Skafti hét maður; hann var Sæmundsson; Guðríður hét móðir hans; þau bjuggu í Bóndhól á Mýrum er þessi saga gjörðist. Skafti var á unga aldri og var hann hafður til smala á sumrum og annars þegar veður var gott. Það var eitt vor er hann var 7–9 vetra að hann var látinn smala lambám er stíað var; er það vani í sveitum að fara snemma á stekkinn á morgnana til að mjólka ærnar og hleypa lömbunum úr stíunni. Skafti var árrisull mjög og fór á fætur á morgnana til þess, en fékk aftur hjá foreldrum sínum leyfi til að leggja sig fyrir er hann kom af stekknum meðan móðir hans var frammi við matseld. Einn morgun var það sem oftar að hann lagði sig fyrir í öllum fötum, en tók af sér skóna er hann kom af stekknum, en móðir hans var frammi við; þetta var milli miðs morguns og dagmála. Litlu síðar sá móðir hans að hann gekk fyrir búrdyrnar fram bæjargöngin; hugði hún að hann mundi ekki hafa getað sofnað og hefði farið eitthvað út. Hún veitti því svo ekki frekari eftirtekt. Þegar býsna tími var liðinn verður hún þess vör að hann gengur aftur inn í baðstofuna og þótti henni honum hafa dvalizt vonum lengur úti; gaf hún sig ekki að því fyrr en hún fer alfarið inn í baðstofuna og sefur Skafti þá og liggja skórnir hans eins og hún átti von á fyrir framan rúmstokkinn, en hann hafði lagt hægri hönd sína ofan á fötin, og var storkin blóðrák á skakk yfir alla efstu kögglana á höndinni. Hún gjörir sér ekkert far um það meira er hún sá að blóðið var storkið. Þegar hann vaknar spyr hún hann hvernig standi á blóðinu á hendinni á honum eða hvort hann hefði meitt sig. Hann kvað nei við því og sagðist ekkert vita til þess, en þá varð hann og þess var að höndin var öll blóðstorkin innan. En með því Skafti var snemma skynsamur piltur sagði hann er hann hafði setið þegjandi um stund: „Vera má að blóð þetta standi í einhverju sambandi við draum minn áðan.“ Segir hann þá frá því að sér hafi þótt heldur öldruð kona koma til sín í svefninum með skaut á höfði og biðja sig að ganga með sér. Hann kvaðst hafa gjört það og er þau voru komin skammt úr túni á Bóndhól hafi orðið fyrir þeim húsabær lítill er hann hefði ekki þekkt; þar hefði konan beðið hann að ganga inn því hún ætlaði að biðja hann að hjálpa dóttur sinni sem lægi í barnsnauð. Skafti gekk inn með henni og kom í baðstofu; þar var pallur í báðum endum og þrjú rúm á öðrum pallinum, en eitt á öðrum. Í því rúmi lá stúlka og hljóðaði við. Þegar þangað er komið segist pilturinn ekkert kunna til slíkra hluta því hann sé barn. Konan kvað hann mundi lítils við þurfa. Tekur hún svo hægri hönd Skafta og leggur hana á líf stúlkunnar. Greiðist svo skjótt hagur hennar að hún fæddi barnið þegar. Síðan fylgir hin aldraða kona Skafta út og þakkar honum hjálp sína með mörgum fögrum orðum, en kvaðst vera of fátæk til að launa honum hana sem vert væri. „En það læt ég um mælt,“ segir hún, „að þér skulu jafnan vel heppnast lækningar.“ Eftir það hvarf hún honum sjónum og bær hennar. Þóttust menn þá skilja hvernig blóðið var komið á hönd drengsins og að þetta hefði verið álfkona. Ummæli álfkonunnar þóttu rætast því jafnan var Skafti álitinn heppinn læknir þegar hann eltist og ekki var hans svo vitjað til nokkurrar sængurkonu að hann gæti ekki hjálpað. Skafti hafði fjóra um tvítugt er hann kom til Reykjavíkur og var hann þar síðan til dauðadags.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 20–21.