Landnámabók (Sturlubók)

Fimmti hluti

Hér hefjast upp landnám í Sunnlendingafjórðungi, er með mestum blóma er alls Íslands fyrir landskosta sakir og höfðingja þeirra, er þar hafa byggt, bæði lærðir og ólærðir.

88. kafli

Þrasi hét maður, son Þórólfs hornabrjóts; hann fór af Hörðalandi til Íslands og nam land milli Kaldaklofsár og Jökulsár; hann bjó í Skógum hinum eystrum. Hann var rammaukinn mjög og átti deilur við Loðmund hinn gamla, sem áður er ritað. Sonur Þrasa var Geirmundur, faðir Þorbjarnar, föður Brands í Skógum.

Hrafn hinn heimski hét maður, son Valgarðs Vémundarsonar orðlokars, Þórólfssonar voganefs, Hrærekssonar slöngvandbauga, Haraldssonar hilditannar Danakonungs. Hann fór úr Þrándheimi til Íslands og nam land milli Kaldaklofsár og Lambafellsár; hann bjó að Rauðafelli hinu eystra og var hið mesta göfugmenni. Hans börn voru þau Jörundur goði og Helgi bláfauskur og Freygerður.

89. kafli

Ásgeir kneif hét maður, son Óleifs hvíta Skæringssonar Þórólfssonar; móðir hans var Þórhildur dóttir Þorsteins haugabrjóts. Ásgeir fór til Íslands og nam land milli Lambafellsár og Seljalandsár og bjó þar, er nú heitir að Auðnum. Hans son var Jörundur og Þorkell, faðir Ögmundar, föður Jóns byskups hins helga. Dóttir Ásgeirs var Helga, móðir Þórunnar, móður Þorláks, föður Þórhalls, föður Þorláks byskups hins helga.

Þorgeir hinn hörski son Bárðar blönduhorns fór úr Viggju úr Þrándheimi til Íslands; hann keypti land að Ásgeiri kneif milli Lambafellsár og Írár og bjó í Holti. Fám vetrum síðar fékk hann Ásgerðar dóttur Asks hins ómálga, og voru þeirra synir Þorgrímur hinn mikli og Holta-Þórir, faðir Þorleifs kráks og Skorar-Geirs.

Ófeigur hét ágætur maður í Raumsdælafylki; hann átti Ásgerði dóttur Asks hins ómálga.

Ófeigur varð missáttur við Harald konung hárfagra og bjóst af því til Íslandsferðar. En er hann var búinn, sendi Haraldur konungur menn til hans, og var tekinn af lífi, en Ásgerður fór út með börn þeirra og með henni Þórólfur bróðir hennar laungetinn.

Ásgerður nam land milli Seljalandsmúla og Markarfljóts og Langanes allt upp til Jöldusteins og bjó norðan í Katanesi. Börn Ófeigs og Ásgerðar voru Þorgeir gollnir og Þorsteinn flöskuskegg, Þorbjörn kyrri og Álöf elliðaskjöldur, er átti Þorbergur kornamúli, þeirra börn Eysteinn og Hafþóra, er Eiður Skeggjason átti. Þorgerður var og Ófeigs dóttir, er átti Fiður Otkelsson.

Þórólfur bróðir Ásgerðar nam land að ráði hennar fyrir vestan Fljót milli Deildará tveggja og bjó í Þórólfsfelli. Hann fæddi þar Þorgeir gollni, son Ásgerðar, er þar bjó síðan. Hans son var Njáll, er inni var brenndur.

Ásbjörn Reyrketilsson og Steinfiður bróðir hans námu land fyrir ofan Krossá fyrir austan Fljót. Steinfiður bjó á Steinfinnsstöðum, og er ekki manna frá honum komið. Ásbjörn helgaði landnám sitt Þór og kallaði Þórsmörk. Hans son var Ketill hinn auðgi, er átti Þuríði Gollnisdóttur; þeirra börn voru þau Helgi og Ásgerður.

90. kafli

Ketill hængur hét ágætur maður í Naumdælafylki, son Þorkels Naumdælajarls og Hrafnhildar dóttur Ketils hængs úr Hrafnistu. Ketill bjó þá í Naumudal, er Haraldur konungur hárfagri sendi þá Hallvarð harðfara og Sigtrygg snarfara til Þórólfs Kveld-Úlfssonar, frænda Ketils. Þá dró Ketill lið saman og ætlaði að veita Þórólfi, en Haraldur konungur fór hið efra um Eldueið og fékk skip í Naumdælafylki og fór svo norður í Álöst á Sandnes og tók þar af lífi Þórólf Kveld-Úlfsson, fór þá norðan hið ytra og fann þá marga menn, er til liðs ætluðu við þá Þórólf; hnekkti konungur þeim þá. En litlu síðar fór Ketill hængur norður í Torgar og brenndi inni Hárek og Hrærek Hildiríðarsonu, er Þórólf höfðu rægðan dauðarógi; en eftir það réð Ketill til Íslandsferðar með Ingunni konu sína og sonu þeirra. Hann kom skipi sínu í Rangárós og var hinn fyrsta vetur að Hrafntóftum.

Ketill nam öll lönd á milli Þjórsár og Markarfljóts; þar námu síðan margir göfgir menn með ráði Hængs. Ketill eignaði sér einkum land milli Rangár og Hróarslækjar, allt fyrir neðan Reyðarvatn, og bjó að Hofi.

Þá er Ketill hafði fært flest föng sín til Hofs, varð Ingunn léttari og fæddi þar Hrafn, er fyrst sagði lög upp á Íslandi; því heitir þar að Hrafntóftum.

Hængur hafði (og) undir sig lönd öll fyrir austan Rangá hina eystri og Vatnsfell til lækjar þess, er fellur fyrir utan Breiðabólstað og fyrir ofan Þverá, allt nema Dufþaksholt og Mýrina; það gaf hann þeim manni, er Dufþakur hét; hann var hamrammur mjög.

Helgi hét annar son Hængs; hann átti Valdísi Jólgeirsdóttur. Þeirra dóttir var Helga, er átti Oddbjörn askasmiður; við hann er kennt Oddbjarnarleiði. Börn þeirra Oddbjarnar og Helgu voru þau Hróaldur, Kolbeinn, Kolfinna og Ásvör.

Stórólfur var hinn þriðji son Hængs. Hans börn voru þau Ormur hinn sterki og Otkell og Hrafnhildur, er átti Gunnar Baugsson; þeirra son var Hámundur faðir Gunnars að Hlíðarenda.

Vestar hét hinn fjórði son Hængs; hann átti Móeiði; þeirra dóttir var Ásný, er átti Ófeigur grettir. Þeirra börn voru þau Ásmundur skegglaus, Ásbjörn, Aldís móðir Valla-Brands og Ásvör móðir Helga hins svarta; Æsa hét ein.

Herjólfur hét hinn fimmti son Hængs, faðir Sumarliða, föður Veturliða skálds; þeir bjuggu í Sumarliðabæ; þar heitir nú undir Brekkum. Veturliða vógu þeir Þangbrandur prestur og Guðleifur Arason af Reykjahólum um níð.

Sæbjörn goði var son Hrafns Hængssonar, er átti Unni dóttur Sigmundar; þeirra son var Arngeir.

Sighvatur rauði hét maður göfugur á Hálogalandi; hann átti Rannveigu, dóttur Eyvindar lamba og Sigríðar, er átt hafði Þórólfur Kveld-Úlfsson; Rannveig var systir Finns hins skjálga.

Sighvatur fór til Íslands að fýsn sinni og nam land að ráði Hængs í hans landnámi fyrir vestan Markarfljót, Einhyrningsmörk fyrir ofan Deildará, og bjó í Bólstað, hans son Sigmundur, faðir Marðar gígju, og Sigfús í Hlíð og Lambi á Lambastöðum og Rannveig, er átti Hámundur Gunnarsson, og Þorgerður, er átti Önundur bíldur í Flóa. Annar son Sighvats var Bárekur, faðir Þórðar, föður Steina.

Jörundur goði, son Hrafns hins heimska, byggði fyrir vestan Fljót, þar er nú heitir á Svertingsstöðum; hann reisti þar hof mikið.

Bjór lá ónuminn fyrir austan Fljót milli Krossár og Jöldusteins; það land fór Jörundur eldi og lagði til hofs.

Jörundur átti… Þeirra son var Valgarður goði, faðir Marðar, og Úlfur aurgoði, er Oddaverjar eru frá komnir og Sturlungar. Margt stórmenni er frá Jörundi komið á Íslandi.

Þorkell bundinfóti nam land að ráði Hængs umhverfis Þríhyrning og bjó þar undir fjallinu; hann var hamrammur mjög. Börn Þorkels voru þau Börkur blátannarskegg, faðir Starkaðar undir Þríhyrningi, og Þórný, er átti Ormur hinn sterki, og Dagrún, móðir Bersa.

91. kafli

Baugur hét maður, fóstbróðir Hængs; hann fór til Íslands og var hinn fyrsta vetur á Baugsstöðum, en annan með Hængi. Hann nam Fljótshlíð alla að ráði Hængs ofan um Breiðabólstað til móts við Hæng og bjó að Hlíðarenda; hans son var Gunnar í Gunnarsholti og Eyvindur að Eyvindarmúla, þriðji Steinn hinn snjalli og (Hildur dóttir), er átti Örn í Vælugerði.

Þeir Steinn hinn snjalli og Sigmundur, son Sighvats rauða, áttu för utan af Eyrum og komu til Sandhólaferju allir senn, Sigmundur og förunautar Steins, og vildu hvorir fyrr fara yfir ána. Þeir Sigmundur stökuðu húskörlum Steins og ráku þá frá skipinu; þá kom Steinn að og hjó þegar Sigmund banahögg. Um víg þetta urðu Baugssynir allir sekir úr Hlíðinni; fór Gunnar í Gunnarsholt, en Eyvindur undir Fjöll austur í Eyvindarhóla, en Snjallsteinn í Snjallsteinshöfða.

Það líkaði illa (Þorgerði) dóttur Sigmundar, er föðurbani hennar fór út þannig, og eggjaði Önund bónda sinn að hefna Sigmundar. Önundur fór með þrjá tigu manna í Snjallshöfða og bar þar eld að húsum. Snjallsteinn gekk út og gafst upp; þeir leiddu hann í höfðann og vógu hann þar.

Eftir víg það mælti Gunnar; hann átti þá Hrafnhildi Stórólfsdóttur, systur Orms hins sterka; Hámundur var son þeirra. Þeir voru báðir afreksmenn að afli og vænleik. Önundur varð sekur um víg Snjallsteins; hann sat með fjölmenni tvo vetur. Örn í Vælugerði, mágur Gunnars, hélt njósnum til Önundar.

Eftir jól hinn þriðja vetur fór Gunnar með þrjá tigu manna að Önundi að tilvísan Arnar. Önundur fór frá leik með tólfta mann til hrossa sinna. Þeir fundust í Orustudal; þar féll Önundur með fjórða mann, en einn af Gunnari. Gunnar var í blárri kápu; hann reið upp eftir Holtum til Þjórsár, og skammt frá ánni féll hann af baki og var þá örendur af sárum.

Þá er synir Önundar óxu upp, Sigmundur kleykir og Eilífur auðgi, sóttu þeir Mörð gígju að eftirmáli, frænda sinn. Mörður kvað það óhægt um sekjan mann; þeir kváðu sér við Örn verst líka, er þeim sat næst. Mörður lagði það til, að þeir skyldu fá Erni skóggangssök og koma honum svo úr héraði.

Önundarsynir tóku beitingamál á hendur Erni, og varð hann svo sekur, að Örn skyldi falla óheilagur fyrir Önundarsonum hvervetna nema í Vælugerði og í örskotshelgi við landeign sína. Önundarsynir sátu jafnan um hann, en hann gætti sín vel. Svo fengu þeir færi á Erni, að hann rak naut úr landi sínu; þá vógu þeir Örn, og hugðu menn, að hann mundi óheilagur fallið hafa.

Þorleifur gneisti, bróðir Arnar, keypti að Þormóði Þjóstarssyni, að hann helgaði Örn; Þormóður var þá kominn út á Eyrum. Hann skaut þá skot svo langt af handboga, að fall Arnar varð í örskotshelgi hans. Þá mæltu þeir Hámundur Gunnarsson og Þorleifur eftir Örn, en Mörður veitti þeim bræðrum; þeir guldu eigi fé, en skyldu vera héraðssekir úr Flóa.

Þá bað Mörður til handa Eilífi Þorkötlu Ketilbjarnardóttur, og fylgdu henni heiman Höfðalönd, og bjó Eilífur þar; en til handa Sigmundi bað hann Arngunnar, dóttur Þorsteins drangakarls, og réðst hann austur í sveit; þá gifti Mörður og Rannveigu systur sína Hámundi Gunnarssyni, og réðst hann þá aftur í Hlíðina, og var þeirra son Gunnar að Hlíðarenda.

Hildir og Hallgeir og Ljót, systir þeirra, voru kynjuð af Vesturlöndum; þau fóru til Íslands og námu land milli Fljóts og Rangár, Eyjasveit alla upp til Þverár. Hildir bjó í Hildisey; hann var faðir Móeiðar. Hallgeir bjó í Hallgeirsey; hans dóttir var Mábil, er átti Helgi Hængsson, en Ljót bjó á Ljótarstöðum.

92. kafli

Dufþakur í Dufþaksholti var leysingi þeirra bræðra; hann var hamrammur mjög, og svo var Stórólfur Hængsson; hann bjó þá að Hvoli. Þá skildi á um beitingar.

Það sá ófreskur maður um kveld nær dagsetri, að björn mikill gekk frá Hvoli, en griðungur frá Dufþaksholti, og fundust á Stórólfsvelli og gengust að reiðir, og mátti björninn meira. Um morguninn var það séð, að dalur var þar eftir, er þeir höfðu fundist, sem um væri snúið jörðinni, og heitir þar nú Öldugróf. Báðir voru þeir meiddir.

Ormur ánauðgi, son Bárðar Bárekssonar, bróðir Hallgríms sviðbálka, byggði fyrst Vestmannaeyjar, en áður var þar veiðistöð og lítil veturseta eða engi. Hans dóttir var Halldóra, er átti Eilífur Valla-Brandsson.

Eilífur og Björn bræður fóru úr Sogni til Íslands. Eilífur nam Odda hinn litla upp til Reyðarvatns og Víkingslækjar; hann átti Helgu dóttur Önundar bílds. Þeirra son var Eilífur ungi, er átti Oddnýju, dóttur Odds hins mjóva; þeirra dóttir var Þuríður, er átti Þorgeir í Odda; þeirra dóttir var Helga.

Björn bjó í Svínhaga og nam land upp með Rangá; hans börn voru þau Þorsteinn, faðir Gríms holtaskalla, og Hallveig, móðir Þórunnar, móður Guðrúnar, móður Sæmundar, föður Brands byskups.

Kolli hét maður, son Óttars ballar; hann nam land fyrir austan Reyðarvatn og Stotalæk fyrir vestan Rangá og Tröllaskóg og bjó að Sandgili.

Hans son var Egill, er sat fyrir Gunnari Hámundarsyni (hjá Knafahólum) og féll þar sjálfur og austmenn tveir með honum og Ari húskarl hans, en Hjörtur bróðir Gunnars af hans liði.

Hrólfur rauðskeggur hét maður; hann nam Hólmslönd öll milli Fiskár og Rangár og bjó að Fossi. Hans börn voru þau Þorsteinn rauðnefur, er þar bjó síðan, og Þóra móðir Þorkels mána, og Ása, móðir Þórunnar, móður Þorgeirs að Ljósavatni, og Helga, móðir Odds frá Mjósyndi. Dóttir Odds var Ásborg, er átti Þorsteinn goði, faðir Bjarna hins spaka, föður Skeggja, föður Markúss lögsögumanns.

Þorsteinn rauðnefur var blótmaður mikill; hann blótaði fossinn, og skyldi bera leifar allar á fossinn. Hann var og framsýnn mjög.

Þorsteinn lét telja sauði sína úr rétt tuttugu hundruð, en þá hljóp alla réttina þaðan af. Því var sauðurinn svo margur, að hann sá á haustum, hverir feigir voru, og lét þá skera.

En hið síðasta haust, er hann lifði, þá mælti hann í sauðarétt: «Skeri þér nú sauði þá, er þér vilið; feigur em eg nú eða allur sauðurinn elligar, nema bæði sé.» En þá nótt, er hann andaðist, rak sauðinn allan í fossinn.

93. kafli

Úlfur gyldir hét hersir ríkur á Þelamörk; hann bjó á Fíflavöllum; hans son var Ásgrímur, er þar bjó síðan.

Haraldur konungur hárfagri sendi Þórorm frænda sinn úr Þrumu að heimta skatt af Ásgrími, en hann galt eigi. Þá sendi hann Þórorm annað sinn til höfuðs honum, og drap hann þá Ásgrím.

Þá var Þorsteinn son Ásgríms í víkingu, en Þorgeir, annar son hans, var tíu vetra. Nokkuru síðar kom Þorsteinn úr hernaði og lagði til Þrumu og brenndi Þórorm inni og hjú hans öll, en hjó búið og rænti öllu lausafé. Eftir það fór hann til Íslands og Þorgeir bróðir hans og Þórunn móðursystir þeirra; hún nam Þórunnarhálsa alla.

Þorgeir keypti Oddalönd að Hrafni Hængssyni og Strandir báðar og Vatnadal og allt milli Rangár og Hróarslækjar; hann bjó fyrst í Odda og fékk þá Þóríðar Eilífsdóttur.

Þorsteinn nam land að ráði Flosa, er numið hafði áður Rangárvöllu, fyrir ofan Víkingslæk til móts við Svínhaga-Björn (og) bjó í Skarðinu eystra.

Um hans daga kom skip út í Rangárós; þar var á sótt mikil, en menn vildu eigi hjálpa þeim. Þá fór Þorsteinn til þeirra og færði þá þangað, er nú heita Tjaldastaðir, og gerði þeim þar tjald og þjónaði þeim sjálfur, meðan þeir lifðu, en þeir dó allir. En sá, er lengst lifði, gróf niður fé mikið, og hefir það ekki fundist síðan. Af þessum atburðum varð Þorsteinn tjaldstæðingur kallaður; hans synir voru þeir Gunnar og Skeggi.

94. kafli

Flosi hét maður, son Þorbjarnar hins gaulverska; hann drap þrjá sýslumenn Haralds konungs hárfagra og fór eftir það til Íslands; hann nam land fyrir austan Rangá, alla Rangárvöllu hina eystri. Hans dóttir var Ásný, móðir Þuríðar, er Valla-Brandur átti; son Valla-Brands var Flosi, faðir Kolbeins, föður Guðrúnar, er Sæmundur fróði átti.

Ketill hinn einhendi hét maður, son Auðunar þunnkárs; hann nam Rangárvöllu alla hina ytri fyrir ofan Lækjarbotna og fyrir austan Þjórsá og bjó að Á; hann átti Ásleifu Þorgilsdóttur. Þeirra son var Auðun, faðir Brynjólfs, föður Bergþórs, föður Þorláks, föður Þórhalls, föður Þorláks byskups hins helga.

Ketill aurriði, bræðrungur Ketils einhenda, nam land hið ytra með Þjórsá og bjó á Völlum hinum ytrum. Hans son var Helgi hrogn, er átti Helgu, dóttur Hrólfs rauðskeggs. Þeirra son var Oddur mjóvi, faðir Ásborgar, er átti Þorsteinn goði, og Oddnýjar, er Eilífur ungi átti.

Ormur auðgi, son Úlfs hvassa, nam land með Rangá að ráði Ketils einhenda og bjó í Húsagarði og Áskell son hans eftir hann, en hans son reisti fyrst bæ á Völlum; frá honum eru Vallverjar komnir.

Þorsteinn lunan hét maður norrænn og farmaður mikill; honum var það spáð, að hann mundi á því landi deyja, er þá var eigi byggt. Þorsteinn fór til Íslands í elli sinni með Þorgilsi syni sínum; þeir námu hinn efra hlut Þjórsárholta og bjuggu í Lunansholti, og þar var Þorsteinn heygður. Dóttir Þorgils var Ásleif, er átti Ketill einhendi. Synir þeirra voru þeir Auðun, er áður var nefndur, (og) Eilífur, faðir Þorgeirs, föður Skeggja, föður Hjalta í Þjórsárdal; hann var faðir Jórunnar, móður Guðrúnar, móður Einars, föður Magnúss byskups.

Gunnsteinn berserkjabani, son Bölverks blindingatrjónu drap tvo berserki, og hafði annar þeirra áður drepið Grjótgarð jarl í Sölva fyrir innan Agðanes. Gunnsteinn var síðan skotinn með öru finnskri úr skógi á skipi sínu norður í Hefni. Son Gunnsteins var Þorgeir, er átti Þórunni hina auðgu, dóttur Ketils einhenda; þeirra dóttir var Þórdís en mikla.

95. kafli

Ráðormur og Jólgeir bræður komu vestan um haf til Íslands; þeir námu land milli Þjórsár og Rangár.

Ráðormur eignaðist land fyrir austan Rauðalæk og bjó í Vétleifsholti. Hans dóttir var Arnbjörg, er átti Svertingur Hrolleifsson. Þeirra börn voru þau Grímur lögsögumaður og Jórunn. Síðar átti Arnbjörgu Gnúpur Molda-Gnúpsson, og voru þeirra börn Hallsteinn á Hjalla og Rannveig, móðir Skafta lög(sögu)manns, og Geirný, móðir Skáld-Hrafns.

Jólgeir eignaðist land fyrir utan Rauðalæk og til Steinslækjar; hann bjó á Jólgeirsstöðum.

Áskell hnokkan, son Dufþaks Dufníalssonar, Kjarvalssonar Írakonungs, hann nam (land) milli Steinslækjar og Þjórsár og bjó í Áskelshöfða. Hans son var Ásmundur, faðir Ásgauts, föður Skeggja, föður Þorvalds, föður Þorlaugar, móður Þorgerðar, móður Jóns byskups hins helga.

Þorkell bjálfi, fóstbróðir Ráðorms, eignaðist lönd öll milli Rangár og Þjórsár og bjó í Háfi; hann átti Þórunni eyversku. Þeirra dóttir var Þórdís, móðir Skeggja, föður Þorvalds í Ási. Þaðan hafði Hjalti mágur hans reiðskjóta til alþingis og þeir tólf, þá er hann var út kominn með kristni, en engi treystist annar fyrir ofríki Rúnólfs Úlfssonar, er sektan hafði Hjalta um goðgá.

Nú eru ritaðir þeir menn, er lönd hafa numið í landnámi Ketils hængs.

Loftur son Orms Fróða(sonar) kom af Gaulum til Íslands ungur að aldri og nam fyrir utan Þjórsá milli Rauðár og Þjórsár og upp til Skúfslækjar og Breiðamýri hina eystri upp til Súluholts og bjó í Gaulverjabæ og Oddný móðir harms, dóttir Þorbjarnar gaulverska.

Loftur fór utan hið þriðja hvert sumar fyrir hönd þeirra Flosa beggja, móðurbróður síns, að blóta að hofi því, er Þorbjörn móðurfaðir hans hafði varðveitt. Frá Lofti er margt stórmenni komið, Þorlákur hinn helgi, Páll og Brandur.

Þorviður son Úlfars, bróðir Hildar, fór af Vörs til Íslands, en Loftur frændi hans gaf honum land á Breiðamýri, og bjó hann í Vörsabæ. Hans börn voru þau Hrafn og Hallveig, er átti Össur hinn hvíti, þeirra son Þorgrímur kampi.

Þórarinn hét maður, sonur Þorkels úr Alviðru Hallbjarnarsonar Hörðakappa; hann kom skipi sínu í Þjórsárós og hafði þjórshöfuð á stafni, og er þar áin við kennd. Þórarinn nam land fyrir ofan Skúfslæk til Rauðár með Þjórsá. Hans dóttir var Heimlaug, er Loftur gekk að eiga sextögur.

96. kafli

Haraldur gullskeggur hét konungur í Sogni; hann átti Sölvöru dóttur Hundólfs jarls, systur Atla jarls hins mjóva. Þeirra dætur voru þær Þóra, er átti Hálfdan svarti Upplendingakonungur, og Þuríður, er átti Ketill helluflagi. Haraldur ungi var son þeirra Hálfdanar og Þóru; honum gaf Haraldur gullskeggur nafn sitt og ríki. Haraldur konungur andaðist fyrstur þeirra, en þá Þóra, en Haraldur ungi síðast. Þá bar ríkið undir Hálfdan konung, en hann setti yfir það Atla jarl hinn mjóva. Síðan fékk Hálfdan konungur Ragnhildar, dóttur Sigurðar hjartar, og var þeirra son Haraldur hárfagri.

Þá er Haraldur konungur gekk til ríkis í Noregi og hann mægðist við Hákon jarl Grjótgarðsson, fékk hann Sygnafylki Hákoni jarli mági sínum, er Haraldur konungur fór í Vík austur. En Atli jarl vildi eigi af láta ríkinu, áður hann fyndi Harald konung. Jarlarnir þreyttu þetta með kappi og drógust að her. Þeir fundust á Fjölum í Stafanessvagi og börðust; þar féll Hákon jarl, en Atli varð sár og fluttur í Atley; hann dó þar úr sárum.

Eftir það hélt Hásteinn (son hans) ríkinu, þar til er Haraldur konungur og Sigurður jarl drógu her að honum. Hásteinn stökk þá undan og brá til Íslandsferðar. Hann átti Þóru Ölvisdóttur; Ölvir og Atli voru synir þeirra.

Hásteinn skaut setstokkum fyrir borð í hafi að fornum sið; þeir komu á Stálfjöru fyrir Stokkseyri, en Hásteinn kom í Hásteinssund fyrir austan Stokkseyri og braut þar.

Hásteinn nam land milli Rauðár og Ölfusár upp til Fyllarlækjar og Breiðamýri alla upp að Holtum og bjó á Stjörnusteinum og svo Ölvir son hans eftir hann; þar heita nú Ölvisstaðir. Ölvir hafði landnám allt fyrir utan Grímsá, Stokkseyri og Ásgautsstaði, en Atli átti allt milli Grímsár og Rauðár; hann bjó í Traðarholti. Ölvir andaðist barnlaus; Atli tók eftir hann lönd og lausafé; hans leysingi var Brattur í Brattsholti og Leiðólfur á Leiðólfsstöðum.

Atli var faðir Þórðar dofna, föður Þorgils örrabeinsstjúps.

Hallsteinn hét maður, er fór úr Sogni til Íslands, mágur Hásteins; honum gaf hann ytra hlut Eyrarbakka; hann bjó á Framnesi. Hans son var Þorsteinn, faðir Arngríms, er veginn var að fauskagrefti, hans son Þorbjörn á Framnesi.

Þórir son Ása hersis Ingjaldssonar, Hróaldssonar, fór til Íslands og nam Kallnesingahrepp allan upp frá Fyllarlæk og bjó að Selfossi. Hans son var Tyrfingur, faðir Þuríðar, móður Tyrfings, föður Þorbjarnar prests og Hámundar prests í Goðdölum.

Hróðgeir hinn spaki og Oddgeir bróðir hans, er þeir Fiður hinn auðgi og Hafnar-Ormur keyptu brutt úr landnámi sínu, námu Hraungerðingahrepp, og bjó Oddgeir í Oddgeirshólum. Hans son var Þorsteinn öxnabroddur, faðir Hróðgeirs, föður Ögurs í Kambakistu. En dóttir Hróðgeirs hins spaka var Gunnvör, er átti Kolgrímur hinn gamli; þaðan eru Kvistlingar komnir.

Önundur bíldur, er fyrr var getið, nam land fyrir austan Hróarslæk og bjó í Önundarholti; frá honum er margt stórmenni komið, sem fyrr er ritað.

97. kafli

Össur hvíti hét maður, son Þorleifs úr Sogni. Össur vó víg í véum á Upplöndum, þá er hann var í brúðför með Sigurði hrísa; fyrir það varð hann landflótti til Íslands og nam fyrst öll Holtalönd milli Þjórsár og Hraunslækjar; þá var hann sautján vetra, er hann vó vígið. Hann fékk Hallveigar Þorviðardóttur. Þeirra son var Þorgrímur kampi, faðir Össurar, föður Þorbjarnar, föður Þórarins, föður Gríms Tófusonar.

Össur bjó í Kampaholti; hans leysingi var Böðvar, er bjó í Böðvarstóftum við Víðiskóg. Honum gaf Össur hlut í skóginum og skildi sér eftir hann barnlausan. Örn úr Vælugerði, er fyrr er getið, stefndi Böðvari um sauðatöku. Því handsalaði Böðvar Atla Hásteinssyni fé sitt, en hann ónýtti mál fyrir Erni. Össur andaðist, þá er Þorgrímur var ungur; þá tók Hrafn Þorviðarson við fjárvarðveislu Þorgríms.

Eftir andlát Böðvars taldi Hrafn til Víðiskógs og bannaði Atla, en Atli þóttist eiga. Þeir Atli fjórir fóru eftir viði; Leiðólfur var með honum. Smalamaður sagði Hrafni það, en hann reið eftir honum við átta mann; þeir fundust í Orustudal og börðust þar. Húskarlar Hrafns féllu tveir; hann varð sár. Einn féll af Atla, en (hann) varð sár banasárum og reið heim. Önundur bíldur skildi þá og bauð Atla til sín.

Þórður dofni, son Atla, var þá níu vetra. En þá er hann var fimmtán vetra, reið Hrafn í Einarshöfn til skips; hann var í blárri kápu og reið heim um nótt. Þórður sat einn fyrir honum hjá Haugavaði skammt frá Traðarholti og vó hann þar með spjóti. Þar er Hrafnshaugur fyrir austan götuna, en fyrir vestan Hásteinshaugur og Atlahaugur og Ölvis. Vígin féllust í faðma.

Þórður hófst af þessu; hann fékk þá Þórunnar, dóttur Ásgeirs austmannaskelfis, er drap skipshöfn austmanna í Grímsárósi fyrir rán, það er hann var ræntur austur.

Þórður hafði þá tvo vetur og tuttugu, er hann keypti skip í Knarrarsundi og vildi heimta arf sinn; þá fal hann fé mikið; því vildi Þórunn eigi fara og tók þá með löndum. Þorgils son Þórðar var þá tvævetur. Skip Þórðar hvarf.

Vetri síðar kom Þorgrímur örrabeinn til ráða með Þórunni, son Þormóðar og Þuríðar Ketilbjarnardóttur; hann fékk Þórunnar, og var þeirra son Hæringur.

Óláfur tvennumbrúni hét maður; hann fór af Lófót til Íslands; hann nam Skeið öll milli Þjórsár (og Hvítár og) til Sandlækjar; hann var hamrammur mjög. Óláfur bjó á Óláfsvöllum; hann liggur í Brúnahaugi undir Vörðufelli.

Óláfur átti Áshildi, og var þeirra son Helgi trausti og Þórir drífa, faðir Þorkels gullkárs, föður Orms, föður Helgu móður Odds Hallvarðssonar. Vaði var hinn þriðji son Óláfs, faðir Gerðar.

Þorgrímur (örrabeinn) lagði hug á Áshildi, þá er Óláfur var dauður, en Helgi vandaði um; hann sat fyrir Þorgrími við gatnamót fyrir neðan Áshildarmýri. Helgi bað hann láta af komum. Þorgrímur lést eigi hafa barna skap. Þeir börðust; þar féll Þorgrímur. Áshildur spurði, hvar Helgi hefði verið; hann kvað vísu:

Vask, þars fell til Fyllar,
fram sótti vinr dróttar,
Örrabeinn, en unnar
ítrtungur hátt sungu.
Ásmóðar gafk Óðni
arfa þróttar djarfan.
Guldum galga valdi
Gauts tafn, en ná hrafni.

Áshildur kvað hann hafa höggvið sér höfuðsbana. Helgi tók sér far í Einarshöfn.

Hæringur son Þorgríms var þá sextán vetra, er hann reið í Höfða að finna Teit Gissurarson með þriðja mann. Þeir Teitur riðu fimmtán að banna Helga far. Þeir fundust í Merkurhrauni upp frá Mörk við Helgahvol; þeir Helgi voru þrír saman, komnir af Eyrum. Þar féll Helgi og maður með honum og einn af þeim Teiti; í faðma féllust víg þau.

Sonur Helga var Sigurður hinn landverski og Skefill hinn haukdælski, faðir Helga dýrs, er barðist við Sigurð, son Ljóts löngubaks, í Öxarárhólma á alþingi. Um það orti Helgi þetta:

Band's á hægri hendi,
hlautk sár af Tý báru,
lýg ek eigi þat, leygjar,
linnvengis Bil, minni.

Hrafn var annar son Skefils, faðir Gríms, föður Ásgeirs, föður Helga.

98. kafli

Þrándur mjögsiglandi Bjarnarson, bróðir Eyvindar austmanns, er fyrr er getið, hann var í Hafursfirði mót Haraldi konungi og varð síðan landflótti og kom til Íslands síð landnámatíðar; hann nam land milli Þjórsár og Laxár og upp til Kálfár og til Sandlækjar; hann bjó í Þrándarholti. Hans dóttir var Helga, er Þormóður skafti átti.

Ölvir barnakarl hét maður ágætur í Noregi; hann var víkingur mikill. Hann lét eigi henda börn á spjótaoddum, sem þá var víkingum títt; því var hann barnakarl kallaður. Hans synir voru þeir Steinólfur, faðir Unu, er átti Þorbjörn laxakarl, og Einar, faðir Ófeigs grettis og Óleifs breiðs, föður Þormóðar skafta. Steinmóður var hinn þriðji son Ölvis barnakarls, faðir Konáls, föður Álfdísar hinnar barreysku, er Óleifur feilan átti. Son Konáls var Steinmóður faðir Halldóru, er átti Eilífur, son Ketils einhenda.

Þeir frændur, Ófeigur grettir og Þormóður skafti, fóru til Íslands og voru hinn fyrsta vetur með Þorbirni laxakarli mági sínum. En um vorið gaf hann þeim Gnúpverjahrepp, Ófeigi hinn ytra hlut milli Þverár og Kálfár, og bjó (hann) á Ófeigsstöðum hjá Steinsholti, en Þormóði gaf hann hinn eystra hlut, og bjó hann í Skaftaholti.

Dætur Þormóðar voru þær Þórvör, móðir Þórodds goða, föður Lög-Skafta, og Þórvé, móðir Þorsteins goða, föður Bjarna hins spaka. Ófeigur féll fyrir Þorbirni jarlakappa í Grettisgeil hjá Hæli.

Dóttir Ófeigs var Aldís, móðir Valla-Brands.

Þorbjörn laxakarl nam Þjórsárdal allan og Gnúpverjahrepp allan ofan til Kálfár og bjó hinn fyrsta vetur að Miðhúsum. Hann hafði þrjár vetursetur, áður hann kom í Haga; þar bjó hann til dauðadags. Hans synir voru þeir Otkell í Þjórsárdal og Þorkell trandill og Þorgils, faðir Otkötlu, móður Þorkötlu, móður Þorvalds, föður Döllu, móður Gissurar byskups.

Þorbjörn jarlakappi hét maður norrænn að kyni; hann fór úr Orkneyjum til Íslands. Hann keypti land í Hrunamannahrepp að Mávi Naddoddssyni, allt fyrir neðan Selslæk á milli Laxár og bjó að Hólum. Hans synir voru þeir Sölmundur, faðir Sviðu-Kára, og Þormóður, faðir Finnu, er átti Þórormur í Karlafirði. Þeirra dóttir var Álfgerður, móðir Gests, föður Valgerðar, móður Þorleifs beiskalda.

Bröndólfur og Már Naddoddssynir og Jórunnar, dóttur Ölvis barnakarls, komu til Íslands snemma landsbyggðar; þeir námu Hrunamannahrepp, svo vítt sem vötn deila.

Bröndólfur bjó að Berghyl. Hans synir voru þeir Þorleifur, faðir Bröndólfs, föður Þorkels skotakolls, föður Þórarins, föður Halls í Haukadal og Þorláks, föður Rúnólfs, föður Þorláks byskups.

Már bjó á Másstöðum. Hans son var Beinir, faðir Kolgrímu, móður Skeggja, föður Hjalta.

Þorbrandur, son Þorbjarnar hins óarga, og Ásbrandur son hans komu til Íslands síð landnámatíðar, og vísaði Ketilbjörn þeim til landnáms fyrir ofan múla þann, er fram gengur hjá Stakksá, og til Kaldakvíslar, og bjuggu í Haukadal.

Þeim þóttu þau lönd of lítil, er tungan eystri var þá byggð; þá jóku þeir landnám sitt og námu hinn efra hlut Hrunamannahrepps sjónhending úr Múla í Ingjaldsgnúp fyrir ofan Gyldarhaga. Börn Ásbrands voru Vébrandur og Arngerður.

Eyfröður hinn gamli nam tunguna eystri milli Kaldakvíslar og Hvítár og bjó í Tungu; með honum kom út Drumb-Oddur, er bjó á Drumb-Oddsstöðum.

99. kafli

Ketilbjörn hét maður ágætur í Naumudal; hann var Ketilsson og Æsu, dóttur Hákonar jarls Grjótgarðssonar; hann átti Helgu, dóttur Þórðar skeggja.

Ketilbjörn fór til Íslands, þá er landið var víða byggt með sjá; hann hafði skip það, er Elliði hét; hann kom í Elliðaárós fyrir neðan heiði. Hann var hinn fyrsta vetur með Þórði skeggja, mági sínum.

Um vorið fór hann upp um heiði að leita sér landskosta. Þeir höfðu náttból og gerðu sér skála; þar heitir nú Skálabrekka. En er þeir fóru þaðan, komu þeir að á þeirri, er þeir kölluðu Öxará; þeir týndu þar (í) öxi sinni. Þeir áttu dvöl undir fjallsmúla þeim, er þeir nefndu Reyðarmúla; þar lágu þeim eftir áreyðar þær, er þeir tóku í ánni.

Ketilbjörn nam Grímsnes allt upp frá Höskuldslæk og Laugardal allan og alla Byskupstungu upp til Stakksár og bjó að Mosfelli. Börn þeirra voru þau Teitur og Þormóður, Þorleifur, Ketill, Þorkatla, Oddleif, Þorgerður, Þuríður. Skæringur hét einn son Ketilbjarnar, laungetinn.

Ketilbjörn var svo auðigur að lausafé, að hann bauð sonum sínum að slá þvertré af silfri í hofið, það er þeir létu gera; þeir vildu það eigi. Þá ók hann silfrið upp á fjallið á tveimur yxnum og Haki þræll hans og Bót ambátt hans; þau fálu féið, svo að eigi finnst. Síðan drap hann Haka í Hakaskarði, en Bót í Bótarskarði.

Teitur átti Álöfu, dóttur Böðvars af Vörs Víkinga-Kárasonar. Þeirra son var Gissur hvíti, faðir Ísleifs byskups, föður Gissurar byskups. Annar son Teits var Ketilbjörn, faðir Kolls, föður Þorkels, föður Kolls Víkverjabyskups. Margt stórmenni er frá Ketilbirni komið.

Ásgeir hét maður Úlfsson; honum gaf Ketilbjörn Þorgerði dóttur sína og lét henni heiman fylgja Hlíðarlönd öll fyrir ofan Hagagarð; hann bjó í Hlíð hinni ytri. Þeirra son var Geir goði og Þorgeir faðir Bárðar að Mosfelli.

Eilífur auðgi, son Önundar bílds, fékk Þorkötlu Ketilbjarnardóttur, og fylgdu (henni) heiman Höfðalönd; þar bjuggu þau. Þeirra son var Þórir faðir Þórarins sælings.

Véþormur, son Vémundar hins gamla, var hersir ríkur; hann stökk fyrir Haraldi konungi austur á Jamtaland og ruddi þar merkur til byggðar.

Hólmfastur hét son hans, en Grímur hét systurson hans. Þeir voru í vesturvíking og drápu í Suðureyjum Ásbjörn jarl skerjablesa og tóku þar að herfangi Álöfu konu hans og Arneiði dóttur hans, og hlaut Hólmfastur hana og seldi hana í hendur föður sínum og lét vera ambátt. Grímur fékk Álöfar, dóttur Þórðar vaggagða, er jarl hafði átta.

Grímur fór til Íslands og nam Grímsnes allt upp til Svínavatns og bjó í Öndurðunesi fjóra vetur, en síðan að Búrfelli. Hans son var Þorgils, er Æsu, systur Gests, átti. Þeirra synir voru þeir Þórarinn að Búrfelli og Jörundur í Miðengi.

Hallkell, bróðir Ketilbjarnar sammæddur, kom til Íslands og var með Ketilbirni hinn fyrsta vetur. Ketilbjörn bauð að gefa honum land. Hallkatli þótti lítilmannligt að þiggja land og skoraði á Grím til landa eða hólmgöngu. Grímur gekk á hólm við Hallkel undir Hallkelshólum og féll þar, en Hallkell bjó þar síðan.

Hans synir voru þeir Otkell, er Gunnar Hámundarson vó, og Oddur að Kiðjabergi, faðir Hallbjarnar, er veginn var við Hallbjarnarvörður, og Hallkels, föður Hallvarðs, föður Þorsteins, er Einar Hjaltlendingur vó. Son Hallkels Oddssonar var Bjarni, faðir Halls, föður Orms, föður Bárðar, föður Valgerðar, móður Halldóru, er Magnús byskup Gissurarson átti.

Nú er komið að landnámi Ingólfs. En þeir menn, er nú eru taldir, hafa byggt í hans landnámi.

100. kafli

Þorgrímur bíldur, bróðir Önundar bílds, nam lönd öll fyrir ofan Þverá og bjó að Bíldsfelli. Hans leysingi var Steinröður, son Melpatrix af Írlandi; hann eignaðist öll Vatnslönd og bjó á Steinröðarstöðum.

Steinröður var manna vænstur. Hans son var Þormóður, faðir Kárs, föður Þormóðar, föður Brands, föður Þóris, er átti Helgu Jónsdóttur.

Ormur hinn gamli, son Eyvindar jarls, Arnmóðssonar jarls, Nereiðssonar jarls hins gamla; Ormur nam land fyrir austan Varmá til Þverár og um Ingólfsfell allt og bjó í Hvammi. Hans son var Darri, faðir Arnar.

Eyvindur jarl var með Kjötva auðga mót Haraldi konungi í Hafrsfirði.

Álfur hinn egski stökk fyrir Haraldi konungi af Ögðum úr Noregi; hann fór til Íslands og kom skipi sínu í ós þann, er við hann er kenndur og Álfsóss heitir; hann nam lönd öll fyrir utan Varmá og bjó að Gnúpum.

Þorgrímur Grímólfsson var bróðurson Álfs; hann fór út með honum og tók arf eftir hann, því að Álfur átti ekki barn. Sonur Þorgríms var Eyvindur, faðir Þórodds goða og Össurar, er átti Beru, dóttur Egils Skalla-Grímssonar. Móðir Þorgríms var Kormlöð, dóttir Kjarvals Írakonungs.

101. kafli

Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík, en Heggur son hans bjó að Vogi. Böðmóður, annar son hans, var faðir Þórarins, föður Súganda, föður Þorvarðar, föður Þórhildar, móður Sigurðar Þorgrímssonar.

Molda-Gnúpssynir byggðu Grindavík, sem fyrr er ritað.

Steinuður hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands og var með Ingólfi hinn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum.

Eyvindur hét maður, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hún land milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns. Hans son var Egill, faðir Þórarins, föður Sigmundar, föður Þórörnu, móður Þorbjarnar í Krýsuvík.

Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns. Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. Hans son var Egill, faðir (Össurar, föður) Þórarins, föður Óláfs, föður Sveinbjarnar, föður Ásmundar, föður Sveinbjarnar, föður Styrkárs.

102. kafli

Nú er yfir farið um landnám þau, er vér höfum heyrt, að verið hafi á Íslandi, en þessir landnámsmenn hafa göfgastir verið í Sunnlendingafjórðungi: Hrafn hinn heimski, Ketill hængur, Sighvatur rauði, Hásteinn Atlason, Ketilbjörn hinn gamli, Ingólfur, Örlygur gamli, Helgi bjóla, Kolgrímur hinn gamli, Björn gullberi, Önundur breiðskeggur.

Svo segja fróðir menn, að landið yrði albyggt á sex tigum vetra, svo að eigi hefir síðan orðið fjölbyggðra; þá lifðu enn margir landnámsmenn og synir þeirra.

Þá er landið hafði sex tigu vetra byggt verið, voru þessir höfðingjar mestir á landinu: í Sunnlendingafjórðungi Mörður gígja, Jörundur goði, Geir goði, Þorsteinn Ingólfsson, Tungu-Oddur, en í Vestfirðingafjórðungi Egill Skalla-Grímsson, Þorgrímur Kjallaksson, Þórður gellir, en norður Miðfjarðar-Skeggi, Þorsteinn Ingimundarson, Guðdælir, Hjaltasynir, Eyjólfur Valgerðarson, Áskell goði, en í Austfirðingafjórðungi Þorsteinn hvíti, Hrafnkell goði, Þorsteinn faðir Síðu-Halls, Þórður Freysgoði. Hrafn Hængsson hafði þá lögsögu.

Svo segja vitrir menn, að nokkurir landnámsmenn hafi skírðir verið, þeir er byggt hafa Ísland, flestir þeir, er komu vestan um haf. Er til þess nefndur Helgi magri og Örlygur hinn gamli, Helgi bjóla, Jörundur kristni, Auður djúpauðga, Ketill hinn fíflski og enn fleiri menn, er komu vestan um haf, og heldu þeir sumir vel kristni til dauðadags. En það gekk óvíða í ættir, því að synir þeirra sumra reistu hof og blótuðu, en land var alheiðið nær hundraði vetra.

Источник: Textinn að mestu frá Eiríki Rögnvaldssyni prófessor við Háskóla Íslands.

Текст книги взят с сайта Netútgáfan.

© Tim Stridmann