Huldumaður í Sunnudal

Í Sunnudal í Vopnafirði bjó bóndi sem Jón hét og hafði átt með konu sinni einn son sem Erlindur hét; hann var þriggja ára. Um vorið stíuðu þau hjónin lömbum sínum eftir vana. Einn morgun um vorið kom bóndi út og hafði þá gjört él um nóttina svo sporrækt var, kemur inn og segir við konu sína að mál sé að fara á stekk. Hún segir: „Þá verður að binda hann Erlind litla eins og vant er svo hann komist ekki ofan.“ Batt hún svo barnið, en þau fóru á stekkinn. Þegar þau komu heim gekk bóndi til baðstofu. Brá honum mjög í brún þar barnið var burt, en bandið lá eftir. Gengur hann þá út og fer að hyggja að sporum barnsins. Þegar hann kemur út sér hann hvar hann hefur gengið, rekur sporin og lágu þau að kletti einum skammt frá bænum. Meir sá hann ekki, fer heim og segir konunni frá. Báru þau sig illa og segja að álfar hafi tekið barnið og sjái þau það ekki meir.

Arnór er maður nefndur sem bjó á Sandi í Axarfirði og fór það orð af honum að hann væri mestur galdramaður norðanlands. Bóndi tók það ráð að leita Arnórs, reið af stað og segir ekki af ferð hans fyrr en á Sandi. Arnór var heima. Segir bóndi honun frá og biður hjálpar. Hann þagði um stund og svarar síðan: „Nú er við ramman reip að draga því göldróttari fjandi er ekki til. Ekki fer ég með þér, en ríð þú til baka og þegar þú kemur heim skaltu ganga að klettinum, tala hátt: „Arnór á Sandi bað mig að bera þau orð sín við klett þennan ef ekki sé skilað barninu skuli hann koma hálfur í nótt, en allur hina,“ og mun þetta duga ef þú fer með sem ég segi.“ Bóndi ríður heim og fer með öllu sem honum var kennt. En þegar hann var nýkominn í baðstofu kom maður inn að palli og hélt á Erlindi og lét hann upp á pallinn. Þá hraut hagl af auga hans ofan á kinn barnsins og bar hann þar bláan blett alla ævi. En frá því sagði hann föður sínum að sami maður hefði sókt sig þegar þau hefði verið komin burt og borið sig í steininn og þar hefði hann ekki séð nema konu og rauða kú; hana hefði konan mjólkað og viljað gefa sér, en sig hefði velgt við mjólkinni því hún hefði verið ljósblá á litinn svo hann hefði ekki getað drukkið hana. Þegar huldumaðurinn heyrði orðsendingu Arnórs sagði hann: „Nú er fjandinn laus svo ég verð að sleppa Erlindi því Arnór á sér öngan jafningja og það er sá eini maður sem ég hefði látið undan,“ tók barnið grátandi og bar inn á pallinn sem fyrr segir.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bl. 85–86.

© Tim Stridmann