Landnámabók (Sturlubók)

Þriðji hluti

Nú hefur upp landnám í Norðlendingafjórðungi, er fjölbyggðastur hefir verið af öllu Íslandi og stærstar sögur hafa görst bæði að fornu og nýju, sem enn mun ritað verða og raun ber á.

55. kafli

Eysteinn meinfretur son Álfs úr Ostu nam Hrútafjarðarströnd hina eystri næst eftir Bálka og bjó þar nokkura vetur, áður hann fékk Þórhildar dóttur Þorsteins rauðs; þá réðst hann norðan í Dali og bjó þar. Þeirra synir voru þeir Álfur í Dölum, Þórður og Þórólfur refur og Hrappur.

Þóroddur hét maður, er land nam í Hrútafirði og bjó á Þóroddsstöðum; hans son var Arnór hýnefur, er átti Gerði dóttur Böðvars úr Böðvarshólum. Þeirra synir voru þeir Þorbjörn, er Grettir vó, (og) Þóroddur drápustúfur, faðir Valgerðar, er átti Skeggi skammhöndungur Gamlason Þórðarsonar, Eyjólfssonar, Eyjarssonar, Þórólfssonar fasthalda frá Snæfjöllum. Son Skeggja skammhöndungs var Gamli, faðir Álfdísar móður Odds munks.

Skútaðar-Skeggi hét maður ágætur í Noregi; hans son var Björn, er kallaður var Skinna-Björn, því að hann var Hólmgarðsfari; og er honum leiddust kaupferðir, fór hann til Íslands og nam Miðfjörð og Línakradal. Hans son var Miðfjarðar-Skeggi; hann var garpur mikill og farmaður.

Hann herjaði í Austurveg og lá í Danmörk við Sjóland, er hann fór austan; þar gekk hann upp og braust í haug Hrólfs kraka og tók þar úr Sköfnung, sverð Hrólfs konungs, og öxi Hjalta og mikið fé annað, en hann náði eigi Laufa.

Skeggi bjó á Reykjum í Miðfirði og átti… Þeirra börn voru þau Eiður, er átti Hafþóru, dóttur Þorbergs kornamúla og Álöfar elliðaskjaldar, systur Þorgeirs gollnis; þau áttu mörg börn. Annar son Skeggja var Kollur, faðir Halldórs, föður þeirra Þórdísar, er Skáld-Helgi átti, og Þorkötlu. Dætur Skeggja voru þær Hróðný, er átti Þórður gellir, og Þorbjörg, er átti Ásbjörn hinn auðgi Harðarson. Þeirra dóttir var Ingibjörg, er átti Illugi hinn svarti, þeirra synir Gunnlaugur ormstunga, Hermundur og Ketill.

Haraldur hringur hét maður ættstór; hann kom skipi sínu í Vesturhóp og sat hinn fyrsta vetur þar nær, sem hann hafði lent og nú heita Hringsstaðir. Hann nam Vatnsnes allt utan til Ambáttarár fyrir vestan, en fyrir austan inn til Þverár og þar yfir um þvert til Bjargaóss og allt þeim megin bjarga út til sjóvar, og (bjó) að Hólum. Son hans var Þorbrandur, faðir Ásbrands, föður Sölva hins prúða á Ægissíðu og Þorgeirs, er bjó að Hólum; hans dóttir var Ástríður, er átti Arnmóður Heðinsson: Heðinn var son þeirra. Önnur dóttir Þorgeirs var Þorgerður, er átti Þorgrímur, son Péturs frá Ósi.

Sóti hét maður, er nam Vesturhóp og bjó undir Sótafelli.

Hunda-Steinar hét jarl á Englandi; hann átti Álöfu, dóttur Ragnars loðbrókar. Þeirra börn voru þau Björn, faðir Auðunar skökuls, og Eiríkur, faðir Sigurðar bjóðaskalla, og Ísgerður, er átti Þórir jarl á Vermalandi.

Auðun skökull fór til Íslands og nam Víðidal og bjó á Auðunarstöðum. Með (honum) kom út Þorgils gjallandi félagi hans, faðir Þórarins goða. Auðun skökull var faðir Þóru mosháls, móður Úlfhildar, móður Ástu, móður Óláfs konungs hins helga. Son Auðunar skökuls var Ásgeir að Ásgeirsá; hann átti Jórunni, dóttur Ingimundar hins gamla. Þeirra börn voru þau Þorvaldur, faðir Döllu, móður Gissurar byskups, og Auðun, faðir Ásgeirs, föður Auðunar, föður Egils, er átti Úlfheiði, dóttur Eyjólfs Guðmundarsonar, og var þeirra son Eyjólfur, er veginn var á alþingi, faðir Orms, kapalíns Þorláks byskups. Annar son Auðunar skökuls var Eysteinn, faðir Þorsteins, föður Helga, föður Þórorms, föður Odds, föður Hallbjarnar, föður Sighvats prests. Dóttir Ásgeirs að Ásgeirsá var Þorbjörg bekkjarbót.

Ormur hét maður, er nam Ormsdal og bjó þar. Hann var faðir Odds, föður Þórodds, föður Helga, föður Harra, föður Jóru, móður Þórdísar, móður Tanna föður Skafta.

56. kafli

Ketill raumur hét hersir ágætur í Raumsdal í Noregi; hann var son Orms skeljamola, Hross-Bjarnarsonar, Raumssonar, Jötun-Bjarnarsonar norðan úr Noregi. Ketill átti Mjöll, dóttur Ánar bogsveigis. Þorsteinn hét son þeirra; hann vó á skóginum til Upplanda af áeggjun föður síns Jökul, son Ingimundar jarls af Gautlandi. Jökull gaf honum líf. Síðan fékk Þorsteinn Þórdísar systur hans. Þeirra son var Ingimundur hinn gamli; hann var fæddur í Hefni með Þóri, föður Gríms og Hrómundar.

Heiður völva spáði þeim öllum að byggja á því landi, er þá var ófundið vestur í haf, en Ingimundur kveðst við því skyldu gera. Völvan sagði hann það eigi mundu mega og sagði það til jartegna, að þá mundi horfinn hlutur úr pússi hans og mundi þá finnast, er hann græfi fyrir öndvegissúlum sínum á landinu.

Ingimundur var víkingur mikill og herjaði í vesturvíking jafnan. Sæmundur hét félagi hans suðureyskur. Þeir komu úr hernaði þann tíma, er Haraldur konungur gekk til lands og lagði til orustu í Hafursfirði við þá Þóri haklang. Ingimundur vildi veita konungi, en Sæmundur eigi, og skildi þar félag þeirra. Eftir orustuna gifti konungur Ingimundi Vigdísi, dóttur Þóris jarls þegjanda; þau Jörundur háls voru frillubörn hans.

Ingimundur undi hvergi; því fýsti Haraldur konungur hann að leita forlaga sinna til Íslands. Ingimundur lést það eigi ætlað hafa, en þó sendi hann þá Finna tvo í hamförum til Íslands eftir hlut sínum. Það var Freyr og gör af silfri. Finnar komu aftur og höfðu fundið hlutinn og nát eigi; vísuðu þeir Ingimundi til í dal einum milli holta tveggja og sögðu Ingimundi allt landsleg, hve háttað var þar er hann skyldi byggja.

Eftir það byrjar Ingimundur för sína til Íslands og með honum Jörundur háls mágur hans og Eyvindur sörkvir og Ásmundur og Hvati, vinir hans, og þrælar hans, Friðmundur, Böðvar, Þórir refskegg, Úlfkell. Þeir tóku (Grímsárós) fyrir sunnan land og voru allir um veturinn á Hvanneyri með Grími fóstbróður Ingimundar. En um vorið fóru þeir norður um heiðar; þeir komu í fjörð þann, er þeir fundu hrúta tvo; það kölluðu þeir Hrútafjörð; síðan fóru þeir norður um héruð og gáfu víða örnefni. Hann var um vetur í Víðidal í Ingimundarholti. Þeir sá þaðan fjöll snælaus í landsuður og fóru þann veg um vorið; þar kenndi Ingimundur lönd þau, er honum var til vísað. Þórdís, dóttir hans, var alin í Þórdísarholti.

Ingimundur nam Vatnsdal allan upp frá Helgavatni og Urðarvatni fyrir austan. Hann bjó að Hofi og fann hlut sinn, þá er hann gróf fyrir öndvegissúlum sínum. Þorsteinn var son þeirra Vigdísar og Jökull og Þórir hafursþjó og Högni; Smiður hét ambáttar son og Ingimundar, en dætur Jórunn og Þórdís.

57. kafli

Jörundur (háls) nam út frá Urðarvatni til Mógilslækjar og bjó á Grund undir Jörundarfelli; hans son var Már á Másstöðum.

Hvati nam út frá Mógilslæk til Giljár og bjó á Hvatastöðum.

Ásmundur nam út frá Helgavatni um Þingeyrasveit og bjó undir Gnúpi.

Friðmundur nam Forsæludal.

Eyvindur sörkvir nam Blöndudal; hans son var Hermundur og Hrómundur hinn halti.

Ingimundur fann beru og húna tvo hvíta á Húnavatni. Eftir það fór hann utan og gaf Haraldi konungi dýrin; ekki höfðu menn í Noregi áður séð hvítabjörnu. Þá gaf Haraldur konungur Ingimundi skip með viðarfarmi, og sigldi hann tveim skipum fyrir norðan land fyrstur manna fyrir Skaga og hélt upp í Húnavatn; þar er Stígandahróf hjá Þingeyrum.

Eftir það var Hrafn austmaður með Ingimundi; hann hafði sverð gott; það bar hann í hof; því tók Ingimundur af honum sverðið.

Hallormur og Þórormur bræður komu út og voru með Ingimundi; þá fékk Hallormur Þórdísar dóttur hans, og fylgdu henni Kárnsárlönd. Þeirra son var Þorgrímur Kárnsárgoði. Þórormur bjó í Þórormstungu.

Ingimundi hurfu svín tíu og fundust annað haust í Svínadal, og var þá hundrað svína. Göltur hét Beigaður; hann hljóp á Svínavatn og svam, þar til er af gengu klaufirnar; hann sprakk á Beigaðarhóli.

58. kafli

Hrolleifur hinn mikli og Ljót móðir hans komu út í Borgarfjörð; þau fóru norður um sveitir og fengu hvergi ráðstafa, áður þau komu í Skagafjörð til Sæmundar. Hrolleifur var son Arnalds, bróður Sæmundar; því vísaði hann þeim norður á Höfðaströnd til Þórðar, en hann fékk honum land í Hrolleifsdal; bjó hann þar.

Hrolleifur fífldi Hróðnýju, dóttur Una úr Unadal. Oddur Unason sat fyrir honum og vó Ljót, systrung hans, en særði hann á fæti, því að kyrtil hans bitu eigi járn. Hrolleifur vó Odd og tvo menn aðra, en tveir komust undan; fyrir það gerði Höfða-Þórður hann héraðssekan svo vítt sem vatnföll deildu til sjóvar í Skagafirði.

Þá sendi Sæmundur Hrolleif til Ingimundar hins gamla. Ingimundur setti hann niður í Oddsás gegnt Hofi. Hann átti veiði í Vatnsdalsá við Ingimund, og skyldi hann ganga úr á fyrir Hofsmönnum, en hann vildi eigi úr ganga fyrir sonum Ingimundar, og börðust þeir um ána; þá var sagt Ingimundi. Hann var þá blindur og lét smalasvein leiða hestinn undir sér á ána milli þeirra. Hrolleifur skaut spjóti í gegnum hann. Þeir fóru þá heim. Ingimundur sendi sveininn að segja Hrolleifi, en hann var dauður í öndvegi, þá er synir hans komu heim. Hrolleifur sagði móður sinni; hún kvað þá reyna mundu, hvort meira mætti gifta Ingimundarsona eða kunnusta hennar, og bað hann fyrst á braut fara.

Þorsteinn skyldi reyna eftir Hrolleifi og hafa kostgrip af arfi. Eigi settust Ingimundarsynir í hásæti föður síns.

Þeir fóru norður til Geirmundar, og gaf Þorsteinn honum sex tigu silfrs til, að hann skyti Hrolleifi á braut. Þeir röktu spor hans norðan um hálsa til Vatnsdals. Þorsteinn sendi húskarl sinn í Ás á njósn; hann kvað tólf vísur, áður til dura var gengið, og sá fatahrúgu á bröndum, og kom undan rautt klæði. Þorsteinn kvað þar verið hafa Hrolleif, «og mun Ljót hafa blótað til langlífis honum.» Þeir fóru í Ás, og vildi Þorsteinn sitja yfir durum og náði eigi fyrir Jökli, því að hann vildi þar vera. Maður gekk út og sást um; þá leiddi annar Hrolleif eftir sér. Jökull brást við og felldi ofan skíðahlaða, en gat kastað kefli til bræðra sinna. Eftir það rann hann á Hrolleif, og ultu þeir ofan fyrir brekkuna, og varð Jökull efri. Þá kom Þorsteinn að, og neyttu þeir þá vopna. Þá var Ljót út komin og gekk öfug; hún hafði höfuðið millum fóta sér, en klæðin á baki sér. Jökull hjó höfuð af Hrolleifi og rak í andlit Ljótu. Þá kvaðst hún of sein orðið hafa, «nú mundi um snúast jörðin fyrir sjónum mínum, en þér munduð allir ærst hafa.»

Eftir það kaus Þorsteinn Hofsland, en Jökull hafði sverðit og bjó í Tungu. Þórir hafði goðorð og bjó að Undunfelli og gekk berserksgang. Högni hafði Stíganda og var farmaður. Smiður bjó á Smiðsstöðum. Þorsteinn átti Þuríði gyðju, dóttur Sölmundar í Ásbjarnarnesi. Þeirra son var Ingólfur hinn fagri og Guðbrandur.

Jökull var son Bárðar Jökulssonar, er Óláfur konungur hinn helgi lét drepa. Það sagði Jökull stigamaður, að lengi mundu glapvíg haldast í ætt þeirri. (Þorgrímur Kárnsárgoði var faðir Þorkels kröflu).

59. kafli

Eyvindur auðkúla hét maður; hann nam allan Svínadal og bjó á Auðkúlustöðum, en Þorgils gjallandi bjó að Svínavatni, er út kom með Auðuni skökli. Hans synir voru þeir Digur-Ormur, er vógu Skarpheðin Véfröðarson.

Þorbjörn kólka hét maður. Hann nam Kólkumýrar og bjó þar, meðan hann lifði.

Eyvindur sörkvir nam Blöndudal, sem fyrr er ritað. Hans son var Hrómundur hinn halti, er vó Högna Ingimundarson, þá er þeir Már og Ingimundarsynir börðust um Deildarhjalla; því var hann gör úr Norðlendingafjórðungi. Hans synir voru þeir Hásteinn og Þorbjörn, er börðust við Sleitu-Helga í Hrútafirði. Annar son Eyvindar var Hermundur, faðir Hildar, er átti Ávaldi Ingjaldsson. Þeirra börn voru þau Kolfinna, er átti Grís Sæmingsson, og Brandur, er vó Galta Óttarsson á Húnavatnsþingi fyrir níð Hallfreðar.

Ævar hét maður son Ketils helluflaga og Þuríðar, dóttur Haralds konungs gullskeggs úr Sogni. Ævar átti…; þeirra son var Véfröður. Synir Ævars laungetnir voru þeir Karli og Þorbjörn strúgur og Þórður mikill. Ævar fór til Íslands úr víkingu og synir hans aðrir en Véfröður; með honum fór út Gunnsteinn frændi hans og Auðólfur og Gautur, en Véfröður var eftir í víkingu.

Ævar kom skipi sínu í Blönduós; þá voru numin lönd fyrir vestan Blöndu. Ævar fór upp með Blöndu að leita sér landnáms, en er hann kom þar sem heita Móbergsbrekkur, setti hann þar niður stöng háva og kveðst þar taka Véfröði syni sínum bústað. Síðan nam hann Langadal allan upp þaðan og svo þar fyrir norðan háls; þar skipti hann löndum með skipverjum sínum. Ævar bjó í Ævarsskarði.

Véfröður kom út síðar í Gönguskarðsárósi og gekk norðan til föður síns, og kenndi faðir hans hann eigi. Þeir glímdu, svo að upp gengu stokkar allir í húsinu, áður Véfröður sagði til sín. Hann gerði bú að Móbergi, sem ætlað var, en Þorbjörn strúgur á Strúgsstöðum, en Gunnsteinn á Gunnsteinsstöðum, Karli á Karlastöðum, Þórður á Mikilsstöðum, Auðólfur á Auðólfsstöðum.

Gautur byggði Gautsdal; hann var einhendur. Þeir Eyvindur sörkvir fóru sér sjálfir og vildu eigi lifa Ingimund hinn gamla. Haukur bjó þar sem nú heita Hauksgrafir.

Véfröður átti Gunnhildi dóttur Eiríks úr Guðdölum, systur Hólmgöngu-Starra. Þeirra synir voru þeir Úlfheðinn, er þeir Þjóstólfur vógu við Grindalæk, og Skarpheðinn, er þeir Digur-Ormur vógu í Vatnsskarði, og Húnröður, faðir Más, föður Hafliða.

Holti hét maður, er nam Langadal ofan frá Móbergi og bjó á Holtastöðum; hann var faðir Ísröðar, föður Ísleifs, föður Þorvalds, föður Þórarins hins spaka. Dóttir Þorvalds var Þórdís, er átti Halldór son Snorra goða. Þeirra dætur voru þær Þorkatla, er átti Guðlaugur Þorfinnsson í Straumsfirði; þaðan eru Sturlungar komnir og Oddaverjar. Önnur var Guðrún, er átti Kjartan Ásgeirsson úr Vatnsfirði, þeirra börn Þorvaldur og Ingiríður, er Guðlaugur prestur átti.

Hólmgöngu-Máni hét maður, er nam Skagaströnd fyrir vestan inn til Fossár, en fyrir austan til Mánaþúfu og bjó í Mánavík. Hans dóttur átti Þorbrandur í Dölum, faðir Mána, föður Kálfs skálds.

60. kafli

Eilífur örn hét maður, son Atla Skíðasonar hins gamla, Bárðarsonar í Ál. Son Eilífs arnar var Koðrán að Giljá og Þjóðólfur goði að Hofi á Skagaströnd og Eysteinn, faðir Þorvalds tinteins og Þorsteins heiðmennings og Arnar í Fljótum. Eilífur nam land inn frá Mánaþúfu til Gönguskarðsár og Laxárdal og bjó þar.

Eilífur átti Þorlaugu dóttur Sæmundar úr Hlíð; þeirra synir voru þeir Sölmundur, faðir Guðmundar, föður þeirra Víga-Barða og bræðra hans. Annar var Atli hinn rammi, er átti Herdísi, dóttur Þórðar frá Höfða. Þeirra börn voru þau Þorlaug, er átti Guðmundur hinn ríki, og Þórarinn, er átti Höllu, dóttur Jörundar háls. Son þeirra var Styrbjörn, er átti Yngvildi, dóttur Steinröðar Heðinssonar frá Heðinshöfða, þeirra dóttir Arndís, er átti Hamall Þormóðarson, Þorkelssonar mána.

Sæmundur hinn suðureyski, félagi Ingimundar hins gamla, sem ritað er, hann kom skipi sínu í Gönguskarðsárós. Sæmundur nam Sæmundarhlíð alla til Vatnsskarðs, fyrir ofan Sæmundarlæk, og bjó á Sæmundarstöðum; hans son var Geirmundur, er þar bjó síðar. Dóttir Sæmundar var Reginleif, er átti Þóroddur hjálmur, þeirra dóttir Hallbera, móðir Guðmundar hins ríka, föður Eyjólfs, föður Þóreyjar, móður Sæmundar hins fróða. Arnaldur hét annar son Sæmundar, faðir Rjúpu, er átti Þorgeir, son Þórðar frá Höfða; þeirra son var Halldór frá Hofi.

Skefill hét maður, er skipi sínu kom í Gönguskarðsárós á hinni sömu viku og Sæmundur. En meðan Sæmundur fór eldi um landnám sitt, þá nam Skefill land allt fyrir utan Sauðá; það tók hann af landnámi Sæmundar að ólofi hans, og lét Sæmundur það svo búið vera.

Úlfljótur hét maður; hann nam Langaholt allt fyrir neðan Sæmundarlæk.

Þorkell vingnir, son Skíða hins gamla, hann nam land um Vatnsskarð allt og Svartárdal. Hans son var Arnmóður skjálgi, faðir Galta, föður Þorgeirs, föður Styrmis, föður Halls, föður Kolfinnu.

Álfgeir hét maður, er nam um Álfgeirsvöllu og upp til Mælifellsár og bjó á Álfgeirsvöllum.

Þorviður hét maður, sá er land nam upp frá Mælifellsá til Giljár.

Hrosskell hét maður, er nam Svartárdal allan og Ýrarfellslönd öll með ráði Eiríks; hann nam ofan til Gilhaga og bjó að Ýrarfelli. Hann átti þræl þann, er Roðrekur hét; hann sendi hann upp eftir Mælifellsdal í landaleitan suður á fjöll. Hann kom til gils þess, er verður suður frá Mælifelli og nú heitir Roðreksgil; þar setti hann niður staf nýbirktan, er (þeir) kölluðu Landkönnuð, og eftir það snýr hann aftur.

61. kafli

Eiríkur hét maður ágætur; hann fór af Noregi til Íslands; hann var son Hróalds Geirmundarsonar, Eiríkssonar örðigskeggja. Eiríkur nam land frá Gilá um Goðdali alla og ofan til Norðurár; hann bjó að Hofi í Goðdölum. Eiríkur átti Þuríði, dóttur Þórðar skeggja, systur Helgu, er Ketilbjörn átti hinn gamli að Mosfelli. Börn þeirra Eiríks voru þau Þorkell og Hróaldur, Þorgeir og Hólmgöngu-Starri og Gunnhildur. Þorgeir Eiríksson átti Yngvildi Þorgeirsdóttur, þeirra dóttir Rannveig, er átti Bjarni Brodd-Helgason. Gunnhildi Eiríksdóttur átti Véfröður Ævarsson.

Vékell hinn hamrammi hét maður, er land nam ofan frá Gilá til Mælifellsár og bjó að Mælifelli.

Hann spurði til ferða Roðreks. Þá fór hann litlu síðar suður á fjöll í landaleitan. Hann kom til hauga þeirra, er nú heita Vékelshaugar; hann skaut milli hauganna og hvarf þaðan aftur.

En er þetta spurði Eiríkur í Goðdölum, sendi hann þræl sinn suður á fjöll, er hét Rönguður; fór hann enn í landaleitan. Hann kom suður til Blöndukvísla og fór þá upp með á þeirri, er fellur fyrir vestan Hvinverjadal og vestur á hraunið milli Reykjavalla og Kjalar og kom þar á manns spor og skildi, að þau lágu sunnan að. Hann hlóð þar vörðu þá, er nú heitir Rangaðarvarða.

Þaðan fór hann aftur, og gaf Eiríkur honum frelsi fyrir ferð sína, og þaðan af tókust ferðir um fjallið milli Sunnlendinga fjórðungs og Norðlendinga.

Kráku-Hreiðar hét maður, en Ófeigur lafskegg faðir hans, son Yxna-Þóris. Þeir feðgar bjuggu skip sitt til Íslands, en er þeir komu í landsýn, gekk Hreiðar til siglu og sagðist eigi mundu kasta öndvegissúlum fyrir borð, kveðst það þykja ómerkiligt að gera ráð sitt eftir því, kveðst heldur mundu heita á Þór, að hann vísaði honum til landa, og kveðst þar mundu berjast til landa, ef áður væri numið. En hann kom í Skagafjörð og sigldi upp á Borgarsand til brots. Hávarður hegri kom til hans og bauð honum til sín, og þar var hann um veturinn í Hegranesi.

Um vorið spurði Hávarður, hvað hann vildi ráða sinna, en hann kveðst ætla að berjast við Sæmund til landa. En Hávarður latti þess og kvað það illa gefist hafa, bað hann fara á fund Eiríks í Guðdölum og taka ráð af honum, «því (að) hann er vitrastur maður í héraði þessu». Hreiðar gerði svo.

En er hann (fann) Eirík, latti hann þessa ófriðar og kvað það óhent, að menn deildi, meðan svo væri mannfátt á landi, kveðst heldur vilja gefa honum tunguna alla niður frá Skálamýri, kvað þangað Þór hafa vísað honum og þar stafn á horft, þá er hann sigldi upp á Borgarsand, kvað honum ærið það landnám og hans sonum.

Þenna kost þekkist Hreiðar og bjó á Steinsstöðum; hann kaus að deyja í Mælifell. Son hans var Ófeigur þunnskeggur, faðir Bjarnar, föður Tungu-Steins.

62. kafli

Önundur vís hét maður, er land nam upp frá Merkigili, hinn eystra dal allt fyrir austan.

En þá er Eiríkur vildi til fara að nema dalinn allan allt fyrir vestan, þá felldi Önundur blótspán til, að hann skyldi verða vís, hvern tíma Eiríkur mundi til fara að nema dalinn, og varð þá Önundur skjótari og skaut yfir ána með tunduröru og helgaði sér svo landið fyrir vestan og bjó milli á.

Kári hét maður, er nam land á milli Norðurár og Merkigils og bjó í Flatatungu; hann var kallaður Tungu-Kári; frá honum eru Silfurstæðingar komnir.

Þorbrandur örrek nam upp frá Bólstaðará Silfrastaðahlíð alla og Norðurárdal allan fyrir norðan og bjó á Þorbrandsstöðum og lét þar gera eldhús svo mikið, að allir þeir menn, er þeim megin fóru, skyldu þar bera klyfjar í gegnum og vera öllum matur heimill. Við hann er kennd Örreksheiður upp frá Hökustöðum. Hann var hinn göfgasti maður og hinn kynstærsti.

Maður hét Hjálmólfur, er land nam (ofan) um Blönduhlíð. Hans son var Þorgrímur kuggi, faðir Odds í Axlarhaga, föður Sela-Kálfs; þaðan eru Axlhegingar komnir.

Þórir dúfunef var leysingi Yxna-Þóris; hann kom skipi sínu í Gönguskarðsárós; þá var byggt hérað allt fyrir vestan. Hann fór norður yfir Jökulsá að Landbroti og nam land á milli Glóðafeykisár og Djúpár og bjó á Flugumýri.

Í þann tíma kom út skip í Kolbeinsárósi, hlaðið kvikfé, en þeim hvarf í Brimnesskógum unghryssi eitt; en Þórir dúfunef keypti vonina og fann síðan. Það var allra hrossa skjótast og var kölluð Fluga.

Örn hét maður; hann fór landshorna í millum og var fjölkunnigur. Hann sat fyrir Þóri í Hvinverjadal, er hann skyldi fara suður um Kjöl, og veðjaði við Þóri, hvors þeirra hross mundi skjótara, því að hann hafði allgóðan hest, og lagði hvor þeirra við hundrað silfurs. Þeir riðu báðir suður um Kjöl, þar til er þeir komu á skeið það, er síðan er kallað Dúfunefsskeið. En eigi varð minni skjótleiksmunur hrossa en Þórir kom í móti Erni á miðju skeiði. Örn undi svo illa við félát sitt, að hann vildi eigi lifa og fór upp undir fjallið, er nú heitir Arnarfell, og týndi sér þar sjálfur, en Fluga stóð þar eftir, því að hún var mjög móð.

En er Þórir fór af þingi, fann hann hest föxóttan og grán hjá Flugu; við þeim hafði hún fengið. Undir þeim var alinn Eiðfaxi, er utan var færður og varð sjö manna bani við Mjörs á einum degi, og lést hann þar sjálfur. Fluga týndist í feni á Flugumýri.

Kollsveinn hinn rammi hét maður, er nam land á milli Þverár og Gljúfrár og bjó á Kollsveinsstöðum upp frá Þverá; hann hafði blót á Hofstöðum.

63. kafli

Gunnólfur hét maður, er nam land milli Þverár og Glóðafeykisár og bjó í Hvammi.

Gormur hét hersir ágætur í Svíþjóð; hann átti Þóru, dóttur Eiríks konungs að Uppsölum. Þorgils hét son þeirra; hann átti Elínu, dóttur Burisláfs konungs úr Görðum austan og Ingigerðar, systur Dagstyggs risakonungs. Synir þeirra voru þeir Hergrímur og Herfinnur, er átti Höllu, dóttur Heðins og Arndísar Heðinsdóttur. Gróa hét dóttir Herfinns og Höllu; hana átti Hróar, þeirra son Sleitu-Björn, er land nam fyrst á milli Grjótár og Deildarár, áður þeir Hjalti og Kolbeinn komu út; hann bjó á Sleitu-Bjarnarstöðum; hann átti… Þeirra börn voru Örnólfur, er átti Þorljótu, dóttur Hjalta Skálpssonar, og Arnbjörn, er átti Þorlaugu Þórðardóttur frá Höfða, og Arnoddur; hann átti Þórnýju, dóttur Sigmundar Þorkelssonar, er Glúmur vó, Arnfríður hét dóttir Sleitu-Bjarnar, er Spak-Böðvar átti, son Öndótts.

Öndóttur kom út í Kolbeinsárósi og kaupir land að Sleitu-Birni ofan frá Hálsgróf hinum eystra megin og út til Kolbeinsáróss, (en) hinum vestra megin ofan frá læk þeim, er verður út frá Nautabúi, og inn til Gljúfrár, og bjó í Viðvík.

Sigmundur á Vestfold átti Ingibjörgu dóttur Rauðs ruggu í Naumudal, systur Þorsteins svarfaðar. Þeirra son var Kolbeinn; hann fór til Íslands og nam land á milli Grjótár og Deildarár, Kolbeinsdal og Hjaltadal.

64. kafli

Hjalti son Þórðar skálps kom til Íslands og nam Hjaltadal að ráði Kolbeins og bjó að Hofi; hans synir voru þeir Þorvaldur og Þórður, ágætir menn.

Það hefir erfi verið ágætast á Íslandi, er þeir erfðu föður sinn, og voru þar tólf hundruð boðsmanna, og voru allir virðingamenn með gjöfum brutt leiddir.

Að (því) erfi færði Oddur Breiðfirðingur drápu þá, er hann hafði ort um Hjalta. Áður hafði Glúmur Geirason stefnt Oddi til Þorskafjarðarþings; þá fóru Hjaltasynir norðan skipi til Steingrímsfjarðar og gengu norðan um heiðina, þar sem nú er kölluð Hjaltdælalaut. En er þeir gengu á þingið, voru þeir svo vel búnir, að menn hugðu, að Æsir væri (þar) komnir. Þar um er þetta kveðið:

Manngi hugði manna
morðkannaðra annat,
ísarns meiðr, en Æsir
almærir þar færi,
þás á Þorskafjarðar
þing með ennitinglum
holtvartaris Hjalta
harðfengs synir gengu.

Frá Hjaltasonum er mikil ætt komin og göfug.

Þórður hét maður ágætur hann var son Bjarnar byrðusmjörs, Hróaldssonar hryggs, Bjarnarsonar járnsíðu, Ragnarssonar loðbrókar. Þórður fór til Íslands og nam Höfðaströnd í Skagafirði á milli Unadalsár og Hrolleifsdalsár og bjó að Höfða.

Þórður átti Þorgerði dóttur Þóris hímu og Friðgerðar, dóttur Kjarvals Írakonungs; þau áttu nítján börn.

Björn var son þeirra; hann átti Þuríði, dóttur Refs frá Barði, og voru þeirra börn Arnór kerlingarnef og Þórdís, móðir Orms, föður Þórdísar, móður Bótólfs, föður Þórdísar, móður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona.

Þorgeir hét annar son Þórðar; hann átti Rjúpu dóttur Arnalds Sæmundarsonar, þeirra son Halldór að Hofi.

Snorri var hinn þriðji; hann átti Þórhildi rjúpu, dóttur Þórðar gellis; þeirra son var Þórður hesthöfði.

Þorvaldur holbarki var hinn fjórði; hann kom um haust eitt á Þorvarðsstaði til Smiðkels og dvaldist þar um hríð. Þá fór hann upp til hellisins Surts og færði þar drápu þá, er hann hafði ort um jötuninn í hellinum. Síðan fékk hann dóttur Smiðkels, og þeirra dóttir var Jórunn, móðir Þorbrands í Skarfsnesi.

Bárður var hinn fimmti son Þórðar; hann átti Þórörnu dóttur Þórodds hjálms; þeirra son var Daði skáld. Söxólfur var hinn sétti son Þórðar, sjöundi Þorgrímur, átti Hróar, níundi Knör, tíundi Þormóður skalli, ellefti Steinn.

Dóttir Þórðar var Þorlaug, er átti Arnbjörn Sleitu-Bjarnarson, þeirra dóttir Guðlaug, er átti Þorleikur Höskuldsson, þeirra son Bolli.

Herdís var önnur dóttir Þórðar; hana átti Atli hinn rammi. Þorgríma skeiðarkinn var en þriðja, fjórða Arnbjörg, fimmta Arnleif, sétta Ásgerður, sjöunda Þuríður, átta Friðgerður í Hvammi.

Hrolleifur hinn mikli byggði Hrolleifsdal, sem ritað er áður. Þórður gerði hann norðan fyrir víg Odds Unasonar; þá fór hann í Vatnsdal.

65. kafli

Friðleifur hét maður, gauskur að föðurkyni, en Bryngerður hét móðir hans, og var hún flæmsk. Friðleifur nam Sléttahlíð alla og Friðleifsdal milli Friðleifsdalsár og Stafár og bjó í Holti. Hans son var Þjóðar, faðir Ara og Bryngerðar, móður Tungu-Steins.

Flóki son Vilgerðar Hörða-Káradóttur fór til Íslands og nam Flókadal milli Flókadalsár og Reykjarhóls; hann bjó á Mói. Flóki átti Gró, systur Þórðar frá Höfða. Þeirra son var Oddleifur stafur, er bjó á Stafshóli og deildi við Hjaltasonu. Dóttir Flóka var Þjóðgerður, móðir Koðráns, föður Þjóðgerðar, móður Koðráns, föður Kárs í Vatnsdal.

Þórður knappur hét maður sygnskur, son Bjarnar að Haugi, annar hét Nafar-Helgi; þeir fóru samskipa til Íslands og komu við Haganes. Þórður nam land upp frá Stíflu til Tunguár og bjó á Knappsstöðum; hann átti Æsu dóttur Ljótólfs goða. Þeirra son var Hafur, er átti Þuríði, dóttur Þorkels úr Guðdölum; þeirra son var Þórarinn, faðir Ófeigs.

Nafar-Helgi nam land fyrir austan upp frá Haganesi til Flókadalsár fyrir neðan Barð og upp til Tunguár og bjó á Grindli; hann átti Gró hina (snar)skyggnu. Þeirra börn voru þau Þórólfur og Arnór, er barðist við Friðleif á Stafshóli, og Þorgerður, er átti Geirmundur Sæmundarson, og Úlfhildur, er átti Arnór Skefilsson í Gönguskarði. Þeirra son var Þorgeir ofláti, er vó Blót-Má að Móbergi: Þórunn blákinn var ein.

Bárður suðureyingur nam land upp frá Stíflu til Mjóvadalsár; hans son var Hallur Mjódælingur, faðir Þuríðar, er átti Arnór kerlingarnef.

Brúni hinn hvíti hét maður ágætur, son Háreks Upplendingajarls; hann fór til Íslands af fýsi sinni og nam land á milli Mjóvadalsár og Úlfsdala; hann bjó á Brúnastöðum. Hann átti Arnóru, dóttur Þorgeirs hins óða, Ljótólfssonar goða; þeirra synir voru þeir Ketill og Úlfheðinn og Þórður, er Barðverjar eru frá komnir.

Úlfur víkingur og Óláfur bekkur fóru samskipa til Íslands. Úlfur nam Úlfsdali og bjó þar. Óláfur bekkur var son Karls úr Bjarkey af Hálogalandi; hann vó Þóri hinn svarta og varð fyrir það útlægur.

Óláfur nam alla dali fyrir vestan og Óláfsfjörð sunnan til móts við Þormóð og bjó að Kvíabekki. Hans synir voru þeir Steinmóður, faðir Bjarnar, og Grímólfur og Arnoddur, faðir Vilborgar, móður Karls hins rauða.

Þormóður hinn rammi hét maður; hann vó Gyrð, móðurföður Skjálgs á Jaðri, og varð fyrir það landflótti og fór til Íslands. Hann kom skipi sínu í Siglufjörð og sigldi inn að Þormóðseyri og kallaði af því Siglufjörð; hann nam Siglufjörð allan á milli Úlfsdala (og Hvanndala) og bjó á Siglunesi. Hann deildi um Hvanndali við Óláf bekk og varð sextán manna bani, áður þeir sættust, en þá skyldi sitt sumar hvor hafa.

Þormóður var son Haralds víkings, en hann átti Arngerði, systur Skíða úr Skíðadal. Þeirra synir voru þeir Arngeir hinn hvassi og Narfi, faðir Þrándar, föður Hríseyjar-Narfa, og Alrekur, er barðist í Sléttahlíð við Knör Þórðarson.

Gunnólfur hinn gamli, son Þorbjarnar þjóta úr Sogni, hann vó Végeir, föður Vébjarnar Sygnakappa, og fór síðan til Íslands; hann nam Óláfsfjörð fyrir austan upp til Reykjaár og út til Vomúla og bjó á Gunnólfsá. Hann átti Gró, dóttur Þorvarðs frá Urðum; þeirra synir voru þeir Steinólfur, Þórir og Þorgrímur.

66. kafli

Björn hét maður ágætur á Gautlandi; hann var son Hrólfs frá Ám; hann átti Hlíf, dóttur Hrólfs Ingjaldssonar, Fróðasonar konungs. Eyvindur hét son þeirra.

Björn varð ósáttur um jörð við Sigfast, mág Sölvars Gautakonungs, og brenndi Björn hann inni með þremur tigum manna. Síðan fór Björn til Noregs með tólfta mann, og tók við honum Grímur hersir son Kolbjarnar sneypis, og var (hann) með honum einn vetur. Þá vildi Grímur drepa Björn til fjár; því fór Björn til Öndótts kráku, er bjó í Hvinisfirði á Ögðum, og tók hann við honum. Björn var á sumrum í vesturvíking, en á vetrum með Öndótti, þar til er Hlíf kona hans andaðist á Gautlandi.

Þá kom Eyvindur son hans austan og tók við herskipum föður síns, en Björn fékk Helgu, systur Öndótts kráku, og var þeirra son Þrándur. Eyvindur fór þá í vesturvíking og hafði útgerðir fyrir Írlandi. Hann fékk Raförtu, dóttur Kjarvals Írakonungs, og staðfestist þar; því var hann kallaður Eyvindur austmaður.

Þau Raförta áttu son þann, er Helgi hét; hann seldu þau til fósturs í Suðureyjar. En er þau komu þar út tveim vetrum síðar, þá var hann sveltur, svo að þau kenndu hann eigi; þau höfðu hann bruttu með sér og kölluðu hann Helga hinn magra; hann var fæddur á Írlandi. En er hann var roskinn, gerðist hann virðingamaður mikill; hann fékk þá Þórunnar hyrnu, dóttur Ketils flatnefs, og áttu þau mörg börn. Hrólfur og Ingjaldur hétu synir þeirra.

Helgi hinn magri fór til Íslands með konu sína og börn; þar var og með honum Hámundur heljarskinn mágur hans, er átti Ingunni dóttur Helga. Helgi var blandinn mjög í trú; hann trúði á Krist, en hét á Þór til sjófara og harðræða.

Þá er Helgi sá Ísland, gekk hann til frétta við Þór, hvar land skyldi taka, en fréttin vísaði honum norður um landið. Þá spurði Hrólfur son hans, hvort Helgi mundi halda í Dumbshaf, ef Þór vísaði honum þangað, því að skipverjum þótti mál úr hafi, er áliðið var mjög sumarið.

Helgi tók land fyrir utan Hrísey, en fyrir innan Svarfaðardal; hann var hinn fyrsta vetur á Hámundarstöðum. Þeir fengu vetur mikinn.

Um vorið gekk Helgi upp á Sólarfjöll; þá sá hann, að svartara var miklu að sjá inn til fjarðarins, er þeir kölluðu Eyjafjörð af eyjum þeim, er þar lágu úti fyrir. Eftir það bar Helgi á skip sitt allt það, er hann átti, en Hámundur bjó eftir. Helgi lendi þá við Galtarhamar; þar skaut hann á land svínum tveimur, og hét gölturinn Sölvi. Þau fundust þremur vetrum síðar í Sölvadal; voru þá saman sjö tigir svína.

Helgi kannaði um sumarið hérað allt og nam allan Eyjafjörð milli Sigluness og Reynisness og gerði eld mikinn við hvern vatnsós og helgaði sér svo allt hérað. Hann sat þann vetur að Bíldsá, en um vorið færði Helgi bú sitt í Kristsnes og bjó þar, meðan hann lifði.

Í búfærslunni varð Þórunn léttari í Þórunnareyju í Eyjafjarðará; þar fæddi hún Þorbjörgu hólmasól. Helgi trúði á Krist og kenndi því við hann bústað sinn.

Eftir þetta tóku menn að byggja í landnámi Helga að hans ráði.

67. kafli

Maður hét Þorsteinn svarfaður son Rauðs ruggu í Naumudal; hann átti Hildi dóttur Þráins svartaþurs. Þorsteinn fór til Íslands og nam Svarfaðardal að ráði Helga. Börn hans voru þau Karl hinn rauði, er bjó að Karlsá, og Guðrún, er átti Hafþór víkingur. Þeirra börn voru þau Klaufi og Gróa, er átti Grís gleðill.

Atli illingur hét maður; hann drap Hafþór, en setti Karl í járn; þá kom Klaufi á óvart og drap Atla, en tók Karl úr járni. Klaufi átti Yngvildi rauðkinn dóttur Ásgeirs rauðfeldar, systur þeirra Óláfs völubrjóts og Þorleifs. Fyrir þeim hjó hann jafnabelg, er þeir tóku í landi hans. Þá kvað Þorleifur þetta:

Belg hjó fyrir mér
Böggvir snöggvan,
en fyrir Áleifi
ál ok verju.
Svá skal verða,
ef vér lifum,
við böl búinn
Böggvir höggvinn.

Þar af gerðist Svarfdæla saga.

Karl hét maður, er nam Strönd alla út frá Upsum til Mígandi.

Hámundur heljarskinn son Hjörs konungs miðlaði lönd við Örn frænda sinn, þá er hann kom vestan, þann er numið hafði Arnarfjörð, og bjó hann í Arnarnesi. Hans dóttir var Iðunn, er átti Ásgeir rauðfeldur. Son Arnar var Narfi, er Narfasker eru við kennd; hann átti Úlfheiði dóttur Ingjalds úr Gnúpufelli. Þeirra synir voru þeir Ásbrandur, faðir Hellu-Narfa, og Eyjólfur, faðir Þorvalds í Haga, og Helgi, faðir Gríms á Kálfskinni.

Galmur hét maður, er nam Galmansströnd á milli Þorvaldsdalsár og Reistarár. Hans son var Þorvaldur, faðir Orms, föður Barna-Þórodds, föður Þórunnar, móður Dýrfinnu, móður Þorsteins smiðs Skeggjasonar. Þorvaldi gaf Hámundur land milli Reistarár og Hörgár, en hann hafði áður búið í Þorvaldsdal.

Geirleifur hét maður; hann nam Hörgárdal upp til Myrkár; hann var Hrappsson og bjó í Haganum forna. Hans son var Björn hinn auðgi, er Auðbrekkumenn eru frá komnir.

68. kafli

Maður hét Þórður slítandi; hann nam Hörgárdal upp frá Myrká og ofan til Dranga öðrum megin. Hans son var Örnólfur, er átti Yngvildi allrasystur. Þeirra synir voru þeir Þórður og Þorvarður í Kristnesi og Steingrímur að Kroppi. Þórður slítandi gaf Skólm, frænda sínum, af landnámi sínu. Hans son var Þórálfur hinn sterki, er bjó að Myrká.

Þórir þursasprengir hét maður; hann var fæddur í Ömð á Hálogalandi og varð missáttur við Hákon jarl Grjótgarðsson og fór af því til Íslands; hann nam Öxnadal allan og bjó að Vatnsá. Hans son var Steinröður hinn rammi, er mörgum manni vann bót, þeim er aðrar meinvættir gerðu mein. Geirhildur hét fjölkunnig kona og meinsöm. Það sá ófreskir menn, að Steinröður kom að henni óvarri, en hún brá sér í nautsbelgs líki vatnsfulls. Steinröður var járnsmiður; hann hafði járngadd mikinn í hendi. Um fund þeirra er þetta kveðið:

Fork lætr æ sem orkar
atglamrandi hamra
á glotkylli gjalla
Geirhildar hví meira.
Járnstafr skapar ærna,
eru sollin rif trolli,
hár á Hjaltaeyri
hríð kerlingar síðu.

Dóttir Steinröðar var Þorljót, er átti Þorvarður í Kristnesi.

Auðólfur hét maður; hann fór af Jaðri til Íslands og nam Öxnadal niður frá Þverá til Bægisár og bjó að hinni syðri Bægisá; hann átti Þórhildi, dóttur Helga hins magra. Þeirra dóttir var Yngvildur, er átti Þóroddur hjálmur, faðir Arnljóts, föður Halldórs.

Eysteinn son Rauðúlfs Öxna-Þórissonar nam land niður frá Bægisá til Kræklingahlíðar og bjó að Lóni. Hans son var Gunnsteinn, er átti Hlíf, dóttur Heðins úr Mjölu. Þeirra börn voru þau Halldóra, er Víga-Glúmur átti, og Þorgrímur og Grímur eyrarleggur.

Eyvindur hani hét maður göfugur; hann kom út síð landnámatíðar; hann átti skip við Þorgrím Hlífarson. Hann var frændi Öndóttssona; þeir gáfu honum land, og bjó hann í Hanatúni og var kallaður Túnhani. Þar er nú kallað Marbæli. Hann átti Þórnýju, dóttur Stórólfs Öxna-Þórissonar. Hans son var Snorri Hlíðmannagoði.

69. kafli

Öndóttur kráka, er fyrr var getið, gerðist ríkur maður. En er Björn mágur (hans) andaðist, þá kallaði Grímur hersir konungi allan arf hans, er hann var útlendur, en synir hans voru fyrir vestan haf. Öndóttur hélt fénu til handa Þrándi, systursyni sínum.

En er Þrándur frá andlát föður síns, þá sigldi hann úr Suðureyjum svo mikla sigling, að fyrir það var hann kallaður Þrándur mjögsiglandi. En er hann hafði við erfð tekið, þá fór hann til Íslands og nam fyrir sunnan land, sem enn mun sagt verða.

En fyrir þá sök vó Grímur Öndótt, er hann náði eigi fénu í konungs trausti. En á hinni sömu nótt bar Signý kona Öndótts á skip allt lausafé sitt og fór með sonu þeirra, Ásgrím og Ásmund, til Sighvats föður síns, en sendi sonu sína til Heðins fóstra síns í Sóknadal. En þeir undu þar eigi og vildu fara til móður sinnar og komu að jólum til Ingjalds tryggva í Hvini. Hann tók við þeim af áeggjun Gyðu, konu sinnar.

Um sumarið eftir gerði Grímur hersir veislu Auðuni jarli Haralds konungs. En þá nótt, er ölhita var að Gríms, brenndu Öndóttssynir hann inni og tóku síðan bát Ingjalds fóstra síns og röru á braut. Auðun kom til veislu, sem ætlað var, og missti þar vinar í stað. Þá komu Öndóttssynir þar snemma um morguninn að svefnbúri því, er Auðun lá í, og skutu stokki á hurð. Ásmundur varðveitti húskarla jarls tvo, en Ásgrímur setti spjótsodd fyrir brjóst jarli og bað hann reiða föðurgjöld. Hann seldi fram þrjá gullhringa og guðvefjarskikkju; Ásgrímur gaf jarli nafn og kallaði Auðun geit.

Síðan fóru þeir í Súrnadal til Eiríks ölfúss, lends manns, og tók hann við þeim. Þar bjó Hallsteinn hestur, annar lendur maður, og höfðu þeir jóladrykkju saman, og veitti Eiríkur fyrr vel og trúliga, en Hallsteinn veitti síðar óvingjarnliga. Hann laust Eirík með dýrshorni; fór Eiríkur þá heim, en Hallsteinn sat eftir með húskarla sína. Þá gekk Ásgrímur inn einn og veitti Hallsteini mikið sár, en þeir þóttust veita Ásgrími bana. En hann komst út og til skógar, og græddi kona hann í jarðhúsi, svo að hann varð heill.

Það sumar fór Ásmundur til Íslands og hugði Ásgrím bróður sinn dauðan. Helgi hinn magri gaf Ásmundi Kræklingahlíð, og bjó (hann) að Glerá hinni syðri.

En þá er Ásgrímur varð heill, gaf Eiríkur honum langskip, og herjaði hann vestur um haf, en Hallsteinn dó úr sárum. En er Ásgrímur kom úr hernaði, gifti Eiríkur honum Geirhildi dóttur sína. Þá fór Ásgrímur til Íslands; hann bjó að Glerá hinni nyrðri.

Haraldur konungur sendi Þorgeir hinn hvinverska til Íslands að drepa Ásgrím. Hann var of vetur á Kili í Hvinverjadal og kom öngu fram um hefndina.

Son Ásgríms var Elliða-Grímur, faðir Ásgríms og Sigfúss, föður Þorgerðar, móður Gríms, föður Svertings, föður Vigdísar, móður Sturlu í Hvammi.

70. kafli

Helgi hinn magri gaf Hámundi mági sínum land milli Merkigils og Skjálgdalsár, og bjó hann á Espihóli hinum syðra. Hans son var Þórir, er þar bjó síðan; hann átti Þórdísi Kaðalsdóttur. Þeirra son var Þórarinn á Espihóli hinum nyrðra og Þorvaldur krókur á Grund, en Þorgrímur í Möðrufelli var eigi hennar son; Vigdís var dóttir þeirra.

Helgi gaf Þóru dóttur sína Gunnari syni Úlfljóts, er lög hafði út, og land upp frá Skjálgdalsá til Háls; hann bjó í Djúpadal. Þeirra börn voru þau Þorsteinn, Ketill og Steinmóður, en dætur Yngvildur og Þorlaug.

Helgi gaf Auðuni rotin, syni Þórólfs smjörs, Þorsteinssonar skrofa, Gríms sonar kambans, Helgu dóttur sína, og land upp frá Hálsi til Villingadals; hann bjó í Saurbæ. Þeirra börn voru þau Einar, faðir Eyjólfs Valgerðarsonar, og Vigdís, móðir Halla hins hvíta, föður Orms, föður Gellis, föður Orms, föður Halla, föður Þorgeirs, föður Þorvarðs og Ara, föður Guðmundar byskups.

Hámundur heljarskinn fékk Helgu Helgadóttur eftir andlát Ingunnar, systur hennar, og var þeirra dóttir Yngvildur, er kölluð var allrasystir, er Örnólfur átti.

Helgi gaf Hrólfi syni sínum öll lönd fyrir austan Eyjafjarðará frá Arnarhvoli upp, og hann bjó í Gnúpufelli og reisti þar hof mikið; hann átti Þórörnu dóttur Þrándar mjóbeins. Þeirra börn voru þau Hafliði hinn örvi og Valþjófur, Viðar, Grani og Böðvar, Ingjaldur og Eyvindur, en dóttir Guðlaug, er Þorkell hinn svarti átti. Valþjófur var faðir Helga, föður Þóris, föður Arnórs, föður Þuríðar, móður Þórdísar, móður Vigdísar, móður Sturlu í Hvammi.

Helgi hinn magri gaf Ingjaldi syni sínum land út frá Arnarhvoli til Þverár hinnar ytri; hann bjó að Þverá hinni efri og reisti þar hof mikið. Hann átti Salgerði Steinólfsdóttur, þeirra son Eyjólfur, faðir Víga-Glúms, og Steinólfur, faðir Þórarins illa og Arnórs hins góða Rauðæings. Víga-Glúmur var faðir Más, föður Þorkötlu, móður Þórðar, föður Sturlu.

Helgi gaf Hlíf dóttur sína Þorgeiri syni Þórðar bjálka og land út frá Þverá til Varðgjár. Þau bjuggu að Fiskilæk, börn þeirra Þórður og Helga.

Skagi Skoftason hét maður ágætur á Mæri; hann varð ósáttur við Eystein glumru og fór af því til Íslands. Hann nam að ráði Helga Eyjafjarðarströnd hina eystri út frá Varðgjá til Fnjóskadalsár og bjó í Sigluvík. Hans son var Þorbjörn, faðir Heðins hins milda, er Svalbarð lét gera sextán vetrum fyrir kristni; hann átti Ragnheiði, dóttur Eyjólfs Valgerðarsonar.

71. kafli

Þórir snepill hét maður son Ketils brimils; hann bjóst til Íslandsfarar. Gautur hét skipveri hans.

En er þeir lágu til hafs, komu að þeim víkingar og vildu ræna þá, en Gautur laust stafnbúann þeirra með hjálmunveli, og lögðu víkingar við það frá. Síðan var hann kallaður Hjálmun-Gautur.

Þeir Þórir fóru til Íslands og komu skipi sínu í Skjálfandafljótsós. Þórir nam Kaldakinn á milli Skuggabjarga og Ljósavatnsskarðs; hann nam þar eigi yndi og fór á braut; þá kvað hann þetta:

Hér liggr, kjóla keyrir,
Kaldakinn of aldr,
en vit förum heilir,
Hjölmun-Gautr, á braut.

Þórir nam síðan Fnjóskadal allan til Ódeilu og bjó að Lundi; hann blótaði lundinn. Hans sonur var Ormur töskubak, faðir Hlenna hins gamla, og Þorkell svarti í Hleiðrargarði. Hann átti Guðlaugu Hrólfsdóttur, þeirra synir Öngull hinn svarti og Hrafn, faðir Þórðar að Stokkahlöðum, og Guðríður, er átti Þorgeir goði að Ljósavatni.

Þengill mjögsiglandi fór af Hálogalandi til Íslands; hann nam land að ráði Helga út frá Hnjóská til Grenivíkur; hann bjó í Höfða. Hans synir voru þeir Vémundur faðir Ásólfs í Höfða og Hallsteinn, er þetta kvað, þá er hann sigldi af hafi og frá andlát föður síns:

Drúpir Höfði,
dauðr es Þengill,
hlæja hlíðir
við Hallsteini.

Þormóður hét maður, er nam Grenivík og Hvallátur og Strönd alla út til Þorgeirsfjarðar. Hans son var Snörtur, er Snertlingar eru frá komnir.

Þorgeir hét maður, er nam Þorgeirsfjörð og Hvalvatnsfjörð.

Loðinn öngull hét maður; hann var fæddur í Öngley á Hálogalandi. Hann fór fyrir ofríki Hákonar jarls Grjótgarðssonar til Íslands og dó í hafi; en Eyvindur son hans nam Flateyjardal upp til Gunnsteina og blótaði þá. Þar liggur Ódeila á milli og landnáms Þóris snepils.

Ásbjörn dettiás var son Eyvindar, faðir Finnboga hins ramma.

72. kafli

Bárður son Heyjangurs-Bjarnar kom skipi sínu í Skjálfandafljótsós og nam Bárðardal allan upp frá Kálfborgará og Eyjardalsá og bjó að Lundarbrekku um hríð.

Þá markaði hann að veðrum, að landviðri voru betri en hafviðri, og ætlaði af því betri lönd fyrir sunnan heiði. Hann sendi sonu sína suður um gói; þá fundu þeir góibeytla og annan gróður. En annað vor eftir þá gerði Bárður kjálka hverju kykvendi, því er gengt var, og lét hvað draga sitt fóður og fjárhlut; hann fór Vonarskarð, þar er síðan heitir Bárðargata. Hann nam síðan Fljótshverfi og bjó að Gnúpum; þá var hann kallaður Gnúpa-Bárður.

Hann átti mörg börn. Hans son var Sigmundur, faðir Þorsteins, er átti Æsu, dóttur Hrólfs rauðskeggs. Þeirra dóttir var Þórunn, er átti Þorkell leifur, og var þeirra son Þorgeir goði að Ljósavatni.

Annar son Bárðar var Þorsteinn, faðir Þóris, er var á Fitjum með Hákoni konungi og skar rauf á oxahúð og hafði þá hlíf; því var hann leðurháls kallaður. Hann átti Fjörleifu Eyvindardóttur. Þeirra synir voru þeir Hávarður í Fellsmúla, Herjólfur að Mývatni, Ketill í Húsavík, Vémundur kögur, er átti Halldóru, dóttur Þorkels svarta, og Áskell og Háls; hann bjó á Helgastöðum.

Þorfiður máni hét maður, son Áskels torfa; hann nam land fyrir neðan Eyjardalsá til Landanmóts og sumt um Ljósavatnsskarð og bjó að Öxará.

Þórir son Gríms gráfeldarmúla af Rogalandi nam um Ljósavatnsskarð. Hans son var Þorkell leifur hinn hávi faðir Þorgeirs goða.

Þorgeir átti fyrst Guðríði dóttur Þorkels svarta, þeirra synir Þorkell hákur og Höskuldur, Tjörvi, Kolgrímur, Þorsteinn og Þorvarður, en dóttir Sigríður. Síðan átti hann Álfgerði dóttur Arngeirs hins austræna. Þorgeir átti og Þorkötlu, dóttur Dala-Kolls. Synir hans og þeirra kvenna voru þeir Þorgrímur, Þorgils, Óttar. Þessir voru laungetnir: Þorgrímur og Finni hinn draumspaki; hans móðir hét Lekný, útlend.

Heðinn og Höskuldur, synir Þorsteins þurs, fóru til Íslands og námu fyrir innan Tunguheiði. Heðinn bjó að Heðinshöfða og átti Guðrúnu. Þeirra dóttir var Arnríður, er Ketill Fjörleifarson átti. Guðrún var dóttir þeirra, er Hrólfur átti. Höskuldur nam lönd öll fyrir austan Laxá og bjó í Skörðum; við hann er kennt Höskuldsvatn, því að hann drukknaði þar. Í þeirra landnámi er Húsavík, er Garðar hafði vetursetu. Son Höskulds var Hróaldur, er átti Ægileifu, dóttur Hrólfs Helgasonar.

73. kafli

Vestmaður og Úlfur fóstbræður fóru einu skipi til Íslands; þeir námu Reykjadal allan fyrir vestan Laxá upp til Vestmannsvatns. Vestmaður átti Guðlaugu. Úlfur bjó undir Skrattafelli. Hann átti…, þeirra son Geirólfur, er átti Vigdísi Konálsdóttur síðar en Þorgrímur, þeirra son Hallur.

Þorsteinn höfði hét maður; hann var hersir á Hörðalandi; hans synir voru þeir Eyvindur og Ketill hörski. Eyvindur fýstist til Íslands eftir andlát föður síns, en Ketill bað hann nema báðum þeim land, ef honum sýndist síðar að fara. Eyvindur kom í Húsavík skipi sínu og nam Reykjadal upp frá Vestmannsvatni; hann bjó að Helgastöðum og er þar heygður.

Náttfari, er með Garðari hafði út farið, eignaði sér áður Reykjadal og hafði merkt á viðum, en Eyvindur rak hann á braut og lét hann hafa Náttfaravík.

Ketill fór út að orðsendingu Eyvindar; hann bjó á Einarsstöðum; hans son var Konáll Þorsteinn, faðir Einars, er þar bjó síðan.

Sonur Eyvindar (var) Áskell goði, er átti dóttur Grenjaðar; þeirra synir Þorsteinn og Víga-Skúta. Dóttir Eyvindar var Fjörleif.

Konáll átti Oddnýju Einarsdóttur, systur Eyjólfs Valgerðarsonar. Þeirra börn voru þau Einar, er átti sex sonu og dóttur Þóreyju, er átti Steinólfur Másson, og önnur Eydís, er Þorsteinn goði átti úr Ásbjarnarvík. Þórður Konálsson var faðir Sokka á Breiðamýri, föður Konáls. Dóttir Konáls var Vigdís, er átti Þorgrímur, son Þorbjarnar skaga, og var þeirra son Þorleifur Geirólfsstjúpur.

Grenjaður hét maður Hrappsson, bróðir Geirleifs; hann nam Þegjandadal og Kraunaheiði, Þorgerðarfell og Laxárdal neðan. Hann átti Þorgerði dóttur Helga hests. Þeirra son var Þorgils vomúli, faðir Önundar, föður Hallberu, móður Halldóru, móður Þorgerðar, móður Halls ábóta og Hallberu, er átti Hreinn Styrmisson.

Böðólfur hét maður, son Gríms Grímólfssonar af Ögðum, bróðir Böðmóðs; hann átti Þórunni dóttur Þórólfs hins fróða; þeirra son var Skeggi.

Þau fóru öll til Íslands og brutu skip sitt við Tjörnes og voru að Auðólfsstöðum hinn fyrsta vetur. Hann nam Tjörnes allt á milli Tunguár og Óss. Böðólfur átti síðar Þorbjörgu hólmasól dóttur Magur-Helga. Þeirra dóttir var Þorgerður, er átti Ásmundur Öndóttsson.

Skeggi Böðólfsson nam Kelduhverfi upp til Kelduness og bjó í Miklagarði; hann átti Helgu dóttur Þorgeirs að Fiskilæk.

Þeirra son var Þórir farmaður. Hann lét gera knörr í Sogni; þann vígði Sigurður byskup. Af þeim knerri eru brandar veðurspáir fyrir durum í Miklagarði. Um Þóri orti Grettir þetta:

Ríðkat rækimeiðum
randar hóts á móti.
Sköpuð es þessum þegni
þraut. Ferk einn á brautu.
Vilkat Viðris balkar
vinnendr snara finna.
Ek mun þér eigi þykkja
ærr. Leitak mér færis.

Hnekkik frá, þars flokkar
fara Þóris mjök stórir.
Esa mér í þys þeira
þerfiligt at hverfa.
Forðumk frægra virða
fund. Ák veg til lundar.
Verðk Heimdallar hirða
hjör. Björgum svá fjörvi.

74. kafli

Máni hét maður; hann var fæddur í Ömð á Hálogalandi; hann fór til Íslands og braut við Tjörnes og bjó að Máná nokkura vetur.

Síðan rak Böðólfur hann á braut þaðan, og nam hann þá fyrir neðan Kálfborgará, milli Fljóts og Rauðaskriðu, og bjó að Mánafelli.

Hans son var Ketill, er átti Valdísi Þorbrandsdóttur, er keypti Rauðaskriðulönd að Mána. Hans dóttir var Dalla, systir Þorgeirs Galtasonar; hana átti Þorvaldur Hjaltason.

Ljótur óþveginn hét maður, er nam Kelduhverfi upp frá Keldunesi. Hans son var Grís faðir Galta í Ási; hann var vitur maður og vígamaður mikill.

Önundur nam (og) Kelduhverfi frá Keldunesi og bjó í Ási; hann var son Blæings Sótasonar, bróðir Bálka í Hrútafirði. Dóttir Önundar var Þorbjörg, er átti Hallgils Þorbrandsson úr Rauðaskriðu.

Þorsteinn son Sigmundar Gnúpa-Bárðarsonar bjó fyrst að Mývatni. Hans son var Þorgrímur, faðir Arnórs í Reykjahlíð, er átti Þorkötlu, dóttur Böðvars Hrólfssonar úr Gnúpufelli. Böðvar var son þeirra.

Þorkell hinn hávi kom ungur til Íslands og bjó fyrst að Grænavatni, er gengur af Mývatni. Sigmundur hét son hans; hann átti Vigdísi, dóttur Þóris af Espihóli; hann vó Glúmur á akrinum. Dóttir Þorkels var Arndís, er átti Vigfúss bróðir Víga-Glúms. Þorkell gat son í elli sinni; sá hét Dagur. Hann var faðir Þórarins, er átti Yngvildi, dóttur Halls á Síðu, síðar en Eyjólfur hinn halti.

Geiri hét maður norrænn, er fyrstur bjó fyrir sunnan Mývatn á Geirastöðum; hans son var Glúmur og Þorkell.

Þeir feðgar börðust við Þorberg höggvinkinna og felldu Þorstein son hans. Fyrir þau víg voru þeir görvir norðan úr sveitum.

Geiri sat um vetur á Geirastöðum við Húnavatn. Síðan fóru þeir í Breiðafjörð og bjuggu í Geiradal í Króksfirði. Glúmur fékk Ingunnar, dóttur Þórólfs Véleifssonar. Þeirra börn voru þau Þórður, er átti Guðrúnu Ósvífursdóttur, og Þorgerður, er átti Þórarinn Ingjaldsson, þeirra son Helgu-Steinar.

Torf-Einar jarl gat dóttur í æsku; sú hét Þórdís; hana fæddi Rögnvaldur jarl og gifti hana Þorgeiri klaufa. Þeirra son var Einar; hann fór til Orkneyja að finna frændur sína; þeir vildu eigi taka við frændsemi hans.

Þá kaupir Einar í skipi með bræðrum tveimur, Vestmanni og Vémundi; þeir fóru til Íslands og sigldu fyrir norðan landið og vestur um Sléttu í fjörðinn. Þeir settu öxi í Reistargnúp og kölluðu því Öxarfjörð; þeir settu örn upp fyrir vestan og kölluðu þar Arnarþúfu; en í þriðja stað settu þeir kross; þar nefndu þeir Krossás. Svo helguðu þeir sér allan Öxarfjörð.

Börn Einars voru þau Eyjólfur, er Galti Gríssson vó, og Ljót, móðir Hróa hins skarpa, er hefndi Eyjólfs og vó Galta. Synir Glíru-Halla, Brandur og Bergur, voru dóttursynir Ljótar; þeir féllu í Böðvarsdal.

Reistur son Bjarneyja-Ketils og Hildar, systur Ketils þistils, faðir Arnsteins goða, hann nam land á milli Reistargnúps og Rauðagnúps og bjó í Leirhöfn.

Arngeir hét maður, er nam Sléttu alla milli Hávararlóns og Sveinungsvíkur; hans börn voru þau Þorgils og Oddur og Þuríður, er Steinólfur í Þjórsárdal átti.

Þeir Arngeir og Þorgils gengu heiman í fjúki að leita fjár og komu eigi heim. Oddur fór að leita þeirra og fann þá báða örenda, og hafði hvítabjörn drepið þá og lá þá á pasti, er hann kom að. Oddur drap björninn og færði heim, og segja menn, að hann æti allan, og kallaðist þá hefna föður síns, er hann drap björninn, en þá bróður síns, er hann át hann.

Oddur var síðan illur og ódæll við að eiga; hann var hamrammur svo mjög, að hann gekk heiman úr Hraunhöfn um kveldið, en kom um morguninn eftir í Þjórsárdal til liðs við systur sína, er Þjórsdælir vildu berja grjóti í hel.

Sveinungur nam Sveinungsvík, en Kolli Kollavík, og bjó þar hvor, sem við er kennt síðan.

Ketill þistill nam Þistilsfjörð milli Hundsness og Sauðaness. Hans son var Sigmundur, faðir Laugarbrekku-Einars.

Nú eru rituð landnám í Norðlendingafjórðungi, og eru þessir þar ágætastir landnámsmenn: Auðun skökull, Ingimundur, Ævar, Sæmundur, Eiríkur í Goðdölum, Höfða-Þórður, Helgi hinn magri, Eyvindur Þorsteinsson höfða. En þar voru tólf hundruð bónda, þá er talið var.

Источник: Textinn að mestu frá Eiríki Rögnvaldssyni prófessor við Háskóla Íslands.

Текст книги взят с сайта Netútgáfan.

© Tim Stridmann