Gestur Pálsson

Hans Vöggur

Hans Vöggur hafði verið vatnskarl í Reykjavík nær því svo lengi, sem menn mundu eftir. Og jafnlengi hafði hann raulað sömu vísuna með sama vísnalaginu fyrir munni sér, þegar hann var búinn að pósta vatnið upp í föturnar sínar úr póstinum í Aðalstræti og var kominn á stað. Hann gekk raulandi upp allt strætið. Og hvar sem menn hittu Hans Vögg á ferð með föturnar sínar, raulaði hann alltaf með sama lagi þessa vísu:

Vöggur karlinn vatnar borg,
Vögg þó flestir gleyma;
enga gleði, enga sorg
á hans líf að geyma.

Það er eigi gott að vita, hvort vísan var gerð um Hans Vögg eða hún var gamall húsgangur. Hitt var víst, að hún átti ósköp vel við Hans; hann var kallaður Vöggur af því hann vaggaði dálítið út á hliðarnar, kannske reyndar til að hvíla hendurnar á víxl, undir vatnsfötunum, því hann var orðinn gamall og farinn.

Hans hafði aldrei verið fríður sýnum, jafnvel ekki í æsku sinni, og ekki fríkkaði hann með aldrinum eins og að líkindum lætur. Nú var hann kominn yfir fimmtugt, var langleitur og toginleitur, óliðlegur í vexti og orðinn lotinn í herðum, eins og flestir vatnskarlar verða, af því að líta alltaf niður fyrir sig, til þess að gá að, hvort ekki hellist úr fötunum. Og með aldrinum var göngulag hans orðið hið sama, hvort hann hélt á vatnsfötunum eða ekki; þegar hann gekk í kirkjuna á sunnudögum — en það gerði hann alltaf — þá gekk hann lotinn í herðum, álútur og hélt frá sér handleggjunum, eins og hann bæri vatnsfötur í báðum höndum.

Hans hafði verið rauðhærður í æsku, en nú var hárið orðið grátt, og af því Hans var ekki vanur að greiða sér á hverjum degi, þá hékk hárið í hrokknum, rauðgráum druslum niður á ennið og niður fyrir augun. Miklum skeggvexti hafði Hans aldrei átt að fagna, enda rækti hann ekki skegg sitt mjög; vangaskegg hafði hann aldrei fengið, en á hökunni og efri vörinni héngu skeggtoppar, sem nú voru orðnir hvítir. Hans var vanur að klippa dálítið af þeim, þegar honum þóttu þeir vera orðnir of langir.

Hans gamli var einkennilegur að mörgu leyti; hann átti aldrei illt við nokkurn mann og lifði sáttur við allan heiminn, en þar með er líka allt sagt, sem hægt var að segja um sambúð hans við mennina. Hann hafði aldrei átt nokkurn vin eða trúnaðarmann, svo menn vissu, og aldrei verið við ástir kenndur.

Eiginlega tók enginn lifandi maður eftir Hans.

Vinnukonurnar í húsum þeim, sem Hans bar vatn til, skoðuðu Hans eins og nokkurs konar lægri veru, sem ekki væri orðum eyðandi við; þær köstuðu til hans matarbita eftir skipun húsmóðurinnar. Hans tók við, þakkaði fyrir og borðaði þegjandi. Húsbændurnir borguðu honum vatnsburðinn á vissum tímum. Svo var öllum hans viðskiptum við heiminn lokið — að undanteknum hestum og götustrákum.

Engum datt í hug, að vert væri að reyna til að kynnast honum, þekkja hann eða þíða burtu klakann, sem frosinn var utan um þessa vatnskarlssál, eins og föturnar hans á vetrardegi. Nei, það datt engum í hug, sízt af öllum Hans sjálfum; vaninn var orðinn eðli hans. En hefði nokkur mátt líta inn í sál hans, mundi hann að líkindum hafa komizt að raun um að hún fyrir innan klakann var orðin eins kreppt af vatnsburðinum og hendurnar hans.

En hestarnir í Reykjavík vissu það betur en allir menn, að þrátt fyrir allan vanans klaka var sálin hans Hans Vöggs ekki orðin eins köld og hendurnar. Það er sorgleg sjón að sjá útigangshestana í Reykjavík á veturna; þeir hrekjast um fjöruna eða göturnar skinhoraðir, þyrstir og athvarfslausir; enginn skiptir sér hið minnsta af þeim, og enginn veit jafnvel, hver á þá; í stormunum og byljunum híma þeir nötrandi undir húsveggjunum eða láta fyrir berast á bersvæði, hálfdauðir úr sulti og kulda.

Þessa hesta tók Hans Vöggur að sér; hann vatnaði öllum, sem hann náði í, klappaði þeim og klóraði undir eyrunum og setti upp við þá langar hrókaræður, sem enginn skildi neitt í nema hann og þeir. Af þessu varð hann svo ástsæll í þeirra hóp, að þeir stundum fylgdu honum eftir flokkum saman um göturnar. Aldrei var Hans Vöggur kátari eða ánægðari, en þegar svo bar undir. Hann raulaði þá vísuna sína nokkuð hærra en venjulegt var, vaggaði dálítið meira út á hliðarnar og var brosleitur út undir eyru.

Líkt var farið sambúð hans við götustrákana. Það gekk sú saga um Hans, að þegar hann var nýorðinn vatnskarl, hefðu götustrákarnir farið að hrekkja hann og erta, eins og hina vatnskarlana og vatnskerlingarnar. Þeir köstuðu í hann snjókúlum, helltu úr fötunum fyrir honum, og kölluðu eftir honum ýms háðsyrði.

Hans tók öllu þessu með mestu stillingu, og einu sinni, þegar ertingarnar og fúkyrðin keyrðu fram úr hófi, sagði hann við þá ofur rólega: «Þetta gerir ekkert til, blessuð börnin þurfa að leika sér». Þó undarlegt kunni að virðast, sljákkaði í strákum, og smátt og smátt hættu þeir alveg að erta Hans gamla. Og eftir ekki all-langan tíma kom þar, að það var skoðað hinn mesti ódrengskapur, að gera nokkuð á hluta hans.

Hitt kom oft fyrir, að hann væri tekinn til þess að koma sáttum eða stundarfriði á milli götustrákanna og hinna vatnskarlanna og vatnskerlinganna, og þó hann hefði enga amtmannsskipun til þessa starfa, varð honum þó meira ágengt, en flestum sáttanefndarmönnum mundi hafa orðið.

Svo bar það til einn góðan veðurdag eftir nýárið, að Hans kom ekki með vatnið. Vinnukonurnar urðu að sækja vatnið þann daginn, þó þær væru ekki viljugar á það. Engum kom til hugar að fara heim til Hans. Hann var vanur að skila sér aftur karlinn, undir eins og hann varð rólfær, þegar svo bar undir að hann dag og dag varð lasinn og gat ekki gegnt störfum sínum. Það datt kannske engum í hug, að Hans Vöggur væri meðal þeirra, sem fyrirheitið er gefið um: «Sjúkur var ég og þér vitjuðuð mín». Hans var undantekning. Það þurfti ekki að vitja um Hans, hann var vanur að skila sér.

En þegar hann kom ekki í þrjá daga, var næturvörðurinn sendur upp í kofann hjá Seli, sem Hans svaf í einsamall. Næturvörðurinn kom aftur og sagði, að Hans væri dauður.

Þessi fregn flaug um allan bæinn og það var ekki talað um annað en Hans og dauða hans. Allir fundu honum eitthvað til hóls. Hann var einstök fyrirmynd allra vatnskarla, dyggur og iðjusamur og eftir því þakklátur fyrir allt, sem honum var gott gert. Og allar ræður manna enduðu með því, að það mundi verða langt þangað til annar eins vatnskarl fengist. Konurnar í húsum þeim, sem Hans bar vatn til — og meðal þeirra voru bæði frúr og maddömur — létu olíulampa loga í kofanum hjá Hans, meðan hann stóð uppi, og ein frúin gaf sálmabók til þess að leggja á brjóstið á honum.

Þar lá Hans á börunum í kofanum sínum og um allan kofann ljómaði slík birta frá olíulampanum, að Hans mundi hafa vaknað frá dauðum af undrun, ef hann hefði mátt. Í lífinu hafði hann aldrei átt slíku ljósi að fagna. Og á brjósti hans lá sálmabókin logagyllta; lifandi hefði enginn látið hann snerta svo fallega bók. Nú var Hans orðinn hreinn og fínn — hann var dauður.

Hans lét ekki mikið eftir sig af þessa heims gæðum, og það urðu mestu vandræði með útförina. Menn fóru að tala um samskot, en úr því varð þó ekkert; enginn vildi byrja. Maddama Sigríður sagði, að það væri ætíð leiðinlegt að byrja við slík tækifæri; það væri eins og menn vildu trana sér fram með góðverk sín; hún fyrir sitt leyti sagðist helzt vilja gera góðverk sín svo, að «hin vinstri sæi ekki það, sem hin hægri gerði». Og vinkonur hennar, sem hún talaði um þetta við, sögðust hugsa alveg eins og hún í þessu efni.

Svo átti þá að grafa Hans á kostnað sveitarinnar. Menn sögðu, að það væri líka í raun og veru eðlilegast, og þar við sat.

En svo fundust peningar í kistli Hans karlsins, og þó þeir væru ekki stórfé, þá voru þeir þó nægir til þess að gera útför hans heiðarlega og sómasamlega.

Seinna trúði maddama Anna vinkonum sínum fyrir því, að hún hefði haft peninga til útfarannnar til taks, en hefði aðeins viljað láta «þá» komast í dálítil vandræði, til þess svo allt í einu að reka á þá stampinn með peningunum. Hún bætti því við, að til þess hefði aldrei komið, fyrst peningarnir hefðu fundizt hjá Hans. En vinkonur hennar sögðu hver eftir aðra, um leið og þær tæmdu þriðja kaffibollann hjá henni, að það væri náttúrlega alveg það sama, sem hún hefði gert það, og henni gat ekki betur fundizt sjálfri, en það væri nokkuð til í því í. Maddama Sigríður, sem var ein af vinkonum hennar, sagði reyndar seinna, að það væri engin tilhæfa í því, að hún hefði ætlað fé til greftrunar Hans, og af því maddama Anna frétti það daginn eftir, að maddama Sigríður hafði sagt það, þá urðu þau ummæli orsök þess, að þær drukku ekki kaffi hvor hjá annarri í hálft annað ár.

Svo var Hans þá grafinn á sinn eiginn kostnað. Jarðarförin var fjölmenn; honum fylgdu nær því allar frúr og maddömur í húsunum, sem hann hafði borið vatn til. Mörg kona viknaði, er hún minntist álúta karlsins með bognu handleggina. Og það var ekki trútt um, að tár rynnu yfir moldum hans. Og þó sú tilfinning hjartans, er vekur tárin, sé eigi ætíð svo sterk, að hún nái að hreyfa hendurnar til fjárframlaga, þá eru þó tárin ávallt talin vottur viðkvæmni og blíðu, vottur þess, að mennirnir séu í raun og veru góðir, þrátt fyrir allt, sem skrifað er og talað móti því.

Þegar kom fram á vorið, trúði frú Guðlaug einni vinkonu sinni fyrir því, að hún ætlaði sér að leggja krans á leiði Hans Vöggs, vatnskarlsins síns sáluga. Daginn eftir var það altalað um allan bæinn, að frú Guðlaug hefði lagt tvo kransa á leiði Hans Vöggs. Mönnum þótti það mjög sennilegt; það var alkunnugt, hvað hún frú Guðlaug var hjartagóð og raungóð og menn mundu nú eftir mörgum sögum um örlæti hennar og góðmennsku við fátæklinga.

En enginn fór upp í kirkjugarð, til þess að gá að, hvort nokkur krans væri kominn á leiðið hans Vöggs.

1882

© Tim Stridmann