Um upptök Eiríks er mér að mestu ókunnugt, en að því sem ég hef heyrt sagt frá afreksverkum hans fylgir hann hvorki einstakri ætt né bæ, heldur heilu byggðarlagi, Fljótunum í Skagafirði sumsé. Eiríkur á að hafa verið norskur að ætt og uppruna og sögumaður minn hélt að hann hefði komið út hingað á Eyjafirði, en ekki vissi hann hvort heldur það var á Gásum eða Eyrinni; það stendur og á engu. Hvað sem um þenna Eirík er að öðru leyti lítur svo út sem hann hafi dáið þar nyrðra, en Eyfirðingar hafi vakið hann upp og sent hann Fljótamönnum. En af því hann er að engum óspektum kunnur öðrum en þeim að hann þykir fylgja Fljótamönnum og verða vart við hann undan þeim hvort heldur þeir fara fram í Skagafjörð eða annað er hann kallaður Eiríkur góði. Tíðum hafa menn séð hann; er hann á svartri kápu og ríður jafnan brúnum hesti og hefur mórauðan hund með sér. Jafnt ríður hann lög sem láð og niður af hæstu hamrabjörgum fer hann jafnliðugt sem um Hólminn í Skagafirði. En áður en hann ríður lög eða hleypir af björgum fram leggur hann Brún sinn niður og skyrpir í hófana.
Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 386–387.