Meystelpan á Kirkjubóli

Páll bóndi Sæmundarson bjó á Kirkjubóli á Bæjarnesi, faðir Árna fyrrum hreppstjóra í [Múlasveit.] Síðari kona Páls, móðir Árna, hét Málfríður Jónsdóttir. Hún var ein heima um engjaslátt að búverkum og hjá henni meystelpa lítil til vika, tökubarn. Eitt sinn var mærin úti við ein og kom eigi aftur til Málfríðar; tók hún að undrast um hana, gekk út að leita hennar á hól þann í túninu er Langhóll heitir. En klettagil mikið liggur upp frá túninu er Svartagil heitir. Sá Málfríður þá að mærin var komin upp í gilið og tekin að klifra upp í klettana. Flýtti Málfríður sér eftir henni og kallaði á hana. Sneri mærin við það aftur; leiddi Málfríður hana heim og spyr því hún færi svo afgeipa. Mærin segir að bláklædd kona segði sér að koma með sér er mjög hefði verið lík Málfríði, en hvyrfi sér er Málfríður kallaði.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bl. 46.

© Tim Stridmann