Landnámabók (Sturlubók)

Fjórði hluti

Þessir menn hafa land numið í Austfirðingafjórðungi, er nú munu upp taldir, og fer hvað af hendi norðan til fjórðungamóts frá Langanesi á Sólheimasand, og er það sögn manna, að þessi fjórðungur hafi fyrst albyggður orðið.

75. kafli

Gunnólfur kroppa hét maður, son Þóris hauknefs hersis; hann nam Gunnólfsvík og Gunnólfsfell og Langanes allt fyrir utan Helkunduheiði og bjó í Fagravík. Hans son var Skúli herkja, faðir Geirlaugar.

Finni hét maður, er nam Finnafjörð og Miðfjörð. Hans son var Þórarinn, faðir Sigurðar, föður Glíru-Halla.

Hróðgeir hinn hvíti Hrappsson nam Sandvík fyrir norðan Digranes allt til Miðfjarðar og bjó á Skeggjastöðum. Hans dóttir var Ingibjörg, er átti Þorsteinn hinn hvíti.

Alrekur var bróðir Hróðgeirs, er út kom með honum; hann var faðir Ljótólfs goða í Svarfaðardal.

Eyvindur vopni og Refur hinn rauði, synir Þorsteins þjokkubeins, bjuggust til Íslands af Strind úr Þrándheimi, því að þeir urðu missáttir við Harald konung, og hafði sitt skip hvor þeirra. Refur varð afturreka, og lét konungur drepa hann, en Eyvindur kom í Vopnafjörð og nam fjörðinn allan frá Vestradalsá og bjó í Krossavík hinni iðri; hans son var Þorbjörn.

Steinbjörn körtur hét son Refs hins rauða; hann fór til Íslands og kom í Vopnafjörð. Eyvindur föðurbróðir hans gaf honum land allt milli Vopnafjarðarár og Vestradalsár; hann bjó að Hofi. Hans synir voru þeir Þormóður stikublígur, er bjó í Sunnudal, annar Refur á Refsstöðum, þriðji Egill á Egilsstöðum, faðir Þórarins og Þrastar og Hallbjarnar og Hallfríðar, er átti Þorkell Geitisson.

Hróaldur bjóla var fóstbróðir Eyvindar vopna; hann nam land fyrir vestan Vestradalsá, dalinn hálfan og Selárdal allan út til Digraness; hann bjó á Torfastöðum. Hans son var Ísröður, faðir Gunnhildar, er átti Oddi, son Ásólfs í Höfða.

Ölvir hinn hvíti hét maður, son Ósvalds Öxna-Þórissonar; hann var lendur maður og bjó í Álmdölum. Hann varð ósáttur við Hákon jarl Grjótgarðsson og fór á Yrjar og dó þar, en Þorsteinn hinn hvíti son hans fór til Íslands og kom skipi sínu í Vopnafjörð eftir landnám. Hann keypti land að Eyvindi vopna og bjó á Tóftavelli fyrir utan Síreksstaði nokkura vetur, áður hann komst að Hofslöndum með því móti, að hann heimti leigufé sitt að Steinbirni kört, en hann hafði ekki til að gjalda nema landið. Þar bjó Þorsteinn sex tigu vetra síðan og var vitur maður og góðráður; hann átti Ingibjörgu, dóttur Hróðgeirs hins hvíta. Þeirra börn voru þau Þorgils og Þórður, Önundur, Þorbjörg og Þóra.

Þorgils átti Ásvöru, dóttur Þóris Graut-Atlasonar. Þeirra son var Brodd-Helgi; hann átti fyrr Höllu Lýtingsdóttur, Arnbjarnarsonar. Þeirra son var Víga-Bjarni; hann átti Rannveigu, dóttur Eiríks úr Goðdölum. Þeirra son var Skegg-Broddi, en dóttir Yngvildur, er átti Þorsteinn Hallsson, Skegg-Broddi átti Guðrúnu, dóttur Þórarins sælings og Halldóru Einarsdóttur, þeirra börn Þórir og Bjarni húslangur. Þórir átti Steinunni, dóttur Þorgríms hins háva; þeirra dóttir var Guðrún, er átti Flosi Kolbeinsson. Þeirra son var Bjarni, faðir Bjarna, er átti Höllu Jörundardóttur. Þeirra börn voru þau Flosi prestur og Torfi prestur, Einar brúður og Guðrún, er Þórður Sturluson átti, og Guðrún, er Einar Bergþórsson átti, og Helga, móðir Sigríðar Sighvatsdóttur.

76. kafli

Þorsteinn torfi og Lýtingur bræður fóru til Íslands. Lýtingur nam Vopnafjarðarströnd alla hina eystri, Böðvarsdal og Fagradal, og bjó í Krossavík; frá honum eru Vopnfirðingar komnir.

Þorfiður hét maður, er fyrst bjó á Skeggjastöðum að ráði Þórðar hálma. Hans son var Þorsteinn fagri, er vó Einar, son Þóris Graut-Atlasonar, og bræður hans tveir, Þorkell og Heðinn, er vógu Þorgils, föður Brodd-Helga.

Þorsteinn torfi nam Hlíð alla utan frá Ósfjöllum og upp til Hvannár og bjó á Fossvelli. Hans son var Þorvaldur, faðir Þorgeirs, föður Hallgeirs, föður Hrapps á Fossvelli.

Hákon hét maður, er nam Jökulsdal allan fyrir vestan Jökulsá og fyrir ofan Teigará og bjó á Hákonarstöðum. Hans dóttir var Þorbjörg, er áttu synir Brynjólfs hins gamla, Gunnbjörn og Hallgrímur.

Teigur lá ónuminn millum Þorsteins torfa og Hákonar; þann lögðu þeir til hofs, og heitir sá nú Hofsteigur.

Skjöldólfur Vémundarson, bróðir Berðlu-Kára, nam Jökulsdal fyrir austan Jökulsá upp frá Knefilsdalsá og bjó á Skjöldólfsstöðum. Hans börn voru þau Þorsteinn, er átti Fastnýju Brynjólfsdóttur, og Sigríður, móðir Bersa Össurarsonar.

Þórður hét maður, son Þórólfs hálma, bróðir Helga bunhauss; hann nam Tungulönd öll á milli Lagarfljóts og Jökulsár fyrir utan Rangá. Hans son var Þórólfur hálmi, er átti Guðríði Brynjólfsdóttur. Þeirra son var Þórður þvari, faðir Þórodds, föður Brands, föður Steinunnar, móður Rannveigar, móður Sæhildar, er Gissur átti.

Össur slagakollur nam land milli Ormsár og Rangár; hann átti Guðnýju Brynjólfsdóttur; þeirra son var Ásmundur, faðir Marðar.

Ketill og Graut-Atli, synir Þóris þiðranda, fóru úr Veradal til Íslands og námu land í Fljótsdal, fyrr en Brynjólfur kom út. Ketill nam Lagarfljótsstrandir báðar fyrir vestan Fljót á milli Hengifossár og Ormsár.

Ketill fór utan og var með Véþormi syni Vémundar hins gamla; þá keypti hann að Véþormi Arneiði, dóttur Ásbjarnar jarls skerjablesa, er Hólmfastur son Véþorms hafði hertekið, þá er þeir Grímur systurson Véþorms drápu Ásbjörn jarl. Ketill keypti Arneiði dóttur Ásbjarnar tveim hlutum dýrra en Véþormur mat hana í fyrstu.

En er kaupið var orðið, þá gerði Ketill brúðkaup til Arneiðar. Eftir það fann hún grafsilfur mikið undir viðarrótum. Þá bauð Ketill að flytja hana til frænda sinna, en hún kaus þá honum að fylgja.

Þau fóru út og bjuggu á Arneiðarstöðum; þeirra son var Þiðrandi faðir Ketils í Njarðvík.

77. kafli

Graut-Atli nam hina eystri strönd Lagarfljóts allt á milli Giljár og Vallaness fyrir vestan Öxnalæk. Hans synir voru þeir Þorbjörn og Þórir, er átti Ásvöru Brynjólfsdóttur.

Þorgeir Vestarsson hét maður göfugur; hann átti þrjá sonu; var einn Brynjólfur hinn gamli, annar Ævar hinn gamli, þriðji Herjólfur. Þeir fóru allir til Íslands á sínu skipi hver þeirra.

Brynjólfur kom skipi sínu í Eskifjörð og nam land fyrir ofan fjall, Fljótsdal allan fyrir ofan Hengifossá fyrir vestan, en fyrir ofan Gilsá fyrir austan, Skriðudal allan, og svo Völluna út til Eyvindarár og tók mikið af landnámi Una Garðarssonar og byggði þar frændum sínum og mágum. Hann átti þá tíu börn, en síðan fékk hann Helgu, er átt hafði Herjólfur bróðir hans, og áttu þau þrjú börn. Þeirra son var Össur, faðir Bersa, föður Hólmsteins, föður Órækju, föður Hólmsteins, föður Helgu, móður Hólmsteins, föður Hallgerðar, móður Þorbjargar, er átti Loftur byskupsson.

Ævar hinn gamli bróðir Brynjólfs kom út í Reyðarfirði og fór upp um fjall; honum gaf Brynjólfur Skriðudal allan fyrir ofan Gilsá; hann bjó á Arnaldsstöðum; hann átti tvo sonu og dætur þrjár.

Ásröður hét maður, er fékk Ásvarar Herjólfsdóttur, bróðurdóttur Brynjólfs og stjúpdóttur; henni fylgdu heiman öll lönd milli Gilsár og Eyvindarár; þau bjuggu á Ketilsstöðum. Þeirra son var Þorvaldur holbarki, faðir Þorbergs, föður Hafljóts, föður Þórhadds skálar. Dóttir Holbarka var Þórunn, er átti Þorbjörn Graut-Atlason, önnur Ástríður, móðir Ásbjarnar loðinhöfða, föður Þórarins í Seyðarfirði, föður Ásbjarnar, föður Kolskeggs hins fróða og Ingileifar, móður Halls, föður Finns lögsögumanns.

Hrafnkell hét maður Hrafnsson; hann kom út síð landnámatíðar. Hann var hinn fyrsta vetur í Breiðdal. En um vorið fór hann upp um fjall.

Hann áði í Skriðudal og sofnaði; þá dreymdi hann, að maður kom að honum og bað hann upp standa og fara braut sem skjótast; hann vaknaði og fór brutt. En er hann var skammt kominn, þá hljóp ofan fjallið allt, og varð undir göltur og griðungur, er hann átti.

Síðan nam Hrafnkell Hrafnkelsdal og bjó á Steinröðarstöðum. Hans son var Ásbjörn, faðir Helga, og Þórir, faðir Hrafnkels goða, föður Sveinbjarnar.

78. kafli

Uni son Garðars, er fyrst fann Ísland, fór til Íslands með ráði Haralds konungs hárfagra og ætlaði að leggja undir sig landið, en síðan hafði konungur heitið honum að gera hann jarl sinn.

Uni tók land, þar sem nú heitir Unaós, og húsaði þar; hann nam sér land til eignar fyrir sunnan Lagarfljót, allt hérað til Unalækjar.

En er landsmenn vissu ætlan hans, tóku þeir að ýfast við hann og vildu eigi selja honum kvikfé eða vistir, og mátti hann eigi þar haldast. Uni fór í Álftafjörð hinn syðra; hann náði þar eigi að staðfestast.

Þá fór hann austan með tólfta mann og kom að vetri til Leiðólfs kappa í Skógahverfi; hann tók við þeim. Uni þýddist Þórunni dóttur Leiðólfs, og var hún með barni um vorið. Þá vildi Uni hlaupast á braut með sína menn, en Leiðólfur reið eftir honum, og fundust þeir hjá Flangastöðum og börðust þar, því að Uni vildi eigi aftur fara með Leiðólfi; þar féllu nokkurir menn af Una, en hann fór aftur nauðigur, því að Leiðólfur vildi, að hann fengi konunnar og staðfestist og tæki arf eftir hann.

Nokkuru síðar hljóp Uni á braut, þá er Leiðólfur var eigi heima, en Leiðólfur reið eftir honum, þá er hann vissi, og fundust þeir hjá Kálfagröfum; var hann þá svo reiður, að hann drap Una og förunauta hans alla.

Sonur Una og Þórunnar var Hróar Tungugoði; hann tók arf Leiðólfs allan og var hið mesta afarmenni. Hann átti dóttur Hámundar, systur Gunnars frá Hlíðarenda; þeirra son var Hámundur hinn halti, er var hinn mesti vígamaður.

Tjörvi hinn háðsami og Gunnar voru (systur)synir Hróars. Tjörvi bað Ástríðar manvitsbrekku Móðólfsdóttur, en bræður hennar, Ketill og Hrólfur, synjuðu honum konunnar, en þeir gáfu hana Þóri Ketilssyni. Þá dró Tjörvi líkneski þeirra á kamarsvegg, og hvert kveld, er þeir Hróar gengu til kamars, þá hrækti hann í andlit líkneski Þóris, en kyssti hennar líkneski, áður Hróar skóf af. Eftir það skar Tjörvi þau á knífsskefti sínu og kvað þetta:

Vér höfum þar sem Þóri,
þat vas sett við glettu,
auðar unga brúði
áðr á vegg of fáða.
Nú hefk, rastkarns, ristna
réðk mart við Syn bjarta,
hauka, skofts, á hefti
Hlín ölbækis mínu.

Hér af gerðust víg þeirra Hróars og systursona hans.

Þorkell fullspakur hét maður, er nam Njarðvík alla og bjó þar. Hans dóttir var Þjóðhildur, er átti Ævar hinn gamli, og var þeirra dóttir Yngvildur, móðir Ketils í Njarðvík Þiðrandasonar.

Veturliði hét maður, son Arnbjarnar Óláfssonar langháls, bróðir þeirra Lýtings, Þorsteins torfa og Þorbjarnar í Arnarholti. Óláfur langháls var son Bjarnar reyðarsíðu. Veturliði nam Borgarfjörð og bjó þar.

Þórir lína hét maður, er nam Breiðavík og bjó þar; hans synir voru þeir Sveinungur og Gunnsteinn.

Nú hefir Kolskeggur fyrir sagt héðan frá um landnám.

79. kafli

Þorsteinn kleggi nam fyrstur Húsavík og bjó þar; hans son var Án, er Húsvíkingar eru frá komnir.

Loðmundur hinn gamli hét maður, en annar Bjólfur, fóstbróðir hans; þeir fóru til Íslands af Vörs af Þulunesi. Loðmundur var rammaukinn mjög og fjölkunnigur. Hann skaut fyrir borð öndvegissúlum sínum í hafi og kvaðst þar byggja skyldu, sem þær ræki á land. En þeir fóstbræður tóku Austfjörðu, og nam (Loðmundur) Loðmundarfjörð og bjó þar þenna vetur.

Þá frá hann til öndvegissúlna sinna fyrir sunnan land. Eftir það bar hann á skip öll föng sín, en er segl var dregið, lagðist hann niður og bað öngvan mann vera svo djarfan, að hann nefndi. En er hann hafði skamma hríð legið, varð gnýr mikill; þá sá menn, að skriða mikil hljóp á bæ þann, er Loðmundur hafði búið á.

Eftir það settist hann upp og tók til orða: «Það er álag mitt, að það skip skal aldri heilt af hafi koma, er hér siglir út.»

Hann hélt síðan suður fyrir Horn og vestur með landi allt fyrir Hjörleifshöfða og lendi nokkuru vestar; hann nam þar land, sem súlurnar höfðu komið, og á milli Hafursár og Fúlalækjar; það heitir nú Jökulsá á Sólheimasandi. Hann bjó í Loðmundarhvammi og kallaði þar Sólheima.

Þá er Loðmundur var gamall, bjó Þrasi í Skógum; hann var og fjölkunnigur.

Það var eitt sinn, að Þrasi sá um morgun vatnahlaup mikið; hann veitti vatnið með fjölkynngi austur fyrir Sólheima, en þræll Loðmundar sá, og kvað (falla) sjó norðan um landið að þeim. Loðmundur var þá blindur. Hann bað þrælinn færa sér í dælikeri það, er hann kallaði sjó.

Og er hann kom aftur, sagði Loðmundur: «Ekki þyki mér þetta sjór.» Síðan bað hann þrælinn fylgja sér til vatnsins, «og stikk stafsbroddi mínum í vatnið.»

Hringur var í stafnum, og hélt Loðmundur tveim höndum um stafinn, en beit í hringinn. Þá tóku vötnin að falla vestur aftur fyrir Skóga.

Síðan veitti hvor þeirra vötnin frá sér, þar til er þeir fundust við gljúfur nokkur. Þá sættust þeir á það, að áin skyldi þar falla, sem skemmst væri til sjóvar. Sú er nú kölluð Jökulsá og skilur landsfjórðunga.

80. kafli

Bjólfur fóstbróðir Loðmundar nam Seyðisfjörð allan og bjó þar alla ævi; hann gaf Helgu dóttur sína Áni hinum ramma, og fylgdi henni heiman öll in nyrðri strönd Seyðisfjarðar til Vestdalsár. Ísólfur hét sonur Bjólfs, er þar bjó síðan og Seyðfirðingar eru frá komnir.

Eyvindur hét maður, er út kom með Brynjólfi og færði síðan byggð sína í Mjóvafjörð og bjó þar. Hans son var Hrafn, er seldi Mjóvafjarðarland Þorkatli klöku, er (þar) bjó síðan; frá honum er Klökuætt komin.

Egill hinn rauði hét maður, er nam Norðurfjörð og bjó á Nesi út; hans son var Óláfur, er Nesmenn eru frá komnir.

Freysteinn hinn fagri hét maður; hann nam Sandvík og bjó á Barðsnesi, Viðfjörð og Hellisfjörð. Frá honum eru Sandvíkingar og Viðfirðingar og Hellisfirðingar komnir.

Þórir hinn hávi og Krumur, þeir fóru af Vörs til Íslands, og þá er þeir tóku land, nam Þórir Krossavík á milli Gerpis og Reyðarfjarðar; þaðan eru Krossvíkingar komnir.

En Krumur nam land á Hafranesi og til Þernuness og allt hið ytra, bæði Skrúðey og aðrar úteyjar og þrjú lönd öðrum megin gegnt Þernunesi; þaðan eru Krymlingar komnir.

Ævar var fyrst í Reyðarfirði, áður hann fór upp um fjall, en Brynjólfur í Eskifirði, áður hann fór upp að byggja Fljótsdal, sem áður var ritað.

Vémundur hét maður, er nam Fáskrúðsfjörð allan og bjó þar alla ævi; hans son var Ölmóður, er Ölmæðlingar eru frá komnir.

Þórhaddur hinn gamli var hofgoði í Þrándheimi á Mæri(na). Hann fýstist til Íslands og tók áður ofan hofið og hafði með sér hofsmoldina og súlurnar; en hann kom í Stöðvarfjörð og lagði Mærina-helgi á allan fjörðinn og lét öngu tortíma þar nema kvikfé heimilu. Hann bjó þar alla ævi, og eru frá honum Stöðfirðingar komnir.

81. kafli

Hjalti hét maður, er nam Kleifarlönd og allan Breiðdal þar upp frá; hans son var Kolgrímur, er margt er manna frá komið.

Herjólfur hét maður, er nam land allt út til Hvalsnesskriðna; hans son var Vopni, er Væpnlingar eru frá komnir.

Herjólfur bróðir Brynjólfs nam Heydalalönd fyrir neðan Tinnudalsá og út til Ormsár; hans son var Össur, er Breiðdælir eru frá komnir.

Skjöldólfur hét maður, er nam Streiti allt fyrir utan Gnúp og inn öðrum megin til Óss og til Skjöldólfsness hjá Fagradalsá í Breiðdali. Hans son var Háleygur, er þar bjó síðan; frá honum er Háleygjaætt komin.

Þjóðrekur hét maður; hann nam fyrst Breiðdal allan, en hann stökk braut þaðan fyrir Brynjólfi og ofan í Berufjörð og nam alla hina nyrðri strönd Berufjarðar og fyrir sunnan um Búlandsnes og inn til Rauðaskriðna öðrum megin og bjó þrjá vetur þar, er nú heitir Skáli. Síðan keypti Björn hinn hávi jarðir að honum, og eru frá honum Berufirðingar komnir.

Björn sviðinhorni hét maður, er nam Álftafjörð hinn nyrðra inn frá Rauðaskriðum og Sviðinhornadal.

Þorsteinn trumbubein hét frændi Böðvars hins hvíta og fór með honum til Íslands; hann nam land fyrir utan Leiruvog til Hvalsnesskriðna. Hans son var Kollur hinn grái, faðir Þorsteins, föður Þorgríms í Borgarhöfn, föður Steinunnar, er átti Gissur byskup.

Böðvar hinn hvíti var son Þorleifs miðlungs, Böðvarssonar snæþrimu, Þorleifssonar hvalaskúfs, Ánssonar, Arnarsonar hyrnu konungs, Þórissonar konungs, Svína-Böðvarssonar, Kaunssonar konungs, Sölgasonar konungs, Hrólfssonar úr Bergi, og Brand-Önundur frændi hans fóru af Vörs til Íslands og komu í Álftafjörð hinn syðra. Böðvar nam land inn frá Leiruvogi, dali þá alla, er þar liggja, og út öðrum megin til Múla og bjó að Hofi; hann reisti þar hof mikið.

Sonur Böðvars var Þorsteinn, er átti Þórdísi dóttur Össurar keiliselgs Hrollaugssonar. Þeirra son var Síðu-Hallur; hann átti Jóreiði Þiðrandadóttur, og er þaðan mikil ætt komin. Son þeirra var Þorsteinn, faðir Ámunda, föður Guðrúnar, móður Þórdísar, móður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona.

Brand-Önundur nam land fyrir norðan Múla, Kambsdal og Melrakkanes og inn til Hamarsár, og er margt manna frá honum komið.

Þórður skeggi son Hrapps Bjarnarsonar bunu, hann átti Vilborgu Ósvaldsdóttur og Úlfrúnar Játmundardóttur. Þórður fór til Íslands og nam land í Lóni fyrir norðan Jökulsá milli og Lónsheiðar og bjó í Bæ tíu vetur eða lengur; þá frá hann til öndvegissúlna sinna fyrir neðan heiði í Leiruvogi; þá réðst hann vestur þannig og bjó á Skeggjastöðum, sem fyrr er ritað. Hann seldi þá Lónlönd Úlfljóti, er lög flutti út hingað. Dóttir Þórðar var Helga, er Ketilbjörn hinn gamli átti að Mosfelli.

82. kafli

Þorsteinn leggur son Bjarnar blátannar fór úr Suðureyjum til Íslands og nam lönd öll fyrir norðan Horn til Jökulsár í Lóni og bjó í Böðvarsholti þrjá vetur, en seldi síðan löndin og fór aftur í Suðureyjar.

Rögnvaldur jarl á Mæri, son Eysteins glumru Ívarssonar Upplendingajarls, Hálfdanarsonar hins gamla; Rögnvaldur átti Ragnhildi, dóttur Hrólfs nefju. Þeirra son var Ívar, er féll í Suðureyjum með Haraldi konungi hinum hárfagra. Annar var Göngu-Hrólfur, er vann Norðmandi; frá honum eru Rúðujarlar komnir og Englakonungar. Þriðji var Þórir jarl þegjandi, er átti Álöfu árbót, dóttur Haralds konungs hárfagra, og var þeirra dóttir Bergljót, móðir Hákonar jarls hins ríka.

Rögnvaldur jarl átti friðlusonu þrjá; hét einn Hrollaugur, annar Einar, þriðji Hallaður; sá veltist úr jarlsdómi í Orkneyjum.

Og er Rögnvaldur jarl frá það, þá kallaði hann saman sonu sína og spurði, hver þeirra þá vildi til eyjanna. En Þórir bað hann sjá fyrir um sína för. Jarlinn kvað honum vel fara, en kvað hann þar skyldu ríki taka eftir sinn dag.

Þá gekk Hrólfur fram og bauð sig til farar. Rögnvaldur kvað honum vel hent fyrir sakir afls og hreysti, en kveðst ætla, að meiri ofsi væri í skapi hans en hann mætti þegar að löndum setjast.

Þá gekk Hrollaugur fram og spurði, ef hann vildi, að hann færi. Rögnvaldur kvað hann ekki mundu jarl verða. «Hefir þú það skap, er engi styrjöld fylgir; munu vegir þinir liggja til Íslands; muntu þar göfugur þykja á því landi og verða kynsæll, en engi eru hér forlög þín.»

Þá gekk Einar fram og mælti: «Láttu mig fara til Orkneyja; eg mun þér því heita, er þér mun best þykja, að eg mun aldri aftur koma þér í augsýn.»

Jarlinn svarar: «Vel þyki mér, að þú farir brutt, en lítils er mér von að þér, því að móðurætt þín er öll þrælborin.»

Eftir það fór Einar vestur og lagði undir sig eyjarnar, sem segir í sögu hans.

Hrollaugur fór þá til Haralds konungs og var með honum um hríð, því að þeir feðgar komu eigi skapi saman eftir þetta.

83. kafli

Hrollaugur fór til Íslands með ráði Haralds konungs og hafði með sér konu sína og sonu. Hann kom austur að Horni og skaut þar fyrir borð öndvegissúlum sínum, og bar þær á land í Hornafirði, en hann rak undan og vestur fyrir land; fékk hann þá útivist harða og vatnfátt. Þeir tóku land vestur í Leiruvogi á Nesjum; var hann þar hinn fyrsta vetur. Þá frá hann til öndugissúlna sinna og fór austur þann veg; var hann annan vetur undir Ingólfsfelli.

Síðan fór hann austur í Hornafjörð og nam land austan frá Horni til Kvíár og bjó fyrst undir Skarðsbrekku í Hornafirði, en síðan á Breiðabólstað í Fellshverfi. Þá hafði (hann) lógað þeim löndum, er norður voru frá Borgarhöfn, en hann átti til dauðadags þau lönd, er suður voru frá Heggsgerðismúla.

Hrollaugur var höfðingi mikill og hélt vingan við Harald konung, en fór aldri utan. Haraldur konungur sendi Hrollaugi sverð og ölhorn og gullhring, þann er vó fimm aura; sverð það átti síðar Kolur, son Síðu-Halls, en Kolskeggur hinn fróði hafði séð hornið.

Hrollaugur var faðir Össurar keiliselgs, er átti Gró dóttur Þórðar illuga. Dóttir þeirra var Þórdís móðir Halls á Síðu. Annar son Hrollaugs var Hróaldur, faðir Óttars hvalróar, föður Guðlaugar, móður Þorgerðar, móður Járngerðar, móður Valgerðar, móður Böðvars, föður Guðnýjar, móður Sturlusona. Önundur var hinn þriðji son Hrollaugs.

Hallur á Síðu átti Jóreiði Þiðrandadóttur. Þeirra son var Þorsteinn, faðir Magnúss, föður Einars, föður Magnúss byskups. Annar son Halls var Egill, faðir Þorgerðar, móður Jóns byskups hins helga. Þorvarður Hallsson var faðir Þórdísar, móður Jórunnar, móður Halls prests, föður Gissurar, föður Magnúss byskups. Yngvildur Hallsdóttir var móðir Þóreyjar, móður Sæmundar prests hins fróða. Þorsteinn Hallsson var faðir Gyðríðar, móður Jóreiðar, móður Ara prests hins fróða. Þorgerður Hallsdóttir var móðir Yngvildar, móður Ljóts, föður Járngerðar, móður Valgerðar, móður Böðvars, föður Guðnýjar, móður Sturlusona.

84. kafli

Ketill hét maður, er Hrollaugur seldi Hornafjarðarströnd (utan frá Horni) og inn til Hamra; hann bjó að Meðalfelli; frá honum eru Hornfirðingar komnir.

Auðun hinn rauði keypti land að Hrollaugi utan frá Hömrum og út öðrum megin til Viðborðs; hann bjó í Hofsfelli og reisti þar hof mikið; frá honum eru Hofsfellingar komnir.

Þorsteinn hinn skjálgi keypti land að Hrollaugi allt frá Viðborði suður um Mýrar og til Heinabergsár. Hans son var Vestmar, er Mýramenn eru frá komnir.

Úlfur hinn vörski keypti land að Hrollaugi suður frá Heinabergsá til Heggsgerðismúla og bjó að Skálafelli.

Þórður illugi son Eyvindar eikikróks braut skip sitt á Breiðársandi; honum gaf Hrollaugur land milli Jökulsár og Kvíár, og bjó hann undir Felli við Breiðá. Hans synir voru þeir Örn hinn sterki, er deildi við Þórdísi jarlsdóttur, systur Hrollaugs, og Eyvindur smiður. Dætur hans voru þær Gróa, er Össur átti, og Þórdís, móðir Þorbjargar, móður Þórdísar, móður Þórðar illuga, er vó Víga-Skútu.

Ásbjörn hét maður, son Heyjangurs-Bjarnar hersis úr Sogni; hann var son Helga Helgasonar, Bjarnarsonar bunu. Ásbjörn fór til Íslands og dó í hafi, en Þorgerður, kona hans, og synir þeirra komu út og námu allt Ingólfshöfðahverfi á milli Kvíár og Jökulsár, og bjó hún að Sandfelli og Guðlaugur, son þeirra Ásbjarnar, eftir hana; frá honum eru Sandfellingar komnir. Annar son þeirra var Þorgils, er Hnappfellingar eru frá komnir. Þriðji var Össur, faðir Þórðar Freysgoða, er margt manna er frá komið.

Helgi hét maður, annar son Heyjangurs-Bjarnar; hann fór til Íslands og bjó að Rauðalæk. Hans son var Hildir, er Rauðlækingar eru frá komnir.

Bárður var hinn þriðji son Heyjangurs-Bjarnar, er fyrr er getið; hann nam fyrst Bárðardal norður, en síðan fór hann suður um Vonarskarð Bárðargötu og nam Fljótshverfi allt og bjó að Gnúpum; þá var hann kallaður Gnúpa-Bárður. Hans synir voru þeir Þorsteinn og Sigmundur, þriðji Egill, fjórði Gísli, fimmti Nefsteinn, sétti Þorbjörn krumur, sjöundi Hjör, átti Þorgrímur, níundi Björn, faðir Geira að Lundum, föður Þorkels læknis, föður Geira, föður Þorkels kanoka, vinar Þorláks byskups hins helga; hann setti regúlastað í Þykkvabæ.

85. kafli

Eyvindur karpi nam land milli Almannafljóts og Geirlandsár og bjó að Fossi fyrir vestan Móðólfsgnúp. Hans synir voru þeir Móðólfur, faðir þeirra Hrólfs og Ketils og Ástríðar manvitsbrekku; annar var Önundur, faðir Þraslaugar, móður Tyrfings og Halldórs, föður Tyrfings, föður Teits.

Maður hét Ketill hinn fíflski, son Jórunnar manvitsbrekku, dóttur Ketils flatnefs; hann fór af Suðureyjum til Íslands; (hann) var kristinn; hann nam land milli Geirlandsár og Fjarðarár fyrir ofan Nýkoma.

Ketill bjó í Kirkjubæ; þar höfðu áður setið papar, og eigi máttu þar heiðnir menn búa.

Ketill var faðir Ásbjarnar, föður Þorsteins, föður Surts, föður Sighvats lögsögumanns, föður Kolbeins. Hildur hét dóttir Ásbjarnar, móðir Þóris, föður Hildar, er Skarpheðinn átti. Þorbjörg hét dóttir Ketils hins fíflska; hana átti Voli son Loðmundar hins gamla.

Böðmóður hét maður, er land nam milli Drífandi og Fjarðarár og upp til Böðmóðshorns; hann bjó í Böðmóðstungu. Hans son var Óleifur, er Óleifsborg er við kennd; hann bjó í Holti. Hans son var Vestar, faðir Helga, föður Gró, er Glæðir átti.

Eysteinn hinn digri fór af Sunnmæri til Íslands; hann nam land fyrir austan Geirlandsá til móts við Ketil hinn fíflska og bjó í Geirlandi. Hans son var Þorsteinn frá Keldugnúpi.

Eysteinn son Hrana Hildissonar parraks fór úr Noregi til Íslands; hann kaupir lönd að Eysteini digra, þau er hann hafði numið, og kvað vera meðallönd; hann bjó að Skarði. Hans börn voru þau Hildir og Þorljót, er átti Þorsteinn að Keldugnúpi.

Hildir vildi færa bú sitt í Kirkjubæ eftir Ketil og hugði, að þar mundi heiðinn maður mega búa. En er hann kom nær að túngarði, varð hann bráðdauður; þar liggur hann í Hildishaugi.

Vilbaldur hét maður, bróðir Áskels hnokkans; hann fór af Írlandi til Íslands og hafði skip það, er hann kallaði Kúða, og kom í Kúðafljótsós; hann nam Tunguland á milli Skaftár og Hólmsár og bjó á Búlandi. Hans börn voru þau Bjólan, faðir Þorsteins, og Ölvir muður og Bjollok, er átti Áslákur aurgoði.

Leiðólfur kappi hét maður; hann nam land fyrir austan Skaftá til Drífandi og bjó að Á fyrir austan Skaftá út frá Skál, en annað bú átti hann á Leiðólfsstöðum undir Leiðólfsfelli, og var þar þá margt byggða. Leiðólfur var faðir Þórunnar, móður Hróars Tungugoða. Hróar átti Arngunni Hámundardóttur, systur Gunnars frá Hlíðarenda. Þeirra börn voru þau Hámundur halti og Ormhildur. Vébrandur hét son Hróars og ambáttar. Hróar tók Þórunni brún, dóttur Þorgils úr Hvammi í Mýdal; Þorfinnur hét son þeirra.

Hróar bjó fyrst í Ásum; síðan tók hann Lómagnúpslönd af Eysteini, syni Þorsteins tittlings og Auðar Eyvindardóttur, systur þeirra Móðólfs og Branda. Þraslaug var dóttir Þorsteins tittlings, er átti Þórður Freysgoði.

Önundur töskubak, frændi Þorsteinsbarna, skoraði Hróari á hólm á Skaftafellsþingi og féll að fótum Hróari. Þorsteinn Upplendingur tók Þórunni brún og flutti utan. Hróar fór og utan. Þá drap hann Þröst berserk á hólmi, er nauðga vildi eiga Sigríði, konu hans, en þeir Þorsteinn sættust.

Móðólfssynir voru að vígi Hróars og Þórir mágur þeirra, Brandi frá Gnúpum og Steinólfur búi hans. Hámundur hefndi þeirra Hróars.

86. kafli

Ísólfur hét maður; hann kom út síð landnámatíðar og skoraði á Vilbald til landa eða hólmgöngu, en Vilbaldur vildi eigi berjast og fór brutt af Búlandi; hann átti þá land milli Hólmsár og Kúðafljóts. En Ísólfur fór á Búland og átti land milli Kúðafljóts og Skaftár. Hans son var Hrani á Hranastöðum, en dóttir Björg, er átti Önundur son Eyvindar karpa. Þraslaug var dóttir þeirra, er átti Þórarinn, son Ölvis í Höfða.

Hrafn hafnarlykill var víkingur mikill; hann fór til Íslands og nam land milli Hólmsár og Eyjarár og bjó í Dynskógum; hann vissi fyrir eldsuppkomu og færði bú sitt í Lágey. Hans son var Áslákur aurgoði, er Lágeyingar eru frá komnir.

Maður hét Hrólfur höggvandi; hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur; þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir. Vémundur kvað þetta, er hann var í smiðju:

Ek bar einn
af ellifu
bana orð.
Blástu meir!

Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á.

Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar.

En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.

Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, en hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðigur; síðan var hann Hafur-Björn kallaður. Það sá ófreskir menn, að landvættir allar fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar.

Hafur-Björn átti (Jórunni, stjúpdóttur Gnúps bróður síns). Þeirra son var Svertingur, er átti Húngerði, dóttur Þórodds Tungu-Oddssonar og Jófríðar Gunnarsdóttur, þeirra dóttir Þorbjörg móðir Sveinbjarnar, föður Bótólfs, föður Þórdísar, móður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona. Gnúpur Molda-Gnúpsson átti Arnbjörgu Ráðormsdóttur, sem fyrr er ritað. Iðunn var dóttir Molda-Gnúps, er átti Þjóstar á Álftanesi. Þormóður var son þeirra.

87. kafli

Eysteinn hét maður, son Þorsteins drangakarls; hann fór til Íslands af Hálogalandi og braut skip sitt, en meiddist sjálfur í viðum. Hann byggði Fagradal, en kerlingu eina rak af skipinu í Kerlingarfjörð; þar er nú Höfðársandur.

Ölvir son Eysteins nam land fyrir austan Grímsá; þar hafði engi maður þorað að nema fyrir landvættum, síðan Hjörleifur var drepinn; Ölvir bjó í Höfða. Hans son var Þórarinn í Höfða, bróðir sammæðri Halldórs Örnólfssonar, er Mörður órækja vó undir Hömrum, og Arnórs, er þeir Flosi og Kolbeinn, synir Þórðar Freysgoða, vógu á Skaftafellsþingi.

Sigmundur kleykir son Önundar bílds nam land milli Grímsár og Kerlingarár, er þá féll fyrir vestan Höfða.

Frá Sigmundi eru þrír byskupar komnir, Þorlákur og Páll og Brandur.

Björn hét maður, auðigur og ofláti mikill; hann fór til Íslands af Valdresi og nam land milli Kerlingarár og Hafursár og bjó að Reyni. Hann átti illt við Loðmund hinn gamla.

Frá Reyni-Birni er hinn helgi Þorlákur byskup kominn.

Loðmundur hinn gamli nam land milli Hafursár og Fúlalækjar, sem fyrr er ritað. Það er þá hét Fúlalækur er nú kölluð Jökulsá á Sólheimasandi, er skilur landsfjórðunga.

Loðmundur hinn gamli á Sólheimum átti sex sonu eða fleiri. Voli hét son hans, faðir Sigmundar, er átti Oddlaugu, dóttur Eyvindar hins eyverska. Sumarliði hét annar son Loðmundar, faðir Þorsteins holmunns í Mörk, föður Þóru, móður Steins, föður (Þóru, móður) Surts hins hvíta Skaftastjúps; hann var Sumarliðason. Skafti lög(sögu)maður átti Þóru síðar en Sumarliði; það segir í Ölfusingakyni. Vémundur hét hinn þriðji son Loðmundar, faðir Þorkötlu, er átti Þorsteinn vífill. Þeirra dóttir var Arnkatla, móðir Hróa og Þórdísar, er átti Steinn Brandsson. Þeirra dóttir var Þóra, er átti… Ari hét hinn fjórði, Hróaldur hét hinn fimmti, Ófeigur hét hinn sétti son Loðmundar, laungetinn; hann átti Þraslaugu, dóttur Eyvindar eyverska, systur Oddlaugar; frá þeim öllum er margt manna komið.

Nú eru rituð landnám í Austfirðingafjórðungi, eftir því sem vitrir menn og fróðir hafa sagt. Hefir í þeim fjórðungi margt stórmenni verið síðan, og þar hafa margar stórar sögur görst.

En þessir hafa þar stærstir landnámsmenn verið: Þorsteinn hvíti, Brynjólfur hinn gamli, Graut-Atli og Ketill Þiðrandasynir, Hrafnkell goði, Böðvar hinn hvíti, Hrollaugur son Rögnvalds jarls, Össur son Ásbjarnar Heyjangurs-Bjarnarsonar, er Freysgyðlingar eru frá komnir, Ketill hinn fíflski, Leiðólfur kappi.

Источник: Textinn að mestu frá Eiríki Rögnvaldssyni prófessor við Háskóla Íslands.

Текст книги взят с сайта Netútgáfan.

© Tim Stridmann