Einu sinni kom kaupamaður sunnlenzkur að Barði í Fljótum. Kom hann þar seint um kvöldtíma og var vísað til að hátta í skála þar frammi. Sváfu vinnumenn líka í skálanum. Kaupamaðurinn var ráðinn að Barði til sumarvinnu. „Hvað heitir prestskonan hérna?“ spyr hann um kvöldið. „Hún heitir Gátt,“ segja vinnumennirnir. Um morguninn kemur prestskonan inn í skálann. „Sælar verið þér, Gátt góð,“ segir kaupamaðurinn. Vinnumennirnir fóru að hlæja, en hún segir: „Guð blessi þig, en ég heiti ekki Gátt.“ „Kannske þið fáið aðra Gátt að hlæja að að ári,“ segir kaupamaðurinn við vinnumennina. Nú líða tímar til næsta vors, þá er það eina nótt um það bil kaupamenn komu, að draugstelpa kemur í skálann á Barði og drepur þar tvo vinnumennina. Stelpa þessi gekk svo bersýnilega að hana sáu skyggnir sem óskyggnir og var hún kölluð Barðsgátt. Loks kom kunnáttumaður henni fyrir í mannslegg og gróf í Barðskirkjugarði.
Liðu nú langir tímar og var saga þessi að mestu fallin í gleymsku og í öllu falli ætluðu menn Barðsgátt útdauða. Þá er það eitt sinn í [tíð] síra Sigurðar,1 um eða litlu eftir 1760, að verið er að grafa í Barðsgarði. Meðal annara beina sem upp koma er mannsleggur með tappa í. Kippir einn maðurinn tappanum úr og kemur þar út gufa sem svo hverfur. Eftir þetta fór að verða vart um Barðsgátt; drap hún skepnur séra Sigurðar og sókti á þá sem í skálanum sváfu, einkum í vinnumannarúminu gamla. Tekur þá séra Guðmundur kapelan föður síns sig til og háttar í rúminu og hefir hjá sér rauðskeftan hníf. Nú líður fram um miðnætti. Finnur hann þá að þrifið er til rúmfatanna; rekur hann þá frá sér hnífinn og finnst hann koma í eitthvað, og tekur það svo hart viðbragð að hann missir hnífinn. Morguninn eftir er leitað að hnífnum og finnst hann hvergi. En nokkrum dögum seinna fannst hann út og upp á Gerði. Stóð hann þá fastur í mannsherðarblaði. Síðan hefir ekki orðið vart við Barðsgátt.
1 Sigurður Einarsson (1688-1771) var prestur á Barði frá 1725 til dauðadags.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.
Текст с сайта is.wikisource.org