Galtardalstófa

Öðru sinni var það að Guðrún sagði að einhver mundi koma og tryði hún því þó það yrði einhver frá Galtardal vestan af Fellsströnd. Móðir Jóns Norðmanns spurði hvað hún sæi nú. Guðrún sagði það væri mórauð tófa. Á þessari tófu stóð svo að maður nokkur vildi eiga Margrétu Bogadóttur sem Jón prestur Þorláksson átti þar á eftir, en skildi við þegar hann fluttist norður, og fékk maðurinn hennar ekki. Sagðist hann þá skyldi sjá svo um að hún hefði ekki mikla ánægju af hjónabandinu enda urðu samfarir hennar og Jóns Þorlákssonar hvorki góðar né langar.1 Kenndu menn það sendingu frá manni þessum sem síðan fylgdi Margrétu, en það var tófa mórauð sem menn ætluðu hann hefði sent henni er átti að spilla lund hennar og var hún kölluð „Galtardalstófa“. Þegar hinn kvenmaðurinn heyrði þetta hljóp hún til prestsins (séra Jóns Þorlákssonar) og sagði honum frá. „Kannske það sé tófan hennar Margrétar Bogadóttur,“ sagði séra Jón og að sér væri mjög illa við þá ólukkans tófu. Um nóttina eða daginn eftir kom maður að vestan og færði séra Jóni fiskahest frá Margrétu konu hans.


1 Sbr. Ljóðabók Jóns Þorlákssonar II, Khöfn 1843, XXVIII. og XXX. bls.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (1954), Jón Árnason, I. bindi, bls. 345.

© Tim Stridmann