Músin og dordingullinn

Það var eitt sinn kóngur og drottning í ríki sínu. Þau áttu dóttir er Helga hét; var hún bæði fríð og vel að sér. Í koti ekki langt þaðan bjó karl er Svartur hét; hann átti konu er Þórhildur hét; þau áttu son sem Sigurður hét; var hann lítill að burðum og lá jafnan í eldaskála.

Eitt sinn bað faðir hans hann að fara með kú sína til beitar. Sigurður gjörir þetta. Fer hann með kusu út á skóg og situr þar hjá henni um daginn. Um kvöldið þá hann ætlaði heim kom til hans maður mikill og stór og beiddi hann að selja sér kúna. Sigurður vill það ekki gjöra, en hinn biður hann því ákafar og segist skuli borga meira en nokkur kýr geti kostað. Tekur hann þá pung stóran úr vasa sínum og segist skuli láta þetta allt fyrir kúna ef hann fái hana. Hugsar þá Sigurður er hann sá punginn að kýrin mundi þá vel borguð og faðir sinn gæti keypt fyrir þessa peninga kú aftur eða hvað helzt hann vildi. Lætur nú Sigurður fala kúna og fær aftur pung þann er hann hugði borgunina vera í. Áður þeir skildu Sigurður og aðkomumaður þá segir aðkomumaður Sigurði að hann skuli ekki leysa frá pungnum fyrr en hann komi heim. Sigurður lofar þessu og skilja þeir síðan. Fer þá aðkomumaður á skóg og er hann úr sögunni, en Sigurður fer til heimilis síns og fær föður sínum fépyngjuna. Leysir þá karl frá pokanum og skreppur þá úr pokanum mús og dordingull og hverfur þá hvurtveggja.

Nú verður Svartur reiður mjög og rekur son sinn á dyr. Gengur þá Sigurður í burt og út á skóg og vissi ógjörla hvað hann fór. Komu þá á móti honum músin og dordingullinn og kvöddu hann vinsamlega og kváðu hann vel hafa gjört þá er hann keypti þau við verði. Sögðu þau hann mundi þar laun fyrir taka þegar fram liðu stundir. Þau spurðu hann hvurt hann ætlaði fara, en hann sagðist vilja komast á fund konungs. Þau kváðust skyldu vísa honum leið þangað. Fara þau nú þar til er þau koma að garði konungs. Fer Sigurður þá [á] fund kóngs og biður hann veturvistar og konungur gjörir honum heimil húsakynni; og var Sigurður þar þá um vetur[inn]. Eitt var það er kóngur áskildi að Sigurður skyldi gjöra; var það það að hann skyldi gæta nauta sinna og færa sér á hvurju kvöldi nokkuð af því er þau ætu. Sigurður lofar þessu og tekur hann nú að gæta nautanna.

Kvöld nokkurt þá Sigurður er kominn í rúm sitt þá kemur þar mýsla og kveður Sigurð og sagði að hann hefði tekizt á hendur vanda mikinn. Mýsla segir: „Þegar þú lætur út nautin á morgun þá far þú með þau til skógar. Muntu þú koma að elfu mikilli. Þar mun maður við ána og mun vilja hefta ferð þína; en þú skalt ekki gefa gaum að orðum hans og velt þú honum í ána.“ Um morguninn snemma fer Sigurður á fætur og lætur út nautin og fer að öllu sem mýsla hafði honum ráð til lagt; fór þar til er hann kom að ánni. Sá hann þar manninn. Sat hann á stóli og lék sér að gullbúnu tafli. Hann biður Sigurð að tefla við sig, en Sigurður anzar því ekki og hrindir honum í ána og hleypur á bak seinasta nautinu og ber það hann yfir ána. Fara nautin alltaf á undan honum þar til þau koma að húsi einu. Fara nautin þar inn og kasta þá öll hömunum og voru það þá allt ungir menn. Settust þeir allir til borðs og mötuðust og gáfu Sigurði bita af öllu því er þeir borðuðu. Fór þessu fram allan veturinn að þeir fóru til húss þessa á daginn og heim að kvöldi og færði Sigurður kóngi á hvurju kvöldi það er þeir gáfu honum af mat sínum.

Sumardagsmorguninn fyrsta þótti Sigurði undarlega við bregða að þeir voru þá menn allir. Sögðu þeir honum þá frá álögum sínum og það að þeir vóru bræður kóngs, en þá þeir vóru ungir lagði stjúpa þeirra á þá að þeir skyldi verða naut og ekki úr þessum álögum komast fyrr en einhvur væri svo trúr að hann gætti þeirra svo allan veturinn að hann gæti fært kóngi af fæðu þeirra hvurt kvöld. „Þegar stjúpa okkar lagði á okkur þá var bróðir okkar ekki heima og varð hann því laus við álög þessi, en þá hann kom heim þá drap hann stjúpu okkar, og litlu seinna þá dó faðir okkar og tók þá bróðir okkar ríkið og [hefur] stýrt því síðan. Hefur [hann] jafnan leitazt við að fá þann mann er gæti fríað okkur úr þessum álögum og hefur hann öngvan fengið þar til er hann fékk þig og þú leystir það svo af hendi eins og áskilið var þá á okkur var lagt. Eru nú tuttugu ár síðan er þetta skeði.“ Fara þeir nú allir á fund kóngs og fagnar hann vel bræðrum sínum og svo Sigurði. Kvað hann hann eiga hjá sér fyrir verkið og segir hann skuli sjálfur kjósa hvað hann vili til launa taka. Sigurður segir að [hann] óski helzt að fá dóttir hans, Helgu. Kóngur lofar því og skyldi halda brúðkaup um haustið.

Maður er nefndur Rauður og var hann ráðgjafi konungs og lagði hann hug á Helgu. Nú gjörðu þeir skilmála um það Sigurður og Rauður að sá þeirra skyldi hljóta Helgu kóngsdóttir er gæti falið sig svo fyrir öðrum að hann fyndist ekki, og var kóngur þessu samþykkur. Kom nú fyrsta nóttin; átti þá Sigurður að fela sig. Kemur þá mýsla til hans og segir honum að hann skuli fara upp á hallarburstina og sitja þar um nóttina — „en ég skal sitja í hári hans.“ Sigurður gjörir þetta. Leitaði Rauður þá nótt alla og fann ekki. Hina næstu nótt skyldi Sigurður leita Rauðs, og [um] kvöldið kom mýsla til Sigurðar og sagði að Rauður var svo fjölkunnugur að hann mundi allt þurfa fram að leggja til að geta fundið hann. Hún sagði honum hann væri staur sá er stendur á húsabaki og styðst við vegg upp. „Þú skalt ganga til staursins, taka hann þaðan og bera fyrir hallardyr og slá honum þar niður við steingólfið.“ Þegar nóttin kom gjörði Sigurður þetta er honum var sagt, og þegar hann sló niður staurnum rak Rauður upp skræk mikinn. Nú hina næstu nótt þá skyldi Sigurður fela sig og fór það sem fyr að hann sat á hallarburstinni og músin í hári hans og fann Rauður hann ekki þá nótt. Hina næstu nótt þá skyldi Rauður fela sig; kom þá músin til Sigurðar. Hún ráðleggur honum að leita í eldhúsi, — „og felst hann í ausu þeirri er þar hvolfir hjá hlóðasteininum. Tak þú ausuna og rek hana í soðketilinn.“ Sigurður gjörir þetta; finnur hann ausuna og tekur hana og rekur hana í ketilinn. Hljóðar þá Rauður mikið. Nú átti Sigurður að fela sig og fór hann að því sem fyrri og fann Rauður hann ekki, og nú skyldi Rauður fela sig. Um kvöldið kom músin til Sigurðar og sagði honum að Rauður fal sig í nálhúsi kóngsdóttir. „Þú skalt fara að glugganum á herbergi kóngsdóttur og bið hana að ljá þér nálhúsið.“ Sigurður gjörir þetta og léði Helga nálhúsið. Sigurður steypir nálunum í kné sér. Hann sá þar nál eina stóra og ryðgaða mjög. Hann tók nál eina og stakk í auga á stóru nálinni. Rauður rak þá upp skræk mikinn og var hann nú orðinn einsýnn. Og um morguninn þá menn gengu til drykkju kom Rauður ekki og lá hann veikur. Lét kóngur þá sækja hann og spurði hvursu til hafði borið, en Rauður sagði hið sanna og það með að hann var sá hinn sami er sat á árbakkanum og bauð Sigurði að tefla þá hann fylgdi nautunum. Sagði Rauður kóngi það líka að hann var bróðir stjúpu hans — „og reyndi ég því að hamla því að bræður þínir kæmist úr álögunum.“ Kóngur lét nú taka Rauð og setja í fjötur, en Sigurður var hafinn í hásæti hjá konungi. Hófst þar veizla og að þeirri veizlu gekk Sigurður að eiga Helgu kóngsdóttir. Og hið fyrsta kvöld er hann skyldi sofa hjá Helgu þá bað hann dyravörðinn að læsa ekki dyrunum, og er leið að miðri nóttu fann Sigurður að músin hljóp undir klæðin. Kasta þau nú hami músin og dordingullinn og var þar þá fagur maður og fögur stúlka. Ekki er þess getið hvað þau hétu. Voru þau systkin og voru börn kóngs nokkurs og hafði verið lagt á þau og áttu þau ekki að komast úr þessum álögum utan það skeði sem áður er sagt, nefnilega það að þau væru verði keypt og annað það að þau mættu vera í rúmi því er hann svæfi í þá fyrstu nótt er hann svæfi hjá konu sinni — það er að skilja sá er keypti þau. Sæmir konungur þau systkin góðum gjöfum. Fara þau eftir það til síns föðurlands.

Lýkur hér þessari ómerkilegu sögu.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann