1. Saga þessi hefst fyrst í Englandi og fer síðan út til Saxlands og þá til Grikklands og því næst vestur í Afríka allt út undir sólarsetrið og þaðan í suðurhálfu heimsins til hinnar miklu borgar Níníve og þaðan út að heims enda til hinna miklu fjalla Kakausi. Þessi saga var tekin af steinvegginum í Babýlon hinni miklu. og meistari Humerus hefir samsett hana. En til mega heyra þeir menn til slíkra sagna að eigi þyki víst hvort sannlega sé saman settar því að sá sem ókunnig er landa skipun má vera að hann kalli það í austur sem hann ætti í vestur en það í suður sem í norður stendur því að bæði hafa breyst borga heiti og landa og leggst það að öngu ef ófróðir menn heyra til þó hinum þyki það lýti sem fróðir eru. En þótt nokkuð þyki á mót líkindum sumt það er til ber um fræknleik manna eður flýti ferðanna þeirra manna sem sagan gengur frá má það eigi undrast því að þann sem hamingjan vill hefja honum má ekki ófært verða, svo og þann sem hún vill niðra þá takast honum flestir hlutir torveldlega. En hamingjunni er vant að trúa því að hún veltur ýmsa vega.
2. Sögu þessa byrjar svo að fyrir Englandi réð sá kóngur er Ríkharður hét. Hann var kominn af ætt Eneas hins mikla af Tróju. Hann var ágætur höfðingi vaskur og vel siðaður, íþróttamaður mikill svo engi komst til jafns við hann í því landi. Hann var hirðprúður og vinsæll. Hann hafði fengið ágæta konu dóttur hertoga af Saxlandi og fékk hann þar með henni mikið ríki til vesturættar með ánni Rín. Þau áttu son þann er Vilhjálmur hét. Hann var líkur móður sinni að yfirlitum því hún var kvenna vænst en föður sínum var hann líkur um afl og íþróttir. Ræðismaður kóngs hét Dixin. Hann var mikill maður og sterkur vitur og trúlyndur og laut að honum öll ríkis stjórn næst kónginum. Hann var fóstri kóngssonar og unni hvor öðrum mikið og hann kenndi honum íþróttir og margan fróðleik. Og er kóngsson var v vetra fór kóngur til Saxlands að skipa til ríkis síns og fór hans son með honum og sat kóngur þar um veturinn. Ríkharður kóngur hélt mikla skemmtun á að fara á skóg með hauka og hunda að veiða dýr. og lagði hann á það svo mikið kapp að stundum lá hann úti á skógum með hirð sinni svo vikum gegndi.
3. Þess er getið eitt sinn að kóngur var á skóg farinn með hirð sinni sem oftar. Einn dag var vott veður og sat kóngur í tjaldi sinu á skóginum og smásveinar hans hjá honum og son hans en hirðin jagaði dýr á skóginum. Að tjaldi kóngs kom einn maður ríðandi með riddara búningi mikill vexti. Með honum reið ein kona. Hún var eigi mjög dáfríð og samdi sér þó vel. Hún var vel búin. Þau gengu í tjaldið og kvöddu kóng. Hann tók því vel og spurði hvað kvinna hún væri. Sagðist vera kominn utan allt af Afríka og kveðst eiga þar veldi. “En skip mín eru hér við sjó en minn herra hefir bannað mér mitt nafn að segja. En ég var riðin á skóg að skemmta mér eða er það þinn son er þar situr hjá þér.” Kóngur kvað það satt vera. Kóngur sér að hún hefir gullhring á hendi og hafði ei kóngur séð meiri gersemi. Og svo mikil eigingirni kom að honum að hann vildi fyrir hvern mun hringinn eiga og frétti að hvort hún vildi selja honum hringinn. En hún segir að hann sé eigi falur fyrir peninga. “En ef þér stendur hugur til hringsins, þá muntu tefla vilja eitt skáktafl til hans ef þú setur það móti sem mig lystir.” Kóngur spurði hvað það væri. Hún mælti: “Settu út son þinn í mót því að ég á væna dóttur.” Kóngur segir sér ei son sinn svo falan að hann vildi hann við tafli setja. En hún kvað sér öngvan akk á að láta hringinn. Nú hugsaði kóngur að tafl hans var þar hjá honum og sá mátti aldregi láta ef sjálfur tefldi á sem það átti. Því segir hann að hann vill til voga um eitt tafl en þó grunaði kóng hvað konu hún mundi vera. Síðan reistu þau taflið og tefldu með þessum skilmála og finnur kóngur að hún teflir forkunnar vel. En þó lukar svo að hún fékk litla bert. Kóngur kallaði til hringsins en hún kallaði jafntefli. vita kóngar er voru eftir á borðinu. Kóngur vill taka til hringsins. Þá mælti förunautur hennar: “Mikið þyki mér kóngur hafa til síns máls. En fyrr en þið dragist um hringinn þá býð ég þér burtreið og hafi sá okkar hringinn sem betur veitir.” Kóngur kvað sig ekki dvelja. Taka smásveinarnir þá hest kóngs og herklæði. Síðan tóku þeir hringinn og festu við tjaldið og lögðu við níðings nafn hver sem annan sviki.
4. Nú stökkur kóngur á hest sinn og riðust að djarflega og finnur kóngur að þetta er hinn mesti hreystimaður. En svo lauk að brotnaði hryggur í hesti hins komna manns. Í þessu bili kom hirðin kóngs í rjóðriðog jafnskjótt hurfu þau í burten kóngur tók hringinn og sagði sínum mönnum til tíðinda hafði borið um daginn og sýndi þeim hringinnog þóttust þeir eigi þvílíkan grip séð hafa. Gjörði kóngur nú menn af skóginum til sjóvarins að forvitnast hvað satt væri um sögu þeirraog fundust þar hvorki menn né skipog öngvir höfðu varir við orðið að þar hefði nokkuð komiðog þótti mönnum kóngur mikla giftu til hafa borið um viðskipti þeirra. Fer kóngur nú heim af skóginumog litlu síðar fer kóngur heim til Englands og situr nú í sínu ríki langa tíma. Kóngs son tekur nú að vaxaog hér með eykst honum afl og íþróttir. Hver maður unni honum hugástum. Faðir hans bauð honum að gjöra hann riddara og gefa honum lén mikið innanlandsen Vilhjálmur kveðst ekki með fé kunna að faraen kveðst nafnbótum ekki auka vilja fyrr en hann ynni nokkuð til frægðar. Kóngur gaf honum hringinn þann sem hann hafði fengið á skóginumog sagði það maklegast að hann nyti hans fyrir það að hann var í móti honum settur. Líður nú til þess að Vilhjálmur er xv vetra gamall. Var hann þá svo sterkur að engi maður í því landi stóðst honum hvorki um afl né íþróttir. Þessu næst vill Ríkharður kóngur fara til Saxlands og með honum fór son hans og tekst þeim sú ferð vel og dvaldist hann þar um veturinn.
5. Ríkharður kóngur fór að veislum um veturinn yfir land sitt og setti lög og landsrétt en er hann skyldi fara heim aftur til sinnar borgar er Sauis hét lá vegur hans um fjallgarð nokkurn og voru þar gljúfur þröng. Veður var gott öndverðan daginn en síðan gjörði á vind og varð ofviðri svo mikið með eldingum að undur þótti. En er þeir komu á mitt fjallið æstist veðrið svo mjög að þá sló niður af sínum hestum og hestana niður undir sumum og skeindust þeir á sínum vopnum. Voru sumir hestarnir beinbrotnir en veðrið var svo svart að engi sá annan og gekk þetta ii eyktir dags. En er nokkuð linaði veðrinu fóru þeir á fætur sem sig gátu borið og könnuðu liðið og voru margir dauðir en kónginn fundu þeir hvergi og leituðu hans það sem eftir var dagsins. Koma nú heim og sögðu þessi tíðindi og reis þar upp mikil sorg og var hans leitað langa tíma og til frétta gengið við vísindamenn og fannst engi svo fróður að nokkura vitneskju hefði til hvort hann var lífs eður dauður. Fréttist þetta nú heim í England og þótti öllum þetta mikil tíðindi og var það allra manna vilji að taka Vilhjálm til kóngs en hann vildi það eigi og skipaði Dixin valdsmann yfir ríkjunum báðum. Þeir sátu í borg þeirri er Vinsestur heitir og leið svo fram þetta ár.
6. Kóngsson fór á skóg einn dag og er hann var staddur í einu rjóðri einn því hann var sjaldan með glöðu bragði síðan hann missti föður sinn. Hann hafði hringinn góða á hendi. Þá var veður gott og þó heldur við þoku. Hann heyrði þá kveðið svo dvergmála kvað við. Hann heyrði og dunur miklar og því næst kom fram úr skóginum jötunn einn ógurlega stór. Hann var sköllóttur en það hár sem með vöngum var var svo hart sem tálknfanir og tók niður undir belti. Augu hans voru opin en mikil sem stöðuvötn og hvít sem hégeitla. Brýn hafði hann stórar og svartar sem krákur. Hvarma hárin löng og svo snörp sem svíns busti. Nef hans var með iiij hlykkjum og sé niður fyrir munninn. Tenn hans voru gular og sköguðu langt fram úr þjófskjaftinum á honum en hann var svo hvofta mikill sem í naust sæi. Hann hafði fótsíðar hendur og langa fingur og negl sem gamms klær og að öllu var hann verr en frá mætti segja. Hann kvaddi kóngsson með nafni. Hann tók vel kveðju hans og spurði hver hann væri eður hvaðan hann hefði að komið. “Öngu varðar þig það,” sagði hann, “hvaðan ég kom. En nafn mitt segi ég þér eigi en þó á ég við þig erindi.” “Þá muntu verða að birta það,” sagði kóngsson. Hinn segir: “Ég er sendur eftir gullhring þeim sem þú hefir á hendi.” “Eigi mun ég hringinn þrautlaust missa,” sagði kóngsson. “Ég vil gefa þér við gull svo mikið sem þú vilt til mæla,” sagði hann. Kóngsson segir: “Ekki er ég mangari.” “Þá muntu vilja setja hann undir tafl,” sagði þursinn, “því að faðir þinn vann hann svo”. “Hvað hefir þú í mót að setja,” sagði kóngsson. “Hring þenna sem ég hefi á hendi,” sagði hann, “og vegur hann eigi minna og þar með höfuð mitt og mun ég eiga að leysa það með því sem þú skilur á ef þú hlýtur”. “Hér er ekki tafl,” sagði kóngsson, “en ég vil á ekki tafl tefla utan það sem faðir minn hefir átt”. “Það mun eigi lengi sótt vera ef fljótur maður fer eftirog vil ég sækja það,” sagði hann. “Vel má það,” sagði kóngsson. Þursinn hljóp nú af stað og kom aftur vonum skjótar og ætlaði kóngsson að hann mundi ekki heim kominn.
7. Þeir reistu nú tafl og tefldu nokkura stund og lauk svo að þursinn fékk mát. Var hann þá illur yfirsýndar og pungaði þó taflið en kóngsson tók gullhringinn til sín. Þursinn mælti: “Með hverju skal ég nú leysa höfuð mitt?” “Þú skalt sækja mér öll herklæði,” sagði kóngsson, “svo traust að eigi kunni að bila og kom aftur fyrr en vi mánaðir sé úti og sjá svo fyrir að það verður bani þinn ef nokkur löstur er á þeim”. “Þunga dagleið fær þú mér,” sagði þursinn, “nær sem ég get launað þér. En tefla skulu við oftar”. Skildu þeir nú við svo búið. Kom kóngsson seint heim um kveldið og spurði Dixin hvað hann hefði dvalið en hann sagði sem farið hafði. “Eigi lasta ég þessa þína ferð,” sagði Dixin, “en þó vilda ég að þú legðir eigi leik þinn við þursinn”. Kóngsson sagði það ei mikla mannraun. “Af honum munu vér þungt hljóta,” sagði Dixin. Kóngsson sagðist aldrei kvíða ókomnum degi. Líður nú til þess er kóngsson átti að vitja taflfjárins. Kemur hann nú í skóginn þar sem þeir áttu að finnast og kemur þursinn þar. Kóngsson heilsaði honum. Hann færði kóngssyni brynhosur af stáli slegnar. Síðan færði hann hann í þrefalda brynju. Þóttist kóngsson eigi hafa séð betri brynju. “Þessa brynju tók ég af Andvara dverg,” sagði þursinn, “en hann hafði gjört hana Herjuð kóngi í Hólmgarði. Ekki vopn festir á henni og mun sá jafnan sigur hafa sem í henni er. Ekki vildi dvergurinn missa hana fyrir ccc punda gulls”. Því næst fékk hann honum hjálm. Hann var gjör af hörðu stáli, skyggður sem gler og gimsteinum settur. Ademas hinn harði var ofan í honum miðjum og hvaðan sem þú leist á hann var að sjá sem x menn gengi að að berjast og sýndist sjá mannfái kvikur ef sólin skein á hann. “Þenna hjálm,” sagði hann, “hefir átt Herkúl hinn sterki og bar hann á höfði þá hann drap hinn mikla risa Centauris að eigi gat c manna í hel komið þó bundin væri önnur hans hönd. Eigi mun betri hjálmur finnast”. Því næst fékk hann honum sverð það var xi spanna hátt í milli hjalta og höggstaðar. Svo sýndist sem einn vargur hlypi undan hjöltum þess og fram á oddinn ef niður vissu hjöltin en þá undir hjöltin ef niður vissi oddurinn og var sem hann elti einn íkorn. “Þetta sverð,” sagði hann, “heitir Samiron. Það hefir átt Baldvini kóngur af Indíalandi hinn sterki. Það lá xiii vetur í orms bóli þess er Vispir hét og í hans blóði var það hert og væntir mig að eigi muni betra sverð finnast”. Hann tók nú einn skjöld gulli lagðan og gimsteinum settan. Þúsund marka gulls var á skildinum en gimsteinana kostaði þó meira. Þar var á skrifuð saga Jasons hins sterka föður Agamenons Grikkja kóngs og hertoga Menelás hins sterka sem átti Elenu stjörnu og hversu hann sótti gullreyfið í Kolkoss og hversu þeir drápu Lamidon kóng föður Príamus kóngs í Tróju. Þenna skjöld bar Ektor er bestur riddari hefir verið en á röndinni utan um skjöldinn var saga Alexandurs Makedón er vann alla veröldina og hversu hann var svikinn með eitri í Babýlon. Þenna skjöld bar burt af Tróju Neoptulemus son Akillas hins sterka er Ektor drap en síðan fékk hann Túrnus sem drap Pallas son Enangris kóngs af Sýrlandi er stærstur maður hefir verið. Síðan tók hann burtstöng og mælti: “Þessa burtstöng lét gjöra Lúkanus huldumaður og höfðingi í fjalli því sem Lúkanusfjall heitir og sendi hana Tolomeus kóngi til Egiptalands. Hann vildi þiggja stöngina en tímdi öngu að launa. Því sendi Lúkanus Alfrigg dverg að stela henni burt en ég fann hann á veginum og tók ég af honum stöngina. Hún heitir Bulta. Verð hennar er asnabyrður af brenndu silfri og hinn ríkasti kastali í Frans. Tak nú gripina og gjör kvitt höfuð mitt.”
8. Þá mælti kóngsson: “Vel hefir þú þetta efnt og munu við nú skilja.” “Viltu ekki tefla eitt tafl,” sagði þursinn. “Eru hér gullhringar er ég vil setja út í móti hring þínum sem ég var eftir sendur og þar með höfuð mitt með sama skilmála og fyrr.” Kóngsson bað hann ráða. Reisa þeir nú taflið og fór sem fyrr að jötunninn lét bæði taflið og peningana og svo höfuðið. Hann mælti: “Með hverju skal ég nú leysa höfuð mitt?” “Ég skal nú hægja þér,” sagði kóngsson. “Þú skalt sækja mér hest, söðul og beisl, svo góðan að samgildi herklæðunum. Síðan skaltu segja mér hvert faðir minn er lífs eður dauður eður hvar hann er niður kominn.” “Það vilda ég þó síst kjörið hafa,” sagði þursinn, “og lítil heillaþúfa verður þú mér um að þreifa nær sem ég get launað þér. En það skil ég til að við skulum tefla oftar.” “Það skal verða aldrei,” sagði kóngsson, “og kom aftur innan mánaðar” og skildu þeir að þessu. Fór kóngsson nú heim af skóginum og sagði Dixin hvers hann hafði aflað. “Það uggir mig,” sagði Dixin, “að við hljótum illt af honum og eigi skaltu einn finna hann oftar ef ég má ráða.” Líður nú til stefnudags. Býst kóngsson nú heiman og kemur í þann stað sem þeir áttu að finnast.
9. Kóngsson biður nú í rjóðrinu og litlu síðar kemur leikbróðir hans ríðandi í rjóðrið og stígur af hestinum. Kóngsson þóttist eigi hafa séð slíka gersemi og mælti til jötunsins: “Og þú kemur ríðandi,” sagði hann. “Þér er það að kenna,” sagði jötunninn. “Þena hest sótt ég í auðnir Indíalands á bjarg það er Telli heitir. Það er allt skipað ormum. Gull skortir þar eigi og því er gulls litur á tagli hans, faxi og hófum. Skálkur hét dvergur sá sem hann hefir tamið og fætt hann á mjólk ormanna. Hann er svo snar sem svala á flug og svo sterkur að iij úlfaldar mega ei lyfta hans byrði. Betri er hann til vígs en iiij menn. Júbin kóngur átti hestinn er stýrði Blökkumannalandi og með söðulinn og söðulklæðið. Það er ofið í álfheimum og veit engi hvað klæði í því var. Það brennur ekki í eldi og ber sinn lit hverjar vij nætur á tólf mánuðum. Söðulinn keypti Júbin kóngur að kaupmanni einum úr Babýlon og gaf honum við iij drómunda hlaðna af gersemum og gullker það engi vissi hvað hann kostaði en Merkúríus ömmubróðir minn var smásveinn kóngs og stal hann þessum þingum og færði mér en kóngur lét hengja hann.” Tók kóngsson nú við hestinum og stökk á bak og mælti: “Seg nú hvað þú veist til föður míns.” “Fyrir því þyki mér mikið,” sagði hann, “en þó lifir faðir þinn og er í því landi er Eirs heitir.” “Hvar er það land,” sagði kóngsson. “Seg þú þér það sjálfur,” sagði þursinn “en eigi muntu svo burt fara að við teflum eigi”. Og er þeir höfðu þetta að tala kom Dixin ríðandi með mikla sveit manna og hvarf jötunninn þá. Dixin ávítaði kóngsson en kóngsson sagði að ekki sakaði til. Heldur Dixin nú vörð á kóngssyni.
10. Það ber nú til þessu næst að kóngsson tekur andvökur og eina nótt stendur hann upp og leynist burt og fer í skóginn. Eigi gekk hann lengi áður leikbróðir hans kemur á mót honum og heilsar honum glaðlega og spurði því hann væri úti á nóttum “eður viltu ekki tefla”. “Ekki hef ég við því búist,” sagði kóngsson. “Það er þó undir minni ferð,” sagði jötunninn, “er mér allt um hringinn”. “Eigi sett ég hann út lengur,” sagði kóngsson. “Ég mun þó sýna þér mitt útlag,” sagði þursinn. Tekur hann nú tafl undan stakki sínum. Aldrei hafði kóngsson slíkan grip séð og gjarna vildi hann taflið fá og spurði hvað gilda skyldi. “Set út hringinn,” sagði hann, “eður höfuð þitt”. Kóngsson hugsar hversu áður hafði farið með þeim og þótti honum sér ráðinn sigurinn. Ekki vill jötunninn þá annað taflfé hafa en höfuð kóngssonar. Þá sagði kóngsson að hann mun gjöra honum þvílíkan kost sem hann hafði áður gjört honum að eiga lausn á höfði sínu og því játuðu nú báðir. Sem þeir höfðu reist taflið kom úr skóginum ein jungfrú svo fögur að kóngsson hafði öngva séð slíka. Hún hneigir kóngssyni kurteislega. Jötunninn heilsaði dóttur sinni. “Ólíklegt er það,” sagði kóngsson, “svo fjándlegur sem þú ert”. “Margur er sínum ólíkur,” sagði jötunninn. Kóngssyni fannst meira um meyna en taflið því hún setti sig gegnt honum og var mjög tileyg og svo mikið leiddi honum af fegurð hennar að hann lét taflið. “Nú er svo orðið,” sagði jötunn, “að ég á vald á höfði þínu og naut ég ráða dóttur minnar.” Nú sér kóngsson að brugðið er yfirlitum hennar og þóttist hann nú aldrei hafa séð illilegra flagð. Bað hann jötunninn greiða fyrir sér um höfuðlausnina og var hann þá reiður mjög og tók vopn sín. Jötunninn mælti: “Eigi muntu vilja níðast á mér en minni þraut mun ég leggja fyrir þig en þú lagðir fyrir mig. Áður iij vetur eru liðnir skaltu koma til hellis míns og eru þar níutigir trölla. Þá skaltu segja mér hvað þau heita öll. Þangað skaltu hafa með þér hringinn Tröllkonunaut og er þú hefir þetta gjört þá ertu laus allra mála við mig ellegar verður það bani þinn.” Kóngsson brá nú sverðinu og hjó til jötunsins en hann steyptist í jörðina og sá hann í iljar honum en sverðið sökk í bjargið.
11. Kóngsson var nú í þungu skapi og þóttist illa teflt hafa. Snýr nú heim af skóginum. Kom þá fóstri hans í mót honum og margt fólk úr borginni að leita hans. Sér Dixin að hann er með þungu bragði og ávítaði hann um sína breytni og spurði hvað til tíðinda hefði borið. En hann lét illa yfir og sagði honum þó sem farið hafði. Hann kvað það hafa farið eftir því sem hann hefði grunað. “Ei má nú um sakast,” sagði kóngsson. Fara þeir nú heim og sátu um kyrrt það sem eftir var ársins og var kóngsson jafnan hljóður. Að vori lætur hann þing stefna og lýsir yfir því að hann ætlar úr landi og ætlar ei aftur að koma fyrr en hann hefir fundið föður sinn annaðhvort lífs eður dauðan og skipaði hann Dixin til varðar yfir ríkið til þess er hann kæmi aftur. Margir hörmuðu það og báðu hann halda ríki sinu en hann bað þá vera hlýðna fóstra sínum og kveðst aftur mundu koma innan sjö vetra “ellegar skulu þér halda mig dauðan ef þá fréttist ekki til mín”. Lofuðu allir að gjöra sem kóngsson vildi og sleit svo þinginu.
12. Þessu næst býst kóngsson burt af Vinsestur og hafði hest sinn Valentína og vopn. Honum fylgdu ij smásveinar. Hét annar Heimir en annar Rogerus. Hann bað vel lifa borgarmenn en allir báðu hann vel fara og heilan aftur koma. Fer Vilhjálmur nú fyrst til Saxlands og oftast huldu höfði. Er ei getið um ferðir hans fyrr en hann kemur út í Lumbardi. Eitt kveld tók hann sér náttstað í einum skógi undir fjöllum Asprement. Þeir slá nú tjaldi sínu á einni eng. Og er þeir bjuggust til náttverðar heyrðu þeir dunur miklar. Sveinarnir hljupu út og sáu að þar var komið dýr það tígris heitir. Það er stórt og grimmt og svo ágjarnt að það sér aldrei svo marga hjörð að það drepi ei allt undir sig og aldrei er það svo svangt að það gái síns matar fyrr en það hefir drepið allt það sem þá sér það. Nú hleypur það að hestum þeirra og slær til dauðs báða en sveinarnir hlaupa að dýrinu og höggva til þess báðir senn en dýrið slær þá með sínum hala svo að þeir koma báðir niður dauðir. Nú hleypur Vilhjálmur út af sínu tjaldi og sér hvað um er. Dýrið hleypur í mót honum með gapanda gini en Vilhjálmur hjó til dýrsins og tók af trýnið fyrir neðan augun. Dýrið reiðir þá hramminn og vill ljósta hann en Vilhjálmur hjó á þann fót dýrsins sem það stóð á og tók þar af en dýrið steyptist í fang Vilhjálmi og var það mikil aflraun að halda því en það hryddi blóði um hann allan. Hesturinn Valentína kemur nú að og hefur upp sína afturfætur og lýstur á mjaðmir dýrinu svo að það lykknast við. Neytti Vilhjálmur nú sverðsins og hjó á hrygg dýrinu svo sundur tók. Gekk Vilhjálmur þá til hinna dauðu og gróf þá í jörð og gekk síðan til tjalds og svaf af um nóttina.
13. Að morgni dags stóð Vilhjálmur á fætur og leggur söðul á sinn hest og reið burt af mörkinni og stefnir út að hafinu. Ber nú ekki til tíðinda fyrr en hann kemur í skóg þann er Lutuvald heitir. Tekur hann sér þar náttstað og setur sitt tjald og býst til svefns. Hann heyrir nú bresti stóra og skræki mikla. Gengur hann þá út og sér að eldur brennur í fjallshlíðinni. Tekur hann nú vopn sín og gengur eftir hljóðunum og er hann kom að grjótskriðu einni sér hann hvar fer einn flugdreki og hefir dýrið óarga í klóm sér og hefir fest þær í bógum dýrsins. Og er drekinn beinir flugin heldur dýrið sér í eikurnar og verður þá allt upp að ganga og fara þeir með þessu upp í fjallshlíðina og nú kemur Vilhjálmur að og höggur til drekans og kemur á lykkjuna er hann hafði vafið um dýrið og tók þar í sundur. Drekinn steyptist þá áfram og gaus eldur úr nösum hans og munni en Vilhjálmur hjó nú á háls drekanum iij högg áður af tók höfuðið. Síðan hjó hann af hremsur drekans við bógunum dýrsins en það skreið að Vilhjálmi. Hann gekk nú þangað sem eldurinn brann og kemur að bóli drekans og var þar mikið gull og iij ungar mjög stálpaðir og drap Vilhjálmur þá og tók slíkt af gulli sem honum líkaði. Fór síðan til tjalds síns. Dýrið fylgdi honum og skildi aldrei við hann meðan það lifði. Dvaldist hann þar nokkurar nætur og græddi dýr sitt. Eftir það bjóst hann þaðan og stefnir út að hafinu.
14. Þá er Vilhjálmur kemur út að Njörvasundum kemur hann eitt kveld úr mörkinni fram. Sér hann þá fagrar grundir og höfn væna. Þar fljóta á xv skip glæsileg með gylltum veðurvitum en á landi var langtjald með dýrum vefjum. Þóttist hann skilja að þar mundi mikilhæfir menn fyrir ráða. Hann sté af baki úti fyrir langtjaldinu. Varðmenn heilsuðu honum en hann spurði hvað höfðingi þeirra hét en þeir kváðu hann heita Reginbald þann kalla Norðmenn Rögnvald og var son Kirjalax kóngs af Miklagarði er öðru nafni hét Mikel. Reginbald sat þá yfir borðum. Vilhjálmur gekk þá inn í tjaldið og kvaddi kóngsson kurteislega. Reginbald tók honum blítt og spurði hvað manna hann væri. Hann kveðst Vilhjálmur heita og vera kynjaður af Englandi “en sum ætt minn er við Rín”. Reginbald bað hann vera vel kominn og hvílast þar og segja þeim tíðindi. Vilhjálmur kvað sér vel hafa til borið ef þeir vildu flytja hann út yfir hafið. Var nú tekið af hesti hans en Reginbald skipaði honum til sess. Vilhjálmur kallaði dýrið til sín en það lagðist fyrir fætur honum og sýndist mönnum sá gestur óhýrlegur. Reginbald spurði hversu lengi dýrið hefði honum fylgt en Vilhjálmur sagði að það hefði honum lengi verið eftirlátt “og þótti það mikið á um minn hag þá ég var í mínu landi að ég þótta ekki vel hugaður og vildu höfðingjar því eigi hafa mína þjónustu. En dýr þetta gjörir mér mikinn styrk ef nokkurir vilja mér í mót gjöra og verður það að flytja með mér því að ég hefi nóga peninga að gefa undir okkur en það gjörir öngum vónt utan sjálfur valdi”. “Eigi mun ég skip meta við þig,” sagði Reginbald, “og ólíkur ertu til þess að þú sért huglaus og eigi mundi dýr þetta lítilmenni fylgja”. Dvaldist Vilhjálmur þar um nóttina.
15. Um daginn eftir spurði Reginbald hversu við vissi um ferð Vilhjálms en hann kveðst vildu kynna sér siðu höfðingja fyrir utan hafið. Þá spurði Vilhjálmur hversu við vissi um ferð Reginbalds en hann kveðst hafa heimt skatt föður síns í Spania og sagði að veður gengi þeim lítt í hag. “Höfu vér legið hér hálfan mánuð.“ Nú komu varðmenn inn og sögðu að skip sigldi á höfnina. Gengu menn þá út og sáu að lx stórskipa voru komin á höfnina og ij drekar stórir sem drómundar. Þessir kasta bryggjum á land og setja herbúðir. Sáu þeir að þessir mundu miklir fyrir sér. Voru þeir ólíkir öðrum mönnum að vexti og vopnabúningi og er þeir höfðu um búist var mjög á liðinn dagurinn. Nú ganga tólf menn frá herbúðum miklir vexti og bar þó einn langt af öðrum. Þeir gengu í tjald Reginbalds. Hinn mikli maður kvaddi kóngsson. Hann tók kveðju hans. Komumaður mælti: “Ég var sendur til yðvar af ij kóngssonum. Heitir annar Artimund en annar Armidon. Þeir eru synir Arkilaus kóngs hins ríka er ræður fyrir landi því er Jerikon heitir. Það liggur til austurs frá Blálandi. Þessir kóngssynir eru hér komnir og báðu að þér skylduð á morgun koma til þeirra og gefast viljugir í þeirra vald. Er þeim og sagt að þú eigir eina fríða systur og hefir Artimund ætlað sér hana eður hafa við hönd sér en Grikkland ætla þeir sér og ei sæta þeir hæru karlinum föður þínum og eigi megi þér standast þeirra herna. Hafa þeir unnið Sikiley og Bláland og kúgað stólkónginn í Babýlon. Nú segið hvað yðvar vilji er.” Kóngsson svarar: “Sköruglega flytur þú þitt erindi eður hvert er nafn þitt.” “Landres heiti ég,” sagði hann. “Því vilja kóngssynir gjöra mér svo harða kosti?” sagði Reginbald. “Öngum munu betur bjóða,” sagði Landres. “Seg það þínum höfðingjum “sagði Reginbald “að þeir skulu finna mig á morgun og eigi svo auðveldan sem þeir mæla til. Mun sá verða skilnaður vor að þeir krefja ekki oftar minnar þjónustu. Hræðumst ég lítt þeirra liðsfjöld því að auðnan ræður sigrinum.” Fer Landres nú burtu og finnur sína höfðingja og segir þeim svo skapað. En þeir létu vel yfir.
16. Nú tekur Vilhjálmur til orða og mælti: “Mjög þótti mér þér missýnast kóngsson að þú tókst eigi þau boð sem þér voru boðin og væri ráðlegra að leita um sættir með yður.” “Fyrr skal falla hver um annan,” sagði kóngsson, “en ég flýja eður friðar biðja.” “Það sé ég að far það sem þér veittuð mér verður mér að lítilli hjálp,” sagði Vilhjálmur. “Byrjar þú þessa styrjöld að ég voga eigi nærri að vera.” Nú tóku menn að hlæja og sögðu að betra væri að drepa hann. Reginbald mælti: “Látum hann fara. Á hann oss ekki gott að launa.” Reið Vilhjálmur nú í skóginn og fylgir dýrið honum. Reginbald bað sína menn vera búna snemma um morguninn. “Skulu vér ganga á brekku þá sem er fyrir ofan búðir hermanna. Skulu vér eigi bíða áhlaups þeirra og látum valslöngur ríða að þeim.” Breyta þeir nú öllu sem Reginbald skipaði. Fylkir hann nú liði sínu um nóttina og skipar hverjum þar sem vera skal. Ganga þeir nú gegnt herbúðum og biðu þar dags. Dagsbrúnin horfði svo við að víkingar áttu að sjá í móti henni og er dagur rennur lætur Reginbald ríða grjót og valslöngur á herbúðir og vakna víkingar við illan draum. Nú biðja þeir bræður að skal blása í lúðra og vopnast nú herinn og er sett merki upp. En áður þeir voru búnir voru niður brotnar herbúðir og drepið margt manna. Lustu þeir nú upp herópi og gengu upp á brekkuna. Sáu víkingar mjög illa á mót dags brúninni. Varð nú mannfall mikið af víkingum meðan sem myrkvast var en er birti komust þeir upp á brekkuna. Var þá öngum aðsóknar að frýja. Landres bar merki þeirra bræðra og var heldur stórhöggur en þeir bræður fylgdu merkinu. Var öngum lífs að vænta þeim sem fyrir þeirra höggum varð. Féllu nú menn Reginbalds með góðan orðstír. Daníel hét merkismaður Reginbalds. Hann var góður riddari og aldrei hafði hann sínu sverði svo fram höggið að ei yrði manns bani. Reginbald fylgir honum vel og var þar æ sem mest var mannraun og báðar hendur hafði hann blóðugar til axla. Armidon sér nú hvar Reginbald fer og eirir honum það illa og ríður í mót honum.
17. Vilhjálmur heyrir nú gný til orrustunnar þar sem hann er og kemur í hug að gott mundi að reyna sverð sitt. Brynjar hann sig og sverð hefir hann í hendi og ríður til orrustunnar. Nú gengur Landres vel fram og drepur allt það sem fyrir verður. Daníel snýr í mót honum og er þeirra viðskipti allhraustlegt. Landres höggur enn mikið högg til Daníels í skjöldinn og klauf hann að endilöngu en oddurinn nam kviðinn og rysti sundur. Daníel hjó til Landres og kom á höndina og tók af í úlfliðnum, féll merkið á jörð. Vilhjálmur kom nú að og stendur ekki kyrr, hann vísar fram dýrinu, það hljóp að Landres og festi sínar klær undir hans viðbeini og reif hann sundur svo inniflin féllu á jörð. Vilhjálmur snýr að Artimund hinum sterka, hann hafði nýdrepið einn kappa, hann hjó til Vilhjálms, hann kom fyrir sig skildinum og stökk sverðið út af og kom á háls einum manni og tók af höfuðið. Þrír kappar hjuggu senn til Vilhjálms en hann klauf þann í herðar niður sem fyrir honum var, en dýrið sló annan til dauðs með halanum. Laust það á skjöld Artimund og brotnaði hann í stykki. Vilhjálmur sveiflaði sverðinu á háls þeim sem honum var til hægri handar og tók af höfuðið en sverðið kom á hönd Artimund og tók fyrir neðan olbogann þá vinstri, en Artimund hjó til Vilhjálms í hjálminn og bilaði ei. Þó var höggið svo þungt að Vilhjálmi lá við óviti og féll blóð af hans munni og nösum, og nú hjó Vilhjálmur á þverar herðarnar á Artimund og tók hann sundur, féll hann nú dauður á jörð. Þetta högg hræddust allir og þorði engi mót honum að ríða, en dýrið drap allt það sem fyrir því varð.
18. Þar tökum vér nú til sem Armidon ríður mót Reginbald. Þó hafði Reginbald ærið að vinna þar tveir kappar sóttu að honum. Reginbald hjó á öxlina öðrum svo frá skyldi síðuna. Þurfti hann ei meira. Assus hjó í skjöld Reginbalds svo að festi sverðið. Reginbald hjó af honum báða fæturna fyrir neðan hnéskelina. Reginbald hjó á hönd Armidon og hraut sverðið niður. Síðan fékk hann bana, voru nú dauðir allir höfðingjar. Þeir Reginbald og Vilhjálmur hröktu hina sem eftir voru og drápu þá svo ekkert stóð við þeim. Átti Reginbald sigri að hrósa. Var nú komið kveld og ríða þeir til herbúða, var enginn nálega ósár nema Vilhjálmur og Reginbald. Reginbald tók í tauma á hesti hans og leiddi fyrir sitt langtjald og þakkaði honum liðveislu og kveðst honum lífgjöf eiga launa. “Vissa ég að þú mundir ei svo blautskreiður sem þú lést og aldrei skal ég þér bregðast.” Vilhjálmur kveðst það með þökkum taka vilja. Voru nú bundinn sár manna og sváfu af um nóttina, en að morgni könnuðu þeir skip víkinga, tóku skipin og herfang allt og skiptu með sér, lágu þar mánuð áður færir voru. Síðan sigldu þeir burt. Hafði Reginbald orðið að fá sér menn og fóru með öll skipin. Sigldu síðan heim til Miklagarðs og skyldu þeir Vilhjálmur hvorki sæng né sess. Þóttust borgarmenn ei vita hvör vera mundi. Bar þá brátt að. Var kóngi sagt að son hans væri heim kominn, var nú lokið upp Stólpa sundum og sigldu þeir inn á höfnina. Gengu allir móti kóngssyni. Skorti nú ei gleði í Miklagarði, var nú básúnað í hvörjum turni. Var nú fagnafundur með kóngi og syni hans. Þóttist hann nú hafa heimt hann úr helju. Hafði kóngur spurt að þeir bræður höfðu leitað að Reginbald en vissi ei hvörninn farið hafði. Fagnar nú hvor öðrum en enginn gáir að Vilhjálmi. Leiðir keisarinn son sinn í höllina og setur hann í hásæti hjá sér. Það er nú af Vilhjálmi að segja hann leiðir hest sinn af skipunum og fylgir dýrið honum. Leggur hann söðul á sinn hest og herklæðist, ríður svo til borgarinnar. Hann sér margar ágætar hallir, einn turn sá hann miklu fegri en önnur hús. Sá hann og einn vaktara þar við, þann drap hann og reið að kastalanum, var hann opinn, hann sté af baki og gekk inn, og dýrið með honum. Þar sá hann níutigir meyja og margt fólk annað og var það að máltíð. Eina mey sá hann þar svo fagra að aldrei hafði hann fegri séð. Hræddust þær dýrið, kóngsdóttir mælti: “Set þig niður góður drengur og seg oss tíðindi en ábyrgst þig sjálfur, því ókunnugum leyfist hér ei inn að ganga.” Hann sest niður á einn stól. Jómfrúin spyr hann að nafni. Hann segir henni það og fósturland sitt. “Með hvörjum fórstu hingað yfir hafið?” “Með Reginbald,” sagði hann. “Ertu hans góður vin,” sagði hún. “Vel gjörði hann til mín,” sagði hann. “Eður með leyfi vil ég spyrja ertu Astrinómía kóngs dóttir?” “Já,” sagði hún. “Hvað merkja þessar steyngur og manna höfuð á?” Hún sagði: “Það eru höfuð af þeim sem orloflaust hafa hér inngengið, en sumir hafa mín beðið, og er þetta þeim gjört móti mínum vilja.”
19. Nú er Reginbald kominn í hásæti og saknar Vilhjálms. Hann spurði sína menn hvar hann væri en enginn kunni honum það segja. Stökkur hann nú undan borðum og menn hans, leitar Vilhjálms og finnst ei. Er Reginbald nú hinn reiðast. Í þessu kemur geldingur sá er geyma átti kóngsdóttur segjandi: “Ó herra mikil stórtíðindi hef ég yður að segja, maður svo stór sem tröll er kominn í turn til dóttur þinnar, honum fylgir óarga dýrið.” Kóngur biður sína menn herklæðast og drepa þenna mann. Hlaupa menn til vopna, er nú blásið herblástur. Nú heyrir Reginbald gnýinn og biður menn sína herklæðast og vitja sín í kastalann. Þeir gjöra nú svo sem þeim var skipað. Nú heyrði kóngsdóttir herblásturinn og mælti til Vilhjálms. “Eigi er nú vel orðið,” sagði hún. “Nú er faðir minn viss orðinn að þú sért hér kominn og haf þig í burt sem harðast því ekki megum vér þér gott veita þó vér vildum.” “Eigi munu þeir drepa mig saklausan,” sagði Vilhjálmur. “Nógar munu þeir sakir kalla,” sagði hún. “Það skaltu sjá mega,” sagði Vilhjálmur “að ég skal eigi yfir gefa mig að öllu óreyndu.” “Eigi mun þér jafnleikis unnt vera,” sagði kóngsdóttir. “Vel er þó svo sé,” sagði Vilhjálmur og þakkaði hann henni sínar tillögur og gekk úr kastalanum og til hests síns. Í þessu kom Reginbald þar og mælti svo til Vilhjálms: “Fyrirlát mér hversu ég skilda við þig í ókunnu landi og eigi er nú vel orðið að þú ert orðinn fyrir reiði föður míns fyrir það að þú hefir farið í kastala hans dóttur og drepið hans varðmann. “Það munda ég vilja,” sagði Vilhjálmur, “að dýrt keypti þeir mig áður þeir fengi mig sótt.” Nú kemur kóngur með sína menn og spyr hvar það arma fól væri að svo mikla óhæfu hefði gjört að ganga í turn hans dóttur utan orlofs. “Hér máttu þann sjá,” sagði Vilhjálmur, “og ef það er saknæmt þá fáið til iij af yðru liði í móti mér og mínu dýri. En ef þér viljið vinna mig með liðsfjölda þá mun ég öngan spara á meðan ég get upp staðið.” Reginbald mælti til kóngs. “Góði faðir,” sagði hann, “gef þessum manni upp reiði þína því að honum var þetta óvitandi en ég á honum gott að launa því hann gaf mér líf í Njörvasundum þá ég börðumst við þá bræður.” “Bið eigi þess Reginbald,” sagði kóngur, “að vísu skal hann dauðan fá fyrir sína djörfung.” “Áður þér fáið sótt hann,” sagði Reginbald, “þá verður það margs manns bani.” Í þessu komu menn Reginbalds alvopnaðir. Reginbald brá þá sverði sínu og hjó Rekteus gelding kóngs er Vilhjálm hafði rægðan og fékk hann þegar bana og sagði að svo skyldu fleiri fara ef þeir vildu Vilhjálmi mein gjöra. Kóngur svarar þá: “Mikið kapp leggur þú á að veita þessum manni lið. En eigi mun ég það til hans vinna að berjast við þig þóttú virðir mig nú lítils og það hugmóð sem hann hefir okkur gjört. Tak hann nú á þitt vald og gjör til hans sem þér líkar.” “Eigi líkar mér” svarar Reginbald “nema þið séuð vel sáttir og þú haldir hann jafnkæran sem mig.” Kóngur bað hann því ráða. Var Vilhjálmur nú í sætt tekinn. Lögðu nú allir af vopn sín og gengu til hallar og sat Vilhjálmur hið næsta Reginbald og var veisla góð og kom hann sér snart í kærleika við kónginn.
20. Vilhjálmur dvelst þar nú það sem eftir var ársins. Svo var mikill kærleikur með þeim Reginbald að þeir máttu aldrei skilja og jafnan gengu þeir í kastala kóngs dóttur og sagði Vilhjálmur þeim systkinum í trúnaði hver nauð honum var á höndum. Reginbald beiddi systur sína að hún skyldi allan hug á leggja að leggja honum góð ráð ef hún kynni og téði fyrir henni hversu mikið hann átti Vilhjálmi að launa fyrir þann drengskap er hann sýndi honum í Njörvasundum. En hún sagðist það gjarna skyldu gjöra fyrir síns bróður skuld. Jafnan var Vilhjálmur á tali við jungfrúna þótt hennar bróðir væri eigi hjá því að hann átti heimil göng í kastalann þegar hann vildi. Var hann svo vinsæll í kóngs garði að hann átti öngan öfundarmann. Eitt sinn talaði Vilhjálmur við kóngsdóttur. “Svo líður tímum frú,” sagði hann, “að eigi mun mér gjörast setu efni og mun ég eigi í sama stað mega vera á lengdar ef ég skal mínum erindum af stað koma. Er nú mestu komið sumar og ætla ég þá burt. Því vil ég nú vita hver ráð þú leggur á með mér.” Astrinómía svarar: “Þitt ráð stendur með mikilli hættu en ef ég vissa yður satt að segja þá skylda ég yður einskis dylja. En það er ráð mitt að þú stefnir héðan til Egiptalands og þaðan vestur í Afríka svo til Libíalands. Það land er vítt og illt yfir ferðar. Sjaldan er þar stór héruð saman. Þar eru langir eyðiskógar mýrar og há fjöll og mikil stöðuvötn. En er þú kemur út yfir mörkina þá skaltu snúa til útsuðurs að hafinu og muntu þá finna eyðiskóg svo langan að þú munt vera á honum viku. En þá kemur þú til þeirrar borgar er Trekt heitir. Þar ræður sá kóngur er Katon heitir. Þaðan skaltu ríða á fjall það er meir veit til suðurs. En þá þú hefir riðið það iij daga þá muntu koma að dal nokkrum. Þar mun skógur mikill og mun þá liggja af brautinni launstigur nokkur til hægri handar. En að kveldi dags muntu finna hús mikið vel gjört. Þar væri ván í fóstru minnar og heitir hún Ermlaug og er hún marga hluti vel kunnandi. Hún var gift og hvarf maður hennar burtu og fór hún því úr borginni Trekt að hún vildi vera ein um sitt þaðan í frá. Henni skaltu bera kveðju mína og fær henni fingurgull þetta og seg henni mín orð til að hún leggi allan hug á þína nauðsyn því að eigi veit ég þann mann að ég treysti betur að leysa þitt vandræði og kunnugra muni vera til þeirra hluta margra sem dult er fyrir alþýðu. En gæfa þín mun ráða hvort þér verður afturkomu auðið eður eigi. En ef þú kemur aftur þá minnstu mín ef þér þyki mínar tillögur nokkurs góðs verðar. Því að mig væntir þess að ég muna þurfa þín þá eigi minnur en nú þarftu mín.” Eftir það skilja þau tal sitt og sagði hann nú Reginbald fóstbróður sínum hvað þau höfðu talað og svo það að hann ætlar nú í burtu. Reginbald bauð að fara með honum eður hafa svo marga menn sem hann vildi en hann kveðst einn fara skyldu og þessu næst tók hann orlof af kóngi og kóngs dóttur og bað hana vel lifa og bað hvort vel fyrir öðru. Síðan bað hann vel lifa alla borgarmenn og hryggðust allir við hans burtför en þó einna mest kóngsdóttir en Reginbald fylgdi honum hundrað mílna burt af staðnum. En við þeirra skilnað mátti engi vatni halda.
21. Nú fer Vilhjálmur fyrst til Egiptalands og síðan vestur í Afríka og síðan til Libíalands og fer eftir öllu því sem kóngsdóttir gjörði ráð fyrir. En er hann kemur í þann eyði skóg hinn mikla sem ystur er í Libíalandi og á þeim skógi var hann xl daga og þoldi mörg vandræði af ofsókn grimmra villidýra. Eitt sinn kom hann að miklu stöðuvatni og vissi hann eigi gjörla hvert hann skyldi snúa og ríður lengi með vatninu og snýr meir til suðurættar. Þá sér hann að mjókkast vatnið í einhverjum stað og kemur honum í hug að eigi mundi annað vænna en leggjast á vatnið. Því tekur hann sín herklæði og býr um sem laglegast og bindur upp á sinn hest en farangur sinn hefir hann á dýrinu. Síðan kastar hann sér á vatnið og hefir snæri á hestinum og á handlegg sér. Dýrið leggst þegar fram fyrir þá og verður hesturinn nú harður mjög á sundinu svo að Vilhjálmur sér að sú mun stundin styttri er hann fylgir þeim. Því dregur hann sig nú að hestinum og fer á bak honum og lagðist hesturinn þá miklu harðara en áður. En er eftir var fjórðungur vatnsins þá kom upp trjóna mikil og hræðileg og því næst ormur allt framan að bægslum. Vilhjálmur hafði þá engi vopn. En hesturinn steypti sér í kaf en Vilhjálmur fór af baki og hljóp upp á bak orminum en hann braust um fast og urðu boðaföll mikil og frýsti eitri. En ekki mátti það saka Vilhjálm því að hann var á baki orminum. En skinn þau sem Astrinómía hafði gefið honum skýldu honum bæði við kulda og eitri. Ormurinn rétti nú út langa tungu og krækir henni til Vilhjálms en hann grípur vinstri hendi í hana en hinni hægri hendi brá hann tygilknífi er Astrinómía hafði gefið honum og þó að hann væri lítill beit hann þó vel og sker hann nú tunguna ormsins svo mikið sem hnífurinn tekur. Dýrið sér nú hvað títt er og leggst að þeim og lýstur sínum hala á nasir orminum og var það högg svo mikið að ormurinn missti vitið og flatmagaði og fór Vilhjálmur þá í kaf en dýrið færði klærnar fyrir brjóst orminum og reif hann á hol. Þá kom upp hestur Vilhjálms og lagðist hann að honum og tók í söðulbogann en hesturinn lagðist svo hart að Vilhjálmur þurfti alls að kosta ef hann skyldi geta haldið sér og vonu bráðara komust þeir að landi. Vilhjálmur sér nú út á vatnið að dýrinu tekur að daprast sundið en hann vill eigi lifa ef það deyr og því leggst hann út á vatnið og vill hjálpa dýrinu. Hesturinn hleypur þegar út á vatnið og koma þeir báðir jafnsnemma að dýrinu. Vilhjálmur kemur snæri á dýrið og snýr síðan til lands en dýrið grípur tönnunum í tagl hestsins og leggjast nú að landi allir samt og var eigi langt að bíða áður þeir kenndu niður og komu því næst á land og urðu nú að hvílast. En þá þeir voru hvíldir tekur Vilhjálmur hest sinn og ríður upp á mörkina. Kemur hann nú í einhverjum stað í skóginum þar sem honum þykir vænlegast að hvílast um nóttina. Voru þar eikur háar og stóðu nokkuð hallar og vill hann þar um sig búa en dýrið rennur burtu nokkuð svo og finnur einn hellisskúta og teiknar Vilhjálmi til að hann skyldi þangað fara og svo gjörir hann, sleppir hesti sínum á gras en dýrið tekur í taum hestsins og leiðir inn í hellisskútann. Þykist Vilhjálmur nú vita að dýrið veit gesta ván hversu góðir sem eru. Því fer hann í sín herklæði og vill búinn bíða en er sólin var undir genginn heyrir hann dunur miklar. Sér hann þá hvar fram úr skóginum kemur einn mikill fíll. Svo mikil var hæð hans að hann bar jafnhátt skóginum. En er hann kom að eikunum hvessti hann augun og reisti eyrun og skimaði víða og gekk í kringum þær og gekk síðan eftir sporunum er lágu til hellisins. En er Vilhjálmur sér það þá hefur hann sig upp á bergið yfir hellinn og er fíllinn sér hann emjar hann grimmlega og hleypur að hamrinum en Vilhjálmur stóð eigi allframarlega. Því réttir fíllinn sitt höfuð og háls upp að honum og vildi svelgja hann en hann bar sínu sverði Samiron og setur á trjónu dýrsins svo af tók hinn efra kjaptinn. Leonið hleypur nú út úr hellisskútanum og stökkur upp og greip í nára dýrsins því að þar er lítið hár á fílnum. Leonið reif hann á hol svo iðrin féllu niður á jörð en eigi gafst fílinn að heldur. Snýst hann þá við dýrinu og vildi gjarna bíta það en þá voru af hinar efri tennurnar en vígtenn þær sem voru í hinum neðra kjaftinum festi hann í brjósti dýrsins og brá hann því á loft. Hesturinn hljóp nú út og slær sínum eftrum fótum utan á legg dýrsins svo í sundur stökk beinið en með því að fíllinn treysti mjög á fótinn þá hallaðist hann mjög eftir. Þá kom Vilhjálmur að með sína burtstöng og lagði á síðu fílinum og féll fíllinn þá til jarðar og skalf þá allt en leonið varð laust. Lét Vilhjálmur nú skammt höggva í milli og drap þar fílinn. Gjörði hann sér síðan náðir um nóttina. En um morguninn sníður hann sundur fílinn og reisir upp hans hinu bestu bein og lætur skína enn tennur fílsins hafði hann með sér. Ríður síðan burt af skóginum. En á hinum fimmta degi þaðan sér hann borg sterka og ei mjög mikla. Þar þykist hann kenna Trekt er Astrinómía hafði honum til vísað og ríður hann þangað um kveldið og tekur sér þar náttstað og dvelst þar nokkurar nætur.
22. Vilhjálmur er nú kominn í borgina Trekt. Hann var svo vel skiljandi að hann kunni allar tungur að tala og þurfti hann hvergi túlk. Hann spurði borgarmenn hver herra væri borgarinnar en þeir sögðu að hann hét Katon og hefði horfið burt fyrir nokkurum vetrum og vissi engi hvað af honum var orðið og tólf mánuðum síðar hvarf hans ráðgjafi er Ísakar hét og hefir til hvorkis þeirra spurst síðan. Hefir Vilhjálmur nú frétt af hvert Ermlaugar væri að leita og kunni honum það engi maður að segja en þá hann fer í burtu stefnir hann á fjallgarð þann sem Astrinómía hafði honum fyrir sagt og ríður uns hann finnur þann launstig sem honum var til vísað. Og hafði hann nú í burtu verið ij vetur af Englandi og það hins þriðja ársins sem þá var komið og voru þá x vikur til ára skiptis. Nú sér hann hús mikið í skóginum og þykist hann nú kenna hvar hann er kominn og ríður nú til hússins og stígur af hesti sínum og gengur til hurðar og sprettir á sprota. En litlu síðar var hurðu upp lokið og kom þar kona í blárri heklu og hvít um höfuðið. Hún var væn að sjá í andliti og nokkuð dapureygð. Hún heilsaði þeim sem kominn var og spurði hann að nafni en hann sagði til hið sanna. “Það skil ég,” sagði hún, “að þér eru eigi vegir kunnugir. Eður hefir nokkur vísað þér til fundar við mig?” “Eigi vissa ég þín vonir,” sagði hann, “í þessum skógi ef mér hefði engi til vísað eður viltu gjöra mér greiðskap í nótt?” “Ei er hér gestkvæmt,” sagði hún, “og mun illa sama að vísa þeim frá húsum sem til koma allra helst ef þeim er ókunnugt. En héðan er þó hvergi skammt til byggða en eigi líst mér förunautur þinn friðlegur.” “Meinlaus skal hann öllum,” sagði Vilhjálmur, “ef eigi veldur sjálfur um”. Hún bað hann vel kominn vera og skipar mann til að taka af hesti hans. Gekk hann nú inn með henni. Fátt var þar manna. Meyjar voru þar nokkurar og sátu að saumum. En að kveldi voru laugar fram bornar og gekk Vilhjálmur til borðs. Húsfreyjan var hin kátasta. Vilhjálmur spurði hana að nafni en hún svaraði: “Það grunar mig,” sagði hún, “að einhver hafi kynnt þér til um nafn mitt eður hvar komst þú að gulli því sem þú hefir á minnsta fingri?” “Eigi ætla ég að þér þurfi allt að segja,” sagði hann, “en Astrinómía dóttir kóngs af Grikklandi bað mig þetta gull færa þér en síðar mun ég segja þér hvað að erindum er.” “Sæll sé fóstra mín,” sagði hún, “en það veit ég að nokkuð býr undir það henni þykir mikils vert og væri það skylda mín að gjöra fyrir hennar skuld hvað ég mætti.” En er máltíð var lokið fyldi hún Vilhjálmi til sængur og var honum mál hvíldar því að hann hafði lengi eigi miklar náðir haft. Lá Ermlaug lengi á hans sængarstokki og spurði að fóstru sinni en hann sagði henni af hið ljósasta og sýndi henni jarteignir kóngs dóttur að hún skyldi honum við hjálpa og allan hug á það leggja. “Skylda mín væri það,” sagði Ermlaug. “En þó ætla ég að óhægt sé til úrræða og munu við sofa fyrst í nótt.” Tók Vilhjálmur nú á sig náðir en að morgni vaknaði hann. Ermlaug var þá upp staðin og var hin kátasta og bað hann dveljast þar um daginn til skrafs og ráðagjörðar.
23. Þar dvaldist Vilhjálmur viku og voru þau Ermlaug jafnan á tali og spurði Vilhjálmur hana eftir hvað hún kynni honum til að segja hvert hann skyldi stefna að leita að tröllum þeim sem þraut hefði fyrir hann lagt eður hvar það land væri er Eirs heitir. “Er mér er sagt að faðir minn muni í vera.” Hefur nú upp alla sögu og segir henni allt sem fyrr segir um sinn hag. Hún mælti: “Þungar dagleiðir hefir sá fengið þér er þetta lagði fyrir þig verður og engi ágætur af öngu. En þó er þér í meira lagi til dauða stefnt en ég mun segja þér. Héðan frá byggðum mínum munt þú ríða þrjár vikur. Þá verður fyrir þér móða mikil svo ófært er yfir bæði skipum og hestum, en fyrir utan móðuna liggur land mikið það heitir Eirs, það er svo komið nærri sólarsetri að þar verður aldrei bjartara en þar sér stjörnur um miðjan dag. En þá þú kemur á það land utanvert sér þú blómlegt land með grösum og alldentriam og um miðnætti skín þar sól þá annarstaðar í heiminum er dagur sem stystur, því þá er þessi hlutur heims í skugga jarðarinnar og þykir þó sem til sólarinnar sé að sjá niður fyrir sig. Það land girða hamrar við sjáinn svo þar má hvorgi skipum að leggja og hvorgi á landið upp komast nema í einum stað, og er þar þó nokkuð torfelli, en þetta land er svo kostulegt og gagnauðugt að varla finnst slíkt. Þar ræður fyrir kóngur sá er Herkúl heitir og kallaður er hinn sterki, hann er svo mikill kappi að ei veit ég hans líka. Yfir hálfu landinu hafa vald tröll og ei minna en sjálfur fjandinn í helvíti, í einum hellir eru níutigir trölla, þau eru stærst af öllum þeim kindum sem þar eru, en engi maður veit nöfn þeirra, og þar er falið í fjör þeirra ef nokkur maður kann að nefna þau öll en þar stendur sú spá að einn kóngssonur af Englandi muni geta sigrað þau. Síðan gjörðu þau kaup við Herkúl kóng, hann átti gullhring svo góðan að enginn finnst slíkur í allri veröldum og skyldi móðir tröllanna fara norður í England og vinna son kóngs í tafli af föður sínum í móti hringnum. Herkúl kóngur átti steinhús mikið og stóð það við landamerkin, og ef tröllkonan léti hringinn, þá skyldu tröllin fylla gullhúsið og gjöra kóngi veislu hvorn nýárs dag þar til húsið væri fullt og gefa honum góðar gjafir og sæmilega gripi, en kerling kom svo aftur að hún hafði látið hringinn. Síðan tóku tröllinn það ráð að þau stálu kóngum burt úr norðurálfunni og lögðu á þá gjald að þeir skyldu fylla steinhúsið, og eru þeir þar í haldi þar til fullt er steinhúsið. Þau sóttu Ríkharð kóng norður í England, og hygg ég hann sé faðir þinn. xiiij kónga hafa þau sótt og er það þeirra iðja að þeir hafa hvorn dag skinnleik þegar borð er ofan. Allir kóngar lúka skatt nema Ríkharður kóngur. Hann er svo sterkur að engi stenst honum í leikum og taka hann þrír jafnan en það vinnur hann til lífs sér að hann þjónar tröllum að matborðum og kóngunum. Sá maður er hinn fimmtándi er Ísakar heitir og er með tröllunum, er hann þar annar sterkastur. Sú er hans iðja að hann er steikari tröllanna og vaktar þeim mat og ef hann gjörir ei svo vel sem þau vilja þá er honum litlu betra líf en hel. Hef ég nú gjört þér nokkra ávísan um það sem þú hefur eftir spurt og veit ég ei hvort þú þykist nokkru nær eftir en áður.” “Víst er ég nú fróðari en áður,” sagði Vilhjálmur, “um þá hluti sem mér þykir á liggja. Þyki mér þú ei ólíkleg til að kenna mér nokkur góð ráð þau mér megi til gagns koma því ég er ráðinn í að halda fram ferðinni. Mun ég og þínum ráðum hlýta. Skilst mér það fyrir lengdar sakir vegarins að ei mun tjá í kyrrðum að sitja.” Felldu þau nú talið að sinni.
24. Að morgni dags bjóst Vilhjálmur burt, en er hann er búinn biður hann fólk vel lifa. Ermlaug gekk á veg með honum og mælti svo til Vilhjálms. “Mikil gæfuraun er það sem þú ætlast fyrir en sá er einn hlutur að ég kann þér engi ráð kenna en það er að komast yfir þá miklu á sem á veginum er, því að þeim er öngum lífs að vænta sem ofan dettur í hana en breidd hennar er svo mikil að ei má brúa yfir, en um sjóinn má engi maður fara, því að hvorgi má upp komast fyrir hömrum, en tröllin hvelfa skipum þegar þau líta þau á veginum og er hvorgi fært utan héðan að úr mörkinni, en ef svo kann til að bera að þú komist yfir ána með þínum fróðleika þá muntu koma á fagra völlu og mun þér þá birta fyrir augum, þar muntu sjá hól fagran með allskyns grösum, þangað skaltu ganga. Sunnan í hólnum er einn brunnur með miklum hagleik gjörður og fásénlega um búið. Þangað mun koma hinn sjöunda dag í jólum kona þursins þess er tefldi við þig, þau eiga nú barn á þriðja vetur, það mun hún bera með sér, en það er seinhepplegt en þó almælt. Lág ein er í hvirfli hólsins og þar mun hún rugguna niður setja, en ganga til brunnsins með þvott sinn og dveljast þar lengi. Þú skalt hafa gjört þér gróf niður í jörðina þá hún kemur, og varastu að hún verði ei vör við þig. Síðan skaltu fara þangað sem barnið er, og kom gulli þessu í þess kjaft og bitt þræði þessum um hálsinn á því, en ég mun því valda að engi mun sjá það þó nokkur líti í þess munn og mæl svo, að það æpi og aldrei þagni fyrr en tröllkonan nefnir tröllin öll á nafn þau sem eru í helli hennar, og er þú hefur fest öll nöfnin sem þér líkar, þá flýt þér aftur í grófina og byrg vandlega og haf þráðinn hjá þér þann sem á gullinu er og kipp því til þín þegar þú ert fullnuma í því sem þú hefur heyrt. Far þú nú vel og gangi þér allir hlutir betur en ég kann fyrir að biðja og lát ekki dýrið fara með þér út yfir móðuna en ef þú mættir nokkru umráða vilda ég þú hjálpaðir Ísakar kalli.” Síðan kyssti hún Vilhjálm og fór heim grátandi.
25. Vilhjálmur fer nú leið sína eftir því sem Ermlaug vísaði honum og tekur nú heldur að dimma fyrir augum. Er nú oftast að eiga náttból út undir berum himni og grimmum dýrum, en minnst varð honum grand að þeim, því þá þau sáu ljónið þorðu þau hvorgi nær að koma. Þó er þess getið að einn dag heyrði Vilhjálmur dunur miklar og var það með undarlegu móti, stundum varð dynkur mikill svo að jörðin skalf og var langt á milli en stundu síðar sér hann tvo menn stikla. Þeir voru undarlegir í sköpun, eitt höfðu þeir auga og stóð það í miðju enni, einn var fóturinn og var hann hár mjög og skaptur neðan sem keralds botn, og voru tær umhverfis fótinn, en þá þeir stikluðu með sinni stöng þá var það langur vegur að þeir skræmdust, en hvað sem undir var þar sem þeir koma niður fékk allt bana. Dýrið hristir sig þegar það sér þá og grenjar ólmlega og hleypur þegar í mót öðrum, en hann stakk niður stönginni og stiklaði upp yfir dýrið, en það laust halanum á stöngina svo hún brotnar, en einfætingurinn var þá í loftinu og fékk hann mikið fall er hann kom niður en dýrið hljóp að honum og reif hann sundur. Vilhjálmur sneri í mót öðrum manninum og lagði burtstönginni fyrir brjóst honum en hann stóð svo fast fyrir sem í hamar legði. Vilhjálmur brá nú sverðinu og hjó til hans en hann laust mót stönginni, en sverðið beit betur en hann varði, og tók sundur stöngina og af einfætingi höndina og varð þá minna af hlaupum hans en vant var er skaft hans var sundur. Beiddi hann þá griða. Vilhjálmur spurði hvað hann vildi gefa til fjörlausnar. “Tak þú í eyra mitt hið hægra,” sagði einfætingurinn, “og muntu þar finna stein og ef þú lýkur hann í hnefa þér, sér þig engi maður.” Þetta þiggur Vilhjálmur og skilja við svo búið og ríður nú Vilhjálmur veg sinn og er ei getið að til tíðinda yrði í ferð hans fyrr en hann kemur til hinnar miklu móðu er Ermlaug hafði honum til sagt. Sýndist honum hún torsóttleg og ólíkleg til yfirferðar, var þar og ekki mjög bjart fyrir augum. Reið hann með móðunni tvo daga og sá hann hvorgi líklegt til yfirferðar en þá var hann kominn að dalverpi nokkru, það var mjög skógi vaxið, þar var mjóst yfir ána. Eigi þótti honum skemmra mundi yfir móðuna en nírætt, vel fimmtugt þótti honum sem niður mundi að vatninu þar sem lægst var en fossar voru undir niðri. En þeir hamrar sem fyrir handan ána voru voru svo háir að hann sá varla upp á þá með því að dimmt var og skúttu þeir fram yfir móðuna. Dvaldist hann þar um nóttina en að morgni dags vaknaði hann og hugar hann nú sitt ráð. Hann sér eitt mikið tré standa frammi á árbakkanum. Það var svo hátt að var vel tírætt neðan undir limar en þær voru bæði háar og breiðar. Það tekur hann ráða að hann höggur tréið niðri við rótina, allar þær tágir sem frá horfðu ánni, og var það svo mikið erfiði að hann var að því þrjá daga áður en eikin hallaðist. En er hún tók til að hallast þá létti hann höggva en tágir margar og seigar voru undir þeim hluta trésins sem óhögginn var. Og tók þá eikin að síga og hallaðist hún að björgunum hinumegin og varð þá dykur mikill en svo mikið veður stóð af limum hennar að allt skalf svo að víða hrundu hamrarnir ofan. Dvaldist þar enn um nóttina í þessum stað en að morgni dags var hann snemma á fótum og mælti við dýr sitt: “Nú skaltu hér eftir vera og bíða mín. Hér skulu og eftir vera herklæði mín öll og hestur minn og söðull en sverðið skal ég með mér hafa. En ef ég kem eigi aftur að sumri til fundar við þig þá skaltu leita þér að öðrum husbónda og vísa þeim til vopna minna þyki honum sóma að bera.” Síðan kyssti hann dýrið og grétu báðir hástöfum. Síðan fór Vilhjálmur upp á tréið og var það hættuferð mikil en þó komst hann út yfir móðuna. En þá hann kom í hamrana fyrir utan þá var langt upp á björgin en það hjálpaði honum að limarnar trésins breiddust víða um bjargið og hafði hann mikinn létta af þeim.
26. Nú er Vilhjálmur kominn í það land er hann hefir lengi til langað. Gengur hann nú á mörkina eftir því sem honum hafði fyrir verið sagt. Fór hann svo iij daga að honum þótti mjög dauflegt er hann var nú einn. Tekur honum nú að birta fyrir augum og sér hann nú fagra völlu með ilmandi trjám og alls kyns blóma og kennir hann nú gjörla hvar honum hefir til verið vísað og var nú kominn hinn sétti dagur jóla. Fer hann nú til þess að hann kemur á fyrrgreindan hól og gjörir hann sér gröf eina sunnan í hólinn sem Ermlaug hafði honum fyrir sagt. Næsta morgun eftir var veður bjart og fagurt en er sólin skein sem bjartast sér hann að út úr hólnum þar sem til norðurs vissi gekk ein flagðkona svo mikil að öngva sá hann ferlegri. Hún var eigi svo illa klædd sem hún var ámáttleg að sjá. Undir annarri hendi bar hún ruggu og í sveinbarn ódægilegt en undir annarri hafði hún bryðju stóra fulla með þvott. Hún setti niður rugguna þar sem Ermlaug gat til en hún gekk til brunnsins og lauk honum upp og bar þar á skugga nokkurn. Tók hún nú að þvo línklæðin en Vilhjálmur gjörði allt sem Ermlaug hafði sagt honum fyrir en er gullið kom í munn barninu rak það upp gaul mikið. En er tröllkonan heyrir það hljóp hún til barnsins og naut Vilhjálmur þá steinsins þess er einfætingur gaf honum að kerlingin sá hann eigi og komst hann í gröf sína og huldi sig. En barnið barði bæði höndum og fótum og hrein svo upp að dvergmála kvað í hömrunum. Kerlingin beraði brjóst sitt og bauð barninu að sjúga en það lét þess verr. “Mitt hið elskulega fjör,” sagði kerlingin, “hvað er þér að angri, má ég nokkuð bæta þér, eður er það nokkuð í minni eigu að þú vilt þiggja og leika þér að eður má ég nokkuð það gjöra að þér þyki gaman að? Barnið lét því verr. “Mín hjartanleg ást,” sagði kerlingin, “lát eigi svo illa.” Tók hún þá til að dilla því en það braust úr höndum henni og æddist nú að marki. “Nú skal flengja þig,” sagði kerlingin, “nema þú segir mér hvað þér er.” “Því verr skal ég láta og aldrei þagna,” sagði skækju barnið, “og aldrei upp gefa fyrr en ég ærumst og hér skal ég springa nema þú segir mér til með skýru máli hvað heita tröllin öll í helli okkrum svo greinilega að ekki vanti á.” “Eigi er þér nú sjálfrátt um veslingur,” sagði kerlingin, “en eigi má ég sjá upp á harmkvæli þín eður heyra þessi hinu illu læti þín. En þó læt ég það um mælt að ef sá er nokkur fyrir ofan jörðina að heyra vill að drafni af honum bæði hold og skinn og bráðni svo í sundur sem tjara í eldi og missi bæði minni og við mál og sinnu.” En það kom henni eigi til hugar að sá mundi niðri í jörðunni sem heyra vildi. Því tók hún til og nefndi öll tröllin og varð tvisvar eður þrisvar að tala hvert orð áður barnið þóttist skilja. En Vilhjálmur ristur eftir á kefli hvert það orð sem þau töluðu. En þá þetta var úti þagnaði tröllbarnið. Fór kerlingin þá til brunnsins og lauk af sinni sýslu en síðan fór hún inn aftur í hólinn en Vilhjálmur hafði náð aftur gulli sínu sem Ermlaug hafði honum ráð til kennt. Var Vilhjálmur þar um nóttina en um morguninn var hann snemma uppi og var hann nú óhræddari um sig en verið hafði síðan hann hafði fengið hulinshjálminn. Fer hann nú upp á glugg þann sem á var hólnum og sér inn í hellinn og heyrir allt hvað talað er. Hann sér nú kóngana hvar þeir eru í einum afhelli. Þekkir hann föður sinn og var hann mjög torkenilegur úr því sem hann hafði verið. Vilhjálmur ristur nú á kefli og kastar í kné föður sínum og sagði honum komu sína og bað hann koma sér þar nokkur að honum væri minnstur háski í ef tröllunum brygði nokkuð við þá þau heyrði sín nöfn. “Og Ísakar skaltu með þér hafa og þá kónga sem þú vilt.” Nú sér hann hvar menn riðu. Þeir voru xij saman en hinn þrettándi var svo mikill og sterklegur að Vilhjálmur hafði eigi séð hans líka. En er þeir komu að hólnum var upp lokið hellinum og gengu út ríkis tröllin og báðu kónginn vel kominn og leiddu hann inn í hellinn og settu hann niður og hans menn og var honum gefið að drekka. Tröllin spurðu kóng hvort hann vildi fyrri ganga til borðs eður hafa skemmtan af kóngunum en hann sagði gott að hvílast og sjá hvað þeir kynni að leika. Voru þeir af klæddir og tókst nú upp skinnleikur harður. Sagði höfðingi tröllanna þá að þeir skyldu ekki af spara því að sjá mun leikur yðvar síðastur. “Því að þér hafið nú af hent þá skuld sem á yður var lagin”. Eigi hafði Vilhjálmur séð harðara leik því að áður þeir gáfu upp var engi sá að eigi væri brotið í nokkuð bein en allir voru bláir og blóðugir. En engi hafði við Ríkharð kóngi og veittust kóngarnir að þeim Ísakar og fengu þó verra úr. Og því næst gafst upp leikurinn og fóru kóngar að klæðast. Gengu þeir þá í afhellinn Ríkharður kóngur og Ísakar og sá kóngur er Menon hét og annar Krísedús. Voru þá teknar handlaugar og gekk Herkúl kóngur undir borð.
27. Höfðingi þursanna mælti þá við kóng: “Nú er svo komið,” sagði hann, “að oss mun mál að gjöra reikning vorn. Er nú fullt gullhúsið og stendur nú til yðvara náða hversu þér viljið skipa við kóngana. En Vilhjálmur son Ríkharðs kóngs lofaði að koma hér í dag áður miður dagur væri úti með gullhringinn og nefna tröllinn öll í helli mínum. En ef hann kemur eigi sem hann lofaði þá skal hann þar dauður detta niður sem hann er kominn og skal ég þá nálgast hringinn eður gullið það sem í húsinu er en það hlægir mig að refurinn mun tregur ganga í gildru vora.” En er þeir höfðu þetta að tala var tekið til máls uppi á glugginum og brá þeim mjög við sem inni voru. “Líttu upp leikbróðir og láttu fólk þegja meðan að ég nefni níutigi trölla. Öll skulu þér standa sem stjáki bundinn uns að ég hefi út kveðið allra flagða þulu. Fyrst situr Ysja og Arinefja. Flegða Flauma og Flotsokka. Skrukka. Skinnbrók og Skitinkjafta. Buppa Blætanna. og Belgeygla. Hér er Surtur og Haki. Hrymur og Skotti. Þrymur og Saurkver. Hrotti. og Móði. Glámur og Geitir og Gortanni. Grímnir Brúsi Dröttur og Hausver. Þá er Glossa og Gullkjafta. Gjálp Gripandi og Greppa hin fimmta. Drumba og Klumba og Dettiklessa. Syrpa og Svartbrún og Snarinefja. Slöttur er hinn fyrsti Slangi annar. Hundvís Grubbi og Hraktanni. Slinni og Slangi. Snoðvís Krabbi Iði Auðnir og Angurþjasi. Ora pro nobis. Fenja og Menja. Frusk og Tuska. Hnyðja og Bryðja og Holuskroppa. Flaska Flimbra og Fláskjappa. Eldríður Opingeil Ysporta og Smortur. Sulki Slammi Síðhöttur Hnikar Bjálki Beinskafi Baraxli og Ljótur. Hrungnir Haltangi Hrauðnir Vagnhöfði Stórverkur og Stálhaus. Stritramur og Völsi. Grani Skolli og Griður. Gerður og Fiskreki. Kampa og Kolfrosti. Kjaftlangur og Flangi. Dumbur í dag springi og drepi hvert annað. Illur sé endir áður þér deyið. Þungar hefir þú mér þrautir fengið. Leiður loddari lymskur í orðum. Þú munt sjálfur Svelnir heita. Hefir móðir þín mig um það fræddan. Hrærist heimar hristist steinar vötn við leysist villist dísir. Öll ódæmi æri þursa helveg troði heimskar tröllkonur.” Við þessi orð brá tröllunum svo að hvert þeirra réð á annað og rifust í sundur sem vargar en Herkúl kóngur hratt fram borðunum og hljóp til dyranna og hans menn. Svelnir sló til hans og kom á þann sem næstur honum var og fékk sá þegar bana en kóngur sló í mót til Svelnis og kom hnefinn í augað og sprakk það út á kinnbeinið. En augatóttin var svo djúp að höndin sökk allt upp að olboga og komst kóngur í burt með það en eftir dvöldust fimm af mönnum hans.
28. Nú gjörðist heldur ókyrrt í hellinum, mátti þar heyra brak og bresti. Tók nú jörðin öll að skjálfa og gjörðist þá landskjálfti mikill svo að hellarnir duttu ofan en engi mátti á sína fætur standa. Vilhjálmur gekk ýmist á höndum eður fótum en stundum hraut hann svo langt að honum þótti óvíst hvar hann myndi niður koma en mjög var forbregt til sjóvarins. Jörðin sprakk í sundur og urðu í hana miklar gjár og stórum björgum kastaði langan veg svo að undrum gegndi. Og þessu næst hraut Vilhjálmur ofan fyrir björgin en þar var undir sem hann kom niður fljótandi bátur og var þar í Ermlaug og breiddi hún undir hann möttul sinn og sakaði hann ekki en langa stund var hann í óviti. Ermlaug greiddi þá róður undan landi en því næst sprungu ofan hamrarnir og fylti þá bátinn undir þeim. Tók Vilhjálmur þá að ausa og var heldur mikilvirkur en undur þessi héldust allan daginn og nóttina þar til að dagur rann. Tók það að kyrrast um en þá bjart var sáu þau upp á landið og var þá umsnúin jörðin og mátti eigi þekkja að hin sama væri. Róa þau nú til lands og var þar nú víða uppgangur sem áður mátti hvergi upp komast. Gengur Vilhjálmur nú upp á landið og þangað sem honum þótti líkast til að hellarnir mundu staðið hafa og var þeim öllum umsnúið. Sá hann víða tröllin niður í bjargrifurnar og voru þau dauð. Svelnir var kominn upp úr jörðunni allt að mjöðmum og lá hann áfram og blaðraði tungunni og var mállaus. Vilhjálmur brá þá Samiron og hjó höfuð af honum en síðan gengur hann þangað sem af hellirinn hafði verið og gengur hann þar í niðurgang og fann þar glugg lítinn en hann spurði hvort þar væri nokkuð lífs inni en honum var svarað að eigi varnaði alls um það. Hann spurði hvort þeir vildu í burt þaðan en þeir spurðu hversu hægt það myndi því gluggurinn var lítill. Vilhjálmur tók þá sverð sitt og hjó bergið svo nóg var rúm að draga þau út. Lét hann síðan síga inn snæri til þeirra og dró fyrst upp föður sinn og síðan iij aðra. Hann spurði þá hvað á lífi væri fleira af kóngunum en þeir sögðu að þeir hefðu tapast. Var nú fagnafundur með þeim. Kóngar þeir ij voru af Grikklandi. Hét annar Krísedús hann réð fyrir Dalmaría. Það er hinn sjöundi hlutur Grikklands. Annar hét Menon og réð fyrir Makedónía það er fjórðungur af Grikklandi. Þessa kónga höfðu tröllin sótt. Hinn þriðji var Ísakar maður Ermlaugar en Katon kóngur af Trekt hafði mál sitt og var þó að kominn dauða og gaf hann Vilhjálmi borgina og allt sitt ríki og dó síðan. Bjuggu þeir vel um lík hans. Úr gullhúsinu tóku þeir það af gersemum sem þeim sýndist og vopn skorti þar eigi og bjuggust þeir nú í burt.
29. Þeir sáu nú ríða x menn. Þar þekktu þeir Herkúl kóng og bar þá skjótt saman og voru þeir vel vopnaðir. Herkúl kóngur mælti þá til Vilhjálms: “Þú hinn ungi maður,” sagði hann. “Hvert er nafn þitt eður kyn eður því viltu taka vora peninga og mikinn óróa höfum vér fengið af þinni hér komu því að betur en xv kastalar hafa niður fallið og margan mann höfum vér látið. Nú viljum vér eigi þenna skaða bótlaust hafa. En kóngar þeir sem þú hefir meðferðar eru mínir fangar og eigi vil ég þá missa utan ég fái borgun að þeir leysi sig c punda gulls hver þeirra.” “Ei vil ég leyna þig nafni mínu,” sagði Vilhjálmur “og heiti ég Vilhjálmur en minn faðir er Ríkharður kóngur er nú hefir lengi verið hér með yður eigi vel haldinn og munu það nú hvorir hafa sem fengið hafa og er yður þó í veitt.” “Eigi megum við svo búnir skilja,” sagði Herkúl, “því að þú hefir hring þann á hendi sem mér hefir lengi leikið afturmundur að og muntu vilja leggja hann fram og sé við þá kvittir.” “Eigi mun ég hann með kúgan afleggja,” sagði Vilhjálmur. “Þá skaltu láta lífið með,” sagði Herkúl. “Þá er til að fara,” sagði Vilhjálmur. Síðan tókst þar bardagi. iij sóttu að Menon en ij að hverjum hinna en þeir sóttust ij Herkúl og Vilhjálmur. Og áður þeir gengu saman þá mælti Herkúl til Vilhjálms: “Eigi skaltu þau tíðindi bera heim til Englands að ég hafa hjálm og brynju en þú hvorki” og kastar hann nú hvorutveggju. Ganga síðan saman og berjast og voru viðskipti þeirra allhraustleg og kom hvorgi sári á annan því að þeirra skildir dugðu svo vel að hvorgi bilaði. Eigi er hér greint hver vopna skipti með hverjum voru en Ríkharður kóngur bar fyrst af þeim sem við hann áttu og var hann þá ákaflega móður og svo lauk að allir féllu menn Herkúls. Þá mælti Vilhjálmur: “Röskur maður ertu,” sagði hann, “og eigi fann ég þinn líka fyrr og eigi vil ég berjast við þig lengur.” “Sé ég nú,” sagði Herkúl, “að þú þykist hafa ráð mitt í hendi þér og svo mun fara ef við berjumst til þrautar að minn hlutur verður óskárri. En þó má vera að ég hremmi þig að nokkuru og er það verra fyrir okkur báða en flestir kjósa líf ef kostur er” og síðan lögðu þeir vopn sín.
30. Herkúl kóngur mælti nú til Vilhjálms: “Eigi megum við svo skilja,” sagði hann, “að þér sækið eigi heim byggðir mínar og vil ég bjóða yður til veislu” og nú fara þeir til borgarinnar og var hún bæði stór og sterk og rís þar upp sæmileg veisla. Sendir Herkúl þá men sína að eyða gullhúsið og færa til borgarinnar og skyldu þeir skipta því með sér. Sátu þeir þar viku og hafði Herkúl kóngur þá búið v langskip með góðum drengjum og gaf hann þau Vilhjálmi en drottning hans gaf honum eina skykkju og vissi engi hvað tó í henni var. Hún skipti þrisvar litum á einum degi. Eigi festi eitur á henni og öllum þeim gaf hann góðar gjafir og fylgdi hann þeim nú til skips og að skilnaði gaf Vilhjálmur honum hringinn góða og skildu þeir með vináttu. Sigla þeir nú burt af Jerikon og getur eigi um ferð þeirra fyrr en þeir koma undir auðnir Libealands. Sendi Vilhjálmur þá aftur skipin en hann snýr á merkurnar og Menon kóngur með honum en Ríkharður kóngur og hinir aðrir fara til borgarinnar Trekt og láta þangað færa varning þeirra en Vilhjálmur leitar að dýri sinu og var nú kominn sumardagur hinn fyrsti. Koma þeir nú þangað sem dýrið var og áður þeir komu að heyrðu þeir þvílíkast sem maður æpti. Sáu þeir nú hvar dýrið lá fyrir þeim hellisskúta sem Vilhjálmur hafði búið um vopn sín og skildu þeir að það harmaði sinn herra en þegar það sá þá hljóp það í mót þeim með miklum fagnaði og sáu þeir mikið gleðimót á dýrinu. Vilhjálmur spurði nú hvar hestur hans væri og jafnskjótt sem hesturinn heyrir mál Vilhjálms hleypur hann gneggjandi fram úr skóginum. Þóttist Vilhjálmur nú hafa heimt það sem honum þótti mestu varða. “Mikið er um vitsmuni kvikinda þessara,” sagði Menon kóngur. Þeir sáu liggja í rjóðrinu iij dýr dauð en eigi þekktu þeir þau og voru þau ógurlega stór. Það þóttust þeir skilja að leonið myndi hafa drepið þau fyrir það að þau mundu vilja granda hestinum. Fara þeir nú aftur um hinn sama fjallgarð sem Vilhjálmur hafði áður farið og sýndi Vilhjálmur Menon þar sem hann hafði fallið einfætingurinn og fannst honum mikið um hann. Síðan komu þeir að húsi Ermlaugar og fóru síðan uns þeir komu í Trekt og voru þeir Ísakar þá heim komnir. Sátu þeir nú í náðum nokkura stund og þótti Vilhjálmi nú nokkuð hafa batnað um sinn hag. Sendi hann nú á skóginn eftir beinum fílsins þess sem hann drap og er svo sagt að leggur fílsins væri hálfþrítugur að hæð og voru það gersemar miklar. Gjörir Vilhjálmur nú boð um nálæg ríki þau sem kóngar þeir höfðu átt er tröllin höfðu í burtu numið og lét kunngjöra mönnum hver lok orðið höfðu á ævi þeirra og bað hvern taka það ríki sem til væri borinn og þökkuðu honum nú allir. Gaf hann Ísakar borgina Trekt og það ríki sem þar heyrði til en hann vill fara norður í sitt ættland. Býst hann nú burt og með honum hans faðir Krísedús og Menon og höfðu með sér marga ágæta menn. Að skilnaði gaf Ermlaug Vilhjálmi einn kálk og vissi engi af hverju hann var gjör. Hún bað hann drekka af og hans menn og kvað þá ekki á x dögum sofa þurfa og eigi á göngu mæðast og bað hann heilsa fóstru sinni til Grikklands og kvað sér þó svo hug um segja að eigi mundi enn úti allar hans þrautir. Skilja þau nú með kærleikum og fara þeir nú leið sína til þess að þeir koma til Grikklands í Dalmaría. Það ríki átti Krísedús kóngur og urðu menn honum þar fegnir og látum þá nú dveljast þar til þess að þeir frétta nokkur nýtíðindi.
31. Nú tökum vér þar til máls hvað til hafði borið í Grikklandi á meðan Vilhjálmur hefir í burt verið. Eitt sinn er Kirjalax kóngur hélt mikla veislu og þá menn sátu glaðir og kátir komu xij menn í höllina svo stórir að öngir voru þar slíkir. Sá kvaddi kóng sem fyrir þeim var en hann hét Balabán. Síðan mælti hann svo til kóngs: “Látið hljóð gefa meðan ég ber fram míns herra erindi. Vér erum sendimenn þess kóngssonar er Erkúles heitir. Hans bróðir heitir Errek. Þeir eru synir Arkistratus kóngs af Ermlandi er ræður fyrir hinni miklu borg Níníve er mest er í þeim hluta heims að vexti og fjölmenni. Þessir kóngssynir eru komnir hér við land með fimm c galeiða og c drómunda. Er það þeirra erindi að þú komir á þeirra fund á morgun og leggir þeim í vald yðra kórónu og sjálfa yður því að Erkúles vill þetta land eignast en honum þykir eigi veganda að þér afgömlum. Er honum og sagt að þér eigið fríða dóttur og vill hann eigi svo lægja sinn metnað að biðja hennar en þó ætlar hann sér hana ef hún er svo ágæt sem sagt er og er það undir gæfu hennar hversu honum hugnast hún. Nú megi þér taka til yðvara ráða hvað þér viljið af snúa og látið oss fá vissu um vort erindi og takið þau bestu ráð sem þér kunnið og vil ég eigi ljúga að yður að dauðinn kallar á yður og alla yðra menn ef þér gjörið eigi eftir þeirra boðskap. Og fyrr en sól gengur í ægi hafa þeir bílagt borgina svo ekki manns barn mun burtu komast.” Kirjalax kóngur leit á bekkina og mælti: “Svo lengi hefi ég nú stýrt ríki þessu og hafa aðrir mér þjónað. Hef ég og eigi lært að þjóna öðrum og mun ég eigi læra það á gamals aldri. Og máttu svo segja þínum höfðingjum að ég mun þá finna á morgun utanborgar og fyrri en ég færa þeim sjálfkrafa mína kórónu þá skal engi skjöldur óbrotinn í þessari borg og ei viljum vér heyra orð yður fleiri og verðið burt sem skjótast.” Þeir sneru nú úr borginni og til skipa og sögðu þeim bræðrum svo búið en þeir sögðu að kóngur hafði það kjörið sem nær var þeirra geði. Fluttu þeir nú sínar herbúðir að borginni. Reginbald hafði verið í kastala systur sinnar þá er sendimenn komu. Hann kom nú í höllina og spurði kóngur hvað honum þætti ráðlegast. “Auðgjör eru ráð vor,” sagði Reginbald, “því að þau orð sem kóngur talar eiga eigi aftur að takast. Því skulu vér vora borg upp lúka og ganga út með öllu liði voru. Skal fyrr falla hver um þveran annan en vér flýjum eður friðar biðjum og mun auðnan sigrinum ráða. Myndi Vilhjálmur fóstbróðir minn vilja vera hér nú og búi nú hver sig og sín vopn.” Voru þá boð gjör í allar hálfur og var nú mikið hark í borginni.
32. Þenna morgun snemma þeysti Kirjalax kóngur sitt lið út af borginni og mátti þar sjá margan fagran skjöld og skyggðan hjálm og margan hæverskan riddara þann sem vel og drengilega neytir sinna vopna á þeim degi. Nikanor hét sá sem bar merki Kirjalax kóngs. Hann var hertogi að tign og hinn mesti kappi. Reginbald kóngsson hafði aðra fylking og hét hans merkismaður Samson. Sjá þeir nú herbúðir hermanna og stóðu þær um xv mílur en hafið var þakið af skipum og var þar eigi minni hluti liðs. Nú kveða við lúðrar og var svo mikill gnýr af vopnagangi og hestagneggjan og hvellum lúðurblæstri að jörðin skalf en svo var mikill liðsmunur að þeir máttu fimmkringja um þá. Tókst nú bardagi og var mikið mannfall. Nikanor ber djarflega fram merki kóngsins og Kirjalax fylgdi því sjálfur og hjó og lagði á báðar hendur og undruðust allir að svo gamall maður gjörði svo harða framreið. Nikanor reið að jarli þeim er Úrien hét og lagði í gegnum hann og kastaði honum dauðum á jörð og því næst hjó hann annan þann er Drogant hét. Hinn þriðja riddara hjó hann og tók af honum báðar hendurnar og kom sverðið á háls hestinum fyrir framan bóguna en riddarinn steyptist áfram og braut sig á háls. Nikanor ruddi nú af sér víkingunum með mikilli hreysti og var hann þó ákaflega móður. Þá kom ríðandi fram hertogi sá er Manassess hét. Hann var mestur kappi í liði þeirra bræðra. Hann lagði spjóti til Nikanors og í gegnum skjöldinn og síðuna og út um herðarblaðið en Nikanor hjó í mót með báðum höndum í hjálm Manassess og beit eigi á en þó var höggið svo mikið að hertuginn féll í óvit fram á söðulbogann. Féll Nikanor nú dauður af hestinum og lofuðu allir hans hreysti. Kirjalax kóngur mætti þeim kappa er Kabue hét. Hann var merkismaður Erreks kóngssonar. Kóngur hjó af honum höfuðið og höndina hægri og sundur merkisstöngina og féll það á jörð. xv riddara drap hann í þessari framreið. Og nú sér Errek hvað hann hefst að og eirir honum það illa. Nú fær hann eitt gaflak og skýtur því af hendi en það kom í augu á Kirjalax kóngi og gekk út um hnakkann. Féll kóngur dauður af hestinum.
33. Nú er að segja frá Reginbald að hann lætur bera sitt merki í mót Erkúles og var sjálfur fyrir framan merkið. Mátti þar bæði sjá og heyra stórhögg og ruddi hann breiða götu í gegnum fylking Erkúles og aftur annan veg og svo hlóð hann háfan valköst að dauða menn bar eigi lægra en söðulboga hans. Samson hans merkismaður bar djarflega fram merkið og hjó á báðar hendur og stökk allt undan honum en í mót honum kom nú Balabán með merki Erkiles og hófu þeir sitt einvígi með stórum höggum og eigi þóttust menn hafa séð hraustlegra einvígi því að báðir voru afburðar góðir riddarar. En svo lauk að Balabán féll dauður og það sér Erkúles og ríður að Samson og leggur sinu spjóti í gegnum hann og kastar honum meir en xv fóta af spjótinu. Reginbald er nú staddur milli margra hundraða mikilla kappa og nú kom að honum einn mikill risi er Otinek hét og hjó til hans mikið högg en hann brá við skildinum og kom á háls hestinum svo af tók höfuðið og stökk Reginbald af fram og kom standandi niður. Reginbald hjó tveim höndum á hrygg Otineks er hann laut og tók risann sundur í miðju og var nú sótt að Reginbald öllu megin en hann varðist svo vel að þeir komu öngu sári á hann en hann drepur margan. Kemur þar nú Erkúles og hans bróðir og báðu skjóta að honum skjaldborg og var hann þá fangaður. Hrukku þeir nú í borgina sem eftir voru en þeir bræður ráku flóttann og drápu allt er þeir vildu og komust þegar í borgina og mælti ekki margt í móti. Gengu þeir nú í turn Astrinómíu kóngsdóttur og tóku hana með valdi. Voru borgarmenn nú í mikilli sorg en þó þyrmdu þeir jungfrúinni fyrir hennar bæn. Lofaði hún því þá mörgu að henni var eigi mjög hugfellt. Hugsaði hún að frest væri á illu best. Reginbald var settur í dýblissu og var honum eigi margra hæginda leitað. Síðan létu þeir kanna valinn og búa um lík höfðingja en skiptu herfangi með sér. Síðan fóru þeir yfir landið og lögðu það undir sig og þorði engi móti að mæla. Síðan höfðu þeir þing og lýsti Erkúles yfir því að hann ætlaði heim til Níníve og gjöra þar brullaup til Astrinómíu kóngsdóttur og spurði hver að sér vildi taka að verja Grikkland á meðan. Hertuginn Manassess svarar: “Það samir best að yðvar bróðir taki land þetta en ef þér viljið að hann fari heim með yður þá er ég búinn eftir að vera að verja landið.” Öllum þótti það vel til fengið því hann var ágætur maður. Var því nú ráðið að Manassess skal eftir vera með sínu liði og hafa svo margt af þeirra mönnum sem hann þættist öruggur vera. Síðan bjuggust kóngssynir í burtu og höfðu Astrinómíu með sér og margar meyjar aðrar. En áður þeir fóru af stað beiddi Astrinómía Erkúles að Reginbald skyldi fara með þeim þó hann væri fangi og kveðst skyldu leita við að mýkja hug hans og létu þeir bræður það eftir henni. Sigldu síðan burt af Miklagarði og er eigi getið um þeirra ferð fyrr en þeir koma heim í Níníve og gjörði Arkistratus kóngur fagnaðaröl á mót þeim og sýndu þeir föður sínum jungfrú Astrinómíu og þótti kóngi eigi ofsögum sagt af vænleik hennar. Reginbald var og heimfærður og var hann í fjötrum hafður og geymdur í turn einum. Arkistratus kóngur átti dóttur fríða og þar eftir voru hennar hannyrðir. Hún átti vænan turn í borginni. Þangað var færð Astrinómía. Nú taka þeir feðgar ráðagjörð sína hversu þeir skulu breyta um brullaup sitt. En þó þeim væri mjög annt þá má þó margt til tafa bera og mörgum verður einn dagur um seinar.
34. Nú tökum vér þar til máls að Vilhjálmur spurði föður sinn hvað til ráða væri því að hann kveðst fyrir hvern mun jungfrúna vilja finna og hjálpa sínum fóstbróður. En kóngur sagði að þeim myndi fljótari þörf liðveislu en miklu liði mætti þangað þeysa. Og því næst áttu þeir þing í borginni og var því þá ráðið að Ríkharður kóngur og Krísedús skyldu safna öllu því liði sem þeir kynni að fá bæði af Dalmaría og Makedónía og fara til Miklagarðs og vinna aftur borgina ef þess yrði auðið en Vilhjálmur og Menon skyldu fara með skyndingi suður til Níníve og vita hvað þeir kynni að frétta til jungfrúnnar og hennar bróður. Þeir voru saman iiij menn og tuttugu og verður nú frá öðrum hvorum fyrr að segja.
35. Ríkharður kóngur og Krísedús höfðu nú saman komið miklu liði og fluttu her þann allan til Miklagarðs og kom einatt lið til þeirra. Frétt hafði Manasses liðsafnaðinn og brá hann sér lítt við. Þóttist hann mikið traust eiga undir sér og vopnum sínum og fjölmenni en ekki varð honum landsfólkið að liði. Og nú koma þeir Ríkharður kóngur og Krísedús og reistu sínar herbúðir um borgina og höfðu svo mikið fjölmenni að varla kom tölu á. En er Manasses sér herbúðirnar þá kallar hann saman sína menn alla í borginni og mælti svo til þeirra: “Eigi þenki ég nú að oss gjörist setu efni,” sagði hann, “skulu vér lúka upp borgina og setja hvern lykil í sitt lok svo eigi þurfi að brjóta hvorum sem auðið verður. Klæðum oss vorum hinum besta búnaði og hugsum það að selja oss sem dýrast svo það megi fréttast að hér eru menn til varnar settir. Flýjum hvorki né friðar beiðum. Látum Arkistratus kóng það eiga að frétta og hans sonu að vér brytjum eigi smærra en búkarlinn þá hann amar arðuruxum sínum.” Þeir ganga nú út af borginni með miklum lúðrablæstri og reistu hvorirtveggju upp sín merki. Valeríanus hét merkismaður hertogans Manassess. Hann var níu fóta hár frá bróklinda til hnakka. Síga nú saman fylkingar. Manasses hertogi reið örskot fram undan sínum merkjum og var orðinn v manna bani áður liðið kom saman. Varð nú mikið mannfall af hvorum tveggjum og þar mátti sjá margan hest með hvítum söðli hlaupa lausan og margan vaskan mann í grasi liggja en skafta brot og skjalda lágu svo þykkt að varla mátti hestum fyrir hleypa. Nú sér Manassess einn vaskan riddara af baki falla af sínum mönnum og hafði sá þegar á rás í fjallið upp. En þá riðu í mót Manasses hertoga ij synir Krísedús kóngs. Hét annar Garlant en annar Grelant. Þeir voru miklir kappar. Manasses kallar á riddarann og mælti: “Flý eigi góður drengur,” sagði hann, “ég skal fá þér hestinn af öðrum hvorum þeirra sem hér hleypa í móti mér.” Síðan lagði hann til Grelans og í gegnum hann og kastaði honum dauðum á jörð. Síðan hjó hann til Garlans og klauf hann að endilöngu en riddarinn tók hest hans og hljóp á bak og barðist vel og drengilega þaðan í frá. En Manasses hjó nú á báðar hendur og geymdi að öngu utan drepa sem flesta og aldrei sáu menn hraðari manns hendur til manndrápa og verða nú mörg tíðindi senn.
36. Krísedús kóngur sér nú fall sona sinna og eirir honum það illa og eggjar hann nú liðið. Úlien hét hans merkismaður. Hann bar djarflega fram merkið. Krísedús kóngur drap fyrst þann kappa er Tolomeus hét og síðan félldi hann xv riddara og er hann nú ákaflega móður. Taka nú borgarmenn að falla. Nú ríður fram Úlien merkismaður en honum í mót kom Valeríanus merkis maður hertogans og lagði Úlien til hans í skjöldinn og gegnum hann og snaraðist lagið út undir höndina og reif brynjuna og fékk Valeríanus mikið sár og gengu sundur í honum iij rifin en hann hjó í mót til Úliens og tók af honum fótinn fyrir neðan hné en reiðingarnar skildu þá nú að sinni. Hjó Úlien þá til þess riddara er Golías hét og veitti honum bana. Reið síðan aftur að Valeríanus en hann var og viðbúinn og lagði sínu spjóti í skjöld Úliens og gekk í gegnum hann albrynjaðan og vó hann hann upp á spjótinu og setti skaftið á kné sér og lét hann spraka á oddinum og reið svo um völlinn. Nú kom þar Ríkharður kóngur og hjó til Valeríanus og kom á hjálminn aftarlega og klauf hann og renndi niður með hnakkanum og reif brynjurokkinn og brynjuna niður eftir herðunum og af honum bæði herðarblöðin og svo niður með hryggtindunum og af honum báða þjóhnappana og í sundur söðulinn og hestinn og af honum sporana við hælana og féll Valeríanus og mundi margur fyrr. Nú sér Manasses hvað fram fer. En þó hafði hann nú nóg að vinna en þó sækir hann þangað sem hann heyrir að mest er um og nú mætir hann Krísedús kóngi. Kastar hann nú skildinum á bak sér en reiðir sverðið tveim höndum en Krísedús kóngur brá skildinum upp yfir sig en Manasses hjó á flatan skjöldinn og tók skjöldinn sundur um þvert og hjálminn og höfuðið búkinn brynjaðan og hestinn sundur í miðju með öllum herskrúðanum og stóð mörgum ótti af þessu höggi og þorði engi mót honum að ríða.
37. Nú sér Ríkharður kóngur að Manasses er mjög mannskæður og þykir honum það eigi vel fara. Því ríður hann að honum og hvor öðrum á mót og leggjast til svo fast að báðir senn hrjóta þeir aftur af sínum hestum og koma standandi niður. Og nú verður Manasses skjótari til höggs og hjó til Ríkharðs kóngs en hann brá við skildinum og kom sverðið niður með skildinum og tók af kóngi hina vinstri höndina í úlflið. Ríkharður kóngur hleypur þá á Manasses og hrindur honum svo hart að hann kom niður að hryggnum og hleypur Ríkharður kóngur ofan á hann og mælti: “Góður drengur ertu Manasses,” sagði hann, “og eigi vil ég sjá þinn dauða.” Nú komu að menn Ríkharðs kóngs og vildu drepa Manasses en kóngur bannaði það og bað heldur setja hann í fjötra og var svo gjört og var hann færður í borgina en menn hans féllu þeir sem eftir voru svo vandlega að engi maður komst undan. Margt hafði og fallið af riddurum Ríkharðs kóngs og nú skipta þeir herfangi og tóku að sér borgina og voru græddir menn. Ríkharður kóngur var handlaus alla ævi síðan. Hann lét nú leiða Manasses fyrir sig og mælti til hans: “Mikill kappi ertu Manasses,” sagði hann, “og mikill skaði mun þínum landsmönnum þykja ef þú kemur eigi aftur. Nú vil ég þér líf gefa og gjör þú hvort þú vilt, dvelst hér með oss og haf slík metorð sem þig lystir eður far heim til þíns lands og skulu vér þig svo af garði gjöra sem góðum manni sómir.” Manasses svarar þá: “Fásénir munu oss þeir men er slíka kosti gjöra svo mikinn skaða sem þér hafið af oss fengið og því vil ég gjarna líf þiggja og með þér vera þar til að þeir bræður koma aftur.” Voru nú Manasses grið gefin og gjörði kóngur vel til hans.
38. Nú er að segja af Vilhjálmi og Menon kóngi að þeir fara þar til að þeir komu til Makedóníam í ríki Menons og höfðu þeir þar sanna frétt um ferðir þeirra bræðra og voru þeir fyrir iiij vikum þaðan sigldir og höfðu haft góðan byr. Því búa þeir ferð sína sem skjótast og stefna suður til Níníve. Og með því að Vilhjálmi var flýtir í hug þá lét hann sína menn drekka af kálk þeim sem Ermlaug gaf honum og þurftu þeir þá lítið að sofa og mæddust þeir eigi. Eigi er getið að til tíðinda bæri fyrr en þeir koma út í Ermland og voru þeir bræður þá fyrir hálfri annarri viku heim komnir. Og skorti eigi viðbúning í Níníve því að mönnum var stefnt úr öllum áttum að sækja þessa veislu er Erkúles skal sitt brullaup gjöra og ef þar verður ekki til tíðinda áður brullaupið er úti þá eru þeir meiri gæfumenn en flestir menn aðrir þeir sem svo hafa kvenna aflað. En eigi ætla ég að Vilhjálmi þætti illa þó nokkuð bæri til dvala.
39. Það bar nú til tíðinda ein dag í Níníve að Arkistratus kóngur er á leikvelli en hans synir á skógi. Þeir sjá hvar xij menn ríða hvatlega að borginni. Þeir voru svo stórir að öngva höfðu þeir slíka séð og bar þó einn langt af öðrum og undruðu þeir þó meir digurð hans en hæð. Þeir höfðu þá reiðskjóta sem drómidarie heita. Þeir gengu fyrir kóng og kvöddu hann eigi. Sá mælti sem fyrir þeim var: “Ertu Arkistratus kóngur af Níníve.” “Svo er,” sagði kóngur. “Öngva heilsun var mér skipað þér að bera,” sagði hann, “en ij kóngar eru hér komnir við ríki þitt. Annar þeirra heitir Frolló en annar Griffon. Þeir ráða fyrir þeim ríkjum er liggja í kringum þau miklu fjöll er Kaukási heita og standa á synnstu síðu heimsins. Þeir hafa spurt að þér eigið yður fagra dóttur er oss er nefnd Fulgiða. En það býr undir þeirra ferð að þeir vilja að þú lúkir þeim skatt sem aðrir kóngar í suðurhálfunni. Þeim er og sagt að þér eigið ij vaska sonu. Er það kónganna vilji að þér sendið þeim dóttur yðra í skattinn og yðra sonu og svo mikið lið af yðru ríki sem þér megið mest af leggja. Vilja þeir nú fara til Babýlon hinnar miklu og skattgilda Soldán kóng undir sig. En ef þér gjörið eigi svo þá vitið eflaust að áður sól er í vestri annað kveld þá er yður borg brennd en þér annaðhvort hengdir eður í hjóli brotnir.” Kóngur mælti: “Ákaflega flytur þú þitt erindi og margur hefir hneising fengið fyrir minni sök eður hvert er þitt nafn.” “Eigi hræðumst ég það,” sagði hann, “en Knabbi heiti ég. Á ég systur kónganna er Balbumba heitir. Móðir kónganna heitir Sisigambur. Þær eru báðar hér með liðinu og hafa ráðagjörðir með kóngunum.” Arkistratus kóngur svarar: “Eigi vil ég senda þeim mína dóttur en ef synir mínir koma heim þá mun ég eigi letja þá að finna kóngana og mun ég vera þar með. En þar sem þú talar um skattgjafir þá er það gull eigi til reiðu sem vér ætlum þeim að senda en það sem vér höfum í vopnum og klæðum þá munu vér sýna þeim. En ef þeim verður auðið að komast burt af þessu landi þá kunna þeir að segja hversu hagfelldan skatt að vér höfum fengið þeim.” “Skil ég það,” sagði Knabbi, “á þínum orðum að þú ert fullur af dáraskap og sjálfum þér stríðir þú í þessu þóttu neitir góðum boðum” og því næst sneri Knabbi í burt. Litlu síðar koma þeir heim synir kóngs og höfðu séð her þeirra bræðra og var allt land fullt af hernum og voru það risar og illþýði. Þeir voru c þúsunda að tölu og var þar engi mennskur maður í. Þeir höfðu tamið mörg villidýr. Kunnu synir kóngs nú að segja honum þessi tíðindi. Var nú mikið umtal í borginni og nú sáu þeir her víkinga er dreif að borginni og var hann svo mikill að dalir og hólar, fjöll og skógar var alskipað. Settu þeir nú sínar herbúðir nær borginni og mátti þar sjá mikinn ríkdóm á þeim fararblóma sem þeir höfðu með sér og var allt ótta slegið í borginni.
40. Arkistratus kóngur hefir nú þing í borginni og spurði hina vitrustu menn hvað nú væri ráðlegt en allir sögðust fyrr vilja deyja en gefast í vald risum. Nú lætur kóngur kalla dóttur sína og voru jungfrúrnar þangað leiddar. Kóngur spurði dóttur sína hversu henni væri það í skapi að giftast risanum Frolló. “Verði það eigi á meðan ég lifi,” sagði hún, “eður hvar kemur fram kapp yðvart að þér látið kúgast fyrir vannmennum þessum. Var nú eigi langt síðan að þér gjörðuð slíkan kost og máttuð fá það með heiðri.” Þá mælti Astrinómía: “Ávíta eigi bræður þína því að hver má öðrum kappið vorkenna. En ef Reginbald bróðir minn væri laus og fengi þér hans liðsinni þá myndi einhver risinn um rautt binda.” Nú var Reginbald þangað leiddur. Kóngur sá á hann og mælti: “Mikill maður ertu Reginbald,” sagði hann, “og gæfusamlegur. Og ef þú vilt verða oss að liði þá vil ég gefa þér dóttur mína til heilla sátta.” Þá mælti Reginbald: “Þetta væri vel boðið ef með góðvilja væri gjört en hitt ætla ég að þér gangi til að þér þyki sem þú og dóttir þín sé í vargahöndum en synir þínir eru annars frá mér maklegir en ég legða mitt líf í hættu fyrir þá.” “Bætur liggja til alls bróðir,” sagði Astrinómía, “en fenginn skaði verður eigi aftur sýttur og gjör fyrir mína bæn og neita eigi þessu boði því að mörgu svara jafnan frestin.” Þá mælti Erkúles: “Eigi getum vér það nú aftur tekið sem vér höfum áður gjört en til heilla sátta býð ég þér bræðra lag og mína systur og ef þú vilt heldur öðrum manni gifta þína systur þá er mér það skapfellt.” “Vita vil ég hversu jungfrúinni er um þetta gefið,” sagði Reginbald. En hún kveðst eigi annan mann heldur kjósa en hann. Lofar Reginbald þeim nú sínum styrk og keypti jungfrúna og sló niður allri heift með þeim.
41. Maður er nefndur Sjóður. Hann réð fyrir þorpi einu nær borginni. Hann var mikill og sterkur og vel búinn að íþróttum en svo var hann hugblauður að hann þorði eigi mannsblóð að sjá. Hann var nú í borginni. Kóngur mælti til hans: “Þú Sjóður,” sagði hann, “skalt verða oss að liði með þínum mönnum.” “Hvað mun ég yður að liði verða,” sagði Sjóður, “því að mér sýnist yður sýnni dauði en líf.” “Þyki þér ráðið,” sagði kóngur, “að þú munir í náðum sitja ef vér verðum sigraðir en ef vér sigrumst þá áttu öngrar vægðar ván af oss.” Nú varð Sjóður hræddur og mælti: “Alla mína menn og vopn vil ég ljá yður en fyrr en ég hafa reiði þína skal ég koma til bardagans.” “Þá gjörir þú vel,” sagði kóngur. Ríður Sjóður nú burt. Kóngur spurði nú sína menn hvað ráðlegast væri. “Borg vor er fjölmenn og eigi komum vér öllu voru liði við,” sagði Erkúles, “því skulu vér senda menn til Sjóðs og skal það lið koma í opna skjöldu þeim en sumt lið vort skal vera eftir í borginni og skal það ríða út til vor þegar vort lið fækkast.” Þeir spurðu Reginbald hvort hann vildi ekki njóta sjálfur kosta konu sinnar en hann kveðst eigi fyrir muna þeim sem auðið yrði. Líður nú nóttin en þegar dagar voru höfðingjar á fótum. Var þá blásinn herblástur. Gekk Arkistratus kóngur út af borginni og hans synir og Reginbald og reisa sínar fylkingar. Reginbald hafði þá fylking er til vinstri handar vissi frá höfuðmerkinu og var honum valið frækið lið. Sá maður hét Kaífas sem bar hans merki. Hann var perfectus að tign. Aðra fylking hafði Arkistratus kóngur. Hans merki bar sá maður er Aríus hét. Ei finnst honum vaskari maður. Margir ágætir menn voru í hans fylking. Þriðju fylking hafði Errek kóngsson. Hans merki bar sá maður er Malpriant hét. Hann var sterkur en ekki vitur. Erkúles skyldi laus við vera. Var sú sveit með honum sem einna var snörpust og skyldu þeir þar fram koma sem mest þurfti. Þeirra merki var litt sem sól og þoldi engi maður að horfa á það á lengdar. Það bar maður er Villifer hét. Hann var svo góður riddari að hann kom aldregi svo til bardaga að hann mundi skilja við sinn hest með ósæmd. Höfuðmerki kóngsins stóð í miðjum hernum. Það var einn örn af gulli gjör en merkið var rautt silki. Stöngin var níræð að hæð. Á því voru c dynbjöllur af gulli en er vindur blés merkið þá hlakkaði örninn en bjöllurnar hringdust svo að heyrði hálfa mílu.
42. Nú leiðir Frolló sinn her út af herbúðum og mátti þar sjá margan ljótan fant. Þeirra vopna búningur var glæsilegur til sýndar en burtstengur þeirra voru ásum líkar en þeirra hljóð var sem nágöll. Þeirra merki var svart og gjört í þá mynd sem einn hestur og þá vindur blés það neggjaði hann og heyrði það ix mílur. Runga hét sá er merkið bar. Hann var fimmtugur að hæð. Á stönginni voru iij gullknappar. Griffon hafði gult merki tírætt að hæð. Það bar sá maður er Gnepja hét. Ekki segir frá vexti hans en vj langspanna var nef hans upp undir brýn en hálfrar fjórðu spannar var í milli augna hans. Knabbi hafði hið þriðja merki og var rautt sem blóð og markaður á einn úlfur og þá það blækti fyrir vindi ýldi hann sem vargur. Galapín hét sá sem það bar. Hann hafði iiij fætur og voru hófar á hinum eftrum fótunum og barði hann sem hestur en fyrr þrýtur bæði bókfellið og nenningina en vér getum sagt frá yfirlitum allra þeirra sem þar voru afskræmiliga skapaðir. Krumbak hét einn maður í liði þeirra. Ei vissu menn ætt hans því að hann fannst í greni ylfu einnar. Hann sá betur um nætur en daga. Hann átti að stýra þeim hinum ólmu dyrum sem þeir höfðu. Stóðu fylkingar nú víða um völluna og látum þá nú svo bíða en víkjum nokkuð sögunni til Vilhjálms.
43. Þar tökum vér nú til að Sjóður ríður burtu af borginni Níníve og var honum mikið í geði og vill hann nú eigi ríða í þorpið og leitar hann sér nú að fylgsni og ríður fram með einni fjalls hlið. Finnur hann nú á veginum iiij menn og xx og fylgdi þeim dýr mikið. Hann heilsar þeim og spurði hvað mönnum þeir væri en einn þeirra sagði að þeir voru kaupmenn komnir af Babýlon en vilja fara til Níníve borgar. Hann kvað þar annað tíðara en kaupskapinn og sagði hann þeim frá her risanna. Kaupmaðurinn spurði hvort úti væri brullaup kóngssonars en Sjóður kvað því fjarri. Kaupmaðurinn spurði hvort fanginn bróðir kóngsdóttur væri lífs eður dauður en hann sagði að þeir væri sáttir og hefði þeir gefið honum systur sína til liðveislu. Þeir spurðu nú hvað hann heitir eður hvert hann skal fara. Hann sagði nafn sitt “en ég fer sem aðrir þeir sem forða vilja lífinu”. “Vera munu þar nokkurir óvíglegri en þú,” sagði kaupmaðurinn. “Ekki frý ég mér vaxtar sagði hann “en mannsblóð þori ég ekki að sjá.” “Þyki þér víst að þú munir alla ævi lifa,” sagði kaupmaðurinn, “ef þú getur nú undan sett.” “Eigi hugsa ég eftir öðru,” sagði hann. “Hengja á þann,” sagði kaupmaðurinn, “sem ekki vill verða herra sínum að liði í þvílíka nauðsyn.” “Fari það sem má,” sagði hinn, “en lífinu mun ég nú fyrst forða.” “Áttu nokkuð peninga,” sagði kaupmaðurinn. “Nóga á ég peninga,” sagði Sjóður “og veit ég að óvinir mínir munu þeirra njóta en kóngur hét mér líftjóni ef ég kæma eigi til liðs við hann.” “Góður mundir þú þeim manni “sagði kaupmaðurinn “að færi til borgarinnar fyrir þig.” “Heimskur væri ég ellegar,” sagði Sjóður, “og honum skyldi ég gefa bæði gull og silfur.” “Áttu gott til hesta eður vopna,” sagði kaupmaður. “Hvortveggja á ég,” sagði hann. “Ég á hest þann sem kóngur býður mér við ríkan kastala og hertogadæmi.” “Þú munt vilja gefa mér hestinn og vopna menn mína,” sagði kaupmaðurinn, “og á þinn kost viljum vér vera og er þér óvíst hvort þú heldur lífinu eður eigi ef þú gjörir eigi sem ég beiði.” “Sjá þú nú fyrir sem þú vilt,” sagði Sjóður. “Eður hvað heitir þú.” “Sjóður heiti ég,” sagði komumaður, “og förum vér nú heim til byggða þinna.” “Eigi þori ég þar að koma,” sagði Heimasjóður. “Heim skaltu með oss,” sagði Nýisjóður “og afhenda mér vopn og það ég vil hafa.” Og þorði hann ekki í mót að mæla og fara þeir nú heim í þorpið og skiptu þeir nafnar um litu og þekkti engi hvor þeirra var. Og nú kom þar maður úr borginni með bréf kóngs að Sjóður skal koma í opna skjöldu víkingunum með sína menn og spurði sendimaður hvaðan þeir ókunnu menn voru að komnir en Sjóður kvað þá vera frændur sína. Nú var fram leiddur hinn góði hesturinn. Hann hét Gönsuður og gaf Komnisjóður hann Menon kóngi. Síðan bjuggust þeir og undrast allir hversu Sjóður var ákafur því að landsmenn hugðu að hinn sami væri. Hann hafði ccc manna af þorpinu. Þeir höfðu merki af grænum guðvef og á markað leo með gull og hafði kristallus í klónum og lýsti svo af honum að undir því merki var bjart þó að nótt væri. Þetta merki gaf Herkúl kóngur Vilhjálmi. Sjá þeir nú fylkingarnar hvar þær stóðu til bardaga búnar.
44. Þar byrjum vér þetta kapitulum að saman síga fylkingar hermanna og skorti þar eigi lúðragang en örvar og spjót flugu svo þykkt að hvorki sá sól né himin. En þar víkjum vér fyrst til að Arkistratus kóngur eggjar fram sitt lið og fylgir því sjálfur drengilega og höggur bæði menn og hesta og stendur ekki við honum og ríður hann breiða götu fram í fylking hermanna og fellir risana unnvörpum. Aríus hans merkismaður bar drengilega fram merkið og mætti einum digurhálsuðum risa er Grassi hét. Hann hjó til hans með sverði og klauf skjöldinn að endilöngu en blóðrefillinn nam viðbeinið og reif brjóstið niður að söðli en innyflin steyptust úr honum og datt hann dauður á jörð og því næst hjó hann á aðra hönd sér til eins kappa um þvert andlitið og þar í sundur hausinn. Hinn þriðja hjó hann á búkinn svo sundur tók í miðju og ei get ég þá alla talið sem hann veitti skjótan bana. Nú kom honum í mót hinn sterki Runga og eigast þeir við hart vopnaskipti en þó Risinn væri sterkur þá átti hann við kænan. Nú höggur Aríus til hans eitt mikið högg. Það kom á hjálminn og tók af fjórðunginn og eyrað og vangafilluna svo berar skinu við tennurnar. Risinn lagði þá undir skjöld Aríus og í gegnum hann albrynjaðan en hann gaf sig eigi að heldur og hjó til þess kappa er Skroppa hét og seildist svo hátt sem hann gat og náði hann varla sverðinu upp yfir hnéið og tók þar undan Skroppa báða fæturna og varð mikill dykur af falli því er hann fékk. Síðan gekk Aríus undir merkið og spennti merkisstöngina báðum höndum og bað menn duga drengilega meðan hann hvíldist. Arkistratus kóngur var nú langt kominn fram í herinn og margan mann hafði hann drepið og snýr hann nú aftur annan veg og mætir einum miklum kappa er Buram hét. Kóngur sló á hans hjálm svo hausinn lamdist en augun flugu svo snart út úr hausinum að á sinn mann kom hvort þeirra og höfðu þeir þegar bana en risinn datt dauður niður af hestinum og hafði þegar bana. Síðan drap kóngur v kappa aðra en fékk sjálfur ekki sár.
45. Nú er að segja frá Sjóð að hann er nú kominn nærri bardaganum og skynjar hversu fylkingar standa. Hann sér hvar Krumbak stýrir fram dýrunum og gjöra þau mikinn mannskaða borgarmönnum. Hann biður nú Menon ríða til móts við Krumbak með lið þeirra “en ég mun þar að ríða sem mér sýnist og skal dýrið þér fylgja.” Það var brynjað allt aftur að bógum. Menon kemur nú í opna skjöldu Krumbak þar sem hann sigaði fram dýrunum á hægra veg merki Frolló. Var þar bæði birnir og leon, tígris og fílar. Kemur nú stökkur undir dýrin því að Menon kóngur var bæði sterkur og stórhöggur en hestur hans barði með öllum fótunum og braut hrygg í dýrunum. Snýr Krumbak nú í mót Menon og lýstur til hans með sinni stöng en Menon reið að honum við og kom stöngin við eyra einum riddara og brotnaði af honum höfuðið og á herðar öðrum og hraut sá burt af hestinum og upp í loftið svo að fal sýn og var hvert bein mjölvi smærra í honum er hann kom niður. Menon hefir nú brugðið sínu sverði og höggur til Krumbaks niður milli skjaldarins og bringunnar og tók af honum báðar hendurnar og sneri Krumbak á undan en Menon rak spjótið í gegnum hann og kom þá upp hljóð mikið svo sem allir fjandur væri þar komnir. Þetta hljóð heyrir Frolló og snýr hann þangað en Arkistratus er nú kominn aftur í sína fylking og sækir að merki Frolló. Hinn sterki Runga grípur nú eitt spjót og skýtur til hans og flaug það gegnum kónginn svo álnar stóð út um bakið. Þetta var mjög jafnsnemma og Aríus merkismaður féll dauður niður undir merkinu og féll kóngur til jarðar. Var þar nú gnýr mikill og heróp.
46. Nú kemur Sjóður ríðandi. Hann höggur á háls Runga svo af tók höfuðið og féll risinn dauður niður og urðu undir honum iiij menn. Síðan reisir hann upp merkið en nú var fallið merki Frolló en hann hvergi nærri og eigi var nú all hljótt í þann arm sem hann var því að Menon var eigi aðgerða laus. En dýrin stukku undan leoninu og reif það þau í sundur. Frolló leggur nú til leonsins en það snerist undan kænlega og laust halanum við eyra hestinum svo hann féll dauður niður og fylgdi Frolló honum til jarðar og var það fall í meira lagi. Hann hljóp skjótt á fætur. Menon var þá nær staddur og hjó til Frolló og klauf skjöldinn að endilöngu. Frolló fékk einn stóran stein og kastaði til Menons fyrir hans brjóst og fékk hann óvit en féll þó eigi af baki en hans hestur bar hann snart í burt. Frolló brá nú sínu sverði en leonið sló það úr hendi honum. Í þessu hlaupa ij tígris á það en það var svo brynjað að það sakaði ekki og reif það þau í sundur bæði. En Frolló leitar nú eftir sverði sínu og komu hans menn hesti undir hann og var nú dagur kominn á enda og skilur nótt bardagann. En svo hafði Menon umgengið og dýrið að eydd voru öll dýr risanna. Ríða menn nú til herbúða en Menon og Sjóður riðu í þorpið en þeir bræður í borgina og er svo mikið sagt af mannfallinu að meir var fallinn en fjórðungur af þeim.
47. Höfðingjar hörmuðu nú mjög Arkistratus kóng en lofuðu mjög framgöngu Sjóðs. Reginbald fann sína systur og spurði hún hversu þeim hafði að farið um daginn en hann sagði að þeim hefði þungt veit ef eigi hefði komið þeir ágætu kappar sem Sjóð fylgdu. “Og þótti mér þó margt undarlegt,” sagði Reginbald, “ég þóttumst þekkja það góða dýr sem átt hafði Vilhjálmur fóstbróðir minn og þar þekkta ég og sverð hans skjöld og hest og undarlega bar sá maður sín vopn vel.” Astrinómía svarar: “Eigi mun Vilhjálmur hafa gefið burt hest sinn og undarlega hefir Sjóður sá brugðist sem allir halda ragan ef hann beitir svo vopnum sem Vilhjálmur.” Að morgni voru menn snemma uppi og vopnuðust og var valið lið til útreiðar og kom margt úr héruðum. Var þá um talað hver upp skal taka það merki sem kóngur hafði frá fallið. Mæltu allir að engi væri betur til fallinn en Reginbald. Taldist hann og ekki undan því og var sá maður til fenginn að bera það er Nikaron hét en Kaífas skyldi nú vera laus við en Erkúles skyldi mót Knabba en Errek í mót Griffon. Ríða þeir nú út af borginni og hafa mikið lið. Risarnir voru eigi seinir á mótið og hafði sá maður tekið merki Frolló er Gralant hét. Tókst nú bardagi. Var risunum mikill sviftir að dýrunum en þó brytjuðu þeir borgarmenn sem hráviði. Reginbald gjörði svo harða hríð að risarnir hrukku fyrir og sækir hann að merki Frolló og hefir hann hlaðið um sig háan valköst svo að tveggja vegna utan hjá honum bar búkana jafn hátt honum. Slíkt hið sama gjörir Frolló að hann drepur men og hesta og stendur ekki við honum.
48. Erkúles sækir nú fram og Knabbi honum í mót og er seint að telja hversu marga menn þeir drápu. Kaífas kemur fram á bak fylkingu þeirri sem Knabbi stýrði og hjó fyrstan þann kappa sem Alkain hét og veitti honum bana og svo mikið gjörði Kaífas af sér að hver maður hrökk fyrir og nú snýr Knabbi honum í mót og leggur til hans með spjóti og í gegnum hann en hann reið á lagið og hjó til Knabba og tók sundur skjöldinn og höfuðið af drómedari er hann reið og fékk hann mikið fall en Kaífas datt dauður niður. Erkúles hefir nú mikinn bardaga og nú kemur í móti honum risi fimmtugur að hæð. Hann hét Krabbi. Hann lagði til Erkúles svo hart að skjöldurinn klofnaði en hryggurinn brotnaði í hestinum og sté Erkúles af baki en þó hjó hann til risans og af honum báðar hnéskeljarnar og báða fæturna í ristarliðunum en risinn féll áfram og urðu undir honum margir menn. Erkúles fékk sér annan hest og ruddist um fast og margan digran skrokk klauf hann sundur.
49. Segjum nú nokkuð frá Errek að hann ber sitt merki mót Griffon og mátti þar heyra gný og vopnabrak en leiðast tekur mönnum langmælgi að segja einart hið sama frá þeirra stórhöggum en drepið hefir hann nú c risa og blóðgar hefir hann báðar hendur til axla og slíkt hið sama gjörir Griffon á hans mönnum. Og nú mætir hann merkismanni Erreks Malpriant og þegar skýtur Malpriant að honum ij gaflökum í senn og fló annað í gegnum skjöldinn og handarbak Griffons en annað fló í gegnum brynjuna fyrir utan rifin og skeindist kappinn á síðunni en Griffon lagði sínu spjóti í gegnum Malpriant og vó hann upp á spjótinu og setti stöngina á hné sér og reið um völlinn og fleygði honum í burt af spjótinu. Errek ríður nú að einum miklum kappa er Gibbon hét og lagði hvor til annars og kom hvorgi öðrum af hestinum. Flangi hét bróðir Gibbons. Hann lagði til Erreks en hann seildist mót laginu og kippti af honum stönginni en setti sverðið á háls honum svo af tók höfuðið. Gibbon lagði nú til Erreks í öðru sinni en hann hjó sundur skaftið og af Gibbon höndina og hljóp sverðið á lærið og tók af fótinn og féll hann dauður niður. Gnepja var þá nærstaddur og hjó til Erreks og kom um þverar herðarnar og tók hann í sundur. Í þessu bili kemur Sjóður að og sér hvað Gnepja hafðist að. Reisir hann fyrst upp merki Erreks og fékk einum röskum manni að bera það. Hann mælti til Menons að hann skal ríða í fylking Frolló og svo gjörði hann og fylgdi dýrið honum.
50. Þar skal nú til taka að Frolló ríður að Nikaron merkismanni Reginbalds og leggur til hans með spjóti og hæfir í brjóst hestinum og leggur upp í gegnum hann og svo söðulbogann og í gegnum riddarann og hrindur öllu á bak aftur og stökk skaftið í sundur. Bregður Frolló nú sínu sverði og höggur ótt og tíðum og stendur ekki við honum. Má það nú ætla að Sjóður mun eigi standa kyrr því að á lítilli stundu drap hann xx af þeim risum sem slangar eru kallaðir og var engi minni en þrítugur á hæð og svo mikið blóð var nú á vígvelli að margur drukknaði þótt lítt væri sár. Sjóður snýr nú þangað sem Gnepja var en Gnepja skýtur að honum tveimur kesjum og hendir Sjóður sinni hendi hvora og skaut aftur að Gnepju og hæfði sinni í hvort augað svo út gekk um hnakkann. Gnepja hjó þá fram fyrir sig. Kaliep hét systurson Gnepju. Hann greip merkið af honum en hann hjó af Kaliep allt andlitið og steyptist hann ofan á frænda sinn og féll nú merkið. Nú snýr Frolló mót Menon og skýtur til hans með spjóti og kom í skjöldinn og féll Menon af baki. Hann hljóp upp fimlega og hjó þegar einn banahögg. Nú vildi Frolló fylgja fanginu og hjó eftir Menon. Dýrið kom þá að og laust sínum hala við eyra Frolló svo hann féll af baki og var í óviti en Menon stökk á bak hesti hans og snýr nú í mót Gralant og leggur sinni burtstöng fyrir brjóst honum svo út gekk um herðarnar og féll Gralant dauður á bak aftur. Var nú komin nótt og riðu kapparnir af vígvelli en Sjóður ríður í þorpið og Menon og fann hann þar hest sinn. Reginbald ríður í borgina með sitt lið. Hafði þenna dag orðið svo mikið mannfall að eigi var betur eftir en fjórðungur. Risarnir höfðu og fengið svo mikið manntjón að eigi var fjórðungur eftir. Líður nú nóttin og þótti mönnum nú líklegt að verða mundi endir eður einnhver úrskurður á málalyktum þeirra og var nú engi óhræddur um sig.
51. Næsta morgun eftir kallar Reginbald saman allt fólk og leitar ráðs við þá og var þá rúin borgin að engi var liðfær maður eftir. Á þessi stundu kemur Menon þar og fögnuðu þeir honum. Reginbald spurði hvað manna hann væri en hann sagðist vera kaupmaður og kominn af Babýlon. Hann spurði því Sjóður kæmi svo seint. Kaupmaðurinn sagði hann hafa orðið stirðan í bardaganum. Fékk hann nú Reginbald eitt bréf og sáu menn að Reginbald gladdist við en síðan riðu þeir út af borginni. Skyldi Menon nú í mót Knabba en hann lét bera sitt merki í móti Griffon. Var nú gnýr mikill og því næst bardagi. Nú ríður Reginbald í mót Griffon og hans merkismaður er Kalabes hét og drápu þeir risana unnvörpum. Nú kemur Griffon í mót honum með sitt merki. Aper hét þá hans merkismaður. Hann var átján álna hár og svo mikið þurfti hann um sig en svo voru þeir til manndrápa hraðir að seint verður að greina hvað hvor þeirra vinnur. Og svo kemur að fallinn er mestur hluti fylkinga og finnast nú sjálfir merkismennirnir. Kalabes lagði sínu spjóti til Aper og hæfði í hans munn en hann beit í spjótið og gengu úr honum allar tennurnar en svo fast hristi hann sitt helvíska höfuð að Kalabes varð laust spjótið. En hann hjó í höfuð Kalabes svo að svignaði hjálmurinn að höfðinu en sverðið brotnaði en þó féll riddarinn af baki og Aper á hann ofan og vildi bíta sundur í honum barkann en tennurnar voru þá eigi til. En svo mikið blóð gaus þá úr honum að af því drukknaði Kalabess. Þá kom Reginbald að og hjó Aper sundur í miðju. Nú finnast þeir Griffon og Reginbald og ríður hvor að öðrum og koma þeir svo hart saman að þeirra reiðskapur gekk sundur og fóru þeir báðir aftur af sínum hestum. Taka nú sín sverð og berjast sterklega og það fyrsta högg er Reginbald hjó kom í knésbót Griffon og tók úr allan kálfann niður að hælunum. Griffon hjó nú til Reginbalds og klauf allan skjöldinn og nam oddurinn lærið og var það illt sár. Reginbald hjó fót undan Griffon í ristarlið. Þá hjó Griffon til Reginbalds og stefndi í hjálminn en hann snaraðist undan. Höggið kom á herðarnar og rifnaði öll brynjan en skinn þau sem voru undir hans treyju mátti eigi járn bíta en þó varð Reginbald sinnulaus af því höggi og steyptist í fang Griffon og hafði sverðið frammi fyrir sér og kom oddurinn í naflastað Griffon og gekk út um hrygginn og féll Griffon ofan á Reginbald en einn riddari dró hann út undan honum og var hann í óviti. Jós riddarinn á hann köldu vatni og raknaði hann við. Var þá auð sú fylking svo engi maður lifði. Hann spurði riddaran hvað annarsstaðar færi fram. En hann sagði að Sjóður væri þá í naudum staddur en Erkules fallinn.
52. Nú er að segja frá viðskiptum þeirra Menons og Knabba. Því að þá bardaginn hafði litla stund staðið. Þá reið Knabbi fram ákaflega og drap hundruðum saman borgarmenn. Ríður hann nú að merkismanni Menons og lýstir til hans svo hvert bein brottnar í honum og svo í hestinum og í þessu kemr Sjóður á völlinn. Hann vísar sínu dýri til Menons og bað það veita honum lið en það hleypur þegar á einn mikinn kappa og rifur hann í sundur. Er Menon nú kominn í höggfæri við Galapin og hjó af honum alla fingurna við merkisstönginni. En Galapin snerist skjótt og sló sínum afturfótum á siðu hesti Menons svo hart að hvortvegja tök langt upp í loptið og var hesturinn dauðr er hann kom niður. Menon hljóp snart á fætur og varð fyrir honum einn langhálsaðr loddari og slæmdi hann af honum höfuðið og nú kemur Knabbi að þeim og féll risinn í fang honum. Galapin höggur nú til Menons en dýrið laust á hönd honum svo handleggurinn brotnaði og fell sverðið niðr. Sneri hann þá að Menon afturfótunum, en dýrið hljóp upp á lend honum og setti sína kló hvorumegin í hans þjófsgin og reif aptur að eyrum en Galapin hrein sem merr. En svo lauk að dýrið hafði hjarta hans með sér og gekk af Galapin dauðum. Knabbi höggur nú til Menons og klauf skjöldin að endilöngu og fylgdi þar með hönd Menons fyrir framan ulflið. Menon höggur nú til Knabba og af honum eyrað og sundr kinnbeinið svo jaxlarnir hrutu á jörð. Mæddi Menon þá bloðrás. Dýrið hljóp í fang Knabba og greip í þá flýpu sem hann hafði fengið og reif af það sem við loddi og tunguna úr Knabba. En hann stakk þá sverðinu í kvið dýrinu svo að stóð í hryggnum. Féll Knabbi þá á bak aftur en dýrið var þá svo grimt að það reif hann allann í sundur. Voru þá dauðir allir þeir sem Knabba höfðu fylgt. Leitar Menon þá að Sjóður og sér hvar hann er í nauðum staddr ok mátti honum þó eigi lið veita.
53. Villifer merkis maður reið nú fram að þeim kappa er Salatiel hét. Hann bar þá merki Frolló og lagði hvor til annars og kom hvors spjót í annars munn og gengu þeir báðir úr halsliðunum og voru nú fallnir allir kapparnir af hvorumtveggium. Bræðr ij lifðu af liði Frolló. Hét annar Skjáppa en annar Skroppa. Þeir ríðu báðir að Sjóð og hlaut hann nú af að ganga sinum hesti. Hann festi sitt spjót í söðulboga Skjáppa og fleygði á jörd hvorutveggja. En Skroppa fylgdi svo fast sinu lagi að Sjóð lá við falli. Hann hjó hönd af Skroppa og vildi hann þá flýja en Sjóður hjó sundr hestinn fyrir aftan hann og féll risinn á bak aftur. Nú er Skjáppa kominn á fætur og hjó til Sjóðs í hjálminn svo mikið högg að hann stakk niðr öðru hnenu. Hann hjó nú til Skjáppa og kom höggið á mjödmina og klauf hann niðr úr skálmunum og undan annan fótinn í ökla lið og var það hans hið siðasta. Hafði þá og halsbrotnað undir hesti sinum stráktuturinn Skroppa.
54. Segjum nú nokkuð fra viðskiptum þeirra Frolló og Erkules að hvor þeirra hefir nú drepið hestinn undir öðrum en Frolló var so stórhöggur að öll hans högg gáfu í jörðu stað. Erkules hleypur nú að honum og vill annað hvort fá sigur eður bana og rekur sitt spjót í gegnum hans bæði lær en Frolló snaraðist við svo hart að spjótið brottnaði. En hann hjó til Erkules og í hjálminn og klauf hann hann í sundur eptir endilöngu og í þessu hleypir Sjóður að Frolló og var Reginbald þá kominn og í höggfæri við hann. Frolló gripur nú til Reginbalds og bregður honum á lopt en Sjóður hjó af Frolló hnéskelina. Reginbald hjó þá þeirri hendinni sem laus var á hönd Frolló og beit ekki en honum varð laust sverðið. Frolló greip nú til Vilhjálms með annari hendi og vildi hremma þá niðr undir sik. Þá kom Menon að og var óvigur. Dýrið rann með honum og hafði vafið um sig halanum svo ei máttu iðrin út falla. Það hleypur þegar að Frolló og sló hramminum framan í andlitið á honum og reif það allt af honum en Frolló snaraði þeim Vilhjálmi og Reginbald so hart að þeir komu fjarri niður og var Reginbald í óviti en Vilhjálmur skundar aftur og var Frolló þá dauðr og hafði dýrið rifið hann í sundur. En síðan rann það til Vilhjálms og lagðist niðr fyrir fætur honum og hafði engi fjörbrot og dó þar en við það brá Vilhjálmur svo að hann féll í óvit. En þeir Reginbald og Menon runnu til hans og jusu á hann vatni. Tök hann þá við að rakna. Vilhjálmur mælti þá: “Svo mikinn skaða hefi ek nú fengið að eg mun aldri bætur bíða eður hvað kanntu Reginbald að segja til þinnar systur?”. “Heil og kát var hún í morgin,” sagði hann. Nú voru menn heim fluttir þeir sem græðandi voru en áður Vilhjálmur fór af vígvelli reisti hann silkitjáld yfir dýrinu og fór síðan heim í borgina og var svo eytt Kaukásum að engi var eptir. En valla fengust menn í borginni til þjónustu.
55. Þenna síðasta dag sem bardaginn var kallaði Sisigambur sína systur Balbumbu og þeirra þjónustukonur og mælti svo til þeirra: “Undarliga hefir mig dreymt í nótt. Og uggir mig margt en enskis vil ek spá en ráð kemur mér í hug. Nú mun mannfall í borginni en bardagin fjarri og munu þeir nóg hafa að gjöra sem þar eru. Því skulu ver þangað fara og taka á burt jungfrúrnar og fara síðan heim í veginn og færa þær Viðgrip höfðingja vorum”. Balbumba kvað þetta þjóðrað. Þeir fara nú í borgina x saman hústrúrnar og .ij. drottningarnar að auki. Ein þeirra hét Finnhildr flotskuð. Önnur hét Meinhildur mannæta. Hin .iij. hét Gyríðr gambarageil. Hinn iiij hét Gunhildr gásastykki. Hinn fimta Rannveig hreðrahít. Hin .vi. Kjótrassa kýlavömb. Hinn vij Goðrún dys. Hin atta Flaumhildr flenniskuð. Þetta voru allt ríkbornar kvennur og skyldu þær gjöra ráðagjörð með höfðingjunum. Þær koma nú í borgina og taka jungfrúrnar í burt með valdi. Því að engi vígfær maður var innanborgar. Töku síðan drómedari og fóru með miklum skunda. Norður undan fjöllum Kaukási ganga mosar þeir er Gömburmosar heita. Þeir eru iij vikna ferð og ekki utan auðnir. Er þar að fara mýrar og blautir mosar svo þeir taka til knés en stundum stöðuvotn. Og var þessi vegr furðu torsóttur og er eigi getið um þeirra ferð fyrr en þær koma út yfir mosana og eru þá þrjár dagleiðir til fjallanna. Nú sem Vilhjálmur kemur í borgina frétti hann þessi tíðindi. Þýkir honum nú eigi vísari eptir leitin en fyrr. Kemur það nú upp fyrir alþýðu að þessi maður hét Vilhjálmur son Ríkarðs kóngs af Englandi. Voru nú bundin sár manna en sumir ræntu valin og fluttu heim góss úr herbúðum. Kom hin gamli Sjóðr þá í borgina og var eigi í stöddu lítill að ræna hina dauðu.
56. Vilhjálmur mælti þá: “Mikinn sigr hofum ver fengið í bardaga þessum og brestur þo mikið á að vel sé ef ver skulum missa vorar jungfrúr. Er það minn vili að ver leitum eptir þeim”. Morgum þotti það ráð haskasamligt en þo varð svo að vera. Nú lætur Vilhjálmur klyppa hár allt af dýri sinu og fékk einum meistara og bað hann gjöra sér úr skikkiu. Hann lét nú höggva steinþró og lagði þar í dýrið og lét skrifa með gullstöfum hvað þar lægi undir. Hann tök hjarta dýrsins og mælti til Sjóðs: “Tak hér laun Sjóður,” sagði hann, “fyrir þinn styrk og et hjartað”. En hann kvest það eigi gjöra mundu að eta óæti en Vilhjálmur sagði að líf hans væri í vedi. En Sjóður þordi þá ei annað og át v bita mikla og þotti honum sér þá aukast bædi hugr og grimd. Vilhjálmur bað hann fyst sofna. Sjóðr gjörði so. Vilhjálmur bjóst nú til ferdar og Reginbald og badu folk vel lifa. Hann lét eptir hest sinn og burtstaung en hafði skjöld og sverð. Þeir töku dromedari er Kaukási höfðu att. Sjóður var þá vaknadr og baud að fara með þeim og gjarnan vildi hann nú reyna sig. Vilhjálmur bað hann geyma borgina með Menon. Fóru þeir Reginbald nú af stað og stefndu þann veg sem tröllkonurnar höfðu farið. voru þeir ávallt á þeim slódum sem þær haufdu undan farið. Komu þeir nú að Gaumbor mosum og mátti þá eigi lengr koma við dromedari og nú fundu þeir í mosunum einn gullsko og þekti Reginbald að systir hans hafði att hann. En Vilhjálmur kvað hann betur fundin en eigi. Siðan töku þeir dýr það sem þeir haufdu með sér. Það heitir katanansius. Það var langt og miugt og lảgt með xiiij fotum. Þetta dýr taka þeir og leggia á farangur sinn og stefna fram á mosana. Skreiddist þetta dýr yfir hverja ófæru og jafnan voru þeir báðir á baki því. ei er getið hversu lengi þeir voru á mosunum. en þá þeir komu af mosunum fundu þeir annan skoinn. sau þeir þá fiollin.
57. Þenna næsta dag áður fyrir höfðu tröllkonurnar komið af mosunum og voru nú komnar í sitt land. Þar var eitt þorp nalægt. Þar réð fyrir ein fúl damma. Hon fagnaði vel Sisigambur og hennar systur Balbumbu og bað þær dveljast þar og segja sér tíðindi. Þær syndu henni jungfrúrnar og badu hana sea gott rað fyrir þeim. einn salur ramgjör var þar. Þangað voru jungfrúrnar leiddar. ein dyngja var þar nalæg og var þar tröllkonunum unninn beini. Liðr nú dagurinn til kvells. Þetta sama kveld komu þeir Vilhjálmur og Reginbald að þorpinu og verða varir við hvar tröllkonurnar eru. Nú fer Reginbald upp á glugginn og báðir þeir og hlyddust um. Sisigambur tök so til orða. “Balbumba systir,” sagði hon, “hversu segir þér hugr um þá brædur hverjar lyktir ordið muni hafa orostunnar. Því að mér syndist farinn styrkur borgarmanna”. Balbumba svaraði “litillar upp reistar vænti ek þeim utan sa hinn stori maður valdi því er jafnan kom seinstur til orostunnar. hann einn ottumst ek af öllum maunnum”. “Þá skulu ver taka gott ráð,” sagði Sisigambur, “ef hann hefir sigur fengið þá forbænum hann svo að hann megi aldri þrífast”. Þær kvaðu það seirna gjört en skildi, “það læt eg um mællt,” sagdi Balbumba, “að ef myn orð mega nokkuð standast”, og í þessu lét Vilhjálmur detta ínn stein mikinn og kom hann á tennur Balbumbu svo þær brotnudu en steinenn sókk ínn í kjaptenn á henne og taffde það mäl fyrir henne. Sisigambur hljóp þá til dýranna, en Reginbald hjó af henni höfuðið því hun rette það ut en skrokkurinn féll á jörd og varð þá dýnkur mikill svo husið skálf og hrýstist liosed offan í halmenn er þar lá, og hljóp upp eldur mikill og komst i hused og brende það upp og allt það þar var ínne, logann lagde á þorpið og brann það upp og hin fwla damma þar ínne. þeir brutu upp salinn sem snarast og úrdu jomfrunnar hræddar. Astrinomia þekkir Vilhjálm og varð honum feýgenn og lagde bädar hendur um hans háls og gaff sig á hans vald, en Fulgida fagnade Reginbaldi og bað þá skunda til dýngiunnar, en þeir kvaðu þvi affloked, fóru þeir nú aftur í veg og er eý getið vm þeirra ferð fyrr en þeir komu til Ninive. Höfðu þeir Sjóður og Menon skipað borginni og feyngið menn í hana. haffde Sjóður nú besta forsogn fyrir öllu. var hann nú orðinn so skapstýggur að hann þoldi öngum halfkveðið orð, höfðu þeir Reginbald misseri verið úr Ninive.
58. Það er nú þessu næst að þeir Vilhjálmur og Reginbald vilja halda sín brullaup og voru þar engi motmæli af meyjanna hendi. voru þar og god efni á. stóð Sjóður fyrir veislunni. og kom þar saman mikið fiolmenni. mátti þar sea margan hofmann. skorti þar eigi allra handa hliodfæri. og stóð su veisla manud. og var engi sa dagr að eigi ríði riddarar í turniment og biuggu jungfrúr þá ủt. en hver sem fromastur kom heim af þeim leik. þá atti hann þá fridustu jungfrú sem hann vildi kjósa. Landsmenn beiddu að Vilhjálmur skyldi þar vera höfðingi. en hann kvest fyst mundu fara til Grikklands. og vita hvað liður um fodur sinn. “en Sjóður skal styra borginni þar til eg gjöri annað rað fyri”. Sleit nú veislunni. og fóru nú allir heim til sin með godum giofum. og þaukkudu allir Reginbald og Vilhjálmi. að þessi veislu gaf Vilhjálmur Sjóð hertuga dom og það riki sem Manases hertugi hafði att. tök Vilhjálmur af honum það kenningarnafn að hann var kalladr Siódr alla æfi siðan.
59. Sem þeir Vilhjálmur og Reginbald höfðu verið xij mánaði í Ninive biuggust þeir til Grikklands og með þeim fóru þeirra konur og höfðu of fjár. þeir höfðu c skipa og xx dromundar voru hladnir með þeirra farangur. skildu þeir nú við borgarmenn. er eigi getið um þeirra ferd fyrr en þeir koma í Macedon í riki Menons og urdu menn þeim fegnir. frettu þeir þar þau tíðindi sem gjörst höfðu í Miklagardi. og að Krisedus kóngur er dauðr. hann hafði att eptir ij dætur kurteisar. hét aunnr Gloriant en önnur Marsebil. Baud Menon kóngr þeim af riki sinu það þeir vildu. en þeir badu hann fara með sér til Miklagardss. Er eigi um getið þeirra ferd fyrr en þeir komu þar. og varð þar mikill fagnafundr og drukku menn þar fagnadar aul. og var þá fram leiddr Manases hertugi er fyr var nefndur. Vilhjálmur leit eigi vel til hans. Rikardr kóngr mælti: “Minn kæri son,” sagði hann, “þessi maður er mikill kappi og hann hofum uær á vort vald tekið og vildum ver að þu gjörðir honum mikinn soma”. Vilhjálmur svarar “eigi vil eg hnekkja heidri þinum. en eigi hafði eg ættlað þeim manni sæmd að gera sem þig hefir hönd höggið”. “Karlmennska hans var að meiri,” sagði kóngr, “og megi þér vorkynna slika hluti”. Þá svarar Manases: “Eg er nú einn fangi. en ef ek uæra laus. þá skyldi einn riddari ekki lengi þurfa að beidast eptir mér”. Vilhjálmur mælti: “Kæri faðir,” sagði hann, “gjör til þessa manns vel”. Nú sendir Vilhjálmur til Dalmaria og skal Menon sækja dætur Krisedus kóngs og færa til Miklagards. og so var gjört fagnadar øl mote þeim, en er þær hoffdu þar verið nokkra stund í mikille výrdingu mællte Vilhjálmur eirn dag “langt hefur sydan verið er eg foor heýman og hef eg þá tvo sveyna er mér haffa ørugga fylgd veýtt hvað eg vilda makliga launa, því vil eg | vita hvað Astrinomia skal eiga í Grikklandi”. Reginbald mælti: “Allt Grikkland og eg er í þínu valdi, skipa öllu sem þér líkar”. “Það er þá mitt upphaf,” sagdi Vilhjálmur, “að alla hluti skal hvor okkar eiga við annan að helmingi. En Menon vil eg gefa Dalmaria og þar með Marsebil dottur Krisedus kóngs, en hertuge Manasses skal eiga borgena Ninive með synu lande og adra dottur Krisedus kóngs”. Manasses þakkaði honum með morgum fögrum orðum. Var nú þangað boðið herrum og höfðingjum af Macedonia Grikklandi og Dalmaria og héldu þeir sín brullaup með mikilli gleði, en að veislunni endaðri gaf Vilhjálmur höfðingjum góðar gjafir, hið sama gjörði og Reginbald. Vilhjálmur gaff þeim nú ordloff heym til sinna landa en hann kvedst vilja vitia til Einglands, en bad hỏffdingja so við búast ad hann munde þeirra sydan vitia og skilja nú allir með miklum kiærleika.
60. Nú hefur Vilhjálmur verið burt af Einglande x vetur, fer hann nú og faðir hans og létta ei fýrr en þeir koma til Englands og urdu þeim allir fegnir, og opinberaði hann þá alla sýna sógu fra upphaffe og til enda, og lofudu allir hans hreiste, en Vilhjálmur kvað hamingjunni allt ad kienna, “þvi margann hef eg þann vnnið ad miklu var rauskvari en eg”. þakkaði hann Dixin sina forstóðu er hann hafði veitt meðan hann var í burtu og gaf honum hertuga dæmi og mikið riki. tök Rikardr kóngr nú við riki sinu og töku því allir vel. þenna vetur fæddi Astrinomia sveinbarn mikið og fagurt. það var lagið í skaut Vilhjálmi og skyldi hann því nafn gefa. hann leit á barnið og mælti “eigi mun ek þeim gleyma sem mér hefir best við ordið og því skal hann Leo heita. og þar með gef ek honum það riki sem ek á í Saxlandi. og ef hann likist nafni þiki mér von að hann muni afla sér ei minna rikis”. hann gaf og Lieo syni sinum stein þann sem hann tök af einfætingi. og þotti ollum su gersimi mest hafa komið á Norðrlönd. sað Vilhjálmur í Englandi þessa xij mánaði.
61. Eptir ár liðið býst Vilhjálmur burt og fylgdi faðir hans honum til Saxlands, en son sinn lét hann eptir hjá föður sínum, en hafði með sér vini sína og skildu þeir með kærleikum. Sigldi Vilhjálmur Sjóðr nú til Miklagarð og verðr Reginbald honum feginn. Fulgida hafði son átt þann vetur er hét Arkistratus. Situr Vilhjálmur nú þar þenna vetur. Eitt sinn talaði Reginbald við Vilhjálm: “Hversu lengi”, sagði hann, “ætlar þú svo að lifa að þú hafir öngva nafnbót? Viljum vér að þú takir hér ríki og kóngdóm”. “Eigi vil ek skerða ríki þitt”, sagði Vilhjálmur, “en það er eigi allt fram komið sem ek hefi ætlað. Hef eg frétt að Arkilaus kóngr faðir þeirra Artimundar og Armidons er við felldum í Njörvasundum hann hefir nú sezt í Babilon en drepið Soldán kóng. Nú ef þú villt veita mér nokkuð lið þá vit fyrir víst að þangað skal eg fara. Ætlar kóngr og hingað að hefna sona sinna, og mættum við gjöra honum minna fyrir og fara í mót honum”. Kom þeim það nú á samt að bréf voru gjör til Menons kóngs, að hann skal verða þeim að liði. Þeir sendu og Manases boð og hertuga Sjóð og skyldu þeir finnast allir við Babilon.
62. Í þenna tíma kom utan af Erikon Herkul kóngr hinn sterki og færði Vilhjálmi góða gripu. Honum fylgdi hans son er Neptalim hét. Hann var mikill og sterkr og líkur föður sínum. Honum gaf Vilhjálmur riddara nafn og mæki þann hinn stóra er Frollo hafði átt. Var hann öngum manni vopnhæfur utan honum og fór hann með Vilhjálmi þessa herför. En Herkul kóngr fór heim til síns lands með sæmiligum gjöfum. Vilhjálmur býr nú her sinn og hefir ógrynni liðs svo eigi mátti telja. Sigla þeir nú þegar byr gaf og léttu eigi fyrr en þeir koma til Tyrklands. Þar fundu þeir Menon kóng og hafði hann c skipa, fara síðan til þess að þeir koma til Babilon og kom þar til mós við þá hertugi Sjóður og Manases með miklu liði og fögnuðu þar hvorir öðrum vel. Síðan settu þeir sínar herbúðir á völlunum nær Babilon og var það mjög jafnsnemma og saman var kominn sá mikli her að Arkilaus kóngr ætlaði að stýra til Miklagars og er nú líkast að honum verði minna fyrir.
63. Arkilaus kóngr sér nú herbúðirnar og hefir sanna frétt af hverir þær eiga. Stefnir kóngr þá þing og mælti svo: “Nú er hér kominn Vilhjálmur Sjóður”, sagði hann, “og vill ræna oss voru ríki en vér erum eigi uppgefnir fyrir honum. Skulu vér ganga úr borginni og gjöra þeim harða hríð. En ef þeir taka fast í mót skulu vér hörfa aftur í borgina því að hon skal opin vera og skulu vér láta þá ganga inn sem flesta og hleypa síðan niður hurðunum þeim sem yfir hliðunum eru”. Allir rómuðu vel orð kóngs. Og um morguninn lét Arkilaus kóngr lúka upp borgina og reið þar ut margr dramblátur drengr. Þeir höfðu ij fylkingar og ríða svo fram á völluna. Hét sa kóngr Ermingard, er stýrði annari fylkingunni, en sá hét Dunkamin er var merkismaður Arkilaus. Hann var svo gamall að hann hafði þrysvar kastað tönnum. Hann var sterkur sem tröll. Vilhjálmur býr nú sinn her og setur upp sitt merki og það bar nú Neptalim. Reginbald hafði aðra fylking og sneri hann mót Ermingard, en Menon kóngr skyldi geyma herbúðir. Manases skyldi hafa hinu þriðju fylking og fór hún laus.
64. Nú síga saman fylkingar og mátti þar heyra gný ok vopna brak. Dunkamin reið fram djarfliga með merki Arkilaus kóngs, og stóð ekki við honum og ætluðu allir að fjandinn sjálfur mundi þar kominn. Honum í mót kom Neptalim er bar merki Vilhjálms. Dunkamin leggr til hans með sínu spjóti í brjóst hestinum og í því fékk Neptalim steinshögg og stökk hann fimliga af baki og lagði til Dunkamins og hæfði undir hans bannsettu kjálka og gekk spjótið upp um hvirfilinn og kastaði hann honum dauðum fyrir fætur Arkilaus kóngi en hann bað sína menn víkja undan í borgina og so gjörðu þeir. Það er að segja af Manases að þegar fylkingum sló saman, reið hann að borginni og átti mikinn bardaga við borgarmenn. Menon kóngr vildi nú veita honum og skipti liði sinu í ij staði og fer sjálfur til borgarinnar að veita Manases og varð þar hörð sókn. Því að borgarmenn helltu út á þá biki og brennisteini. Þeir koma nú að borginni sem flýja vildu og komst Arkilaus inn í borgina með sitt lið. Neptalim sækir eptir honum með merkið, og komst í borgina með ᴍ riddara og merkið. Manases var þá og inn kominn og var nú niður hleypt járnhurðunum og varð þar undir mikið lið. Nú kemur Ermingard að einu borgarhliði opnu og vildi þar inn ríða. En Menon reið að honum og lagði fyrir brjóst honum svo hann féll aftur í hliðið og hljóp steinhurðin ofan á hann og dó hann þar. En hans merki bar einn risi og var hann utanborgar. Sjóður ríður að honum og leggr í hans skjöld og gekk skaptið í sundur. Risin hjó til Sjóðs og kom á öxlina vinstri og brotnaði axlarbeinið og viðbeinið. Sjóðr hjó þá höfuð af risanum. Reginbald og Vilhjálmur voru fulltíðvígir að drepa þá sem utan borgar voru. Neptalim ruddist um fast í borginni og þeir Manases og drápu menn með öllum býsnum. Arkilaus vill nú flýja í turna borgarinnar og þá kom Manases í mót honum og hrindur honum af hestinum og var nú kóngr tekinn og í fjötra settur. Höfðu þeir Vilhjálmur og Reginbald nú brotið upp borgina og gáfu borgarmenn sig nú upp.
65. Vilhjálmur stefnir nú þing í borginni og var Arkilaus kóngr þangað leiddr. Hann átti dóttur er Graciana hét. Vilhjálmur mælti þá: “Þakka viljum vér öllum vinum”, sagði hann, “sína liðveislu. En nú er Arkilaus kóngr kominn á vort vald og vil ek að hann fari heim í sitt land og haldi sitt ríki. En eg vil gefa Gracianu hans dóttur Neptalim”. Arkilaus kóngr tók þá úr sínum pungi einn lykil og mælti til sins smásveins: “Far til minnar dóttur og seg hon færi mér mína gullkórónu”. Og síðan kom jungfrúin þar með mörgum meyjum og færði föður sínum kórónuna. En hann tók við og mælti: “Þessa kórónu gef eg þér Vilhjálmur og kóngs nafn yfir Babilon. Hér með gjör af minni dóttur hvað þú villt, en sá gefi þér meira sem þig hefir eflt”. Vilhjálmur mælti þá: “Nú er Arkilaus kóngr kominn á vort vald og orðinn vorr vin. Nú vil ek gefa honum allar sinar eignir, en Neptalim skal jungfrúna eiga og þar með borgina Trekt og þau ríki sem þar fylgja, en Menon skal eiga Kaldialand, en Manases skal vera kóngr yfir Ninive, en Sjóðr skal eiga það hertugadæmi sem Manases hélt”. Síðan voru bornar inn góðar gjafir og skipt með hermönnum til jafnaðar og vildu höfðingjar þar ekki af hafa. Var nú gjört brullaup þessara vildismanna Neptalims og Gracianu. Reginbald kórónaði Vilhjálm og gaf honum einn gullknött svo þungan að engi gað af jörðu lypt. Vilhjálmur tök þá sitt sverð Samiron og hjó gullhnottin í sundur í iiij parta. Einn gaf hann Menon, annan Manases, hinn þriðja brúðinni, fjórða Sjóð. Siðan kysti hann á hjölt sverðinu og gaf það Reginbald. Veislan stóð fjörutigi daga og gekk einatt í vöxt. En engi hlutur er svo langr að eigi liði. En þá þessi veisla var enduð töku höfðingjar hver heim til síns lands og skildu með vináttu. Manases vildi ekki skiljast með Vilhjálm og dvaldist hann með honum, en setti bróður sinn yfir Niniveborg þann sem Darius hét og stýrði hann þeirri borg meðan hann lifði. En þeir Vilhjálmur og Manases sátu í Babilon meðan þeir lifðu báðir. Ammiral hét son Vilhjálms og Astrinomiu er þar tók ríki. Nú er saga þessi komin á enda, og hafi þeir laun af hinni blessuðu Balbumbu og signuðu Sisigambur og öllum tröllum sem skrifaði og fyrir sagði, las og til hlyddi, et setera valete.
Нормализация: Hrafn Hvíti