Gestur Pálsson

Uppreistin á Brekku

Á Brekku var óbundið einveldi, eins og í Rússaveldi. og eins og stundum hefur verið í Rússlandi, var einveldið á Brekku nú í kvenlegg.

Jón bóndi var tvíkvæntur; fyrri kona hans, sem hann hafði fengið Brekkuna með og margt annað af þessa heims gæðum, hét Anna og var sextug ekkja þegar hún hóf vinnumann sinn Jón upp á veldisstól sinn til að stýra með sér Brekkubúinu. Jón varð aldrei bóndi nema að nafninu til, meðan Anna lifði; hún var eftir sem áður óbundinn einvaldur og Jón var aldrei kallaður annað en «Jón, maðurinn hennar Önnu á Brekku».

Svo var það einn góðan veðurdag, að Anna datt dauð niður og Jón sat eftir með allt búið og öll völdin.

Nú skyldu menn ætla að Jón væri ánægður, en það var langt frá því. Hann langaði til að giftast aftur, og hann hafði verið búinn að heita sér því löngu áður en Anna dó, að ef svo færi, að guð leysti hana héðan, þá skyldi hann strax giftast aftur, og þá skyldi hann fá sér konu, sem bæði væri ung og lagleg.

Þegar Anna var grafin, var fjöldi fólks við, og meðan staðið var yfir gröfinni, var Jón að renna augunum yfir hópinn og litast um eftir konuefni, en honum þótti, satt að segja, engin nógu lagleg, af þeim sem þar voru, því Jón var orðinn stórríkur maður og hafði þess vegna fulla ástæðu til að vera nokkuð vandlátur.

Svo um vorið á hvítasunnunni sá hann Sigríði, þegar hún var konfirmeruð; hún var bláfátæk, en allra fallegasta stúlka, ekki há vexti, en mjúkvaxin og limuð vel, augun dökkblá og hendur og fætur ósköp smá og falleg. Undir eins og Jón sá hana, hugsaði hann með sér, að hennar skyldi hann fá, eða engrar ella, og hins vegar hafði hún heitið sér því með sjálfri sér, að annað hvort skyldi hún eiga ríkan mann, eða giftast öldungis ekki. Hún hafði séð nóg af fátæktinni og volæðinu í uppvexti sínum, auminginn.

Svo bað Jón hennar, og það var ofboð auðsótt mál, og einum mánuði eftir að Jón hafði séð Sigríði í fyrsta skipti, giftist þau með mikilli dýrð, stórri veizlu og almennu fylliríi.

Jóni þótti ósköp vænt um ungu og fallegu konuna sína, og hún gerði honum allt til ánægju. En það fann hann fljótt, að hún vildi ráða nokkuð miklu, og það leið ekki á löngu, fyrr en Sigríður var orðin einvöld á heimilinu og Jón þorði ekkert að gera eða skipa, nema spyrja hana um það fyrst. Þetta vissu líka allir og Sigríður var kölluð «Sigríður stórráða», en Jón var mú kallaður «Jón, maðurinn hennar Sigríðar stórráðu», og því nafni hélt hann til dauðadags.

Samt var Jón með sjálfum sér hvergi nærri ánægður með það svona. Honum þótti ósköp gott í staupinu, og það var alltaf viðkvæði hans, þegar hann var fullur: «Ég er húsbóndi á mínu heimili,» og þó bæði guð og menn vissu, að hann væri það ekki, þá lét hann samt alltaf þessa þulu ganga og bætti stundum ýmsum blótsyrðum við til enn meiri áherzlu og staðfestingar.

Svo var það einu sinni, að Jón var staddur í kaupstað. Inni hjá kaupmanninum varð mönnum tilrætt um konuríki; þar sat Jón líka og var að drekka púns með hinum. Hann sagði strax, að sá maður væri bæði raggeit og aumingi, sem léti konu sína ráða nokkrum sköpuðum hlut á heimilinu. «Ég er húsbóndi á mínu heimili, fari það í helvíti,» bætti hann við, um leið og hann drakk úr púnskollunni sinni í einu. Menn hlógu mikið að orðum Jóns, og það var ekki laust við, að sumir létu á sér skilja, að þeir efuðu orð hans. Jón skildi það ofboð vel, þó hann væri orðinn kenndur, og rauk strax upp, kallaði á Svein vinnumann sinn, sem með honum var, og reið á stað heim.

Sveinn vinnumaður var laglegur unglingspiltur á heimili Jóns, og það var almennt álit, að Sveinn mundi verða eftirmaður Jóns hvað konu og bú snerti, á hverju sem menn svo hafa byggt það.

Jón reið í loftinu heim, svo Sveinn gat naumast fylgt honum. Hann barði hælunum í síður Skjóna og lét svipuna alltaf ríða á hann, ýmist að aftan eða framan, svo aumingja Skjóni fór á stökki; harðara gat hann ekki farið.

Þegar Jón kom heim, stökk hann strax inn í baðstofu, allur leirugur og forugur eftir ofsareiðina. Hann barði svipunni í borðið, kallaði á Sigríði stórráðu, konu sína, og skipaði henni að bera sér hangiket að borða.

Sigríður tók öllu með mestu stillingu, horfði á hann og spurði hann bara að, hvort hann væri vitlaus.

Þar með var það búið, og Jón fékk ekkert að borða.

En Jón var ekki rólegur, hann æddi um allan bæinn, blótaði og ragnaði, svo það var mesta mildi, að Brekka sökk ekki með öllu saman, og sagðist vera «húsbóndi á sínu heimili». Hann rak vinnumennina upp úr rúmunum, og skipaði þeim að fara út og slá, og vinnukonurnar barði hann og skipaði þeim að fara út og mjalta peninginn, en þá var komin hánótt.

Loksins tók Sveinn vinnumaður hann og lagði hann upp í rúmið hans. Meðan Sveinn var að leggja hann til, sagði hann nokkuð óglöggt: «Ég er húsbóndi á mínu —» lengra komst hann ekki, svo hraut hann.

Þegar hann vaknaði morguninn eftir, stóð honum fjarska mikill stuggur af öllum ósköpunum um kvöldið, og satt að segja leið á löngu þangað til hann þorði að opna augun.

Hann heyrði einhvern umgang og þrusk í herberginu, sem hann svaf í, svo hann opnaði augun og leit upp.

Sigríður stórráða stóð þar við fatakistu sína og var að fara í sparifötin sín.

Þegar Jón var ókenndur, var hann í raun og veru alltaf hræddur við konu sína, en aldrei meir en þegar hún var í sparifötunum sínum. Þegar hún var í þeim, var hann satt að segja alltaf á glóðum.

Jóni datt ekkert í hug, hvers vegna konan sín væri að búa sig, en það greip hann fjarskaleg hræðsla, óskiljanlegt ofboð, þegar hann sá hana steypa yfir sig nýja klæðispilsinu sínu.

Jón þorði ekkert að segja, því hann var hræddur um, að hann kynni að spilla fyrir sér með öllu þess háttar.

Loksins sagði hann þó: «Ég keypti handa þér eitt pund af rúsínum, hjartað mitt, í gær í kaupstaðnum; það er í treyjuvasanum mínum.» Í raun réttri hafði hann keypt það til að gefa vinnufólkinu í minningu þess, að hann tæki við stjórninni á heimilinu.

Honum rann kalt vatn milli skinns og hörunds, þegar hann hugsaði um uppreistar fásinnuna kvöldið áður.

«Það er gott, Jón,» sagði Sigríður ofboð stutt.

Það var alveg eins og Jóni væri gefið utan undir, svo þótti honum svarið kuldalegt.

Hann var lengi að hugsa sig um eitthvað, til að mýkja skap konu sinnar. Loksins datt honum ráð í hug:

«Ég pantaði í gær vöggu hjá honum Jóni snikkara, elskan mín.»

«Vöggu?» sagði Sigríður.

«Ég finn það ósköp vel, hjartað mitt, að ég get fallið frá á hverri stundinni, og ég var að hugsa, elskan mín, að guð mundi gefa það, að þú yrðir ekki lengi í ekkjustandinu; þess vegna pantaði ég vögguna, hjartað mitt.»

«Það er gott, Jón,» sagði Sigríður, og þá var hún búin að búa sig, og svo fór hún út.

Ekkert er eins ægilegt og það, sem maður veit ekki hvað er. Enginn maður hefur nokkru sinni beðið með öllu meiri beyg en Jón bóndi í þetta sinn. Hann hafði enga hugmynd um, hvað konan sín ætlaði að gera, en honum var það ljóst, að það hlyti að vera eitthvað hræðilegt.

Hann velti sér á eina hlið af annarri í rúminu og var að rifja upp fyrir sér ýmsar fallegar bænir, sem hann kunni.

Þegar fullar tvær klukkustundir voru liðnar, kom Sigríður aftur og síra Hannes, presturinn, með henni.

Jón vissi þá strax, hvað klukkan sló, og hann sá sinn kost vænstan þann, að gefast strax upp að fullu og öllu.

Presturinn setti honum fyrir sjónir, hvílíku ofboðs lífi hann lifði, að koma fullur heim, blóta og ragna og berja heimilisfólkið og slást upp á konuna sína — og það slíka konu.

Jón sagði ekkert orð nema lofaði bót og betrun, og sagðist allan morguninn hafa verið að biðja guð um kjark til þess að standast djöfulsins vélabrögð.

Svo kom vinnufólkið inn og fór ókvatt og óbeðið að vitna á móti Jóni. Það er gamla sagan, sem alltaf endurtekst hjá stórveldum, smáþjóðum og vinnufólki, að enginn vill vera vinur hins fallna, en allir vilja vera vinir þess, sem sigurinn ber úr býtum.

Jón þagði eins og lamb, sem til slátrunar er leitt, við öllu þessu, en þegar Sigurður sonur hans, strákhnokki á 7. ári, hljóp til prestsins og sagði:

«Pabbi var svínfullur í gær,» þá vöknaði honum um augun, aumingjanum í rúminu.

Svo fór presturinn, og Sveinn vinnumaður kom inn að tala við húsfreyju. Jón sá, að hún lagði hendina ofurhlýtt og mjúkt ofan á handlegg hans og augnaráð hennar sýndist honum hræðilega hlýlegt og ástúðlegt.

Hann gat ekki horft á þetta, og svo lét hann augun aftur og sneri sér upp í rúminu.

Svo heyrðist honum koma smellur eins og af kossi eða einhverju þess háttar, en Jón hélt niðri í sér andanum, hélt augunum lokuðum og lézt sofa eða vera dauður. Svo fóru þau út, konan og Sveinn.

Þegar hann sagði frá þessari sögu seinna — en það gerði hann aldrei nema kenndur, og þó í hálfum hljóðum — þá sagði hann ætíð: «Þá sýndi ég mest sálarþrek á ævi minni, því ég er húsbóndi á mínu heimili, fari það í helvíti.»

Jóni kom aldrei til hugar, að brjótast til valda á Brekku eftir þetta. Þegar hann var fullur, sagði hann: «Ég er húsbóndi á mínu heimili,» og þar við sat það, hann reyndi aldrei framar að verða það.

En þegar síra Hannes minntist á fyrirmyndar-heimili og fyrirmyndar-sambúð hjóna, þá nefndi hann ætíð Brekku og Brekkuhjónin; þar sagði hann að maður gæti séð sannarlega «eining andans í bandi friðarins».

© Tim Stridmann