„Gárún, Gárún, grátt er mér um hnakka“

Einu sinni bjuggu hjón á bæ nokkurum og er hvorki getið um heiti þeirra né bæjarins. Þau héldu tvö hjú, vinnumann og vinnukonu; hét hann Sigurður, en hún Guðrún. Sigurður hafði lagzt á hugi við Guðrúnu og beðið hennar, en hún vildi með engu móti þýðast hann. Einn vetur fóru þau bæði til kirkju jólaaftan og höfðu einn hest til reiðar er húsbóndi þeirra léði þeim, og riðu þau stundum tvímenning. Og sem þau riðu þannig tók Sigurður til orða og mælti til Guðrúnar: „Hvort munum við ríða svona saman annan jólaaftan?“ Hún sagði að það myndi eigi verða. Þau þráttuðu síðan nokkuð um þetta þangað til hann mælti: „Við skulum ríða saman jólaaftan að vetri, hvort sem þú vilt eða ekki.“ Eftir það felldu þau talið og er eigi getið að fleira yrði til tíðinda í ferð þeirra.

Þenna vetur hinn sama á útmánuðum tekur Sigurður sótt þá er hann leiddi til bana, og var hann færður til kirkju og greftaður. Nú líða þau misseri fram til jóla veturinn eftir. Og er kemur jólaaftann búast þau hjónin til kirkju og bjóða Guðrúnu að fara líka, en hún vill það ekki og sagðist mundi heima vera, og svo varð. Nú sem þau eru farin þá sópar hún bæinn og kemur öllu fyrir sem henni þótti bezt fara; því næst kveikir hún á kerti, tekur síðan kvenhempu og leggur yfir herðar sér, en fer ekki í ermarnar; að því búnu sezt hún niður og fer að lesa í bók. Þegar hún hefir lesið litla stund þá heyrir hún að það er barið að dyrum. Hún tekur ljósið í hönd sér og gengur til dyra; hún sér einhvern dólg standa úti í mannslíki og hest með reiðtygjum, og þekkir hún, að það er reiðhestur prestsins. Komumaður kastar á hana orðum og segir að nú skuli hún koma og ríða með sér. Hún þykist kenna að þar sé kominn Sigurður kunningi hennar. Hún setur nú frá sér ljósið og gengur út. Hann spyr hvort hún vili að hann láti hana á bak; hún segist eigi þurfa hans hjálp til þess og fer sjálf á bak hestinum, en hann er þegar kominn upp fyrir framan hana. Stefna þau nú á leið til kirkjunnar og hefir hvorigt orð við annað; en er þau hafa riðið um hríð þá tók hann til orða og mælti: „Gárún, Gárún, grátt er mér um hnakka.“ Hún svarar: „Þegiðu smánin þín og haltu áfram.“ Eigi er þess getið að þau mæltist fleira við unz þau koma til kirkjunnar. Hann nemur staðar einhvers staðar við kirkjugarðinn og fara bæði af baki. Þá mælti hann:

„Bíddu, bíddu, Gárún, Gárún,
meðan eg flyt hann Faxa, Faxa
austur fyrir garða, garða.“

Því næst hverfur hann með hestinn, en hún fleygir sér inn yfir kirkjugarðinn og að kirkjudyrunum, en í því hún vildi inn í kirkjuna þá er þrifið aftan í hana og í hempuna, en hempan var laus á herðum henni og hafði sá hempuna er í kippti, en Guðrún slapp inn í kirkjuna og féll þegar áfram á kirkjugólfið og seig að henni ómegin. Þetta var í það mund er messa stóð sem hæst. Nú þusti fólk að og fór að stumra yfir Guðrúnu; var hún borin inn í bæ og dreypt á hana; raknaði hún þá við um síðir og sagði allt sem farið hafði um þangaðkomu sína. Var þá farið til hesthúss að vitja um hest prestsins; fannst hann þar dauður og brotið í honum hvert bein, en hrygglengjan rist í burt. Fyrir kirkjudyrum fundu menn leifar af hempunni; var hún öll tætt í sundur og lágu slitrin víðs vegar. Síðan var gert að leiði Sigurðar svo hann lá kyrr eftir það.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann