Það er upphaf einnar lítillar sögu, þeirri er skrifuð fannst á steinveggnum í Kolni, að Knútur hefir konungur heitið, sá er réð fyrir Sjólöndum. Hann var ágætur konungur að vænleik og mannfjölda, heiðri og höfðingskap, hreysti og harðdrægni og að öllum þeim höfðingskap, sem fríða mátti einn heiðarlegan herra, og hniginn nokkuð í aldur þann tíma, er þessi ævintýr byrjast.
Hann átti ágæta drottningu, dóttur konungsins af Flæmingjalandi, og átti við henni eina dóttur barna, hver er Signý hét. Hún var báði vitur og ráðvönd, fögur og fríð, kvint og kurteis, stolt og stillt vel, blíð og lítillát. Hún kunni og allar þær listir, sem kvenmanni teil heyrði, svo að það var alsagt bæði í fornum sögum og nýjum, að engi kvenmaður hefir fegri fæðzt í norðurhálfunni heimsins og betri að sér um alla hluta og vel flesta mennt. Ágæt skemma var henni reist með miklum hagleik og fékostnaði. Voru þar margar vænar meyjar henni til þjónustu fengnar.
Það var vani Knúts konungs að leggja í hernað hvert sumar og afla sér bæði fjár og frægðar, en sitja heima á vetrum með mikilli rausn og fjölmenni. Bar enn og svo til eitt sumar, að Knútur konungur hélt í hernað með fjórtán skip og dreka hið fimtánda. Fór hann þá enn sem oftar vel í hernaði sínum.
Ásmundur er konungur nefndur; hann réð fyrir Húnalandi, ungur og ókvæntur, ör og ágætur, vitur og vopndjarfur, ríkur og ráðvandur, frækn um allt og fullhugi hinn mesti. Hann hélt mikla hirð og merkilega.
Ólafur hét sá maður, er næstur gekk konunginum; hann kallaði Ásmundur skósveinn sinn; hann var hraustur maður og harður til vopns, traustur og trúlyndur, hægur og hversdagslega gæfur, dyggur og drenglundaður, ör og einarður og hollur í öllu sínum höfðingja.
Það var einn tíma, að Ásmundur konungur sat við drykkju og var allkátur, að hirðmenn töluðu um, að það skorti Ásmund konung mjög á sína sæmd, að hann hafði eigi fengið þá drottningu, er honum sómdi.
Konungur spurði, hvar þeir sæi honum þá konu, að hans sómi yxi við.
Þá varð öllum staður á nema Ólafi einum. Hann mælti þá:
‘Veit eg þá konu, að þinn heiður vex við, ef þú fær hana, en þverr í öngan stað.’
‘Hver er sú?’ sagði Ásmundur.
‘Hún heitir Signý,’ sagði Ólafur, ‘og er dóttir Knúts konungs af Sjólöndum. Hana veit eg nú kvenkost beztan á Norðurlöndum.’
Konungur mælti: ‘Þá skal þegar við búast og skipum fram hrinda.’
Þetta var gert innan lítils tíma. Stígur Ásmundur á skip með fríðu föruneyti, og sigla burt af Húnalandi, lægjandi sín segl eigi fyrr en í þeim höfnum, er lágu fyrir þeim höfuðstað, sem Knútur konungur hafði aðsetu í, kastandi akkerum, en skjótandi bryggjum, ganga síðan á land með fjóra menn og tuttugu og upp í staðinn og inn í þá skemmu, er konungsdóttir sat í. Og sem Ásmundur kom inn, heilsaði Signý honum hæversklega og öllum hans mönnum. Sezt Ásmundur niður hjá drottningu, og talast þau við lengi, og þar kemur, að Ásmundur hefir uppi orð sín og biður Signýjar sér til handa. En hún svarar svo:
‘Það er svo háttað, að Knútur konungur, faðir minn, er ekki heima í sínu landi, en eg vil hans ráðum fylgja. En það má vera, að hann gifti mig í þessi ferð, og vil eg eigi gera það til rógs við hann og þig, enda á faðir minn að ráða minni giftingu.’
‘Viltu þá,’ sagði Ásumundur, ‘vísa mér frá með öllu?’
‘Ekki hefi eg þar ákveðin orð um’, segir hún, ‘því að eg sé, að mér er fullkostur í þér, en eg vil þó, að faðir minn ráði mínum hlut.’
Ásmundur stóð þá upp og mælti: ‘Ekki mun þér duga dráttur sjá lengur við mig.’ — Gengur hann þar að, sem hún situr, og tekur í hönd Signýju og fastnar hana, en hún gerir hvorki að neita né játa.
Ásmundur mælti þá: ‘Nú skulu það allir mega frétta, að eg skal þig með bardaga verja, hver sem þig vill fá, því að mig þykir sásýnt vilja óvingast við mig. Ætla eg að sækja hingað brúðkaup að hausti.’
Síðan gekk Ásmundur til skipa og sigldi heim til Húnalands.
Sigurður hefir konungur heitið, sá er stýrði Vallandi. Hann var ungur maður og ókvæntur og hafði nýtekið við föðurleifð sinni eftir Hring konung föður sinn. Sigurður var ör konungur og ágætur, harður og hermaður mikill og svo frækinn maður til vopns, að fáir eða öngvir stóðust honum í bardögum eða einvígjum.
Þetta sama sumar, er nú var frá sagt, hélt Sigurður konungur í hernað. Stukku allir víkingar undan honum, þeir sem til hans fréttu, því að hann var harðla frægur af hernaði sínum og riddaraskap, því að það var sannsagt af Sigurði, að hann var meiri íþróttamaður en nokkur annar honum samtíða. Hann var svo snar og fótvatur, að hann hljóp eigi seinna né lægra í loft upp og á bak aftur á öðrum fæti en hinir fræknustu menn á báðum fótum framlangt. Af því var hann Sigurður fótur kallaður.
Það var einn góðan veðurdag, að Sigurður konungur sigldi að eyju nokkurri hálfum þriðja tug skipa. Þar lá fyrir Knútur konungur af Sjólöndum. Og er þeir fundust, voru þar blíðar kveðjur. Og er þeir höfðu spurzt almæltra tíðinda, hafði Sigurður uppi orð sín og bað Signýjar sér til handa. En Knútur svarar svo:
‘Eigi sé eg, að hún megi fá vasklegra mann að öllu.’
En hversu langt sem hér var um talað, þá var það ráðum ráðið, að Knútur konungur fastnaði Signýju dóttur sína Sigurði fót. Skyldi hann sækja brullaupið að hausti heim í Sjóland. Skildu þeir síðan með hinni mestu vináttu.
Og er Knútur konungur kom heim í ríki sitt, fagnaði Signý honum kurteislega og sagði honum, hvað þar hafði til borið og hversu hafði farið með þeim Ásmundi konungi. Knútur konungur sagðist hafa gift hana miklu röskvara manni. Hún spurði hver sá væri. Hann kvað það vera Sigurð konung fót af Vallandi.
Signý svarar: ‘Ágætur maður mun Sigurður konungur vera, en þó hefi eg ætlað að eiga Ásmund.’
Þá reiddist konungur og mælti svo: ‘Þóttú unnir Ásmundi af öllu hjarta, þá skal hann þó aldri þín njóta né þú hans.’
Signý svarar þá: ‘Þú munt ráða, faðir minn, orðum þínum, en auðna mun ráða, hvern mann eg á.’
Skildu þau þá tal sitt. Líður sumarið framan til þess tíma, er Knútur konungur hafðu ákveðið, að bullaupið skyldi vera. Kemur Sigurður fótur þá að nefndum degi, og var þegar búizt við virðulegri veizlu og brúðurin á bekk sett, og þó var það þvert í mót hennar vilja. Var þó faðir hennar að ráða. Settust menn í sæti og tóku til drykkju og voru hinir kátustu.
Spurzt hafði þetta allt saman til Húnalands, og bjóst Ásmundur heiman við fjórða mann og tuttugasta á einu skipi, þar var Ólafur í ferð, og hédu til Sjólands og lendu í einn leynivog. Gengu þeir tveir á land, Ásmundur og Ólafur, og höfðu dularkufla yfir klæðum sínum. Ólafur hafði eina stóra vigur í hendi. Ekki er sagt af vopnum þeirra meira.
Nú er þar til að taka, að Sigurður fótur var inni sitjandi með öllum sínum skara, en Knútur konungur sat á annan bekk með sinn skara. En brúðirnar voru á pallinn upp sitjandi hálfur fjórði tugur. Og er menn voru sem kátastir, lukust upp dyr hallarinna, og gekk þar inn maður furðulega stór og hafði mikla vigur í hendi. Öllum fannst mikið um vöxt þessa manns. Litlu síðan kom inn annar maður, og var sá sýnu meiri. Þá hljóðnuðu allir þeir, að inni voru, og urðu ókátir, nema brúðurin brosti lítinn. Svo var bjart í hallinni, að hvergi bar skugga á. Sigurður fótur bað skenkjarann renna í rós eina og gefa komumönnunum að drekka. Sá maðurinn, að fyrri kom í hallina, tók tveim höndum vigrina og veifir svo hart og tíðum, að þar af stóð svo mikill vindur, að öll slokknuðu login, er í voru hallinni. Var þá yfrið myrkt með öllu. Kölluðu konungarnir þá, ad kveikja skyldi ljósin sem skjótast, segja nú, að brögð nokkuð muni í vera. Var þá fram hrundið borðunum og upp hlaupið á báða bekkina. Urðu þá hrundingar heldur harðar, svo að allt var í einni andrjá. En er ljósin voru tendruð, sást hvorgi komumaðurinn, en brúðurin var öll í burtu. Hvatvetna var spillt og brotið, það er borðbúnaði heyrði til. Var nú upp hlaupið og að brúðinni leitað millum fjalls og fjöru nær og fjarri, og fannst hún eigi því heldur. Þóttist brúðguminn nú heldur sakna vinur á stað, og varð þó svo búið að vera. Vildi hann þar ekki lengur vera og sigldi þegar heim til Vallands og undi þó lítt við sína ferð.
En af Ásmundi og Ólafi er það að segja, að þeir komu heim til Húnalands með Signýju konungsdóttur og létu vel yfir sinni ferð. Litlu síðar sendir Ásmundur Ólaf skósveinn sinn til Vallands með fríðu föruneyti og svofelldum erindum, að hann skyldi bjóða Sigurði konungi fót Ásmundar vegnar sáttir í svo mátta, að Ásmundur mundi unna Sigurði svo mikils fjár í gulli og brenndur silfri sem sjálfur hann vildi haft hafa, en Ásmundur ætti Signýju. En ef hann vildi eigi þenna kost, þá skyldi Sigurður eignast allt Húnaland, en Ásmundur þó Signýju sem áður. Vildi hann hvorigan þenna, þá skyldi Sigurður konungur gefa allt Valland, en eiga Signýju.
Með þessum erindum fór Ólafur og kom fram í Vallandi, gangandi fyrir Sigurð konung og kvaddi hann kurteislega, með snjöllu máli fram flytandi öll áðursögð erindi Ásmundar konungs, hverjum að Sigurður konungur tók þverlega svo talandi:
‘Engin þessi kostaboð Ásmundar vil eg þiggja. Er hann annars maklegur frá mér en sætta nokkurra.’
‘Skulu og engar sættir fást,’ segir Ólafur, ‘þá talaði Ásmundur það, að hann mundi eigi gera brullaup til Signýjar, fyrr en þið þreyttuð með ykkur bardaga, hvor konunni skyldi ráða.’
Sigurður konungur svarar: ‘Hvað mundi ragur maður og huglaus þurfa að bjóða mér bardaga, því að eg veit Ásmund öngva karlmennsku sýnt hafa.’
Ólafur svarar þá: ‘Eigi þurfið þér að tala hér svo mikið um, Sigurður konungur, því að sönn raun verður hér á, að skammt flýr Ásmundur undan þér einum, þó að þið reynið með ykkur.’
‘Einarðlega flytur þú það máli,’ sagði Sigurður konungur, ‘og skal ekka gefa þér skuld á orðum þínum, en þetta mun reynt verða með okkur Ásmundi.’
En er Ólafur sá, að hann orkaði öngu á við Sigurð konung, þá fór hann til skipsog fór heim til Húnalands. Spurði Ásmundur hann að erindum eða hversu gengið hefði.
Ólafur svarar: ‘Það er þér skjótast að segja, að sætt varð engi og Sigurður konungur vildi konuna ekki missa fyrir þér. Mátti það og á finna í orðum hans, að hann þóttist mundu betur fær til bardaga en þú og svo betur búinn að öllum riddarlegum listum.’
‘Það mun eg,’ segir Ásmundur, ‘vera, þó við prófum það seinna.’
Litlu síðar safnar Sigurður fótur mönnum og heldur til Húnalands og í þær hafnir, sem lágu hið beinsta frammi fyrir konungshöllinni. En er Ásmundur verður vís, að Sigurður konungur er þar við land kominn gengur hann til skipa með alla hirð sína, bjóðandi Sigurði fót öll hinu sömu boð, hverjum er Sigurður neitaði og ekki annað vildi en að berjast. En Ásmundur svarar:
‘Þú skalt ráða því’, sagði hann, ‘enda þykir mér rád,’ sagði hann, ‘að við berjumst tveir og gjaldi ekki aðrir saka minna eða ofurkapps okkars.’
Sigurður kveðst þess og búinn. Gekk hann síðan á land, og tóku þeir til að berjast heldur harðlega. Var það langan tíma, að ekki mátti í millum sjá. Skárust nú mjög herklæði þeirra, þar til að þeir stóðu hlífarlausir upp. Tóku þá líkhamirnir við höggunum, og bárust sár á hvortveggja þeirra, þar til að Sigurður beiddi hvíldar, og það veitti Ásmundur honum og bauð honum þá enn sættir og fóstbræðralag, því að hann kveðst sjá, að blódrás mundi skjótt mæða hann.
Sigurðar kvað sín sár eigi meir blæða en hans, kveðst og öngvar sættir við hann gera vilja.
Ásmundur bað hann þá upp standa og verja sig. ‘Hef eg leikið við þig í allan dag,’ sagði hann; ‘skal eg nú ekki lengur hlífa þér.’
Sigurður sprettur þá upp og gerir svo harða hríð, að Ásmundur má ekki annað gera en verja langa stund. Þar kemur enn, að hann mæðist. Veitir Ásmundur honum þá harða atgöngu, svo að Sigurður konungur féll af mæði og sárum. Sneri Ásmundur honum á sárin, svo að eigi skyldi inn blæða, en Ásmundur gekk sjálfur burt af vígvelli. Lét hann og taka Sigurð og færa heim í borgina og fá til lækna að græða hann. Svo voru og læknar til fengnir að græða Ásmund, og grerir þeir báðir að heilu. Vildi Sigurður þá sigla heim til Vallands, en Ásmundur bauð honum hinar sömu sættir og fyrr, en Sigurður kvað ekki mundu af sættum verða, — ‘en sé eg, að mér stendur eigi héðan af að berjast við þig og launa þér svo lífgjöfina, en veit eg sakir ónáttúru minnar, að eg mun þér aldri trúr verða, því að eg fyrirman öllum mönnum að njóta Signýjar nema mér einum.’
‘Það má og vel verða,’ sagði Ásmundur, ‘þvi að enn er Signý óspillt af mér. Vil eg nú gefa þér Signýju, ef það er hennar vilji.’
Sigurður varð þá glaður við og mælti: ‘Þetta er svo mikill drengskapur, að þú sýnir mér, að aldri mun fyrnast, meðan Húnaland er byggt.’
Fóru þeir þá og töluðu við Signýju, en hún svarar svo, að Ásmundur skal ráða, en ekki hefði hún ætlað að eigi annan en hann. Þetta fór og fram, að Ásmundur fastnaði Sigurði Signýju, og var þegar brullaup sett, og gekk það út vel og sköruglega. Sórust þeir í fóstbræðralag að þessari veizlu, Ásmundur og Sigurður. Eftir það sigldi Sigurður konungur fótur með Signýju drottningu sína heim til Vallands, og skildust þeir Ásmundur með mikilli vináttu og kærleikum.
Hrólfur er konungur nefndur; hann réð fyrir Írlandi; hann var ríkur konungur og metnaðargjarn, grimmur og harður og eigi allur þar sem hann var sénn. Hann átti þá dóttur, er Elína hét, allra kvenna kurteisust og vænst, þegar að Signýju leið. Þangað til Írlands fór Ásmundur bónorðsför og hefir tíu skip vel skipuð að vopnum og mönnum. En er hann ber þetta sitt erindi fram fyrir Hrólf konung, tekur hann þunglega hans máli og segir ekki smákongunum gera að biðja dóttur sinnar. Vísar hann honum þá frá með hæðilegum orðum. Verður Ásmundur þá mjög reiður, svo að hann býður konungi til bardaga, en konungur kveðst þess búinn. Lætur hann þá verða safnað múg og margmenni og fær svo mikið ógrynni hers á þriggja nátta fresti, því að Ásmundur vildi gefa honum svo löng frest til liðsafnaðar. Voru þá vel þrír um einn Ásmundar manna. Og að búnu liðinu fóru þeir til bardaga. Gekk Ásmundur harðla vel fram, svo að hann gekk átta sinnum í gegnum lið Írakonungs og ruddi svo breiða götu sem sverðið tók lengst frá höndum, og svo margan mann drap hann, að seint er þeirra nöfn að skrá. Ólafur gekk og harðla vel fram og vard mörgum manni að skaða, svo að hann gekk fjórum sinnum í gegnum fylkingar landsmanna. En þó að margt félli af liði Hrólfs, þá komu þrír af landi ofan í staðinn, þar einn var drepinn, en sakir þessa mannfjölda og ofurliðs þá féll svo gersamlega allt lið af Ásmundi konungi, að þeir stóðu tveir einir upp. Voru þá bornir að þeim skildir og handteknir, og var Ásmundur áður einn saman tíu manna bani, en Ólafur fimm.
Síðan var þeim kastað í djúpa og fúla dýflizu.
Nú er þar til að taka, að Sigurður fótur situr í Vallandi með mikilli mekt og virðingu og Signý hans kæra drottning. Unir hann harðla vel sínu ráði. Það var eina nátt, að drottning lét mjög lítt í svefni, svo að nálega brauzt hún um bæði á hnakka og hæli, svo konungurinn hafði í ráði ad vekja hana, en þó fórst það fyrir, og þar kemur, að hún vaknar sjálf. Var hún þá sveitt og móð og harðla rjóð að sjá í andliti. Konungurinn spurði, hvað hana hefði dreymt. En hún svarar svo:
‘Eg þóttumst sja Ásmund Húnakonung sigla til Írlands. En er hann kom þangað, sýndist mér hlaupa í mót honum og hans liði einn ógurlegur apli með svo miklum vargaflokki, að eg sá hvergi út yfir, og sóttu allir að Ásmundi og hans liði, og með því þótti mér lyktast þessi ófriður, að vargarnir rifu til dauðs alla menn Ásmundar nema þá Ólaf tvo eina. En það sá eg seinast til þeirra, að þeir voru í valdi hans mikla aplans, og þá vaknaði eg.’
‘Hvað ætlar þú,’ sagði Sigurður konungur, ‘að draumur þessi hafi að þýða?’
‘Það vil eg segja þér,’ sagði Signý, ‘að Hrólfur heitir konungur og ræður fyrir Írlandi. Hann á dóttur, er Elína heitir, kvenna kurteisust og bezt að sér um alla hluti, og er þar misskipt með þeim feðginum, því að konungur er bæði grimmur og fjölkunnigr, ódyggur og undirförull. Það ætla eg, að Ásmundur hafi farið þangað bónorðsför, en Hrólfur hafi synjað honum með hæðilegi orðum, en Ásmundur hafi það eigi þolað og hafi boðið konungi til bardaga, en hafi haft engan liðskost móti landsmúgnum og hafi svo verið fellt af honum all lið hans, en hann sjálfur fangaður og Ólafur skósveinn hans. Nú vil eg, að þú bregðir við skjótt og safnir liði og farir til Írlands og náir út Ásmundi og veitir honum það lið, sem þú mátt mest og honum þykir sér bezt þarfast. Ertu skyldur að gera það allt, er þú mátt, Ásmundi til bata. Þykir mér þú nú muna eina, hversu hann hefir við þig gert alla hluti, og dvel nú ekki.’
Sigurður konungur kvað svo vera skyldu. Lætur hann verða safnað múg og margmenni og hrinda skipum á sjó og síðan bryggjum kippa og grunnfæri upp draga og á reipum halda og segl við hún setja og eigi fyrr lægja en í þeim sömum höfnum, sem hið beinasta lágu fyrir höfuðborginni þessari sömu, er sjálfur Hrólfur konungur sat í. Sigurður konungur hafði hálfan fjórða tug skipa, allvel búin að vopnum og mönnum. Lætur Sigurður konungur þegar verða á land gengið og Hrólfi konungi til bardaga boðið án allra fresta. Og er þeir voru á land gengnir, sáu þeir þar val mikinn, mjög nýfallinn. Hvergi fundu þeir þó lík Ásmundar né Ólafs. Við þetta varð Sigurður bæði óður og æfur.
Ekki hafði Ásmundur verið í dýflizunni og þeir Ólafur meir en eina nótt. Hafði Elína konungsdóttir látið taka þá burt úr dýflizunni, og var Ásmundur í skemmunni hjá Elínu, og skemmtu þau sér að sögum og kvæðum, töflum og hljóðfærum. Vissu Sigurður konungur ekki af þeim, og býst hann nú til bardaga, en Hrólfur konungur í mót. Fékk hann lið lítið, með því əd engi voru baradagafrest, en þeir voru lítt færir, sem í hinum fyrra bardaganum höfðu verið. Hafði Ásmundur ekki sparað að veita þeim stór högg og mikil sár og þeir Ólafur báðir. Voru þeir ekki grónir sakir naums tíma.
Þenna sama morgin harðla árla, sem sólin skein í heiði, tóku þeir til bardaga, Sigurður konungur fótur og Hrólfur Írlandskonungur. Var þessi orrusta bæði mikil og mannskæð. Var Sigurður konungur harðla óður og ákafur, svo að hann sparði ekki vætta það er fyrir varð, svo að hann gekk í gegnun lið Írakonungs og felldi hvern á fætur öðrum, og þetta gekk allt til kvelds. Þá brast flótti í liði landsmanna. Í því varð Hrólfur konungur fangaður og handtekinn og geymdur heldur harðlega um náttina, en á daginn eftir var Hrólfur konungur settur bundinn niður á hallargólf. Talaði Sigurður konungur um, hvern dauða honum skyldi velja. Urðu á það allir samþykkir, að hann hefði hinn leyðilegasta dauða, er til væri.
En svo sem Elína konungsdóttir verður vís, hver umskipti orðið höfðu með þeim Sigurði konungi og föður hennar, þá gengur hún fyrir Ásmund konungi svo talandi:
‘Ef þú, Ásmundur, þykist nokkurn beileika eiga að launa mér, þá gakk þú nú svo að, að faðir minn haldi lífi sínu, en þú ráðir öllum öðrum kostum.’
Ásmundur sagði hana skyldi þiggja sína bæn, kvað hana þess maklega fyrir sína velgerninga. Gengur hann þá inn í höllina og þeir Ólafur baðir. En er Sigurður sér þá, stendur hann upp í mót Ásmundi, og verður þar mikill fagnafundur með þeim. Segir þá hvor öðrum af sínum framferðum. Eftir það spyr Ásmundur, hversu að Sigurður ætlar að skipa við Hrólf konung, en Sigurður konungur svarar svo:
‘Líf Hrólfs konungs og Elína dóttir hans, Írlands allt og Valland er ní í þínu valdi og vilja og allt það, að mér ber til, og mun eg aldri geta launað þér, eftir því sem þú værir maklegur, þína velgerninga við mig.’
Ásmundur þakkaði honum öll sín orð og þar allir út í frá, — ‘en þess vil eg spyrja Hrólf konung,’ segir Ásmundur, ‘hvort hann vill nú gifta mér Elínu dóttur sína.’
Hrólfur konungur svarar þá: ‘Það vil eg að vísu og vinna það til lífs mér.’
Þarf eigi hér langt um að hafa, að það verður ráðum ráðið, að Ásmundur fær Elínu, og er þegar að brullaupi snúið. Og að veizlunni afliðinni sigldu konungarnir burt, Sigurður og Ásmundur. Leysti Hrólfur konungur út mund dóttur sinnar sæmilega í gulli og dýrgripum. Skildu þeir nú með vináttu.
Settist Ásmundur konungur að Húnalandi og þótti hinn mesti höfðingi. Hann átti ágætan son við Elínu drottningu sinni, er Hrólfur hét. Hann varð konungur að Húnalandi. Hand synir voru þeir Ásmundur og Hildibrandur Húnakappi.
Sigurður fótur sat að Vallandi og þótti hinn ágætasti maður. Unnust þau Signý vel og sæmilega. Þykjast menn varla vitað hafa aðra fóstbræður betur hafa unnizt í neyti en þessa, drengilega dugað hvor öðrum.
Og lýkur þar sögu Sigurðar fóts og Ásmundar Húnakonungs.
Источник: Riddarasögur, ed. by Bjarni Vilhjálmsson, 6 vols (Reykjavík: Islendingasagnaútgáfan, 1949–51), VI pp. 65–84 (itself based on J. H. Jackson, ‘Sigurthar saga fóts ok Ásmundar Húnakonungs’, PMLA, 46 (1931), 988–1006).
OCR: Alaric Hall