Muggur

Sagan af Dimmalimm kóngsdóttur

Einu sinni var lítil kóngsdóttir, sem hét Dimmalimm. Hún var bæði ljúf og góð, og hún var líka þæg. Hún lék sér alltaf ein í garðinum hjá kóngshöllinni.

Í garðinum var lítil tjörn, og á tjörninni voru fjórir svanir. Dimmalimm þótti svo vænt um þá. Þeir komu líka alltaf syndandi, þegar þeir sáu hana. Hún gaf þeim líka brauð og ýmislegt annað góðgæti.

Einu sinni fekk Dimmalimm að fara út úr garðinum. Hana langaði til að sjá, hvort þar væri nokkuð öðruvísi um að litast. Jú-ú! Þar var allt öðruvísi. Næstum engin tré og engin hús, ekkert annað en grænar grundir og blá fjöll, langt-langt í burtu. Dimmalimm þótti svo fallegt þarna, að hún gekk og gekk, langa-lengi.

Loks kom hún að stóru vatni. Þá varð Dimmalimm alveg hissa, því að á vatninu sá hún svan, miklu-miklu stærri og fallegri en litlu svanina í kóngsgarðinum.

Og — hugsaðu þér — svanurinn kom syndandi til hennar, og hann horfði svo blítt á hana.

Dimmalimm þótti þegar í stað vænt um fallega svaninn.

Eftir þetta fór Dimmalimm á hverjum degi út að stóra vatninu. Svanurinn kom þá á land og settist hjá henni. Dimmalimm strauk svaninum, en hann lagði kollinn sinn í hálsakot. Það var svo inndælt.

En allt breytist í þessu lífi.

Einu sinni, þegar Dimmalimm kom hoppandi, þá sá hún hvergi svaninn sinn — hvergi nokkursstaðar.

Hún leitaði hringinn í kring um vatnið.

Loksins fann hún svaninn. En svanurinn var dáinn. Dimmalimm fór að gráta, og hún grét og grét.

Aumingja Dimmalimm.

Svo fór hún heim. En á hverju kvöldi gekk hún út að vatninu og hugsaði um svaninn, sem henni þótti svo vænt um.

En nú kemur annað til sögunnar.

Dimmalimm sat einu sinni sem oftar við vatnið og var að hugsa um svaninn sinn.

Þá stóð allt í einu lítill kóngssonur hjá henni. Hann var ljómandi fallegur, og hann hét Pétur.

“Þú mátt ekki gráta, Dimmalimm mín”, sagði hann.

“Æ, jú” sagði Dimmalimm. “Svanurinn minn er dáinn”.

“Nei, gráttu nú ekki meira”, sagði kóngssonurinn. “Eg skal segja þér sögu. Eg heiti Pétur, ég er kóngssonur og á heima hérna skammt frá. Einu sinni kom ljót kerling. Hún var norn. Hún lagði það á mig, að ég skyldi verða að svani og aldrei leysast úr þeim álögum, fyrr en ég hitti stúlku, sem væri góð og þæg, og sem þætti vænt um mig.”

“Sérðu nú, Dimmalimm mín? Þú ert góða stúlkan, sem leystir mig úr álögunum. Og nú skulum við gifta okkur”.

Þá varð Dimmalimm himinlifandi. Hún kyssti kóngssoninn. Og svo giftust þau.

Nú eru þau kóngur og drottning í ríki sínu. Þau sitja í ljómandi fallegum stólum, sem kallaðir eru hásæti. Og þau eru reglulega hamingjusöm.

En allt var þetta því að þakka, að Dimmalimm var svo góð og þæg stúlka.

Engin er eins þæg og góð
og Dimma-limma-limm,
og engin er eins hýr og rjóð
og Dimma-limma-limm.

1921

© Tim Stridmann