Sagan af keisarasyninum kvensama

Einu sinni var keisari mikill og mektugur sem átti sér einn son. Þegar hann komst upp fór hann úr landi að afla sér fjár og frægðar. Hann átti margar orustur og hafði alltaf sigur og urðu allir hræddir við hann, því hvar sem hann kom hafði hann þann sið að taka kóngadætur og ungar drottningar og liggja hjá þeim tvær eða þrjár nætur og láta þær svo fara.

Í öðru ríki var kóngur sem átti dóttur með drottningu sinni. Hún var fríð og falleg og vitrari og ráðugri en flestar konur aðrar. Það var einn dag að kóngur var úti staddur. Hann sá mörg skip sigla að landi og þekkti siglingu keisarasonar því hún var auðkennd. Hann varð hræddur og fór til dóttur sinnar og sagði hún mundi eiga von á góðu, því keisarason kæmi að landi. „Vertu öruggur, faðir,“ segir kóngsdóttir, „bjóddu honum í skemmuna til mín.“ „Ætlarðu að ganga viljug á vald hans?“ segir kóngur. „Mér þykir ekki betra að hann drepi þig fyrst og nauðgi mér svo,“ segir hún. Kóngi var þungt í skapi. Hann gekk móti keisarasyni og tók honum með blíðu og leiddi hann til dóttur sinnar. Hún tók honum vel og leiddi hann inn í skemmuna og dró af honum ytri klæðin, en þegar hann fór upp í rekkjuna, hrapaði hún niður, og var opin kista undir. Þar lenti keisarason í, og í því stakk kóngsdóttir honum svefnþorn, rakaði síðan af honum hár og skegg og bar tjöru í, lét síðan færa kistuna út á skip keisarasonar og lét skila því til manna hans að þeir skyldi færa föður hans þessa kistu sem fljótast, keisarason ætlaði að bíða þeirra á meðan. Þeir trúðu þessu og fóru heim til keisara og færðu honum kistuna. Hann lauk henni upp og sér son sinn illa útleikinn, tekur burt svefnþorninn, og vaknar keisarason við slæman draum.

Hann er nú heima þangað til honum var vaxið hár og skegg. Þá safnar hann liði og ætlar að finna kóng og dóttur hans. Kóngur sá siglingu hans og sagði dóttur sinni. Hún sagði að enginn kostur væri annar en biðjast friðar og ganga að þeim kostum sem keisarason setti. „Hann mun vilja fá þig,“ segir kóngur. „Þú skalt þá láta mig til hans,“ segir hún. Nú kom keisarason og bauð kóngi til bardaga. Kóngur baðst friðar. Keisarason sagðist þá vilja fá dóttur hans út á skip sín. Kóngur sagði dóttur sinni þenna kost. Hún sagði hann skyldi taka hann heldur en verða drepinn, og svo fór að kóngur færði keisarasyni dóttur sína. Hann tók hana á handlegg sér og bar hana til skipa og sigldi heim. Hann var blíður við hana á leiðinni og sagðist ætla að eiga hana þegar hann kæmi heim, og sagðist hafa látið byggja brúðkaupshöllina niður við sjó. Þegar skipin komu að landi sá kóngsdóttir húsið, og fór keisarason með hana þangað og lauk því upp. Þar inni sá hún tvo stóla. Annar var mikið skrautlegur, en hinn ekki mjög fallegur. Keisarason hafði látið búa þetta til með töfrum, svo að hvur sá sem fyrstur gengi inn í húsið skyldi setjast á fallega stólinn, en það var ekki svo gott. Keisarason hafði sagt föður sínum að forvitnast ekki í húsið þó þar heyrðist ólæti. Nú sagði keisarason við kóngsdóttur að hún skyldi ganga inn á undan, en hún þverneitaði og skipaði honum að fara á undan. Loksins fór hann á undan og settist á fallega stólinn, en hann var alþakin göddum sem settust í hann, og þar varð hann fastur við og orgaði hátt, en hún fór út og læsti húsinu og fór burt, enginn vissi hvurt.

Þegar keisaranum fór að leiðast eftir syni sínum fór hann einu sinni að gá í húsið. Hann fann þar son sinn nær dauðan, tók hann af stólnum og bar hann heim. Allir gaddarnir stóðu í honum, og gátu læknar ekki náð þeim. Lá keisarasonur dauðveikur og fór versnandi. Þá kom einu sinni gamall karl til keisara; hann tók honum vel. Karl spurði því svo illa lægi á öllu fólki þar. Keisari sagði það væri af því að sonur sinn lægi dauðveikur í undarlegum sjúkdómi. „Má ég fá að sjá þenna aumingja?“ segir karl. Keisari lofaði það og fylgdi karli til hans. „Má ég snerta þennan aumingja?“ segir karl. „Hann er dauður hvort sem er,“ segir keisari. Karl skoðar hann nú og segir svo við keisara: „Ráð sé ég til að lækna hann ef þér viljið nýta það.“ Keisari spurði hvurt það væri. „Þér skuluð,“ segir kall, „láta drepa þann ólmasta graðhest sem þér eigið og láta flá hann og leggja son yðar í blauta volga húðina og vefja henni um hann. Þar skal hann liggja einn sólarhring.“ „Hann er dauður hvort sem er,“ sagði keisari og skipaði að drepa hestinn og koma þangað með volga húðina. Það var óðara gjört og vafði karl þá keisarason í volgri húðinni og þar lá hann sólarhringinn. Síðan fletti karl húðinni af honum og stóðu þá í henni allir gaddarnir. Síðan gerði karl honum laug og bar á hann smyrsl og sat yfir honum þangað til hann komst á fætur, og svo varð hann albata. Nú var karl um tíma hjá þeim feðgum í mesta yfirlæti. Þegar hann var búinn að vera þar árið sagðist hann vilja fara í burtu. Þeir báðu hann að vera lengur, en hann sagði það hefði verið lagt á sig að hann skyldi hvurgi una lengur en eitt ár. „Biddu mig þá einhvurrar bænar,“ sagði keisarason. „Já,“ sagði karl, „þess bið ég þig að ef þú ert í stríði, þá haltu upp friðskildi ef þú sér mig.“ Keisarason lofaði því og síðan fór kallinn, enginn vissi hvurt.

Nú fer keisarason að safna liði og ætlar nú að hefna sín á kóngi og dóttur hans. Hann fer þangað, gengur á land og herjar. Kóngur fer á móti honum með það lið sem hann hafði. Þeir börðust og hallaðist fljótt á kóng. Þá sér keisarason allt í einu hvar kallinn gamli stendur á einum hól. Hann brá þá upp friðskildi og var hætt að berjast. Hann gengur til karls og leiðir hann til tjalda sinna. Þeir setjast niður og tala saman. Allt í einu kastar karl tötrum sínum og er þetta kóngsdóttirin. Nú varð keisarason hreint hissa og kom engu orði upp, en féll um háls henni og grét. Er ekki að orðlengja það að þau sættust heilum sáttum og síðan bauð keisarason kóngi sættir með því móti að hann gifti sér dóttur hans og skyldi veizlan vera þar strax, og fór það fram og síðan eftir veizluna skildu þeir mágar með vináttu. Fór keisarason heim til föður síns og sagði honum alla sögu sína. Keisarinn sló þá upp gleðiveizlu og í henni lagði hann niður völdin og gaf syni sínum ríkið, og ríkti hann lengi og hafði bætt ráð sitt og var góður höfðingi.

Ég var í veizlunni, fékk roðbita og smjörbita, lagði það fram á hlóðarhellu, smjörið rann, roðið brann. Brenni hár í hvirfli þeim sem ekki hafa goldið mér sögulaun annað kvöld um þetta mund.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1958), Jón Árnason, V. bindi, bl. 195–197.

© Tim Stridmann