Einar H. Kvaran

Góðboð

Sálin vaggaðist meðvitundarlaus á öldum ljósvakans.

Svo þurfti Drottinn á henni að halda og snart hana með veldissprota sínum. Hún vaknaði af svefninum, er hún hafði verið í frá eilífð, og kom fram fyrir Drottin, feimin og fagnandi, eins og unglingur, sem ort hefir fyrsta kvæðið sitt.

Og Drottinn sendi hana ofan á jarðríki. Þar átti hún fyrst að verða að ofurlitlu barni og því næst sæta kjörum mannanna, unz æfiskeiðið væri á enda runnið.

Og hún lagði á stað til mannheima, gagntekin af eftirvæntingum, sæluvonum, eins og unglingur, sem leggur upp í fyrstu langferðina, eins og yngismær, sem á að fara að giftast manni, er hún ann hugástum.

Eftir nokkurn tíma kom hún aftur fram fyrir Drottin, hrædd eins og hundelt lamb, lömuð eins og vængbrotin æður.

«Drottinn minn góður,» sagði hún, «þetta þori eg ekki. Lofaðu mér heldur að sofna aftur.»

«Hvað þorirðu ekki?» spurði Drottinn.

«Eg þori ekki að leggja út í mannlífið. Það er eins og bráðófær á. Eg veit ekki, hvert það ber mig. Mér finst, eg muni drukna þar í örbirgð eða veikleika eða heimsku eða vonzku.»

«Þú skalt ekki drukna,» sagði Drottinn. «Eg gef þér einhver af lífsins æðstu gæðum.»

«Hvað gefur þú mér?» spurði sálin.

«Eg geri þig að karlmanni og gef þér konu, sem er yndi þitt og eftirlæti. Hvert orð af vörum hennar skal verða að fegurstu sönghljómum í eyrum þínum; hver hreyfing hennar skal verða yndisleg í augum þér, eins og þegar stráin svigna og vagga sér í morgunblænum; fákænska hennar skal verða að barnalegu, engilhreinu sakleysi í huga þínum. Vakandi og sofandi skal þig um hana dreyma.»

«Lofaðu mér heldur að sofna aftur,» sagði sálin. «Astin fyrnist. Eg sá það í mannheimum. Eftir nokkur ár yrði hugur minn við alt annað bundinn. Annars væri eg ekki karlmaður.»

«Þá geri eg þig að konu,» sagði Drottinn, «og gef þér þann manninn, sem hjarta þitt þráir. Ljúfasta nautn þín skal vera að gera daga hans dýrlega, vefja um hann ástríkinu, veita kærleikans lífsvatni inn í sál hans, láta sólargeislana leika sér alt í kring um hann, svo að hvergi beri skugga á.»

«Lofaðu mér heldur að sofna aftur,» sagði sálin. «Þegar hugur hans hverfur frá mér, mæni eg á eftir honum með tár í augunum og sorg í hjartanu. Annars væri eg ekki kona. Eg hefi séð það í mannheimum.»

«Vandfýsin ertu,» sagði Drottinn. «Þetta býð eg þó ekki öðrum en óskabörnum hamingjunnar. Samt ætla eg að bjóða þér það, sem enn betra er. — Eg gef þér kærleikann til allra manna. Að því einu skal þrá þín lúta, að fá gert alla menn vitra og góða. Hvern volaðan vesaling, hvern heimskan sjálfbirging, hvern miskunnarlausan mannníðing skaltu elska eins og sjálfa þig. Allar þínar hugsanir skulu vera hugsaðar fyrir aðra menn. Þú skalt gefa þeim alt, sem þú átt, auðæfi þín, föt þín, mat þinn, sálarfrið þinn.»

«Fæ eg þá líka að njóta ástríkis annarra manna?» spurði sálin.

«Nei,» sagði Drottinn. «Nú ertu að verða of heimtufrek. Eg er ekki að senda þig til himnaríkis heldur til mannheima. Þar getur ekki einu sinni guð almáttugur vakið ást á þeim mönnum, sem elska aðra. Því heitar sem þú elskar mennina, því sannfærðari verða þeir um, að þú sért annaðhvort fantur eða flón. Þeir rægja þig þá og svívirða á allar lundir, sjá ofsjónum yfir hverri spjör, sem þú hylur með nekt þína, hverju hlýlegu orði, sem mönnum verður af vangá að segja um þig, hverju ánægjubrosi, sem um varir þínar kann að leika. Krossfesti þeir þig ekki, þá er það af því, að þeir hafa ekki manndáð í sér til þess. — En alt þetta skaltu geta borið hugrökk og með ljúfu geði, af því að þú elskar mennina.»

«Lofaðu mér heldur að sofna aftur,» sagði sálin.

«Vandfýsin ertu,» sagði Drottinn. «Þetta býð eg annars engum.»

Og ásjóna miskunnseminnar glúpnaði, því að Drottinn sá, að mannssálin vill ekki það, sem mest er í heimi, þá sjaldan, er það er á boðstólum.

«Eg verð þá að bjóða önnur boð,» mælti Drottinn. «Eg gef þér vald yfir mönnunum. Hvort sem orð þín eru vit eða óvit, skulu þau hafa í sér fólginn undralogann, sem kveikir í í hugum mannanna. Hvert sem þú vilt með þá fara, skaltu komast það. Þeir skulu falla fram á ásjónur sínar fyrir þér, svo að anditin verði öll moldug. Í duftinu skulu þeir engjast sundur og saman frammi fyrir þér eins og ánamaðkar. Þegar þú lætur lemja þá fastast, skulu þeir kyssa svipur þínar með mestu áfergju. Heitasta þrá ungmennanna skal vera sú, að vera með þér, hvort sem þú ert að gera gott eða ilt. Og mæðurnar, sem vilja koma sonum sínum áfram í veröldinni, skulu ekki eiga aðra ósk innilegri en þá, að þeir fái að njóta þinnar náðarsólar, og að aldrei skulir þú láta börnin þeirra sæta andlegri né líkamlegri refsingu. Þú skalt dýrleg verða með mönnum.»

Þá fleygði sálin sér fram fyrir hásæti Drottins, skalf af fögnuði og þakklátsemi og hvarf orðalaust til mannheima með þeim hraða, sem sálirnar einar geta farið.

Drottinn horfði á eftir henni andvarpandi.

«Hún er alveg eins og allar hinar mannssálirnar,» sagði hann við sjálfan sig. «Hún ympraði ekki einu sinni á því með einu orði, til hvers henni mundi auðnast að nota valdið.»

1901

OCR: Stridmann

© Tim Stridmann