Legsteinninn yfir Kjartani Ólafssyni

Kjartan Ólafsson er grafinn á Borg á Mýrum. Leiði hans er fyrir þverum kórgafli og snýr í norður og suður. Það er fullra fjögra álna langt. Á leiðinu liggur rúnasteinn mikill. Það er baulusteinn digur og lítið styttri en leiðið. Rúnirnar á honum eru lítt læsilegar og sumar með öllu ólæsilegar. Það sem lesið hefur verið er svona: „Hér hvílir halr Kjartan Ólafsson.“ Steinninn er brotinn í sundur í marga búta og segja menn að bóndi einn á Borg hafi gjört það.

Svo stóð á að bóndi ætlaði að setja niður smiðju sína fyrir sláttinn eitt sumar. Vantaði hann þá laglega steina í aflinn. Hann tók þá stein Kjartans og braut hann í sundur og hlóð aflinn úr brotunum. Um kvöldið gekk bóndi til hvílu. Hann svaf einn í dyralofti, en vinnumaður hans svaf í skála eða baðstofu. Um nóttina dreymdi vinnumanninn að maður kom að honum, mikill vexti og þreklegur. Hann segir: „Bóndi þarf að finna þig á morgun þegar þú kemur á fætur.“ Vinnumaður vaknaði um morguninn og mundi draum sinn, en gaf ekki gaum að honum. Leið svo fram undir dagmál. Fór honum þá að lengja eftir bónda og fer til hans. Liggur þá bóndi í rúmi sínu. Vinnumaður spyr hvort hann vaki. Bóndi segir að svo sé. „En heyrðu,“ segir hann, „mig dreymdi í nótt að það kom hingað maður upp á loftið. Hann var mikill vexti og þreklegur, vel limaður og að öllu hinn ásjálegasti. Hann var í dökkum klæðum, en ei gat ég séð í andlit honum. Mér þótti hann segja við mig: „Illa gjörðir þú er þú tókst steininn minn í gær og brauzt hann í sundur. Hann var sú eina minning sem hélt nafni mínu á lofti og þessarar minningar gaztu ekki unnt mér og skal þess grimmlega hefnt. Láttu nú þegar brotin út á leiði mitt á morgun í þeirri röð sem áður voru þau. En fyrir það að þú brauzt stein minn skaltu aldrei framar heilum fæti á jörðu stíga.“ Um leið og hann mælti þetta snart hann klæði á mér, og þá vaknaði ég og þoldi ei við fyrir verkjum, en ég þóttist sjá svip mannsins er hann fór ofan af loftinu.“ „Ætla ég,“ segir bóndi, „að þetta hafi verið Kjartan og skaltu nú taka stein hans og leggja brotin á leiðið eins og áður voru þau.“ Vinnumaður gjörði það. Sagan segir að bóndi hafi aldrei orðið heill heilsu og jafnan lifað við örkuml.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org

© Tim Stridmann