Margar sögur eru af þeim sem ekki hafa getað skilizt við auðlegð sína ofanjarðar og vitja hennar því eftir dauðann. Allar slíkar afturgöngur heita fépúkar eða maurapúkar þó nú séu einkum nízkir menn nefndir svo er ekki tíma af neinu að sjá, en nurla fé saman með öllu móti. Þess konar afturgöngur eru á ferð á hverri nóttu; telja þeir þá peninga sína og leika sér að þeim á ýmsan veg því áður en þeir dóu hafa þeir komið fé sínu fyrir þar sem þeir geti vitjað þess aftur í næði eftir dauðann, og sannast því á þeim að „þar er allur sem unir“. En það liggur þeim lífið á að vera búnir að ganga frá skildingum sínum og vera komnir í gröf sína áður dagur ljómar; því þeir mega ekki sjá dagsljós heldur en álfar er þeir hafa gleði eða dansa á hátíðanóttum eða nátttröll á næturgöngu, og vilja þeir því allt til vinna og jafnvel láta af hendi peningana sjálfa að komast í holu sína áður en dagar.1
Svo bar við á ríkisbæ einum að bóndi dó, en um sama leyti og hann andaðist hvurfu allir peningar hans og fjármunir hinir beztu; var það bæði borðbúnaður úr silfri og margt annað dýrmætt. Enginn mátti og sofa í rúmi hans því þeir sem höfðu þar sofið í eftir dauða hans fundust dauðir um morguninn.
Einu sinni kom þangað maður og beiddi um að lofa sér að vera. Konan kvaðst ekki geta það og sagði honum hvernig á stóð með rúmið, en kvaðst ei hafa annað er hún gæti boðið honum að sofa í. Maðurinn sagðist ekki mundi verða hræddur við þetta og beiddi um að mega sofa í rúminu og fékk hann það að síðustu. Um kveldið fer maður þessi út í kirkjugarð og grefur þar upp mold og veltir sér í henni svo að hann er almoldugur; fer síðan inn og leggst niður í rúmið. Um miðja nótt er lokið upp hurðinni og gægzt inn; er þá sagt: „Hér er hreint og gott.“ Þóttist maðurinn vita að þetta mundi vera bóndi afturgenginn. Fer draugur nú inn í herbergið og rífur upp tvær fjalir úr gólfinu og tekur þar upp talsvert af peningum og grýtir þeim öllum aftur fyrir sig; gengur þetta svona langt fram á nótt. Þegar fer að líða á nóttina og komið er undir dag stekkur maðurinn upp úr rúminu og niður í kirkjugarð; hann sér þar opna gröf og stekkur hann þar ofan í. Eftir litla stund kemur draugur og biður manninn að standa upp úr gröfinni. En hann kvaðst ei mundi gjöra það nema hann sýndi sér hvar hann geymdi dýrgripi þá er hvorfið hefðu við dauða hans. Sagðist bóndi það eigi gjöra, en lét þó til leiðast um síðir þar hann fékk ei með öðrum kostum að komast í gröfina. Gengur hann síðan með manninum út að túngarði og rífur þar upp torfu; verður þar fyrir honum hlemmur; hann tekur hann upp og gengur ofan í jarðhús sem þar var undir. Sýndi draugur manninum þar alla dýrgripina og vildi nú fá að komast í gröfina. En maðurinn neitar því fastlega nema að hann lofi sér því að stíga aldrei framar upp úr gröf sinni. Lofar bóndi því og fara svo báðir að gröfinni. Draugur leggst niður, en maðurinn býr um sem honum þykir haganlegast. Fer hann síðan heim, leggst niður í rúm sitt; en um morguninn komu menn til hans og furðar alla á að hann skyldi lifandi vera. Segir hann þá til fjárins og hvernig hann hafi fundið og fær hann helming fjárins.
1 Þess hef ég aldrei heyrt getið að fépúkar eigi að verða að steini þó dagur skíni á þá; því þeir láta heldur allt liggja óhirt en að svo fari.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 254–255.