Á Vatnsenda í Vesturhópi bjó ekkja sú er Sigríður hét; hún átti tvo sonu, hét annar Jón og annar Arngrímur. Arngrímur vandi sig á að senda steinum til marks og slöngva þeim, en Jón fór með langspil og var jafnan að arga á það. Þeir voru oft að sýsla þetta undir hömrum þeim er standa suður frá Vatnsenda. En einhverja nótt dreymir Sigríði að kona kemur til hennar og biður hana fyrir að banna drengjum sínum að vera suður undir berginu að leikum sínum því hún segist ekki halda börnum sínum inni vegna langspilsins, en ekki þora að sleppa þeim út vegna steinanna sem Arngrímur sé að henda.
Sigríður bannaði nú þeim bræðrum að vera suður undir berginu með leiki sína og létu þeir af því um stund. En einhvern dag varð þeim þó það ennþá að þeir hvörfluðu suður undir berg og dreymdi þá Sigríði móður þeirra hið sama og hið fyrra skiptið, og bætti nú konan við að þeir mundu verra af hafa ef þeir léku þetta oftar.
Bannaði nú Sigríður þeim ennþá að vera undir berginu og létu þeir nú af og voru annarstaðar að leika sér, en svo bar þó enn eitt sinn til að þeir gleymdu banni móður sinnar og færðust suður undir björgin og léku sér þar.
Nóttina eftir dreymdi Sigríði að konan kom til hennar og var mjög reiðugleg; sagði hún að nú hefði farið eins og sig hefði grunað; hún hefði ekki getað haldið börnunum inni fyrir langspilinu svo þau hefðu komizt út og Arngrímur handleggsbrotið eitt þeirra með slöngusteini. Sagðist hún nú slá þá með blindu og skyldi það við vara í ættinni í þriðja lið.
Um morguninn var Arngrímur steinblindur, en Jón hafði hálfa sjón. Báðir urðu þeir gamlir menn. Arngrímur var manna sterkastur og réri á hverjum vetri vestur undir Jökli þó blindur væri, en Jón giftist og átti margt barna; mörg voru þau sjóndöpur, en sjálfur varð hann steinblindur þegar hann var fertugur. Nú eru barnabörn hans miðaldra og yngri og mjög augndöpur, en fjórði liðurinn eða barnabarnabörn eru ekki alin.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.
Текст с сайта is.wikisource.org