Tólf skólapiltar á Hólum

Einu sinni vóru tólf skólapiltar að Hólum. Bundu þeir fasta vináttu og gengu í félag með lærdóm og annað. Margs konar vísindabækur vóru að Hólum, þar með galdrabækur, og lærðu þessir nokkuð af þeim bókum. Þegar þeir piltar höfðu lokið við lærdóm gjörðu þeir félag að enginn skyldi giftast nema með ráði allra þeirra og skyldi hvur sitja í annars boði. Fer nú hvur til sinna.

Einn þessara sveina var son gamals prests og var bráðum vígður til aðstoðar föður sínum. En þegar hann reið frá vígslu gistir hann að prests nokkurs er átti dóttir fríða og að öllum íþróttum fremri flestum meyjum. Hann biður þessarar og fær hennar. Skyldi boð vera hið næsta haust að hans heima. Talar þá hinn ungi prestur við kærustu sína að senda vilji til félagsbræðra sinna, og aftelur hún þann óþarfa. Lætur prestur hana ráða og giftast þau. Frétta nú lagsmenn hans þetta og þykir hann orðið hafa heitrofi. Hittast þeir nú og ráðslaga hvurt hefna skuli. Kemur það ásamt með þeim að senda presti og skuli hann ekki oftar gabba þá með slíkum ótrúskap. Magna þeir nú allir sama draug og skal hann vinna á presti og konu hans. Eitt kvöld vill prestur ekki ganga til hvílu sem aðrir. Spyr kona hans hvað því valdi. Er hann tregur að segja, en lætur hana merkja á sér hann voni gesta. Hún svarar: „Farðu að hátta, heillin mín. Þeir einir munu koma að ég er fær móti að taka.“ Fer nú prestur til rúms og sofnar skjótt. Sezt konan á stokk hjá honum og prjónar. Um miðnætti kemur draugsi og skyggnist um. Segir þá konan: „Hvaðan ert þú og hvurt er erindi þitt?“ Nefnir hann þá húsbændur sína og segir erindi; kveð[st] eiga að vinna á presti. Segir þá konan: „Þú verður áður að skemmta mér nokkuð. Láttu mig nú sjá hvað þú getur orðið stór.“ Fyllir þá draugsi út í heilt stafgólf og hlær hún að og biður verða sem minnstan. Verður skratti þá sem nýgotinn hvelpur. „Þú er[t] ónýtur,“ mælti konan. „Getur þú orðið so lítill að þú komist ofan í nálahúsið mitt?“ Draugurinn svarar: „Það get ég;“ og gjörir hann nú so. Lætur þá konan aftur og vefur belg um nálhúsið. Æpir þá draugsi og biður hana gefa sig lausan. Hún svarar: „Þarna skaltu sitja, bölvaður, so lengi sem ég vil.“ Ekki vaknar prestur við þetta. Fer konan að hátta og sefur af þá nótt. Um morguninn eftir spur prestur hvurt enginn hafi komið, og lætur hún fátt yfir. Líður nú veturinn og villir hún so lærdómana fyrir lagsmönnum bónda síns að ekki vita þeir neitt um sendingu sína og ekki um prest. Um vorið koma þeir allir saman og ræðst það með þeim að heim skuli sækja skólabróðir sinn og grennslast eftir um hans hagi; fara þar til þeir finna hann og er þá búin veizla móti þeim. Er prestur og kona hans hin kátustu. Á borðinu lætur prestkona liggja bók eina sem hún erfði eftir föður sinn. Var hún rituð margslags rúnum og lögðu þeir fölur á, en hún svarar: „Þennan dýrgrip læt ég ekki af hendi og sízt til slíkra varmenna sem þið eruð. En það ráðlegg ég ykkur að hafa engar glettingar við mann minn. Þó er [ég] ekki hrædd við yður og get ég ein mætt yður öllum.“ Sáu þeir nú vanmátt sinn og beiddu þau hjón fyrirgefa sér heimsku og hrekki; sættust nú að fullu og héldu þá sætt síðan.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1955), Jón Árnason, III. bindi, bls. 390–391.

© Tim Stridmann