann til brautfarar, og gáði hann eigi blótsins, og létu þeir út. Þeir brutu þann dag skip sitt undir hömrum miklum í illviðri; þar komust þau nauðuglega upp, og gekk Vébjörn fyrir; það er nú kölluð Sygnakleif.

En um veturinn tók við þeim öllum Atli í Fljóti, þræll Geirmundar heljarskinns. En er Geirmundur vissi úrlausn Atla, þá gaf hann honum frelsi og bú það, er hann varðveitti; hann varð síðan mikilmenni.

Vébjörn nam um vorið eftir land milli Skötufjarðar og Hestfjarðar, svo vítt sem hann gengi um á dag og því meir, sem hann kallaði Folafót.

Vébjörn var vígamaður mikill, og er saga mikil frá honum. Hann gaf Védísi Grímólfi í Unaðsdal; þeir urðu missáttir, og vó Vébjörn hann hjá Grímólfsvötnum. Fyrir það var Vébjörn veginn á fjórðungsþingi á Þórsnesi og þrír menn aðrir.

Gunnsteinn og Halldór hétu synir Gunnbjarnar Úlfssonar kráku, er Gunnbjarnarsker eru við kennd; þeir námu Skötufjörð og Laugardal og Ögurvík til Mjóvafjarðar. Bersi var son Halldórs, faðir Þormóðar Kolbrúnarskálds. Þar í Laugardal bjó síðan Þorbjörn Þjóðreksson, er vó Óláf, son Hávarðar halta og Bjargeyjar Valbrandsdóttur; þar af gerðist saga Ísfirðinga og víg Þorbjarnar.

51. kafli

Snæbjörn son Eyvindar austmanns, bróðir Helga magra, nam land milli Mjóvafjarðar og Langadalsár og bjó í Vatnsfirði. Hans son var Hólmsteinn faðir Snæbjarnar galta. Móðir Snæbjarnar var Kjalvör, og voru þeir Tungu-Oddur systrasynir. Snæbjörn var fóstraður í Þingnesi með Þóroddi.

Hallbjörn son Odds frá Kiðjabergi Hallkelssonar, bróður Ketilbjarnar hins gamla, fékk Hallgerðar, dóttur Tungu-Odds. Þau voru með Oddi hinn fyrsta vetur; þar var Snæbjörn galti. Óástúðligt var með þeim hjónum.

Hallbjörn bjó för sína um vorið að fardögum; en er hann var að búnaði, fór Oddur frá húsi til laugar í Reykjaholt; þar voru sauðahús hans; vildi hann eigi vera við, er Hallbjörn færi, því að hann grunaði, hvort Hallgerður mundi fara vilja með honum. Oddur hafði jafnan bætt um með þeim.

Þá er Hallbjörn hafði lagt á hesta þeirra, gekk hann til dyngju, og sat Hallgerður á palli og kembdi sér; hárið féll um alla hana og niður á gólfið; hún hefir kvenna best verið hærð á Íslandi með Hallgerði snúinbrók. Hallbjörn bað hana upp standa og fara; hún sat og þagði; þá tók hann til hennar, og lyftist hún ekki. Þrisvar fór svo. Hallbjörn nam staðar fyrir henni og kvað:

Ölkarma lætr, arma
eik firrumk þat, leika
Lofn fyr lesnis stafni
línbundin mik sínum.
Bíða munk of brúði,
böl gervir mig fölvan,
snertumk harmr í hjarta
hrót, aldrigi bótir.

Eftir það snaraði hann hárið um hönd sér og vildi kippa henni af pallinum, en hún sat og veikst ekki. Eftir það brá hann sverði og hjó af henni höfuðið, gekk þá út og reið í brutt. Þeir voru þrír saman og höfðu tvö klyfjahross.

Fátt var manna heima, og var þegar sent að segja Oddi. Snæbjörn var á Kjalvararstöðum, og sendi Oddur honum mann, bað hann sjá fyrir reiðinni, en hvergi kveðst hann fara mundu.

Snæbjörn reið eftir þeim með tólfta mann, og er þeir Hallbjörn sá eftirreiðina, báðu förunautar hans hann undan ríða, en hann vildi það eigi. Þeir Snæbjörn komu eftir þeim við hæðir þær, er nú heita Hallbjarnarvörður; þeir Hallbjörn fóru á hæðina og vörðust þaðan. Þar féllu þrír menn af Snæbirni og báðir förunautar Hallbjarnar. Snæbjörn hjó þá fót af Hallbirni í ristarlið; þá hnekkti hann á hina syðri hæðina og vó þar tvo menn af Snæbirni, og þar féll Hallbjörn. Því eru þrjár vörður á þeirri hæðinni, en fimm á hinni. Síðan fór Snæbjörn aftur.

Snæbjörn átti skip í Grímsárósi; það keypti hálft Hrólfur hinn rauðsenski. Þeir voru tólf hvorir. Með Snæbirni voru þeir Þorkell og Sumarliði, synir Þorgeirs rauðs, Einarssonar Stafhyltings. Snæbjörn tók við Þóroddi úr Þingnesi fóstra sínum og konu hans, en Hrólfur tók við Styrbirni, er þetta kvað eftir draum sinn:

Bana sé ek okkarn
bekkja tveggja,
allt ömurligt
útnorðr í haf,
frost ok kulða,
feikn hvers konar.
Veit ek af slíku
Snæbjörn veginn.

Þeir fóru að leita Gunnbjarnarskerja og fundu land. Eigi vildi Snæbjörn kanna láta um nótt. Styrbjörn fór af skipi og fann fésjóð í kumli og leyndi; Snæbjörn laust hann með öxi; þá féll sjóðrinn niður. Þeir gerðu skála, og lagði hann í fönn. Þorkell son Rauðs fann, að vatn var á forki, er stóð út í skálaglugg; það var um gói. Þá grófu þeir sig út. Snæbjörn gerði að skipi, en þau Þóroddur voru að skála af hans hendi, en þeir Styrbjörn af Hrólfs hendi; aðrir fóru að veiðum. Styrbjörn vó Þórodd, en Hrólfur og þeir báðir Snæbjörn. Rauðssynir svörðu eiða og allir aðrir til lífs sér.

Þeir tóku Hálogaland og fóru þaðan til Íslands í Vaðil. Þorkell trefill gat sem farið hafði fyrir Rauðssonum. Hrólfur gerði virki á Strandarheiði. Trefill sendi Sveinung til höfuðs honum; fór hann fyrst á Mýri til Hermundar, þá til Óláfs að Dröngum, þá til Gests í Haga; hann sendi hann til Hrólfs, vinar síns. Sveinungur vó Hrólf og Styrbjörn; þá fór hann í Haga. Gestur skipti við hann sverði og öxi og fékk honum hesta tvo hnökkótta og lét mann ríða um Vaðil allt í Kollafjörð og lét Þorbjörn hinn sterka heimta hestana. Þorbjörn vó hann á Sveinungseyri, því að sverðið brotnaði undir hjöltunum.

Því hældist Trefill við Gest, þá er saman var jafnað viti þeirra, að hann hefði því komið á Gest, að hann sendi sjálfur mann til höfuðs vinum sínum.

52. kafli

Óláfur jafnakollur nam land frá Langadalsá til Sandeyrarár og bjó í Unaðsdal; hann átti Þóru Gunnsteinsdóttur. Þeirra son var Grímólfur, er átti Védísi systur Vébjarnar.

Þórólfur fasthaldi hét maður ágætur í Sogni; hann varð ósáttur við Hákon jarl Grjótgarðsson og fór til Íslands með ráði Haralds konungs. Hann nam land frá Sandeyrará til Gýgjarsporsár í Hrafnsfirði; hann bjó að Snæfjöllum. Hans son var Ófeigur, er átti Otkötlu.

Örlygur son Böðvars Vígsterkssonar fór til Íslands fyrir ofríki Haralds konungs hárfagra; hann var hinn fyrsta vetur með Geirmundi heljarskinn, en um vorið gaf Geirmundur honum bú í Aðalvík og lönd þau, sem þar lágu til. Örlygur átti Signýju dóttur Óblauðs, systur Högna hins hvíta; þeirra son var Ketill gufa, er átti Ýri Geirmundardóttur.

Nú taka til landnám Geirmundar, sem fyrr er ritað, allt til Straumness fyrir austan Horn.

Örlygur eignaðist Sléttu og Jökulsfjörðu.

Hella-Björn son Herfinns og Höllu var víkingur mikill; hann var jafnan óvinur Haralds konungs. Hann fór til Íslands og kom í Bjarnarfjörð með alskjölduðu skipi; síðan var hann Skjalda-Björn kallaður. Hann nam land frá Straumnesi til Dranga, og í Skjalda-Bjarnarvík bjó hann, en átti annað bú á Bjarnarnesi; þar sér miklar skálatóftir hans. Son hans var Þorbjörn, faðir Arngerðar, er átti Þjóðrekur Sléttu-Bjarnarson, þeirra synir Þorbjörn og Sturla og Þjóðrekur.

Geirólfur hét maður, er braut skip sitt við Geirólfsgnúp; hann bjó þar síðan undir gnúpinum að ráði Bjarnar.

Þorvaldur Ásvaldsson, Úlfssonar, Yxna-Þórissonar, nam Drangaland og Drangavík til Enginess og bjó að Dröngum alla ævi. Hans son var Eiríkur rauði, er byggði Grænland, sem fyrr segir.

Herröður hvítaský var göfugur maður; hann var drepinn af ráðum Haralds konungs, en synir hans þrír fóru til Íslands og námu land á Ströndum: Eyvindur Eyvindarfjörð, Ófeigur Ófeigsfjörð, Ingólfur Ingólfsfjörð; þeir bjuggu þar síðan.

Eiríkur snara hét maður, er land nam frá Ingólfsfirði til Veiðilausu og bjó í Trékyllisvík; hann átti Álöfu dóttur Ingólfs úr Ingólfsfirði. Þeirra son var Flosi, er bjó í Vík, þá er austmenn brutu þar skip sitt og gerðu úr hrænum skip það, er þeir kölluðu Trékylli; á því fór Flosi utan og varð afturreka í Öxarfjörð. Þaðan af gerðist saga Böðmóðs gerpis og Grímólfs.

53. kafli

Önundur tréfótur son Ófeigs burlufótar, Ívarssonar beytils, Önundur var í móti Haraldi konungi í Hafursfirði og lét þar fót sinn. Eftir það fór hann til Íslands og nam land frá Kleifum til Ófæru, Kaldbaksvík, Kolbeinsvík, Byrgisvík, og bjó í Kaldbak til elli. Hann var bróðir Guðbjargar, móður Guðbrands kúlu, föður Ástu, móður Óláfs konungs. Önundur átti fjóra sonu; einn hét Grettir, annar Þorgeir flöskubak, þriðji Ásgeir æðikollur, faðir Kálfs og Hrefnu, er Kjartan átti, og Þuríðar, er Þorkell kuggi átti, en síðar Steinþór Óláfsson; hinn fjórði var Þorgrímur hærukollur, faðir Ásmundar, föður Grettis hins sterka.

Björn hét maður, er nam Bjarnarfjörð; hann átti Ljúfu; þeirra son var Svanur, er bjó á Svanshóli.

Steingrímur nam Steingrímsfjörð allan og bjó í Tröllatungu. Hans son var Þórir, faðir Halldórs, föður Þorvalds aurgoða, föður Bitru-Odda, föður Steindórs, föður Odds, föður Há-Snorra, föður Odds munks og Þórólfs og Þórarins rosta.

Kolli hét maður, er nam Kollafjörð og Skriðinsenni og bjó undir Felli, meðan hann lifði.

Þorbjörn bitra hét maður; hann var víkingur og illmenni. Hann fór til Íslands með skuldalið sitt; hann nam fjörð þann, er nú heitir Bitra, og bjó þar.

Nokkuru síðar braut Guðlaugur bróðir Gils skeiðarnefs skip sitt þar út við höfða þann, er nú heitir Guðlaugshöfði. Guðlaugur komst á land og kona hans og dóttir, en aðrir menn týndust. Þá kom til Þorbjörn bitra og myrti þau bæði, en tók meyna og fæddi upp. En er þessa varð var Gils skeiðarnef, fór hann til og hefndi bróður síns; hann drap Þorbjörn bitru og enn fleiri menn.

Við Guðlaug er kennd Guðlaugsvík.

Bálki hét maður Blæingsson, Sótasonar af Sótanesi; hann var á mót Haraldi konungi í Hafursfirði. Eftir það fór hann til Íslands og nam Hrútafjörð allan; hann bjó á Bálkastöðum hvorumtveggjum, en síðast í Bæ og dó þar.

Hans son var Bersi goðlauss, er fyrst bjó á Bersastöðum í Hrútafirði, en síðan nam hann Langavatnsdal og átti þar annað bú, áður hann fékk Þórdísar, dóttur Þórhadds úr Hítardal, og tók með Hólmsland. Þeirra son var Arngeir, faðir Bjarnar Hítdælakappa. Geirbjörg var dóttir Bálka, móðir Véleifs hins gamla.

Arndís hin auðga, dóttir Steinólfs hins lága, nam síðan land í Hrútafirði út frá Borðeyri; hún bjó í Bæ. Hennar son var Þórður, er bjó fyrr í Múla í Saurbæ.

54. kafli

Þröstur og Grenjuður synir Hermundar hokins námu land í Hrútafirði inn frá Borðeyri og bjuggu að Melum. Frá Grenjaði var kominn Hesta-Gellir prestur, en Ormur frá Þresti. Son Þrastar var og Þorkell á Kerseyri, faðir Guðrúnar, er átti Þorbjörn þyna, son Hrómundar halta; þeir bjuggu að Fagrabrekku. Þorleifur Hrómundarfóstri var son þeirra. Hásteinn hét enn son Hrómundar; þeir voru allir um eitt ráð. Þórir hét son Þorkels Þrastarsonar; hann bjó að Melum; Helga hét dóttir hans.

Í þann tíma kom Sleitu-Helgi út á Borðeyri og Jörundur bróðir hans; þeir voru víkingar tólf frjálsir og sveinar umfram; þeir fóru allir til Mela. Þá fékk Helgi Helgu Þórisdóttur.

Þeim Hrómundi hurfu stóðhross; það kenndu þeir Helga, og stefndi Miðfjarðar-Skeggi þeim um stuld til alþingis. En þeir Hrómundur skyldu gæta héraðs og höfðu virki gott á Brekku. Austmenn bjuggu skip sitt.

Einn morgin kom hrafn á ljóra á Brekku og gall hátt; þá kvað Hrómundur:

Út heyrik svan sveita
sára þorns, es mornar,
bráð vekr borginmóða,
bláfjallaðan gjalla.
Svá gól fyrr, þás feigir
folknárungar váru,
Gunnar haukr, es gaukar
Gauts bragða spá sögðu.

Þorbjörn kvað:

Hlakkar hagli stokkinn,
hræs es kemr at sævi,
móðr krefr morginbráðar,
már valkastar báru.
Svá gól endr þás unda
eiðs af fornum meiði
hræva gaukr, es haukar
hildinga mjöð vildu.

Í þenna tíma komu austmenn í virkið, því að verkmenn höfðu eigi aftur látið. Þeir bræður gengu út, en konur sögðu Hrómund of gamlan en Þorleif of ungan að ganga út; hann var fimmtán vetra. Þá kvað Hrómundur:

Vasat mér í dag dauði,
draugr flatvallar bauga,
búumsk við Ilmar jalmi
áðr, né gær of ráðinn.
Rækik lítt, þótt leiki
litvöndr Heðins fitjar,
oss vas áðr of markaðr
aldr, við rauða skjöldu.

Austmenn féllu sex í virkinu, en aðrir sex stukku brutt.

Þá er Þorbjörn vildi lúka aftur virkinu, var hann skotinn í gegnum með atgeiri; Þorbjörn tók atgeirinn úr sárinu og setti milli herða Jörundi, svo að út kom í brjóstið. Helgi kastaði honum á bak sér og rann svo. Fallinn var Hrómundur, en Þorleifur sár til ólífis. Hásteinn rann eftir þeim, þar til er Helgi kastaði af sér Jörundi dauðum; þá hvarf hann aftur. Konur spurðu tíðenda; Hásteinn kvað:

Hér hafa sex, þeirs sævask
sútlaust, bana úti
svipnjörðungar, sverðum,
sárteins á brústeinum.
Hygg, at halfir liggi
heftendr laga eftir.
Eggskeindar létk undir
óbíðingum svíða.

Konur spurðu, hve margir þeir væri; Hásteinn kvað:

Barka fúr með fleiri
fetla stígs at vígi.
Fyrir várum þar fjórir
frændr ofstopa vændir.
En tolf af glað Gylfa
gunnþings hvatir runnu,
köld ruðum vápn, þeirs vildu
várs fundar til skunda.

Konur spurðu, hve margir fallnir væri af víkingum; Hásteinn kvað:

Sjau hafa sækitívar
Svölnis garðs til jarðar,
blóð fell varmt á virða
valdögg, nösum höggvit.
Munat fúrviðir fleiri
Fjölnis þings en hingat
út um Ekkils brautir
Jalks mærar skæ færa.

Hér megu hælibvörvar
hljóms daltangar skjóma
dýrs, hvat drýgðu fjórir
dagverks séa merki.
En ek, hyrbrigðir, hugða,
hrafn sleit af ná beitu,
Gunnar ræfrs, at gæfim
griðbítum frið lítinn.

Unnum auðimönnum,
ák þunnan hjör, Gunnar,
drógumsk vér at vígi,
verkdreyruga serki.
Höfðu herðilofðar
hildar borðs und skildi,
þvarr hangrvölum hanga
hungr, vésæritungur.

Harðr vas gnýr, þás gerðum
grjótvarps lotu snarpa.
Gengu sverðs at söngvi
sundr gráklæði Þundar,
áðr á hæl til hvílðar,
hlutu þeir bana fleiri,
hjaldrs kom hríð á skjöldu,
hækings viðir æki.

Heyri svan, þars sára
sigrstalls viðir falla,
benskári drekkr báru
blóðfalls, of ná gjalla.
Þar fekk örn, en erni
eru greipr hræum sveipðar,
sylg, es Sleitu-Helgi
sekðauðigr felt rauðu.

Báru upp af ára
allþakkliga blakki
ýtar oss at móti
almþingssamir hjalma,
en á braut þeir báru
beiðendr goðum leiðir
hlíða herðimeiðar
hauðrmens skarar rauðar.

Þeir Helgi létu út hinn sama dag og týndust allir á Helgaskeri fyrir Skriðinsenni. Þorleifur varð græddur og bjó að Brekku. Hásteinn fór utan og féll á Orminum langa.

Nú eru rituð landnám flest í Vestfirðingafjórðungi, eftir því sem fróðir menn hafa sagt. Má það nú heyra, að þann fjórðung hefir margt stórmenni byggt, og frá þeim eru margar göfugar ættir komnar, sem nú mátti heyra.

Þessir landnámsmenn eru göfgastir í Vestfirðingafjórðungi: Hrosskell, Skalla-Grímur, Sel-Þórir, Björn hinn austræni, Þórólfur Mostrarskegg, Auður djúpauðga, Geirmundur heljarskinn, Úlfur skjálgi, Þórður Víkingsson, þótt langfeður haldist stærra í sumum ættum. En þá er bændur voru taldir á Íslandi, þá voru níu hundruð bónda í þessum fjórðungi.

Источник: Textinn að mestu frá Eiríki Rögnvaldssyni prófessor við Háskóla Íslands.

Текст книги взят с сайта Netútgáfan.

© Tim Stridmann