Í Skörðum, það er byggð í fjöllum milli Skagafjarðar og Húnavatnssýslu, er bær einn sem nefndur er Selhólar. Nálægt bænum er tjörn sem kölluð er Djúpatjörn. Í tjörn þessari er mergð af silungi smáum og stórum, en hvenær sem net eru lögð í tjörnina finnast þau ávallt að morgni upp á bakka, annaðhvort undin saman í hnykil ellegar rifin í sundur. Þetta hefur oft verið reynt og hefur jafnan farið á sama veg.
Eitt sinn var fólk á grasafjalli og lá við Djúputjörn. Einn morgun kom stúlka út úr tjaldinu um sólaruppruna. Sá hún þá fimm báta á tjörninni og tvo menn á hverjum nema þrjá á einum, og var sá báturinn stærstur. Vóru þeir að draga upp net og öfluðu vel. Þóttist hún vita að þetta mundi vera huldufólk og hafði augun lengi á bátunum. En þegar henni varð litið af sá hún þá eigi framar.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 40.