„Þegar ég var ungur,“ segir séra Jón, „og í vöggu dreymdi móður mína eina nótt að henni þótti kona koma og taka barnið úr vöggunni og hlaupa burt með það. Móðir mín elti hana og heimtaði barnið með byrstum orðum, sagðist aldrei hafa gert henni neitt og sagðist skyldi verða henni leistur í annan skó ef hún léti ei barnið laust. Loks lét konan barnið aftur í vögguna, þó nauðug, og sagði um leið: „Þú skalt þá hafa nokkuð samt.“ Strauk hún þá hendinni framan um móður mína. Daginn eftir fékk móðir mín kvöl fyrir bringspalirnar og blánaði öll framan og hafði þá meinsemd í mánuð.“1
1 Þó saga þessi hljóði ekki um tilraun til að skipta um börn, heldur barnsrán, set ég hana hér af því hér ræðir um vöggubarn sem álfkona virðist hafa viljað ná.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 45.