Vinnumaðurinn og sæfólkið

Einu sinni var ríkur bóndi á bæ. Voru þar húsakynni mikil og þrifleg og baðstofan öll þiljuð í hólf og gólf. En sá annmarki var á bæ hans að hver sem heima var á jólanóttina fannst dauður daginn eftir, og var því fremur illt fólkshald á bænum því enginn vildi vera heima þessa nótt, en þó hlaut einhver jafnan að gjöra það. Einu sinni sem oftar réð bóndi til sín nýjan smala því hann átti fjölda fjár og þurfti duglegan mann til að gegna því. Bóndi sagði manninum frómlega frá annmarka þeim sem var á bæ hans og fyrr er getið. En maðurinn lézt ekki hirða um slíkar bábiljur og væri hann allt eins fús á að fara til hans fyrir það. Fer nú maðurinn til bóndans og líkar hvorum þeirra mjög vel við annan.

Líður svo fram til jóla um veturinn. Býst þá bóndi og allt fólk hans til aftansöngs á aðfangadaginn nema smalinn; hann bjó sig ekki til kirkjuferðar. Bóndi spyr því hann fari ekki að búa sig. Vinnumaður segist ætla að vera heima því það sé ófært að yfirgefa bæinn mannlausan og láta skepnurnar standa svo lengi málþola. Bóndi bað hann að skeyta ekki svo um það, segist hafa sagt honum að engum manni böðvaðist þar heima að vera á jólanóttina því hvert kvikindi sem þá sé inni í bænum sé drepið, og vilji hann fyrir engan mun eiga það á hættu. Smalinn lét sem þetta mundi vera hégilja ein og sagðist vilja reyna. Þegar bóndi gat engu við hann ráðið um þetta fór hann burtu með fólkinu, en vinnumaðurinn varð einn eftir heima. Þegar smalinn var nú einn orðinn um kvöldið fór hann að hugsa um áform sitt með sjálfum sér og að ekki mundi hér allt með feldi svo að víst myndi sér betra að vera við öllu búinn. Kveikir hann nú ljós í baðstofunni svo þar er vel bjart. Að því búnu fer hann að leita sér að stað að vera á. Losar hann þá þiljur tvær við gaflhlað baðstofunnar, smýgur þar inn fyrir og lætur svo þiljurnar aftur á sinn stað svo ekki bar á nývirkinu. Stóð hann þarna á milli þils og veggjar, en um rifu á þilinu gat hann séð fram um alla baðstofuna. En hundur hans lá undir einu rúminu í baðstofunni.

Nokkru eftir að vinnumaðurinn var búinn að koma sér fyrir sér hann að tveir menn ókunnugir og heldur ófrýnilegir komu inn í baðstofuna. Skimuðu þeir um allt. Þá segir annar: „Mannaþefur, mannaþefur.“ Hinn svarar: „Nei, hér er enginn maður.“ Taka þeir þá ljós og lýsa alls staðar hátt og lágt um baðstofuna og finna loksins hundinn undir rúminu. Taka þeir hann, snúa hann úr hálsliðunum og snara honum svo fram úr baðstofunni. Sér vinnumaður að ekki mundi sér hafa tjáð að vera á færi þessara karla og hrósaði nú happi með sjálfum sér að vera þar sem hann var.

Eftir þetta fylltist nú baðstofan með fólk. Setti það upp borð og breiddi á dúka. Allan borðbúnað hafði það úr silfri, diska, spæni og hnífa. Síðan bar það mat á borð og settist þar að. Hafði fólk þetta glaum mikinn og gleði og var þarna að eta, drekka og dansa alla nóttina. En tveir voru settir til þess að vera á verði og áttu þeir að hafa gát á og segja til ef nokkur maður væri á ferð úti og hvenær dagur rynni upp. Fóru þeir út þrisvar um nóttina og sögðust aldrei sjá neinn á ferð og ekki væri enn kominn dagur. En þegar vinnumaðurinn hélt að komið væri í dögun eftir tímalengdinni greip hann báðar lausu þiljurnar, stökk fram á gólfið með allramesta æði, skelldi saman þiljunum og öskraði upp af öllum mætti: „Dagur, dagur.“ Varð þá ókunnuga fólkinu svo bilt við að það ruddist út hvað um annað þvert og skildi allt sitt dót eftir, borðin, borðbúnaðinn og fötin sem það hafði farið úr um nóttina til að vera léttara á sér við dansinn. Meiddist sumt fólkið, en sumt tróðst undir; en vinnumaðurinn elti það og var alltaf að skella saman þiljunum og orga: „Dagur, dagur,“ þangað til það kom að vatni einu skammt frá bænum; þar steypti það sér allt saman í og sá hann þá að þetta var sæfólk eða vatnabúar.

Eftir það sneri vinnumaðurinn heim, dró út þá dauðu og drap þá hálfdauðu og brenndi síðan líkin. Ræsti hann síðan til í bænum, tók allan borðbúnaðinn, fötin og gripina og geymdi. Sýndi hann bónda allt þetta þegar hann kom heim og sagði honum upp alla sögu hvernig farið hafði. Þótti bónda hann hafa mikill lánsmaður verið að svo fór sem fór. Tók vinnumaður helming af öllu sem sæfólkið hafði skilið eftir, en fékk bónda hinn helminginn, og var það mikið fé. Dvaldi vinnumaðurinn enn nokkur ár hjá bónda og græddi á tá og fingri og varð mesti maður, en aldrei bar á neinum kynjum framar á jólanóttina á bæ þessum.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 112–114.

© Tim Stridmann