Hvernig vekja skal upp

Sá sem upp ætlaði að vekja þurfti fyrst að vera búinn að nema alla líksæringaformála og geta fengið andaða til að mæla. Gengu þá þeir er upp ætluðu að vekja út í kirkjugarð og gengu að hverju leiði spyrjandi hver þar hvíldi. Hinir látnu svöruðu hverri spurningu, en sjaldan völdu þeir, sem ætluðu að vekja upp, aðra en lítilmagna til uppvakningar.

Uppvekjendur höfðu oft yfir sér hvíta rekkjuvoð eða línklæði og er þeir fundu einhvern þann er þeim líkaði kvöddu þeir hann úr gröfinni með töfraorðum (ég veit ei hver þau voru); síðan sleikti uppvekjandi vit og náfroðu vofunnar og renndi henni niður, réðst síðan á vofuna og ef hún varð undir í viðskiptum þeirra þröngvaði hann henni til að verða skuldbundinn þjónn sinn til forsendinga og fjörráða því nú varð vofan reglulegur draugur. Hinn uppvakti hafði helmings meiri krafta en hann hafði í lífinu og því völdu uppvekjendur helzt þá er verið höfðu vesalmenni, til þjónustu sinnar.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann