Það er oft í sögnum haft hér á landi að huldumenn hafi numið burt og leitað samfara við mennskar konur, og eins á hinn bóginn að álfkonur hafi lagt ástarhug á mennska menn og lagzt með þeim sem nokkuð hefur verið af sagt um stund. Varúðarvert hefur það þótt að skorast undan fylgilagi við álfa, en þó öllu hættulegra að bregða heit sín við þá og skal hér nú enn getið nokkurra dæma.
Karítas Bjarnadóttir hét stúlka í Búðardal fyrir vestan er síðar bjó þar og þótti sómakona. Hún gekk einu sinni út úr baðstofunni í annað hús til að sækja vaðmál. En þegar hún kom inn aftur var hún mjög trufluð, öll ötuð í blóði og hélt á blóðugum hníf í hendinni. Álfamaður hafði komið til hennar, gripið um hendina á henni og ætlað að nema hana burt með sér. En hún hafði brugðið hnífnum og skorið hann þvert yfir um hendina; við það sleppti hann henni. Eftir þetta voru hafðar sterkar gætur á stúlkunni til að verja hana fyrir hefnd huldumanns þessa. Þremur árum síðar var hún látin fara í sel og önnur stúlka með henni er aldrei mátti láta hana vera eina. Einu sinni yfirgaf stúlkan Karítas sofandi drukklanga stund og gekk eitthvað út úr selinu; á meðan kom álfkona að Karítas þar sem hún lá sofandi og sagði: „Nú skal ég launa þér fyrir hann son minn.“ Greip hún svo í síðuna á Karítas svo hún vaknaði og varð aldrei heil síðan.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 58.