Nitida saga

1. kafli

Heyrið ungir menn eitt ævintýr og fagra frásögn frá hinum frægasta meykóngi er verið hefur í norðurhálfu veraldarinnar er hét Nitida hin fræga er stýrði sínu ríki meður1 heiður og sóma eftir sinn feður2 Ríkon keisara andaðan. Þessi meykóngur sat í öndvegi heimsins í Frakklandi inu3 góða og hélt Párisborg. Hún var bæði vitur og væn, ljós og rjóð í andliti þvílíkast sem en rauða rósa væri samtemprað við snjóhvíta lileam;4 augun svó skær sem karbunkulus,5 hörundið svó hvítt sem fílsbein; hár þvílíkt sem gull og féll niður á jörð um hana. Hún átti eitt höfuðgull með fjórum stöplum en upp af stöplunum var einn ari6 markaður. En upp af aranum stóð einn haukur gjör af rauðagulli, breiðandi sína vængi fram yfir hennar skæra ásjónu jungfrúnnar7 að ei brenndi hana sól.

Hún var svó búin að viti sem hinn fróðasti klerkur og hinn sterkasta borgarvegg8 mátti hún gjöra með sínu viti yfir annarra manna vit og byrgja svó úti annarra ráð og þar kunni hún tíu ráð er aðrir kunnu eitt. Hún hafði svó fagra raust að hún svæfði fugla og fiska, dýr og öll jarðleg kvikindi svó að unað þótti á að heyra. Hennar ríki stóð með friði og farsæld.

Ypolitus hét einn smiður í Frakklandi með meykónginum. Hann kunni allt að smíða af gulli og silfri, gleri og gimsteinum það sem gjörast mætti af manna höndum.

Nú er að segja af meykónginum. Hún býr nú ferð sína heiman út á Púl.9 Þar stýrði ríki sú drottning er Egidia hét. Hún hafði fóstrað meykóng í barnæsku. Hún átti son er Hléskjöldur hét. Siglir drottning nú með sínu dýru fólki fagurt byrleiði þar til er hún kemur út á Púl. Gengur frú Egidia móti meykóng og hennar son og öll þeirra slekt og veraldar mekt og heiður, gjörandi fagra veizlu í sinni hall10 um allan næstan hálfan mánuð. Einn dag veizlunnar gengur meykóngur á dagþingan við sína fósturmóður svó talandi:

„Mér er sagt að fyrir eyju þeirri er Visio heitir ráði jarl sá er Virgilius heitir. Hann er vitur og fjölkunnigur. Þessi ey liggur út undan Svíþjóð inni köldu11 út undir heimsskautið þeirra landa er menn hafa spurn af. Í þessari eyju er vatn eitt stórt en í vatninu er hólmi sá er Skógablómi heitir og svó er mér sagt að hvergi í heiminum megi finnast náttúrusteinar, epli og læknisgrös fleiri en þar. Nú vil eg halda þangað einskipa og son þinn Hléskjöldur með mér.“

Drottning Egidia taldi tormerki á ferðinni og þótti háskaleg. Meykóngur varð þó að ráða. Býst Hléskjöldur nú í ferð þeirra og sigla með heiður út af Púl fagurt byrleiði. Hef eg ei heyrt sagt frá þeirra ferð né farlengd fyrr en þau taka eyna Visio einn dag, leggjandi skipið í einn leynivóg. Ganga síðan upp um eyna þar til er þau finna vatnið. Þau sjá einn bát fljótandi, taka hann og róa út í hólminn. Þar voru margar eikur með fagri frukt og ágætum eplum.

Sem þau fram koma í miðjan hólmann sjá þau eitt steinker með fjórum hornum. Kerið var fullt af vatni. Sinn steinn var í hverju horni kersins. Meykóngur leit í steinana. Hún sá þá um allar hálfur veraldarinnar, þar með kónga og kóngasonu og hvað hver hafðist að og allar þjóðir hvers lands og margar ýmislegar skepnur og óþjóðir. Drottning gladdist nú við þessa sýn, takandi kerið og alla þessa steina, epli og læknisgrös því að hún undirstóð12 af sinni visku hverja náttúru hver bar. Skundar nú sínum veg aptur til skips síns, siglandi burt af Visio hvað þau máttu.

Nú er að segja að jarlinn verður vís hverju hann er ræntur. Má þar sjá mart skip siglandi og róandi eftir þeim. Sjá nú hvórir aðra. Meykóngur tók nú einn náttúrustein og brá yfir skipið og höfuð þeim öllum er innanborðs voru. Sá jarl þau aldri síðan. En þau meykóngur og Hléskjöldur halda fram ferðinni, léttandi ei fyrr en þau koma heim á Púl. Gengur frú Egidia móti þeim með miklum prís og fagnaði. Situr nú meykóngur þar um hríð. Síðan lætur hún búa sína ferð og skipastól heim til Frakklands, beiðandi frú Egidia að Hléskjöldur hennar son fylgdi henni að styrkja hennar ríki fyrir áhlaupum hermanna. Hennar fósturmóður13 veitir henni þetta sæmilega sem allt annað það er hún beiddi út leiðandi með fögrum fégjöfum og ágætum dýrgripum í gulli og gimsteinum og dýrum vefjum. Skilst þessi hoflýður14 með miklum kærleik. Siglir meykóngur í sitt ríki meður miklum heiður og veraldlegri mekt - verður allur landslýður henni feginn - stýrandi sínu ríki með friði og náðum.

2. kafli

Hugon er kóngur nefndur. Hann réð fyrir Miklagarði. Hann átti drottning og tvö börn. Son hans hét Ingi. Hann var allra manna sæmilegastur og best að íþróttum búinn. Hann lá í hernaði hvert sumar og aflaði sér svó fjár og frægðar, drap ránsmenn og víkinga en lét friðmenn fara í náðum. Listalín hét dóttir hans. Hún var fríð sýnum og vinsæl og hlaðin kvenlegum listum. Soldán hét kóngur, hann réð fyrir Serklandi. Hann átti þrjá sonu. Hét einn Logi, annar Vélogi, þriðji Heiðarlogi, hann var þeirra elstur. Hann hafði svart hár og skegg. Hann var hökulangur og vangasvangur, skakktenntur og skjöpulmynntur og útskeifur. Annað auga hans horfði á bast en annað á tvist. Hann var hermaður allmikill og fullur upp af göldrum og gjörningum og rammur að afli og fékk sigur í hverri orrustu. Bræður hans, Logi og Vélogi, vóru vænir og gildir menn og herjuðu öllum sumrum.

Blebarnius er kóngur nefndur. Hann réð fyrir Indialandi hinu mikla. Hann átti son er Liforinus hét. Hann var vænn að áliti, ljós og rjóður í andliti, snareygður sem valur, hrokkinhærður og fagurt hárið, herðabreiður en keikur15 á bringuna, kurteis, sterkur og stórmannlegur. Hann kunni vel sund og sæfararskot og skilmingar, tafl og rúnar og bækur að lesa og allar íþróttir er karlmann mátti prýða. Hann átti dóttur er Sýjalín hét. Hún var svó væn og listug að hún mundi forprís þótt hafa allra kvenna í veröldunni ef ei hefði þvílíkur gimsteinn hjá verið sem Nitida hin fræga. Liforinus lá í hernaði bæði vetur og sumar og aflaði sér fjár og frægðar og þótti hinn mesti garpur og kappi hvar sem hann fram kom og hafði sigur í hverri orrustu. Hann var svó mikill til kvenna að engi hafði náðir fyrir honum en engva kóngsdóttur hafði hann mánaði lengur.

Nú er að segja af Inga kóngi að hann býr sinn skrautlega skipastól, siglandi með fagran byr út af Miklagarði, léttandi ei fyrr sinni ferð en hann hlóð sínum seglum framan fyrir Párisborg. Nú sem meykóngur sá þeirra sigling og gullskotin segl þá sendir hún Hléskjöld ofan til skipa að bjóða þessum kóngi til ágætrar veizlu ef hann fer með friði. Hléskjöldur fullgjörir frúinnar erindi, gengur til skipanna, heilsandi Inga kóngi, bjóðandi honum heim til hallar með öllum sínum skara. Mátti þar sjá margan stoltan riddara í hvórum tveggja flokkinum. Meykóngur fagnar vel Inga kóngi, heiðrandi hann í orðum.

Drottning spurði Inga kóng hvert erindi hans væri utan allt af Miklagarði og í svó fjarlæg lönd. Hann segir: „Það er mitt erindi í þetta land að biðja yður mér til eiginkonu, gefandi þar í móti gull og gersemar, land og þegna“. Drottning segir: „Það viti þér, Ingi kóngur, að þér hafið engvan ríkdóm til móts við mig. Hafa og lítið lönd yðar að þýða við Frakkland ið góða og 20 kónga ríki er þar til liggja. Nenni eg og ekki að fella mig fyrir neinum kóngi nú ríkjanda16 en fullboðið er mér fyrir manna sakir en þó þurfi þér ekki þessa mála að leita oftar.“

Kóngur verður nú reiður við orð hennar og hugsar það að þau skulu ei skiljast við svó búið. Heldur hann burt af Frakklandi þegar byr gaf og herjar víða um sumarið. Það var eitt kveld að þeir lágu undir ey einni. Þeir sjá mann einn ganga ofan af eyjunni heldur mikinn og aldraðan. Kóngur spurði þenna mann að nafni. Hann kveðst Refsteinn heita. Kóngur spyr ef hann væri svó sem hann hét til. Hann segir: „Það ætla eg að mig skorti við engvan mann kukl og galdur og fjölkynngi hvað sem gjöra skal“. Kóngur mælti: „Eg vil gjöra þig fullsælan að fé og börn þín ef þú kemur mér í hendur Nitida bardagalaust“. Refsteinn segir: „Fyrir þessu er mér ekki“. Kóngur mælti: „Gakk út á skip mín með mér og fullgjör það er þú hefir heitið. Er hér gullhringur stór er eg vil gefa þér og 20 álnir rautt skarlat er þú skalt færa konu þinni“. Refsteinn þakkar nú kóngi mikilega. Býr sig og ganga á skip. Sigla nú inn beinasta byr til Frakklands því að Refsteinn gaf þeim nógan byr og hagstæðan svó að stóð á hverju reipi. Þeir koma að landi og leggja í einn leynivóg. Refsteinn gengur nú á land og kóngur með honum. Þá steypir Refsteinn yfir kóng kufli svörtum. Þeir ganga nú þar til er þeir koma til skemmu drottningar. Hún var þá á leiki með sínum leikmeyjum. Kóngur undirstendur að engi maður sér hann og gengur að meykóngi og steypir yfir hana kuflinum. Gengur með hana til herskipa. Vinda síðan segl og sigla í burt og leggja sín segl ei fyrr en í Miklagarði.

Listalín gengur í móti bróður sínum og meykónginum kærlega og öll ríkisins ráð. Er drottning nú leidd í hallina með miklum heiðri og prís. Verður nú skjótt búist við ágætri veizlu og brúðlaupi og þangað boðið öllu ríkisins ráði er dýrast var í landinu. Nú er meykóngur settur í hásæti hjá Listalín og allur kvennaskari sem frúna skyldi til sængur leiða og þær voru út undir beran himin komnar. Þá nemur meykóngur staðar og mælti: „Lítum í loftið, gætum að stjörnugangi. Má þar af marka mikla visku um örlög manna“. Og eftir svó talað bregður hún einum steini yfir höfuð sér. Þann hafði hún haft úr eynni Visio. Í þessu líður drottning upp úr höndum þeirra. Hverfur hún burt úr höndum þeirra og augsýn. Hlaupa menn nú í hallina og segja kóngi þessi tíðindi. Kóngur og öll hirðin verður mjög hrygg við þenna atburð. En næsta dag eftir kemur meykóngur heim í Franz, gangandi hlæjandi í fagra hall. Verður nú allur Frakklands her henni feginn. Fer þetta nú á hvert land hversu drottning hafði Inga kóng útleikið. Unir Ingi kóngur allilla við og hyggst aftur skulu rétta á frúinni sína smán og svívirðing.

Líður nú af veturinn og þegar er vorar leggur hann í hernað allt þetta sumar og eitthvert sinn síð um kveld leggur hann undir eitt nes, takandi stórt strandhögg. Þeir sjá mann ganga ofan af nesinu. Kóngur spyr þenna mann að nafni. Hann segist Slægrefur heita. Kóngur mælti: „Eg vildi að þú værir sem þú heitir til, eða kanntu nokkuð kukl?“. Slægrefur segir: „Ei kann eg minni fjölkynngi en Refsteinn og ei mundi meykóngur hafa hlaupið burt úr höndum þér ef eg hefði svó nær verið sem hann var“. Kóngur segir: „Ef þú kemur drottningu svó í mitt vald sem hann þá skal eg gefa þér þrjá kastala og gjöra þig jarl“. Slægrefur segir: „Eg er albúinn að fylgja þér“. Þeir ganga á skip og sigla blásanda byr hinn beinasta til Frakklands.

3. kafli

Nú er að segja af meykóngi að daglega lítur hún í sína náttúrusteina að sjá um veröldina ef víkingar kæmi og vildi stríða á hennar ríki. Sér nú hvar Ingi kóngur siglir og er kominn að Frakklandi síðla eins dags. Drottning hugsar sitt ráð og kallar til sín eina arma þýju17 er þjónaði í garðinum. Hún átti bónda og þrjú börn. Þau geymdu svína í garðinum. Drottning tekur nú ambáttina – hún hét Iversa – færir hana nú úr hverju klæði, takandi einn stein og lætur þýjuna sjá sig, í laugandi áður steininn í vatni einhverju er þar var. Hún þvó og allan hennar búk og þar með gefur hún henni mörg náttúruepli að eta, þau er hún hafði sótt í eyna. Eftir svó gjört færir hún hana í skínanda drottningarbúnað, setjandi hana upp á einn gullstól. Ambáttin bar þá svó skæra ásjónu sem meykóngur að hvóriga mátti kenna frá annarri. Eplin báru þau náttúrulíf að hún mátti ekki mæla á næsta mánuði. Drottning leit þá í annan náttúrustein og mátti þá engi sjá hana hvórt er hún sat eða stóð.

Nú er að segja að þeir Ingi kóngur eru landfastir vorðnir. Gengur hann á land upp og Slægrefur með honum hinn beinasta veg til skemmu drottningar og sem þeir inn ganga sjá þeir hvar meykóngur situr með skínandi ásjónu á gullstóli. Kóngur hleypur að og steypir yfir hana svartri sveipu og fer þegar út af skemmunni og ofan til skipa. Kóngur lætur þegar búa sæng í lyptingunni án allri dvöl því að þeir vildu nú flýta brúðlaupinu svó að meykóngur mætti engin undanbrögð hafa. Þau liggja nú bæði saman alla þessa nátt með fögrum faðmlögum. Ingi kóngur unir nú vel sínu ráði, þykist nú hefnt hafa sinnar sneypu. Vinda nú seglin og létta ei sinni ferð fyrr en þeir koma til Miklagarðs.

Frú Listalín og allur lýður gengur í móti kóngi og drottningu með allri mekt, heiður og veraldar prís. Er nú mikill fagnaður í Miklagarði í meykóngsins tilkomu. En að næsta mánuði liðnum var það einn dag að frú Listalín talar við kóng bróður sinn: „Er þér engi grunur á hverja konu þú hefur heim flutt í landið? Sýnist mér tiltæki hennar ei líkt og meykóngsins og fleiri greinir aðrar. Er mér sagt á að vér sém við brögðum að sjá. Vil eg nú forvitnast um í dag að gjöra nokkra tilraun en þú statt í nokkru leyni og heyr á“.

Kóngur gjörir nú svó. Þenna sama dag kveður frú Listalín burt af skemmunni allar frúr og hirðkonur svó talandi: „Drottning mín, hvað veldur því er þér vilið eða megið við öngvan mann tala? Eður þann beiska grát er aldri gengur af yðrum augum? Því að kóngur og allur landslýður biðja svó sitja og standa hvern mann sem yður best líki.“

Hún svarar: „Það veldur mínum gráti og þungum harmi að meykóngur hefir skilið mig við bónda minn og börn og mun eg hvórki sjá síðan“. Listalín spurði hvar bóndi hennar eða börn væri. Hún svarar og segir þá allt ið sanna og hversu farið hafði. Ingi kóngur sprettur þá fram undan tjaldinu mjög reiður og lét fletta hana hverju klæði og drottningarskrúða og fylgir þar þá öll fegurð og blómi. Kóngur unir nú stórilla við. Fer nú og flýgur á hvert land þetta gabb og svívirðing.

Látum Inga kóng nú hvílast um tíma en vendum sögunni í annan stað og segjum af sonum Soldáns kóngs, Heiðarloga og Véloga, að þeir spyrja hversu Ingi kóngur er út leikinn af meykóngi. Búa þeir óvígan her af Serklandi, skipa þeir sínum skipastól til Frakklands.

Nú er að segja af meykóngi að hún heldur ei kyrru fyrir því að hún lætur saman lesa smiðju og meistara. Fyrir þeim var Ypolitus. Hún lætur gjöra glerhimin með þeirri list að hann lék á hjólum og mátti fara inn yfir höfuðport borgarinnar og mátti þar mart herfólk á standa. Hún lét og gjöra díki ferlega djúpt fram fyrir skemmunni og leggja yfir veyka viðu en þar yfir var breitt skrúð og skarlat. Nú sem kóngssynir koma í land kallar meykóngur Hléskjöld á sinn fund og bað hann ganga til herskipa og segir honum fyrir alla hluti hverju hann skal fram fara. Hléskjöldur gengur nú til skipa og fréttir hvórt kóngar fara með friði. Heiðarlogi segir: „Ef drottning vill giptast öðrum hvórum okkrum bræðra þá er þetta land og ríki frjálst fyrir okkrum hernaði. Ella munu við18 eyða landið, brenna og bæla og þyrma öngu“.

Hléskjöldur svarar: „Eigi kennir meykóngur sig mann til að halda stríð við Serkjaher og svó ágæta kóngssonu sem þið eruð. Vil eg segja þér, Vélogi, trúnað meykóngs. Hún vill tala við sérhvórn ykkarn og prófa visku ykkra og málsnild. Vill hún að þú gangir snemma á hennar fund áður en bróðir þinn stendur upp þv íað eg veit að hún kýs þig til bónda“. Binda þeir þetta nú með sér. Að næstu nátt liðinni gengur Vélogi heim til borgarinnar með 90 manna og er þeir koma undir höfuðport borgarinnar lætur Hléskjöldur vinda fram yfir þá glerhimininn og hella yfir þá biki og brennisteini. En Hléskjöldur gengur að þeim af borginni með skotvópnum og stórum höggum. Fellur þar Vélogi og hver maður er með honum var. Er nú rudd borgin og hreinsuð af dauðum mönnum. Nú gengur Hléskjöldur ofan til herskipa og talar svó fallið til Heiðarloga: „Meykóngur biður þig koma á sinn fund því að hún vill tala við ykkur báða bræðurnar og prófa beggja ykkra vizku og er Vélogi fyrir löngu upp kominn og situr nú í höllinni og drekkur. Vildi eg ei að hann talaði við hana, veit eg að hún kýs þig en ekki hann fyrir sakir afls og hreysti að verja ríki sitt. Þætti oss mál að hún giftist svó að menn stæði ei lengur í stríði og ónáðum“. Heiðarlogi þakkar honum sinn trúnað og fyrirgöngu. Býr sig nú með xxc manna og ganga til borgarinnar í stað. En Hléskjöldur talar þá: „Nú skulu þér ganga til skemmu drottningar en eg skal vitja Véloga bróður þíns og tálma fyrir honum því að eg vil að þú talir fyrri við drottningu“. Heiðarlogi snýr fram að skemmunni og sem þeir ganga fram á klæðin brestur niður viðurinn en þeir steyptust í díkið. Í þessu þeysir Hléskjöldur óvígan her úr borginni og bera grjót í höfuð þeim og skotvópn og drepa hvern mann er Heiðarloga fylgdi. Nú býr Hléskjöldur út óvígan her Frakka af Párisborg og býður þeim til bardaga en þeir sjá ei sinn kost til varnar, höfðingjalausir við allan Frakkaher. Halda nú heim í Serkland. Fer og flýgur á hvert land frægð og mekt sú er meykóngur fékk.

4. kafli

Nú er að segja af hinum fræga kóngi Liforino er fyrr var nefndur að hann reið út á skóg einn dag að skemmta sér. Lítur hann í einu rjóðri einn stein standandi og þar nær einn dverg. Kóngsson rennir nú sínu essi á milli steinsins og dvergsins og vígir hann utan steins. Dvergur mælti: „Meiri frægð væri þér í að leika út meykóng í Franz en banna mér mitt inni eða heyrir þú ei þá frægð er fer og flýgur um allan heminn af hennar spekt og vizku?“. Kóngur segir: „Mart hef eg heyrt þar af sagt og ef þú vilt fylgja mér til Frakklands og vera mér hollur svó að með þínu kynnstri og kukli mætti eg fá meykónginn mér til eiginnar púsu19 þá skyldi eg gjöra þig fullsælan og börn þín“. Dvergur mælti: „Það mun eg upp taka að fylgja þér heldur en missa steininn því að eg veit að þú ert ágætur kóngur“. Liforinus gaf honum gullhring stóran, „og tak af hjörð minni naut og sauði, svín og geitur sem þér þarfast“. Kóngur lætur nú búa úr landi skrautlegan skipastól með dýru hoffólki, leggjandi sín segl ei fyrr en þeir komu í þær hafnir er lágu út við Párisborg. Meykóngur vissi fyrir kvómu Liforini kóngs, berandi á sig alla sína náttúrusteina. Gengur Hléskjöldur ofan til skipa, bjóðandi heim kónginum til virðulegrar veizlu eftir meykóngsins boði. Kóngur gengur nú á land með öllum sínum hoflýð. Dvergurinn talar þá til hans: „Hér er eitt gull er eg vil gefa þér, drag það á þinn fingur. Legg þína hönd með gullinu upp á berann háls meykóngs. Þá mun gullið fast við hennar ljósa líkam. Fanga hana síðan en eg skal gjöra ráð fyrir að engi eftirför sé veitt“. Kóngur gengur nú heim til hallarinnar en drottning stendur upp í móti honum og setur hann í hásæti hjá sér með góðum orðum og kærlegu vitbragði. Liforinus tekur nú sinni hægri hendi með gullinu upp á háls drottningu. Var þá föst höndin með gullinu. Kóngur grípur sinni vinstri hendi undir hennar knésbætur, springandi með frúna fram yfir borðið. Meykóngur kallar á sína menn sér til hjálpar. Hléskjöldur og allur Frakklands lýður býst til upphlaups en hann ogallir meykóngsins menn vóru fastir í sínum sætum. Liforinus gengur nú til sinna manna án allri dvöl og allur hans lýður dragandi upp sín segl, flýtandi sinni ferð. Dvergurinn gefur þeim fagran byr heim til Indialands. Nú er að segja að kóngsdóttir, Sýjalín, gengur í móti sínum bróður og meykóngi og allur Indialands her með allri mekt. Þá vóru hörpur og gígjur og allra handa strengfæri. Öll stræti eru þar þökt með skarlat og dýra vefi en kórónaðir kóngar leiddu meykóng til skemmu drottningar Sýjalín. Er nú búist við virðulegri veizlu og boðið til öllum Indialands höfðingjum.

Og það var einn dag að drottning var gengin fram undir einn lund plantaðan er stóð undir skemmunni. Þá var meykóngur allkát. Hún hafði þá í hendi þann náttúrustein er hún hafði úr eynni Visio. Hún brá þá steininum upp yfir höfuð þeim báðum. Því næst líða þær báðar í loft upp svó að þær vóru skjótt úr augsýn. Fara nú jungfrúr og allt fólk það er við var á völlunum hjá lundinum. Hlaupa inn og sögðu kónginum þenna atburð og varð hann mjög óglaður við.

Nú er það af að segja að drottningar koma heim í Páris. Tekur meykóngur Sýjalín kóngsdóttur og setur hana í hásæti hjá sér, drekkandi af einu keri báðar og skilur hvórki svefn né mat við hana. Tók hvór að unna annarri sem sinni móður.

5. kafli

Nú er að segja af Soldáni kóngi að hann fréttir lát sona sinna. Hann fyllist upp ferlegri reiði, lætur ganga herör um öll sín ríki og safnar að sér blámönnum og bannsettum hetjum og alls kyns óþjóð og illþýði. Ætlar nú að halda þessum her til Frakklands, brenna og bæla landið, nema mekóngur vili giftast honum.

Það var einn dag að þær frúnnar líta í sína náttúrusteina og þær sjá hvað Soldán kóngur hefst að. Lætur mekóngur kalla Hléskjöld svó talandi til hans: „Þú skalt láta ganga herör um allt landið og öll mín kóngaríki og stefna hverjum manni til þeim er skildi gæti valdið. Halt þessum her á móti Soldáni kóngi því að eg vil ekki hann komi í mitt ríki.“ Hléskjöldur gjörir svó og þegar herlið hans var búið heldur hann burt af ríkinu. Sigla nú þessir skipastólar hvórir móti öðrum og finnast undir ey einni er Kartagia heitir. Þar var víkingabæli mikið. Þar þurfti ekki að sökum að spyrja, taka þeir þegar að berjast er vígljóst var. Gengur Soldán kóngur, hetjur hans og blámenn í gegnum lið Franzeisa svó að ekki stóð við. Er þá ei meira eftir en hálft það er Hléskildi fylgdi. Annan dag árla hefst annar bardagi af nýju og að kveldi annars dags þá stóð ei fleira upp af hans liði en xuc manna. Halda menn upp friðskildi og bindur hver sár sinna manna. Nú gjöra menn að líta hvar mikill dreki siglir og skrautlegur og ógrynni annarra skipa. Sigla nú af hafi og halda sínum seglum öðru megin undir eynna. Fer maður af drekanum og allur herlýður gengur á land upp með fylktu liði. Hann var digur og hár svó að hans höfuð bar upp yfir allan herinn. Hann lét geisa sitt merki gullofið fram móti Soldáni kóngi en Hléskjöldur móti Loga. Tekst nú ið þriðja sinn orrosta hin harðasta. Hefja kóngar nú sitt einvígi, Liforinus og Soldán með stórum höggum og sterku stríði. Gengur þessi atgangur allt til nætur. Að síðustu þeirra viðurskipti lagði hann einum brynþvara fyrir brjóst Soldáni kóngi svó að út gekk um herðarnar. Féll hann þá dauður niður. Liforinus leitar nú að Hléskildi en hann lá þá í einum dal, sár nær til ólífis, en Logi lá dauður hjá honum. Liforinus tekur upp Hléskjöld og ber ofan til skipa. Kóngur lætur nú kanna valinn. Vóru þar gefin grið þeim er beiddi en allir aðrir vóru drepnir. Tekur Liforinus þar nú mikið herfang og verður frægur af þessi orrustu víða um lönd. Sigla nú heim til Indialands með fögrum sigri. Svó er sagt að kóngur sjálfur sat yfir og græddi Hléskjöld þar til er hann var heill. En þegar vór kom var það einn dag að kóngur gekk til sjóvar og Hléskjöldur með honum. Hann mælti þá: „Annað mun meykóngur hentilegra og hennar ríki en eg haldi þér hér lengur. Hér eru í höfn minni 10 skip er eg vil gefa þér með mönnum og herförum. Skaltu ekki héðan fara sem förumaður“. Hléskjöldur tekur nú orðlof, þakkaði kóngi sína veizlu og stórar gjafir. Siglir Hléskjöldur heim til Frakklands. Verður meykóngur allglöð við hans heimkomu. Þetta sumar heldur Liforinus kóngur í hernað og kemur sínum skipum við Smáland. Þar ríkti sú drottning er Alduria hét. Hon var móðirsystir Liforini kóngs. Drottning tók við honum báðum höndum og situr hann þar í ágætri veizlu. Einn dag talar drottning við sinn frænda: „Hvað veldur ógleði þinni? Hvórt þreyr þú á meykónginn er nú er frægust í heiminum?“ Liforinus mælti: „Þú ert kölluð vitur kona og klók. Legg til ráð að eg mætti meykóng út leika og ást hennar ná“. Drottning mælti: „Þar vilda eg allt til gefa þú næðir þínu yndi eftir þínum vilja. Nú er það mitt ráð að þú siglir þetta sumar til Frakklands og nefnist Eskilvarður, sonur kóngs af Mundia,20 og haf þar vetursetu. Eg skal gefa þér gull það er þig skal enginn maður kenna, hvórki meykóngr né þín systir. Ef þú situr þar allan þann vetur þá er undur ef þú fær ekki fang á henni“.

Nú tekur Liforinus við þessu ráði og býr til sín 40 skip. Siglir af stað og kemur til Frakklands um haustið. Meykóngur lætur nú bjóða honum til hallar og á tal við sig. Virðist henni hann vitur maður. Drottning býður Eskilvarð að bíða þar um veturinn með sitt fólk. Það þiggur Eskilvarður kóngur og kemur jafnan til drottningar því hann var listamaður á hörpuslátt og öll hljóðfæri. Hann kunni af hverju landi að segja nokkuð. Drottning þótti að honum hin mesta gleði.

Leið nú veturinn af. Að vóri býst hann til ferðar. Nokkurn dag áður en hann var albúinn talar meykóngur við hann: „Þú, Eskilvarður, hefur jafnan skemt okkur frú Sýjalín í vetur með þínum hljóðfærum og fögrum frásögum. Nú vil eg að þú gangir í dag með okkur, skulum við nú skemta þér“. Eskilvarður þiggur það gjarnan og gengur með þeim í skemmuna. Meykóngur tók upp stein og bað hann í líta. Hann sá þá yfir allt Frakkland, Provintiam, Ravenam, Spaniam, Hallitiam,21 Frísland, Flandren, Nordmandiam, Skotland, Grikkland og allar þær þjóðir þar byggja. Meykóngur mælti: „Ekki siglir Liforinus kóngur í þessar álfur hemsins, eður mun hann heima vera“. Annan dag býður drottning Eskilvarð til skemmunnar, „þú hefur jafnan skemmt oss í vetur“. Drottning bað Eskilvarð enn líta í steininn. Þá sáu þau norðurálfuna alla; Noreg, Ísland, Færeyjar, Suðureyjar, Orkneyjar, Svíþjóð, Danmörk, England, Írland og mörg lönd önnur þau er hann vissi ei skil á. Drottning mælti: „Mun Liforinus kóngur hinn frægi ekki sigla í þessi lönd?“ Eskilvarður sagði: „Hann er fjærlægur þessum löndum“. Meykóngur vindur upp enn einn stein, sjándi þá nú austurálfuna heimsins; Indialand, Palestinam, Asiam, Serkland og öll önnur lönd heimsins og jafnvel um brunabeltið, það sem ei er byggt. Drottning mælti: „Bardagar miklir eru nú í Serklandi“ og Ingi kóngur situr nú heima í Miklagarði og herjar hvergi. En hvar mun Liforinus hinn frægi vera? Eg sé hann ekki heima í Indialöndum og ei er hann í Smálöndum hjá frændkonu sinni. Nú sjást öll út höfin um lá og leynivoga, hvergi er hann þar og hvergi er hann í öllum heiminum utan hann standi hér hjá mér.” Meykóngur talar þá: „Liforinus kóngur“, segir hún, „legg af þér dularkufl þinn. Hinn fyrsta dag er þú komst kennda eg þig. Fær þú aftur gullið Aldvia því yður stendur það lítið lengur með það að fara“. Liforinus kóngur lætur nú að orðum drottningar, leggjandi af sér gullið og nafnið, takandi upp sín tignarklæði. Frú Sýjalín gengur nú að sínum bróður og verður þeirra á milli mesti fagnaðarfundur. Meykóngur setur Liforinus kóng í hásæti hjá sér. Er þar ágæta veizla. Svó er sagt að meykóngur hafi sent í allar hálfur landsins til 20 kónga er allir þjónuðu undir hennar ríki. Byrjar Liforinus kóngur nú bónorð sitt við meykóng með fagurlegum framburði og mikilli röggsemd. Styrkja hans mál allir kóngar og höfðingjar að þessi ráðahagur takist. Meykóngur svarar orðum þeirra: „Eg hefi heyrt að höfðingjum landsins leiðist stríð og ónáðir í ríkinu. Er nú og líkast að það muni fyrir liggja að fá þann kóng er yður þykir mikils háttar vera.“

Hléskjöldur mælti: „Ef þér viljið mér nokkra þjónustu lengur gefa þá vil eg að þér takið Liforinus kóng yður til herra. Skal eg og ekki önnur laun þiggja og lengur í yðar ríki vera“. Meykóngur segir: „Mikinn heiður á eg yður að launa fyrir margan mannháska og raunir er þér hafið minna vegna. Er það líkast eg taki þetta upp síðan og sé það allra höfðingja ráð og vilji veit eg ei æðri kóng ríkjandi en Liforinus kóng“. Liforinus kóngur verður við þetta allglaður. Var þetta nú saðfest og ályktað með öllu ríkisráði. Skyldi brúðkaupið vera um haustið. Meykóngur talar nú til Liforinus og annarra manna, „Eg vil ekki yðar burtferð að sinni úr minni náveru því eg meina við munum ekki lengi við kyrrt sitja mega“.

Nú er að segja af Inga kóngi að hann spyr þessi tíðindi. Verður hann reiður og kveðst öngva konu skyldi eiga utan meykóng ella liggja dauður. Lætur nú ganga herör um allt sitt ríki og safnar saman múga og margmenni. Skyldi þar koma hvör sá er skildi gæti valdið. Verður þetta ótal-lið svó að sjór þótti svartur fyrir herskipum. Heldur Ingi kóngur öllum þessum skipastól í Frakkland með ákefð og reiði því hann vildi koma áður brullaupið væri drukkið.

Nú sem Ingi kóngur var landfastur orðinn lætur hann tjalda herbúðir á landi. Liforinus kóngur ríður þegar ofan til skipa, bjóðandi Inga kóngi alla sætt og sæmd meykóngs vegna, hvað er Ingi kóngur vill ei. Hann vill ei annað en berjast. Síga nú saman fylkingar. Lætur Liforinus kóngur bera sitt merki mót Inga kóngi. Tókst nú hörð orusta með geysilegum gný og mannfalli. Gengur Ingi kóngur í gegnum Frakkaher höggvandi tvó menn í hvörju höggi. Slíkt hið sama gjörir Liforinus kóngur. Þar sem hann fer verður meiri mannföll í liði stólkóngs. Verður mikið mannfall af hvóru tveggju hernum og allir vellir vóru þaktir af dauðra manna líkum. Í þrjá daga gengur þessi aðgangur og árla hinn fjórða daginn kallar Liforinus kóngur hárri röddu til Inga kóngs: „Þetta er óviturligt bragð að berjast svó, því við látum hér þá vildustu frændur, vini og höfðingja. Er það betra ráð að við berjunst tveir. Eigi sá meykóng er hærra hlut ber af okkar viðskiptum.“ Ingi kóngur játar þessu blíðlega og hefja þeir sitt einvígi með stórum höggvum og sterkum aðgangi. Bresta hlífar hvórutveggja. Berast og sár á báða en þó fleiri á Inga kóng. Luktist svó þeirra einvígi að Ingi kóngur féll til jarðar af mæði og blóðrás því hann flakti allur sundur af sárum.

Liforinus kóngur lætur leggja Inga kóng í veglega sæng en hann leggst í aðra og taka þær nú að smyrja þeirra sár með dýrum smyrslum. Liforinus býður systur sinni að leggja góða hönd á Inga kóng, sem sín sár. Hún gjörir síns bróður boð því hún var hinn ágætasti læknir og enn kunni hún framar í þessu en meykóngur. Færðist nú gróður í sár kónga. Sér Ingi kóngur að Sýjalín er afbragð annarra kvenna um öll Norðurlönd að fráteknum meykóngi. Lítur hann skjótt ástaraugum til hennar. Hefur nú skjótt sitt bónorð við kóngsdóttur. Meykóngur og allur landslýður er fylgjandi að sá ráðahagur takist að öll ríkin fengu frið og náðir og Ingi kóngur sættist við Liforinus kóng. Kóngurinn talar þá til Inga kóngs: „Viljir þú gipta Hléskildi mínum góða vin og fóstbróður Listalín þá skulu þessi ráð takast. Stendur hann einn til arfs og ríkis útá Púli eftir móður sína Egidiam. Þar til vil eg gefa þeim þriðjung Indialands og er hann þó betra verður“. Nú gengur meykóngur og allir ríkjanna höfðingjar með þessum erindum og með þeirra bæn og fagurlega framburði fullgjörðust þessi kaup hvórutveggju. Eru nú orð send eftir frú Listalín. Kemur hún þar eftir liðinn tíma til Frakklands með dýrlegu föruneyti. Hefjast nú þessi þrjú brúðkaup í upphafi Augusti mánaðar og yfir stendur allan þann mánuð með miklum veraldarprís og blóma. Þar var fallega etið og fagurlega drukkið með alls kyns matbúnaði og dýrustu drykkjum. Þar var alls kyns skemmtun framin í burtreiðunum og hljóðfæraslætti en þar sem kóngarnir gengu var niðurbreitt pell og purpuri og heiðurleg klæði. Er og ei auðsagt með ófróðri tungu í útlegðum veraldarinnar svó mönnum verði skemmtilegt hver fögnuður vera mundi í miðjum heiminum af slíku hoffólki samankomnu. Stendur nú svó hófið í mikilli þessa heims gleði með dýrlegum tilföngum og nú með því að öll þessa heims dýrð kann skjótt að líða þá vóru brúðkaupin útdrukkin og höfðingjarnir útleiddir með fögrum fégjöfum í gulli og gimsteinum og góðum vefjum. Skildist þar hoflýður með fögrum friði og kærleika hvör við annan. Siglir nú Ingi kóngur og hans frú til Miklagarðs en Hléskjöldur og Listalín út á Púl, stýrandi þar ríki til dauðadags. Liforinus og meykóngur stýrðu Frakklandi. Áttu þau ágæt börn, son er Ríkon hét eftir sínum móðurföður er síðan stýrði Frakklandi með heiður og sóma eftir þeirra dag. Og lýkur svó þessu æfintýri af hinni frægu Nitida og Liforino kóngi.


1 meður: með, sjá BKÞ 73.

2 feður: föður, gömul þágufallsmynd, sjá BKÞ 29.

3 inu: Laus greinir er á þessum tíma ýmist hinn, inn eða enn.

4 lileam: lilja (þf.)

5 karbunkulus: karbunkull, ákveðinn eðalsteinn, þar sem þetta orð kemur fyrir í Biblíunni er átt við rautt granat

6 ari: örn

7 jungfrúnnar: Eignarfall af frú er á þessum tíma frú(i)nnar, sjá BKÞ 26.

8 hinn sterkasta borgarvegg: Handritið hefur þessi orð í nefnifalli en það gengur varla upp.

9 Púll: Puglia, hællinn á ítalska stígvélinu.

10 hall: höll, sjá BKÞ 20.

11 Svíþjóð in kalda: Garðaríki, Skýþía eða Austur-Evrópa almennt.

12 undirstanda: skilja, sbr. enska orðið

13 fósturmóður: Þetta er hér nefnifallsmynd, sjá BKÞ 29.

14 hoflýður: hirð, tigið fólk

15 keikur: fattur, sveigður aftur

16 ríkjanda: ríkjandi, sjá BKÞ 36.

17 þír eða þý: ambátt

18 við: við tveir, á þessum tíma er enn greint milli tvítölu og fleirtölu, sjá BKÞ 97.

19 púsa: unnusta

20 Mundia: Alpasvæðið

21 Hallitiam: óljóst, e.t.v. er átt við Helvetíu (Sviss)

Источник: Haukur Þorgeirsson

© Tim Stridmann