Missögn um mannshnútuna

Tveir menn voru ósáttir og höfðu í frammi heitingar hvor við annan. Eitt sinn gekk annar frá fjárhúsum heimleiðis til bæjar á rökkurtíma. Á leiðinni sér hann hvar maður gengur móti honum og nemur sá staðar er þeir eiga skammt saman og stendur þar hreyfingarlaus. Heimamaður gengur að honum og spyr hann að nafni; hinn þegir. Maðurinn spyr í annað sinn; hinn þegir. Nú þykir heimamanni þetta kynlegt og steingjörvingur þessi ískyggilegur undir brún að líta. Dettur honum í hug að þetta muni vera sending frá óvini sínum og vill ekki bíða átekta, þrífur hníf úr vasa sínum og leggur til draugsins, skilur hnífinn þar eftir í beninni og hleypur heim sem fætur toguðu.

Hann varð nú hræddur um að þetta hefði maður verið, en enginn draugur og tók hugsýki mikla af iðrun eftir víg þetta og lá lengi vetrar. Á vellinum þar sem þeir höfðu mætzt sáust engin vegsummerki og ekkert lík.

Um vorið þegar unnið var á túni fannst mannshnúta í einu hlassinu einmitt þar sem þeir höfðu mætzt, og hnífur bónda hjá. Skildi nú bóndi hversu vera mundi; að hann hefði ekki víg unnið, en aðeins varið líf sitt fyrir uppvakningi, og reis úr rekkju.

Komst það nú fyrir að óvinur hans hafði tekið hnútu úr kirkjugarði og vafið ullu utan um, spýtt síðan í og lesið yfir þessu særingarþulur sínar og galdra.

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Текст с сайта Netútgáfan

© Tim Stridmann